Hnóhnikast

Getur einhver látið Orðbragð frétta af áhuga mínum á lítt notuðum orðum?

#djók


Orðbragð - abððgorr - rotinpúrulegur

Óskaplega er Orðbragð skemmtilegur þáttur.

Þau Brynja og Bragi tala þráðbeint upp í eyrun á mér en ég held að eiginlega allir hafi gaman af þættinum, orðbragðinu sjálfu, myndmálinu, grafíkinni og leiknum.

Í þætti kvöldsins fannst mér samt ömmumæðginin ekki ráða við leikinn. Þegar barnabarnið fór að tala um að „slumma“ sá ég að samtalið var ekki sjálfsprottið og það fannst mér verra. Samt er amman leikari.

En Guðrún Kvaran sýndi meistarataktra og nú get ég ekki annað en velt fyrir mér hversu mörg af 615.000 orðunum ég þekki ekki ...

Uppáhaldsorðið mitt um þessar mundir er rotinpúrulegur sem kemur mér á óvart því að uppáhaldsorðin mín byrja yfirleitt á g: grámata, glæpnepja, gonaralegur.


Vanmáttur auglýsinga

Ég heiti Berglind og er útvarpsfíkill. Djók. En ég hef mikið kveikt á útvarpinu, líka í símanum mínum þegar ég hjóla á milli staða, skipti umsvifalaust milli stöðva þegar mér býður svo við horfa og legg talsvert upp úr alls konar sem ég heyri. Þær stöðvar sem ég hlusta mest á eru með fréttir á heila tímanum og þá eru auðvitað spilaðar auglýsingar rétt á undan og ég skil það allt saman. Auglýsingar eru tekjulind og fyrirtækin sem auglýsa vilja fá meiri viðskipti og þurfa eðlilega að láta vita af þjónustu sinni og vöru.

Mér finnst auglýsingar ekki alltaf ógurleg áþján.

Sumar eru kannski hallærislegar en það er sossum smekksatriði og sjálfsagt er það oft meðvitað til að fá fólk til að tala um þær og auka áhrifamátt og dreifingu.

Ég held að það sé augljóst að ég er ekki á móti auglýsingum (þótt ég voni að ég flokkist ekki sem bolur) en almáttugur minn hvað sumar þeirra eru illa fluttar og leiðinlegar. Allra verstar eru þær sem eru illa fluttar af þekktu fólki - og það er ekki séns að ég auki áhrifamátt einnar sem ég heyrði áðan. Þá langar mig til að slökkva á viðtækinu. Mér finnst jafnvel koma til greina að hætta alveg að keyra bíl ...


Læknirinn minn

Ég hef hingað til verið alveg óskaplega heppin og haft litla þörf fyrir lækna. Ef bara væri fyrir mig eða fjölskyldu mína yrði trúlega lítil endurnýjun í læknastéttinni - en veruleikinn er annar. Menn þurfa að læra til læknis og við þurfum hæfa lækna. Undanfarin ár hefur mér fundist umræðan einkennast af áhyggjum yfir því að við misstum fólk úr landi vegna launa, langra vakta og slæms aðbúnaðar. Tæki eru ekki endurnýjuð, lyftan stendur á sér, húsnæðið er að grotna niður og læknar fara fram á 36% launahækkun. Segir sagan.

Þar sem þetta er dæmigerður ekkifréttaflutningur af sögusögnum og getgátum verð ég að velja hverju ég trúi. Og ég held að læknar séu vanhaldnir. Ég held að læknar eigi rétt á hærri launum. Ég held að forgangsröðin sé vitlaus hjá okkur og að við tökum of lítinn pening út úr sjávarútveginum og ferðaþjónustunni og látum of lítinn pening inn í heilbrigðiskerfið.

Ég hef verið í kjaranefnd leiðsögumanna og viljað gera kröfu um 40% launahækkun. Ef við hefðum gert það og viðsemjendur gengið að henni hefðum við samt ekki náð launum unglinga sem svara í símann hjá Dominos.

Ef menn vilja flytja fréttir finnst mér að þær eigi að segja manni eitthvað. 


Ætlað samþykki fyrir líffæragjöf

Ég sver það, ég er búin að leita vel á vef RÚV en finn ekki fréttina um að tæplega 5000 manns hafi skráð sig sem líffæragjafa á fyrstu dögunum, þ.e. um helgina. En ég sá það einhvers staðar og fagna því.

En það er örugglega einhver ekki búinn að frétta þetta. Vilt þú ekki hvetja fólk líka til að íhuga það að gerast líffæragjafi ef það deyr óvænt en getur lengt líf þeirra sem berjast fyrir lífi sínu og vantar kannski eitt líffæri til að auðvelda sér baráttuna? 


Vilji til líffæragjafar auðsýnanlegur?

Þær ánægjulegu fréttir bárust heimilismönnum á H26 í þessu að líffæragjafar gætu nú skráð vilja sinn í nýjan gagnagrunn. Um þetta hefur verið rætt á þingi án niðurstöðu og nú liggur aftur fyrir  þingsályktunartillaga um stofnun samþykkisskrár sem guð má vita hvort til stendur að ræða frekar. Málið var líka reifað í fyrra en án niðurstöðu. 

Ég hef verið sérlega mikill áhugamaður um einfaldleika þess að auðsýna vilja sinn til líffæragjafar við andlát, bloggaði um það 30. janúar á þessu ári og aftur í apríl. Þá fékk ég skemmtilega sterk viðbrögð og sá að margir eru sammála mér.

Og nú er sem sagt búið að tilkynna góðu tíðindin á vef landlæknis og auðvelda mönnum að gerast líffæragjafar.

Eða hvað?

Til þess að skrá afstöðu þína til líffæragjafar þarftu Íslykil frá Þjóðskrá eða rafræn skilríki.

Það er bæði auðvelt og fljótlegt. 


Anna frá Stóruborg > femínisti?

Anna og Hjalti voru sannarlega uppi í kringum siðaskiptin. Segir sagan. Svo skrifaði Jón Trausti dásemdarbók um þau í byrjun 20. aldar. Hún kom fyrst út 1914 og svo gaf Salka hana út upp á nýtt í fyrra.

Anna er stórættaður og forríkur höfðingi sem er í senn hlý við vinnufólkið sitt og með afgerandi kröfur. Sveitungum hennar er vel við hana og eini maðurinn sem er lengst af bókarinnar uppsigað við hana er hennar eigin bróðir, sýslumaðurinn Páll Vigfússon sem vill drottna yfir öllu og öllum.

Af hverju er hún ekki á hverju náttborði, þessi bók? Af hverju er Jóni Trausta ekki hampað? Anna er rökfastur húmoristi sem storkar bróður sínum en gefur engan höggstað á sér. Og svo eru þarna Sigvaldi í Hvammi, blíðalognið, og Steinn á Fit, stórskemmtilegar týpur.

Fyrir hartnær fimm öldum sýndi Anna takta sem hver einasti jafnréttissinni væri fullsæmdur af. 


Og enginn er hann Gunnar á Hlíðarenda

„Steinn var bróðir Halls grámunks, þótt lítið ræktu þeir frændsemi sína. Enda voru þeir nokkuð ólíkir. Ekki var Hallur fagur ásýndum, en þó var Steinn hálfu ljótari. Hann var lítið meira en dvergur að vexti og gekk höfuðið ofan milli axlanna. Skrefstuttur var hann og innskeifur, en þó manna skjótastur á fæti. Munnstór var hann, engur síður en Hallur, en af líkamslýtum hans voru höfuðbeinin nokkuð úr lagi gengin, svo að augun lágu skáhöll og kinnbeinin voru gengin út. Tanngarðurinn lá nokkuð hátt. Skeggið var hýjungur einn, en andlitið þó loðið upp undir augu. Allt gaf þetta andlitinu eitthvert hálfgert rándýrsútlit.“

- bls. 84-85 í útg. 2013 (en bókin kom fyrst út 1914)

Hverjum er svo lýst? Höfundurinn er oft með svona svæsnar mannlýsingar. 


Candy Crush eða EVE Online?

Ég spilaði Tetris í gamla daga og krota stundum í Sudoku meðan ég hlusta á aðra tala. Ég kann því vel. Ég legg líka stundum kapla meðan aðrir tala og mér finnst mjög gaman að spila alls konar spil. Ég hef hins vegar aldrei spilað Candy Crush, QuizUp eða EVE.

Það getur vel verið að ég missi af miklu en ég mun aldrei vita það. Mér var sagt nýlega að það væri ekki hægt að ná verulega góðum árangri í EVE Online nema vera fíkill því að ef maður spilar ekki í einhvern tíma tapar maður stigum. Og metnaðargjarnt fólk vill ekki hrapa niður stigann.

Ef satt, erum við þá ekki fullmeðvirk með „góðum árangri“ íslenskra sprotafyrirtækja? Og ég er sérstaklega döpur fyrir það að ég horfði stórhrifin á ræðu Hilmars Veigars í vor þegar hann gerði grín að krónunni.  

Getur einhver sannfært mig um að EVE sé góð græja og að fólk geti unnið vinnuna sína og sinnt fjölskyldunni þótt það leiki leikinn? 


Morgunútgáfan - hvað?

Ég er talsvert gefin fyrir breytingar og svissa á milli símafyrirtækja og tryggingasala án þess að velta því mikið fyrir mér ef annar kostur er betri en sá sem ég hef skipt við. Er ekki áreiðanlega búið að dreifa frumvarpi, sem verður kannski samþykkt, um að maður geti ekki bara sagt upp tryggingu einu sinni á ári, eins og um væri að ræða félagaskiptaglugga í fótbolta? 

Ég hlusta á útvarp á ýmsum tímum, einkum fyrst á morgnana og svo aftur seinni partinn. Á morgnana hef ég hlustað á Bylgjuna, Rás 2 og Harmageddon á X-inu. En nú er búið að grauta saman Rás 1 og Rás 2 á svo hrútleiðinlegan hátt að ég get ekki hlustað lengur á Rás 2. Stefið er jarðarfararlegt og venst ekki, svo kemur niðurdrepandi tónlist og loks líður þáttastjórnendum greinilega svo illa í viðtölunum að það er ekki hægt að hlusta á þau.

Alveg jökulkalt mat ... alveg óháð smekk ...


10 bækur

Dalalíf - Guðrún frá Lundi

Ljósa - Kristín Steinsdóttir

Vefarinn mikli frá Kasmír - Halldór Laxness

Glæpur og refsing - Fjodor Dostóévskíj

Klakahöllin - Tarjei Vesaas

Lína langsokkur - Astrid Lindgren

Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð - Arto Paasilinna 

Dúfan - Patrick Süskind

Maðurinn er alltaf einn - Thor Vilhjálmsson

Hvunndagshetjan - Auður Haralds

Það hefur enginn skorað á mig að birta svona lista, hehe, en mig langaði allt í einu að sjá hvernig hann liti út. Ég skrifaði titlana upp eftir því hvernig þeir komu upp í hugann.

Dalalíf og Ljósu las ég fyrir þremur árum. Þær eru frá svipuðum tíma og eiga einhvern tíðaranda sameiginlegan, hrífandi bækur, afar mislangar. Ég hefði getað talið upp fleiri finnskar bækur, þær eru algjörlega eins og skrifaðar fyrir mig. Stríðsbækur eftir Sillanpää eru magnaðar. Vefarann og Glæpinn las ég hvora á eftir annarri þegar ég var nýbyrjuð í íslensku og gat varla litið upp úr þeim meðan ég las. Glæpur og refsing er mögnuð pæling í því hvort einhver getur refsað manni af meiri grimmd en manns eigin samviska. Hvunndagshetjan, ó, þvílík sæla að lesa um hið beitta vopn húmorinn. Klakahöllina las ég sem barn, skildi hana ekki til fulls en hún er stútfull af tilfinningum. Dúfan er líka full af pælingum um það ójafnvægi sem rúðustrikaður maður verður fyrir þegar líf hans fer lítillega úr skorðum.

Jamm, sterkar minningar sem fylgja öllum þessum bókum og fleiri til.  


Meðvirkni með glæpum

Um helgina talaði ég lengi við suður-afrískan mann sem er búsettur á Íslandi. Hann hefur aðeins búið hér í tæpt ár og gat alls ekki haldið uppi samræðum á íslensku, sem von er, en hins vegar les hann ruv.is reglulega. Hann les ekki lengur fréttir frá heimalandinu enda hefur hann búið í bæði Hollandi og Bretlandi í mörg ár í millitíðinni og finnst allar fréttir frá Suður-Afríku snúast um ofbeldi og dauðsföll, oft hvort tveggja í sömu fréttinni.

Í Jóhannesarborg þar sem mér sýnast búa 4,4 milljónir eru 300 drepnir á dag. Ég trúi því auðvitað ekki - sakleysið uppmálað - en get ekki hrakið það. Yfir 100 þúsund á ársgrundvelli! Getur það verið? Ef satt, ef, hlýtur íbúafjöldinn að breytast stórlega á hverju ári. Hverjir flytja til borgar með þessa afbrotatíðni?

Stéttskipting er gríðarleg. Heilu hverfin eru girt af, hverfi þar sem efnaðra fólkið býr. Lögreglan treystir sér ekki inn í hverfin þar sem glæpatíðnin er mikil og ef hún flýgur fyrir ofan þau í þyrlum er hún svo langt uppi að byssukúlur drífa ekki.

Ég spyr: Hvernig getur fólk búið við þetta?

Það virðist ekki geta breytt þessu. Sjálfsagt vakna bara margir á hverjum morgni, fara í vinnu, sinna ýmsu, fara heim, sinna fleiru, sofna, sofa og vakna næsta morgun til hins sama. Það gerist í fleiri löndum að fólk lifir og deyr við aðstæður sem ég tel óásættanlegar. En ef internetið lýgur ekki er meðalaldur í Suður-Afríku rúm 56 ár. Það kemur ekki á óvart nema maður hefði kannski reiknað með lægri meðaldánaraldri í ljósi tíðindanna.

Fólk samlagast, merkilegt nokk. Er það ekki nákvæmlega það sem við höfum gert á Íslandi? Þótt morð séu sem betur fer fátíð og engir fregnir séu af mútum er hér ekki allt í koppalogni. Við erum bara dálítið sofandi.

Zzzz. 

En Suður-Afríkubúanum fannst frábært að lesa frétt á RÚV um fugl sem var fylgt yfir götu og þess beðið að hann kæmist í skjól. Það er eitthvað.


Hagvöxturinn

Ég var tæpa viku í Washington nýlega. Ég veit að ég er ekki fyrsta manneskjan til að fara til Bandaríkjanna en ég hef ekki farið í átta ár og var þá í afar vernduðu umhverfi í New York, má segja. Það kom mér á óvart hve gríðarlegur eftirlitsiðnaðurinn var. Í öllum opinberum byggingum þurfti maður að fara í gegnum vopnaleit. Gott og vel, Bandaríkjamenn hafa sopið á vondum meðulum. En sérstök friðarstofnun var varin af vopnuðum vörðum líka og verðirnir voru yfir línuna svo margir að það er augljóst að þeim hlýtur að leiðast verkefnaskorturinn. Hvað gerist ef þeim finnst sér eða vinnustaðnum ógnað?

Við þekkjum hvað þá gerist.

Svo fórum við hingað og þangað að borða og þar þvældist starfsfólkið hvert fyrir öðru. Við fórum meðal annars einu sinni á ægilega fínan veitingastað sem heitir 1789 og borðuðum lengst uppi í rjáfri. Það voru tveir og þrír þjónar í hverju dyragati að vísa leiðina.

Á hamborgarastöðum tók einn starfsmaður við pöntuninni, annar steikti hamborgarann, þriðji setti ostinn á, fjórði tók við greiðslu og fimmti afhenti. Helst til lítil framleiðni fyrir minn smekk.

Við fengum gott veður og ferðin var frábær en ég kem heim með hausinn fullan af spurningum um hagvöxtinn í þessu meinta kapítalíska ríki. 


Fullnuma kennitöluflakk

Ég man eftir að minnsta kosti tveimur orðum í íslensku sem ég held að fyrirfinnist ekki sambærileg í öðrum tungumálum, og þau eru ekkert sérstaklega flatterandi fyrir okkur.

Eða kannast einhver við í öðru tungumáli að geta verið fullnuma, útlærður með öllu, með fullt vald á einhverju efni? Er ekki dálítið hrokafullt að trúa því að maður eigi ekkert ólært í einhverju? Iðn, tungumáli, hvaða fagi sem er.

Í þinginu var síðan hálftíma í dag varið í að ræða kennitöluflakk sem er einhvers konar dulkóðun fyrir svindl og svínarí, löglegt eða a.m.k. ekki ólöglegt gjaldþrot, skipbrot, áunnið lánleysi í einhverjum tilfellum.


Með jafnrétti

Góðir hlutir gerast ekki af sjálfu sér, a.m.k. ekki alltaf, þótt mann langi til þess. Nú er búið að hleypa af stokkunum átaki gegn kynjamisrétti, HeForShe, sem er sérstaklega beint til karla af því að verið er að reyna að rétta hlut kvenna.

Ég skrollaði aðeins um síðuna áðan og sá heimskort þar sem sýnt er hversu vel karlar hafa tekið við sér. Og við erum ekki að tala um höfðatölu heldur eru rauneinstaklingar rauntaldir.

Ef rétt er talið hafa núna 121.309 karlar skrifað undir, þar af 5.740 á Íslandi, 509 í Finnlandi, 209 í Rússlandi og 2 í Máritaníu. Ef rétt er talið ...


60/40 - alveg sannfærð

Á morgun ætla Skotar að greiða atkvæði um mögulegan aðskilnað Skotlands og Englands. Samkvæmt skoðanakönnunum er mjótt á mununum og niðurstaðan ræðst af þeim óákveðnu sem mæta svo samt á kjörstað. Ég hef ekkert fylgst með fyrr en alveg upp á síðkastið og ég held að meiri hluti sé fyrir því að vera áfram hluti af Bretlandi. 

Ég meina, allir gera sér grein fyrir að Skotland hefur sérstöðu, t.d. í tungumálinu, landslaginu og tónlistinni. Þá geta Skotar vel verið hluti af stærra samhengi.

Ég tengi þetta lóðbeint við vilja minn til að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæði Íslands. Grafarvogur gæti allt eins verið sérstakt sveitarfélag eins og Seltjarnarnes eða Kópavogur.

Skotar eru með eigið þinghús og auðvitað eiga þeir að ráða sínu daglega lífi en mér finnst -- allt byggt á tilfinningalegum rökum -- að þeir eigi að vera hluti af Bretlandi áfram.

Ég er líklega þar í aldri sem er líklegur til að segja nei við sjálfstæðinu. Samt styð ég almennt sjálfstæði fólks, frjálsan vilja og atkvæðisrétt.

---

Nú er ég næstum leið yfir að hafa haft rétt fyrir mér. 


Afplánaði Fiskana ...

... en bara til hálfs. Mikil óskapleg vonbrigði voru Fiskarnir hafa enga fætur hans Jóns Kalmans. Hugsanlega er Himnaríki og helvíti besta bók sem ég hef lesið og þótt ég muni ekki lengur söguþráðinn í smáatriðum man ég enn tilfinninguna og finnst ég vera vanbúin fyrir opnu hafi.

Ari, Ásmundur, GÓ, Austfirðir, Kaupmannahöfn, mamman, eiginkonan --- öll og allt verður risastór og ólystugur grautarpottur.

Ég móaðist við og las hana tæplega hálfa, bar mig svo illa við aðra aðdáendur JKS sem kom  á daginn að höfðu heldur ekki haldið bókina út til enda.

Get ekki rökstutt þennan skelfilega dóm. Gafst bara upp á bls. 170 og verð búin að gleyma persónugalleríinu á morgun.


Matarskattur

Ég næ því auðvitað að orðið matarskattur er ekki notað í fjárlagafrumvarpinu þannig að það þýddi ekki að leita að því. En lægra skattþrepið var hækkað úr 7% í 12%, sem sagt um 5 prósentustig en rúm 70%. Af hverju notar enginn það? Samt geri ég mér aftur grein fyrir að matur mun ekki hækka um 70% - eða ég vona ekki. Virðisaukaskattur er ekki það eina sem myndar verðið á mat.

7 sinnum 70% eru 4,9, eru þetta ekki örugglega réttir útreikningar hjá mér?

Engu að síður er fyrirsjáanlegt að matarverð hækki. Er það ekki meðvitað hjá ríkisstjórninni vegna þess að íslenska þjóðin er orðin svo feit? Maður spyr sig - eða þig.


Flöskuskeyti frá P

Ég sat um Flöskuskeytið hans Jussis á bókasafninu, kom höfundinum á tal við annað fólk og sannreyndi að fleiri höfðu lesið bækurnar hans og fundist þær spennandi. Svo varð ég fyrir vonbrigðum með hana, þótti hún ekki eins spennandi og ég reiknaði með og dálítið meira predikandi. Allra verst er þó að uppgötva - á fjórðu bók - að persónusköpunin er í molum. Að vísu á Carl Mørck að vera illa í húsum hæfur og leiðindaskarfur sem fólk vill ekki vinna með (en fallegi sálfræðingurinn fellur fyrir) af því að hann fer sínar eigin leiðir en þegar á hólminn er komið og ofan í kjallarann á lögreglustöðinni slengir hann fótunum í sífellu upp á skrifborðið og vill sofna út frá skini tölvuskjásins. Nei, ég er ekki sannfærð.

Hann ergir sig þegar Assad segir eitthvað og líka þegar Assad þegir, hugsar Yrsu/Rose í sífellu þegjandi þörfina þótt hún sýni mikið sjálfstæði í hugsun og verki (eins og honum er álasað fyrir) og vill sitt á hvað að þau fái meira pláss og minna pláss til að athafna sig.

Flöskuskeytið. Bréfið í flöskunni skrifaði fórnarlambið SMÁUM stöfum með hendur bundnar fyrir aftan bak og blekið var blóð úr honum sjálfum. Hræddur unglingur. Svo tróð hann bréfinu ofan í flösku, lokaði henni og kom af stað út í umheiminn.

Hættu nú alveg. Setti ENGINN spurningarmerki við það? Las enginn söguþráðinn yfir? Og það var margt fleira sem ég ætla ekki að tíunda ef einhver lesandi bókarinnar skyldi villast hingað inn fyrirfram.

Svo er náttúrlega sami gallinn í þýðingunni farinn að pirra mig meira. Ég sá dönskuna á bak við í orðaröðinni og sumu orðavali.

Ég leyfi nýjustu bókinni að liggja á bókasafninu um hríð og tek nú upp Fiskana sem hafa enga fætur. Ég veit að ég get treyst á stíl Jóns Kalmans.


Þéranir

Einu sinni lagði ég bíl í stæði merkt leigubíl og var sektuð fyrir. Eðlilega. Sennilega af því að brotið var framið á Akureyri og ég bjó í Reykjavík skilaði sektargreiðslan sér það seint að innheimtuaðilinn (lögreglustjórinn á Akureyri?) skrifaði mér bréf og þéraði mig.

Mig minnir að þetta hafi verið 1988.

Ég áttaði mig ekki á glæpnum þegar ég framdi hann en borgaði strax og ég fékk rukkunina. Þegar ég fékk ítrekunarbréfið ákvað ég að senda gaurnum (lögreglustjóranum á Akureyri?) langt nef með því að þéra hann á móti í bréfi þar sem ég útskýrði að ég væri þegar búin að gera upp reikningana.

Mér fannst ég algjör uppreisnarseggur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband