Fjalla-Eyvindur flæmdur úr byggð

Í þessum rituðu orðum er verið að frumsýna leikritið Fjalla-Eyvindur og Halla. Ég sá það á forsýningu í gær og var yfir mig hrifin af uppsetningunni. Sagan kom mér ekki á óvart, ég þekki það hvernig Eyvindur (Kári) og Halla felldu hugi saman og þurftu að flýja réttvísina þar sem hann var meintur sakamaður. En stundum missir maður sjónar á því sem er beint fyrir framan augun á manni. Hverju stal Eyvindur sem gerði það að verkum að hann fór úr fæðingarsveit sinni, tók sér annað nafn og villti á sér heimildir? Af hverju þurfti hann að hírast í einsemd (síðar þó tvísemd og jafnvel þrísemd) þegar réttvísin kom aftur auga á hann? Voru lögin svo óbilgjörn? 

Ég las Höllu og heiðarbýlið (eftir Jón Trausta) nýlega og þar þurftu menn líka að verja hendur sínar og æru án sjáanlegs glæps, þ.e. Hjalti hennar Önnu. Yfirvaldið hafði tögl og hagldir og réttarríkið virtist lítils mega sín. Er það ekki breytt?

Ef við værum lausnamiðaðri og fúsari að bæta frekar en að brjóta niður og refsa hefði Eyvindur kannski orðið gegn og góður ráðsmaður eða bóndi, alið börn sín upp í góðum siðum - og orðið öllum gleymdur.


Hvað segir aðkomumaðurinn?

Ég fór á ferðaráðstefnu Landsbankans í gærmorgun. Helst vildi ég vera eilífðarnámsmaður en það er víst ekki í boði. Þá er næstbest að mæta af og til á stuttar ráðstefnur og námskeið. Ef ég kem út með eina nýja hugsun eftir tvo tíma er til einhvers farið. Þegar ég sæki erindi sem vekja áhuga minn hef ég eðlilega einhverjar hugmyndir um efnið og í bland er líka gott að fá staðfestingu á því sem maður vissi og að maður sé ekki á villigötum.

Og mér leið ljómandi vel undir fyrirlestrinum sem Doug Lansky flutti. Hann sagði mér að samfélagsmiðlarnir virkuðu ekki almennilega sem auglýsing - nema maður hefði upp á eitthvað að bjóða. Sum lönd eru með skrilljón læk á Facebook en ekki marga ferðamenn einhverra hluta vegna og önnur litla athygli á Facebook og Twitter en stríðan straum ferðamanna. Orðsporið, ánægði viðskiptavinurinn, selur. Og hann sýndi okkur tæplega þriggja mínútna myndband sem ferðamenn höfðu gert sjálfir af sínu eigin glæfralega teygjustökki. Fólk vill upplifun, ævintýri, nýjung - og staði sem eru ekki yfirfullir af öðru fólki.

Það er háskalegt að fegra og gylla áfangastaðinn, þá verður fólk vonsvikið þegar það mætir. Sá sem reiknar með fagurbláum sjó og gylltri strönd verður svekktur þegar sjórinn er drulluskítugur. Hins vegar getur, ehemm, drullan verið aðlaðandi ef hún er markaðssett sem slík. Og dettur mér þá í hug mýrarboltinn fyrir vestan sem er auglýstur með „Drullaðu þér vestur“. Doug vissi sennilega ekki af því góða átaki en hann sagði okkur hins vegar frá öðru athyglisverðu framtaki, poo bus, strætó sem var settur á götuna í Bretlandi í nóvember sl., strætó sem gengur fyrir lífrænum úrgangi. Og strætóinn er myndskreyttur á viðeigandi hátt.

Þegar ég sagði frá þessu heima í gærkvöldi var ég eðlilega spurð: En hvað með lyktina? Úps, ég gleymdi að spyrja um hana eða velta henni fyrir mér. Hvað stendur í Guardian? Ekki orð. En liggur ekki svarið bara í því að metan er lyktarlaus gastegund?

Hin sjálfsögðu sannindi eru þessi: Í Jökulsárlóni, við Dettifoss, í Ásbyrgi, í Landmannalaugum, við Gullfoss og Geysi og á Laugaveginum er komið of margt fólk. Það þarf að fjölga áfangastöðum og það þarf að styrkja innviðina.

Bingó.

Ég sá bæði ferðamálastjóra og framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar í Silfurbergi í gærmorgun þannig að nú hlýtur að draga til tíðinda ...

Og ekki eru síðri tíðindin sem bárust af Alþingi seint í gærkvöldi. Þá var útbýtt þingmannafrumvarpi um leiðsögumenn ferðamanna. Tíu þingmenn úr fimm flokkum leggja til lögverndun starfsheitisins leiðsögumaður ferðamanna! Félag leiðsögumanna hefur barist fyrir þessu sjálfsagða öryggisatriði frá stofnun þess, 1972. Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni, maður lifandi.

Kveðja,
uppgefni leiðsögumaðurinn


Hvenær hættir maður að heilsa?

Ég er ósköp fljót að segjast þekkja fólk, nátturlega ekki að ég þekki fólk út og inn en með nafni og nóg til þess að talast við úti á götu. En hvenær hættir maður að heilsa fólki? Ég heilsaði í dag manni sem ég hef sennilega ekki talað við í 20 ár. Til hvers heilsast maður þá á Laugaveginum? Er ekki einhver prótókollur um þetta?


Aumingja framkvæmdastjóri SAF

Ég vona að framkvæmdastjóri SAF sé á góðu kaupi. Það hlýtur að vera bæði lýjandi og niðurdrepandi að þurfa að ráðast í sífellu á lægstlaunaða fólkið í einni stoðgrein atvinnulífsins. Ég fullyrði til dæmis að laun leiðsögumanna - sem miklar kröfur eru gerðar til - séu fáránlega lítill hluti af verðmyndun ferðarinnar. Kúfurinn hafnar hjá öðrum en fólkinu á akrinum.

Ég þori ekki að hengja mig upp á hlutföllin en veit að þau eru nærri lagi þegar ég segi að fyrir 10 árum þurfti sex fargjöld í dagsferð til að borga laun leiðsögumanns en núna tvö. Túristinn borgar, það vantar ekki, hann borgar bara ekki leiðsögumanni, bílstjóra eða starfsmanni í gestamóttöku nema sáralítið.


Maraþonferðamennska - heilsutengd ferðaþjónusta?

Ég er uppfull af glænýjum upplýsingum sem ég veiddi upp úr maraþonhlaupara sem fór til Tókíó nýverið, já, einmitt til að hlaupa maraþon. Hlaup er nýjasta dellan mín og þótt ég hlaupi því miður ekki hratt get ég haldið lengi áfram þannig að ég sé fyrir mér að ég muni hlaupa 42,2 km í beit áður en ég verð öll.

Nema hvað, í Tókíó var á dögunum maraþonhlaup ársins 2015 og heimildir mínar herma sum sé að veðrið hafi verið eins og íslenskt vetrarveður. Mér varð svo um að ég spurði einskis frekar en ég man eftir margra stiga hita í janúarmánuðum sum árin þannig að það er ekki endilega slæmt. Svo sagði hann mér að fyrstu 5 km væru niður í móti og það fannnst mér hljóma afar vel. En fyrstu 2 km hlaupa maraþonhlaupararnir með 10 km hlaupurunum, þessar tvær vegalengdir eru ræstar saman og aðrar vegalengdir ekki í boði. Æ, ég sem var farin að gæla við 21,1 (eins og ég ætla að fara í RM í ágúst). Rúsínan í pylsuendanum var svo að flug og gisting í fjórar nætur hefði kostað 160.000 kr. Vúhú. Nema mér finnst tíminn of naumt skammtaður ef maður fer svona grefilli langa leið. En vá, hvað ég væri til í að fara til Tókíó. 

En kannski maður ætti að byrja á Þórshafnarmaraþoninu ...

Ég er farin að skilja betur áhuga útlendinga á að koma til Reykjavíkur í ágúst.


Svíar grínast líka með þegar samlandar þeirra slíta orð í sundur

Facebook á það til að sýna mér skemmtilegar síður, nú síðast sænska síðu þar sem menn skoða það hvernig merking setninga gjörbreytist þegar samsett orð eru slitin í sundur. 

Mus gift i lager.

Eða:

Musgift i lager.

Ég er ekki verseruð til fulls í sænsku en ég held að ég bulli ekki þegar ég þýði þessar tvær setningar svona:

Mýs giftar á lager.

Og:

Músaeitur á lager.

 

Og miðað við Facebook-síðuna er ekkert lát á svona opinberum merkingum. Ég hef bæði skilning á og samúð með þegar fólk hleypur á sig í prívattextum en þegar skilti eru prentuð með ljótum villum er það til muna verra - en maður getur þó alltaf skemmt sér yfir þeim.

 

Annað afar skemmtilegt dæmi:

Rosor super.

Hmm?

Rósir staupa sig.


Fimm skyndiráð um ritun - danskur rithöfundur

Ég er að lesa nýjustu bókina eftir Jussi Adler-Olsen á dönsku. Það er heldur meiri áreynsla en að lesa þýðinguna enda reikna ég með að eitthvað fari fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Ef ég væri með skothelda orðabók og nennti að fletta upp öllum vafaorðum skildi ég vitaskuld meira en þá yrði ég svo sein með bókina (og hún er af bókasafninu þar að auki) þannig að ég læt mér duga að halda þræði og rúmlega það.

En rétt í þessu datt ég inn á smápistil í Berlingske tidende. Rithöfundur gefur fimm hraðsoðin ráð um hvernig maður (Danir) getur orðið betri í --- nei, hvernig maður getur forðast „sprogspasseriet“. Og þar stendur nú hnífurinn í kúnni. Orðið er ekki í Snörunni minni, google-leit hjálpar ekki og google translate ekki heldur. Ég held að orðið hljóti að vera sprog-spasserie, eða er það kannski sprogs-passeri? Ráðin sjálf eru auðskiljanleg í öllu tilliti, kannski dálítið mikið sjálfgefin: maður á að hugsa um það sem maður ætlar að skrifa, fletta upp í orðabókum, lesa það sem aðrir skrifa (og gá sérstaklega að villunum án þess að reka þær framan í þann sem skrifar), æfa stutta texta á Twitter og lesa prófarkalesna texta, s.s. dagblöð og bækur.

Ég VERÐ auðvitað að gera tvær athugasemdir. Ég finn ekki sprogspasseriet í orðabók eða appi (sem er auðvitað bara leiðin að orðabókinni) og því miður eru dagblöð og vefmiðlar á Íslandi ekki yfirlesin af nægilega mikilli alúð enda tíminn of knappur, að því er virðist.

Samt er nú gaman að þessu ...


Marblettótti kjóllinn - þýðing

Ég missti af fyrstu klukkustundum litóða kjólsins í síðustu viku en þegar ég sá myndina af honum var hann bara gylltur og hvítur. Samt skilst mér að hann sé svartur og blár - black & blue sem er einmitt enska fyrir marbletti; blár og marinn. Og nú er búið að hanna hárbeitta auglýsingu gegn ofbeldi úr þessu skemmtilega írafári því að sumir, margir, of margir líta undan og neita að horfast í augu við hið augljósa.

En ég veit enn ekki hvenær gyllt er blátt þótt ég ætti að sjá þegar blátt er marið.

Þessi kjóll hefur sett heiminn á hliðina.


Vestið ,,hans" Daníels

Um daginn sá ég einhvern ergja sig yfir ótæpilegri notkun óþarfra fornafna, sbr. að segja „ég veit að hún Guðrún ætlar að mæta“ eða „ég hitti hann Einar síðast í morgun“ í staðinn fyrir að segja einfaldlega „ég veit að Guðrún ætlar að mæta“ eða „ég hitti Einar síðast í morgun“. Ég er lika á því að tungumálið verði straumlínulagaðra og hljómfegurra þegar merkingarlitlum smáorðum er eytt, sbr. þá sem ég hef litlar mætur á. [„Á morgun þá ætla ég að kaupa þessar buxur.“] Algeng hikorð eru líka (fyrir utan sko og héddna) auðvitað, einmitt, kannski, hér og nú sem geta vitaskuld haft merkingu en gera það oft ekki.

En maður verður líka að gæta sín á ofvöndun. Ég horfði á myndatexta sem ég skrifaði í gær: „Mér dettur helst í hug að vestið hans Daníels hafi hlaupið.“ og fannst ómögulegt að hafa bara: Mér dettur helst í hug að vesti Daníels hafi hlaupið.“ Er það ekki á einhvern máta ópersónulegra?

 


Hefðbundin stelpupör?

Ég er að lesa skemmtilega bók eftir Fredrik Backman. Aðalsöguhetjurnar eru Elsa (7) og amma hennar (77). Þær eru báðar miklir uppreisnarseggir og svara svikalaust fyrir sig. Elsa er einhverju sinni kölluð inn til skólastjórans vegna þess að strákur sló hana. Skólastjórinn kallaði það hefðbundin strákapör.

Amma spyr eðlilega á móti hvað séu hefðbundin stelpupör (bls. 82-83).

Varla vinkonur ...


Hvenær drepur maður mann og hvenær elskar maður bara mann?

Margt hafa menn skrafað um Náðarstund en mest hefur mér heyrst á einn veg, ánægjan er almenn. Og að vonum. Agnesi er lyft upp og henni fenginn sess fórnarlambsins að sumu leyti, fórnarlambs ástar sinnar á Natani. Um Agnesi var gerð bíómynd árið 1995, fyrir 20 árum, sem sjálfsagt byggði mikið á heimildum eins og Náðarstund Hönnuh Kent en þó veit auðvitað enginn hvernig allt var í pottinn búið. Enginn er til frásagnar en á 19. öld skröfuðu menn engu síður en á þeirri 21.

Hvenær drepur maður mann og hvenær elskar maður bara mann?

Ég hef heyrt af hestamanni sem las bókina og fannst fyrir neðan allar hellur hvernig talað var um hestamennsku. Ekki hef ég það vit og ég man varla eftir hestum í bókinni. Hins vegar bjóst ég við betri textafrágangi, svo mikið hafði bókin verið mærð, og þar sem ég er prófarkalesari að atvinnu fullyrði ég að bókin hefði batnað við einn yfirlestur til viðbótar. Smáatriði finnst mörgum en oft vantaði nafnháttarmerki og kommusetning var á skjön við máltilfinningu mína og skólalærdóm.

Aðalatriðið er samt að sjónarhornið er forvitnilegt. Við skyggnumst inn í hugarheim Agnesar og sjáum hvernig hún hefst við á Kornsá þar sem hún „bíður“ aftökustundarinnar. Heimilismenn laga sig að „sakamanninum“ og smitast af örlögum hennar og eins konar æðruleysi þótt hún reyni vissulega að losna af höggstokknum - fyrirfram.

Ef morð er glæpur - sem ég deili svo sem ekki um - er þá ekki líka glæpur að lífláta hinn seka? Ef morð er glæpur gegn guði, hvað segir hann þá um það þegar hinn seki fær sömu útreið?

Já, nei, örlög Agnesar lifa en ég er þrátt fyrir allt ekki eins hrifin af bókinni og hitt fólkið. 


,,Skiluru"

Það er svo mismunandi hvað fer í taugarnar á okkur. Ég held að við hljótum öll (flest?) að geta verið sammála um að ofnotkun orða er hvimleið. Ef menn segja „auðvitað“ í hverri einustu setningu eða „einmitt“ eða „kannski“ eða „þú'st“ hætta þau að merkja nokkuð. Þetta eru allt hikorð þótt það séu ekki orðin „sko“ eða „hérna“ sem eru líka algeng hikorð. Þegar þau eru endurtekin í sífellu hætta þau að hafa merkingu.

Ég sat fyrirlestur um hamingju nýlega og fyrirlesarinn sagði 40 sinnum „skiljið þið“ í lok setningarinnar. Einhverra hluta vegna truflaði það mig ekki en sessunautur minn tapaði sér yfir þessu og hakaði við í hvert skipti. Fyrirlesarar sem koma undirbúnir verða líka að passa sig sérstaklega vel. Svo spáði hann í sífellu „í þessu“ sem telst enn rangt mál, en það sem mér fannst óþægilegast var að hann notaði eignarfornöfn ótæpilega. Hann sagði að fólki liði svona og hinsegin í hjónabandinu „sínu“ (ekki hans samt), gott ef hann sagði ekki að einhver hefði stokkið upp á nefið sitt (ég er vön því að tala um að einhver stökkvi upp á nef sér) og bitið i handarbakið sitt. Það er erfitt að útskýra þessa meinloku sem mér finnst þetta vera ef fólk hefur ekki hnotið um það sjálft. Ofnotkun eignarfornafna er ekki farin að fara í taugarnar á mér en ég sé að það gæti gerst á komandi árum.

Ofnotkun orðsins „snillingur“ er hins vegar slík að ég get ekki lækað skemmtilegar myndir ef í myndatextanum stendur að „þessi snillingur“ sé orðinn eins árs. Snillingur? Það er eins og var með „einelti“ fyrir nokkrum árum, ef allt sem mönnum er ami að er kallað einelti falla alvöruþolendur í skuggann með alvöruvandamálin.


Skyldurækni

Víst er það göfugt að gera eitthvað af því að maður á að gera það. En ætli það væri ekki leiðinlegt ef fólk heimsækti mann, talaði við mann og drykki með manni kaffi af því að það ætti að gera það?? Það verður að gera fleira en gott þykir en fjandakornið sem það er skemmtilegra að gera gott úr því sem maður þarf og á að gera, t.d. að vera í vinnu, sinna eldhúsverkunum og rækta vina- og fjölskyldubönd.

Ji, hvað ég hlakka til morgundagsins! Mér finnst reyndar allt sem undir mig heyrir í vinnunni skemmtilegt. #heppin #broskall


Heilbrigðispassi?

Mér finnst einhvern veginn að allar leiðirnar sem er einhverra hluta vegna ekki hægt að fara í ferðaþjónustunni, sem hefur tekjur af greiðandi ferðamönnum, séu farnar í heilbrigðisþjónustunni. Eru ekki rukkuð komugjöld, brottfarargjöld og gistináttagjöld á spítölunum? Borgum við ekki fyrir sjúkrabílana, lyfseðla, lyf, sumar skurðaðgerðir og aðra veitta þjónustu þrátt fyrir að greiða skatta? Legugjöldunum - undir því nafni - var snúið aftur fyrir jólin 2013 en ýmsum kostnaði hefur samt verið velt yfir á hina sjúku og slösuðu - sem þykir of í lagt að leggja á ferðamenn ... 


Smávitalán

Ég biðst strax afsökunar á fyrirsögninni. Meiningin er ekki að gefa í skyn að lántakendur séu vitleysingar. Ég er bara svo gröm yfir því að hér séu raunverulega starfrækt okurlánafyrirtæki sem löggjafanum virðist ekki takast að koma böndum á. 

Hvers vegna ekki?

Kjarninn fór í gegnum söguna. Hver á og hver má lána lánlausu fólki smáaura og rukka fyrir það stórfé? Hvurs lags? Mér er fyrirmunað að skilja þetta. Nógu eru bankarnir frekir til fjörsins með þjónustugjöld og vaxtamun, hagnast óskaplega og reka svo starfsmenn af því að starfsmannaveltan er ekki nógu hröð til að hinir stóru blási nógu hratt út.

Nei, ég hef ekki tekið svona lán og veit ekki til þess að ég þekki neinn sem hefur gert það. En einhverjir hljóta að gera það því að púkinn fitnar á fjósbitanum og þetta máttleysi valdhafans gerir mér gramt í geði. Hver ræður annars í þessu landi?


Forsetakjör 2016

Mér finnst Ólafur Ragnar Grímsson hafa verið nógu lengi forseti.


Náttúrupassinn

Ég er skattgreiðandi. Ég er fyrrverandi leiðsögumaður. Ég er ferðalangur, bæði innan lands og utan. Ég borga. En ég er náttúrlega ekki pólitíkus og alls engin áhrifamanneskja í álögum, innheimtu, ráðstöfunum eða öðrum stjórntækjum.

Auðvitað munar mig ekki neitt um 500 kr. á ári. Mér væri meira að segja sama þótt ég þyrfti að kaupa og jafnvel bera á mér náttúrupassa í sjálfu sér. Það þarf að leggja og halda við stígum. Það þarf að útbúa og halda við grindverkum. Það þarf að þrífa klósett. Það þarf að kortleggja gönguleiðir. En þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni, ég hef ekki sannfærst um að peningurinn sem yrði aflað svona - með óhjákvæmilegri yfirbyggingu - færi í það sem hann ætti að gera, nefnilega uppbyggingu og viðhald. Ég held að mjög hátt hlutfall færi í eftirlit með passanum sjálfum. Mér dettur meira að segja í hug að þetta sé atvinnubótavinna fyrir einhvern sem er búið að munstra í að gefa út og fylgja náttúrupassanum eftir.

Getur þú sannfært mig um að ég hafi rangt fyrir mér?


Appelsínugulur líffæragjafadagur 29. janúar

Þegar kemur að litakóðuðu átaki til að standa með heilsutengdu málefni er ég svakaleg stemningsmanneskja. Ég hef líka lengi verið áhugamaður um að gera fólki auðveldara um vik að sýna vilja sinn til líffæragjafar ef svo illa fer að lífinu ljúki án þess að öll starfsemin geri það sömuleiðis. 

Á morgun er áskorun um að klæðast einhverju appelsínugulu til að sýna í verki vilja sinn til að vera líffæragjafi ef á reynir. Á morgun er 29. janúar og á morgun er ár liðið síðan ungur maður dó en var áður búinn að láta aðstandendur sína vita að hann vildi vera líffæragjafi ef til þess kæmi.

Ég verð appelsínugul nánast frá toppi til táar. Ég er líffæragjafi.


Gettu æ betur

Því miður get ég ekki setið við og hlustað á alla þættina af Gettu betur í útvarpinu en þetta er gott efni og ég hlakka til að heyra glefsur næstu kvöld. Maður getur verið að taka til, farið út að hlaupa, bloggað og margt annað meðan maður fylgist með með öðru eyranu.

Eru ekki allir að fylgjast með?


Er kímni gáfa?

Já! Og beitt vopn.

Ég veit að ég er margbúin að nota og vísa í þennan titil minn á BA-ritgerðinni um Hvunndagshetju Auðar Haralds en nú barst mér enn eitt tilefnið upp í hendurnar. Hvunndagshetjan var nefnilega bók vikunnar á Rás 1 rétt áðan. Hún kom fyrst út 1979, ég skrifaði um hana 1994 og útdrátt úr ritgerðinni 1995 og nú, 20 árum síðar, held ég að hún eigi enn erindi. Og eðlilega voru þau Nanna Hlín og Tyrfingur hrifin af henni í þættinum.

Húmorinn lifi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband