Sunnudagur, 20. júlí 2025
Evrópusambandið eða ekki
Ég er lengi búin að vita að á Íslandi þrífst spilling, en ég held að ég sé dálítið orðin samdauna henni. Sjúkt ástand sem varir lengi verður normið. Ég hef sjálf ekkert að óttast, t.d. ekki um afkomu mína, en samt tala ég varlega svo ég styggi engan. En núna, þegar ég les svo mikla heift sumra út í Evrópusambandið - sem ég hef ekki hugmynd um hvort ég vil ganga í eða ekki - hallast ég að því að Evrópusambandið sé það eina rétta. Helstu og háværustu andstæðingarnir, sem maður veit að skara fyrst og fremst eld að eigin köku eða kökum vina sinna, átta sig ekki á því að þeir uppskera allt annað en þeir sáðu til.
En af því að samsæriskenningar eru svo vinsælar spyr ég: Eru yfirlýstustu andstæðingar ESB kannski með leikrit og eiga hauka í hornum ESB?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 11. júlí 2025
Þversögn stjórnarandstöðunnar
Ég skil að sumir þingmenn eru á hærri launum hjá stórútgerðinni en á þingi. Ég skil að sumir einstaklingar hafa ekki metnað fyrir hönd þjóðarinnar. Ég skil að fólk sé ósammála mér. Ég get skilið það allt.
Það sem ég skil ekki er þegar þetta sama fólk reynir ekki að vera sannfærandi í málflutningi sínum. Nú talar sama fólkið um að það verði að ræða og samþykkja fjármálastefnu og/eða fjármálaáætlun sem fjárlagagerðin byggi á, það talar um að mörg brýn mál bíði sem komist ekki að vegna þess að ríkisstjórnin vilji fyrst afgreiða veiðigjaldsfrumvarpið sem þorri landsmanna vill að verði samþykkt. Og núna þegar á einmitt að forgangsraða í þágu þessara sjónarmiða með því að greiða atkvæði um mál sem meiri hlutinn er einhuga um kemur sama fólkið og mótmælir sínum eigin sjónarmiðum.
Ég var búin að stinga upp á að hinir fáu andstæðingar þess að fiskurinn verði í sameign þjóðarinnar myndu biðja um þjóðaratkvæðagreiðslu og það er sjálfsagt enn hægt.
Kjarnorkuákvæði 71. gr. þingskapa er of stórt orð fyrir þá hugsun að takmarka óhóflegar umræður þegar öll sjónarmið eru komin fram. Norrænu þingin eru með skipulag um sínar umræður og nú er lag að gera eins.
---
Einn þingmaður sem hefur talað í marga klukkutíma kallar veiðigjaldið núna eitt lítið skattahækkunarmál. Þá hló ég upphátt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. júlí 2025
Veiðigjaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu
Ég man árið 2004 þegar þáverandi forsætisráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á fjölmiðlalögum, svokallað frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum nr. 53/2000 og samkeppnislögum nr. 8/1993. Því var útbýtt 28. apríl, tæpum mánuði eftir síðasta dag, rætt 3., 4., 11.-15., 19., 21., 22. og 24. maí þegar það var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 30 og einn þingmaður sat hjá. Þá var mikið talað um að í Noregi hefði svipað frumvarp verið undirbúið og rætt í fjögur ár.
Mér finnst vissulega gaman að gramsa í vef Alþingis og rifja upp en nú háttar svo til að ég sé lausn á þrætunni um veiðigjaldið. Ef frumvarpið verður núna borið undir atkvæði verður það auðvitað samþykkt af meiri hlutanum sem stendur með því en svo getur forseti neitað að skrifa undir það og skotið til þjóðarinnar.
Tillagan mælir með sér sjálf og nú er bara að skjóta þessu að þinginu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 4. júlí 2025
Þingmenn eru þingmönnum verst
Algjörlega óháð uppistandinu og gríninu sem ég fylgist samviskusamlega með á Alþingisrásinni er ég á því að þingmenn geti sjálfum sér um kennt þegar fólk segist lítið mark geta tekið á þeim. Þau tala:
a) eins og starfið snúist um að þau komist í sumarfrí, jólafrí, páskafrí - eða heim! eins og þingmenn séu hlekkjuð við vinnustaðinn allan sólarhinginn á vinnutíma. Það er löngu tímabært að einblína á verkefnin en ekki klukkan hvað þeim lýkur.
b) eins og þau séu ekki í vinnunni nema í þingsal. Allt sanngjarnt fólk áttar sig á að þingstörfin felast ekki í ræðuhöldunum, aftur burt séð frá málþófinu. Ræðurnar eiga að kjarna þær skoðanir sem einstaklingar eða eftir atvikum flokksheildirnar hafa. Megnið af vinnunni á sér stað hjá frumvarpshöfundum og svo í nefndavinnunni.
Og þetta á ekki við um þennan meiri hluta og þennan minni hluta sem eru núna á Alþingi.
Að lokum óska ég þess að þingmál megi lifa á milli þinga. Ef því hefði verið breytt einhvern tímann væri hægt að kæfa þennan málþófseld núna og endurvekja hann um miðjan september. Ef málið verður hins vegar ekki afgreitt fyrir annan þriðjudag í september þarf að mæla fyrir því að nýju, hvernig sem því yrði breytt og jafnvel þó að ekki staf yrði breytt, og þá gæti hringekjan farið aftur af stað.
Nördinn í mér hefur gaman af þessum fíflagangi en vitsmunirnir í mér hrópa að nú verði að fara að sinna brýnum hagsmunum alls almennings og þá er ég ekki að tala um sumarfrí þingmanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 2. júlí 2025
Málþóf fyrir lengra komna
Við sem erum komin af barnsaldri munum margt málþófið. Ég man líka að sömu þingmenn hafa stundum verið í stjórn og stundum stjórnarandstöðu. Ég gæti auðvitað aldrei verið á þingi, það þarf breitt bak, loðnar axlir og hæfilega ófyrirleitni til að halda út misgóða daga. En þessi grein var skrifuð fyrir sex árum.
Lengi vel þótti það vitnisburður um elju og þrótt að vinna langa daga, en sú skoðun hefur á undanförnum árum látið undan þar sem við horfum til afkasta í stað vinnustunda. Umræðan á íslenskum vinnumarkaði snýst sífellt meira um framleiðni, þ.e. afköst á hverja vinnustund, og er framleiðniaukning ein af forsendum styttingar vinnuvikunnar. En eins og afköst geta aukist á hverja vinnustund, þá geta þau dregist saman. Því höfum við fengist að kynnast síðustu daga á Alþingi, þar sem fámennur hópur þingmanna hefur tekið afgreiðslu þingmála í gíslingu með málþófi. Það er nefnilega ekkert í þingsköpum sem bannar þingmanni að flytja sömu ræðuna tvisvar, eða í tugi skipta, sé út í það farið. Málfrelsi þingmanna er mikilvægt og er það sérstaklega varið í flestum þjóðþingum heims.
En málþóf á ekkert skylt við málfrelsi eða lýðræði, og þekkist nánast hvergi utan Íslands. Málþóf er séríslenskt fyrirbrigði. Alþingi er enginn venjulegur vinnustaður. En vinnustaður er hann engu að síður, þar sem vanda þarf mjög til verka til að tryggja góða lagasetningu. Þegar andstæð sjónarmið hafa komið fram í þingsal er nauðsynlegt að leiða mál til lykta, ýmist með málamiðlunum eða með atkvæðagreiðslum þar sem hreinn meirihluti ræður. Hvort sem þingmenn verða undir eða yfir í einstaka málum er óumdeilt að þetta er skilvirk og sanngjörn aðferð til að komast að niðurstöðu. Daga og nætur eru þingfundirnir undirlagðir af ræðum þingmanna úr einum þingflokki þar sem hver þingmaðurinn fer í ræðustól á fætur öðrum og samflokksþingmennirnir tínast í andsvör við þann fyrri. Að ógleymdu hólinu hvers til annars, það er gott að fá klapp á bakið. Þrátt fyrir að túlka megi þingsköp, sem skapa rammann um hvernig þinghaldi skuli háttað, með þeim hætti að þingmönnum sé frjálst að halda uppi umræðu endalaust, þá er þar kveðið skýrt á um að andsvör séu aðeins heimiluð með leyfi forseta. Þá er einnig að finna heimild í 71. gr. þingskapalaga til þess að takmarka umræður.
Ég tel rétt og eðlilegt að þingheimur hugi að þessum heimildum til framtíðar. Núverandi fyrirkomulag, þar sem fámennur hópur stjórnarandstæðinga getur tekið þingið í gíslingu, gengur ekki til framtíðar.
Ef þið smellið á krækjuna sjáið þið það sem þið vissuð fyrir, viðkomandi þingmaður er nú í grimmu málþófi.
Þingmanninum var greinilega bent á þessa grein vegna þess að hún varði sitt eigið málþóf í ræðu seinni partinn, kl. 14:57.
Ef þingið hefði komið því í verk fyrir nokkrum árum að breyta lögum þannig að mál lifðu milli þinga horfði málið allt öðruvísi við. Ég er ekki flokkspólitísk en ég vil rukka auðugu útgerðirnar sem maka krókinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)