Kosningar í Danmörku eftir 16 daga

Hef ég sofið yfir fréttunum síðustu dagana eða hafa fjölmiðlar ekki gert dönsku kosningabaráttunni nein skil? Hún verður snörp þar sem boðað var til kosninganna með þriggja vikna fyrirvara.

En heppin ég að vera með DR1 og hafa líka aðgang að vefsíðu danska ríkisútvarpsins. Verst að ég er ekki nógu vel að mér um dönsk stjórnmál og veitti ekki af almennilegum fréttaskýringum.

Mun Lars LØkke halda velli og Venstre með honum?


Kurt Wallander þambar kaffi

Þær ávirðingar sem bornar hafa verið á Guðrúnu frá Lundi fyrir að láta sögupersónur sínar bergja á kaffi endrum og eins - sumir segja öllum stundum - hafa þvælst fyrir mér síðan ég byrjaði á Dalalífi og einkum eftir að ég lauk því. Nú er ég að lesa bók eftir Henning Mankell og ég held að ég ýki ekki þegar ég segi að a.m.k. á 10 blaðsíðna fresti fái sér einhver kaffi, og oft eru miklar vangaveltur um kaffidrykkjuna, hvort kaffið sé kalt, staðið, nýlagað, á brúsa, í bolla eða annað.

Höfundar skrifa ekki um klósettferðir persóna sinna en kaffidrykkja er svo mennsk að hún býr til umgjörð í löngum sögum, hjálpar fólki að spjalla, brýtur ís og drífur áfram sögur. Og hananú, ég held að ég verði bara að kvarta yfir myndunum eftir sögum Hennings þar sem fólki er sjaldan boðið kaffi ...


Aumingja hjólreiðamaðurinn (ég)

Ég átti erindi á 19. hæðina í Turninum við hliðina á Smáralind í dag. Auðvitað valdi ég að hjóla í þetta fjarlæga bæjarfélag af því að ég vel bíllausan lífsstíl og af því að ég hafði tíma. Það kom svo sem niður á vandvirknislegri hárgreiðslunni því að það rigndi þennan klukkutíma en það verður ekki á allt kosið.

Verra þótti mér að hafa ekki almennilega hjólaleið. Þegar ég hjólaði Fífuhvammsveginn til baka lenti ég í þvílíkum andskotans ógöngum að ég þurfti að rífa hjólið upp fyrir vegrið - og var þá búin að kaupa glös í millitíðinni og setja í körfuna. Þau brotnuðu ekki.

Ein vinkona mín væri vís með að segja mér að ég hefði átt að fara tiltekna hjólastíga þannig að ég ætla strax að svara þeim málsvara andstæðingsins. Ég fór eðlilega leið og það er ekki hægt að ætlast til að fólk sem hjólar einu sinni í Kópavoginn þekki alla hugsanlega stíga á leiðinni. Fólk sem hjólar er heldur ekki alltaf bara að því sér til afþreyingar og dægrastyttingar, stundum á maður einfaldlega erindi milli bæjarhluta og þá vill maður ekki hjóla hálfa leiðina til tunglsins í leiðinni.

Ef ríki kínverski kommúnistinn vill láta gott af sér leiða mætti hann byrja á grunnþjónustu og bíða með allan grefilsins lúxusinn á Grímsstöðum.

Það var líka smávindur á leiðinni


Skrilljarðafjárfestingar í ferðaþjónustu

Einhver Kínverji hefur keypt köldustu jörð Íslands fyrir skrilljónir og ætlar að eyða meiri trilljörðum í að byggja upp ferðaþjónustu. Vei. Ekki ætla ég að hafa á móti því að útlendingar festi hér fé eða sjái möguleika þar sem innlendingar sjá þá ekki eða hafa ekki efni á að leggja andvirði skóla í áhættufjárfestingu.

Ég get bara ekki að því gert að ég trúi ekki að þessi fjárfestir ætli ekki að hafa eitthvað út úr þessu. Og hvernig fer hann að því?

Ég streða við að hugsa út fyrir rammann en þegar Ingólfur Bjarni er búinn að segja mér tvisvar eða þrisvar í fréttatímunum að um sé að ræði tugi milljarða fæ ég bara störu út í bláinn.

Lúxushótel? Og ætla lúxusgestirnir að láta fljúga með sig á þyrlum eða hossast eftir þvottabrettunum?

Ég hef starfað í ferðaþjónustunni í bráðum 10 ár, meira en 20 ár ef næturvarsla á hóteli er talin með, og sé mikla þörf fyrir grunnþjónustu, s.s. vegi, merkingar, klósett, opin hótel í maí og október, álfa og gott veður. Og nú býðst bráðum lúxushótel handan við alla grunnþjónustu.

Ég bíð spennt eftir tækifæri til að skipta um skoðun, alveg galopin fyrir því.


Íslenskur trjábanki í málvísindum er orðinn að veruleika

Og hvað er það? Textabanki sem nær aftur á 12. öld. Maður getur skoðað málbreytingar, þar á meðal orðaröð, í þessum gagnagrunni. Harðsnúið lið hefur unnið í einhver ár að safni 1 milljónar orða og nú geta bæði fræðimenn og áhugamenn grúskað í honum.

Víðast annars staðar eru svona bankar harðlæstir en þessi er opinn öllum.


Hjólastandur

Ég veit ekki hversu mikil eftirspurn er eftir hjólastöndum en hún getur varla verið mikil úr því að þessi vara er ekki seld í reiðhjólaverslunum. Hún er uppseld í Byko og ég hef ekki fundið hana á öðrum vefsíðum. Standarinn er heldur slappur á mínu hjóli og þess vegna bráðvantar mig svona áhald.

Hvar fæst hjólastandur (á sanngjörnu verði)? Ég er með leyfi frá öðrum í húsinu til að negla hann fastan við stéttina!


Sanngjarnar kröfur + almenningsálitið

Ekkert veit ég um viðræður leikskólakennara og sveitarfélaga annað en það sem hefur verið í fjölmiðlum. Úr þeim fréttum les ég að kröfurnar hafi verið sanngjarnar. Reyndar virka þær hóflegar á mig, enda hefur almenningsálitið eiginlega verið alfarið með þeim sem gæta barnanna og mennta þau.

Og ég get ekki varist þeirri tilhugsun að Halli [hvernig er hægt að kalla hann Harald Frey?] hafi átt gríðarlega mikið í þessum samningi sem var undirritaður í gær og við vitum reyndar ekki enn alveg hvernig er. Hann var reyndar með góðan málstað en hann var líka svo einlægur í svörum og ég féll alveg fyrir öllum bolunum sem hann mætti í í stað þess að stríla sig upp í jakkaföt.

Ég trúi að við megum öll vel við una.


Svo mælti Jón

... við eigum miklu örðugra en þið, sem ekki þurfið nema að sigla beggja skauta byr, þegar þið eruð orðnir kandidatar, og skrúfa stelpur rétt í hægðum ykkar, þar sem við verðum að hafa allar klær úti og dugir þó ekki. (bls. 188 í bók Guðjóns Friðrikssonar um Jón Sigurðsson, Mál og menning, 2002)

Hvað er Jón að meina? Skrúfa stelpur?


Ketilríður - Merkútsíó - Skafti Tímóteus

Ég var á málþingi um lífið í Hrútadal á laugardaginn mér til lítt blandinnar gleði. Það var smekkfullt í félagsheimilinu Ketilási, svipað og mér skilst að hafi verið á hliðstæðu málþingi í fyrra.

Hallgrímur Helgason rithöfundur var stjarnan á festingunni, fyndinn að vanda og rökstuddi gríðarlega vel af hverju Dalalíf lifir og lifir, er lesin og rædd. Ég hef nú bara lesið Dalalíf einu sinni (2187 síður) og hann líka en auðvitað féllum við ekki endilega fyrir sömu lýsingunum og sömu málsgreinunum. Dalalíf þyldi alveg annan lestur en mér er til efs að ég lesi bókina aftur, læt duga að muna það sem ég man.

Hallgrími fannst Ketilríður alveg mögnuð. Ég geld kannski fyrir að ég var búin að heyra um Ketilríði sem magnaða kerlingu áður en ég las bókina og mér finnst hún bara svona og svona. En Hallgrímur var með þá kenningu að Ketilríður hefði verið látin hrökkva upp af eftir stutta dvöl í sögunni (þótt hún væri orðin afgömul, a.m.k. fimmtug ...) vegna þess að ella stæli hún senunni frá aðalpersónunum. Svo bar hann saman við Hamlet og Merkútsíó og varpaði fram þeirri kenningu (sinni eigin?) að Merkútsíó hefði safnast til feðra sinna svo fljótt til að varpa ekki skugga á Hamlet.

Þá rann upp fyrir mér ljós. Ég er að lesa Jón Sigurðsson eftir Guðjón Friðriksson, já, hann þarna frelsishetjuna sem hefði orðið 200 ára um daginn ef hann hefði lifað af dauða sinn og nú þori ég varla að skrifa það sem ég les út úr fyrstu 100 blaðsíðunum hjá GF. Skafti Tímóteus hét samtíðarmaður Jóns, skarpgreindur mannfjandi sem hefði veitt greind JS fáránlega samkeppni ef ...

Get ekki skrifað það, þetta er svo svakaleg tilhugsun.


,,Fyrirgefið, en þetta var samt ekki mér að kenna"

Ég heyrði í ferðamálastjóra í útvarpinu áðan. Hún er ósköp hófstillt og yfirveguð (ég bíð samt enn eftir yfirlýsingum frá framkvæmdastjóra SAF) en ég held að hún hafi ekki lög að mæla þegar hún segir að hvaða Íslendingur sem er geti stofnað ferðakompaní eftir íslenskum lögum og farið í Alpana með hópa án þess að gera grein fyrir sér. Í mörgum Evrópulöndum (og örugglega víða utan Evrópu) þarf að hafa heimamann með í för. Þetta snýst ekki um þjóðernið, þetta snýst um þekkinguna og umgengnina.

Og nú biður framkvæmdastjóri Adventura okkur afsökunar á hvernig fór en segir um leið að við gætum ekki hófs.

En segið mér, fréttamenn, af hverju spyrjið þið ekki (ykkur) þegar hann segir að fyrirtækið hans sé stærsti viðskipavinur Icelandair hvort fólkið fljúgi en trukkurinn komi með Norrænu? Það getur vel verið en það er allt í lagi að ganga úr skugga um það. Margir farþegar koma nefnilega með bílunum. Og í öðru lagi væri þá gaman að vita hversu stór hluti í veltu flugfyrirtækisins væri vegna þessa fyrirtækis. Má ekki kanna það?

Að lokum, ég hef hitt fólk í vikunni sem sá gulan tékkneskan bíl fara geyst á Snæfellsnesi í fyrra. Þessi glæfraakstur sem endaði í Blautalóni er hvergi nærri einsdæmi. Og myndirnar sem hafa birst að undanförnu sá ég líka á jeppaspjalli.

HVAÐ ÆTLA FERÐAMÁLAYFIRVÖLD AÐ GERA? Eru þau ráðalaus? Ná hvorki lög né reglugerðir yfir glæpsamlega meðferð á landinu eða akstur sem getur gert út af við fólk?


Finnst SAF ekkert þegar öryggi gesta landsins er í hættu?

Nú hefur iðnaðarráðherra tjáð sig um ferðir um hálendi Íslands á vegum erlendra ferðaskrifstofa.

Ef ferðaskrifstofa hefur hlotið tilskilin leyfi í einu Evrópulandi þá á hún að geta starfað í allri álfunni. Þetta gildir einnig um íslenskar ferðaskrifstofur sem er heimilt að fara með hópa á sínum vegum til annarra landa.

Ég þykist vita að í mörgum Evrópulöndum þurfi íslenskar ferðaskrifstofur að ráða þarlenda leiðsögumenn til að fara með sér, sjálfsagt af öryggisatriðum og líka upp á staðbundna þekkingu. Er okkur vandara að gera slíkar kröfur til þeirra sem koma hingað?

Leiðsögumenn hafa farið fram á löggildingu starfsheitis síns í mörg ár en erindið verið tafið í sífellu og sent milli ráðuneyta. Umfram allt hefur það strandað á afstöðu SAF, Samtaka ferðaþjónustunnar. Ég vil ekki nafngreina neina þótt ég gæti það (af því að það væri eins og að vitna í tveggja manna tal) en SAF hafa ekki viljað ljá máls á erindi okkar vegna þess að þá gætu nokkrir nafntogaðir menn ekki sinnt leiðsögn þar sem þeir eru ekki skólagengnir leiðsögumenn. Stjórn Félags leiðsögumanna hefur boðist til að prófa þá til að þeir geti fengið réttindi og jafnvel viljað íhuga að veita þeim undanþágu. Allt hefur komið fyrir ekki.

Kannski eru þessi rök ekki sérlega skotheld vegna nafnleysis en ég veit samt að SAF standa í vegi fyrir því að auka öryggi farþega í landinu með þessari stífni sinni. Og ætlar forystan þar ekki að opna munninn út af gáleysisakstri tékknesku rútunnar? Eru SAF í sólarfríi eða sofandi um þessar mundir?

Sjálf nýt ég lífsins á svölunum mínum í sumarfríinu en ef ég bæri þessa ábyrgð myndi ég reyna að axla hana.


Hvað segja Samtök ferðaþjónustunnar um tékkneska glæfraaksturinn?

Það tók mig tvo daga að skynja þögnina frá forystusveit ferðaþjónustunnar vegna Tatrabus sem selur ferðir til Íslands sem ganga út á áhættuakstur. Þegar brúna yfir Múlakvísl tók í sundur vegna náttúruhamfara heyrðist grátur og gnístran tanna en þegar um er að ræða fyrirtæki sem hægt hefði verið að koma böndum á heyri ég ekki múkk.

SAF vita kannski upp á sig sökina.

Leiðsögumenn hafa barist fyrir löggildingu starfsheitis síns, m.a. til að koma í veg fyrir að óvant og kærulaust fólk fari með hópa um landið. Og það er ekki nóg að vera Íslendingur til að geta gert þetta skammlaust, maður þarf að vera vanur og öruggur í alla staði. Aldrei færi ég á íslensk fjöll nema með bílstjóra sem ég treysti og vissi að kynni til verka.

Hvað gerist núna?


Furðustrandir - lausar við húmor

Að sönnu fjallar nýjasta saga Arnaldar um grátt morðmál, mál sem ekki er hlæjandi að, sorg og trega, vanlíðan og dapurleg örlög. Erlendur getur ekki lagt til hliðar hvarf bróður síns og fer austur á firði í fríinu sínu og kemst þá á snoðir um annað mannshvarf, 60 ára gamalt, og linnir ekki látum, ærir mann og annan sem öll [svo] eru á því meira og minna að liðið sé liðið.

Mér finnst ennþá Grafarþögn besta bókin þar sem Arnaldur nær snilldarlega að flétta saman samtímalega atburði, heimilisofbeldi og fornt glæpamál, aðallega út af skírskotuninni til nútímans. Eins finnst mér, eða fannst, Dauðarósir furðulega lítið umtöluð saga þar sem Arnaldur snerti á rammpólitísku fiskveiðistjórnarmáli og byggðaröskun.

Í Furðuströndum fléttar Arnaldur aftur inn í söguna sína alvörumannskaða og á hrós skilið fyrir fagmennskuna. Erlendur rúntar Fagradalinn fram og aftur og fer vítt og breitt um Austfirðina sem er gaman, fyrir mig ekki síst af því að ég náði að spóka mig þar aðeins í sumar (já, maður er upptekinn af sjálfum sér), en mér finnst að höfundar megi krydda með votti af húmor og almennum skemmtilegheitum. Er það frekt af mér?

Eina skiptið sem ég skellti upp úr, og efast um að menn hafi gert það heilt yfir, var þegar afgreiðslustúlka sagði honum í stað hann og á eftir kom setningin: Það var eins og hún hefði aldrei fengið neitt við þágufallssýkinni.

Ég finn ekki setninguna við snöggar flettingar, en þetta var eina skiptið sem ég hló að bókinni og mér finnst það aðeins of sjaldan.

Annars bara ...


Íslenskur bílstjóri?

Mér er sagt að bílstjóri sem þekkti til, íslenskur eða erlendur, hefði alls ekki reynt að fara þarna á rútu. Kannski hefði dugað að hafa íslenskan leiðsögumann. Þess er ekki getið í fréttinni hvort einhver staðkunnugur var með í för. Ég geri ráð fyrir að RÚV sé heldur ekki forvitið um annað en það sem nefnt er í tilkynningu lögreglunnar.

Ég gæti lent í úrtakinu

Mér varð það á að fletta tekjublaði DV í hádeginu og þar rak ég augun í nöfn tveggja gamalla vinkvenna með hóflegar tekjur. Tekjur mínar eru ekkert sérstakt leyndarmál þótt ég beri ekki tölurnar á torg eða birti opinberlega en mér þætti þetta óþægilegt. Þær hafa að sönnu báðar talað fyrir framan fullt af ókunnugu fólki en eru ekki beinlínis á milli tannanna þannig að ég botna ekki alveg í hvernig þær hafa ratað á listann, greyin.

Líklega taka fjölmiðlarnir nöfn héðan og þaðan og sjálfsagt veit fólk ekkert endilega af þessu. Kannski verð ég næst í blaðinu - eða þú.


Nancy Pelosi

Ég stillti aðeins á Sky og sá Nancy Pelosi flytja ræðu til að útskýra stuðning sinn við, hvað, skuldafrumvarp forseta Bandaríkjanna, fjárlagafrumvarp? Ég er ekki vel að mér um starfshætti bandaríska þingsins, veit hins vegar að Nancy er 71 árs demókrati og forseti House of Representatives (fulltrúaþingsins?) en skilst á frænda mínum sem er nýfluttur heim frá Bandaríkjunum að demókratar séu hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn þótt þeir aðhyllist verulega frjálslegri hætti en repúblikanar.

Hvað um það, Nancy var svo yfirveguð og sannfærandi í málflutningi sínum að unun var á að hlýða. Af fréttum í dag heyrðist mér hins vegar Barack hafa dregið talsvert í land. Er Nancy þá sannfærðari um frumvarp Baracks en hann sjálfur?

Es. Það er munur á allígator og krókódíl (segi ég bara af því að ég veit það, ekki vegna þess að það komi þessu máli við).


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband