Miðvikudagur, 29. júní 2011
Ferðasumarið mikla
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 26. júní 2011
Ábyrgð hvers? Og hver geldur fyrir?
Ekki ætla ég að þykjast vita nokkurn skapaðan hlut um deilurnar milli flugmanna og Flugleiða, hvað ber í milli eða hvort hollið er ósveigjanlegra en hitt. En ég get leyft mér að hafa áhyggjur, t.d. af ferðaþjónustunni. Ég hef þegar lent í því í vor að hópur sem ég hafði verið ráðin til að sýna eitthvað af landinu kom ekki vegna eldgoss. Það voru náttúruhamfarir sem enginn réði við, óþarfur ótti hópsins en skiljanlegur, ekki síst í ljósi þess að ýmsar flugleiðir tepptust lengi í fyrrasumar út af gosinu í Eyjafjallajökli.
Þessi töf og skortur á þjónustu framundan er núna af mannavöldum. Ef leið mín ætti að liggja til Fjarskistans myndi ég ábyggilega velta fyrir mér hvort það væri óráð ef ýmislegt bent til þess að ég yrði strandaglópur í miðju einskis.
Mér finnst tímabært að bæði holl nái samningum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 22. júní 2011
Danslärarens återkomst
Ég held að ég hafi bara ekki lesið neina bók eftir Henning Mankell fyrr en ég las núna Danskennarinn snýr aftur. Samt held ég að ég eigi nokkrar af bókum hans á sænsku og þarf þá að gá að þeim því að hann var alveg prýðilegur.
Drifkraftur bókarinnar er illska, mannfjandsamlegheit, fyrirlitning og dramb sem höfundur eignar þjóðernissósíalisma sem er þýðing á nasisma. Ég man eftir fréttum af hakakrossi í mótmælum á Austurvelli í fyrrahaust og ég man að okkur þótti sumum sem fáninn fengi ekki næga athygli, að tilvist hans væri ekki gagnrýnd nægilega. Ég er illa lesin í nasískum fræðum en þykist vita að þau sem aðhyllast þau telji sig öðrum kynþáttum og ýmsu fólki æðri. Áhangendur í bókinni telja sig hafa fullt umboð til að uppræta óæskilega þjóðfélagsþegna og ráða, deila og drottna.
Ég er sjálf vafin í svo mikla bómull að ég þekki ekki þessi sjónarmið nálægt mér og hef greinilega tekið hraustlegt athyglishlé í öllum tímum þar sem fjallað var um þessar kenndir því að líklega hef ég allt mitt litla vit um málið úr sjónvarpsþáttum eins og Helförinni, bókum og svo heimsókn í útrýmingarbúðir. Ég hef kannski aðeins of litlar áhyggjur af því að ég trúi ekki að fólk geti verið mjög ógeðslegt. Nú orðið.
Danskennarinn er auðvitað líka hlaðinn alls kyns hliðarsögum, s.s. af krankleika lögreglumannsins, Stefans Lindmans, hvort keiluspil geti upprætt streitu, skælum móttökustúlkunnar á hótelinu, rauðeygðum Guiseppe - hvernig getur Svíi heitið það? - og konunum sem bíða heima.
Ég mun þó líklega forðast sambærilega þýðingu aftur. Bókin er að sönnu á fimmta hundrað síður en ásláttarvillur samt of margar og orðaröð of víða óíslenskuleg. Og því ekki að halda sænskunni sinni við?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 21. júní 2011
Spennandi glæpasaga eða ekki
Nú er kominn Blóðdropi ársins. Ég las vinningssöguna mér til sárra vonbrigða í febrúar og hlýt að undrast þetta val. Ég er líka búin að lesa Morgunengilinn, Aðra Líf og nú síðast Snjóblindu sem allar eru tilnefndar og hefðu verið betur að Blóðdropanum komnar. Ég hugsa að ég hefði valið bókina hans Árna af því að mér finnst samfélagspælingin svo mikill aukabónus og eiga fullt erindi til útlanda.
Ég las líka Martröð millanna en finn enga umfjöllun hjá mér um hana. Mér þótti hún eins og uppkast og Óskari var enginn greiði gerður með því að setja hana svona hráunna í prentun.
Framlagið er skrifað af konu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 20. júní 2011
,,Hjólið var af merkinu Harley-Davidson"? (bls. 210)
Tímamismuninum hafði hann aldrei alveg áttað sig á.
(bls. 245)
Ég kann ekki við að segja í hvaða bók þessar skrýtnu þýðingar eru, en bókin er augljóslega þýdd úr skandinavísku tungumáli. Ekki satt?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. júní 2011
Ekki gaus í dag
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 17. júní 2011
Að lesa timarit.is er góð skemmtun ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 14. júní 2011
Hvað mér finnst um Snjóblindu (bókina)
Eftir Dalalíf, maraþonlestur, varð á vegi mínum Snjóblinda, ný spennusaga eftir íslenskan lögfræðing. Mér fannst hún spennandi, óvæntar fléttur sem gleðja mig alltaf, hnökralaus stíll og frágangur.
Það eina sem ég saknaði var svolítill húmor, bókin var öll svo alvörugefin, tók sig fullhátíðlega. Ég veit ekki hvort Ari er líka aðalpersónan í Falskri nótu en sá karakter fannst mér hvað minnst sannfærandi, munaðarlaus og vonlítill guðfræðinemi á þrítugsaldri sem vorkennir sér, er óhress með einstæðingsskapinn en óttast fast samband sem hann þó þráir. Hættir flestu sem hann byrjar á en leysir samt gátuna. Meiðist í öxlinni en hummar fram af sér að kippa vandanum úr umferð vegna þess að það er svo mikið að gera en situr svo og lætur sér leiðast eða hangir á vinnustaðnum á frívöktum.
Með meiru.
Kannski er ég að stinga upp í sjálfa mig með því að tíunda þversagnirnar því að við erum öll full af þeim. Mér finnst Ari og húmorsleysið samt helstu gallar þessarar býsna sannfærandi spennusögu sem tilfallandi gerist á Siglufirði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 13. júní 2011
Þarf ekki að skera utan af engifer þegar maður eldar?
Hnaut um þessa mynd á matarbloggi
og fór að hugsa hvort ég hefði eytt mörgum klukkutímum af lífi mínu til einskis. Þarf ekki að afhýða engifer?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. júní 2011
Á hvítasunnudegi
Mér skjöplast verulega ef sólin lét ekki verða af sumarkomu sinni, varanlegri, á þeim drottins dýrðar hvítasunnudegi, sagði hin heiðna, og rifjaði upp að á þriðjudaginn verður málþing kirkjunnar um embættisfærslur þjóna hennar.
Það þarf einhvern trúaðri en mig til að finna eitthvert samhengi í þessu, en við góða veðrinu fúlsa ég ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 9. júní 2011
Íslensk dagskrárgerð
Þá er búið að sýna fyrsta þáttinn af Tríói með mörgum uppáhaldsleikurum. Bergur Þór Ingólfsson er alltaf nýr, alltaf ferskur, kemur stöðugt á óvart. Ég held að mér finnist það skemmtilegasti eiginleiki leikara. María Guðmundsdóttir er áhugaleikari, einmitt úr Mosfellsbænum, og getur enn komið mér á óvart þótt ég hafi ekki séð hana í Steindanum.
Handritið var víða snaggaralegt þótt vissulega bindi dúddarnir Friðbert og Stígur bagga sína ekki sömu hnútum og þeir sem maður sér oftar í sjónvarpinu. Ætla að gá að því næsta fimmtudag hvort það verður einhver hasar í Mosó.
Það kann að vera að íslenskum skemmtiþáttum hafi verið svo naumt sniðinn fjárstakkurinn að það sé of auðvelt að gera mér til hæfis ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 7. júní 2011
Kalkipappír
Mér finnst endilega að ég hafi sent pening á milli landa vafinn í kalkipappír forðum daga. Kannski var það bara milli landshluta.
Unga bankafólkið veit ekki hvað kalkipappír er, en vegna umræðu um gjaldeyrismál og tollalög spyr maður sig hvort nú sé að myndast markaður fyrir þannig pappír.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. júní 2011
Dalalíf smalalíf
Nei, þetta er ekki nýja myndin hans Þráins, heldur stóra þrekvirkið hennar Guðrúnar frá Lundi sem ég er nú alveg við það að klára. Stórkostleg aldarfarssaga, spannar áratugi og margar kynslóðir, skrifuð á kjarnyrtu máli oft og víða, dreypt á kaffi endrum og eins líka. Einn og einn gleður sig helst til ótæpilega á víni og svo eiga sumir það til að vera helst til skeikulir í siðferðinu.
En mikið rækalli er kaflinn um Þórdísi Pálsdóttur, Dísu hennar Ketilríðar, meinta fósturdóttur á Nautaflötum, orðinn langur og endurtekningasamur. Öllum leiðist hún, menn reyna að koma henni af höndum sér, þá er hún orðin eldri táningur, en hún býr yfir sérkennilegu blandi af forheimskun og fordekrun og fullkomlega óskiljanlegri kokhreysti. Og hún er langleiðinlegur karakter sem á ekki skilið að fá 200 blaðsíður eða þaðan af meira.
Kannski hefði verið nóg að bókin hefði orðið 1900 síður, leitt ef þetta verður minnisstæðast undir lokin.
Kannski blasir við að lesa næst rannsóknarskýrslu Alþingis, hún kvað vera spennandi og lifa lengur en lesturinn varir. Annars kennir margra góðra bóka í bókahillunni minni sisona, m.a. á ég allt í einu slatta eftir Þórberg Þórðarson, Guðmund Kamban og Gunnar Gunnarsson. Svo sé ég Don Kíkóta og reyndar nokkrar nýjar kiljur sem enn eru í plastinu.
Óvíst að sólin dragi mann út á svalir næstu vikurnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 5. júní 2011
Grr, umbúðaþjóðfélagið
Sem betur fer bjóða æ fleiri fyrirtæki upp á pappírslaus viðskipti. Gallinn er að vísu sá að þá hefur notandinn, a.m.k. ég, skerta meðvitund um viðskiptin, kostnað, breytingar á verði og hugsanlega breytta þjónustu. Kostirnir eru hins vegar ótvírætt minni pappírseyðsla, minni prentun, minni útburður og líklega færri tré í valnum.
Nú er ég búin að fara í gegnum alls kyns kassa vegna flutninga og sé að ég hef staðið mig illa í að henda jafnóðum. Ég held alltaf að ég muni nota bakhliðina á umslögum til að skrifa t.d. innkaupalista en er ég bara svo minnug að ég þarf ekkert að skrifa til minnis ...
Hins vegar eru kaupmenn ekki enn tilbúnir að koma til móts við mig. Margar vörur eru í smærri einingum í umbúðum og svo aftur í frekari umbúðum, gjarnan plasti sem brotnar illa niður og eyðist seint. Kjöt er í frauðbakka og svo er plast utan um. Engin áhersla er á að endurnýta allt þetta plast sem fyllir plastruslapokana okkar.
Nú er ég með svalir og garð og ætla að reyna að endurnýta allt lífrænt, t.d. kaffikorg og grænmeti, og gera aftur að moldu. En mikið myndi nú sveitarfélagið gera vel í að koma upp grænum tunnum hjá hverju húsi frekar en að mæla metrana frá götu til að rukka einhverjar krónur út á skrefin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)