Nauthólsvík - borga eða ekki?

Í fyrrasumar byrjaði ég að stunda sjósund, þ.e. ég fór í Nauthólsvíkina flesta þá daga sem ég var í bænum, synti í 10 mínútur og fór í stóra pottinn. Það var undir hælinn lagt hversu lengi ég staldraði við, stundum var ég í nokkrar mínútur en stundum meira en klukkutíma, fór eftir þeim tíma sem ég hafði, veðri og félagsskap. Og nú skal viðurkennt að ég hef sáralitlu eytt á staðnum sem kemur til af þeirri einföldu ástæðu að ég kem alltaf hjólandi og vel að taka engin verðmæti með mér af því að maður getur ekkert læst inni. Búningsklefarnir eru frumstæðir, engir skápar, varla ylur þar inni og ég dríf mig bara upp úr, í sturtu, í fötin, út og hjóla heim.

Nú eru uppi hugmyndir um að fara að rukka fyrir aðstöðuna.

Í fundargerð ÍTR frá 21. ágúst segir:

2. Lögð fram að nýju svofelld tillaga meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata vegna Nauthólsvíkur:
 
Íþrótta- og tómstundaráð felur sviðsstjóra að útbúa hugmyndir um gjaldtöku við Nauthólsvík allan ársins hring. Tillögur verði lagðar fyrir ráðið.
Greinargerð.
Reykjavíkurborg greiðir þjónustu við Nauthólsvík svo sem búningsklefa, heitan pott og gufu og starfsmenn allan ársins hring. Eðlilegt er að iðkendur greiði fyrir þá þjónustu sem þar er veitt.
 
Samþykkt samhljóða.
 
Tilfinningar mínar eru beggja blands. Fyrir örfáum árum var ekki heldur rukkað inn í búningsklefana á veturna. Sumir urðu dálítið foj þegar byrjað var á því. Í mínum augum er þetta þó fyrst og fremst undir þjónustunni komið. Ef ég get læst dótið inni er það aukin þjónusta sem er eðlilegt að rukka fyrir. Ef sturturnar verða alltaf ásættanlega heitar finnst mér sömuleiðis sjálfsagt að rukka. Í hálfan mánuði í sumar voru þær hrollkaldar. Ef búningsklefinn er upphitaður er það kostnaður sem er eðlilegt að fá til baka í formi aðgangseyris. Þegar eitthvað hefur verið ókeypis er erfitt að byrja að rukka fyrir það og þá þarf að auka þjónustuna.
 
Sumir kunna kannski vel við það hve frumstæð aðstaðan er en ég get vel sætt mig við aukna þjónustu og eitthvert gjald fyrir hana.
 
En tillaga meiri hlutans er nú lögð fram öðru sinni. Hvað gerðist í hið fyrra sinn?

... skila arði? Eða greiða vexti?

Í hádegisfréttum RÚV var viðtal við Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans, um arð til hluthafa og arð til eigenda, landsmanna.

Við erum öll meira og minna að verða ónæm fyrir upphæðum og ég tók ekki eftir hvort arðurinn var 2, 20 eða 200 milljarðar (ekki alveg satt) en svo sagði bankastjórinn að ekki væri hægt annað en að greiða þeim 200 milljörðum sem væru í vinnu arð (eigendum þeirra eins og ég skil það).

Væri þá ekki nær að tala um að fjárfestar legðu peninginn sinn inn í bankann eins og við landsmenn gerum og fengju svo vexti á inneignina? Er það ekki hægt vegna þess að þeirra vextir yrðu 20% en okkar hinna 0,2% þótt útvextir séu 10%?

Launþegar og litlir sparifjáreigendur eru pirraðir út í fjárfestana hvort eð er. Væri ekki betra að tala um hlutina eins og þeir eru? 


Maraþondagurinn

Ég er frekar þrautseig en ekki hraðskreið á hlaupum. Ég hef aldrei haft metnað til að verða afreksmaður í íþróttum en ég vil hreyfa mig, vera hraust og hafa gaman. Og mér finnst gaman að heyra fólk hvetja til þess arna.

Fyrirlestur Halldóru Geirharðs var feiknarlegur innblástur á hádegisfundinum í dag. Góð vísa er aldrei of oft kveðin og hún tók okkur vara við því að óttast hið óþekkta. Sjálf tók hún þeirri áskorun að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu þrátt fyrir að hlaupa aldrei. Ekki síður var athyglisvert hvernig hún talaði sjálfa sig inn á að vera ekki börnum sínum slæm fyrirmynd þegar fjölskyldan var á heimshornaflakki og lagði leið sína í hinn dimma og óþekkta Amazon-skóg.

Og kannski var Kathrine Switzer ekki með nein glæný sannindi þegar hún talaði um hvernig konur hefðu ekki mátt keppa í maraþonhlaupum -- en það er bara vegna þess að hún er meðal þeirra sem ruddu brautina. Ég vissi ekki í síðustu viku að konum hefði verið bannað að keppa og borið við að þær gætu orðið skeggjaðar og fengið legsig! Í ár eru 100 ár liðin síðan konur á Íslandi fengu kosningarrétt. Okkur þykir það sjálfsagt í dag en okkur er hollt að minnast þess að áfangarnir í jafnréttismálum vinnast ekki baráttulaust. Og við eigum að halda áfram að velta steininum.

Það geislaði alveg af Kathrine SwitzerOg nú er til 261-klúbburinn sem er hvatning til kvenna


Kathrine Switzer

Spennan fyrir RM vex. Nú er Íslandsbanki búinn að flytja inn merkiskonu til að hvetja okkur, bæði í jafnréttismálum og á hlaupum, eins og ég skil lýsingarnar. Á morgun verður áreiðanlega fjölsóttur fyrirlestur í Hörpu þegar Kathrine Switzer segir okkur frá því hvernig mótshaldari ætlaði að bola henni úr keppni í Boston árið 1967. Þá var hún tvítug, hafði æft mjög vel og var búin að skáka þjálfaranum sínum. Það var fyrir 48 árum! Þá trúðu menn því að konur hefðu ekki skrokk til langhlaupa. Hvað heyrði ég? Að legið gæti sigið og eggjastokkarnir eyðilagst?

Kathrine Switzer afsannaði það svo sem ekki en fjöldi maraþonhlaupakvenna á börn engu að síður.

En þegar ég smelli á fréttina á RÚV sé ég bara villuna.

„Hún braut blað í sögu maraþonhlaups með því að hlaupa maraþonið í Boston fyrst kvenna árið 1697.“

 


Hlaupastyrkur eða hlaupaáheit

Nú þarf ég að stíga varlega til jarðar. Eftir rúma viku er árvisst Reykjavíkurmaraþon, dásamlegur viðburður sem ég hlakka til á hverju ári. Ég hef tekið þátt síðan 1985 þegar RM byrjaði, skokkaði í skemmtiskokkinu, 7 km, meðan það bauðst og uppfærði mig svo í 10 km þegar 7 km buðust ekki lengur. Alltaf án æfingar.

Síðustu árin hefur RM verið vettvangur ýmiss konar söfnunar. Flestar safnanirnar eru góðra gjalda verðar, margir eru verðugir -- en almáttugur, alltof margir þykjast vera að hlaupa í nafni góðgjörðarsamtaka. Ef fólki er alvara með að vilja láta gott af sér leiða á það að leyfa einhverjum einum að safna fyrir tiltekinn félagsskap og styrkja hann en ekki dreifa þessu út um allt.

Í fyrra strengdi ég þess heit að styrkja engan en á endanum lét ég undan og lagði inn hjá nokkrum af því að þetta verður svo persónulegt, fólk verður leitt yfir að safna engu eða mjög litlu. Keppendur auglýsa styrksíðurnar sínar á Facebook og vinir þeirra læka í gríð og erg -- og leggja svo ekki inn. Hvað er það? Eru einhver gæði fólgin í að smella læki á að einhver sé að safna, þ.e. reyna að safna? Ef ég læka legg ég líka inn og það finnst mér að eigi að vera reglan.

En það sem mér gremst umfram allt er að þetta sé kallað áheit. Þetta eru ekki áheit, þetta eru styrkir og svo sem gott með það. Ef þetta væru áheit myndi maður geyma peninginn þangað til fólk hefði sannanlega farið vegalengdina. Þá væri maður að heita á keppendur að þeir kæmust á leiðarenda. 

Hvernig er annars með Strandarkirkju sem fær fúlgur fjár í áheit á hverju ári? Heitir ekki fólk á hana og ef það fær bata, endurheimtir ástvin eða hvað það er sem það helst óskar sér borgar það upphæðina sem það hét á kirkjuna?

Annars hlakka ég bara til að hlaupa mitt hálfa maraþon 22. ágúst og heiti á veðurguðina að tryggja mér gott hlaupaveður og láta hnéð duga í tilskilinn tíma. Þá skal ég ekki nöldra neitt 23. ágúst ...


Vegur um Teigsskóg

Dálæti mitt á Vestfjörðum er ærið en dálítið nýtilkomið þannig að ég er enn að reyna að glöggva mig á ýmsu. Teigsskógur er þar á meðal. Ég er nýbúin að keyra Þorskafjörðinn fjórum sinumm og hef algjörlega látið undir höfuð leggjast að skyggnast um eftir Teigsskógi. Hvar er hann? Nálægt minnismerkinu um Matthías Jochumsson (frá Skógum!)? Hins vegar hef ég spjallað um hann við heimamenn á Patró og Tálknafirði sem og norðar á Vestfjörðum, svo sem í Bolungarvík, og ég fæ ekki betur heyrt en að menn þar séu á einu máli um að Teigsskógur sé eins og annað birki (endilega skiljið ekki orð mín sem beinar tilvitnanir) og það sé út í bláinn að nota ekki svo gott vegstæði fyrir láglendisveg. Staðkunnugir vilja sleppa við hálsana, ekki síst á veturna, og finnst óþarft að varðveita birkið í Teigsskógi sem er víða að finna hvort eð er.

Ég les aðsendan pistil á Reykhólavefnum. Hann er að megninu til afrit af frétt Stöðvar 2 og það litla sem Dýrfirðingarnir skrifa í eigin nafni er að mínu mati fullmiklar blammeringar af því að þeir leggja í raun ekki til neinn rökstuðning sjálfir. Kannski eru þeir búnir að tala af mikilli rökvísi oft og mörgum sinnum á öðrum vettvangi og nú farnir að reyna annars konar nálgun. Ég skal ekki segja.

Svo sé ég grein með skóginum frá árinu 2007 sem byggir á þeim tilfinningarökum að skógurinn sé fallegur og að hægt sé að leggja göng um Hjallaháls og jafnvel líka Gufudalsháls og þannig bæta samgönguæðarnar. Ég er hlynnt tilfinningarökum en samt hlynntari staðreyndum.

Er sams konar birki úti um alla Vestfirði?

Fyrir fjórum árum var lögð fram þingsályktunartillaga um þjóðgarð við Breiðafjörð norðanverðan. Hún varð ekki útrædd frekar en margar þingmannatillögur en af umræðunni má skilja að menn reyni að hugsa um hvernig megi samþætta vegabætur, náttúruvernd og atvinnulíf.

Og ég er auðvitað engu nær um hvað best er að gera, hvaða sjónarmið er „réttast“ en tilfinning mín er samt skýr ...

 


Við eftir David Nicholls #einskonarritdómur

Lífefnafræðingurinn Douglas Petersen er litlaus sögupersóna, tilþrifalítill eiginmaður, ferkantaður faðir og vel látinn vísindamaður sem fær sífellt meiri ábyrgð og virðingu í starfi. Sagan byrjar þar sem dæmigerðustu ástarsögur enda, þegar hann og hún hafa náð saman og ganga í hjónabandið. Frá upphafi er Douglas vantrúaður á gæfu sína. Hann veit að hann er óminnisstæður, laus við sjálfsprottna fyndni, mjög vanafastur, algjörlega laus við hvatvísi og ekki finnst honum útlit sitt upp á marga fiska. En Connie sér eitthvað og hjúskaparboltinn byrjar að rúlla.

Bókin er 414 síður. Fyrstu 100 eru ágætlega áhugaverð kynning, svo kemur góður slatti sem var að ganga frá mér af leiðindum en síðustu 100 blaðsíðurnar eða svo bættu alveg fyrir leiðindin í miðkaflanum. Ég er ekki í raun að segja að höfundur hafi verið of margmáll, Douglas Petersen er bara svo víðáttuleiðinlegu þangað til hann setur sig í fluggír og leggur allt undir til að sættast við 17 ára uppivöðslusaman son sinn og halda Connie hjá sér.

Tekst það? 

Það var æsispennandi söguþráður, og sögulokin komu mér á óvart. Eða ekki.

Ég ætla ekki að hafa nein orð um þýðinguna, ég skil bara ekki af hverju ekki stendur á saurblaði hvað bókin heitir á ensku. Þar stendur Við. Við vitum alveg að hún heitir Us á frummálinu. Vantar ekki bara betri prófarkalestur hjá Bjarti?


#almenningurhefurorðið

Nú er að minnsta kosti búið að gulltryggja að umræðan um helgina verður lifandi og opin og öll skilningarvit virk! Allar útihátíðir, einkum þær sem hafa á sér orð fyrir að vera vettvangur glæps, verða undir smásjánni.

Vonandi kemur umræðan í veg fyrir glæpina, þá er til einhvers að verið.

Þótt ég sé núna búin að átta mig á að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum skrifaði ekki bréfið til að ögra, því var lekið í fjölmiðla, finnst mér sanngjarnt að hún fái að svara fyrir sig og viðtalið sem Harmageddon tók við hana í gærmorgun er ágætt.


#þöggun #eðaekki

Ég held að fyrir lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum hljóti að vaka að uppræta þöggun þegar hún biður upplýst fólk um að þegja um glæp sem framinn er í skjóli skemmtunar. Viðbrögðin eru auðvitað alveg sjálfgefin, háreysti. Fólk andæfir henni. Fólk stekkur upp á nef sér. Fólk vill umræðuna. Ég vil umræðuna af því að umræðan getur unnið gegn glæpum, ef vel tekst til nær hún til hugsanlegra gerenda sem verða fyrir vikið ekkert gerendur ofbeldis.

Ég veit ekki hvernig þolendum kynferðisglæpa líður almennt, hvorki strax á eftir né næst þegar þeir fletta blöðum eða internetinu. Það er ekki fráleitt að þolendur endurlifi ofbeldið og upplifi með röngu skömm fyrir að hafa orðið fyrir barðinu á ofbeldismanni. Og fyrstu fréttir af útihátíðum eru oft af því sem fór verr en vel.

Ég undrast oftlega þegar ég heyri fréttir af umferðarslysum eða óhöppum þar sem fólk slasast eða bíður bana. Halda fjölmiðlar að þeim beri að upplýsa vandalaust fólk um banvænt bílslys á stundinni? Ekki mig, það get ég fullvissað ykkur um.

„Ég hef ákveðið í samráði við áfallateymi þjóðhátíðar og félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar að lögreglan mun ekki veita upplýsingar um kynferðisbrot til fjölmiðla þessa helgi frekar en gert er á öðrum tímum.“

Eigum við að reikna með að áfallateymi þjóðhátíðar og félagsþjónustan í bænum gangi erinda þeirra sem halda hátíðina? Eða gerendanna? Ég ætla ekki að trúa því að svo stöddu. Ég ætla að prófa að ganga út frá því að viðbragðsaðilar beri hag þolenda fyrir brjósti. En þá koma forvarnir til sögunnar. Þeim hefur verið flaggað upp á síðkastið með #myllumerkingarbyltingunni, umræðunni og upplýsingunum. Vökulir og afgerandi einstaklingar þurfa að vera á vettvangi og hafa djörfung til að grípa inn í þegar ástæða er til. Það er örugglega vandaverk. Hefur verið hugsað fyrir því, Páley? Eru ráðgjafar tiltækir? Hvernig er lýsingin?

Þetta skil ég ekki:

„Það er lagaskylda á lögreglu að upplýsa um kærur sem berast og almenningur á ekki heldur heimtingu á slíkum upplýsingum.“

Er þetta ekki mótsögn?

Við vitum að við erum ekki glæpalaust samfélag en við eigum að leggja okkur öll fram um að koma í veg fyrir ljóta glæpi sem leggja líf fólks í rúst. Hvernig væri að blaðamenn spyrðu Páleyju út í forvarnir. Eða viljum við bara gefa okkur það versta og velta okkur upp úr vandlætingunni?


Að bera í bakkafullt klósettið

Ég veit, ég hef ekkert nýtt fram að færa í stóra klósettmálinu. Leiðsögumenn hafa vitað það í 40 ár eða svo að klósettum er ábótavant. Það hefur verið rætt um að fólk sem nýtir sér salernisaðstöðu þar sem veitingar eru seldar kaupi eitthvað á móti. Það hefur verið rætt um að selja beinlínis inn á salerni. Það hefur verið rætt um að fólk kaupi sig inn á salerni og geti síðan látið gjaldið, sem annars er óafturkræft, ganga upp í sölu á einhverju í búðinni.

Við vitum að fólk þarf að komast á klósett yfir daginn, það er bara spurning um útfærslu. Og ef ferðamenn verða orðnir 2 milljónir eftir þrjú ár þarf fleiri klósett, meiri klósettpappír, fleiri klósettbursta og fleiri umferðir með burstanum.

Plís, ekki verða svona hissa.

Og leiðsögumaður var í útvarpinu fyrir einu og hálfu ári með hollar ábendingar um hvernig maður hægir sér á fjalli.

Hættum að tala um kúkinn. Girðum hann af.

 


88%

Ég var utan þjónustusvæðis í marga daga í mánuðinum. Svo kom ég til byggða, hlustaði á útvarpsfréttir og heyrði að 88% hjúkrunarfræðinga hefðu hafnað samningnum sem var gerður eftir lagasetninguna. Get ekki sagt að það hafi komið á óvart. 

Nú er ég komin heim, opna fréttaveitur á vefnum og sé að hugmyndir eru uppi um „sóknarfæri“ í heilsu. Ég er skelkuð.

Mér finnst ég borga mikla skatta en ég sver að ég sé ekki eftir þeim ef heilbrigðiskerfið, menntakerfið og samgöngukerfið er í lagi. Og nú er ég logandi hrædd. Og ég er ekki einu sinni veik og enginn að ráði í nærumhverfi mínu.


... geta hvorki keypt né leigt

... heyrði ég í fréttunum áðan. Já, þróun launa og íbúðaverðs hefur sannarlega þróast í ólíkar áttir síðustu 20 árin. Nú gæti ég talað lengi um reynslu mína af að kaupa fyrstu íbúð, en þar sem enginn unglingur er á heimilinu að reyna að komast að heiman hef ég ekki alveg fylgst með þróuninni síðustu árin. Það er bara eitthvað stórkostlega skrýtið við það að hver einasti einstaklingur sem flytur að heiman þurfi að núllstilla og skuldsetja sig til endalausrar framtíðar.

Gæti sú staða komið upp að enginn hefði efni á íbúð og allar íbúðir stæðu auðar? Hmm.


Gleðin í sorginni eða sorgin í gleðinni

Nei, ég get ekki barnað þessa grein með neinu gríni. Eða alvöru. Ég er ekki sammála einu orði, ég er hins vegar sammála öllum hinum.


Kjarasamningur leiðsögumanna

Nú er ég spennt. Kjarasamningur var undirritaður í gær og verður kynntur á sunnudag. Mánaðarlaun leiðsögumanns í efsta flokki, sem sagt með mestu reynsluna, rétt losa 270.000 kr. og þá er samt ekkert atvinnuöryggi í boði, leiðsögumaður fer til læknis í eigin tíma og þarf að sækja sérstaklega um að fá greidd laun í veikindum. Og nú bíð ég spennt eftir kynningunni á samningnum sem var undirritaður eftir slímusetu með ríkissáttasemjara. Samt var bókað við gerð kjarasamningsins í fyrra að leiðsögumenn myndu ekki sætta sig við vísitöluhækkun að þessu sinni.

Og svo kemur í dag frétt af bágu launaumhverfi yngsta aldurshópsins í ferðaþjónustu. Engar tölur fylgja fréttinni þannig að ég get ekkert borið saman. Ferðaþjónustan er orðin að meginstoð í atvinnulífinu, á fjölsóttustu stöðunum verður ekki þverfótað fyrir aðkomumönnum - hjartanlega velkomnum - en fólkinu á gólfinu eru boðin smánarlaun.

Eða kannski verður hljóðið í mér annað eftir kynningarfundinn á sunnudaginn.


*Skrifaðu flugvöll*

Allir vilja greiðar samgöngur. Allir vilja hámarka öryggi. Allir vilja hagkvæmni.

Ég vil flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni og tel, vissulega tilfinningalega, að hann færi mun betur annars staðar. Ég hef ekkert haft á móti því að færa hann til Keflavíkur, en Keflavík er samt ekki endilega besti staðurinn. En hlýtur það ekki að þjóna hagkvæmninni að hafa innanlands- og millilandaflugvöll á sama blettinum?

Niðurstaða Rögnunefndar hljómar eins og dýrðarinnar tónlist í mínum eyrum. Já, það er tilfinning mín að a) það sé óheppilegt að flugvélar fljúgi yfir þéttustu byggðina á leið til lendingar, b) það gæti þjónað stórum hópi fólks að fljúga utan af landi og geta gengið inn næsta gang til að komast til útlanda og c) sjúklingar þoli aukalega 12 mínútur sem bætast við 150 mínútna meðalferðatíma. Kannski þarf að bæta aðeins við heilsugæslu um borð.

Hingað til hafa aðallega heyrst tilfinningaleg rök með flugvellinum á sama stað, ekki síst að það ógni öryggi sjúklinga og slasaðra að hafa hann annars staðar. Í alvöru? En ef heilbrigðisþjónustan yrði færð, er þá áfram vegið að öryggi sjúklinga að lenda annars staðar, t.d. nálægt nýrri bráðadeild?

Fólk sem á erindi til Reykjavíkur á svo heldur ekki allt erindi í 101.

Fyrir launamann eru 22 milljarðar mjög há upphæð en ef við skoðum 700 milljarða kr. veltu þjóðarbúsins er þessi rosalega háa upphæð aðeins um 3%. Svo má reikna með að eitthvað fáist fyrir landið í Vatnsmýrinni þegar það verður selt, ekki satt? Og hvað með samlegðaráhrifin þegar innanlands- og millilandaflugið verður komið undir sama þak?

Að öllu samanlögðu lofar þessi niðurstaða góðu og nú hlakka ég til að heyra framhaldið. 


Fyrstupersónuflótti

Mér finnst það hafa aukist, kannski bara frá því í síðustu viku, að fólk skrifi í leiðarlýsingum sínum (á Facebook): Gengið var upp fjallið, horft á sólarlagið og farið aftur niður þar sem nestið var loksins borðað. Mér finnst fallegra að nota 1. persónu og segja: Við gengum upp fjallið, horfðum á sólarlagið, fórum aftur niður og borðuðum loks nestið. (Ekki verra: Við gengum upp fjallið, sáum sólina setjast og rísa á ný áður en við fikruðum okkur aftur niður og gæddum okkur loks á smurða brauðinu. Eða eitthvað ...)

Ætli fólki finnist það of sjálfhverft ef það talar út frá sjálfu sér í stað þess að nota þolmynd? Varla, um leið eru teknar svo margar sjálfhverfur ... (Um leið tekur það svo margar myndir af sjálfu sér ...)

Best að ræða þetta á kaffistofunni við tækifæri. Nema þú viljir leggja eitthvað til málanna. laughing


Ferðaþjónusta í boxinu

Nú um helgina gekk ég í tvo daga í Dölunum. Við vorum 30 saman, hópur sem tilheyrir gönguhópnum Vesen og vergangur. Uppáhaldsferðaskipuleggjandinn minn, hann Einar, skipulagði gönguna frá Langavatni að Hítarvatni með viðkomu á Seljalandi þar sem við gistum. Að sönnu er dásamlegt að eiga heiminn frá upphafi til enda og rekast ekki í sífellu á annað fólk en maður getur ekki annað en undrað sig á því að ganga 55 km leið á tveimur dögum og rekast ekki á nokkurn mann fyrr en á endastað þar sem tveir menn stóðu í vatni upp í nára og sveifluðu veiðistöngum. Vegalengdin er upp á kílómetra sú sama og Laugavegurinn milli Landmannalauga og Þórsmerkur sem er mjög fjölfarinn og virðist njóta varanlegra vinsælda, gott með það, en göngufólk mætti kannski líta aðeins í kringum sig. Eins og Einar.

Og þetta á ekki síður við um ferðaskrifstofur sem selja útlendingum ferðir. Mörg svæði eru sprungin eins og oft er talað um í fréttum og það er löngu tímabært að hugsa út fyrir boxið og fjölga viðkomustöðum. Vatnaslóðirnar falla tvímælalaust í þann hóp.

Langavatn > Seljaland > Hítarvatn 


Sannfæring fyrir [einhverju að eigin vali]

Ég hef fullt af skoðunum. Sumar viðra ég, aðrar ekki. Um sumar skrifa ég en margar ræði ég bara við fólk í nærumhverfi mínu. Sumar eru afdráttarlausar, sumar eru í takt við skoðanir flestra en stundum syndi ég gegn straumnum. Í kosningum er ég óvissuatkvæði og hlusta á það sem frambjóðendur segja og reyni að horfa á hvernig þeir hegða sér.

Fullt af áberandi fólki hefur fullt af skoðunum. Margt af því fólki segir samt bara það sem við búumst við og margt fólk er orðið að eins konar stofnunum. Það er eðlilegt, t.d. í pólitík þar sem fólk þarf að kynna sig hratt og örugglega og vill ekki koma aftan að kjósendum sínum. Kjósendur vilja heldur ekki láta koma sér á óvart í mikilvægum málaflokkum.

Það er sem sagt skiljanlegt og ekki óskynsamlegt að vilja vita hvar maður hefur fólk.

En djö er gaman að sjá og heyra blóðið renna í fólki. Ég þori ekki að nefna nærtækt dæmi úr síðustu viku en ætla hins vegar að hrópa húrra, eins og margir aðrir, fyrir Halldóru Geirharðsdóttur sem fékk verðlaun á Grímunni og leit á það sem tækifæri til að tjá sig við stóran hóp fólks í gegnum glugga á sviðinu. Ég get viðurkennt að ég er sammála Halldóru um að við eigum að rétta úr okkur og ákveða hvernig samfélag við viljum vera en ég hugsa að þó að ég hefði mögulega verið ósammála henni hefði ég hrifist af ákefðinni. 

Sannfæringarhiti er máttugt tæki.


Jón Sigurðsson mótmælandi

„Vér mótmælum allir,“ sagði Jón Sigurðsson með um 40 öðrum þingmönnum 1. júlí 1851 þegar fulltrúi danska kóngsins vildi slíta fundi íslenskra þingmanna af því að hann óttaðist að ella myndu þeir tala geyst um sjálfstæðishugmyndir sínar. Alveg óháð tilefninu finnst mér vandfundinn heppilegri dagur til að mótmæla einhverju sem ógnar sjálfsögðu sjálfstæði okkar en afmælisdagur Jóns Sigurðssonar.

Til hamingju með daginn.


Verkfallsréttur - eða ekki

Ég vinn á skrifstofu og hef ekki verkfallsrétt. Sönn saga. Ég held að það þurfi að verða breið og málefnaleg umræða um þær stéttir sem eru með verkfallsrétt og sitt eigið samningsumboð. Er kjararáð svarið? Ég get ekkert tjáð mig um yfirvofandi lagasetningu vegna þess að við fáum ekkert að vita um bilið milli viðsemjenda. Samt finnst mér þetta koma mér við.

undecided

Hver ákveður upphæðina ef heilbrigðisstéttir eiga bara að þiggja það sem þeim er rétt? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband