Ofsi veðurguðanna

Nú man ég því miður ekki nafnið á bandaríska þingmanninum sem kenndi Barack Obama um gosið í Eyjafjallajökli í apríl 2010. Barack lagði nefnilega fram frumvarp um heilbrigðisgeirann sem repúblikanum líkaði ekki og hann hélt því fram að þar með hefði eldgosaguðinn orðið brjálaður og rifjað upp gamla takta. Kannski er þetta misminni hjá mér en hugmyndin er góð.

Og þá er tímabært að finna hver ber ábyrgð á því að sumarið virðist ætla að sniðganga Ísland í ár. Það er auðvitað ógleymanlegt að fyrrasumar stóð frá mars og fram í --- guðmásamtvitahversulengi því að ég er búin að gleyma hvenær því lauk. Á þessu ári hefur hitinn farið upp í þolanlegt sumar þrívegis; 16. maí, 22. maí og 22. júní. Ég er auðvitað að tala um Reykjavík og nærsveitir hennar.

Ég er leiðsögumaður af og til og búin að lofa mér dálítið í júlí. Frá upphafi ferilsins hef ég verið tiltölulega heppin með veður og veit að það er snöggtum þægilegra og léttara að sýna fólkið landið í fallegu veðri. Fólk reiknar hiklaust með að hér blási köldu en ég held að flest vilji gott skyggni, þurrt veður (inn og út úr rútu) og fallega birtu. Og nú er ég farin að velta fyrir mér við hvern verði að sakast ef ég þarf upp á hvern dag að vera sjúklega fyndin, bjartsýn og jákvæð - þvert á súldina.

Ég man þegar forseti Íslands „spáði“ því að Katla myndi fylgja gosinu í Eyjafjallajökli eftir og ég held að ýmsir hafi skilið það sem hótun. Í sama dúr ætla ég að kenna nýju lögunum um virðisaukaskatt á gistingu um. Samkvæmt þeim á ekki að hækka verð á gistingu og þannig ætla ég að túlka það að laun leiðsögumanna hækki ekki eins og þarf. Ferðaþjónustan á áfram að vera láglaunastarfsgrein.

Flestir leiðsögumenn eru lausráðnir og vinna hjá ýmsum ferðaþjónustufyrirtækjum. Atvinnuöryggið er sáralítið en samt eru kjarasamningarnir til skammar. Heildarlaun fyrir átta tíma dagvinnu leiðsögumanns sem er hokinn af starfsreynslu eru kr. 12.094,4. Þegar kostnaði launagreiðanda vegna almennra bókakaupa, fatnaðar og orlofs hefur verið bætt við leggur dagurinn sig á 15.436,16 og þá á leiðsögumaðurinn í raun hvorki matartíma né kaffitíma, getur aldrei skroppið til læknis, tannlæknis eða sinnt barni. Leiðsögumaður í ferð er kyrrsettur þar sem hópurinn er hverju sinni. Leiðsögumaður á ofangreindum launum fær ekki eina mínútu frí á kaupi. Hann má strjúka frjálst um höfuð og líta einstaka sinnum af ferðafólkinu en hann á engan tíma fyrir sig meðan hann er í dagsferð.

Ef leiðsögumaður er ráðinn til að fara í bæjarferð kl. 10-14 fær hann greiddar fjórar klukkustundir en vinnur hvergi annars staðar upp í heilan dag. Ef leiðsögumaður ræður sig í vinnu kl. 8-16 fær hann átta dagvinnustundir. Ef leiðsögumaður ræður sig í vinnu kl. 10-18 fær hann átta dagvinnustundir.

Ég er varamaður í kjaranefnd Félags leiðsögumanna og ef mér tekst ekki að snúa olíuskipinu í næstu samningum verða dagar mínir í þessu starfi taldir frá og með næsta vori.

En hvað á leiðsögumaður að rukka sem verktaki?

 

... og karfinn

Sundhöllin fær liðsauka

Ef útisundlaug á lóðinni við Sundhöllina verður að veruleika ... þarf [næstum] aldrei framar að gera mér neitt til hæfis. Þá er hverfið orðið [næstum] fullkomið.

Grunnþarfir ferðamanna

Það er ekki að furða að margir félagsfundir leiðsögumanna fyrr og síðar hafa leiðst út í umræður um klósettmál. Ef fólk fær ekki að borða og drekka eru vandræði. Ef fólk losnar ekki við það aftur eru líka vandræði.

Þegar ég fer með túristana mína á einhvern stað þar sem ekkert er sérstaklega pantað segi ég frá þeim möguleikum sem bjóðast: ís (í þessu frábæra veðri! segi ég yfirleitt með upphrópunarmerki og uppsker allajafna hlátur), kaffi, samloku, nammi, bjór (sums staðar, alveg satt) - og svo er hægt að losa um pláss. Ég man aldrei eftir að hafa komið í sjoppu, hvorki stærri né minni, þar sem túristarnir fara bara á klósettið en ég hef reyndar ekki farið margar hringferðir.

deila menn opinberlega um klósettferðir og innkaup í sömu ferð og ég held að menn verði að losna við einstakar persónur út úr þessu máli. Þetta ætti að vera hluti af stefnunni í ferðaþjónustu í ferðaþjónustulandi. Fólk er alvant því í öðrum löndum að borga sérstaklega fyrir þessa þjónustu. Er nú svo komið að við þurfum einfaldlega að hafa lás á klósettinu? Í fyrrasumar var rukkað á Þingvöllum og er það ekki bara í lagi ef það er vel kynnt?


Hver er sannleikurinn um hvalveiðarnar?

Nú er aftur leyft að veiða hval við strendur Íslands. Mér skilst að það séu vistkerfisrök fyrir veiðum úr sumum stofnum en svo skilst mér að hvalkjötið seljist ekki og alþjóðasamfélagið standi á öndinni af sturlun út í hvalveiðarnar.

Túristana mína langar suma hverja í hvalkjöt og suma í hvalaskoðun og suma í hvort tveggja. Ég get ekki gert annað en að bjóða þeim eftir megni mínu upp á öll þau rök sem ég heyri en ég veit fjandakornið ekki hið sanna í málinu. Eru hvalirnir sem voru veiddir fyrir þremur árum í frystigeymslum einhvers staðar?

#fruss


Hótel í miðbænum

Egill Helgason er rökfastur maður og kann ágætlega að tjá sig en ég er samt óskaplega ósammála honum um að ástæðulaust sé að amast við nýrri hótelbyggingu á NASA-reitnum. Ég er iðulega þarna í rútum með fjölda manns og það er alltaf erfitt að athafna sig, líka þótt við séum „bara“ nokkrir stórir jeppar að sækja hópa fólks.

Þegar ég er í útlöndum vil ég líka vera miðsvæðis í borgum. Það er reyndar ekki alltaf í boði og þá er mikilvægt að almenningssamgöngur séu góðar. Á Hilton, sem ég myndi ekki flokka miðsvæðis í Reykjavík, fá hótelgestir strætópassa og komast þannig milli hverfa með sæmilegu móti. Þeir farþegar sem hafa tíma og kjósa að gera gott úr hafa farið í útsýnisferðir með strætisvagni og verið margir hverjir himinlifandi. Það væri samt til bóta að geta tekið vagn af Suðurlandsbrautinni og alla leið niður í Lækjargötu en þá þarf fólk að hafa rænu á, eða láta segja sér, að taka leið 11 af Háaleitisbrautinni.

Ef alvara verður gerð úr því að tildra upp hótelum um allan miðbæ þarf að minnsta kosti að sjá til þess að rútur, jeppar og leigubílar eigi greitt aðgengi. Passar það við Austurvöll?


Sumarið er á næsta leiti

Sól í kortunum

Eða verður maður ekki að trúa því að haustið sé ekki komið?


Hroki kristninnar

Nei, fyrirgefið, kannski er hrokinn bundinn við biskupsræðuna.


89/11

Fastanefndir þingsins eru átta og í hverri þeirra sitja níu fulltrúar. 

Þingmenn eru 63; 38 karlar og 25 konur. Þeir eru 60,3% og þær 39,7%. Svona fóru kosningarnar eftir að búið var að raða á framboðslista eftir forvöl, prófkjör og uppstillingar.

Nú heyrist mér, m.a. sem ég sit hér og hlusta á Vikulokin, sem eitthvert slembiblembi ráði ferðinni þegar flokkarnir kjósa fólk í nefndir. Jæja, ég get bara sagt það að ef ég sæti á þingi myndi ég helst vilja sitja í fjárlaganefnd, til vara í efnahags- og viðskiptanefnd og þrautavara í atvinnuveganefnd. En líklega er framboðið meira en eftirspurnin ...


20. hæðin

Nú stendur yfir skákmót á Höfðatorgi, á 20. hæðinni. Ég man þá tíð þegar tíðindi af skákmótum voru hluti af aðalfréttatíma sjónvarpsins en nú veit ég ekki hvaða tilviljun veldur því að ég veit af skákmótinu yfirleitt.

Ég leit inn þar áðan, umferðin hófst kl. 17, og það var hálfhráslagalegt um að litast á hæðinni en útsýnið yfir Túnin var fagurt. Og nú er það verkefni mitt að komast að því hvort maður má sisona fara upp með hraðskreiðri lyftunni eða hvort það er bara opið rétt á meðan skákmótið stendur yfir.

 Turninn að utanTúnin úr Turninum, Höfðatorgi


Löggilding leiðsögumanna

Við leiðsögumenn komum úr ýmsum áttum. Ég fór til dæmis í leiðsöguskólann haustið 2001 af því að mér fannst ég ekki vita nógu mikið um landið. Með mér á skólabekk sátu reyndir leiðsögumenn og langreyndir bílstjórar ásamt einhverjum sem voru nýbúnir með menntaskóla og voru ekki með mikla lífs- eða starfsreynslu.

Gaman að því. Ellefu árum síðar er ég enn viðloðandi leiðsögn, sem ég var ekkert endilega á leiðinni út í, og finnst það alltaf skemmtilegt. En leiðsögnin er ekki lífsviðurværi mitt. Ég er heppin, ég er í annarri skemmtilegri vinnu á veturna og tek bara það að mér sem mér finnst skemmtilegt, það sem mig langar að gera og fyrir þær ferðaskrifstofur sem ég vil vinna fyrir. Ég þarf ekki að lifa af þessu og frómt frá sagt skil ég ekki að hægt sé að tala um ferðaþjónustu sem heilsársatvinnugrein þótt túristar komi hingað allt árið.

Kjarasamningarnir okkar eru ekki góðir og í einhverju tilliti er við okkur sjálf að sakast. Of margir í röðum leiðsögumanna líta á þetta sem hobbí og finnst óþarfi að greiða sæmilegt tímakaup. Við höfum ekki fengið löggildingu sem þýðir að hver sem er getur kallað sig leiðsögumann og farið í styttri og lengri ferðir með ferðamenn án þess að brjóta lög eða reglur. Sumir óskólagengnir eru fyrirtaksfínir leiðsögumenn og sumir skólagengnir eru ömurlegir leiðsögumenn (ég gef mér þetta út frá tölfræði) en allt gott leiðsöguefni fær betri skólun með því að læra markvisst um svæðin sem til stendur að sýna og æfa sig á tækninni meðan hægur vandi er að leiðbeina og vísa veginn.

Sem faglærður leiðsögumaður, sem félagi í Félagi leiðsögumanna og áhugamaður um bætt kjör og betri þjónustu ætti ég auðvitað að vera viss en ég held aðeins að regnhlífin Samtök ferðaþjónustunnar standi öðru og öðrum fremur í vegi fyrir öllu þessu sem mig dreymir um og væri stéttinni, faginu, farþegunum og landinu til framdráttar. Löggilding leiðsögumanns ferðamanna væri skref í rétta átt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband