Stemningshlaupið á hálum?

Ég skráði mig í litahlaupið þegar það var fyrst kynnt til sögunnar. Í mörg herrans ár hef ég tekið þátt í keppnishlaupum án þess að æfa nokkru sinni. Mér hefur þótt gaman að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni, Jónsmessunæturhlaupi, Fossvogshlaupi, Rauðakrosshlaupi o.s.frv. af því að þar er sjálfsprottin stemning. Ég hef ekki haft metnað til að slá neinar sérstakar keilur, bara viljað hafa gaman. Þegar 6. júní 2015 nálgaðist og litahlaupið var auglýst alveg botnlaust runnu á mig tvær grímur hið minnsta og ég missti áhugann, og það þótt „ágóðinn ætti að renna til Unicef“ eða hver þiggjandinn átti að vera og hvernig sem það var orðað.

Ég var í miðbænum á laugardaginn og sá eitthvert brot af hlaupinu og síðan sá ég mjög mikið til þess á Facebook. Sem betur fer hafði fólk augljóslega gaman og það er frábært. En kostnaður við hlaupið, auglýsingar, litapúðrið, starfsmenn, bolir og verðlaun, hefur væntanlega tekið kúfinn af „ágóðanum“ þótt keppendur/þátttakendur hafi trúlega í mörgum tilfellum borgað 3.500 og 6.500 með glöðu geði í trausti þess að góðgerðarsamtök fengju góðan skerf af þátttökugjöldunum. Eða kannski er alls kyns fólk ekkert að velta þessu fyrir sér þótt Unicef sé veifað eins og gulrót framan í það.

Kannski man ég bara of vel spillingarfréttir af fjársöfnun kirkjunnar til að treysta því í blindni að markaðsmenn sem fara af stað undir því fororði að láta Unicef og Rauða krossinn njóta góðs af svona átaki meini það sem þeir segja og segi það sem þeir meina. Og Stundin teflir fram slíkri frétt í dag. Er bókhaldið uppi á borðinu? Getum við fengið að vita hversu hátt hlutfall söfnunarfjár fer þangað sem það nýtist best?

En ég hef ekki heyrt neinn keppanda kvarta svo því sé haldið til haga. Þetta er sennilega bara meinbægni í mér ...


Stolin ritgerð

Í mínu fyrra lífi kenndi ég ritgerðasmíð, textameðferð, heimildanotkun og tilvísanir, að vísu ekki í háskóla. Þegar ég hætti framhaldsskólakennslu var internetið rétt að byrja að ryðja sér til rúms þannig að bíræfnustu nemendur mínir afrituðu texta úr bókum, jafnvel fræðibókum sem við notuðum í tímum, án þess að geta heimildar. Það heitir ritstuldur og ég brást ókvæða við þegar ég stóð nemendur að honum. Ég veit auðvitað bara um dæmin sem ég uppgötvaði en þegar maður þekkir nemendur sína veit maður nokk til hvers þeir eru líklegir, maður þekkir orðanotkun og áferð texta úr prófum.

Því er síður til að dreifa þegar háskólakennarar taka að sér að leiðbeina útskriftarnemendum. Engu að síður verð ég að lýsa undrun minni ef rétt er farið með upplýsingar um nemandann sem skáldaði viðtöl við fólk í ferðaþjónustu. Ritgerðin hefur verið fjarlægð úr Skemmunni enda eitthvert ferli farið í gang, vonum seinna ef eitthvað er að marka fréttaflutning.

Ef ég hefði verið beðin að prófarkalesa ritgerðina hefði ég hnotið um misræmið í orðalagi rannsóknarspurningarinnar fremst og aftast. Ég sver það. Hvernig viðskiptafræðingur verður maður sem vandar sig ekki við neitt í lokaritgerðinni sinni? Hvað má segja um deild í HÍ sem lætur svona líðast? Hversu mikil brögð eru að svona nokkru? Hversu mörg dæmi uppgötvast ekki?

Ég er dálítið bit þótt ég geti tekið undir þau orð rektors að ekki megi dæma heila stofnun þótt einn nemandi af 14.000 gerist brotlegur. Þetta er samt spurning um verklag ...


Kvennaþing?

