Mánudagur, 22. desember 2014
Hetja Sumarhúsa
Ég var svo heppin að fá að sjá Sjálfstætt fólk á þéttu og góðu rennsli í dag. Ég var dálítið tortryggin áður en sýningin byrjaði þar sem ég held að ég sé eini leikhúsgesturinn 2013 sem kunni ekki að meta Engla alheimsins. Áhyggjur mínar voru óþarfar (en ábyggilega hjálpaði það mér að sitja á 4. bekk frekar en 24.), ég skemmti mér konunglega. Þegar ég skemmti mér konunglega þarf ég ekki að hlæja óslitið í tvær og hálfa klukkustund en ég hló oft og mikið og táraðist líka stundum.
Allir þekkja söguna af Guðbjarti Jónssyni sem lagði allt upp úr sjálfstæði sínu og sinna. Ég veit um nokkur eintök af Sjálfstæðu fólki sem hafa fengið reisupassann og illa meðferð af því að þráhyggjan og meinlokan í Bjarti hefur gengið svo fram af lesendum. Það er augljóst að maður sem metur líf gimbrarinnar meira en líf konu sinnar og ófædds barns, stefnir öllu í tvísýnu til að öðlast og halda meintu sjálfstæði sínu og tekur engum rökum hlýtur að mælast illa fyrir.
Ég hef séð að minnsta kosti eina aðra uppfærslu af Sjálfstæðu fólki og man sumt úr henni. Hún var áreiðanlega frekar hefðbundin og trú sögunni og til samanburðar við nýju sýninguna verulega alvarleg. Leikmyndin í dag sem þjónaði mestmegnis sem húsakynni Sumarhúsa var uppfull af tilfinningum, draugagangi þegar þurfti, var margs konar fæðingarrúm enda fæddist Bjarti margt barnið og svo almennt sem samkomustaður. Mér fannst magnað hvernig dyrnar til hægri voru notaðar til að sýna stöðu fólks, fyrir sumum var upp lokið en aðrir máttu húka öllum stundum fyrir innan. Rauðsmýrarfólkið var beinlínis hafið upp yfir Sumarhúsafólkið. Burstin þjónaði sem rúm og fleira snart taugar í mér.
Leikarar. Viðkvæmt. Ég var mjög lukkuleg með Atla Rafn. Hann var svo laus við háttvísi að hann klóraði sér í rassinum á viðkvæmum stundum og nuddaði á sér nefið beint á eftir. Textameðferð til fyrirmyndar. Rustahátturinn skilaði sér svikalaust og svo kom hann líka út á mér tárunum þegar mikið lá við. Konurnar hans tvær, Vigdís Hrefna held ég að hafi áreiðanlega verið sú fyrri og Lilja Nótt var hin síðari, voru það algjörlega og heilt yfir allir leikarar góðir - fannst mér - nema mér fannst Guðrún og Eggert ekki fara vel á þessu sviði. Hallbera hefur nokkrar þungar setningar í sögunni en þótt Guðrún fari vel með texta fannst mér hann alveg missa marks. Ég veit ekki af hverju, kannski af því að það var glettilega mikill léttleiki í verkinu og svo kom hún með þessar merkingarbæru setningar og ætlaði að soga allt leikverkið til sín. Eggert var ekki með mikinn texta en hann var í hvert skipti í einhverju öðru verki. - Ég get átt eftir að skipta um skoðun eða þurfa að umorða þetta en þau tvö náðu mér síst. Synir Bjarts sem þurftu að kljást við Kólumkilla - og sinn útúrborulega föður - voru aldeilis frábærir, auðvitað of gamlir en ég gat alveg sætt mig við það. Elmu Stefaníu hef ég ekki séð áður á sviði en hún fangaði blessunina hana Ástu Sóllilju með varnarleysið sitt og hið ömurlega veganesti - frelsi og sjálfstæði framar öllu, ÖLLU - afar vel.
Eitt að lokum. Íhaldssamir munu ekki kunna að meta tilvísanir til samtímans en ég gerði það. Segi ekki hvað það er.
Mæli með Sjálfstæðu fólki 2014-2015. Hjálpar verulega að þekkja til sögunnar samt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. desember 2014
Get ekki Bondað - 007
Kannski er það vitleysa í mér en ég hef haft á tilfinningunni að margir séu hrifnir af Bond-myndunum. Það biður enginn um raunsæi, við vitum það, Jamesinn rennir sér berhentur niður grannan kaðal og sér ekki á gómunum, hann gengur í gegnum eldhaf og hárgreiðslan hreyfist ekki, hann fær hvorki vott né þurrt dögum saman en tapar hvorki holdum né kokhreystinni, horfir á langa talnarunu út undan sér og man hana. Nú er ég reyndar strax aðeins byrjuð að skálda því að ég hef aldrei getað horft á heila mynd. Ég reyndi enn í kvöld en ég finn ekki söguþráðinn. Daniel Craig stendur í miðjum gneistandi bálkestinum og heggur mann og annan. Samt skerðist ekki einu sinni nögl á honum og reyndar sér ekki mikið á hinum heldur. Fólk ætti að vera margdáið, búið að höggva það í spað og tæra það upp að innan en allt kemur fyrir ekki.
Guðminngóður, er ég alveg úti að aka? Geta allir Bondað nema ég?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 18. desember 2014
Að læra til læknis
Ef ég væri 19 ára í dag, stæði frammi fyrir vali á langskólanámi og hefði snefil af áhuga á raunvísindum myndi ég ekki hika við að velja læknisfræði. Í fyrsta lagi bjarga læknar lífum og eru gríðarlegar mikilvæg starfsstétt. Það er auðvitað aðalatriðið. Þótt ég hafi unnið við að auka hagvöxtinn í eina tíð og stundum síðar er áreiðanlega ekkert sem jafnast á við að hafa tifandi hjarta í lúkunum og tryggja tifið áfram eða ná að glæða fólk lífi og lífsvon með öðrum hætti. Í öðru lagi er núna búið að pönkast svo mikið á læknum - sem fá held ég lítt skilyrta samúð og aðdáun frá okkur pöbulnum - að nú hlýtur að verða samið svo almennilega við þá að stéttin getur vel við unað til áratuga. Kjarabarátta er aldrei sársaukalaus og oft(ast) bitnar hún á þriðja aðila sem hefur ekkert til þess unnið - en öðruvísi komast skilaboðin ekki til skila.
Ég þekki ekki marga lækna. Allir þrír læknarnir sem ég þykist þekkja búa núna að hálfu eða öllu leyti í Svíþjóð, drógu sig þegjandi og hljóðalaust til hlés hér og fóru utan. Ísland er ekki alfa og omega allra Íslendinga.
Römm er sú taug
er rekka dregur
föðurtúna til
... á bara ekki við allt og alla öllum stundum.
Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn eru afar mikilvægir og obbi landsmanna áttar sig á því. En ég er ekki lengur 19 og ég held því miður að efna- og vefjafræði sé álegg þannig að ég kem ekki til greina. Ég vona bara að hin gæfulega kynslóð sem er nú á þröskuldi framtíðarinnar láti ekki hina hörðu deilu síðustu vikna fæla sig frá þessu fagi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. desember 2014
Kakkalakkafaraldurshætta
Meðan Orðbragð er í sjónvarpinu legg ég öllu öðru. Í kvöld hló ég upphátt, sérstaklega þegar Bragi Valdimar endurraðaði bæjum eftir stafrófsröð. Þetta hefur verið lenska hjá okkur í gönguklúbbnum þegar við göngum gömlu þjóðleiðirnar og tökum hópmyndir, þá röðum við okkur eftir stærð eða litum - eða stafrófsröð. Ég meina, margar götur í Reykjavík eru í stafrófsröð, heilu hverfin í Breiðholti og örugglega Grafarvogi, en líklega hef ég verið mesti áhugamaðurinn í göngunum að raða okkur einhvern veginn fyrir hópmyndatökurnar ...
Þau í Orðbragði eru enn óskaplega fersk, ég fylgist spennt með nýjum hugmyndum og hef fantagaman af og í kvöld klappaði ég auðvitað fyrir hugmyndinni um stafsetningarkeppni. Og, ókei, játning, hún forklúðraðist að mínu mati. Allir vita hvernig innlyksa er skrifað og svo voru þarna lógísk margsamsett orð en á móti orð sem forhertustu áhugamenn um tungumálið kannast ekki við. Held ég. Ég er samt spennt að sjá hvernig þetta verður næst ef þau prófa aftur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 11. desember 2014
Dilla 1, dilla 2, dilla 3
Það er ljómandi gott að eldast og leyfa sér að skipta dillum út og dillum inn. Ein árátta eða tilhneiging hefur elst með mér, lestrarfýsnin. Samt hefur hún breyst, nú er það ekki bara skáldskapur sem ég les heldur ýmis fróðleikur og sumt hégómlegra. Þjóðmál höfða meira til mín en áður og svo hitt og þetta landfræðilegt. Margralandaflakk á ég samt eftir.
Ég var aldrei í íþróttum sem barn. Ég mætti vissulega í alla leikfimitíma og stökk yfir hestinn, hífði mig (stutt) upp eftir reipinu, fór handahlaup, blakaði og alls konar. En ég var ekki í fótbolta, handbolta, fimleikum, sundi eða neinu nema félagslega, fór með skólanum í skíðaferðir og svona það sem til féll. Íþróttaástundun var aldrei skipulögð og ég hafði ekki tiltakanlega mikinn áhuga.
Ég var aldrei skáti og það er líklega horfið í vindinn núna. Ég var samt um tíma í KFUK. Ekki það sama, nei? Nei.
Undir tvítugt fékk ég óskiljanlegan áhuga á skák og sótti mót og varð veðurteppt í Vestmannaeyjum. Það var gaman meðan það entist en ég varð enginn afreksmaður og missti áhugann.
Síðustu árin má engu muna að ég sé að verða útivistarnörd. Ég hef reyndar stundað sund áratugum saman en auðvitað ekki sem keppnismaður þótt þjálfarinn minn hafi stefnt að því (leynilega). Og ég hef auðvitað verið með í skemmtiskokki Reykjavíkurmaraþonsins frá 1986 og aðeins misst úr örfá ár. Auðvitað. Og auðvitað án undirbúnings, skokkaði bara alltaf mína 7 eða 10 km einu sinni á ári. Nú er ég búin að kaupa carving-svigskíði og fara í skíðaferð til útlanda, nokkrum sinnum til Akureyrar og einu sinni á Siglufjörð. Ég er sírápandi á fjöll og nú er ég komin í skokkhóp sem æfir þrisvar í viku.
Ég sakna þess pínulítið að hafa ekki æft neitt sem krakki en samt finnst mér bilað hvað (sum) börn eru látin mæta á margar æfingar í hverri viku. Ég held að það sé of mikið kapp í sumum íþróttum barna af því að mér finnst að flestir eigi að vera í íþróttum til að stæla hug og hjarta, hafa gaman af hreyfingunni og félagsskapnum. Og yngstu flokkarnir eru látnir keppa blóðugt á laugardagskvöldum jafnvel eða fyrir upprisutíma á sunnudögum. #hrollur
Endar þetta ekki bara með letilegu New York-maraþoni hjá mér?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 4. desember 2014
Ábyrgðarstöður; ráðherra eða tónlistarkennari
Ég veit varla hvernig ég á að koma orðum að þessu. Í dag var tilkynnt um nýjan innanríkisráðherra. Ég held að valið hafi komið flatt upp á ýmsa af því að hingað til hefur mikið verið horft til sitjandi þingmanna. Ólöf er víst aðeins tuttugasti utanþingsráðherrann en nú þarf ég endilega að komast að því hvernig það er talið. Ég held að ráðherrar heimastjórnar hafi ekki endilega verið þingmenn. En ég er ekki viss. Á vef Alþingis finn ég lista yfir fyrstu 19 utanþingsráðherrana. Ólöfu verður sjálfsagt bætt á listann á morgun.
Ég man að þingmenn hafa lagt það til að aðskilja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið betur með því að ráðherrar gegni ekki þingmennsku, enda eru bæði störfin full störf ef þeim er vel sinnt, og ég sé að unga fólkið er að velta þessu fyrir sér líka. Þetta var til umræðu hjá stjórnlagaráði þannig að þetta er gömul og gegn pæling.
Mér finnst því skynsamlegt að leita út fyrir þingliðið og engri rýrð varpað á þingmenn með því. Auðvitað skil ég svekkelsi metnaðarfullra þingmanna en ég held að þetta sé góð ákvörðun.
Fjölmiðlar keppast við að segja frá því að Ólöf hafi verið veik en að meðferðin hafi borið árangur. Eðlilega ræða menn það. En þótt ég trúi því að starf ráðherra sé erilsamt og krefjandi á það samt líka við um mörg önnur störf. Er endilega léttara að vera hjúkrunarfræðingur, kennari, lagermaður, starfsmaður í álveri, leikari, tónlistarmaður eða dagskrárgerðarmaður að jafna sig eftir erfið veikindi? Ég ítreka að ég geri ekki lítið úr verksviði ráðherra en ráðherra hefur aðstoðarmenn, ekki bara þessa pólitísku heldur ýmsa sérfræðinga til að vinna með sér, og getur ef til vill haft talsvert um það að segja hvernig dagarnir leggja sig.
Að því sögðu óska ég Ólöfu velfarnaðar í leik og starfi. Mig grunar að við séum mörg sem sendum henni hlýja strauma og óskum henni alls hins besta í glímunni framundan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 3. desember 2014
Rás 73
Í fjárlagaumræðunni er hægt að fara út um víðan völl án þess að fjarlægjast kjarna frumvarpsins. Peningar eru nefnilega upphaf alls í kapítalísku samfélagi. Síðustu tvo tímana eða svo hefur verið rætt um kjör lækna og hvort hækkun rúmist innan fjárlaga ársins 2015. Já, eða kannski lengur, ég hef ekki haft kveikt á Alþingisrásinni í allt kvöld.
Mér finnst ég vinna gott starf en það bjargar svo sannarlega ekki mannslífum. Ég er ekki uggandi á leið í vinnu og velti ekki fyrir mér hvort snör handtök mín lengi líf nokkurs manns. Ég er ekki á nálum þegar ég fer heim úr vinnu yfir því að ég verði kölluð aftur út. Ég er ekki á bakvakt. Ég á frí þegar ég er í fríi. En ég gæti orðið háð vinnuframlagi og vinnuvilja lækna. Ég er enn heilsuhraust en það gæti breyst fyrirvaralaust og þá vil ég geta gengið að þeirri þjónustu sem ég tel mig hafa tryggt mér með skattgreiðslum í ár og bráðum áratugi.
Af hverju er ekki samið við lækna? Er ekki þjóðarvitund um að læknisstarfið er fjandi mikilvægt?
(Jú, ég veit að fleiri störf eru það. Jú, ég veit að flugmönnum og bílstjórum má ekki hlekkjast illilega á. Jú, ég veit að foreldrar eru alltaf í viðbragðsstöðu. Pistillinn er samt um læknaverkfallið.)
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. desember 2014
Extróvertinn lifir
Í þá gömlu góðu daga þegar ég var í háskólanámi fór ég einu sinni í vitlausa stofu. Ja, sennilega oftar, en eitt skipti er mér minnisstætt. Ég var að byrja annað árið í íslensku og átti eftir áfanga frá fyrsta ári, áfanga sem vinir mínir höfðu tekið árið á undan. Ég mætti í Árnagarð og fór beina leið í stofu 201, var mætt skömmu áður en tíminn átti að byrja. Ég leit aðeins í kringum mig, furðaði mig á því að þekkja ekki kjaft þarnan inni en hugsaði að allir hefðu greinilega klárað áfangann árið áður.
En svo mætti kennarinn og ég þekkti hann ekki heldur. Það stóðst ekki enda vissi ég vel hver kennarinn var þannig að ég spurði hátt og snjallt: Er þetta ekki Íslenskt nútímamál? (Íslenskt, ekki íslenskt, af því að þetta var heitið á áfanganum.) Nei, sagði kennarinn, sem ég kannaðist ekkert við, þetta eru Sálfræðileg próf (S, þið vitið). Ég hugsaði að atarna væri skrýtinn kennari sem byrjaði fyrsta tíma á prófi, snautaði á fætur, las mér betur til og fann áfangann, kennarann og slatta af kunnuglegum nemendum í stofu 301, á hæðinni fyrir ofan.
Svo leið einhver tími, ég gleymdi þessu auðvitað en mörgum árum síðar kynntist ég sálfræðinema sem hafði verið í þessum tíma. Sálfræðingurinn, ekki lengur nemi, sagði mér að þegar ég hefði verið farin út hefði kennarinn beðið nemendur sína að leggja þetta á minnið, ég hefði verið skýrt dæmi um extróvert. Alveg útvortis.
Gaman að segja frá því að ég er enn að heyra þetta. Og ég vil bæta því við að þótt ég verði endrum og eins dálítið leið á málgefni minni leiðist mér meira að umgangast fólk sem talar of lítið. Ég vil heilbrigða samkeppni!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 27. nóvember 2014
Jólaljósabarnið
Af hverju er verið að selja manni firnafínar seríur og aukaperur með og allt ef þær lifa ekki af að vera í geymslunni milli jóla?
Jólaljósabarnið er stúrið.
#dæs
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 26. nóvember 2014
Þegar mér er komið á óvart ...
Skemmtilegast í heimi finnst mér þegar mér er komið (skemmtilega) á óvart. Stundum geri ég það sjálf með því að geta eitthvað sem ég hélt að ég gæti ekki. Það er sossum frekar erfitt því að ég er í eðli mínu svo kokhraust að ég held að ég geti allt.
Dæmi um óvænt afrek eða önnur lífsins gæði gæti verið frábær frammistaða í hlaupi. Á laugardaginn ætla ég að hlaupa mitt sjötta 10 kílómetra hlaup (með tímamælingu) á árinu. Því miður er ég enn fullhæg en ef ég hlypi undir klukkutíma kæmi ég mér skemmtilega á óvart. Ég er nýbyrjuð að æfa (ómarkvisst).
Annað dæmi er ef mér tekst vel upp með nýja matseld. Vá, hvað það er gaman að dekra við bragðlaukana. Ég man enn þegar vinkona mín ein bauð mér upp á kulottesteg og sama vinkona kynnti mig fyrir engiferrótinni á sínum tíma. Í eina tíð kunni ég ekki að meta sushi en ég yfirvann það og nú finnst mér það herramannsmatur. Varð hissa einhvers staðar í ferlinu.
Nú nálgast jólin. Ég man þegar ein (nú fyrrverandi) vinkona mín hringdi í mig og sagði: Berglind, ég er að skrifa jólakortin og einmitt núna kortið til þín. Næsta kvöld hringdi hún líka og sagðist vera búin að póstleggja það. Og þú getur rétt ímyndað þér hvað hún sagði þriðja kvöldið.
Þetta var fyrir löngu síðan og við þekkjumst ekki lengur.
Jamm, og þessi hlýi, bjarti og notalegi nóvember kom sannarlega aftan að mér og gladdi mig óhemjumikið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. nóvember 2014
Kristina Ohlsson
Ég hef stundum samviskubit yfir að lesa krimma. Er það ekki tímasóun? Á ég ekki frekar að lesa fræðibækur? Ævisögur? Alice Munroe, Þórberg Þórðarson og Samuel Beckett? Bækur um tónlist? Hlusta á tónlist? En sumir krimmar eru mikil samfélagsstúdía og vísa langt út fyrir söguefnið sem stundum er líka skelfilegt og grimmdarlegt.
Utangarðsbörn, fyrsta bók Kristinu Ohlsson, réttlætir allan lestur. Ég las fyrst þriðju bókina þar sem Fredrika, Peder og Alex koma við sögu og varð mér svo úti um fyrstu bókina. Við lestur þeirrar bókar vissi ég heilmikið um afdrif persónanna síðar á ævinni en það kom ekki að sök. Þau eru öll skýrt teiknaðar persónur, mennsk, breysk, gagnrýnin, gagnrýnisverð - eins og flest fólk. Þau hafa öll sína djöfla að draga en eru ekki endilega fráskilin og með áfengisvandamál eins og óskaplega margt löggufólk fyrr og síðar, heima og heiman.
Fredrika kemur ný inn í lögguna og er á reynslutíma. Henni finnst hún vanmetin, misskilin og eiginlega of góð til að sinna þessu. Hún er með skýra rökhugsun, dálítið ferköntuð, ansi akademísk enda háskólagengin. Alex og Peder eru reynsluboltar með mikið innsæi, búa yfir mikilli vinnugleði og skýrri löngun til að upplýsa glæpina. Þeir láta undir höfuð leggjast að kynna sérfræðinga með nafni og eru dálítið á þeirri línu að ekkert lærist nema af reynslunni - eins og þeir hafa aflað sér í starfi. Þau hugsa hvert öðru þegjandi þörfina en verða þegar á líður að viðurkenna að samlegðaráhrifin virka. Og saman ná þau árangri.
Ég gat svooooooooooooo auðveldlega sett mig í þessi hrokafullu spor og verð að gjöra svo vel að hugsa sumt í mínu eigin daglega atferli upp á nýtt. Er byrjuð.
Kristina kemur sjálf úr háskólaumhverfinu og vinnur (vann?) sem öryggisráðgjafi hjá sænska ríkislögreglustjóraembættinu. Ég gef mér að hún hafi séð í návígi báðar hliðarnar sem hún lýsir hvað mest.
Ég er þegar búin að ná mér í Baldursbrár og hlakka til að læra meira um mannlegt eðli sænskra.
Þýðingin, ekki hægt að minnast ekki á hana, er svo góð að mig rak í rogastans þegar ég sá dæmi um ofvöndun. Alveg eins og við erum ÁHYGGJUfull þegar svo vill verkast er SVEFNHERBERGISgangur í sumum íbúðum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 16. nóvember 2014
Mið-Ísland með puttann á púlsinum
Í gær var á Stöð 2 síðasti þátturinn af átta með Mið-Íslandi og ég sá hann fyrir tilviljun. Dóri DNA var svarthvítur og ég hélt að þátturinn væri gamall. Ókei, ekki samhengi þarna á milli, en Dóri VAR svarthvítur þótt umhverfið væri í lit og átti að endurspegla tíma Jóns Sigurðssonar og þess vegna hélt ég að þátturinn væri kannski þriggja ára. En ónei, Bergur Ebbi var veðurfréttamaður sem benti á hið augljósa, að vegna hraunflóðs væri bara byggilegt á örfáum stöðum á landinu og bráðum ekki lengur.
Og ég áttaði mig á því að ég hef verið fullkomlega andvaralaus gagnvart eldgosinu fyrir austan, hættunni sem af því gæti stafað, breytingunum sem það getur valdið til frambúðar og svo framtíðarhorfum sjálfrar mín og annarra íbúa landsins.
Það er ekki eins og hvergi sé talað um gos og mengun. Ég er í skokkhópi sem varpar fram þeirri spurningu af og til hvort vert sé að æfa úti vegna áhrifa á öndunarfæri. Og ég verð eitt risastórt spurningarmerki. Steinsofandi fyrir hættunum. Magnús Tumi er stundum í fréttunum og Kristján Már oft, lærðir veðurfréttamenn og netið - og allt - ég hef enga afsökun.
Kannski þarf bara listamenn til að hrista úr mér doðann. Og Mið-Ísland kann það sannarlega.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 10. nóvember 2014
Hnóhnikast
Getur einhver látið Orðbragð frétta af áhuga mínum á lítt notuðum orðum?
#djók
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 9. nóvember 2014
Orðbragð - abððgorr - rotinpúrulegur
Óskaplega er Orðbragð skemmtilegur þáttur.
Þau Brynja og Bragi tala þráðbeint upp í eyrun á mér en ég held að eiginlega allir hafi gaman af þættinum, orðbragðinu sjálfu, myndmálinu, grafíkinni og leiknum.
Í þætti kvöldsins fannst mér samt ömmumæðginin ekki ráða við leikinn. Þegar barnabarnið fór að tala um að slumma sá ég að samtalið var ekki sjálfsprottið og það fannst mér verra. Samt er amman leikari.
En Guðrún Kvaran sýndi meistarataktra og nú get ég ekki annað en velt fyrir mér hversu mörg af 615.000 orðunum ég þekki ekki ...
Uppáhaldsorðið mitt um þessar mundir er rotinpúrulegur sem kemur mér á óvart því að uppáhaldsorðin mín byrja yfirleitt á g: grámata, glæpnepja, gonaralegur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 31. október 2014
Vanmáttur auglýsinga
Ég heiti Berglind og er útvarpsfíkill. Djók. En ég hef mikið kveikt á útvarpinu, líka í símanum mínum þegar ég hjóla á milli staða, skipti umsvifalaust milli stöðva þegar mér býður svo við horfa og legg talsvert upp úr alls konar sem ég heyri. Þær stöðvar sem ég hlusta mest á eru með fréttir á heila tímanum og þá eru auðvitað spilaðar auglýsingar rétt á undan og ég skil það allt saman. Auglýsingar eru tekjulind og fyrirtækin sem auglýsa vilja fá meiri viðskipti og þurfa eðlilega að láta vita af þjónustu sinni og vöru.
Mér finnst auglýsingar ekki alltaf ógurleg áþján.
Sumar eru kannski hallærislegar en það er sossum smekksatriði og sjálfsagt er það oft meðvitað til að fá fólk til að tala um þær og auka áhrifamátt og dreifingu.
Ég held að það sé augljóst að ég er ekki á móti auglýsingum (þótt ég voni að ég flokkist ekki sem bolur) en almáttugur minn hvað sumar þeirra eru illa fluttar og leiðinlegar. Allra verstar eru þær sem eru illa fluttar af þekktu fólki - og það er ekki séns að ég auki áhrifamátt einnar sem ég heyrði áðan. Þá langar mig til að slökkva á viðtækinu. Mér finnst jafnvel koma til greina að hætta alveg að keyra bíl ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 28. október 2014
Læknirinn minn
Ég hef hingað til verið alveg óskaplega heppin og haft litla þörf fyrir lækna. Ef bara væri fyrir mig eða fjölskyldu mína yrði trúlega lítil endurnýjun í læknastéttinni - en veruleikinn er annar. Menn þurfa að læra til læknis og við þurfum hæfa lækna. Undanfarin ár hefur mér fundist umræðan einkennast af áhyggjum yfir því að við misstum fólk úr landi vegna launa, langra vakta og slæms aðbúnaðar. Tæki eru ekki endurnýjuð, lyftan stendur á sér, húsnæðið er að grotna niður og læknar fara fram á 36% launahækkun. Segir sagan.
Þar sem þetta er dæmigerður ekkifréttaflutningur af sögusögnum og getgátum verð ég að velja hverju ég trúi. Og ég held að læknar séu vanhaldnir. Ég held að læknar eigi rétt á hærri launum. Ég held að forgangsröðin sé vitlaus hjá okkur og að við tökum of lítinn pening út úr sjávarútveginum og ferðaþjónustunni og látum of lítinn pening inn í heilbrigðiskerfið.
Ég hef verið í kjaranefnd leiðsögumanna og viljað gera kröfu um 40% launahækkun. Ef við hefðum gert það og viðsemjendur gengið að henni hefðum við samt ekki náð launum unglinga sem svara í símann hjá Dominos.
Ef menn vilja flytja fréttir finnst mér að þær eigi að segja manni eitthvað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 28. október 2014
Ætlað samþykki fyrir líffæragjöf
Ég sver það, ég er búin að leita vel á vef RÚV en finn ekki fréttina um að tæplega 5000 manns hafi skráð sig sem líffæragjafa á fyrstu dögunum, þ.e. um helgina. En ég sá það einhvers staðar og fagna því.
En það er örugglega einhver ekki búinn að frétta þetta. Vilt þú ekki hvetja fólk líka til að íhuga það að gerast líffæragjafi ef það deyr óvænt en getur lengt líf þeirra sem berjast fyrir lífi sínu og vantar kannski eitt líffæri til að auðvelda sér baráttuna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 24. október 2014
Vilji til líffæragjafar auðsýnanlegur?
Þær ánægjulegu fréttir bárust heimilismönnum á H26 í þessu að líffæragjafar gætu nú skráð vilja sinn í nýjan gagnagrunn. Um þetta hefur verið rætt á þingi án niðurstöðu og nú liggur aftur fyrir þingsályktunartillaga um stofnun samþykkisskrár sem guð má vita hvort til stendur að ræða frekar. Málið var líka reifað í fyrra en án niðurstöðu.
Ég hef verið sérlega mikill áhugamaður um einfaldleika þess að auðsýna vilja sinn til líffæragjafar við andlát, bloggaði um það 30. janúar á þessu ári og aftur í apríl. Þá fékk ég skemmtilega sterk viðbrögð og sá að margir eru sammála mér.
Og nú er sem sagt búið að tilkynna góðu tíðindin á vef landlæknis og auðvelda mönnum að gerast líffæragjafar.
Eða hvað?
Til þess að skrá afstöðu þína til líffæragjafar þarftu Íslykil frá Þjóðskrá eða rafræn skilríki.Það er bæði auðvelt og fljótlegt.
Dægurmál | Breytt 26.10.2014 kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 23. október 2014
Anna frá Stóruborg > femínisti?
Anna og Hjalti voru sannarlega uppi í kringum siðaskiptin. Segir sagan. Svo skrifaði Jón Trausti dásemdarbók um þau í byrjun 20. aldar. Hún kom fyrst út 1914 og svo gaf Salka hana út upp á nýtt í fyrra.
Anna er stórættaður og forríkur höfðingi sem er í senn hlý við vinnufólkið sitt og með afgerandi kröfur. Sveitungum hennar er vel við hana og eini maðurinn sem er lengst af bókarinnar uppsigað við hana er hennar eigin bróðir, sýslumaðurinn Páll Vigfússon sem vill drottna yfir öllu og öllum.
Af hverju er hún ekki á hverju náttborði, þessi bók? Af hverju er Jóni Trausta ekki hampað? Anna er rökfastur húmoristi sem storkar bróður sínum en gefur engan höggstað á sér. Og svo eru þarna Sigvaldi í Hvammi, blíðalognið, og Steinn á Fit, stórskemmtilegar týpur.
Fyrir hartnær fimm öldum sýndi Anna takta sem hver einasti jafnréttissinni væri fullsæmdur af.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 20. október 2014
Og enginn er hann Gunnar á Hlíðarenda
Steinn var bróðir Halls grámunks, þótt lítið ræktu þeir frændsemi sína. Enda voru þeir nokkuð ólíkir. Ekki var Hallur fagur ásýndum, en þó var Steinn hálfu ljótari. Hann var lítið meira en dvergur að vexti og gekk höfuðið ofan milli axlanna. Skrefstuttur var hann og innskeifur, en þó manna skjótastur á fæti. Munnstór var hann, engur síður en Hallur, en af líkamslýtum hans voru höfuðbeinin nokkuð úr lagi gengin, svo að augun lágu skáhöll og kinnbeinin voru gengin út. Tanngarðurinn lá nokkuð hátt. Skeggið var hýjungur einn, en andlitið þó loðið upp undir augu. Allt gaf þetta andlitinu eitthvert hálfgert rándýrsútlit.
- bls. 84-85 í útg. 2013 (en bókin kom fyrst út 1914)
Hverjum er svo lýst? Höfundurinn er oft með svona svæsnar mannlýsingar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)