Þriðjudagur, 24. júní 2014
Sjósund eða prísund
Að gefnu tilefni fletti ég sjósundi upp í Snöru en í stað sjósunds var mér boðið upp á prísund. Það var alveg sama hvaða tungumáli ég gaf séns, ensku, þýsku, frönsku, ítölsku - ég held að Íslendingar einir saman stundi sjósund.
Við erum soddan töffarar. En sjórinn í Nauthólsvíkinni er reyndar alveg 12°C heitur ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. júní 2014
Hvað gera kynin?
Sóley Tómasdóttir sagði rétt áðan sögu á Sprengisandi af pilti sem lenti í slysi í bíl með föður sínum. Piltur slasaðist alvarlega og fór snarlega með sjúkrabíl á slysó. Skurðlæknirinn sem tók á móti honum sagði: Ég get ekki gert aðgerðina, þetta er sonur minn.
Hvernig má þetta vera?
Jú, þetta er eldgömul gáta og svarið við henni þekkja margir: Skurðlæknirinn er móðir piltsins.
Ég held að enn í dag tengi samt ótrúlega margir skurðlækninn ekki við konu. Auðvitað vita margir að konur eru í meiri hluta í háskólanámi. Auðvitað vita margir að margar konur eru klárar, að margar konur mennta sig, að margar konur gegna mikilvægum störfum -- rétt eins og margir karlar.
En þetta er ekki endilega í blóðinu á okkur.
Glæný saga (gáta ef menn kjósa svo) er svona: Menntuð, víðsýn, gáfuð og meðvituð kona var spurð um daginn: Já, ertu flutt? Er ekki nágranninn lögfræðingur á [einhverri stofu]? Vinkona mín hugsaði sig ekki um heldur svaraði: Nei, hann er flugstjóri.
Baráttan fyrir viðurkenningunni er ekki öll. Auðvitað er nágranninn lögfræðingur á [einhverri stofu], eiginkona flugstjórans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. júní 2014
Verkfallið sem var afturkallað
Þegar maður situr í öruggu skjóli getur maður trútt um talað. Ég er þeirrar almennu skoðunar að þegar stéttir hafi verkfallsrétt eigi þær að geta nýtt hann. Almannahagsmunir eru varla skyndihugmyndir eða töfraorð sem hægt er að draga út úr hillunni þegar einstök fyrirtæki sjá fram á minni hagnað eða algjört tap eftir atvikum.
Þetta segi ég úr skjólinu mínu. Ég tilheyrði ferðaþjónustunni í tylft ára en er hugsanlega hætt að starfa sem leiðsögumaður því að kjörin okkar bötnuðu aldrei. Eftir síðustu samninga er nú hæsti dagvinnutaxti kr. 1.572 og þá á maður hvorki orlof né veikindarétt.
Innanríkisráðherra sagði í flutningsræðu sinni í gær þegar hún mælti fyrir frumvarpi um að banna verkfall flugvirkja að hver dagur þýddi 900 milljóna króna tap:
... ferðaþjónustan hefur reiknað það út að á hverjum degi verkfallsaðgerða glatist um 900 millj. kr. sem hefði auðvitað áhrif á afkomu einstaklinga, fyrirtækja og samfélagsins alls.
Ég hef ekki forsendur til að rengja þetta en mikið óskaplega vildi ég vita hvar þessi peningur birtist á venjulegum degi. Hvaða hálaunastéttir eru í ferðaþjónustunni? Ég skil að inni í þessari tölu eru tekjur sem Bónus, 10-11, kaffihús, veitingastaðir, bíó, Harpa o.fl. hafa af ferðamönnum eins og öðru fólki -- en áherslan er alltaf á tapið sem verður ef eitthvað fer öðruvísi en best og við vitum aldrei hvar stóru tekjurnar verða til á venjulegum/góðum degi.
Ég get lofað ykkur að 272.000 kr. mánaðarlaun leiðsögumanns taka ekki til sín stóran skerf af peningakökunni. Er tjónið svona óskaplegt og almennt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. júní 2014
Sjósund
Maður á ekki að vera að kjafta þessu í fólk en sjósund er úrvalsíþrótt. Í Nauthólsvíkinni er núna opið alla daga frá 10-19. Það eru ekki læstir skápar en maður getur látið geyma fyrir sig og borgað fyrir það 200 kr. Svo er ekki hárþurrka -- bömmer -- en það eru innstungur.
Ég kom sjálfri mér skemmtilega á óvart í gær þegar ég ætlaði bara að vaða aðeins út í en endaði með því að synda úr vörinni yfir á ströndina. 50 metra kannski? Ég var trúlega 10 mínútur í sjónum og hitti bæði tjald og skarf.
En ekki segja þetta neinum því að á góðviðrisdögum grunar mig að ströndin sé pökkuð ...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. júní 2014
Fastagestur í strætó
Ég er í göngu- og hjólafæri við mestallt sem ég kæri mig um að sækja, sem sagt vinnu, aðföng og félagslíf. Stundum tek ég strætó og það kallar hverju sinni á mikla rannsóknarvinnu. Ég var búin að ímynda mér að fólk sem tæki strætó reglulega væri betur haldið, búið að læra á leiðirnar og tímasetningarnar.
Samstarfskona mín sem treystir á strætó hefur komið sveitt og öskureið í vinnuna þessa vikuna. Leiðinni hennar var fyrirvaralaust breytt og hún þurfti að láta fjögurra ára dóttur sína ganga nokkrar stöðvar til að komast á leikskóla einn daginn. Í dag lenti strætóbílstjórinn í sjálfheldu á Snorrabrautinni vegna framkvæmda sem hann fékk ekkert að vita um. Það endaði með því að samstarfskonan fór út úr vagninum, arkaði sinn veg og mætti 40 mínútum of seint, sveitt og dálítið gnafin.
Og rétt í þessu varð mér litið inn á fréttaveitu og las þar reynslusögur fólks sem ætlar að nýta sér strætó á lengri leiðum. Ég skil að í strjálbýlu landi er erfitt að halda úti fullkominni þjónustu en þjónustan eins og hún er núna fælir fólk frá. Strætó verður aldrei sjálfbær og það er ekki hægt að reka hann í þeirri trú að fargjöldin dekki allan kostnað. Kostnaðinum er mætt með því að slit á vegum verður minna, mengun líka, slysum gæti fækkað og ekki þarf að gera eins margar slaufur fyrir einkabílinn.
Almenningssamgöngur eru núna ekki raunverulegt val fyrir fullt af fólki og það er miður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 8. júní 2014
Hvar er Sogamýri?
Hér kemur játning. Ég hélt að Sogamýri væri á móti Kringlunni, lítill afleggjari við Safamýri. Sú mýri heitir hins vegar Starmýri.
Í gær ætlaði ég í leiðangur til að leita að moskulóðinni en hafði rænu á að fletta upp í símaskránni áður en ég lét vaða út í óvissuna (sem ég var samt frekar viss um).
Þá er þessi játning frá.
Fór moskubyggingin ekki í grenndarkynningu? Ég veit það ekki. Hlýtur hún ekki að hafa gert það? Að minnsta kosti man ég að Dagur sagði í leiðtogaþættinum daginn fyrir kjördag að engar athugasemdir hefðu borist.
Er þetta byggingarmál/skipulagsmál ekki búið að velkjast í stjórnkerfinu árum saman? Hafa nágrönnum og öðrum áhugasömum þá ekki gefist tækifæri til að tjá skoðanir sínar skýrt og skorinort? Ég veit það ekki.
Þegar ég skoðaði Sogamýrina á kortinu í gær sá ég að Kirkja Jesú Krists er handan við Miklubraut, í Rauðagerði, reyndar bara 219 fermetrar. Það er mormónakirkja sem ég held að hafi aldrei verið fyrir neinum.
Langholtskirkja er við enda Sólheima. Er hún fyrir?
Kristniboðskirkjan Omega er við Grensásveg, 103 fermetra samkomusalur trúfélags.
Grensáskirkja er við Háaleitisbraut 66, 370 fermetra safnaðarheimili samkvæmt fasteignamati.
Kirkja sjöunda dags aðventista er í Suðurhlíðum, rúmlega 1.350 fermetrar samkvæmt fasteignamati.
Ég hafði ekki áttað mig á öllum þessum guðshúsum allt í kringum Sogamýrina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 6. júní 2014
Ferðasumarið ógurlega 2014
Frá 2002 til 2013 eyddi ég stórum hluta sumarleyfis frá annarri vinnu (nei, ég er ekki kennari) í að vera leiðsögumaður. Vá, hvað það var oft gaman. Veðrið hefur verið blítt obbann af öldinni (misminni?), ferðamennirnir áhugasamir og vingjarnlegir, samstarfsfólkið til fyrirmyndar, vinnuveitendur líka, allt staðið eins og stafur á bók og náttúran í miklu stuði.
Ókei, ég ýki eitthvað.
Í fyrrasumar rigndi á Suðurlandi í öllum ferðunum mínum (misminni?) og til viðbótar upplifði ég lélegasta skipulagið á allri minni löngu ævi. Ég gat ekki staðið við það sem kúnnanum hafði verið lofað, veitingastaðir í hádeginu voru yfirfullir, bílstjórarnir töldu mínúturnar og hótel hliðruðu ekki til um korter fyrir morgunmatinn svo hægt væri að dreifa álaginu í ferðinni. Farþegarnir komu snöktandi í náttstað. Kannski var það rigning sem lak úr augunum á þeim en mér sýndust tár á hvörmum.
Það reyndi á leiðsögumanninn og nú bar svo við að leiðsögumaðurinn ég hafði ekki lengur áhuga á að leggja sig fram fyrir 1.500 kr. á tímann.
Samningar voru lausir í lok nóvember. Við flutum með stóru félögunum í jólasamningunum. Leiðsögumenn felldu þá og samið var upp á nýtt upp á túkall í viðbót.
Launin eru núna 272.000 fyrir heilan mánuð í dagvinnu. Ekkert atvinnuöryggi. Ekkert orlof. Hvernig á maður að skreppa til tannlæknis þegar maður er við Gullfoss, Dettifoss, Svartafoss eða Fagrafoss? Maður gerir það ekki. Við höfum ekki sjálfsögð réttindi sem launþegar hafa barist fyrir og sem betur fer uppskorið.
Núna hef ég sagt nei við öllum ferðum sem mér eru boðnar. Tími minn í ferðaþjónustunni kann að vera liðinn og ég er ekki einu sinni sorrí.
Mig grunar að svona sé komið fyrir fleiri leiðsögumönnum/bílstjórum -- og nú stendur enn einu sinni stærsta ferðasumarið á þröskuldinum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. maí 2014
Moska eða kirkja
Ég er hvorki sérlega trúrækin né kirkjurækin. Ég finn ekki lögin þar sem segir að öllum trúfélögum beri að gera jafn hátt undir höfði með (meðal annars) úthlutun ókeypis lóða undir bænahúsin sín. Það hefur samt mikið verið í umræðunni þannig að ég geng út frá að það sé rétt.
Þá má ekki mismuna.
Annað hvort eru þá fundnar lóðir handa þeim trúfélögum (og jafnvel lífsskoðunarfélögum) sem óska þess eða lögunum er breytt. Það er úrlausnarefni þingsins.
Í umræðunni hef ég hvergi séð gagnrýni á fjölmargar kirkjubyggingar og bjölluspilið þaðan á sunnudagsmorgnum. Ég veit hins vegar að það er ekki öllum að skapi. Einhver íhaldssamasta manneskja sem ég þekki segir: Nú þarf að fara að gera við kirkjubyggingu í hverfinu mínu fyrir offjár (og lítil aðsókn), væri ekki nær að samnýta einhverjar af þessum mörgu kirkjum á þessum litla bletti?
Í Grindavík var kirkju breytt í leikskóla. Er það ekki góð nýting?
Þegar ég var á ferð um Írland fyrir nokkrum árum sá ég kirkju sem var búið að breyta í farfuglaheimili. Þar eru margir kaþólikkar. Eða voru. Skriftastólnum hafði verið breytt í símaklefa. Já, þetta var víst fyrir daga farsímanna. Ég er ánægð með umskiptin.
Mér finnst tímabært að þétta byggðina í kringum kirkjurnar. Að auki legg ég til aðskilnað ríkis og kirkju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 23. maí 2014
Djúpivogur og aðrar litlar sjávarbyggðir
Ég er loks búin að horfa á myndbandið frá Djúpavogi sem byrjar á því að stúlka les upp úr lögum um stjórn fiskveiða.
Það er mjög auðvelt að skilja að fólk tengist heimaslóðunum og vilji halda þar til. Það er mjög auðvelt að skilja tilfinningaleg, efnahagsleg og byggðaleg rök fyrir því að fólk vilji ekki láta bola sér að heiman, selja húsnæðið fyrir slikk, rífa börnin upp, missa nándina, missa ræturnar. Það er hægt að skilja að stóreigendur eða meintir eigendur auðlindar vilji hámarka arðinn þótt mér finnist erfitt að skilja að fólk geri það án þess að hugsa um heildarsamhengið.
Það sem ég get samt ekki skilið er að hver sem er geti ekki skilið að okkur sem samfélagi er betur borgið með byggð í öllu landinu. Ekki í hverjum firði, ekki í hverri vík sem nú er eyðivík eða eyðifjörður en þar sem nú er blómleg byggð og gott mannlíf, nóg viðurværi og góð afkoma. Sjálfbært samfélag.
Nóg er túrisminn lofaður upp í hástert þessi misserin. Ef við höfum ekkert mannlíf að sýna og enga þjónustu að bjóða víða um landið verður heimsóknin ekki eins góð. Fossar eru frábærir en fimmtándi fossinn bætir ekki svo miklu við þann fjórtánda. Það er mikil gæðastund að stoppa á bryggjunni með útlendingana sína og leyfa þeim að horfa upp í karfa eða þorsk. Það eru ekki bara börnin sem ljóma upp við að sjá ketti, hunda, geitur, hænur og lömb á hlaðinu við bóndabæinn. Þýsk borgarbörn uppveðrast við að komast í tæri við heilan KÁLF. Ég brosi líka hringinn.
Mannlífið er auðlind. Byggð um land allt er auðlind sem er greinilega erfitt að verðleggja.
Það eru sem sagt skýr efnahagsleg rök með því að leyfa byggðunum að njóta sín. Líka á Djúpavogi. Hvað er flókið við það?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 23. maí 2014
Athyglivert? Athyglisvert? Athygli vert?
Tungumálið er skrýtin skepna og stundum órökrétt. Athygli er kvenkynsorð og beygist ekki í eignarfalli athyglis. Nei, þá væri það karlkyns. Leikfimi er líka kvenkyns sem og gagnrýni og vandvirkni. Samt eru mjög margir, flestir líklega, sem tengja þau við seinni hlutann með s-i.
Mér finnst tilgerðarleg ofvöndun að segja að eitthvað sé athyglivert.
Svo eru mörg fleirsamsett orð sem fá tengi-s (vegna eignarfalls), fiskútgerð en bolfisksútgerð, fiskréttur en saltfisksréttur.
Fleiri órökrétt orð: hársbreidd, hárlengd og hársídd; fasteignaskattur og eignarskattur.
Sumt er svo sem ákvörðun mannanna en margt hefur fyrst og fremst helgast af hefð.
Svo hnaut ég um annað skemmtilegt nýlega sem varð til þess að ég ákvað að skrifa þetta hjá: frídagar en sumarfrísdagar.
Hefðin helgar svo margt og lætur rökvísina lönd og leið. Samt er málfræði vísindagrein, bara ekki raunvísindagrein ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. maí 2014
Verkfallið bannað - frjálsir samningar?
Verkfall flugmanna í FÍA var bannað með lögum laust eftir hádegið. Rökin eru aðallega þau að svona aðgerðir loki landinu og það hafi víðtæk efnahagsleg áhrif. Almannahagsmunir?
Ég þekki leiðsögumenn sem hafa orðið af einhverjum verkefnum, vinnu í einhverja daga án launa og án nokkurra bóta. Sjálfsagt detta út fleiri ferðir í sumar af því að einhverjir túristar hafa getað hætt við, einhverjir sem hafa skipulagt ráðstefnur eða stóra viðburði snúið sér annað.
Þetta á líka við um aðra í ferðaþjónustu og svo sem ýmissi þjónustu í landinu.
Almannahagsmunir?
Ég veit ekki hvað flugstjórar, flugmenn og flugfreyjur/flugþjónar eru með í laun, hvorki í grunnlaun né heildarlaun. Einhver sagði að flugmenn væru með milljón. Fyrir hvað? Ég þekk flugmann sem hætti fyrir u.þ.b. 10 árum af því að atvinnuöryggið var ekkert, hann fékk reglulega uppsagnir og svo vildi atvinnuveitandinn senda hann út í Langtíburtistan og hann gat ekki boðið sjálfum sér og fjölskyldunni upp á það.
Hvað á svoleiðis að kosta?
Stórtjón hefur orðið af þessu og annað eins fyrirsjáanlegt án inngrips, sagði einhver. Milljarður á dag, heyrðist mér. Misheyrðist mér? Aldrei heyri ég nokkurn í nokkurri starfsgrein tala um stórgróða þegar allt leikur í lyndi en alltaf er stórtjón þegar eitthvað bjátar á.
Ef verkfall er löglegt og löglega er staðið að boðun þess finnst mér algjört neyðarbrauð að gefa upp á nýtt og banna með lögum það sem áður var heimilt að lögum. Þá væri nær að stéttir sem geta valdið þessu STÓRtjóni hefðu ekki verkfallsrétt, heldur væru kjörin ákveðin af gerðardómi eða kjaradómi eftir atvikum.
Hvað gerist núna í deilu grunnskólakennara og sjúkraliða?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 13. maí 2014
Þverpólitík
Fjölmiðlar hafa skrýtinn áhuga á þingmálum, finnst mér alltént. 9. apríl skældi ég á blogginu yfir því að velferðarnefnd hefði ákveðið að vísa frumvarpi um ætlað samþykki til ríkisstjórnarinnar. Ég ætlast ekki til að fjölmiðlar elti grátstafina í mér en kannski málið sjálft þegar eitthvað gerist.
Í gær var atkvæðagreiðsla um frávísunina og hún samþykkt með 49 atkvæðum gegn fimm. Fjórir sátu hjá. Menn færðu rök fyrir máli sínu, góð eða vond.
Frá 9. apríl er ég búin að tala um þetta mál við ýmsa. Yngsta kynslóðin, fólk fætt eftir 1990, virðist með ágæta meðvitund og hefur rætt þetta í sinni fjölskyldu og við vini sína. Ég er búin að heyra um annað ungmenni sem dó en hafði gefið út að það vildi vera líffæragjafi og lengdi eða bætti líf níu einstaklinga. Sú ákvörðun gleður eftirlifandi ættingja og veitir einhverja fró.
Ég er enn með kortið mitt í veskinu. Mér finnst enn að fólk eigi að hafa val og það þarf enginn að biðja mig afsökunar eða gefa mér skýringu ef hann vill ekki gefa líffæri eftir sinn dag. Ég held þó enn að fleiri en færri vilji það en þeim er ekki gefinn nógu góður kostur á að láta vita.
Þetta er ekki hagsmunamál fyrir mig öðruvísi en sem borgara. Ég er ekki að bíða eftir líffæri og enn sem komið er enginn mér nákominn. En enginn veit sína ævina fyrr en öll er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 10. maí 2014
Málfarsráðunautnum er vorkunn
Já, þessi pistill er um málfarsráðunautnir.
Mér varð litið á bók bókanna, Facebook, og sá þar einhvern sem ég þekki læka pistil einhvers sem ég þekki ekki. Það er hin nýja, ferska og frjóa uppspretta. Hugsanlega hefði ég getað flett á vef Ríkisútvarpsins en ég gerði það ekki. Eftir þessari krókaleið hnaut ég hins vegar um pistil íslenskukennara. Hann er frjór og skáldlegur, yrkir Jónas upp á nýtt enda Jónas þjóðareign sem við megum nýta í nýjan skáldskap, endurnýta og gefa lengra líf.
Málfarsráðunautn.
Það fyrsta sem ég hnýt samt um er yfirskriftin:
4 og síðasti pistill Dags Hjartarsonar
Á.
Hverjum á ég að kenna um 4? Ekki Degi, hann flutti pistilinn sinn í mæltu máli. Ekki málfarsráðunautnum sem leggur stóru línurnar, markar stefnuna, svarar fyrirspurnum og veitir ráð. Ekki nýja útvarpsstjóranum. Ekki Villa naglbít sem vísar í þættinum sínum öllum umkvörtunum til útvarpsstjóra. Ekki prófarkalesaranum sem er ekki ráðinn.
Kannski fyrrverandi útvarpsstjóra?
Væri ekki hægt að fá Helga Pé til að lesa vefinn í hljóði meðan hann færir hlustendum allar tilkynningar um mannamót og gleðsköp?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. maí 2014
Vinnumórall
Nýr formaður Samtaka iðnaðarins segir núna víða í viðtölum að hægt væri að auka framleiðni í vinnunni, stytta vinnutíma án þess að missa nein afköst. Hún heldur að hægt sé að klípa af kaffi- og matartímum og hleypa fólki fyrr heim af vinnustaðnum.
Það fyrsta sem ég heyrði á götunni var kvein.
Ég held að það sé óþarfi að klípa af lög- og kjarasamningsbundnum hvíldartíma. Ég held að víða gæti fólk haldið betur áfram í vinnutímanum og klárað dagsverkið á skemmri tíma en átta tímum. Og þannig tek ég undir með Guðrúnu um að hægt væri að stytta vinnutímann eitthvað án þess að tapa í nokkru.
Hins vegar má ekki vanmeta félagslega þáttinn í vinnunni, einkum ef hún er tilbreytingarlaus og lítt krefjandi. Fólk þarf að líta upp úr verkunum, treygja úr sér, skiptast á skoðunum eða bröndurum og hlaða geymana. Sum vinna er þess eðlis að kaffitímarnir þjóna vinnunni, a.m.k. í og með, t.d. ef fólk þarf að sækja upplýsingar eða bera saman bækur sínar. Sum störf krefjast fyrst og fremst viðveru, símsvörun, afgreiðslustörf og önnur slík þjónusta. Það er ekki hægt að svara í símann fyrr en hann hringir eða afgreiða kúnnann sem er ókominn.
Ég veit ekkert hvort þetta er betra í öðrum löndum. Ég veit ekkert hvort meira gengur undan Dönum sem geta síðan byrjað helgina á hádegi á föstudögum. Ég hef heyrt að margir þeirra fái sér einn öl, eða tvo, með hádegismatnum alla daga. Er það satt? Ég hef heyrt að Íslendingar teljist hamhleypur til verka í útlöndum. Er það rétt?
Þetta er spennandi umræða og það veit sá sem allt veit að vinnutíma og vinnustaði er hægt að skipuleggja betur sums staðar -- en ekki með því að henda réttindum sem hafa náðst með áratugalangri baráttu fyrir bættum kjörum.
Vill í alvörunni einhver standa við færibandið og pakka ís í 7,5 klukkustundir án hvíldar til þess eins að geta farið úrvinda heim í sófann (og hvæst á krakkana)?
Og þá rifjast upp fyrir mér aðbúnaður leiðsögumanna ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. maí 2014
Hemmi Gunn
Örlögin settu Son þjóðar í hendurnar á mér. Alla mína ævi hef ég auðvitað vitað af sameigninni Hemma Gunn og kannski las ég bókina af því að Hemmi lést óvænt í fyrra og af því að umtalið var enn meira en annars hefði verið. Ég er ekki mikið í ævisögunum og síst ævisögum samtímamanna.
Fyrst vil ég segja að mér blöskrar ekki að höfundur hafi ákveðið að skrifa eftirmála út frá því samkomulagi sem hann segist hafa gert við bókarefnið um að segja allt og draga ekkert undan. Hann hafði líka heimildarmenn fyrir því sem hann sagði. Ef við getum talað um einhvern lærdóm af æviferli Hemma er það sá að vert er að taka þennan kaleik frá þjóðareignum, fólki sem þjóðin álítur sitt, að fólk í almannaeigu þurfi að vera fullkomið. Hemmi féll í fjölmargar gildrur frontsins, þess að líta út eins og fólk vildi, hegða sér fyrir vandalaust fólk, þrátt fyrir hina miklu einlægni og heiðarleika sem fólk ber honum góða sögu um.
Auðvitað var fjölmargt í bókinni sem ég hafði ekki hugmynd um. Ég vissi ekki að Hemmi hefði í raun verið stutt í íþróttum. Ég vissi ekki að hann hefði reykt alla ævi. Ég vissi ekki að hann hefði verið svona eðlislatur en samt hrikalega vandvirkur þegar hann tók eitthvað að sér. Ég vissi ekki að hann hefði verið svo vanafastur að hann fór ALLTAF í hádeginu að hitta vini sína, grjónapungana, til að borða með þeim. Ég vissi ekki einu sinni að hann hefði verið hrekkjalómur (fela buxur í flugi, símaöt) og þaðan af síður að hann hefði verið hörundsár og tekið illa gríni sem beindist að honum.
En ég hef heldur ekki mikinn áhuga á upptalningu um líf fólks, mér finnst áhugaverðara að heyra um skoðanir og rök fyrir þeim. Og Hemmi virðist hafa forðast að taka afstöðu, kannski af því að hann var þjóðareign og vildi engan styggja.
Sterka hliðin hans finnst mér hafa verið fallegu samtölin sem hann átti við börn fyrir þættina sína. Trúlega hefur áfengið spillt alltof miklu af því góða sem hann bjó yfir. Hann tókst á við það böl en samt var áfengissýkin stóra og langvarandi vandamálið allt hans líf.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 2. maí 2014
Fljúgum burt
Ég veit að Reykjavíkurflugvöllur er ekki og verður ekki mál málanna í kosningabaráttunni í vor en ég er orðin svo óskaplega þreytt á staglinu um öryggissjónarmið. Ef þú vilt að flugvöllurinn fari ertu um leið að segja að þér sé sama um líf sjúklinga og slasaðra.
Nei, mér er ekki sama um líf fólks. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er bara engin forsenda fyrir lengra lífi eða betri umönnun fólks sem veikist eða slasast. Læknar eru það, lækningatæki, aðstaða og aðbúnaður. Það er mikilvægt að fólk komist til læknis en læknirinn þarf ekki að vera við Hringbraut. Í ljósi atvinnuástandsins á Suðurnesjum þætti mér ekkert úr vegi að fleiri atvinnutækifæri litu þar dagsins ljós. Mér skilst að sjúkrahúsið sé vel búið og því skyldi ekki vera hægt að byggja upp úrvalsaðstöðu þar ef innanlandsflug yrði fært til Keflavíkur? Það er samt ekki eini möguleikinn. Það væri líka hægt að dubba upp á Borgarspítalann. Þyrlur eru vel til þess fallnar að lenda á þökum spítala.
Og ég held að það sé algjörlega tímaspursmál hvenær flugvél missir flugið ofan í þéttustu byggðina í að- eða fráflugi.
Kynslóðirnar sem eru að fá kosningarrétt í Reykjavík munu í hrönnum greiða atkvæði gegn flugvellinum á besta byggingarlandinu í höfuðborginni. Þess vegna er líka tímaspursmál hvenær hann verður fluttur þangað sem hann á betur heima.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 27. apríl 2014
,,Þéttum byggð"
Ef ég væri í framboði til borgarstjórnar myndi ég skilyrðislaust setja þéttari byggð á oddinn. Borgir eiga að vera nógu þétt byggðar til að hægt sé að veita viðunandi þjónustu á skikkanlegu verði. Þá er ég að tala um almenningssamgöngur, samgöngumannvirki, sorphirðu, heilsugæslu og skólamál svo eitthvað sé nefnt. Langar vegalengdir draga úr þjónustu og hægja á henni.
En þar sem ég er ekki í framboði ætla ég að kjósa þann frambjóðanda sem talar upp í eyrun á mér í þessu tilliti. Tilviljun ræður kannski í hvaða flokki sá frambjóðandi er ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 24. apríl 2014
Strætó
Ég skil ekki af hverju fólk talar svona lítið um strætó en ég er alveg farin að skilja af hverju það notar strætó lítið.
Rétt fyrir jól flutti vinkona mín með börnin sín á milli hverfa. Hún valdi sérstaklega búsetu með tilliti til þess að sonur hennar gæti tekið strætó síðasta árið sitt í grunnskóla til að klára hann með félögunum. Um áramót var leiðunum breytt þegjandi og hljóðalaust og allar götur síðan hefur hún þurft að keyra hann í skólann áður en hún mætir í vinnuna.
Maður þurfti að komast frá Hveragerði í höfuðborgina um páskana. Hann hélt að strætó gengi ekki á föstudaginn langa og páskadag en við sögðum að það gæti ekki verið, það væri til dæmis vegna ferðamanna ekki hægt að bjóða upp á enga þjónustu þessa daga. Það kom líka á daginn en af hverju eru notendur vagnanna í vafa? Af því að það er alltaf og eilíflega verið að hrókera með leiðir og tímasetningar út og suður.
Áðan sá ég á Facebook að önnur vinkona mín fór snemma á fætur til að keyra tvö barnanna sinna hverfa á milli.
Hafði hugsað mér að kúra svolítið á frídegi en nei enginn strætó keyrir. Tveir fjölskyldumeðlimir þurfa að komast leiðar sinnar. ... Hvaða borg býður upp á svona samgöngukerfi?
Þetta sagði hún. Á straeto.is stendur að vísu:
Framundan
Akstur á hátíðardögum
Ekið er Sumardaginn fyrsta 24apríl, 1 maí og Uppstigningardag. Alla þessa daga er ekið samkvæmt sunnudagsáætlun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. apríl 2014
Flugvöllur og Sundabraut
Enn á ný heyrði ég í útvarpinu í dag talað um flugvöllinn sem öryggisventil sem mætti hvergi annars staðar vera en í Vatnsmýrinni.
Allar ákvarðanir eru skilyrtar einhverju. Ef heilbrigðisþjónustan flyst má flugvöllurinn væntanlega fara, t.d. á þann sama stað. Ef samgöngur verða góðar við nýja flugvallarstæðið má hann væntanlega fara því að þá er öryggissjónarmiðinu fullnægt. Ef þyrlupallur er ofan á sjúkrahúsinu má farþegaflug væntanlega flytjast annað.
Ástæðan fyrir lágreistri byggingu í kringum Austurvöll er sú að flugvélar fljúga lágflug yfir miðbæinn. Þessar lágu byggingar angra mig ekki en ef menn eru eitthvað að velta fyrir sér öryggissjónarmiði væri ekki úr vegi að hugsa um hættuna í hverju einasta flugi sem er flogið yfir þéttbýli.
Ég vil að flugvöllurinn fari og Sundabraut komi. Þetta er allt bara útfærsluatriði og þarf ekki að ógna öryggi manna meira en flugvöllurinn gerir á núverandi stað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. apríl 2014
Dagskrárgerð í útvarpinu mínu
Mér væri sama þótt ég sæi ekki sjónvarp. Ég er svo sem aðeins að færa í stílinn því að ég horfi oft á fréttir og svo ýmislegt annað, gjarnan þó með öðru auganu. Svo get ég látið eins og mér standi á sama um sjónvarpið sjálft þegar ég get horft á stöff í tölvunni.
En ég get ekki þóst geta verið án útvarps. Ég þekki orðið slangur af fólki sem hlustar ekki endilega á útvarp, hlustar á Spotify (sem er þá tónlist(arrás)), hlustar í mesta lagi á útvarp í bílnum eða í vinnunni eða bara jafnvel alls ekki. Og ég skil það ekki.
Ég geng eða hjóla mikið til að komast leiðar minnar. Þá munar öllu að vera með eitthvað í eyrunum. Ég man alveg þegar ekkert var í boði þannig að ég þekki muninn. Ég gæti ekki átt hund og farið með hann í reglulegar göngur án þess að hlusta oftast á eitthvað. (Ég veit, einhverjir nota tækifærið til að hugsa. Er ekki hægt að gera tvennt í einu?)
Og nú er búið að skemma fyrir mér Órangútan með nýja manninum. Ég ætla ekki að segja nafnið á honum en fyrir svona mánuði heyrði ég einhvern annan en Guðmund Pálsson tala og þessi nýi hafði svo óþægilega nærveru í útvarpinu að ég gat ekki hlustað. Og slökkti. Svo sætti ég lagi til að heyra kynninguna og þá skildi ég. Þetta er sami maðurinn og var með leiðinlegasta þátt í sjónvarpinu sem ég hef í háa herrans tíð reynt að horfa á.
Ég get skipt um stöð, mikil ósköp, og ég get líka hlustað á tónlist, talað við fólk eða þagað. Ég geri allt það. En ég trúi ekki fyrr en í fulla hnefana að þessi fjölmiðlamaður mælist vel fyrir. Ég er ekki svo spes að hann fari bara í taugarnar á mér ...
Huggun harmi gegn er að báðir uppáhaldsleikararnir mínir voru í sjónvarpinu um páskana, Tim Robbins og Clive Owen.
Svo langt sem það nær, hehe.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)