Sorp og umhirða í 101/105 miðbæ

Ég fór á ákaflega málefnalegan og hreinlega skemmtilegan hverfisfund á Kjarvalsstöðum í gærkvöldi. Umræður urðu fjörugar, fólk var jákvætt og lausnamiðað en sú tillaga sem situr mest í mér er sú sem kaupmaðurinn í Kokku kom með, að ökukennarar fengju kort í bílastæðahúsin og bættu því inn í ökunámið að kenna nemendum sínum að leggja þar. Hún sagði að sumt fólk væri hreinlega hrætt við húsin. Ég nýti mér þau lítið og kannski ekki neitt en ég er líka lítið á bíl í miðborginni þar sem ég bý svo nálægt.

Svo var heilmikið talað um almenningssamgöngur og Airbnb sem mér heyrist komið til að vera.

Ása Hauksdóttir sagðist ekki með góðu móti getað tekið strætó þar sem upplýsingarnar væru svo flóknar – og hún væri bæði Íslendingur og miðborgarbúi. Ég tek svo heils hugar undir það, það er mjög mikil fyrirhöfn að finna út úr upplýsingunum á strætó.is. Og hvernig á þá að vera hægt að koma útlendingunum með strætó í Árbæjarsafnið, Grafarvogslaugina eða á Úlfarsfell? Nútímaferðamennska er ekki að stíga inn í rútu sem sækir mann heim að hóteldyrum og keyrir Gullhringinn.

Og ég er full bjartsýni á að pólitíkusinn hafi farið glaður af fundinum með hollar ábendingar íbúanna. 


900 kr. ofan í laugina - hvað með Nauthólsvíkina?

Þegar ég heyrði af hækkuðu verði á stökum sundferðum i Reykjavík varð mér ekki um, já, mér blöskraði ekki og hélt rétt til að byrja með að ég væri ein um þá skoðun. 38% hækkun er mikil hækkun og fólki verður eðlilega um. Á samfélagsmiðlunum sá ég þó ýmsa sem eru sömu skoðunar og ég. Í útvarpinu voru hins vegar fleiri að býsnast, þar á meðal þáttastjórnendur.

En ég er að velta fyrir mér hvort ég hafi skipt um skoðun. Ég man nefnilega að í ársbyrjun 2007 var verðið hækkað (man ekki hversu mikið) með þeim rökum að útlendingum þætti verðið hlægilega lágt. Þá var ég talsvert mikið starfandi í ferðaþjónustunni og sá og heyrði að það gekk langar leiðir fram af útlendingunum hvað vínglasið, sem er sambærilegt milli landa, kostaði mikið. Menn þurfa alltaf að vanda rökin.

Árum saman átti ég árskort í sund. Nú hefur íþróttaiðkun mín breyst þannig að ég á alltaf bara klippikort, afsláttarkort þar sem ferðin kostar 390 kr. Ég á líka svoleiðis kort í Mosfellsbæ og finnst dálitið sársaukafullt að þeir miðar geta runnið út hjá mér því að þeir fyrnast á tveimur árum. Ég er minna þar á ferðinni en ég reiknaði með þegar ég keypti kortið. Ó, og ég vildi óska þess að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu væru færri ...

Fyrstu viðbrögð mín þegar ég heyrði af hækkuninni í sund í Reykjavík voru að það væri verið að umbuna þeim sem kaupa kort, gefa þeim meiri afslátt. (Mér finnst hins vegar út í bláinn að kalla þetta fyrsta lið í tiltekt í peningamálum í borginni, hvernig sem það var orðað.) 

Ég er búin að vaða úr einu í annað, ég veit, þannig að nú hnýti ég lausu endana með því að segja að mér finnst sanngjarnt að stakar ferðir séu hlutfallslega mun dýrari en þegar maður kaupir kort. Mætti ekki meira að segja hafa dýrara í Laugardalslaugina en hinar laugarnar? Og að lokum finnst mér að það ætti að rukka fyrir aðstöðuna í Nauthólsvík Á SUMRIN frekar en á veturna en selja/leigja fastagestum armböndin á mjög hagstæðu verði. Það er eðlilegt að lausatraffíkin borgi hlutfallslega meira. Og hafa sturturnar heitar ...


