5%

Ég veit að það eru alls konar reglur og þröskuldar sem fólk þarf að yfirstíga. Kannski væri líka leiðinlegt að vera eins manns þingflokkur eins og væri veruleiki framboðs sem fengi 1,6% atkvæða ef ekki væri þröskuldur einhverra prósentustiga.

En sérstaklega hlýtur að vera undarlegur morgunn framboðs sem er með engan mann inni klukkan hálfsjö en klukkustund síðar með þrjá þingmenn.


Vonbrigði með Undantekninguna

Mér fannst Rigning í nóvember frábær bók, dálítið draumkennd og fljótandi, ekki endilega sannfærandi söguþráður en falleg mynd og spennandi. Undantekningin er dálítið of lík, söguþráðurinn vissulega annar en aðalpersónan kona sem kemst óvænt í álnir eftir að líf hennar tekur kollsteypu, og dularfullir aðdáendur á hliðarlínunni. Fegurð hennar er svo ómæld að allir súpa hveljur áður en þeir neyðast til að hafa orð á því.

Svo er hún hvergi nærri nógu vel yfirlesin. Óbeinar spurningar enda iðulega á spurningarmerki og á blaðsíðu 137 er talað um akgrein. Ég veit að það er meinlaust ef sagan rís undir sér en þegar mér finnst hún ekki gera það vil ég að lágmarki hafa fráganginn óaðfinnanlegan.


Stormur í lattebolla?

Kannski er ég bara meðvirk en mér finnst ekki skrýtið að veitingastaður vilji selja vöruna sem hann hefur á boðstólum. Nú er ég bara búin að heyra þytinn af ágreiningi AA-mannsins Bubba við Kaffi París, er ekki í samtökunum, er ekki á fundunum, kaupi hvorki kaffi á þeim né kaupi það ekki og þekki ekki mér vitanlega neinn sem hefur verið á AA-fundi á kaffihúsinu. Þess vegna hugsa ég hér bara upphátt og almennt að staður sem rekur sig á því að selja vörur og þjónustu vill eðlilega ekki að hópur manns leggi undir sig staðinn.

Eftir að innviðum Kaffis Parísar var breytt um árið, allt opnað meira og gert háværara hefur mér hins vegar fundist það verri mótsstaður og sting aldrei upp á því sjálf. Það er þó allt önnur saga og ég er nógu meðvirk til að mæta þangað ef aðrir velja það. Það morar allt í kaffihúsum í bænum þannig að mínir lattelepjandi vinir mættu vanda valið betur ...

Æ, gleðilegt sumar.


Flugvöllurinn er í Reykjavíkurkjördæmi suður

Í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 var verið að ræða flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Þar gæti næstum því atkvæði mitt legið - ég vil endilega að hann fari - en svörin voru loðin og teygjanleg. Ég er engu nær en ég var.


Sjómannaafsláttur?

Í kosningaþætti Rásar 2 í Suðvesturkjördæmi var áðan spurt um sjómannaafslátt. Flestir frambjóðendur vilja hann ekki. Ég vil heldur ekki sjómannaafslátt (hvurs lags orðskrípi er þetta líka eiginlega?), ekki frekar en leiðsögumannaafslátt. Hins vegar er eðlilegt að launþegar - eins og sjómenn, vegagerðarmenn og leiðsögumenn - sem eru löngum stundum að heiman og hafa í raun ekki forræði yfir frítíma sínum fái dagpeninga.

Ekki satt?


Hvað þýðir nafnið?

Nú þegar Simmi og Jói eru að syngja lokalögin sín í laugardagsþætti Bylgjunnar get ég játað að ég hef oft hlustað á fyrsta dagskrárliðinn þeirra, „hringt í venjulega Íslendinga og þeir vaktir“. Stundum hefur það verið hálfmisheppnað, eins og fara gerir, en oft hafa þeir hitt á spakt fólk sem hefur komist á flug í beinni útsendingu.

Hlustendur hringja inn nöfn og í langan tíma hafa orðið fyrir valinu frekar óvenjuleg nöfn og Simmi og Jói því spurt út í þau. Til að hafa engan fyrir rangri sök verður víst að segja að oft hefur fólk þekkt uppruna nafnanna og einhverja sögu en líklega hef ég alltaf orðið jafn hissa þegar fólk hefur ekki vitað að það ætti engan nafna eða enga nöfnu og ekki þekkt upprunann. Ég veit upp á dag hvenær mitt nafn varð til og hvers vegna ég heiti því ...

Það er sem sagt ekki hluti af uppeldi hvers barns að ræða fram og til baka um tilurð nafnanna, aðra nafnbera og beygingu.

Í dag var ég svo í fjallgöngu með meðal annarra hollenskri stúlku sem var skírð gælunafni og hún dæsti ógurlega og sagðist ekki skilja í foreldrum sínum. Auðvitað spáir maður í þetta ...


Hver sigrar?

Ég fór á fyrirlestur í hádeginu þar sem fyrirlesari skoðaði fortíð, staldraði við nútíð og skyggndist lítillega inn í framtíðina. Kosningarnar um næstu helgi voru auðvitað málið, skoðanakannanir og úrslitin, hver sem þau verða.

Guðni Th. rifjaði upp atbeina forseta að stjórnarmyndunum fyrr og síðar. Það er ekki endilega „stærsti“ flokkurinn sem fær umboðið, ekki ef hann er minni en hann var eftir kosningarnar þar á undan, þannig að það er ekki einboðið að þingmannafjöldinn einn saman segi til um umboðið.

Og maður getur spurt: Hver er sigurvegarinn ef xB fær 17 þingmenn og xD 18? Er það hástökkvarinn eða fleytir atrennan formanninum í forsætisráðuneytið? Verður það kannski einhver kafteinn ef píratarnir fá 8,8% atkvæða?

Svo má líka spyrja hvort flokkarnir séu ekki hver um annan þveran búnir að setja „no no“ á allt samstarf vegna fyrirframkrafna. „Ég vil bara vinna með þeim sem vilja afnema verðtryggingu“ eða „alls ekki ESB“ eða „endilega ESB“ eða „gjörbreyta sköttum“ eða „hnika til sköttum“ eða „umfram allt göng“ eða „endilega Sundabraut“. Eitthvað er þetta fært í stílinn hjá mér.

Annars staðar á Norðurlöndunum ganga menn bundnir til kosninga og eru búnir að segja með hverjum þeir vilja vinna. Hér tala flestir um það með hverjum þeir ætla ALLS EKKI að vinna.

Verður stjórnarkreppa 28. apríl?


Tryggingagjald

Ég held að næstum allir flokkar ætli að lækka tryggingagjaldið af því að það kemur illa við lítil og meðalstór fyrirtæki. Nú ætla ég að fylgjast spennt með því sem gerist eftir 27. apríl.

Umræðan um verðtrygginguna hefur hjaðnað, er það ekki?

Og allir eru löngu hættir að tala um þungaskattinn.

En hvernig ætla menn að hlúa að ferðaþjónustunni?


10 dagar til stefnu

Sem kjósandi geri ég hóflegar kröfur. Ég vil vera sólarmegin í lífinu en samt halda jöklunum. Ég vil auka túrismann en nenni samt ekki að halda við stígum eða klósettum. Ég vil vera í kjörþyngd en samt borða ís og popp í kvöldmat. Ég vil geta lesið í myrkri en þó þannig að mér súrni aldrei fyrir augum. Ég vil að brúnt klæði mig þótt annað sé vísindalega sannað. Og ég vil borða bragðgóðan kjúkling sem aldrei hefur þjáðst.

En fyrst og fremst vil ég keppnislaug í bakgarðinn minn.

Ég get valið milli 13 framboðslista og enginn þeirra er sniðinn að mínum hógværu kröfum.


Kosningaloforð

Ég ætla að kjósa þann lista sem lofar löggildingu starfs leiðsögumanna ferðamanna. Til vara: þann flokk sem ætlar að auka veg ferðaþjónustunnar. Eða þá frambjóðendur sem vilja tryggja betri samgöngur út á land.

Ég geng samt óbundin að kjörkassanum.


Gefa, afskrifa, fella niður, fela, láta hverfa - barbabrella

Fjórtán listar bjóða fram,

fögru öllu lofa.

Vigta gjafir þeirra gramm,

gefa okkur kofa?

Þessi ferskeytla varð til á árshátíð í gær. Veislustjórarnir ortu fyrri partinn og hann er því miður ekki réttur í kveðunum. Seinni hlutinn er aldeilis frábær, en kannski of djúpur til að fólki skilji ... 


Hraðfréttir Gonzales

Ég er yfirleitt áhugasöm um nýjungar, mætti jafnvel kalla tilbreytingu. Í vinnu er ég spennt fyrir nýjungum nýjunganna vegna. Breyting, jafnvel þótt hún sé í einhverju tilliti óþörf, getur leitt til góðs, opnað nýjar brautir, bætt aðferðir og haft skemmtigildi. Ég læri eitthvað nýtt og það viðheldur ferskleikanum.

Mér fannst Hraðfréttir sjúklega fyndndar fyrstu tvö, þrjú skiptin og ágætar í nokkur skipti eftir það. Mér fannst ég svolítið þurfa að verja það af því að ég þekki marga sem fannst þær asnalegar. Nú horfi ég stundum og mér stekkur ekki bros. Brandarinn er búinn. Hugmyndin lifir ekki meira en fimm, sex skipti. Þessar snöggsoðnu ekkifréttir, lélegt grínið, yfirlætið - allt þetta á ekki erindi lengur.

Berglind hefur talað ...


Birgitte Nyborg

Ég missti af Höllinni á sunnudaginn og frétti að Birgitte hefði verið grilluð í beinni útsendingu í kappræðum. Nú sá ég endursýninguna og já, hún var sossum grilluð - en ef fréttamenn gæfu frambjóðendum svona mikinn tíma og svona mikla athygli myndu þeir almennt hlaupa meira og oftar á sig. Vandinn er að spyrlar eru á eilífum hlaupum frá dýptinni (ekki síst núna þegar framboð eru mjög mörg) og frambjóðendur eru sjaldan þýfgaðir um djúp svör við djúpum spurningum.

En Birgitte sem gaf frá sér orðið og athyglina, það dýrmætasta sem frambjóðendur hafa í kosningabaráttu, segir okkur auðvitað að hana vantaði þekkingu á efnahagsmálunum. Hún ætlaði að skauta í gegnum þáttinn á fyrirsögnum.

Er ekki ein Birgitte eða tvær í íslenskri pólitík?


,,Ég get ekki útilokað neitt í þessu efni"

- sagði hver, hvenær og af hvaða tilefni (í íslenskum stjórnmálum 11. apríl 2013)?

Kosningaþættirnir í útvarpinu

Gósentíð. Kosningabarátta 14 framboða er háð fyrir mig. Ég er kjósandi í Reykjavíkurkjördæmi norður en nú sit ég spennt við útvarpið (og vefinn: http://www.ruv.is/beint) og fylgist með oddvitum í Norðvesturkjördæmi. Mér finnst aðdáunarvert hvað frambjóðendur eru flinkir að svara fyrir sig, jafnt nýir sem notaðir. Línur eru lagðar, stefnu er fylgt úr hlaði, spyrlar halda utan um spurningar og svör og ég mala í sófanum.

Næstum allir sem ég þekki þykjast ósammála mér en samt þekki ég urmul sem er í framboði. Er fólk ekki bara að skrökva upp á sig áhugaleysi? Er þetta ekki aðaláhugamál allra sem lifa í samfélagi?

Ég vil persónukjör!


Útilaug í hverfið mitt

Í aðdraganda kosninga lofa menn ýmsu, þar á meðal (hjóla)bót og betrun. Ég er hógvær, bið bara um útilaug við Snorrabraut og kannski að flugvöllurinn fari. Já, ég veit að þetta er nærumhverfi og heyrir þar af leiðandi undir sveitarstjórn en eiga þingmenn ekki líka að sinna þeim?

En ég kröfu um að staðið verði við loforðin.


Hjólabót

Og það sprakk. Þegar maður ferðast mikið á hjóli eyðast dekkin. Spaklega mælt, Berglind. Og nú þarf ég að kenna mér að bæta því að ég nenni ekki að leiða hjólið bæjarhlutanna á milli til að einhver annar bæti það fyrir mig. Nema náttúrlega ... ... ég kaupi mér nýtt. Kannski rafhjól. Og hjólaskúr með rafmagni. Og svo náttúrlega ... mætti borgarstjórinn sópa aðeins oftar.

Ég vona að vælubíllinn fyrirgefi þetta útkall. #dæs


Spurt var í útvarpinu: Hvað segið þið, eigum við að viðurkenna sögnina að ,,læka" sem fullgild íslensk orð? Hafið þið aðrar hugmyndir?

Ég gat ekki stillt mig um að senda stutt Facebook-svar til Bítisins áðan: 

Það er ugglaust til betri sögn en að „læka“ en það sem hún hefur umfram sögnina að „líka við“ er að hún er persónuleg (ég læka, þú lækar, við lækum - breytist eftir persónunni) en „líka við“ er ópersónuleg (mér/þér/honum/ykkur líkar við - breytist ekki). Og þótt við spyrnum betur við fótum en Danir tölum við samt um að dissa, bögga, gúgla, fíla og djamma (en með íslenskum rithætti). Svo fara menn á pöbbinn og ef mér skjöplast ekki því meir var biskup upprunalega „tökuorð“. Sem betur fer er tungumálið kvikt. Er þetta ekki þráður þótt enginn sé hnykillinn?

Ég held að „rétt“ og „rangt“ séu ofmetin hugtök í tungumáli. Við ættum að spyrja okkur: Hvað er lipurt, hvað lagar sig að málkerfinu, hvað mun fólk nota? Ef orð beygjast, hægt er að skrifa þau og þau skiljast má nota þau. Samt hef ég sjálf aldrei getað vanist því að tala í gemsa ...


Ó, persónukjör

Ég hlustaði á forsvarsmenn framboða í sjónvarpinu í gær, fannst enginn standa sig illa þótt ég hafi vissulega lagt eyrun meira eftir sumum en öðrum. Ég er svo spéhrædd að ég segi ekki opinberlega hvað hugnast mér best en mikið fann ég hvað ég vildi geta kosið þvert á flokka.

Ég vildi hafa einhverja tegund af persónukjöri.

Hvað skiptir mestu máli? Efnahagslíf, atvinnulíf, velferðarkerfið, lýðræði og fleira, í mismunandi röð eftir einstaklingum og tímabilum. En þegar maður horfir til baka sér maður að sumir hafa betur risið undir trausti manns en aðrir. Þannig held ég að margir muni óhjákvæmilega kjósa eftir þeim einstaklingum sem skipa efstu sæti einstakra lista. Ég heyri menn kveina undan því að þingmenn séu 63, séu of margir. Ég held að það sé ekki endilega tilfellið, ef menn sinna vinnunni vel eru þeir á þönum alla daga, þetta er ekki einfalt starf. Efnahagsmál og umhverfismál eru flókin, samspilið vandasamt, framtíðin óráðin og andstæðingarnir þverir. Fyrir hvern sem er.

Það er mörg skýrslan og margt álitaefnið. Forgangsröðunin er pottþétt röng - en hver ber ábyrgð á því? Stjórn eða stjórnarandstaða á hverjum tíma?

Ég vildi að ég mætti velja 63 einstaklinga sem slíka.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband