Miðvikudagur, 31. júlí 2024
Guðlaug Edda og Anton Sveinn
Ég horfði á viðtalið við Guðlaugu Eddu Hannesdóttur (29) og táraðist alveg. Þvílíkur karakter sem hún er. Þvílík forsmán af mótshöldurum að ræsa fólk kl. 6 til að segja því að keppni í þríþraut verði haldin kl. 8! Ég skal hundur heita ef engin eftirmál verða af þessu.
Ég horfði líka á ávarp Antons Sveins McKee (30) eftir síðasta Ólympíusundið hans og komst líka við. Mikið sem við megum vera stolt af þessu afreksfólki. Það hlýtur að vera vandasamt að vera í einstaklingsíþrótt sem hefur lítinn opinberan stuðning.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. júlí 2024
Brimborg
Svona auglýsingar hafa þveröfug áhrif á mig. Ég mun sniðganga Brimborg og helst alla bíla sem eru upprunaseldir hjá fyrirtækinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 27. júlí 2024
Nýr bíll staðgreiddur?
Ég hef aldrei keypt nýjan bíl enda aldrei haft áhuga á því. Helst vildi ég vera bíllaus til lengdar en mun líklega enda á að kaupa mér bíl þar sem almenningsvagnakerfið er ekki hliðhollt þeim sem vilja fara um landið.
En út af fréttinni um verðandi forseta verð ég að spyrja: Kaupir fólk almennt bíl með lánum frá bílasölunni sjálfri? Tekur það ekki alltaf bílalán ef það á ekki fyrir bílnum og borgar bílasölunni en skuldar áfram bankanum eða öðrum lánveitanda? Hvers vegna er þá veittur staðgreiðsluafsláttur frekar en að verðleggja bílinn í samræmi við það?
Er ekki einhver villa í frásögninni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. júlí 2024
Vottur af flóði
Ég var það óheppin í vetur að rétt eftir að ég lét pússa parketið lak snjór af hjólinu í forstofunni undir þröskuldinn (sem hafði þá aðeins losnað frá) og skemmdi nokkrar lamellur sem eru spýturnar (ég er nýbúin að læra þetta fræðiheiti, hoho). Ég fékk smið til að laga þröskuldinn og hélt að svo mætti slípa lamellurnar aftur. Nei, það gekk ekki, þær fóru að vinda upp á sig og kvarnast úr þeim. Í gær kom smiðurinn aftur og sleit ónýtu lamellurnar upp og þegar hann ætlaði að sníða til nýjar og leggja þær reyndist aðeins of mikill raki enn á því sem er næst þröskuldinum.
Skítaredding er þessi motta sem átti að vera alveg í felulitunum. Er þetta ekki bara nokkuð smart?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. júlí 2024
Bróðurómyndin
Þegar ég fæddist var ég fjórða systkinið og það síðasta. Ekkert okkar er dáið en ég lít svo á að við séum bara þrjú vegna þess að þegar ég sá á eftir foreldrum mínum 2018 og 2019 kom í ljós úr hverju sá bróðir var gerður sem var næstur mér í aldri.
Mér finnst stundum gott að segja þetta upphátt á bloggsíðu vegna þess að ég er alltaf að heyra sögur um vinslit í fjölskyldum og þótt tilefnið sé sorglegt finnst mér gott að finna að við systkinin þrjú sem stóðum og stöndum saman erum ekki ein um að horfa á eitt systkinið fara yfir öll mörk. Þessi bróðir, sem mér finnst ekki lengur vera í systkinahópnum, hafði svo sem sýnt takta í ætt við græðgi, tilætlunarsemi og yfirgang, bæði gagnvart mömmu og pabba og svo sjálfri mér, en ég var samt svo hrekklaus að ég varaði mig ekki. Ég tapaði miklum peningum á honum. Hann gerði lítið úr ákvörðunum mínum. Hann gerði almennt sitt besta til að gera lítið úr mér og tala mig niður.
Ég sé ekki eftir honum og því miður ekki heldur dætrum hans sem sýndu líka hvar þær stóðu í þessum efnum. Blóð er bara ekki þykkara en vatn og ég umgengst miklu heilbrigðara fólk en hann.
Ástæðan fyrir að ég rifja þetta upp sisona miðvikudaginn 10. júlí? Jú, ég er þrátt fyrir allt minnug á afmælisdaga og bróðurómyndin er 63 ára í dag og ég hef ekki hugmynd um hvar hann er niðurkominn, hvorki með tilliti til vinnu (sem honum hefur yfirleitt ekki haldist á) né hver mætir nú með veitingar í afmælið hans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)