Samkvæmt Hagstofunni vorum við 329.100 manns 1. janúar sl. Ég hef greinilega misst af fjölgun upp á 5.000 eða svo síðan ég fór í mínu síðustu ferð sem leiðsögumaður. Þar af eru konur 163.914 og karlar þá 165.186, nokkuð jafnt. Tæplega 80.000 eru ekki komin með kosningarrétt en 250.000 hafa hann og eru kjörgeng að auki. 

Má útiloka 125.000 Íslendinga í kosningunum 2017? Ragnheiður Ríkharðsdóttir varpaði þeirri róttæku hugmynd fram á þingi í gær. Hvað gæti áunnist? Það gæti sannast að konur vinni betur saman. Að konur séu lausnamiðaðri en karlar. Að konur skipi sér ekki í fylkingu stjórnar og stjórnarandstöðu, fari vel með fé, afstýri verkföllum, jafni launin, miðli málum, leysi málin. En auðvitað eru 63 konur einstaklingar eins og 63 manns yfirleitt. Kyn er bara ein breyta; uppeldi, menntun, gen, félagsskapur og tilviljun skiptir líka máli þegar manneskja verður til, þroskast og gerir sig gildandi. Þær konur sem byðu sig fram ættu það væntanlega sameiginlegt að vilja láta kjósa sig og vildu sjálfsagt hafa áhrif á þjóðmálin.

Og mögulegir gallar við hugmyndina? Að vondar konur yrðu fyrir valinu; áhugalausar, heimskar, illa meinandi, gírugar, latar og ólæsar á tölvur.

En ætli við gætum ekki fundið 63 dugmiklar og klárar konur í safni 125.000 kvenna? Ég er svolítið skotin í þessari hugmynd á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna (jú, skv. stjórnarskrá eru -rr- í orðinu) þar sem öll kerfi útiloka fullt af fólki hvort eð er. En hugmynd þingmannsins er að ekki þyrfti að vera um að ræða stjórn og stjórnarandstöðu, bara hóp (kven)manna sem ynni sameiginlega að markmiðunum. Útópía?

Önnur hugmynd er að velja tilviljunarkennt úr þjóðskrá. Það er líka athugandi ...


Vesen og vergangur - til fyrirmyndar

Það er merkilegt hvað maður skrifar stundum lítið og jafnvel ekki neitt um fólk og fyrirbæri sem skipta mann miklu máli. Gönguhópurinn Vesen og vergangur (andheiti, markmiðið er að losna við vesen og vergang með því að leigja rútu til að fara mörg saman í gönguferðir A-B) hefur verið snar þáttur í félagslífi mínu og risastórt áhugamál í bráðum fjögur ár og ég held að ég hafi aldrei nefnt hann á blogginu. Hann er hins vegar umfangsmikill á Facebook-síðunni minni. En nú langar mig allt í einu að birta eina mynd sem ég tók í gær þegar við vorum að klára 15 km göngu úr Bláfjöllum yfir að Hlíðarvatni við Selvog.

IMG_0092

Þegar við komum niður á veginn sýndist okkur uppgufun stafa frá vatninu. Það reyndist hins vegar flugnager mikið og ég tók mynd af því þegar við vorum komin inn í rútuna og keyrðum inn í sveiminn. Auðvitað er gaman að horfa til fjalla og jökla, stöðuvatna og mosaþembna en það er líka svo gaman að láta koma sér á óvart og upplifa eitthvað glænýtt. Ég held að ekkert okkar hafi séð svona mikið mý í einu. Eymingjans flugurnar lifðu það ekki allar af að rútan keyrði inn í „þvöguna“.

Liðin lík

Að lokum er ástæða til að nefna að Einar Skúlason, forsprakki gönguhópsins, var að fá í hendurnar lausblaðabók með 20 leiðarlýsingum, kortum og örsögum og útgáfuhófið verður á fimmtudaginn í Cintamani-búðinni í Bankastræti kl. 17. Mér er nú líka málið skylt ...


Málið skylt ...

Ég verð að halda til haga skoðun Kolbeins Proppés í Fréttablaðinu í dag, einkum þessu:

Umræður þar eru í beinni útsendingu, bæði í sjónvarpi og á netinu, og hið stórkostlega starfsfólk þingsins er fljótt að skrifa ræður upp og birta á vefnum.

 


Verkföllin bitna ekki á mér

Ég er að meina þetta. Nákvæmlega núna þarf ég enga læknisþjónustu og get verið án kjúklingakjöts. Sumar stéttir eru búnar að vera í verkföllum í margar vikur án þess að ná saman með viðsemjendum sínum. Og fleiri stéttir hafa boðað verkföll sem hefjast um mánaðamótin. Þá verður búðum lokað og landinu kannski líka og ég get þakkað fyrir að hafa hvergi bókað mig sem leiðsögumaður því að ferðum verður ef til vill aflýst og þá fær leiðsögumaður engin laun vegna „force majeure“, svokallaðra óviðráðanlegra orsaka.

Þegar Eyjafjallajökull gaus fyrir rúmum fimm árum hættu nokkrir hópar við að koma til landsins, vantreystu því að þeir kæmust hingað og enn meira að þeir kæmust í burtu. Náttúruöflin eru óútreiknanleg en eru ónáttúruöflin eitthvað fyrirsegjanlegri?

Ég get verið ábyrgðarlaus, er ekki atvinnurekandi og get kannski trútt um talað, en er ekki kominn tími til að bretta upp ermar, moka flórinn – og semja? Undarlegt að menn skuli alltaf vilja setjast niður ... í stað þess að láta verkin tala. Hvað með 

a) þjóðarsátt?

b) hækkaðan persónuafslátt?

c) hámarksbil milli lægstu og hæstu launa?

Ég tek svo stórt upp í mig að segja að fyrirtæki sem ráða ekki við að borga starfsfólki sínu meira en lögbundin lágmarkslaun hafa tæpast rekstrargrundvöll. En er það vegna þess að þau borga „eigendum“ sínum of mikinn arð eða kunna einfaldlega illa á fyrirtækjarekstur? Við borðum öll daglega þannig að við kaupum í matinn og ég ætla ekki að telja upp allt það sem augljós eftirspurn er eftir vegna reglulegrar notkunar fólks. Ef við borgum sanngjarnt (og að sumra mati of hátt) verð fyrir vöru og þjónustu á að vera hægt að láta þá sem veita vöru og þjónustu fá eðlileg og sanngjörn laun fyrir vinnuna. Er það ekki?

Hefur græðgi eitthvað að segja í þessu samhengi? Níska? Eða eru heilu stéttirnar óalandi og óferjandi? 


Ákefð og ástríða Árnastofnunar

Í morgun var árviss ársfundur Árnastofnunar. Að vanda ávörpuðu fundinn formaður stjórnar og forstöðumaður. Ég man ekki hvenær Þorsteinn Pálsson tók við formennskunni en Guðrún Nordal er búin að vera þarna í nokkuð mörg ár og geislar ævinlega af áhuga og metnaði. Það einkenndi þau bæði núna líka.

Það er vilji til að bretta upp ermar en áformum og góðum hug verður líka að fylgja fé. Ég kýs að trúa að hola íslenskra fræða verði orðin full af handritum 2018.

Svo voru nokkrir stuttir fyrirlestrar um íðorðanefndir, stöðu tungumálsins í tölvuheiminum, þýðingar og máltækni. Tæknin var til fyrirmyndar - já, mér finnst ástæða til að taka það fram - þannig að enginn dýrmætur tími fór í bið. Hver frábæri fyrirlesarinn á fætur öðrum kom í réttri röð í pontu og þau öll - öll, ítreka það - höfðu mikið fram að færa, ekki allt alveg glænýtt fyrir áhugasama en sannarlega forvitnilegt og uppörvandi.

Þessir ársfundir eru mitt helsta haldreipi þegar ég fæ efasemdir um að íslenskan lifi tölvuöldina af. Í maí er ég aldrei efins.

Ekki bíll. Nei, talgreinir!

Það er undurgaman að heyra fólk tala af áhuga, umhyggju og ástríðu um vinnuna sína. Áhugi er svo mikill hvati. Er það forstöðumaðurinn?


Kröfugerð í prósentum er út í hött

Nú er búið að vísa kjaraviðræðum Félags leiðsögumanna við viðsemjendur, Samtök atvinnulífsins, til ríkissáttasemjara. Ég hef verið í þessum sporum og ég veit satt að segja ekki hvað þarf til að opna augu ferðaskrifstofa.

Það er ætlast til þess að leiðsögumenn viti margt, geti komið því frá sér á erlendu tungumáli, stundum tungumálum, umgangist náttúruna af varúð og leiðbeint misgæfusömum túristunum, séu ávallt í góðu skapi, séu löngum stundum að heiman og taki sér launalaust frí til að fara til læknis. Atvinnuöryggið er ekkert, réttindi sáralítil og fyrir heilan mánuð af svona starfskrafti eru núna borguð 270.000 í efsta flokki samkvæmt taxta. Við leiðsögumenn vitum mætavel að taxtarnir eru bara gólfið, við megum semja um hærri laun, en stóru ferðaskrifstofurnar vilja ekki borga meira.

Og vitið þið hvað?

Þær segjast hafa gert ráð fyrir þessum (lágu) launum í tilboði til erlendu kúnnanna og að hækkun á launum setji skipulagið á hliðina - en ef samið verði um hærri laun hækki þau auðvitað til okkar. Ha, er þá allt í einu svigrúm?

Í fyrra var samið um skitin 3% með bókun um að mun meiri launakrafa yrði gerð í ár. Ég held að fyrirtæki sem ekki geta hækkað laun leiðsögumanns talsvert séu einfaldlega illa rekin.

270.000 * 50% = 405.000 og þá er samt ekki gert ráð fyrir orlofi, veikindarétti eða starfsöryggi. Ég er kannski heppin að þurfa ekki að vinna við þetta og líka heppin að hafa unnið fyrir þessu skítakaupi í nokkur sumur meðan ég hafði gaman af starfinu. En þessi laun eru ekki boðleg og ég vona að stéttvitundin verði meiri og leiðsögumenn láti hart mæta hörðu. Sjálf er ég búin að vera í eins manns verkfalli í tæp tvö ár.


Næstfallegasti maður í heimi

Nú á ég nýja uppáhaldsbíómynd. Hún er svakalega hversdagsleg og að sumu leyti fyrirsegjanleg - en samt ekki. Hún er um þessi hefðbundnu sannindi að maður verður að lifa hvern dag eins og hann sé einstakur. Það þarf ekki að vera leiðinlegt að taka til morgunmatinn, mæta í vinnuna, borga skatta og ferðast í rigningu. Maður hefur val um að gera gott úr því. Að vísu myndi ekki skaða að geta bakkað og leiðrétt mistökin annað slagið, en í aðalatriðum hefur maður val um að vera í góðu eða vondu skapi og vinna „skylduverk“ með góðu eða illu.

Og ég uppgötvaði frábæran írskan leikara sem ég veit ekkert hvernig á að bera fram nafnið á, Domhnall Gleeson. Hann er svipbrigðaríkur og svo lék hann hlutverk gæfusama mannsins sem áttar sig á ríkidæmi sínu. Rachel McAdams var heldur ekkert slæmur mótleikari. Að ógleymdum Bill Nighy sem mér hefur löngum þótt frábær. Bresk gæði í fyrirrúmi.

Hingað til hefur Nothing to Lose verið í uppáhaldi og Once Were Warriors, ólíkar myndir en báðar þeim eiginleikum gæddar að koma mér á óvart. Og það gerði About Time svo sannarlega og það er með því skemmtilegasta sem ég upplifi. Og hinn undurfríði Domhnall spillti engu þegar hann brosti.


Nei við reiðhjólahjálmi

Því miður finnst mér Hjólað í vinnuna orðið dálítið staðið verkefni. Ég heyrði viðtal við verkefnisstjóra í útvarpinu í gær sem sagði að fjöldi þátttakenda hefði stigið stöðugt fyrstu árin, væri nú komið í kyrrstöðu þegar það væri búið að vera svona lengi í gangi, frá árinu 2003, en vonandi næðist áfram 10.000 manna þátttaka. Ég fer mjög mikið fyrir eigin vélarafli þannig að átakið hefur aldrei haft nein áhrif á raunþátttöku mína, bara skráninguna. Og nú nenni ég ekki lengur að skrá mig þótt ég sé á 100 manna vinnustað og við séum hvött til þess að „vera með“. Ég hjóla í vinnu og ég hjóla úr vinnu. Það þýðir tvær skráningar í verkefninu. Ég veit ekki hvernig það er núna en maður þurfti að minnsta kosti alltaf að velja upp á nýtt ef maður fór ekki hjólandi, síðasta val kom ekki sjálfkrafa upp, og maður var beðinn um veðurlýsinguna - en hún átti að vera sú sama fyrir báðar ferðir. Instagram getur kannski bjargað einhverju í ár en annars er blessað verkefnið alveg að geispa golunni.

Nóg um það.

Ég las viðtal við Gísla Martein í gær um notkun hjálma. Eða ekki. Það er útbreiddur misskilningur að maður þverskallist við að nota reiðhjólahjálm af því að það sé ekki kúl, að það hafi með útlit að gera. Það er ekki málið. Mér hefur alltaf þótt óþægilegt að vera með húfu, mér finnst óþægilegt að vera með annað en kannski úlpuhettuna á hausnum. Þegar ég fer ofan í hella er ég samt með hjálm af því að þá er það raunverulegt öryggisatriði. Þegar ég hjóla eftir stígum eða í rólegum hliðargötum er ég ekki í meiri hættu en gangandi vegfarandi. Ef fleiri hjóluðu að staðaldri en nú er væru færri bílar á götunum en þessi eilífa krafa sumra um að maður hjóli með hjálm fælir of marga frá reglulegum hjólreiðum og eykur þar með slysahættu ef eitthvað er.

Ég segi eins og píratinn: Að auki legg ég til að fólk hætti að amast við hjálmlausu hjólandi fólki (hann er að vísu með annan baráttutón í lok hverrar ræðu).


Sama gamla sagan: Ferðaþjónustan

Nú er verkfall úti um landsbyggðirnar eins og menn eru farnir að kalla svæðið utan höfuðborgarsvæðisins. Ég geri ekki ágreining út af orðalaginu, ég er að velta fyrir mér verkfallinu. Það kemur víða við og ekki síst í ferðaþjónustunni. Ég veit ekki hvort leiðsögumenn munu njóta góðs af þegar úr greiðist en ferðaþjónustan er sannarlega ekki lengur tímabundið „ástand“, ferðaþjónustan er orðin að heilsársatvinnugrein.

Og ég er að hlusta á viðtal við formann Félags leiðsögumanna sem var spilað í Samfélaginu í vikunni. Örvar er málefnalegur, yfirvegaður og skýr í tali. Nú verða leiðsögumenn að fara að fá löggildingu á starfsheitið - og hærri laun. Það þykir vanta menntun inn í ferðaþjónustuna. Það hafa alla tíð verið gerðar miklar kröfur til leiðsögumanna. Nú þurfa launin að fylgja.

 

Ísland allt árið.


Bræðslur og frystiklefar fá nýtt hlutverk

Við þekkjum hátíðir hérlendis, Aldrei fór ég suður og Bræðsluna svo dæmi séu nefnd, sem eiga uppruna sinn í húsum sem hafa verið yfirgefin vegna breyttra forsenda, t.d. í sjávarútvegi. Ég hef oft horft á yfirgefnu bæina á Suðurlandi og velt fyrir mér hvort ekki væri vert að bjóða listamönnum úr ýmsum áttum, myndlistarmönnum, skáldum og tónlistarmönnum svo dæmi séu nefnd, til að vinna að list sinni þar og enda með einhvers konar sýningu. 

Og nú birtist leiðari í Fréttablaðinu um vel sótt en afskekkt listasafn í Tasmaníu og ég rifja aftur upp Frystiklefann á Rifi sem hefur verið breytt í menningarhús og farfuglaheimili.

Meira svona, takk. Ég hef sýnt að ég mæti.


Leiðsögumaður allt árið

Maður heyrir í fréttum að yfirvofandi verkföll muni hafa þannig áhrif á ferðaþjónustuna að hún fari langleiðina á hliðina. Það eru vondar fréttir en í mínum augum er þeta nauðsynlegt ef það á að vera einhver von til þess að fólkið á gólfinu fái sanngjörn laun fyrir vinnuna sína. Í þessu samhengi ætla ég að leyfa mér að undra mig upphátt á fögnuðinum sem mér virðist hafa brotist út yfir „bónusgreiðslunum“ sem tókst að semja um við HB Granda. Grunnlaun eiga að vera mannsæmandi og þau eiga að heita grunnlaun, ekki bónusgreiðslur, ekki yfirvinna, ekki óunnin yfirvinna, ekki bílastyrkur, bílapeningar, þrif eða matartímar. Sumir hafa til dæmis viðrað þá skoðun að leiðsögumenn fái þjórfé og því megi launin vera lægri. Í fyrsta lagi hefur þjórfé ekki tíðkast hjá sumum þjóðernum, ég held að Skandinavar borgi ógjarnan þjórfé, Bretar ekki endilega, ekki Hollendingar. Það eru helst Bandaríkjamenn og líklega svo Þjóðverjar. En nú er ég svolítið að giska. Það sem ég hins vegar man frá áratugnum mínum í ferðaþjónustunni var að þjórfé minnkaði stöðugt, og var svo sem aldrei uppgrip í dagsferðunum. Stærsta flugfélagið skrifaði inn í bæklingana sína að þjórfé væri illa séð. Eða ætlar einhver að hrekja það?

Mér finnst sem sagt að fólk eigi að fá mannsæmandi grunnlaun. Ég held að SAF séu aðeins að vitkast í þessum efnum og það verður spennandi að sjá hvernig sumarið 2015 leggur sig.


Facebook-reglur

Ég veit að í dag er sumardagurinn fyrsti og allir að velta fyrir sér hvort árstíðirnar hafi frosið saman. Samt er ég að velta fyrir mér reglum um myndbirtingar á netinu, einkum Facebook. Ég á litla myndavél en hef alltaf tekið og tek enn margar myndir. Alltaf þegar ég fer með gönguhópnum mínum á fjöll eða geng gamlar þjóðleiðir, alltaf þegar ég fer eitthvað með hlaupahópnum mínum, alltaf þegar einhverjir hópar sem ég tilheyri gera eitthvað dreg ég upp myndavélina. Ég á litla myndavél sem ég nenni alltaf að hafa með mér og gæðin eru ágæt en ekkert í líkingu við þau bestu. Og mér finnst bara skemmtilegt þegar fólk sýnir myndunum mínum áhuga (yfirleitt myndefninu) en í síðustu viku lenti ég í því að maður sem ég þekki lítið tók mynd sem ég hafði tekið af honum og setti á Facebook-vegginn sinn án þess að láta þess getið að hún væri fengin frá öðrum.

Já, hún er af honum og já, hún er ekkert meistaraverk og já, ég gæti talað um þetta við hann og já, ég mun ekki oftar taka mynd af honum (þótt ég hafi ekkert sagt við hann) en ég er bara að velta fyrir mér fræðilega hvað fólki finnst eðlilegt. Ég merki ekki myndirnar mínar með nafni eins og sumir gera en þegar myndum er deilt á Facebook eða fólk einfaldlega merkir sig þannig að myndin birtist hjá því sést hvaðan myndin kemur. 

Þetta finnst mér svo sjálfsagt og þegar ég hef tekið mynd frá öðrum og gert að opnumynd hjá mér segi ég hver tók hana. Þegar ég bið hins vegar einhvern að taka mynd af mér á mína myndavél og nota hana í myndasögu úr einhverri ferð finnst mér óþarfi að tíunda hver tók myndina fyrir mig. Ég vel myndefnið, staðinn og stellinguna. En kannski ætti ég að gera það. Eða er „reglan“ bara sú að myndir sem settar hafa verið á netið séu sameign allra sem horfa á þær?


Vigdís á afmæli

Í dag er 15. apríl og í dag er Vigdís Finnbogadóttir 85 ára gömul. Ég man þegar hún var kosin forseti 1980, ég var ekki komin með kosningarrétt en ég vakti yfir sjónvarpinu alla nóttina. Ég hefði ekki kosið hana, ég HÉLT MEРGuðlaugi Þorvaldssyni ríkissáttasemjara, sennilega af því að mamma og pabbi kusu hann. Sem betur fer hef ég vitkast með árunum.

Mér finnst merkilegt að hafa lifað þann tíma sem Vigdís varð og var forseti. Framboðsfundur sem nýlega var rifjaður upp í sjónvarpinu sýnir stórkostlegt brot af henni. Þegar hún er spurð hvort það eigi að kjósa hana vegna þess að hún sé kona segir hún: Nei, það á að kjósa mig af því að ég er maður.

Heilu áhafnirnar lýstu yfir stuðningi við hana og þótt hún hafi bara verið kosin með um þriðjungi greiddra atkvæða varð hún fljótlega forseti flestra Íslendinga. Tvímælalaust forsetinn minn, talsmaður tungumálsins og náttúrunnar, fjölfróð og glæsileg á velli. Ég er hreykin af því að samlandar mínir hafi tekið hana fram yfir Guðlaug, Albert Guðmundsson og Pétur Thorsteinsson og mjög stolt af að hún hafi verið forsetinn minn.

Og hún ber enn hróður okkar víða.


Túristi nr. 1.000.001

Ég hef loðað við ferðaþjónustuna í rúm 10 ár. Allan þann tíma hefur verið þrálát umræða um aðstöðuleysi. Nú opnar enn einn ferðaþjónninn munninn - og ég er ekki að gagnrýna hann - en er ekki bráðum búið að tala nóg? Hvað þarf til? Umtalsverðan fjölda af klósettum og vöskum, gjaldhlið eða álíka og talsverðan fjölda sem þrífur eftir gestina.

Fleira? Ég held ekki.

Annars man ég eftir salernum í Seltúni. Kannski eru þau orðin full.


Að ganga í strætó

Ég segi það satt að strætó er ekki vinur minn. Ég opnaði straeto.is í gærkvöldi og ætlaði að finna út hvernig ég kæmist úr Glæsibæ í Álfheimum niður á Lækjartorg í dag. Í reitinn brottfararstaður sló ég Álfheimar 74 og áfangastað valdi ég Lækjartorg. Fyrsti gefni kostur var leið 3. Ég skoðaði legg á korti og sá að ég þyrfti að ganga yfir alla Skeifuna og út á Miklubraut. Og næsti möguleiki var eins og þriðji og fjórði. Enginn vagn bauðst niður Suðurlandsbrautina. Það er sko ekki ofverkið mitt að skondrast í gegnum Skeifuna en ég ætlaði bara 4 km leið á áfangastað og þegar ég lagði gönguna af Suðurlandsbraut við biðtímann var augljóst að ég myndi sáralítinn tíma græða.

Ég gekk niður í bæ og enginn vagn tók fram úr mér á Suðurlandsbrautinni. Þetta er það sem strætó gerir fyrir mig. 

Af því að bíllinn er ekki heima og af því að hjólið er vindlaust fer ég gangandi mest það sem ég þarf og síðustu þrjá dagana eru það orðnir 30 km, skemmtileg tilviljun að þetta eru einmitt fyrstu þrír dagarnir í sérstakri gönguáskorun ...


Endurgjöf

Þegar ég bið um endurgjöf er ég ekki endilega að biðja um klapp á bakið. Ég er að biðja um að mér sé stundum sagt frá því sem ég geri vel og líka að ég fái að vita af því sem ég geri ekki nógu vel til að ég geti bætt það.

Er það ekki almennur skilningur?

Snara tekur ekki af skarið:

endur|gjöf

KVK sálfr.
skynjanleg viðbrögð viðtakanda við tjáningu, áreiti e.þ.h. sem orka örvandi á sendanda tjáskipta, ans
(e. feedback)

Frystiklefinn fékk Eyrarrósina

Ég fékk hamingjuskot þegar ég heyrði að Frystiklefinn á Rifi hefði fengið verðlaun um helgina - einmitt þegar ég var þar í fyrsta skipti. Kári Viðarsson hleypti þessu verkefni, farfuglaheimili og menningarkima, af stað í júlí á síðasta ári og fyrsta reynsla af að vera þar er algjörlega dásamleg. Við gistum þar nokkur úr gönguhópnum Veseni og vergangi af því að við ætluðum í göngu frá Djúpalóni að Öndverðarnesi á föstudaginn langa og einmitt á skírdag kom Pétur Eggerz þangað með sýningu sína, Eldklerkinn

Frystiklefinn á Rifi

Það mætti segja mér að við ættum eftir að fara þangað aftur - og eiga gleðilega páska eða eitthvað.


Íspinni - eða ísterta?

Ég þurfti að hafa svolítið fyrir að finna þetta ádeiluvídeó um misskiptingu hagnaðarins. Kannski er einhver á öldum internetsins sem hefur ekki séð það ... fyrr en nú.
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband