Njósnarinn Björgólfur

Ég á eftir að horfa aftur á Kveik kvöldsins, þetta var svo yfirgengilegt að ég missti yfirsýnina. En núna í fyrsta skipti í drjúgan tíma get ég hrósað RÚV sem mér finnst lengi, lengi, lengi hafa endurtekið einhverja froðu og sápukúlur. 

Á eftir Kveik kom hins vegar aftur eitthvert lap sem var óáhugavert og/eða endursýnt.

Áfram Helgi Seljan og Ingólfur Bjarni!


Spónn í aski

Þegar menn hafa miklu að tapa leggja þeir mikið undir til að halda fengnum hlut. Þannig líður mér gagnvart hinum yfirþyrmandi auglýsingum SFS sem ég heyri engan hrósa. Ég bý ekki í sama bergmálshelli og framkvæmdastjóri SFS.

Ég undra mig á þessu fólki sem hefur fengist til að leika í þessum ósmekklegu auglýsingum.

Ég undra mig á þeim peningum sem útgerðin hefur augljóslega aflögu til að reka áróðursherferð sem gerir lítið úr henni sjálfri og misbýður vitsmunum allra í mínum bergmálshelli. Stórútgerðirnar hafa fjárfest í óskyldum rekstri. Þær mega vel greiða út arð vegna þess að hann rennur til ýmissa, trúi ég, en að skæla, væla og grenja á öxlunum á venjulegu launafólki er svo ósmekklegt að þeim verður bara að mæta af fullri hörku, en málefnalega eins og verið er að gera.

Ég er annnarrar kynslóðar Reykvíkingur og bjó bara einu sinni einn vetrarpart á Dalvík. Ég vann í fiski á Kirkjusandi sem unglingur. Þessi atvinnuvegur, ris hans og hnignun, snertir ekki mitt daglega líf, en ég TRÚI þeim sjávarþorpurum sem segjast muna þegar byggðir voru blómlegar ÁÐUR EN stórútgerðirnar seldu og keyptu kvóta og fóru með milli byggðarlaga og voru þá EKKI RASSGAT að tala um þorpin sem legðust í eyði ef gjöld yrðu hækkuð.

Stórútgerðin verður að fara að hugsa um sanngirni, réttlæti, samfélagið og - sjálfrar sín vegna - álitið sem hún kallar yfir sig með þessum vaðandi dónaskap gagnvart vitsmunum og réttlætiskennd fólks.

Pálmi Gestsson sendir auglýsingapésunum snyrtilega pillu.


Kvennaathvarfið

Ég ætlaði ekki að horfa á söfnunarþáttinn á laugardaginn en það endaði samt þannig að ég horfði með öðru auganu. Eins og ég bjóst við var margt vandræðalegt og stjórnendur kjánalegir, en reynslusögurnar stóðu fyrir sínu.

Mér finnst yfirgengilegt að vera með tveggja tíma söfnunarþátt með tilheyrandi símaveri og yfirbyggingu, syngjandi þingmanni, svarandi biskupi, kleinuhringjakappáti og gallabuxnauppboði og klappa sér á bak og báðar axlir fyrir að safna skitnum 135 milljónum. Mér finnst milljón mikill peningur og sannarlega 135 milljónir en þegar um er að ræða hús sem á að taka á móti konum og börnum í neyð er þetta skotsilfur og stjórnvöldum hvers tíma væri nær að standa að svona húsi með sköttunum okkar.

Ég tel mig alltaf hafa alist upp við umhyggju, alúð, væntumþykju og snúða. Samt sé ég í baksýnisspeglinum að pabbi var ekki alltaf skikkanlegur við mömmu. Hann ætlaði að kenna henni á bíl en lét hana setja bílinn í þriðja gír til að fara af stað. Hún drap þá alltaf á bílnum og kenndi sjálfri sér um.

Af virðingu við þau, sem nú eru bæði látin, ætla ég ekki að tíunda fleiri minningar en vil segja að ég held að þau hafi náð betra jafnvægi í hjónabandinu á síðari hluta ævinnar. Ég er yngsta barn og varð líklega minnst fyrir barðinu á misklíðinni eða yfirgangi pabba. Við erum fjögur systkini og ég tel að vel hafi ræst úr þremur okkar en hinn bróðir minn var svo óheppinn að fæðast eða verða siðblindur og eftir áratugi af meðvirkni lét ég hann loks lönd og leið.

Ég sé örugglega eftir að birta þessa færslu en huggunin er auðvitað að fáir munu sjá hana. cool Hver les færslu með yfirskriftina Kvennaathvarfið? 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband