Laugardagur, 30. júní 2012
Kosningasól
Atkvæðisrétturinn er heilagur og þótt ég óttist að úrslitin verði mér ekki að skapi vona ég samt að við fáum okkar hefðbundnu 88% á kjörstað. Yngsta kynslóðin sem má kjósa nær því ekki til fulls hversu mikið var haft fyrir því að fá réttinn til að kjósa.
Og sól skín meira að segja um allt land þannig að nú er lag að sparibúast og mæta á kjörstaðinn sinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. júní 2012
Grænir bílar
Mig langar í vistvænan bíl en get ekki ákveðið mig. Ég er ekki að spá í ókeypis stæði heldur minni mengun. Hver er bíllinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24. júní 2012
Fór víða um helgina og get boðið upp á útgönguspá
90% karlanna sem ég hitti um helgina ætluðu að kjósa Ólaf Ragnar. Þeir eru flestir einyrkjar í störfum sínum, mest við akstur. Ástæðan: Hann bjargaði okkur frá hrikalegri skuldsetningu, ef hann hefði ekki neitað Icesave værum við núna að borga geðveika vexti og ættum engan pening fyrir okkur sjálf. Hin ástæðan: Hann er hvort eð er á kaupi til æviloka.
Æ, ég hitti svo fáar konur, en karlarnir voru á því að þær myndu kjósa Þóru.
Ég spái að það verði mjótt á mununum.
En hættum að birta skoðanakannanir, við vorum flest sammála um það. Þær eru skoðanamyndandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 20. júní 2012
Anna, Egill, Hrafn og Vigdís
Ég á eftir að verða skotfljót að gleyma sögupersónunum í Hálendinu. Þetta vesalings fólk er svo persónuleikalaust að mér er gjörsamlega ómögulegt að tengjast því hið minnsta. Anna, Egill, Hrafn og Vigdís fara upp á hálendi Íslands með sneisafullan bíl af rötunartækjum, mat, drykk og eiturlyfjum og rata í súrrealísk ævintýri. Ég get alveg þolað óraunveruleikann en ég þurfti að beita mig hörðu til að klára bókina af því að höfundur leyfir ekki söguefninu að lifna í textanum. Hann segir og útskýrir í stað þess að sýna.
Held helst að álitsgjafarnir sem Forlagið styðst við hafi lesið aðra bók. Spenna hélt ekki fyrir mér vöku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. júní 2012
12,7 eða 13,3 eða 10,4 milljarðar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. júní 2012
Forsetaefnið mitt
Ef ég hefði mátt kjósa forseta 1980 hefði ég kosið Guðlaug Þorvaldsson. Áreiðanlega var hann vænsti maður og hefði gegnt starfinu vel. Hins vegar var Vigdís kosin og ég sætti mig alveg við það og fljótlega varð mér reyndar hlýtt til hennar.
Í baksýnisspeglinum sé ég mjög glöggt hvað kosning hennar skipti miklu máli. Hún bar hróður Íslands víða og talaði fallega til þjóðar sinnar. Hún gerði áreiðanlega mistök þegar hún skrifaði undir lögin um EES, það mikla framsal, 1993 þrátt fyrir meira en 30.000 undirskriftir Íslendinga sem skoruðu á hana að senda þau í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enginn er óskeikull. En af hverju bauð þingið okkur ekki strax með?
Nú stöndum við enn frammi fyrir forsetakjöri og sex manna frambærilegur hópur stillir sér upp. Það má dást að öllu því fólki sem gefur kost á sér til þessa starfs í því umhverfi sem við búum við, vantraust, skothríð, veiðileyfi, skeytingarleysi, miklar árásir. Ég les aldrei Eyjuna og aldrei Pressuna og veit ekki hvernig umræðan er þar í athugasemdakerfinu en ég hef stundum lesið í gegnum fréttir á DV með öllu viðhengi og athugasemdirnar ganga gjörsamlega fram af mér. Mér finnst í góðu lagi að gagnrýna en flest það sem ég les er órökstutt og ómálefnalegt.
Þó að margir kjósi að láta neikvæðar tilfinningar keyra með sig út í rakin ósmekklegheit held ég samt að tilfinningar ráði mestu um það hvernig fólk kýs sér forseta - með tilfinningarökum. Sagan hefur sýnt að frambjóðendur þurfa ekki að standa við loforð, loforð sem má kalla kosningaloforð. Aðstæður breytast, fólk breytist, kjósendur breytast, það er alltaf hægt að vísa til ástands sem hefur breyst.
Ástæðan fyrir því að ég ákvað í vor að kjósa Þóru Arnórsdóttur er, jú, að ég þekki aðeins til hennar persónulega, að hún er manneskjuleg, að hún er vel máli farin, að hún kemur vel fyrir, að hún hefur góða menntun og að hún talar fjölda tungumála.
Hún er kurteis og henni hefur verið fundið það til foráttu. Mér finnst það kostur.
Hún segist vera íhaldssöm. Mér finnst það kostur í fari forseta sem ætlar að vera sameiningartákn þjóðar sinnar.
Hún á þrjú ung börn og sumir halda að hún geti ekki sinnt krefjandi starfi meðfram barnauppeldinu. Þá held ég að þeir hinir sömu geri sér hvorki grein fyrir hvað hún hefur verið í annasömu starfi meðfram heimilisrekstri og hvað smábarnaforeldrar vinna oft langan dag frá börnunum sínum. Og ef það á að skipta máli held ég að hún muni eiga betra með að sameina starf og einkalíf á Bessastöðum.
Eftir átta ár verður hún 45 ára gömul og ef hún nær kjöri talar hún um að hverfa þá til annarra starfa. Þá þiggur hún biðlaun í hálft ár, ekki eftirlaun til æviloka.
Þrátt fyrir kosti hinna frambjóðendanna fimm hef ég langbestu tilfinninguna fyrir Þóru Arnórsdóttur og ég hlakka mikið til að fara á kjörstað 30. júní og merkja við hana.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 12. júní 2012
Gjaldtaka á fjölsóttum ferðamannastöðum?
Á að rukka gesti fyrir að horfa á Geysi/Ásbyrgi/Hvítserk? Við rukkum nú þegar fólk sem siglir á Jökulsárlóni, skoðar hvali, fer á Listasafn Íslands, fer í bíó og reynum að rukka fólk fyrir að fara á klósett. Hvernig fjármögnum við annars uppbyggingu svæðanna, lagningu stíga, rekstur klósetta?
Formaður Félags leiðsögumanna var í viðtali á Bylgjunni í gær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 8. júní 2012
Að fljúga eða ekki að fljúga í boði vina
Álitamálin í lífinu eru endalaus. Kjörinn fulltrúi Reykjavíkurborgar flaug til Parísar og borgaði fyrir farið kr. 5.900 hafi ég tekið rétt eftir. Á hvað hafa Ryan Air og Go selt ferðirnar sínar þegar best lætur fyrir flugfarþegann?
Ég er búin að hugleiða þessa hreyfingu og get ekki samþykkt að borgarfulltrúinn hafi gert rangt í að fljúga. Að segjast vera í vinnunni kl. 9-17 er hins vegar hrikalegur afleikur. Mér finnst það meira að segja hæpið hjá almennum starfsmönnum að segjast eingöngu vera starfsmenn á eiginlegum vinnutíma en kjörinn fulltrúi vinnur einmitt ekki eftir stimpilklukku.
Væntanlega vakta fjölmiðlar það á næstu mánuðum, jafnvel næstu tvö árin, hvort Wow fær einhver viðskipti við borgina og á hvorn aðilann hallar þá. Er það ekki ásættanleg lending?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. júní 2012
Bankaþjónusta á landsbyggðinni
Ég hef aldrei verið gömul netlaus kona á landsbyggðinni og mér finnst mjög erfitt að setja mig í hennar spor. Ef ég þyrfti á bankabyggingu að halda til að sækja og leggja inn pening yrði ég alveg hvínandi reið út í héraðið mitt ef húsið sjálft yrði tekið frá mér með þjónustunni. Bankaþjónusta er einmitt þjónusta.
Sem nettengdri konu með 10 bankaútibú í göngufæri finnst mér hins vegar yfirbyggingin alveg forkastanleg. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn geti ekki talað saman af skynsemi og komist að lausn í stóra Landsbanka-á-landsbyggðinni-málinu.
Ef menn geta ekki fært fram nein önnur rök en þau að útibúanna sé þörf vegna atvinnunnar sem þau skapa detta mér í hug unglingarnar sem henda tyggjói á götuna og segja þegar maður lítur grimmdarlega á þau:
Atvinnuskapandi.
Ekki ætla þau samt að borga launin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 4. júní 2012
Kappræðurnar á Stöð 2 í gær
Ég er í fámenna hópnum sem blöskraði ekki fyrir helgi að Stöð 2 ætlaði að bjóða bara Ólafi Ragnari og Þóru í kappræður í sjónvarpi til að laða fram sjónarmið þeirra forsetaframbjóðenda sem hafa mælst hæst í skoðanakönnunum.
Stöð 2 er einkastöð sem ég kaupi ekki áskrift hjá og ég get engar kröfur gert til stöðvarinnar. Ég get heldur ekki heimtað kappræðurnar í neinni mynd í ólæstri dagskrá.
Þóra mæltist til þess að allir sex frambjóðendur fengju að koma. Stöð 2 varð við því en hefði getað náð Ólafi og Þóru saman, eins og til stóð, með því að hafa tvo og tvo frambjóðendur saman eftir stafrófsröð.
Þá neituðu þrír frambjóðendur að taka þátt. Þetta er allt þekkt. Ég fylgdist með kappræðunum og miðað við umræðuna á Facebook hættu flestir að horfa en höfðu samt skoðun á umræðunni.
Mér fannst margt athyglisvert koma fram en heildarniðurstaða mín er sú að það skiptir ekki öllu máli hvað frambjóðendur segja, það skiptir eiginlega meira máli hvernig þau segja það. Þegar upp verður staðið kýs ég eftir tilfinningu.
Nú er viss hópur í samfélaginu skotinn í ÓRG fyrir að hafa virkjað beint lýðræði í nokkur skipti. Icesave er núna fyrir dómstólum og við vitum ekki hvernig það endar. ÓRG sagði á sínum tíma að tvö til þrjú kjörtímabil væru hæfilegur tími. Ég man ekki hvað hann sagði um 26. gr. stjórnarskrárinnar en hann hefði engan veginn getað sagt árið 1996 hvernig hann væri líklegur til að bregðast við fjölmiðlalögunum 2004 og Icesave 2 og 3 nokkrum árum síðar.
Kosningaloforð eru huglæg og erfitt að ganga eftir reikningsskilum.
Nú hef ég velt enn frekar fyrir mér fyrirkomulaginu. Ég las netið í gærkvöldi, hlustaði á viðmælendur á Bylgjunni í bítið og svo heyrði ég í Mána á Harmageddon síðdegis. Ég er enn staðfastari í því að Stöð 2 hafi verið í fullum rétti til að bjóða bara þeim tveimur sem hafa mælst hæst. Stöð 2 hefur ekki sömu lýðræðislegu skylduna og RÚV sem rukkar okkur öll um nefskatt. Stöð 2 hefur fullt leyfi til að reyna að búa til það sjónvarp sem hún telur til dæmis söluvænlegt.
Hins vegar er tvennt sem ég hefði viljað sjá öðruvísi. Stöð 2 hefði átt að gera sína eigin skoðanakönnun og segja fyrirfram að þeir frambjóðendur sem fengju meira en 10% (eða aðra tölu) fengju boð um að koma. Ég er sammála því sem kom fram í Harmageddon að svona þáttur þarf ekki að vera almenn kynning á öllum frambjóðendum, ef fólk vill kynna sér stefnumálin getur það skoðað heimasíðurnar, farið á kosningaskrifstofurnar eða beðið eftir kynningunni á RÚV. Þar fyrir utan hafa einstakir frambjóðendur kynnt sig víða, t.d. Hannes Bjarnason á Sprengisandi í gærmorgun og í Fréttablaðinu á laugardaginn. Það er ekki gerð krafa um 50% atkvæða til kjörins forseta, hann þarf bara að fá flest atkvæði og þess vegna er eðlilegt að reyna að þrengja hringinn um þá sem koma helst til greina.
Hitt sem Stöð 2 gerði illa að mínu mati var að sýna grínið frá Spaugstofunni. Það var hallærislegt og algjörlega yfirmáta ófyndið.
Mér fannst ýmislegt klúðurslegt, t.d. þóttu mér sumar spurningarnar illa valdar og jafnvel endurteknar, of mikið hamast í sitjandi forseta (kannski er það til siðs í öðrum löndum), fulllítið spontanítet í spyrlunum (hef samt samúð með hlutskipti þeirra) og svo fór þátturinn 20 mínútur fram úr auglýstum tíma. Hins vegar slokknaði ekki á útsendingunni hjá mér (er ekki í viðskiptum við Símann) og mér finnst sérkennilegt að fólk gargi sig hást út í Stöð 2 fyrir mistök símafyrirtækis.
Þau þrjú sem gengu út gerðu í mínum augum mistök og skildu hin þrjú eftir með allt sviðsljósið. Miðað við umræðuna sem ég hef orðið vitni að í dag þykist ég vita að ég sé í stórkostlega miklum minni hluta með þessa afstöðu en ég ekki lengur í minnsta vafa.
Svo get ég undrast það hér og nú að sem ég ætlaði í mesta sakleysi að hlusta á fréttatímann á Rás 2 kl. 19 í kvöld mættu mér fantafínir tónleikar til heiðurs Bretadrottningu. Það var fullt af fínum flytjendum en ég vildi samt frekar heyra fréttirnar. Hvaða skyldur hefur RÚV? Ég gái ekki reglulega hvort RÚV ætlar að standa við fréttatímann og flaska reglulega á því þegar íþróttaviðburðir skáka honum út í horn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)