Þjóðareign

Gísli sem var fæddur 29. október 1907

Ég fór í síðustu viku á fyrirlestraröð um menningararf á Íslandi. Meðal annarra fróðlegra og fyndinna fyrirlestra var hungurvaki um þjóðardýrlinginn Guðríði Þorbjarnardóttur. Eða er hún það ekki? Ég man ekki öll skilgreiningaratriðin um þjóðardýrlinga og ef ég á að segja alveg eins og er finnst mér dýrlingur ekki neitt sérstaklega gæfulegt hugtak en Guðríður var mikill töffari, frumkvöðull og djarfhugi. Lítur maður þá upp til hennar? Já, ég, full aðdáunar. Er til stytta af henni? Já, aldeilis. Hefur verið skrifað um hana? Já, heldur betur.

Ég ætla ekki að bera Guðríði saman við Gísla á Uppsölum en mér datt hann samt í hug í sama orðinu. Ég fór tvisvar í Selárdal við Arnarfjörð í sumar þar sem Gísli ól allan sinn aldur, öll sín 79 ár eða svo gott sem. Ég man eftir þættinum sem skók sjónvarpsáhorfendur um árið, 1981 var það víst þótt ég muni það ekki, og það á jólunum. Gísli var einbúi, ekki aðeins maður sem hélt einn heimili heldur lengi vel einn í dal sem að öðru leyti var sem sagt mannlaus. Þar var lengst af ekki rafmagn, ekki rennandi vatn, ekki hægt að kæla mat eða frysta nema að frumkvæði náttúrunnar, þegar jafn kalt var úti og inni. Hann létti sér ekki vinnuna með tækjum þegar þau urðu fáanleg, hann var þrjóskur en talsvert útsjónarsamur á sinn þvergirðingslega hátt, frámunalega vinnusamur náttúrlega en líka listelskandi, bókhneigður pælari sem naut ekki sannmælis fyrr en kominn á alefstu árin.

Og þar sem mér þótti hann allt í einu sérlega spennandi athugunarefni sótti ég mér bók Ingibjargar Reynisdóttur sem kom út 2012. Hún er fljótlesin en þrátt fyrir að sumu leyti forvitnilega nálgun er hún fyrst og fremst samantekt úr öðrum heimildum. Ómar Ragnarsson heimsótti hann, Árni Johnsen líka en Ingibjörg Reynisdóttir fór bara á söguslóðir eins og ég gerði í sumar, þefaði af andrúmsloftinu, nýtti sér annarra manna vinnu en tók að vísu fínar myndir sem eru í bókinni. Og með þeim nær hún að fanga fínlega stemningu en ég lét fara dálítið í taugarnar á mér hvernig hún eignaði Gísla alls konar hugsanir og tilfinningar.

Ég er alltént ekki sannfærð um sögu hennar. Hins vegar er Gísli núna þjóðareign og lifir meira meðal manna en hann gerði á langri ævi í Selárdal. Þjóðardýrlingur? Neih, en gersemi. Ég finn óskaplega til þegar ég hugsa um það sem hann mátti þola í æsku og líka þegar ég hugsa um það líf sem hann „valdi“ sér. Hann bjó í algjörri einangrun, skalf sér til hita, var lítið upp á aðra kominn en lifði af.

Já, gersemi á sinn hátt.


Samviskuhelsi

Meint samviskufrelsi var mikið rætt þar sem ég var nýlega. Magabolir líka. Þetta tengist ekki endilega. Og þó.

Ég hef haft (fáránlega) mikinn skilning á því að fólk eigi að geta sagt nei við einhverju sem stríðir gegn samvisku þess eða betri vitund. (Fáránlega) segi ég af því að þegar grannt er skoðað er samviska afskaplega teygjanlegt fyrirbæri. Huglæg samviska er tæpast rétthærri lögum. Í landinu eru til dæmis jafnréttislög og hvað ef einhverjum sem ræður fólk til starfa finnst það stríða gegn samvisku sinni að ráða hæfasta einstaklinginn af því að hann er kona? Hvað ef? Og hvað ef einhver vill ekki afgreiða mann sem hefur augljóslega verið mikið í sól? Of mikil sól getur valdið krabbameini, eða hvað? Hvað ef starfsmaður í apóteki sem vill hafa vit fyrir hinum sólbrennda vill stjórna honum með því að neita honum um þjónustu?

Og nú að magabolunum sem hafa verið í umræðunni. Getur kennari borið samviskufrelsi fyrir sig ef hann vill ekki eða treystir sér ekki til að kenna stelpum sem eru í magabolum?

Mér datt þetta ekki einu sinni í hug, ég er bara að spegla boð sem ég var í nýlega. 


Ferðamönnum á Íslandi fjölgar en fækkar ekki

Ég fór á forvitnilegan fund um ferðaþjónustuna í morgun. Við höfum séð mikla aukningu í greininni undanfarin ár, landshlutabundna að vísu, en heilt yfir verulega aukningu. Hótelherbergjum fjölgar í Reykjavík og nýtingin er líka góð. Fyrir norðan og austan fækkar herbergjum en nýtingin eykst samt ekki. Hvað veldur? Markaðssetning er svarið mitt. Fólk þarf að vita að það er gríðarlega margt spennandi í öðrum landshlutum. En það kemur örugglega.

Ég tók meðal annars þessa mynd af einni glærunni.

1,5 milljón 2016?

Síðasta ár sleikti 1 milljón ferðamanna og nú ákveður bankinn að spá svolítið hraustlega af því að hann var undir spánni síðast. Atvinnuástandið batnar hér á landi en samt erum við ekki komin í neikvætt atvinnuleysi eins og fyrir hrun. Spár herma líka að við þurfum að flytja inn fólk til að vinna störf í ferðaþjónustu, fólk sem hefur fyrir vikið ekki sérþekkingu á Íslandi, er ekki alið hér upp við veður, menningu, náttúru, mat og tungumál.

Af hverju stöndum við í þessum sporum?

Svarið er einfalt og ALLIR vita það: Launin eru of lág.

Um leið og hótelstarfsfólk, leiðsögumenn og bílstjórar semja um laun sem hægt er að lifa af verður hægt að manna öll þessi störf á einu augabragði með menntuðum heimamönnum.

Ferðaþjónusta er þess eðlis að maður má aldrei eiga vondan dag. Ég er menntaður leiðsögumaður og met það svo að ég verði alltaf að sýna ferðamönnunum mína bestu hlið. Ég má ekki vera illa fyrirkölluð á nokkurn hátt því að ferðamaðurinn er búinn að safna lengi fyrir ferðinni sinni og á ekkert annað skilið en bestu hlið allra alltaf. Í ýmsum öðrum störfum þar sem maður hittir sama fólkið dag eftir dag leyfist manni frekar að vera önugur af og til.

Eruð þið ekki sammála þessari greiningu? Hún er alveg ókeypis.


Hinn hæfasti

Já. Alltaf. Auðvitað á hæfasti einstaklingurinn að hljóta stöðuna hverju sinni. En hvað er lagt til grundvallar matinu? Það er stundum dálítið huglægt. Getur annars verið að karlar séu svona óskaplega oft hæfari/hæfasti einstaklingurinn? Á það við um ráðherra sem voru valdir alla 20. öldina?

Auðvitað ekki.

Fólk sem velur hæfasta einstaklinginn fer ekki bara eftir skýrum, hlutlægum kvörðum, það metur út frá smekk, skoðunum, þrýstingi – öllum andskotanum. Stundum er meira að segja gefið upp að „hæfasti einstaklingurinn“ þurfi að passa inn í hópinn sem er fyrir.

Hæfasti einstaklingurinn er ekki breyta sem er klöppuð í stein, hún er matskennd.

Ég hef enga skoðun á fólkinu sem sótti um í Hæstarétti enda ekki til þess bær að fella dóma í málinu. En ég veit hins vegar að það er villa í þessu orðasafni:

vegna karlægrar hugsunar 

Eða hvað? Er fólk kannski á því að karlæg og karllæg hugsun sé eitt og það sama?

foot-in-mouth


Rétturinn til að verða foreldri

Ég sá ekki nema brot af Kastljósinu og er enn þeirrar bjargföstu skoðunar að öll börn ættu að eiga rétt á skikkanlegum foreldrum. Mér finnst hins vegar ekki að allt fólk eigi rétt á að verða foreldrar. Þó ætti allt almennilegt fólk að fá tækifæri til að umgangast börn og ala þau upp. Eru ekki því miður of mörg börn á vergangi í heimsþorpinu? Gæti það ekki þjónað sameiginlegu markmiði alls fólks að munaðarlaus börn kæmust í fang fólks sem langar að ala upp barn? 

Af hverju eru ættleiðingar erfiðar og flóknar?


Stormur í vatnsglasi

Ég er ekki innsti koppur í búri Ráðhússins og veit ekkert annað um tillögu borgarfulltrúans sem var samþykkt en það sem ég heyri í fjölmiðlum. Það var aukaborgarstjórnarfundur í dag til að ræða samþykktina og afturkall hennar sem endaði víst með því að samþykktin var tekin til baka.

Kannski má túlka afstöðu mína sem minnimáttarkennd. Ég kýs að kalla hana skynsemi. Ég trúi ekki að lítil höfuðborg með litla borgarstjórn sem hleypur á sig geti valdið svona miklum usla í heimsþorpinu. Við erum lítill fiskur í kompaníi við hákarla og þótt varirnar strjúkist við einn ugga getur ekki verið að hákarlinn kippi sér upp við það.

Hvað varðar tillöguna sem var samþykkt

Borgarstjórn samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir.

finnst mér hún algjört frumhlaup. Borgarstjórn markar ekki utanríkismálastefnu. Nú eru að sönnu nokkrir einstaklingar búnir að lýsa yfir andúð á hernámi en er í alvörunni svona erfitt og flókið að stíga eitt skref til baka?

Afsögn borgarstjóra? Ha?


Icesave búið?

Ég var að heiman um helgina, ekki alveg utan þjónustusvæðis en samt lítið að fylgjast með. Ég heyrði utan að mér að Hollendingar og Bretar væru búnir að gefa eftir allar kröfur og við laus allra mála. Í gær leitaði ég aðeins að prentuðu máli um þessi tíðindi og fann ekki.

Dreymdi mig?

Hvað hefði gerst ef við hefðum samið? En kannski gerðist ekkert af þessu ...


Veikleikavæðing

Enn og aftur vakna ég til umhugsunar um eitthvað sem ég veit lítið um. Björk Vilhelmsdóttir sagði í viðtali í gær að of mikil tilhneiging væri til að einblína á veikleika fólks sem á undir högg að sækja frekar en að gefa styrkleikum þess gaum. Mín fyrstu viðbrögð voru að kinka kolli. Ég þekki ekki mörg dæmi en ég þekki þess þó dæmi að býsna frískt fólk hafi hálft um hálft verið komið á framfærslu borgarinnar af því að eitthvað var að. Já, einbeitingarskortur, sveimhygli, einhver sérhlífni – en í viðkomandi var og er líka mikið listfengi og einbeittur áhugi á sköpun og frumkvæði. Það koðnaði niður af því að endalaust bárust boð um úrræði sem fólu í sér aðgerðaleysi viðkomandi. Ég er með unga manneskju í huga, manneskju sem getur ýmislegt en er ekki alveg á bóknámslínunni, manneskju sem getur plumað sig með smávegis aðstoð, já, kannski léttu myndrænu sparki, en þarf ekki að láta rétta sér allt upp í hendurnar.

Svo les ég meira og fer að velta fyrir mér hvort Björk sé fullharðorð, samherji er ósammála henni. En Björk talaði ekki um aumingjavæðingu heldur veikleikavæðingu. Mér finnst munur þar á. Aumingi er manneskja, veikleiki er eiginleiki. Ég reyni sjálf að horfa meira á sterku hliðarnar en þær veiku. Þegar ég var kennari og gaf umsagnir um ritgerðir hampaði ég því sem vel var gert til að örva fólk til dáða. Það kemur þó ekki í veg fyrir að maður reyni að leiðbeina fólki eða hjálpa því áfram.

Maður Bjarkar segist ekki að öllu leyti sammála henni um framfærslumálin. Hann er læknir og þarf stundum að meta starfsgetu fólks. Annað þarf ekki að útiloka hitt. Fólk getur þurft stuðning, bæði hjálp við framfærslu og stuðning til sjálfshjálpar. Það er auðvitað til fræg hugmynd um aðstoð: Það er nær að kenna fólki að veiða fisk en að veiða fiskinn fyrir það og færa því.

Ég man líka gjörla að Pétur H. Blöndal heitinn talaði oft og mikið um starfsgetumat frekar en örorkumat. Ég held að langflestir vilji vera sjálfbærir og ala önn fyrir sér sjálfir, en vitaskuld er líka til fólk sem eru því miður allar bjargir bannaðar og það þarf mikla aðstoð.

Svo les ég blogg Ragnars Þórs sem er ávallt rökfastur. Honum er, eins og Björk, uppsigað við lært hjálparleysi en er ósammála þeim aðferðum sem hún talar fyrir og gagnrýnir bæði hana og yfirvald borgarinnar. Og þá verð ég aftur efins af því að ég er ekki innsti koppur í búri Ráðhússins. Hefur verið mjög illa haldið á málum í borginni? 

Ég mun fylgjast með umræðu næstu daga og vikna og mynda mér skoðun þegar fleiri kurl verða komin til grafar. En akkúrat núna held ég að Björk hafi stigið gáfulegt skref og vakið okkur betur til umhugsunar um hvort hægt sé að gera meira í því að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft.


Samúel í Brautarholti og Gísli á Uppsölum

Nú er búið að dreifa og ræða fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016. Meðal þess sem hefur borið á góma er að styrkir sem ferðamannastöðum hefur verið úthlutað til uppbyggingar hafa ekki verið nýttir og þeim þarf að skila. Ég heyrði að um helmingur hefði ekki lokið því sem til stóð á síðasta ári og að á mörgum hefði ekki verið byrjað.

Hmm.

Sveitarfélög (og félög/fyrirtæki) þurfa að leggja fé á móti framlagi frá ríkinu og þar stendur hnífurinn víst í kúnni.

Í sumar er ég búin að þvælast meira um Vestfirðina en fyrri ár. Sunnan megin, ekki á Stór-Ísafjarðarsvæðinu, eru vegirnir hrein hörmung og ég held að það ástand sé aðalástæða þess að ferðaþjónustufyrirtæki geta illa skipulagt ferðir þangað. Massinn fer að minnsta kosti ekki á staðinn. Á veturna er háskalegt að fara um Hjallaháls og Ódrjúgsháls.

Um síðustu helgi var ég til dæmis á Bíldudal sem er mikið að byggjast upp þessi misserin vegna þörungavinnslu. Íbúafjöldi hefur sveiflast eftir atvinnuástandinu og nú er sveiflan upp á við. 25 km lengra er Selárdalur, einn af Ketildölunum við sunnanverðan Arnarfjörð, og þar er Brautarholt, bærinn sem Samúel Jónsson, listamaðurinn með barnshjartað, byggði af vanefnum en mikilli ástríðu um miðja síðustu öld. Listaverkin hans eru geymd úti og lágu undir skemmdum (hann dó 1969) en fyrir 10-15 árum var byrjað að endurgera þau og nú er björgulega um að litast. Þangað væri gaman að koma með áhugasama ferðamenn. Á Bíldudal er Skrímslasetrið sem tengist þjóðsögum af skrímslum. Ferðamenn hafa gaman af sögum sem virðast upplognar. Á Patreksfirði er góð sundlaug og á Tálknafirði er Pollurinn. Okkur finnst alltaf gaman að busla.

Þarna sjást - held ég - ekki margir ferðamenn. Kannski mega heimamenn prísa sig sæla en ferðamaðurinn fer á mis við mikið.

Pollurinn rétt utan Tálknafjarðar


Er Ruud Gullit hættur?

Ég samgleðst öllum sem fögnuðu sigri íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á hollenska karlalandsliðinu í fótbolta. Ég frétti af fólki í dag sem gat ekki á heilu sér tekið fyrir spenningi, æfingu í skokkhópnum mínum var flýtt, fólk úttalaði sig á veraldarvefnum og svo rak það upp mikil fagnaðaróp á Facebook, fyrst yfir fyrsta markinu, svo yfir að það væri eina markið og þar með íslenskur sigur í höfn. Einhver sagði að við værum að upplifa stærstu stund íslenskrar knattspyrnusögu.

Ég hef samt engan sérstakan áhuga á fótbolta og ákvað að fara í zúmba frekar en að fylgjast með. Tímasetningin var hins vegar þannig hjá mér að ég kveikti á útvarpinu í sama mund og Gylfi skoraði þetta örlagaríka mark, fylgdist svo ekkert með eftir það.

Fólk hrósar Lars Lagerbäck í sigurvímunni -- en hvað með mig? Á ég ekki hrós skilið fyrir að hlusta á réttum tíma? tongue-out

Annars er það helst í fréttum að Ruud er búinn að láta klippa sig.


Nauthólsvík - borga eða ekki?

Í fyrrasumar byrjaði ég að stunda sjósund, þ.e. ég fór í Nauthólsvíkina flesta þá daga sem ég var í bænum, synti í 10 mínútur og fór í stóra pottinn. Það var undir hælinn lagt hversu lengi ég staldraði við, stundum var ég í nokkrar mínútur en stundum meira en klukkutíma, fór eftir þeim tíma sem ég hafði, veðri og félagsskap. Og nú skal viðurkennt að ég hef sáralitlu eytt á staðnum sem kemur til af þeirri einföldu ástæðu að ég kem alltaf hjólandi og vel að taka engin verðmæti með mér af því að maður getur ekkert læst inni. Búningsklefarnir eru frumstæðir, engir skápar, varla ylur þar inni og ég dríf mig bara upp úr, í sturtu, í fötin, út og hjóla heim.

Nú eru uppi hugmyndir um að fara að rukka fyrir aðstöðuna.

Í fundargerð ÍTR frá 21. ágúst segir:

2. Lögð fram að nýju svofelld tillaga meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata vegna Nauthólsvíkur:
 
Íþrótta- og tómstundaráð felur sviðsstjóra að útbúa hugmyndir um gjaldtöku við Nauthólsvík allan ársins hring. Tillögur verði lagðar fyrir ráðið.
Greinargerð.
Reykjavíkurborg greiðir þjónustu við Nauthólsvík svo sem búningsklefa, heitan pott og gufu og starfsmenn allan ársins hring. Eðlilegt er að iðkendur greiði fyrir þá þjónustu sem þar er veitt.
 
Samþykkt samhljóða.
 
Tilfinningar mínar eru beggja blands. Fyrir örfáum árum var ekki heldur rukkað inn í búningsklefana á veturna. Sumir urðu dálítið foj þegar byrjað var á því. Í mínum augum er þetta þó fyrst og fremst undir þjónustunni komið. Ef ég get læst dótið inni er það aukin þjónusta sem er eðlilegt að rukka fyrir. Ef sturturnar verða alltaf ásættanlega heitar finnst mér sömuleiðis sjálfsagt að rukka. Í hálfan mánuði í sumar voru þær hrollkaldar. Ef búningsklefinn er upphitaður er það kostnaður sem er eðlilegt að fá til baka í formi aðgangseyris. Þegar eitthvað hefur verið ókeypis er erfitt að byrja að rukka fyrir það og þá þarf að auka þjónustuna.
 
Sumir kunna kannski vel við það hve frumstæð aðstaðan er en ég get vel sætt mig við aukna þjónustu og eitthvert gjald fyrir hana.
 
En tillaga meiri hlutans er nú lögð fram öðru sinni. Hvað gerðist í hið fyrra sinn?

... skila arði? Eða greiða vexti?

Í hádegisfréttum RÚV var viðtal við Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans, um arð til hluthafa og arð til eigenda, landsmanna.

Við erum öll meira og minna að verða ónæm fyrir upphæðum og ég tók ekki eftir hvort arðurinn var 2, 20 eða 200 milljarðar (ekki alveg satt) en svo sagði bankastjórinn að ekki væri hægt annað en að greiða þeim 200 milljörðum sem væru í vinnu arð (eigendum þeirra eins og ég skil það).

Væri þá ekki nær að tala um að fjárfestar legðu peninginn sinn inn í bankann eins og við landsmenn gerum og fengju svo vexti á inneignina? Er það ekki hægt vegna þess að þeirra vextir yrðu 20% en okkar hinna 0,2% þótt útvextir séu 10%?

Launþegar og litlir sparifjáreigendur eru pirraðir út í fjárfestana hvort eð er. Væri ekki betra að tala um hlutina eins og þeir eru? 


Maraþondagurinn

Ég er frekar þrautseig en ekki hraðskreið á hlaupum. Ég hef aldrei haft metnað til að verða afreksmaður í íþróttum en ég vil hreyfa mig, vera hraust og hafa gaman. Og mér finnst gaman að heyra fólk hvetja til þess arna.

Fyrirlestur Halldóru Geirharðs var feiknarlegur innblástur á hádegisfundinum í dag. Góð vísa er aldrei of oft kveðin og hún tók okkur vara við því að óttast hið óþekkta. Sjálf tók hún þeirri áskorun að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu þrátt fyrir að hlaupa aldrei. Ekki síður var athyglisvert hvernig hún talaði sjálfa sig inn á að vera ekki börnum sínum slæm fyrirmynd þegar fjölskyldan var á heimshornaflakki og lagði leið sína í hinn dimma og óþekkta Amazon-skóg.

Og kannski var Kathrine Switzer ekki með nein glæný sannindi þegar hún talaði um hvernig konur hefðu ekki mátt keppa í maraþonhlaupum -- en það er bara vegna þess að hún er meðal þeirra sem ruddu brautina. Ég vissi ekki í síðustu viku að konum hefði verið bannað að keppa og borið við að þær gætu orðið skeggjaðar og fengið legsig! Í ár eru 100 ár liðin síðan konur á Íslandi fengu kosningarrétt. Okkur þykir það sjálfsagt í dag en okkur er hollt að minnast þess að áfangarnir í jafnréttismálum vinnast ekki baráttulaust. Og við eigum að halda áfram að velta steininum.

Það geislaði alveg af Kathrine SwitzerOg nú er til 261-klúbburinn sem er hvatning til kvenna


Kathrine Switzer

Spennan fyrir RM vex. Nú er Íslandsbanki búinn að flytja inn merkiskonu til að hvetja okkur, bæði í jafnréttismálum og á hlaupum, eins og ég skil lýsingarnar. Á morgun verður áreiðanlega fjölsóttur fyrirlestur í Hörpu þegar Kathrine Switzer segir okkur frá því hvernig mótshaldari ætlaði að bola henni úr keppni í Boston árið 1967. Þá var hún tvítug, hafði æft mjög vel og var búin að skáka þjálfaranum sínum. Það var fyrir 48 árum! Þá trúðu menn því að konur hefðu ekki skrokk til langhlaupa. Hvað heyrði ég? Að legið gæti sigið og eggjastokkarnir eyðilagst?

Kathrine Switzer afsannaði það svo sem ekki en fjöldi maraþonhlaupakvenna á börn engu að síður.

En þegar ég smelli á fréttina á RÚV sé ég bara villuna.

„Hún braut blað í sögu maraþonhlaups með því að hlaupa maraþonið í Boston fyrst kvenna árið 1697.“

 


Hlaupastyrkur eða hlaupaáheit

Nú þarf ég að stíga varlega til jarðar. Eftir rúma viku er árvisst Reykjavíkurmaraþon, dásamlegur viðburður sem ég hlakka til á hverju ári. Ég hef tekið þátt síðan 1985 þegar RM byrjaði, skokkaði í skemmtiskokkinu, 7 km, meðan það bauðst og uppfærði mig svo í 10 km þegar 7 km buðust ekki lengur. Alltaf án æfingar.

Síðustu árin hefur RM verið vettvangur ýmiss konar söfnunar. Flestar safnanirnar eru góðra gjalda verðar, margir eru verðugir -- en almáttugur, alltof margir þykjast vera að hlaupa í nafni góðgjörðarsamtaka. Ef fólki er alvara með að vilja láta gott af sér leiða á það að leyfa einhverjum einum að safna fyrir tiltekinn félagsskap og styrkja hann en ekki dreifa þessu út um allt.

Í fyrra strengdi ég þess heit að styrkja engan en á endanum lét ég undan og lagði inn hjá nokkrum af því að þetta verður svo persónulegt, fólk verður leitt yfir að safna engu eða mjög litlu. Keppendur auglýsa styrksíðurnar sínar á Facebook og vinir þeirra læka í gríð og erg -- og leggja svo ekki inn. Hvað er það? Eru einhver gæði fólgin í að smella læki á að einhver sé að safna, þ.e. reyna að safna? Ef ég læka legg ég líka inn og það finnst mér að eigi að vera reglan.

En það sem mér gremst umfram allt er að þetta sé kallað áheit. Þetta eru ekki áheit, þetta eru styrkir og svo sem gott með það. Ef þetta væru áheit myndi maður geyma peninginn þangað til fólk hefði sannanlega farið vegalengdina. Þá væri maður að heita á keppendur að þeir kæmust á leiðarenda. 

Hvernig er annars með Strandarkirkju sem fær fúlgur fjár í áheit á hverju ári? Heitir ekki fólk á hana og ef það fær bata, endurheimtir ástvin eða hvað það er sem það helst óskar sér borgar það upphæðina sem það hét á kirkjuna?

Annars hlakka ég bara til að hlaupa mitt hálfa maraþon 22. ágúst og heiti á veðurguðina að tryggja mér gott hlaupaveður og láta hnéð duga í tilskilinn tíma. Þá skal ég ekki nöldra neitt 23. ágúst ...


Vegur um Teigsskóg

Dálæti mitt á Vestfjörðum er ærið en dálítið nýtilkomið þannig að ég er enn að reyna að glöggva mig á ýmsu. Teigsskógur er þar á meðal. Ég er nýbúin að keyra Þorskafjörðinn fjórum sinumm og hef algjörlega látið undir höfuð leggjast að skyggnast um eftir Teigsskógi. Hvar er hann? Nálægt minnismerkinu um Matthías Jochumsson (frá Skógum!)? Hins vegar hef ég spjallað um hann við heimamenn á Patró og Tálknafirði sem og norðar á Vestfjörðum, svo sem í Bolungarvík, og ég fæ ekki betur heyrt en að menn þar séu á einu máli um að Teigsskógur sé eins og annað birki (endilega skiljið ekki orð mín sem beinar tilvitnanir) og það sé út í bláinn að nota ekki svo gott vegstæði fyrir láglendisveg. Staðkunnugir vilja sleppa við hálsana, ekki síst á veturna, og finnst óþarft að varðveita birkið í Teigsskógi sem er víða að finna hvort eð er.

Ég les aðsendan pistil á Reykhólavefnum. Hann er að megninu til afrit af frétt Stöðvar 2 og það litla sem Dýrfirðingarnir skrifa í eigin nafni er að mínu mati fullmiklar blammeringar af því að þeir leggja í raun ekki til neinn rökstuðning sjálfir. Kannski eru þeir búnir að tala af mikilli rökvísi oft og mörgum sinnum á öðrum vettvangi og nú farnir að reyna annars konar nálgun. Ég skal ekki segja.

Svo sé ég grein með skóginum frá árinu 2007 sem byggir á þeim tilfinningarökum að skógurinn sé fallegur og að hægt sé að leggja göng um Hjallaháls og jafnvel líka Gufudalsháls og þannig bæta samgönguæðarnar. Ég er hlynnt tilfinningarökum en samt hlynntari staðreyndum.

Er sams konar birki úti um alla Vestfirði?

Fyrir fjórum árum var lögð fram þingsályktunartillaga um þjóðgarð við Breiðafjörð norðanverðan. Hún varð ekki útrædd frekar en margar þingmannatillögur en af umræðunni má skilja að menn reyni að hugsa um hvernig megi samþætta vegabætur, náttúruvernd og atvinnulíf.

Og ég er auðvitað engu nær um hvað best er að gera, hvaða sjónarmið er „réttast“ en tilfinning mín er samt skýr ...

 


Við eftir David Nicholls #einskonarritdómur

Lífefnafræðingurinn Douglas Petersen er litlaus sögupersóna, tilþrifalítill eiginmaður, ferkantaður faðir og vel látinn vísindamaður sem fær sífellt meiri ábyrgð og virðingu í starfi. Sagan byrjar þar sem dæmigerðustu ástarsögur enda, þegar hann og hún hafa náð saman og ganga í hjónabandið. Frá upphafi er Douglas vantrúaður á gæfu sína. Hann veit að hann er óminnisstæður, laus við sjálfsprottna fyndni, mjög vanafastur, algjörlega laus við hvatvísi og ekki finnst honum útlit sitt upp á marga fiska. En Connie sér eitthvað og hjúskaparboltinn byrjar að rúlla.

Bókin er 414 síður. Fyrstu 100 eru ágætlega áhugaverð kynning, svo kemur góður slatti sem var að ganga frá mér af leiðindum en síðustu 100 blaðsíðurnar eða svo bættu alveg fyrir leiðindin í miðkaflanum. Ég er ekki í raun að segja að höfundur hafi verið of margmáll, Douglas Petersen er bara svo víðáttuleiðinlegu þangað til hann setur sig í fluggír og leggur allt undir til að sættast við 17 ára uppivöðslusaman son sinn og halda Connie hjá sér.

Tekst það? 

Það var æsispennandi söguþráður, og sögulokin komu mér á óvart. Eða ekki.

Ég ætla ekki að hafa nein orð um þýðinguna, ég skil bara ekki af hverju ekki stendur á saurblaði hvað bókin heitir á ensku. Þar stendur Við. Við vitum alveg að hún heitir Us á frummálinu. Vantar ekki bara betri prófarkalestur hjá Bjarti?


#almenningurhefurorðið

Nú er að minnsta kosti búið að gulltryggja að umræðan um helgina verður lifandi og opin og öll skilningarvit virk! Allar útihátíðir, einkum þær sem hafa á sér orð fyrir að vera vettvangur glæps, verða undir smásjánni.

Vonandi kemur umræðan í veg fyrir glæpina, þá er til einhvers að verið.

Þótt ég sé núna búin að átta mig á að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum skrifaði ekki bréfið til að ögra, því var lekið í fjölmiðla, finnst mér sanngjarnt að hún fái að svara fyrir sig og viðtalið sem Harmageddon tók við hana í gærmorgun er ágætt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband