Sunnudagur, 13. apríl 2014
Ólæsinginn LANGTUM SKEMMTILEGRI en Gamlinginn
Ég þrælaði mér í gegnum Gamlingjann sem skreið út um gluggann og hvarf á sínum tíma. Ég ætlaði ekki að trúa því að hún gæti verið svona leiðinleg eftir allt þetta lof sem á hana hafði verið ausið. En hún batnaði aldrei.
Samt lét ég tilleiðast og fór að sjá hana í bíó og þótti myndin snöggtum skárri. Í myndinni tókst að tengja hin ólíku tímaskeið betur en í bókinni. Þótti mér.
Svo kom Ólæsinginn sem kunni að reikna eftir sama höfund. Ég sá hana á bókasafninu fyrir mánuði og ákvað að láta á reyna. Þótt ég segi ekki að Jonas Jonasson sé eða verði uppáhaldið mitt get ég alltént sagt að mér finnst honum takast langtum betur upp í þessari bók. Þótt mér finnist Nombeko ekki endilega trúverðug persóna og söguþráðurinn um sprengjuna, verkfræðinginn, undankomuna, sjálfskennsluna, fræga fólkið (aftur!), Holgerana, kónginn, kartöfluræktina, mótmælendurna og kvöldmáltíðina ekki mjög sannfærandi eru samt þarna snertifletir sem duga til góðrar skemmtunar. Nombeko er náttúrlega drifkrafturinn og sennilega ástæða þess að bókin gengur upp vegna þess að hún sprettur upp úr einhverjum ófrjóasta jarðvegi sem maður getur hugsað sér en blómstrar engu að síður á endanum.
Og þá dettur mér í hug Malala Yousafzai, öll hennar ótrúlega lífsreynsla og það sem hún hafði fram að færa 16 ÁRA GÖMUL í ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum. Hið ótrúlega gerist. Þess vegna er ég dús við Ólæsingjann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 9. apríl 2014
Óætlað samþykki > vantrú og vonbrigði
Skömmu eftir áramót dó ungur maður sviplega. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann sýnt mikla ábyrgð, velt fyrir sér dauðanum og gefið það út til sinna nánustu að ef eitthvað kæmi fyrir vildi hann láta nýta líffæri sín í þágu annarra.
Um þetta allt varð mikil umræða og foreldrar hans hafa sýnt einstakt æðruleysi. Meðal annars gleðjast þau, þrátt fyrir augljósa sorg, yfir að hann hafi getað lengt líf fimm annarra. Nú er velferðarnefnd búin að fjalla um frumvarp um ætlað samþykki og leggur ekki til að það verði samþykkt. Nefndin leggur sem sagt ekki til að við göngum út frá því að fólk vilji láta nýta líffærin úr sér ef svo vill verkast. Fólk gæti allt að einu valið að gerast ekki líffæragjafar samkvæmt frumvarpinu en nefndin leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og kemur sér þannig undan því að taka afstöðu.
Mér finnst þetta heldur aumingjalegt. 12 þingmenn úr öllum flokkum á þingi lögðu málið fram í október. Sjö þingmenn nefndarinnar afgreiddu málið með þessari niðurstöðu í gær. Þau segjast vilja fá meiri umræðu um málið, kynna það betur og hafa 29. janúar fyrir dag líffæragjafa. Þetta síðasta er tillaga frá móður unga mannsins.
Menn segja að góðir hlutir gerist hægt. Þetta mál hefur varla mjakast árum saman. Ætlað samþykki tekur ekkert frá þeim sem vilja ekki vera líffæragjafar en ætlað samþykki auðveldar fólki að verða líffæragjafar ef það vill gefa líffærum sínum framhaldslíf þótt annað deyi.
Þetta á ekki að vera feimnismál. Þetta verða menn að ræða opinskátt og taka svo þá réttu ákvörðun að bjarga mannslífum þegar svo ber undir.
Mér finnst þessi afgreiðsla heimóttarskapur og er fjarska döpur yfir þessu. Ef ég dey sviplega vil ég að líffærin mín nýtist öðrum og í veskinu er ég með 10 ára gamalt mjúkspjald frá landlæknisembættinu með skriflegum upplýsingum. Ég vildi hins vegar miklu frekar að þetta væri skráð í gagnagrunn og að enginn þyrfti að velkjast í vafa eða rýna í lúið spjald með máðu letri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 3. apríl 2014
Umbúðabylting
Ég hef ekki farið út í að skilja umbúðir eftir í búðum. Hins vegar kaupi ég ekki sérpakkaðan engifer í frauðbakka og með plasti utan um, ég sleppi honum frekar enda er ég sjaldnast alveg uppiskroppa, og ekki heldur kirsuberjatómata í plastbakka. Ég fagna byltingunni og er aldeilis til í að andæfa öllum þessum andskotans umbúðum.
Í sjónvarpsfréttum í kvöld var líka umfjöllun um ógrynni af mat sem er hent þótt hann sé vel ætur. Ef allur heimurinn hegðaði sér eins og við gerum þyrftum við fimm eða sex jarðir.
Umbæturnar byrja heima en manni er sannarlega gert erfitt fyrir með öllum umbúðunum í búðunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 1. apríl 2014
Hverjar eru kröfurnar?
Eðli verkfalla er að láta finna fyrir sér. Ef verkfall bitnar ekki á neinum er ekkert bit í því, það gefur augaleið. Á þingi er í þessum skrifuðu orðum rædd lagasetning vegna verkfalls undirmanna á Herjólfi sem hefur ekki siglt á kvöldin og um helgar. Ferð bæjarstjóra Vestmannaeyja vegna eins fundar í samgöngunefnd þingsins hefur staðið í fjóra daga vegna lítillar ferðatíðni.
Auðvitað hef ég samúð með íbúum Vestmannaeyja og öðrum þeim sem þyrftu að komast til og frá. En flogið hefur fyrir að kröfurnar séu 40% hærri laun eða 40% ofan á eitthvað. Og menn sveia úr því að laun annars staðar hafa verið hækkuð um 2,8%.
Meðal annars er farið fram á átta stunda dagvinnu í stað níu og hækkun yfirvinnuálags sem nemur nú 33%.
Ég hélt að það væri ófrávíkjanlegt að dagvinna væri metin átta stundir. Ég lenti að vísu einu sinni í því að ferðaskrifstofa ætlaði að borga mér 10 tíma dagvinnu á dag en ekki yfirvinnu í tvo tíma. Það kostaði bara eitt símtal að leiðrétta það en ég þurfti að halda vöku minni.
Aftur í prósentuna. 40% af engu eru áfram ekkert. Ég veit ekki hver launin eru af því að allar kjaraviðræður eru svo mikið leyndó og allir talsmenn virka á mig eins og drottningin af Saba. Án gjafanna reyndar.
Menn vilja ekki spilla samningsstöðunni með því að ljóstra of miklu upp. Þess vegna tjái ég mig hér án þess að þekkja allar forsendur. En ég þekki mína eigin kjarabaráttu.
Ég er fyrrverandi leiðsögumaður, enn með félagsaðild, enn með fullt af orku og gleði, enn með einhvern tíma á sumrin til að sinna þessu starfi með öðru, en án vilja til að vinna fyrir 1.569 kr. á tímann í dagvinnu, án vilja til að vinna fyrir 272.000 kr. á mánuði ef ég ynni 173,33 dagvinnutíma. Ég veit að það er leikandi hægt að vinna sér inn hálfa milljón í júlí en þá er maður meira og minna að heiman, án réttinda af nokkru tagi, að mestu leyti án frítíma, jafnvel þótt maður sé ekki í vinnu af því að maður er úti á landi og bundinn af hópnum og á samt ekki launað orlof.
Þótt ég sætti mig við 40% hærri laun en kveðið var á um í síðustu kjarasamningum væri ég samt bara með 2.117 kr. á tímann í dagvinnu, þ.e. 367.000 á mánuði og ætti áfram ekki veikindarétt og ekki launað orlof.
Ég er skeptísk á lagasetningu vegna löglega boðaðs verkfalls fólks í kjarabaráttu. Það á að semja við borðið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 31. mars 2014
Ólögleg gjaldtaka eða ekki
Ég veit ekki til þess að ég þekki neinn sem ekki vill að náttúruauðlindum sé haldið við. Allir vita að það kostar peninga að gera og halda við stígum og girðingum, tæma ruslatunnur og þrífa klósett. Sennilega eru allir sammála um að þá þurfi að afla fjár.
Það er hægt að gera með því að rukka fólk fyrir þjónustu, leggja á skatta, komugjöld, selja passa eða ræna það. Kannski er fleira í stöðunni. En um það sem verður ákveðið þarf að vera samkomulag og ríkja sátt.
Og hringlandaháttur er harðbannaður. Hvað sem öðru líður á Geysi er fráleitt, FRÁLEITT, að rukka ekki í gær, sunnudag, af því að allir hafi ætlað að taka þátt í kynningarátakinu Leyndardómar Suðurlands en svo verði aftur rukkað í dag eins og ekkert hafi í skorist.
Þeim sem þarf að borga aðgangseyri finnst sér mismunað þegar hann fréttir af næstu gestum sem hafa ekki þurft að borga af því að allir starfsmenn hafi þurft að mæta í eitthvert hóf. Og svona nokkuð spyrst út.
Já, ég held að landeigendur við Geysi hafi verulega vondan málstað að verja og ég held að það sé bara tímaspursmál hvenær þeir sjái að sér.
Hitt er allt annað mál að það þarf að finna framtíðarlausn á uppbyggingarvanda margra fjölsóttra staða á Íslandinu góða. Hver ætlar að gera það og hvenær?
Ég er líklega hætt að vera leiðsögumaður vegna launa og vegna skipulagsleysis en ef ég væri á leiðinni á hverasvæðið veit ég að ég veit ekkert hvað ég ætti að segja túristunum um þessi mál. Og þetta hefur líka verið vandamál á Hakinu á Þingvöllum en þar hefur þó aðeins verið rukkað fyrir þjónustu - KLÓSETTFERÐIR.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. mars 2014
,,Við erum sammála um (eitthvað) og þess vegna ..."
Mér þykja sérkennileg þau rök að fólk sé sammála og þess vegna sé eitthvað í lagi og boðlegt. Ég nefni engin nöfn en ég er búin að heyra þetta tvisvar í fjölmiðlum síðan ég fór síðast á fætur.
Hundrað menn geta verið sammála um að rautt sé blátt eða að gult sé fallegt en það eru áfram engin rök.
Þetta er það sem ég vildi sagt hafa í þessu sunnudagshádegi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 27. mars 2014
Chuck Norris?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 24. mars 2014
FL samdi á föstudaginn
Kjaranefnd Félags leiðsögumanna skrifaði undir samning á föstudaginn. Hraustlegt í sjálfu sér. Ég er samt hætt í leiðsögn ef mér býðst ekki meira en 57 króna hækkun á tímakaupið, sem sagt úr 1512 í 1569. Kostnaðarliðir hækka um 14% og þar bætast ofan á dagvinnutímalaunin 58 krónur, samt fyrst og fremst til að mæta kostnaði við bóka- og fatakaup vegna vinnunnar.
Ég nenni ekki að reikna nákvæmlega hversu mikið 262.000 mánaðarkaupið hækkar ef leiðsögumaður vinnur heilan mánuð.
Eða jú, það hækkar upp í 272.000 krónur.
Og ferðaþjónustan er að auki stjórn- og stefnulaus, óskilvirk og náttúran fótumtroðin. Verstu minningar mínar úr starfi eru frá síðasta sumri þegar allt fór úrskeiðis í einni ferð sem ég var í og það var ekki mér að kenna. Ég er alltaf að líta í eigin barm og velta fyrir mér hvar ég geti bætt mig en þarna var það ekki hægt. Kalt mat.
Þetta er þá kveðjustundin. Og ég er ekki einu sinni stúrin, svo langt gekk síðasta sumar fram af mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 23. mars 2014
Meira af Sunnudagsmorgni
Menntamálaráðherra er núna hjá Gísla Marteini. Ég hef heilmikla skoðun á málefnum framhaldsskólans en núna vil ég bara segja þetta:
Það ætti að stytta grunnskólann um eitt ár. Þegar ég kenndi í grunnskóla var að minnsta kosti mjög mikið um endurtekningar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23. mars 2014
,,... megi skipta sér ört milli kvenna"
Sunnudagsmorgunn Gísla Marteins er skemmtilegur þáttur en aldrei hef ég þó hlegið eins innilega og þegar Kolbrún Bergþórsdóttir talaði um George Clooney rétt í þessu sem hún telur fullkomnasta mann í heimi. Hann er nú kominn með nýja kærustu sem er gáfaður aktívisti, sagði Kolbrún, og hún samgleðst þeim báðum en eiginlega væri bara betra að svo góður maður skipti sér ört á milli kvenna.
Í einlægni hló ég hátt og dátt og lengi. Og auðvitað er ég sammála Kolbrúnu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. mars 2014
Electronic System for Travel Authorization - ESTA
Ég er að reyna að halda þræði í umræðunni um greiðslu fyrir náttúrugæði. Landið er of stórt til að hægt sé að vakta það og girða af. Girðing spillir útsýni og mér líst engan veginn á risahótel fyrir framan Skógafoss þannig að þeir einir njóti almennilega sem eru á hótelinu eða norðan megin við það. Þetta er bara ein hugmynd í ferðaþjónustunni sem ég hef séð.
Svo er út í bláinn að rukka inn á svæði sem á eftir að gera ýmislegt til góða, bæði upp á þjónustu og öryggi.
Margir hafa talað um bandarísku leiðina sem felur í sér að ferðamenn á leið til landsins eru rukkaðir um inngöngugjald, eins konar komugjald, upp á 14 dollara ef það er eitthvað að marka það sem fólk segir.
Er ekki hreinlegast að fólk borgi eitt gjald við komuna og svo verður fénu deilt út til þeirra sem þurfa að bæta stíga og halda klósettum við? Fara ekki annars allar tekjurnar í yfirbyggingu og greiðslur til rukkaranna sjálfra?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. mars 2014
Þegar ég var kennari
Ég hætti í kennslu fyrir rúmum 10 árum, ekki vegna launanna heldur af því að ég var aldrei búin í vinnunni. Launin voru svo sem ekki í samræmi við tímann sem ég varði í vinnuna þannig að kannski hætti ég svolítið vegna launanna.
Þar sem svo langt er um liðið veit ég ekki nákvæmlega hvernig aðbúnaður og kjör eru núna í reynd en á sínum tíma þurfti ég að deila tölvu og borðplássi með fleiri kennurum sem þýddi einfaldlega að ég fór heim með verkefnin, undirbúninginn og úrvinnsluna. Það þýddi að ég sat með spekúlasjónirnar í fanginu og höfðinu fram eftir kvöldi og stundum fram á nótt. Stundum var ég auðvitað óöguð og kom mér ekki að verki. Í staðinn hafði ég hraustlegt samviskubit. En stundum var flókið og tímafrekt að meta ritgerðir og önnur skrifleg svör.
Ég veit ekki hvaða laun þyrftu að koma til svo ég færi aftur í kennslu. Mér finnst enn gaman að standa fyrir framan hóp af fólki og kenna, miðla, segja frá, upplýsa. Þess vegna fór ég út í leiðsögn og þess vegna kom ég mér í það verkefni í núverandi vinnu að ég kenni stundum.
Kennsla er svakalega skemmtilegt starf en stundum var ég að bilast yfir því hvað kerfið var ferkantað. Ég hefði viljað vera meira í kennslustofunni og minna í að fara yfir stíla. Af hverju mátti ég ekki skipta við kennarann sem var búinn að vera í 100 ár og skildi ekki lengur unglinga en vildi sitja inni í herbergi og fara yfir stílana? Af hverju var ekki (og er kannski ekki enn) meiri viðvera í skólunum þannig að menn ynnu meira saman, jafnvel þvert á fög?
Ég hef enga trú á kerfisbreytingu sem geri nemendum kleift að ljúka námi á þremur árum af því að þeir geta það nú þegar. Ég bið hins vegar um meiri sveigjanleika og alveg áreiðanlega mættu kennarar koma til móts við viðsemjendur. Margir kennarar eru mjög excel-miðaðir og margir kennarar ættu að vera löngu hættir en ég held að alltof margir skólar og kerfið almennt stíli inn á vondan ramma sem enginn græðir á.
Kennarar eru of lágt launaðir og þurfa að hækka í launum en sumir kennarar þurfa líka að sýna meiri sveigjanleika.
En hvað ætli ég viti svo sem, ég sem lifi og leik mér alla daga í skemmtilegri vinnu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 17. mars 2014
Fyrirvaralítil gjaldtaka við Geysi
Ég er brjáluð.
Og ég stend með stjórn Félags leiðsögumanna sem hvetur félagsmenn til að taka ekki þátt í gjaldheimtunni. VIÐ ÞURFUM HEILDARSTEFNUMÓTUN Í FERÐAÞJÓNUSTUNNI. Andskotinn sjálfur eigi þessa skyndigróðahugsun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 13. mars 2014
Makríll í hvert mál
Í dag varð uppi fótur og fit þegar spurðist út að Færeyingar, Norðmenn og ESBingar (eða hvað?) hefðu samið um makrílveiðar í trássi við vilja Íslendinga. Hartnær allt sem ég hef heyrt hefur gengið út á sorg og sút yfir þessari ákvörðun, en ég spyr bara eins og sannur landkrabbi:
Er nokkur að ofveiða makríl?
Hann syndir í lögsögunni okkar, étur og þyngist. Má ekki halda áfram að veiða hann?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 11. mars 2014
Verkföll bitna á röngu fólki
Annað hvort hef ég fylgst ótrúlega illa með upp á síðkastið eða kjaradeila starfsmanna Herjólfs hefur legið lágt. En nú veit ég þó alltént af henni og óþægindunum sem fylgja samgönguskortinum. Siglingin er þjóðvegurinn, fólk þarf að fara á milli og ferðaþjónustan hefur reynt að koma Vestmannaeyjum á kortið.
En þrátt fyrir að skilningurinn leki af mér allri spyr ég: Er það ekki eðli verkfalla að bitna á þriðja aðila? Þegar kennarar deila við ríkið bitna verkföll þeirra á nemendum. Verkföll flugmanna bitna á farþegum, verkföll bréfbera á bréfþegum, verkföll lækna á sjúklingum og verkföll mjólkurframleiðenda á mjólkurneytendum.
Og ef leiðsögumenn skyldu einhvern tímann fara í verkfall bitnar það á ferðamanninum sem kannski tekur það út á ferðaskrifstofunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 9. mars 2014
Hvaða orð ber að varast?
Sum orð eru ofnotuð. Sums staðar heyri ég fólk oft segjast gera hluti með þessum eða hinum hættinum. Það verður að gera hlutina með sjálfbærum hætti. Sérstakan hroll fæ ég þegar einhver vill gera eitthvað með skynsömum hætti. Ég veit, persónugerving er til en háttur getur í besta falli verið skynsamlegur. Svo finnst mér galið hvað skýrslur segja mikið. Hins vegar er margt hægt að segja í skýrslu af skynsemi og svo stunda sjálfbærni eða sýna hyggjuvit.
Þú veist hvað ég meina.
En ég hef aðallega verið með böggum hildar síðan Bragi Baggalútur stútaði upplifun í Orðbragði. Við erum búin að leita dyrum og dyngjum að orði sem kæmi í staðinn fyrir það en reynsla, sem kemst næst því, kemst samt ekki nálægt því. Ég mun því halda áfram að upplifa hitt og þetta, t.d. með ferðamönnunum, en alls ekki með neinum tilteknum hætti ...
Orðin sem ég myndi setja lóðbeint í tætarann ef ég réði nokkru væru snilld og snillingur sem væri synd vegna þess að stundum eiga þau rétt á sér. En aldrei, hygg ég, síðustu fimm árin eða svo. Foreldri lætur ferma barnið sitt á Facebook og umsvifalaust segir vinahópurinn: Snillingur. Kommon, krakkinn sagði já þegar það átti við og lærði kannski eitt vers eða heilræði. Ekki þar fyrir, ég gleymdi næstum að standa upp á viðeigandi stað þegar ég var fermd ...
En til að ókunnugt fólk haldi ekki að ég amist við fermingarbörnum, vinahótum, Facebook eða glensi legg ég til að fólk prófi að sletta dönsku og gratúleri með fermingarbörnin. Fer ekki annars sá tími að renna upp?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 6. mars 2014
Frankie
Ég horfi alveg á sjónvarp. Ég held samt alltaf að ég sé svo góður múltítaskari að ég geti lesið, talað, straujað, skúrað og horft á sjónvarpið á sama tíma.
En nú lauk seríunni sem ég hef horft á alveg háheilög í framan án þess að þykjast gera fimm aðra hluti í leiðinni, Frankie. Frankie er óhefðbundin hjúkka (úps, veit svo sem ekki hvernig þessar hefðbundnu eru þótt ég eigi tvær hjúkkuvinkonur) sem hefur óstjórnlega gaman af lífinu þótt stundum blási framan í hana. Kannski hefur hún meira svigrúm en hefðbundnar hjúkkur til að reka sig í rammann og fara krókaleiðir að markinu.
En hún er svo skemmtileg og það er rækalli vanmetinn kostur í daglegu lífi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 2. mars 2014
Stefnumörkun í ferðaþjónustu
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 2. mars 2014
Strandsiglingar
Ég er að vísu ekki hagsmunaaðili (nema sem venjulegur borgari og skattgreiðandi) en ég skil ekki hvernig sú stórfrétt að vöruflutningar hefðu færst af vegunum og út í sjó gat farið framhjá mér í fyrra í fyrra. Það eru frábær tíðindi og ég vil endilega halda þessu til haga. Vegakerfið var farið að kveinka sér illilega og á núna mjög erfitt með að bera þá umferð sem bara tengist fólksflutningum og lágmarksvöruflutningum.
Jibbí.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 28. febrúar 2014
Vöxtur í ferðaþjónustu
Ég veit, ég er alltaf að klappa sama steininn. Núna er ég loks að hlusta á vikugamalt viðtal á Rás 2 við formann Félags leiðsögumanna. Örvar Már Kristinsson stendur sig svakalega vel í djobbinu og þessu viðtali líka.
Er eitthvert lögmál að störf í ferðaþjónustu séu láglaunastörf? Á leið minni í vinnuna í morgun (gangandi, að vanda) mætti ég leiðsögumanni og bílstjóra sem ég þekki úr ferðaþjónustunni. Þeir eru alltaf í vinnunni og þannig ná þeir að skrimta. Þetta komst til tals úti á götu í morgun því að þetta er stórt mál hjá fólki sem nær ekki endum saman nema með herkjum.
Ég veit ekki hvort árviss fjöldi ferðamanna verður milljón innan skamms eða hvort náttúrupassinn kemur og hvort hann mun þá virka en ég veit að ég hef ferlegar áhyggjur af þessari aukningu, átroðningi, græðgi landeigenda og framtíð ferðaþjónustunnar heilt yfir ef ekki verður mörkuð stefna í henni.
Svo hvet ég áhugasama til að hlusta á tæplega korterslangt viðtal við formanninn minn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)