Að reykja eða ekki

Kannski get ég trútt um talað þar sem ég reyki ekki. Fyrir vikið er sjálfri mér víðáttusama um aðgengi að smók. Svo er ég reyndar heldur ekki viðkvæm fyrir því þótt aðrir reyki, líklega af því að ég hef svo lítið lyktarskyn. Kostur eða galli?

Ég man þegar reykingar voru leyfðar á Hlemmi og mér finnst ég eiga minningar um bankagjaldkera með sígarettu í munnvikinu í vinnunni í Bankastræti. Þó kann að vera að ég hafi lifað það á grískri eyju eða séð það í bíómynd. Ég man þó klárlega þegar reykingar voru leyfðar hinum megin í flugvélinni og á afmörkuðu svæði á veitingastöðum. Það er bara reykurinn sem skilur ekki hugtakið landamæri, uss.

Svo er rétt að gera eina játningu enn, ég er frekar hrifin af breytingum breytinga vegna. Þegar maður breytir verklagi uppgötvar maður oft skynsamlegri aðferðir, þegar maður tekur krók á leið í vinnu uppgötvar maður styttri leið eða skemmtilegri, þegar maður prófar krydd í mat verður bragðið annað, stundum betra, þegar maður byrjar að spjalla við hálfókunnugt fólk reynist það oft forvitnilegt o.s.frv. Ef aðgengi að tóbaki verður breytt gerast kannski jákvæðir hlutir. Kannski.

Ég hef ekki lesið frumvarpið og það stendur ekki til. Ég heyrði hins vegar í flutningsmanni í útvarpinu í morgun og hún sagði að hugmyndin miðaði að því að stöðva eða hægja á nýliðun, núna byrjuðu að meðaltali tveir íslenskir unglingar á dag að reykja. Já, það er ekki hægt að mótmæla því markmiði, það þarf enginn að reykja eða taka í nefið/vörina, það tapar enginn á að sleppa því (nema þeir félagar Winston og Camel og allir hinir). Reyndar set ég spurningarmerki við tvennt, að flytja alla söluna inn í apótekin (af hverju ekki sérstakar tóbaks- (og eftir atvikum áfengis)búðir?) og að gera söluna lyfseðilsskylda með því fororði að um sé að ræða fíkn og vindlingar þá lyf.

En frumvörp eru bara lagatillögur sem er eðlilegt að taki breytingum og kannski sjáum við fram á tóbaksfrírra land áður en okkur verður endanlega stungið í jörðina. Er einhver mótfallinn því (annar en Pall Mall og Kent)?


Goskynning - landkynning

Á laugardaginn var kom til mín ferðahópur sem ég hafði tekið að mér að ferðast með um Vestur- og Suðurland. Í fyrsta kvöldmatnum sagði staðarhaldarinn okkur bílstjóranum að gos væri hafið. Við héldum að það væri grín en þegar við vissum betur sagði ég sessunautum mínum, 20 talsins, að gos væri hafið undir öðrum jökli en í fyrra. Þau létu sér hæfilega um finnast, fundu að við kipptum okkur ekki upp við þetta og þannig liðu næstu dagar. Þau voru á staðnum, fundu að allt var yfirvegað, sáu að landið var stórt og að enginn var í hættu.

Þau fóru héðan með áætlunarflugi á fimmtudagsmorguninn og voru himinsæl með dvölina. Við fórum svo langt austur sem til Skóga og þau fundu fyrir ösku, sáu að skyggnið var heldur bágborið en að enn var engin hætta á ferðum.

Þessi 20 vinna á ferðaskrifstofum og eiga eftir að selja ferðir til Íslands næstu árin. Það var óskaplega heppilegt að ferðin fór eins og hún fór og þau eiga eftir að verða mikilvægir Íslandskynningarmenn í heimalandi sínu.

Hins vegar var búið að ráða mig til að rápa svolítið með annan hóp í næstu viku. Hann hætti við af því að hann veit ekki að það er óhætt. Hvað hafa Samtök ferðaþjónustunnar aftur gert til að koma í veg fyrir þannig misskilning? Eða hvert er hlutverk SAF?


Hótelrúntur

Ég þori að mæla með Hraunsnefi og Hellnum og svo var á annan hátt gott að vera í Minniborgum sem er sumarhúsabyggð. Fyrir utan mjög mikinn vind fengum við eiginlega besta veðrið á landinu á hverjum stað. Svo var ekki leiðinlegt að fara á fjórhjól í Haukadal.

Maturinn var alls staðar hrikalegt fyrirtak, íslenska eldhúsið er hætt að koma mér á óvart. Meira að segja ýsan sem ég hef aldrei fengið á veitingastað áður var óaðfinnanleg með öllu á Leirubakka og ekki gat ég kvartað undan skötuselnum á Framnesi.


Má veðsetja túrista, auðlind ferðaþjónustunnar?

Þetta heyrðist í opinberri umræðu í dag: 

Tökum til dæmis ferðaþjónustuna sem byggir á því að ferðamenn komi  til landsins. Við getum ekki veðsett Þjóðverja, Búlgara, Ameríkumenn eða aðra sem væntanlega koma.

En eru ferðamennirnir veiddir eins og þorskar? Hmm.


Búðin sem aldrei sefur

Ég átti erindi í hverfi 108 og ákvað að kanna úrval og verð í búðinni sem hreykir sér af því að okkur þyki minna leiðinlegt að versla þar en annars staðar.

Meðal þess sem ég fann var hraustleg appelsína (420 g, með berki, kr. 121) og appelsínugul paprika (230 g, kr. 172).

Kílóverð: kr. 287Kílóverð: kr. 749


Í kjarabaráttu

Ég hef ekki getað varist mjög áleitinni minningu frá sumrinu 2003, nú þegar leiðsögumenn reyna að semja um bætt kjör.

Ég var ráðin til að sinna þýskum ferðamönnum, fyrst til að fara með þeim í útreiðartúr og svo út að borða. Ég mætti á hótelið kl. 12 og við komum til baka kl. 16. Þá fór ég heim, kom svo aftur kl. 19 og kom með þau aftur á hótelið kl. 23.

Hvað eru það margir klukkutímar og hvernig skiptast þeir?

Ólíkt mörgum öðrum stéttum var ég launalaus fram að hádegi af því að við erum ráðin á tímakaupi og ég átti að mæta kl. 12. Ég tek fram að þetta var sami vinnuveitandi og sömu ferðamenn. Ég fékk tvö útköll greidd, átta klukkutíma. Eðlilegt? Vinnutími minn var frá kl. 12-23 en ferðaskrifstofunni fannst eðlilegt að taka mig af launaskrá í þrjá klukkutíma sem ég notaði til að fara heim, þvo af mér hrossalyktina, fletta blaði og vera í bið áður en ég mætti svo í hreinum fötum til að fara með hópinn á veitingastað. Fröken ferðaskrifstofu fannst hún m.a.s. gera vel við mig að borga mér fyrir að fara með þeim á veitingastað. Ég fékk ókeypis að borða.


15 ára starfsöryggi

Eitt af því sárafáa í lífinu sem ég skil ekki er af hverju sjávarútvegurinn ætti að kvarta yfir 15 ára rekstraröryggi þegar flest fyrirtæki búa við gríðarlegt óöryggi.

Vonandi hef ég bara misskilið þetta.

Það er reyndar eitt annað sem ég skil ekki um þessar mundir, af hverju Stöð 2 hefur hætt hliðrænni (analog) útsendingu í samræmi við fjarskiptaáætlun. Til að ná útsendingu Stöðvar 2 þarf myndlykil eða annan stafrænan móttökubúnað. birtist á skjánum þegar ég ætla að horfa á fréttir Stöðvar 2. Kannski tengist það óstarfhæfa myndlyklinum sem ég fékk hjá Tali í síðustu viku.

Vonandi hefur Tal bara misskilið þetta. Annars þarf það ekki að reikna með mér í viðskiptum til 2026.


Aðdáendur tónlistar

Ég þekki venjulega launamenn sem eiga ársmiða á tónleikaraðir og ég þekki ofsalega marga sem hafa ekki áhuga á alls kyns tónlist. Ég fylgdist í gærkvöldi með útsendingu úr Hörpu og fannst sumt ævintýralega skemmtilegt. Meðfram fylgdist ég með umræðu um elítuna.

Kannski er ég meðvirk - það er algengur sjúkdómur - en það truflaði mig ekki neitt hverjir fengu að mæta á tónleikana í gær. Það er kannski hallærislegt að sumar stéttir fái (en langar kannski ekki alla úr þeim stéttum) ókeypis á viðburði sem eru í eðli sínu ekki ókeypis en sá hallærisgangur byrjaði ekki föstudaginn 13. maí. Þetta er lenska sem er eldri en ég.

Stóra spurningin sem brennur á mér er: Hvers vegna borga glæpamenn ekki fyrir glæpi sína með frelsi sínu eða fé (þá fjárglæpamenn)?

Mér dettur í hug að lög séu götótt og nái ekki yfir afbrotin.

Ef það er rétt hjá mér get ég spurt: Hvers vegna er því ekki breytt?

Þegar heill og hamingja fólks (sem óneitanlega felst að vissu leyti í að hafa nóg að bíta og brenna) er í húfi er mér slétt sama um tónlistarhúsið - sem ég viðurkenni að ég hlakka samt til að berja augum utan og innan. Landsbyggðinni er mismunað sem endranær en ég er í Reykjavíkur-elítunni og fæ að skoða að vild um helgina.


Síhrært bláberjaskyr

Nú hjóla menn, hlaupa og línuskauta í vinnuna og þá er maklegt að blanda orkudrykk. Þessi virkar:

-bláberjaskyr

-banani

-pera

Í réttum hlutföllum. Þarf engan vökva, bara blandara sem fer af stað ...

Stóra kannan þurfti að vera heima, annars fór ekkert af staðHring eftir hring eftir hring


Það viðrar til hjólreiða

Ísland á iði - enn og aftur. Og þá er um að gera að lengja leiðina, mæta seint í vinnuna (ef má) og hreyfa sig.

Kjarasamningar - kaupmáttur

Ég þekki hugmyndafræðina um kökuna, að það sé hægt að stækka hana og þótt einhver fái stóra sneið skilji hann ekki endilega eftir litla sneið handa einhverjum öðrum. Allir græða. En gildir það líka um kaupmáttaraukningu? Þótt launþegi fái kauphækkun fær hann ekki endilega aukinn kaupmátt ef allt sem hann þarf að kaupa hækkar um leið. En á það ekki að vera eðli kauphækkana að launþeginn geti leyft sér aðeins meira eftir en fyrir? Annars væri hægt að hafa bara status quo, ríkislaun, ríkisverð, allt óbreytt og óumbreytanlegt.

Nú er búið að skrifa undir kjarasamninga til þriggja ára og snæða vöfflur en á sama augnabliki er obbinn af meintri hækkun tekinn til baka. Verslunin ætlar að vísu ekki að segja upp fólki en til að mæta launahækkununum þarf að hækka vöruverð. Er þetta einhver árangur? Halda þessi samningar einhverju eða eru þeir bara gatasigti sem launþegar eiga eftir að sjá kaupmáttinn hripa í gegnum? Allt búið 6. maí 2011?

Nei, nei ...


Súrt gegn brunablettum í potti

Mér er sagt að það sé gagnlegt að sjóða rabarbara í potti sem hefur brunnið við í og þá verði hann svo skínandi fínn að hann gæti verið nýr. Þá er að finna rabarbara ...

Lofa sólríku sumri á suðvesturhorninu

Í gær skein maísólin ekki sérlega skært og þá rifjuðu fréttastofur upp að ekki hefði snjóað á þeim herrans degi í Reykjavík síðan 1987. Þá er gaman að rifja upp að það ár dvaldi ég við vond veðurskilyrði í Bæjaralandi (þangað til við fórum í tyrknesku sólina) - en sólin skein skært og lengi og vel í Reykjavík um sumarið.

Þess vegna treysti ég mér til að fullyrða að sumarið 2011 (líka oddatala) verði sérlega sólríkt og alveg funheitt í höfuðborginni minni.

Það má vitna í mig.


Svaðilför á Fimmvörðuháls

Einn fossinn var á haus

Með nesti og gamla skó héldum við af stað í morgunsárið á föstudag til að ganga á Fimmvörðuháls og skoða ummerki hins ársgamla eldgoss. Fyrstu kílómetrana og klukkutímana var allt á áætlun, m.a.s. fossa-, kókómjólkur- og rabbstundir. Þegar við nálguðumst Baldvinsskála (í 900 metra hæð?) var skyggnið ekki samt og áður en þó ekki svo að ógnaði göngunni þaðan upp í Fimmvörðuhálsskála (óveruleg hækkun, 1600 metra ganga).

Trússbíll var á leiðinni og óvíst um að hann kæmist alla leið í efri skálann. Jeppafæri er betra fyrr að vetrinum - en, hey, svo byrjaði að snjóa í dag á láglendi eftir smáhlé þannig að það er ekki á vísan að róa. En það voru efasemdir um að jeppinn kæmist lengra en í Baldvinsskála og við vissum ekki hvort við ættum að paufast áfram eða bíða í þeim neðri.

Við ákváðum að paufast lengra og þá gerði hóflegt mannskaðaveður. Við vorum öll svo vel búin að við vorum ekki í teljandi lífshættu. En við komumst í hættu því að við lentum í hálfgerðri sjálfheldu á svakalegum klakabunka í brekku með strekkingsvindi - svo ég dragi nú úr.

Við hringdum í fyllstu kurteisi í björgunarsveitir bara til að láta vita að við værum í vanda sem við gætum þó sjálfsagt komið okkur úr. Við fukum og runnum svolítið, snerum við og komumst aftur ofan í Baldvinsskála með því að elta okkar eigin spor. Skálinn var óupphitaður og hráslagalegur en þó miklu hlýlegri og sællegri en hallandi svellbunkinn - og trússbíllinn skilaði sér með þurr föt og svefnpoka.

Við hringdum aftur í björgunarsveitirnar og sögðum kurteislega farir okkar nokkru sléttari og að við myndum bjarga okkur. Daginn eftir, sem sagt í gær, fréttum við að 30 björgunarsveitarmenn hefðu verið komnir í viðbragðsstöðu og við kunnum þessum nafnlausu einstaklingum bestu þakkir fyrir að ætla að koma okkur til hjálpar.

Þetta er nú að verða nokkur upptalning hjá mér en ég er í og með að halda til haga ferðasögunni. 

Klukkan hefur trúlega verið orðin 10 þegar þarna var komið sögu og við fengum okkur af nestinu og prísuðum okkur sæl fyrir að komast úr háskanum meðan við skiptum yfir í þurr föt. Þegar því var öllu lokið sótti að mér svo óskaplegur höfgi að ég sagðist ekki geta hangið lengur uppi, henti mér í svefnpokanum á gólfið, skorðaði hausinn á tilfallandi tösku, setti undir svefnpokann lopapeysuna sem var farin að þorna (takk, mamma) og sofnaði snarlega í gangveginum. Rétt að rifja hér upp að þrír Belgar voru komnir á staðinn á undan okkur og voru á þessum tíma farnir að hrjóta í efra. Daginn eftir, sem sagt í gær, komumst við að því að þar uppi var gott pláss og þar voru dýnur!

Eftir góðan nætursvefn (minn) hundskuðumst við á lappir um 10 og tygjuðum okkur. Þá var væn rigningarskúr um garð gengin og við gengum og fengum far með trússbílnum á víxl, enduðum svo hjá Skógum um tvöleytið. Þá var rétt rúmur sólarhringur frá því að við fórum af stað á hálsinn!

Kaffi og kleinum var sporðrennt á Skógum og svo tók enn betra við. Við fengum inni hjá foreldrum eins ferðalangsins á leiðinni, hituðum matarmiklu gúllassúpuna og borðuðum okkur pakksödd.

Gaman að fara og gaman að koma aftur heim. Mæli með hæfilegum ævintýraferðum en sérstaklega mæli ég með að fólk fari VEL BÚIÐ og með bunka af stóískri ró. GPS, alls kyns hnit og þekking í að nota slíkt þarf líka að vera með í för. Nothæfur GSM-sími léttir lífið.

Við hittum rjúpur í vetrarbúningnumSvona leit það verst út

Sumir fengu marbletti á hnénEn ég varð aðallega syfjuð


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband