Alan Bates gegn Tryggingastofnun

Það er hægt að treysta breska dómskerfinu. Ég segi bara sannleikann.

Eitthvað í þá veruna er haft eftir einu fórnarlambi breska Póstsins í þáttaröð sem má sjá í spilara RÚV um þessar mundir. Þáttaröðin, Mr. Bates vs The Post Office, Alan Bates gegn Póstinum, er um svo lygilegt mál að það er eiginlega ekki hægt að trúa því. Um aldamótin innleiddi hin framúrstefnulega stofnun, Pósturinn, tölvukerfi sem átti að leysa af hólmi handrituðu bókhaldsgögnin. Það sem íslenska áhorfandann vantar alveg er tilfinning fyrir mikilvægi starfsins. Ég sé bara starfsfólk sem afgreiðir frímerki og afhendir lífeyrisgreiðslur skv. plani en fólkið sem átti í hlut leit á þetta sem mikilvægt ævistarf. Það sem urmull póstafgreiðslumanna lenti í var að bókhaldið hætti að stemma og póstmeistararnir, sem ráku þá pósthúsin eins og eigin fyrirtæki, sáu skuld birtast hjá sér og tvöfaldast og fjórfaldast og verða að óyfirstíganlegri skuldahrúgu.

Og ég gæti spurt eins og við spyrjum manneskju sem yfirgefur ekki ofbeldismann: Af hverju sættirðu þig við þetta?

Öllu fólkinu, mjög mjög mjög mörgu, var sagt að enginn annar hefði lent í þessu. Öllum var sagt að viðkomandi væri ein/n í þessu. Fólk efaðist um sjálft sig enda gaslýst af þrautþjálfuðu ofbeldisfólki sem átti að keyra tölvukerfið á þennan hátt.

Og nú berast fregnir af því að Tryggingastofnun þurfi að rukka 45.000 manns vegna ofgreidds einhvers. Af hverju sættir fólk sig við þetta? Ég held reyndar að fólk muni ekki gera það vegna þess að fyrsta frétt er að stór hópur hafi lent í þessu.

Ég er ekki komin svo langt að þurfa að eiga við Tryggingastofnun en Skatturinn er mín brekka. Í fyrra fékk ég endurgreidann ofgreiddan tekjuskatt enda er ég lítill verktaki og reikna sjálf út mína staðgreiðslu og sendi skilagreinar. Svo hef ég endurskoðanda sem telur fram og kann betur á þetta. En viti menn, í febrúar fékk ég rukkun frá Skattinum upp á næstum sömu upphæð. Og ég óviss í minni sök borgaði enda er útgáfudagur, gjalddagi og eindagi sami dagurinn og ef ég borga ekki strax leggjast strax 10% ofan á. Ég virðist ekki hafa neitt val, fæ ekki einu sinni sundurliðun. Ég er mjög ósátt við Skattinn en ætla ekki í viðskiptafræði til að skilja þetta. Þegar ég hef sent fyrirspurnir með tölvupósti fæ ég skriflegt svar á svahíli sent frá útstöðvum Vestmannaeyja. 

Tölvukerfin, já, og gervigreindin, eiga að hjálpa okkur en stundum leggja þau stein í götu okkar.


Velgjan sem kólnar

Ég væri ekki hissa - og er ekki hissa á mælingu - á að landsmenn tækju fagnandi þeirri breytingu að láta þá sem hafa hagnýtt sameiginlega auðlind borga fyrir afnotin. Ég er svo forfallin að ég er búin að fylgjast með umræðu á Alþingi um frumvarp um veiðigjaldið og þau sem tala um að landsbyggðin leggist af ef stórútgerðinni verði gert að borga eðlilegt gjald og muni þá flæmast með landvinnsluna úr landi virðast ekki vita að mestu stórbokkarnir hagræða fyrst og fremst í eigin þágu og sum landvinnsla er farin. Það hefur ekkert að gera með veiðigjaldið.

Ég er hlynnt hækkun veiðigjalds en mér finnst líka ástæða til að skoða hvort einhverjir angar í ferðaþjónustunni hafa ekki skarað eld að eigin köku síðustu árin og áratugina. Hver á Langjökul?

Straumlínan ætti að vera að auðlindir nýtist landsmönnum í heild, ekki örfáum einstaklingum sem byrja síðan að skæla og LÍÚja þegar þingmenn nenna að taka slaginn.

Ég hef það gott en fullt af fólki nær ekki endum saman þrátt fyrir að vinna fulla vinnu og hafa jafnvel menntað sig til verðmætra starfa fyrir samfélagið.

Það er ekki endingardrjúgt að pissa í skóinn sinn. Það er volgt fyrst en kólnar svo.


Jon Øigar­d­en

Sagt er að maður eigi ekki að samsama lögmenn skjólstæðingum sínum og að allir eigi rétt á bestu vörn. Þetta finnst mér hartnær óskiljanlegt vegna þess að ef lögmaður hefur ekki sannfæringu fyrir málstað skjólstæðings síns myndi ég halda að hann beitti sér minna og svo spyr ég: Hvað um alla þá sem hafa ekki efni á að ráða sér lögfræðinga á eigin kostnað?

En ég byrjaði á útúrdúr vegna þess að ég las vörn Fannars Sveinssonar í gær. Og ég spyr: Hvaða.leikstjóri.í.veröldinni.fylgist.ekki.með.samfélaginu.sínu? Ég veit ekki hvort hann vill frekar að ég haldi að hann sé heimskur eða siðlaus. Og þau rök að maður þurfi að taka þeim verkefnum sem bjóðast til að eiga fyrir mat handa börnunum sínum halda heldur ekki vatni. En sá málflutningur rökstyður hins vegar að vel hafi verið greitt fyrir þetta siðlausa verkefni af því að a) enginn heilvita maður tekur svona að sér nema fá böns of monní, b) útgerðin veit ekki aura sinna tal.

Alveg sama hvernig á málið er litið heldur stórútgerðin áfram að grafa gröfina sína.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband