Ég þekki slúbberta

Ég las slatta af þessari meintu frétt eða umfjöllun á Vísi og mér finnst hún mjög ruglingsleg. Ég veit ekki hvort frekar er við blaðamanninn eða viðmælandann að sakast. Ég veit ekki hvort þær líta þá á sig sem slúbberta eða hvernig þær skilgreina hugtakið sem er í orðabók bara skilgreint sem

ómerkilegur náungi.

Á flestum vinnustöðum, kannski öllum, hef ég unnið með lötu fólki. Það helst ekki í hendur við laun, ábyrgð eða verkefni. Mér hefur sýnst frammistaðan stranda á yfirmönnum. Við erum mörg sem höfum einfaldlega áhuga á að vanda okkur, vinna verkefnin og veita góða þjónustu. Svo eiga yfirmenn og verkstjórar að virkja þá sem þurfa að láta virkja sig, nú, eða láta fólk fara ef það lætur ekki virkjast.

Ég veit ekki hvort breyting á starfsmannalögunum er svarið og heimild hins opinbera til að segja upp opinberum starfsmönnum. Kannski eru æðstu yfirmennirnir stundum mesti vandinn.

Prófum dæmi: Ef vinnusamur einstaklingur með háskólamenntun í grunnþjónustu er með 700.000 kr. brúttólaun á mánuði og engin hlunnindi, t.d. fasta yfirvinnu, síma, tölvu eða bíl, horfir upp á yfirmann með 3 milljónir á mánuði og litla augljósa vinnuskyldu en mikil hlunnindi gæti sá vinnusami misst móðinn. 

Það er ekki nóg að hlutirnir séu réttir, þeir verða líka að líta út fyrir það. Yfirmenn þurfa kannski að verða betri fyrirmyndir OG taka eftir þeim sem draga vagninn á hverjum vinnustað.


Að fæðast sköllótt/ur

Já, ég horfði á Kastljósið í gær. Já, ég er forviða á málflutningi Snorra Mássonar. Átti þátturinn að snúast um það hvort Snorri mætti líta svo á að kynin væru tvö, aðeins tvö og ekki fleiri en tvö? Ég greinilega missti af því í kynningunni.

Ég skil Baldvin að geta ekki stoppað flauminn.

Ég skil Þorbjörgu að koma varla orðum að rökunum.

Mér fannst Snorri vera að segja, með öðrum orðum, spurninguna: Ertu hættur að berja konuna þína? Já eða nei.

Ég er í þeim forréttindahópi að vera fædd stúlka og finnast ég hafa verið stúlka allar götur. Ég hef varla neitt meira um það að segja en vil samt segja að ég tel mig skilja að öðrum geti liðið öðruvísi. En ég þekki algjörlega mjög karlalega karla sem eru sköllóttir. Sumum getur þótt það vandræðalegt og það vegið nærri karlmennsku þeirra. En það er ekki hugmyndafræði hvort þeir eru sköllóttir þegar þeir eru orðnir hárlausir eða ekki sköllóttir.

Ég er ekki að leggja hinsegin eða kynsegin að jöfnu við (síðari tíma) hárleysi. En það að vera sköllóttur er ekki skoðun eða álitamál þess sem á í hlut. Hárleysi er sýnilegra en kynupplifun en hvort tveggja er jafn mikill veruleiki hjá þeim sem í hlut eiga.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband