Eru konur vanmetin auðlind?

Val á íþróttamanni ársins var tilkynnt í gærkvöldi (ótrúlega vont sjónvarpsefni) og vitaskuld geispaði maður við tilhugsunina. Ég geispaði alltént og þóttist vita að Gylfi yrði fyrir valinu. Auðvitað vissu keppendur hver yrði ekki fyrir valinu, a.m.k. sá sem var valinn númer 1 því að viðtal var tekið við hann í útlandinu sem hann býr í.

Ég get vorkennt honum alveg óskaplega því að nú þegar ég opna Facebook sé ég að vinir mínir af báðum kynjum hafa tekið þetta fyrirbæri, val íþróttafréttamanna, til bæna. Ekki Gylfa, heldur valið. Rökin eru þau að Aníta hafi unnið titla, skarað fram úr, verið fremst og sigrað aðra. Einhverjir hafa orð á því að hún sé í unglingaflokki og ætti ekki að vera tilnefnd yfirleitt.

Ég fylgist ekki nógu mikið með íþróttum frá degi til dags en ég er handviss um að margt íþróttaafrekið er hægt að mæla í mínútum, mörkum og metrum. Hvað vill val íþróttafréttamanna upp á dekk? Er það þá ekki bara huglægt og hrikalega ómarktækt?

Ég geispaði við tilhugsunina um hið fyrirsjáanlega val. Mamma mín, sem er fædd 1927, var hins vegar ógurlega spennt og algjörlega sannfærð um að Aníta Hinriksdóttir yrði fyrir valinu. Pabbi, sem er enn eldri, hélt það líka. Ég get alltént verið kát með það að eiga foreldra sem eru ekki forpokaðar risaeðlur.

Aníta Hinriksdóttir er alveg áreiðanlega óformlegt val stórs hluta þjóðarinnar og óneitanlega þess hluta sem ég tek meira mark á. Gylfi er fórnarlambið hérna.

Og ofan í þetta las ég stórgóðan og málefnalega pistil konu í stjórnmálum sem minnir á að þótt okkur finnist okkur hafa miðað fram á veg er mikið verk óunnið. Við búum enn í afar karllægu samfélagi. 

Enn er því við að bæta að á Sprengisandi er núna önnur kona í stjórnmálum að tala um kúltúr miðaldra karlmanna í stjórnmálum.

Því miður þarf enn að minna á að stundum virðist gengið framhjá konum fyrir það eitt að vera konur. 

Es. Uppáhaldsfréttastofan mín kom með nýtt sjónarhorn á málið og óskaði Gylfa til hamingju með fyrstu verðlaunin á árinu. Í gær var 28. desember. 

Ees. Var að tala við mömmu sem sagði að þau pabbi hefðu steytt hnefann framan í sjónvarpið í gær þegar Aníta var ekki valin. Mamma og pabbi eru alvöru. 


Russell Crowe vanmetin auðlind?

Í mörg herrans ár hefur Nothing to Lose verið uppáhaldsmyndin mín. Tim Robbins er góður leikari en aðallega var það handritið sem heillaði mig. Ég sá aldrei fyrir næsta leik, myndin kom mér stöðugt á óvart. Ég hef bara séð hana einu sinni en skima alltaf eftir henni ef ég á leið um dvd-búðir.

Í gær sá ég State of Play í sjónvarpi allra landsmanna. Vá, hvað hún var spennandi og lítt fyrirsjáanleg. Það er eiginlega eina krafan sem ég geri til spennumyndar. Aðalhetjan þarf ekki að geta rennt sér berhent á ógnarhraða eftir grönnum vír og komist skaðlaust frá því. Aðalhetjan þarf sannarlega ekki að vera hönk dauðans. Nei, aðalhetjan má gjarnan vera ástríðufullur blaðamaður sem borðar aðeins of marga ostborgara á pöbbnum og verður dálítið hræddur þegar hann heyrir og sér skyttu í bílakjallaranum.


Justine Sacco

Hún var upplýsingafulltrúi og tvítaði ósmekklega. Færslur geta birst í óteljandi tölvum á sömu sekúndunni, þekkingin eða vanþekkingin breiðst út á núll einni. Nú er Justine mjög umtöluð og komin með marga Twitter-þræði á sínu nafni. Fólki finnst afsökunarbeiðnin hjá henni yfirborðsleg og bera vitni um að hún þurfi lítið að hafa fyrir lífinu en er þess að sama skapi fullvisst að hún landi öðru góðu djobbi fljótlega af því að pabbi hennar er áhrifa- og peningamaður.

Kunnuglegt? 


Væntingastjórnun

Einhverja bestu lexíu í samningatækni er að finna í gömlu Andrésar andar blaði. Jóakim forríka aðalönd átti fataverslun og auglýsti gott verð (kjóll á 99 danskar krónur). Kúnnarnir létu ekki sjá sig. Þá breytti hann auglýsingunni og sagði að kjóllinn hefði kostað 159 en væri kominn ofan í 119. Kúnnarnir rifu flíkurnar út og borguðu glaðir uppsett verð.

Er það ekki alltaf þannig að þegar menn semja kröfugerðir (eða fjárlagafrumvörp) setja þeir fram ýtrustu kröfur með það fyrir augum að slá af? Og þegar allir vita það hlýtur það að gera báða samningsaðila jafnvíga. Af hverju fellur þá fólk alltaf fyrir þessu? Af hverju skipta málefnalegar forsendur ekki máli, rök með málstaðnum?

Ég er ekki kát.

Hitt sjálfið mitt er hins vegar komið í fínasta jólaskap með rauðar og bláar seríur um allt hús.


Jólasmákökur ei meir

Hins vegar er upplagt að hnoða döðlukonfekt.

- Uss, myndin kemur ekki með færslunni, birtist bara hér til hliðar. 

 


Er betra að vera vondur?

Þessi færsla er ekki um dómana sem féllu í héraðsdómi í gær. Það mál er of stórt til að leggja út af því. Ég myndi vilja lesa mér miklu betur til – og samt yrði ég ekki spurð. Ég hef ekki aðgang að fjárúttektum, dagsetningum eða Al Thani.

Nei, ég var að hlusta á Gunnar Smára Egilsson sem fór mikinn um alls kyns mál, þar á meðal kjaramál sem eru áhugamál mitt um þessar stundir. Ég tók um daginn þátt í að setja saman kröfugerð, fara með hana á fund viðsemjenda og fylgja henni eftir. Af því að stéttarfélagið mitt er lítið, en samt með gríðarlega sérstöðu, höfum við ekki verið boðuð á næsta fund. Mér skilst að ég geti beðið um fund en um leið er mér þráfaldlega sagt að ekki verði samið við okkur fyrr en búið er að semja við Starfsgreinasambandið. Við gerum okkur auðvitað vonir um talsvert meira en þessi 3% sem seðlabankastjóri þrástagast á, annars óttast ég spekileka og það gengur ekki þegar ferðamönnum fjölgar og fjölgar.

Okkur í kjaranefnd langar að vera kurteis, málefnaleg og vinna saman að uppbyggingu ferðaþjónustunnar, jafnvel semja til lengri tíma – en yrði ekki meira mark tekið á okkur ef við yrðum hvínandi reið eins og Gunnar Smári?

 

 

 


Martröð minnisleysisins

Þegar fólk á allt reynir annað fólk að gefa því minningar við vel valin tækifæri, eins og á jólum og afmælum. Minningar eru mikils virði. Minningar ylja fólki ef því líður illa og minningar fara í reynslusafnið.

Þess vegna er skelfileg tilhugsun að muna ekki neitt, að vakna óskrifað blað á hverjum morgni, halda að maður sé kannski 17, líta svo í spegilinn og reynast vera 47 ára. Það er skelfilegt að byrja upp á nýtt hvern dag og þurfa svo líka að treysta öðru fólki í einu og öllu, rata ekki um húsið sitt, kunna ekki á síma, vita ekki hvar maður býr.

Þetta er veruleiki Christine í Áður en ég sofna og ástæðan er „slys“ sem hún lenti í. Það sem mér þótti alllengi framan af undarlegt var hversu lítið tengslanetið var. Hún átti eiginmann en ekki foreldra, systkini, vini eða (fyrrverandi) samstarfsfélaga. Eiginmaðurinn fór á hverjum morgni í gegnum lífshlaupið í stuttu máli og svo gekk hún daglega í gegnum það sama, að átta sig, læra á grunnatriðin, alveg skýr í höfðinu en að sama skapi minnislaus. Og eiginmaðurinn í vinnunni.

Bókin er rúmlega 400 síður og þrátt fyrir ágæta spennu er hún a.m.k. 100 síðum of löng. Of margt er endurtekið of oft. Loðmullan gerði það að verkum að ég var komin á fremsta hlunn með að hlaupa yfir tugi hér og þar en þá hefði ég getað misst af mikilvægum vísbendingum.

Eftir 80 blaðsíður var mig farið að gruna hvernig í landinu lægi og ég er ekki sú slungnasta í glæpagátunum. Þannig þykir mér hún hafa orðið fyrir talsverðu oflofi, sagan, en þýðingin var hins vegar afbragð. Þýðandi notaði viðtengingarhátt og býsna oft flókin orð sem hægt hefði verið að þýða með „skiljanlegri“ orðum. Ég fíla það.

Svona nokkuð var sjaldgæft:

„Ég átti engra kosta völ nema segja Ben það.“ (bls. 30)

Enskan skín í gegn, er það ekki? I didn't have any other choice but to tell Ben? Ég átti engra annarra kosta völ en að segja Ben það.

Hégómleg athugasemd við þýðinguna sem var stundum fín og oft ósýnileg – en því miður þoldi sagan ekki svona langt mál. 


Vanlæsi?

PISA, PISA, PISA. Almennar kannanir og sértækar kannanir eru ekkert hafnar yfir vafa. En ef síendurteknar kannanir benda til afgerandi vondrar niðurstöðu er ekki úr vegi að skoða hvaða leiðir gætu verið til úrbóta.

Á fimmtudaginn var viðtal við konu í Speglinum sem sagði að í Noregi væri ritmálið líkara talmálinu (er það þá ekki „nynorsk“ vs „bokmål“?) og hélt að það gæti verið ástæðan fyrir almennu læsi til skilnings í Noregi, þ.e. að unglingsstrákar lesa sér almennt til gagns en á móti fer skilningur fyrir ofan garð og neðan hjá 30% íslenskra stráka á sama aldri.

Athyglisvert.

Ég fæ sjálf andarteppu við tilhugsunina um að skrifa *héddna, *telft, *Kebblavík og *hæhda en ég er samt til í að láta skoða hvort lausnin gæti legið í rithættinum, þ.e. að það að færa hann nær talmálinu og fjær upprunanum. Samt er ég mikill áhugamaður um að fara eftir stofninum. Og ég minni á að býsna margir áttu erfitt með að kasta zetunni á sínum tíma en fáir sakna hennar í dag. Ég væri næstum alveg til í að æfa mig í að skrifa ekki ipsilon (y). Þá færum við *ifir, góðir krakkar væru *indi og ein vinkona mín héti *Brindís. Ég *mindi mest sakna þess í viðtengingarhætti þátíðar, sbr. þótt við styngjum af > þótt við *stingjum af. #hrollur Samt til í að skoða það.

Svo var í þessum sama Spegli talað um að börn á máltökualdri væru gjarnan í háværu umhverfi leikskólanna þar sem illa talandi (vegna aldurs) smábörn hefðu hæst. Leikskólabörn heyra oft ekki fallegt, gamalt, gott og gilt tungumál af því að þau heyra mest hvert í öðru. Já, ég held að það sé heilmikið til í þessu. Það þarf að hafa fyrir börnum það sem við teljum fagurt og rétt.

Einhver lagði út af þessu á Facebook í vikunni og fólk sem ég tek mark á fann því strax allt til foráttu, einkum því að laga ritháttinn að framburði. Kannski er niðurstaðan úr PISA ekki slæm í alvörunni en mér finnst eðlilegt að stjórnvöld, þá meina ég yfirvöld skólamála, kanni allar leiðir. Er kannski allt í gúddí?


RÚV er ekki hafið yfir gagnrýni

Ég hef aldrei unnið á RÚV (hef hins vegar sótt um vinnu þar) og þekki enga innviði stofnunarinnar. Ég veit ekkert um einstaka kostnaðarliði, ekkert um raunkostnað við framleiðslu einstakra þátta og í raun ekki nóg um hvort eyrnamerkt fé fer til RÚV. Mér skilst þó að markaðsdeildin hafi verið „varin“ þegar 39 manns var sagt upp.

RÚV bar á góma í hádeginu. Einn sagði: Það ætti að leggja Ríkisútvarpið niður. Það er fjálglega talað um öryggisþáttinn en þegar á hólminn er komið eru aðrir miðlar á undan RÚV með fréttir af eldgosum ef því er að skipta. Þegar maður keyrir um á vissum stöðum úti á landi nást kristilegar stöðvar og Útvarp Saga en hvorki Rás 1 né Rás 2.

Já, ég verð að taka undir að öryggisþátturinn hefur verið fyrirferðarlítill upp á síðkastið, kannski í mörg ár. Hvaða fjall gaus, og hvenær, og það var ekki hægt að segja frá því í útvarpi allra landsmanna fyrr en einhver landsleikur hafði verið leikinn til síðasta blóðdropa? Að nafninu til er Hekla vöktuð á RÚV-vefnum en núna stendur: Server not found o.s.frv.

Ef RÚV hefur öryggishlutverk verðum við líka öll að vera með stillt á RÚV, er það ekki? Ef einhver er að hlusta á tónlist á Mono eða Rondo missir hann af mikilvægum tilkynningum hjá Ríkisútvarpinu, er það ekki? Eða hefur útvarp allra landsmanna heimild til að rjúfa útsendingar annarra, t.d. ef stríð brytist út? Ég veit það ekki.

Ég ítreka að ég er ekki manneskjan til að stokka upp hjá stofnuninni en ég trúi að það sé hægt að hagræða þar eins og víða. Árshlutareikningur fyrir 1. september 2012 til 28. febrúar 2013 er aðgengilegur og samkvæmt honum var dagskrár- og framleiðslukostnaður tæpir 2 milljarðar en dreifi- og sölukostnaður 238 milljónir. Eðlileg hlutföll? Rekstur og stjórnun tæplega 300 milljónir. Er því fé vel varið?

Krafa margra um að marka stefnu og hagræða svo er eðlileg. Af hverju voru til dæmis þulir reknir með hraði og svo Helgi Pé sóttur til að brúa bil? 


Hver eru viðurlögin við því að brjóta lög um RÚV?

Ég sat með um það bil 1.000 manns í Háskólabíói í einn og hálfan klukkutíma í kvöld. Guðrún Pétursdóttir var röggsamur fundarstjóri sem lagði út af erindum og flutti kveðjur héðan og þaðan. Guðmundur Andri var með brýningu, Melkorka sögustund, Hanna G. Sigurðardóttir dagskrárgerðarmaður (ekki í upptalningunni) tölur úr rekstri, Sigríður talaði sem langtímahlustandi, Benedikt um sameiningu kynslóðanna og Kolbeinn eiginlega líka. Ræðumenn voru yfirvegaðir sem mér finnst alltaf miklu betra. Þótt ég hafi ekkert á móti andagift og stemningsræðum á ég bágt þegar þær verða of tilfinningaþrungnar. Engin ræðan var svoleiðis þótt þau legðu sum út af eigin hlustun og lífi með útvarpinu.

1. gr. laga um Ríkisútvarpið er svohljóðandi:

Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Ég var aðeins að velta fyrir mér hver sækir og hver refsar ef þetta ákvæði er brotið.

Einhver ræðumaður hafði líka gluggað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:

Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan. 

Hún er náttúrlega síðan í maí og kannski dottin úr gildi. Hlutirnir breytast svo hratt orðið ...

Ég hlusta á Bylgjuna og ég hlusta á X-ið (reyndar bara Harmageddon) og þar kennir ýmissa góðra grasa en það er auðmelt spjall og hraðspiluð tónlist að mestu leyti. Rás 1 sinnir allt öðru litrófi og gerir það ein útvarpsstöðva. Málefnalega er bara út í bláinn að slá af svona marga unna þætti.

Hvað veldur því að tónlistaryfirsýninni er kastað fyrir róða? Ég trúi ekki að flokkapólitík eigi hlut að máli. Hvaða flokkur gæti beðið skaða af því að við kynnum betri skil á djass eða blús eða rokki? Eða sígildri tónlist? Á fundinum kom fram að fram til þessa hefur Rás 1 fengið 7% af rekstrarfénu en yfirstjórnin 6%. Það sér hver maður að röðin er alvitlaus.

Es. Starfsmannamál RÚV voru rædd á þingi í dag. 


Að hringja eða senda sms

Ekkert er mér fjær en að bera blak af Hrannari Péturssyni, talsmanni Vodafone, en ég get ekki alveg látið vera að hugsa hvort hin símafyrirtækin séu nokkru skárri. Eftirlitið gæti verið í molum, þori ekki að fullyrða neitt þar sem ég hef sjálf engan aðgang að upplýsingunum, lagasetning í skötulíki og letin í algleymingi. Viðkvæmar og ofurpersónulegar upplýsingar gera ekkert nema skemmta skrattanum þegar þær komast út á meðal fólks. Ég gluggaði í gullkornin sem einhver setti á Facebook og sá a.m.k. ekki neitt sem varðaði forræðisdeilur eða óuppgerð mál. Ég las sjálfsagt ekki nógu lengi. Ef það er satt að ráðamenn fari á leyndófundi með hagsmunaaðilum er hins vegar allt önnur staða uppi og það hlýtur að verða athugað.

Ég veit dæmi þess að fólk verður að ljúka erfiðum málum skriflega af því að annar aðilinn er ekki til viðræðu. Þannig komast viðkvæm mál á prent þótt fólk reyni að vanda sig og forðast stóryrði. En að þeim dæmum slepptum mætti fólk aðeins líta í eigin barm og hugsa sig um tvisvar áður en það sendir tölvupóst og sms. Það er góð regla að senda ekkert frá sér nema manni væri samt þótt það rataði á forsíður blaðanna. Ég ítreka að þessi regla getur ekki verið án undantekninga en mjög oft hefði fólk gott af að geyma sendingarnar í einhverja klukkutíma og sjá hvort því yrði ekki öðruvísi innanbrjósts að þeim tíma liðnum.

En fjarskiptafyrirtækin hljóta engu að síður að verða undir vökulu auga – hvers? –  næstu mánuðina.


Skæruliði - fasisti - málvöndunarmaður - íslenskuunnandi?

Eftir Orðbragð í sjónvarpinu þar sem Bragi Valdimar sagðist vera skæruliði í prófarkalestri og meðal annars neita að borga í stöðumæli með stafsetningarvillum á ég auðvitað auðveldara með að gangast við mínum fasisma.

Olíu var hellt á þann eld um helgina þegar sumir miðlar sögðu að forstjóri Vodafone ætlaði ekki að segja af sér eftir skandalinn þegar tyrkneski hakkarinn opinberaði persónuleg gögn sem Vodafone átti að vera búið að farga. Forstjóri Vodafone hefur hins vegar ekki verið kjörinn og getur þess vegna ekki sagt upp. Hann var ráðinn til starfa og verður því að segja upp ef hann ætlar að hætta. Sem hann ætlar hins vegar ekki að gera. Forstjóri Vodafone mun sem sagt ekki segja upp vegna trúnaðarbrestsins milli fyrirtækisins og viðskiptavinanna. Sú staðreynd er hins vegar efni í annan pistil.


Stefán Jón í Vikulokunum

Ég trúi ekki að ég hafi misst af Þjóðarsálinni á Rás 2 í gær en guðsblessunarlega er hún geymd í Sarpinum þannig að ég get hlustað á eftir. Og guðsblessunarlega er Stefán Jón í Vikulokunum núna með Björgu Evu og Þorgeiri, án þess að ég sé að halla á þau, því að Stefán Jón er svo einstaklega lausnamiðaður. Hann er alltaf með staðreyndir á hreinu og ég trúi því þegar hann segir að framtíðarsýnin sé sú að sameina RÚV Stöð 2 (Þorgeir gæti stöðu sinnar vegna ekki talað svona þótt hann væri jafn sannfærður og Stefán Jón) og Skjánum og setja undir peningaöfl. Landsbankann?

Þetta er ekki samsæri, þetta er veruleiki sem er til þess fallinn að hafa áhrif á skoðanir fólks. Það er áhyggjuefni og nú er ég skelkuð. Niðurskurðurinn á RÚV stafar ekki af peningaskorti - enda ekki kurl komin til grafar með fjárlagafrumvarpið sem enginn veit fyrir víst hvenær verður rætt og svo samþykkt og þá í hvaða mynd.

Ég sá þetta ekki strax, en er þetta ekki það sem Helgi Seljan spurði útvarpsstjóra um?


Verkalýðinn má skikka

Þegar kom fram á ofanverða 19. öld var barlómur bænda sakir vinnuhjúavandræða svo hávær að Alþingi afréð að lögfesta lausamennsku. Tilskipunin um lausamennsku 1863 mælti svo fyrir að hver sá sem ekki hefði fimm hundruð á landsvísu í árságóða af fasteign eða öðru fé væri skyldur til að ráða sig í vist eða leysa lausamennskubréf að öðrum kosti. Engin önnur stétt í landinu varð að þola viðlíka frelsisskerðingu og alþýðufólk sem átti hvorki fasteignir né fé í lausum aurum og varð að velja á milli vistar hjúsins eða öryggisleysis lausamennskunnar.

Við brún nýs dags - saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar 1906-1930, bls. 25

Mér finnst ég sjá eitthvað þessu líkt í dílnum milli ferðaskrifstofa og leiðsögumanna. Leiðsögumaður getur fastráðið sig upp á sultarkjör (262.000 á mánuði í efsta flokki og kannski bara frá maí fram í október) eða harkað. Vandinn er samt sá að harkið gefur ekkert endilega meira í aðra hönd að öðru leyti en því að menn geta á vissum árstímum unnið myrkranna á milli. Og það dimmir frekar seint á sumrin ...


Í fréttum er ýmislegt

Nú er engin gúrkutíð. Borgarbúar eru heilt yfir ánægðir með borgarstjórann. Berlusconi skandalíserar. 9.300 eru án atvinnu. ASÍ (leiðsögumenn meðal annarra) stefna að árskjarasamningi (sem sagt stuttum) við SA vegna óvissu í efnahagsmálum. Verða verkföll? Hvað eru kennarar að hugsa? St. Jósefsspítali stendur enn tómur og tappalaus í Hafnarfirði. Björt framtíð vill leyfa foreldrum að skíra börnin sín Y eða @. Ókei, ég er trúlega að oftúlka. Ég heyrði frétt af svínshausum sem voru skildir eftir á lóð múslima í Safamýri en nú finn ég hana hvergi. Ég fordæmi þá hegðun en kannski skýrist hún af því að vitleysingar eru á sveimi. Vitleysislega hegðun má samt ekki leiða hjá sér í þeirri von að fólk vitkist og verði skynsamt og hæfilega umburðarlynt án tilsagnar.

Frétt dagsins er samt af uppsögnunum hjá Ríkisútvarpinu. Ég var búin að fá áskorun um að skrifa undir mótmælaskjal áður en ég vissi almennilega hvað var í gangi. Ef ég hefði lesið fjárlagafrumvarpið almennilega hefði ég sennilega vitað af niðurskurðinum en samt ekki endilega vitað af viðbrögðum Páls Magnússonar. Reyndar stendur bara í lið 02-971 að rúmlega 3,5 milljarðar séu greiddir úr ríkissjóði en ekki hvað var í fyrra þannig að þótt ég hefði lesið frumvarpið eitt og sér hefði það ekki dugað til.

Og hvað er þá í gangi? Ríkisútvarpið fær minna til ráðstöfunar en það hefur haft. Útvarpsstjóri segist forgangsraða og ekki skera flatt niður. Hvað velur hann að skera niður? Það ætti að vera áhugavert fyrir alla að skoða og nú ætla ég að reyna að glöggva mig á þessu út frá sjálfri mér eins og ég sé að margir hafa gert í dag.

Ég hlusta mikið á útvarp, helst talað mál. Ekki lesið mál, ekki tónlist, ég hlusta mest á talað mál. Þar er áhugasvið mitt. Ég hlusta á spjallþætti, bæði morgun- og síðdegisútvarp RÚV og Bylgjunnar. Ég á marga uppáhaldsþætti, s.s. Órangútaninn á Rás tvö á laugardagsmorgnum, Vikulokin á Rás eitt á laugardagsmorgnum (innbyrðis samkeppni þar), Grínista hringborðsins (samt mistækur þáttur), horfði alltaf á Silfur Egils, hlusta alltaf á Villa naglbít á sunnudögum - ókei, ég er ansi mikill notandi. Ég á eftir að sakna Jóhannesar Kr. og mjög mikið Margrétar Erlu Maack, dálítið Guffa og Lindu. Ég sé núna að breytt dagskrárgerð á eftir að hafa áhrif á líf mitt.

En mín vegna hefði mátt leggja íþróttadeildina niður. Hver var eiginlega Páli til ráðgjafar í þessu máli? Ég hefði aldrei lagt til að hætt yrði að segja íþróttafréttir þótt mér sé sjálfri sama um þær, ég hefði bara tónað þær niður í 5-10% af því sem nú er. Upptalning á markatölum er hvort eð er meira fyrir skrifuðu miðlana, ekki þar sem textinn er fluttur af munni fram.

Nefskattur, afnotagjöld, framlög, beingreiðslur - ég er búin að sjá umræðu um að það hafi verið óráð af leggja af afnotagjöldin. Voru þau eyrnamerkt Ríkisútvarpinu?

Af því að ég er hvort eð er komin út um víðan völl ætla ég að láta eftir mér að hugsa þetta upphátt: Hefði ekki verið nær að draga úr framlögum til þjóðkirkjunnar? Margt í útvarpinu hefur meira sáluhjálpargildi fyrir mig en illa sóttar messur í nafni guðs sem ég trúi ekki á.

Og nú var verið að benda mér á að laun útvarpsstjóra voru leiðrétt, eins og það heitir, vorið 2012 þannig að hann lepur ekki dauðann úr skel. Er hann verðugur? Gerir hann gæfumuninn? Léttir hann mönnum lífið, styttir hann stundirnar fólki sem situr heima hjá sér og getur ekki annað?

Ég er farin að hallast að því að það sé vitlaust gefið í þessum útvarpsmálum og er ég þó að reyna að vera umburðarlyndið uppmálað.

... sagð'ún meðan hún hlustaði á næturútvarp Ríkisútvarpsins. Skrens, engar fréttir klukkan eitt eftir miðnætti?


Að læka eða ekki að læka

Allir eiga rétt á skoðunum sínum. Reyndar finnst mér hvað dýrmætast í fari fólks að það hafi skoðanir en auðvitað er ég ekki alltaf sammála öllum, skárra væri það. Ég ætlast heldur ekki til að fólk hafi skoðanir á öllum sköpuðum hlutum en stundum skautar fólk framhjá því að hafa eðlilega skoðun og láta hana í ljósi. Það vottar sossum fyrir því að fólk vilji ekki axla ábyrgð á skoðunum sínum og þykist þess vegna ekki hafa þær.

Það held ég alltént.

En felur læk á Facebook ekki í sér skoðun? Hvati fólks getur verið ýmis, það kinkar kolli til pennans og segist hafa lesið eða séð færsluna. Ef það lækar til að styðja viðkomandi vin, fjölskyldumeðlim eða félaga hlýtur það að minnsta kosti að vera þeirrar skoðunar að viðkomandi penni hafi nokkuð til síns máls, í það skiptið eða allajafna.

Ég er nefnilega enn að hugsa um leiðara Friðriku Benónýsdóttur í Fréttablaðinu í morgun. Ég sleppi því stundum að læka eitthvað af því að ég óttast - já - að það mætti rangtúlka. Ég er í þannig stöðu að ég kæri mig ekki um að vera stimpluð á þennan eða hinn veginn án þess að fá tækifæri til að standa fyrir máli mínu. Læk eru lögð út, það er óhjákvæmilegt. Þess vegna finnst mér að fólk eigi að hugsa sig vel um áður en það lækar andúð, köpuryrði, stóryrði, ávirðingar - og mér finnst auðvitað að fólk eigi ekki að slá fram sleggjudómum, haturspósti, órökstuddum yfirlýsingum og fúkyrðum.

Samt finnst mér að fólk eigi að segja það sem því finnst - bara með rökum. 


Dagskrárgerð RÚV

Ég get fyrirgefið sjónvarpinu ýmislegt eftir að hafa horft á Orðbragð í gærkvöldi. Hugmyndaflugið, grafíkin, útskýringarnar, húmorinn - má ég fá meira að heyra, takk.

Sveinsstykki Arnars Jónssonar

Það var með hálfum huga sem ég fór á Sveinsstykkið í Þjóðleikhúsinu. Fyrst aðalgagnrýnin: Hljómburðurinn var ekki nógu góður, ég heyrði ekki alveg allt og mamma mín sem er aðeins farin að tapa heyrn missti af ansi miklu. Eins manns sýning á stóra sviðinu þar sem hann talar inn á milli inn á við kallar á betri hljóðmögnun (ef hún var einhver).

Textinn, uppbyggingin, andstæðurnar í Sveini Kristinssyni, yfirlætið í bland við uppgjöfina - allt þetta fannst mér ganga upp. Það er frontur á okkur öllum, við viljum að minnsta kosti flest koma vel fyrir og ég trúi flestum til að fegra aðstæður aðeins. Sveinn gerði það svikalaust en þegar hann horfði inn á við og lét sér áhorfendur í léttu rúmi liggja kom á daginn að margt hafði verið honum mótdrægt. Titlar geta verið svo grefilli innistæðulausir.

Arnar sjálfur var hylltur í lokin (ein sýning eftir) og hann átti klappið skuldlaust. Mér fannst honum ekki liggja nógu hátt rómur, eins og fram er komið, en fjölbreytni í raddbeitingu og hollningu, látbragði og leik var öll til fyrirmyndar. Ég trúi að hann hefði hangið á löppunum í leikfimigrind ef leikstjórinn hefði sett honum það fyrir, svo lipulega kemur hann mér fyrir sjónir.

Ég er ekki lítið ánægð með að láta telja mig á að fara í Þjóðleikhúsið í kvöld.


Leiðsögumenn kosta

Ég var að leita að viðtali við sjálfa mig og fann í leiðinni grein eftir mig sem birtist í Mogganum 2005. Það er sárt að horfast í augu við það að kjör leiðsögumanna hafa ekki skánað hætishót. Ætli það verði aldrei nóg að beita rökum og málefnalegum skrifum? Þarf verklegar aðgerðir?
 
Leiðsögumenn í lausagangi
FÖSTUDAGINN 8. júlí birti Morgunblaðið grein eftir mig um kjör leiðsögumanna. Ég var ranglega titluð formaður Félags leiðsögumanna en að öðru leyti var allt rétt sem þar kom fram.

Laust fyrir hádegi sama dag var hringt í mig frá ferðaskrifstofu sem hafði bókað mig í dagsferð sunnudaginn 10. júlí og mér sagt að ekki yrði þörf fyrir mig. Frómt frá sagt hentaði það prýðilega og ég sagði glaðlega: Er ég í fríi á sunnudaginn? Já, sagði stúlkan, og bætti svo við að hugsanlega þyrftu þau mig ekki heldur þann 4. ágúst. „"Við verðum bara að sjá til.“

Gefum okkur að uppsögnin stafi ekki af því að ég hef sagt skoðun mína á kjörum leiðsögumanna. Þá útskýrir þetta dæmi prýðilega atvinnuóöryggi leiðsögumanna. Á vorin eru leiðsögumenn nefnilega beðnir um að skrá sig í ferðir sem þeir vilja fara í, dagsferðir eða lengri ferðir. Í byrjun sumars eru þær meira og minna staðfestar og svo gerist það iðulega að þeim er sagt upp þegar líður nær brottfarardegi. Segi ferðaskrifstofan langferð upp með fimm daga fyrirvara er hún laus allra mála, ef styttra er í brottför þarf hún að borga leiðsögumanninum laun eða útvega honum aðra ferð.

Þegar um dagsferðir er að ræða nægir að segja leiðsögumanni upp hverri ferð með 20 tíma fyrirvara. Þannig getur launasumarið farið í súginn ef bókanir eru minni en áætlað er. Maður gæti ætlað að þessu öryggisleysi og dauðum tíma væri mætt með hærri launum en eins og lesendur fyrri greinarinnar og allir leiðsögumenn vita er sú ekki raunin.

Í viðleitni til þess að hefja umræðuna upp fyrir persónu mína vil ég taka fram að leiðsögumenn með langtum meiri reynslu en ég sitja líka við þetta sama borð. Sumir sátu áður við þetta borð en eru staðnir upp frá því - þegjandi og hljóðlaust hafa þeir horfið úr stéttinni vegna þess að þeir hafa, sumir hverjir, uppgötvað það eftir dygga þjónustu að þeir eiga engan rétt. Við erum öll meira og minna í lausagangi. Leiðsögumaðurinn er eins og bíll í hlutlausum alla háönnina og það ræðst af bókunum og e.t.v. geðþótta ferðarekenda hvort hann er settur í gír og honum ekið eða drepið á vélinni. Og mig undrar ef leiðsögumenn láta bjóða sér það öllu lengur.

Ég get nefnt dæmi um leiðsögumann sem starfaði hjá sama ferðaþjónustufyrirtækinu í tæp 20 sumur, tók svo rútupróf og starfaði í nokkur ár við ökuleiðsögn. Hann var heppinn og veiktist aldrei en svo slasaðist ungur sonur hans og lá í nokkra daga á gjörgæsludeild. Viðbrögð vinnuveitandans voru þau að greiða honum einn og hálfan dag í lok þeirrar ferðar sem hann varð að fara úr en síðan ekki söguna meir.

Öryggisleysið var algjört og hann ákvað að hverfa úr stéttinni, orðalaust.

Ég er svo heppin að vera í öðru starfi, gríðarlega skemmtilegu og gefandi starfi þar sem ég nýt menntunar minnar. Ég hef bara verið við leiðsögn í fríunum mínum og fundist það líka mjög skemmtilegt. Þeir sem hafa unað sér á vertíðum ættu að geta skilið þegar ég segi að tilfinningin hefur stundum verið eins og maður sé að bjarga verðmætum, svo gegndarlaus er ágangurinn í þjónustu leiðsögumanna á álagstímum. Það er dásamlegt að hitta forvitna útlendinga sem verða agndofa yfir náttúru landsins, sögu þess og þrautseigju Íslendinga, svara spurningum og leggja til samhengi hlutanna. Það er líka ögrandi að lenda í vandræðum með útbúnað, t.d. rútuna sjálfa, takast á við þau og hafa betur, gaman þegar manni tekst að sætta gestina við að hótelglugginn snúi út að bílastæðinu en ekki fjallinu. Allir leiðsögumenn hljóta að þekkja vellíðunina sem fylgir því að ná árangri þegar vel tekst að finna lausnir. En oftast reynir ekki á þann þáttinn, oftast nær finnst mér fólk staðráðið í að eiga ánægjulegan tíma í fríinu sínu.

Og það er gaman að taka þátt í því.

Þess vegna er leiðinlegt að hverfa úr starfi sem í eðli sínu er svo skemmtilegt og gefandi. Og það er sorglegt fyrir ferðaþjónustuna þegar hæft fólk dregur sig þegjandi í hlé. Er ekki tímabært að breyta ástandinu?

Höfundur var formaður Félags leiðsögumanna.


Viðsemjandi minn, Samtök atvinnulífsins

Nú er ég spennt. Samtök atvinnulífsins auglýsa, kannski smátúlkað, að allt umfram 2% launahækkun hleypi af stað verðbólgu og taki launahækkunina strax til baka; stöðugleikinn og kaupmáttur - ha? - verði aðeins tryggður með hóflegum launakröfum.

Auðvitað vil ég alls ekki verða persónuleg þannig að ég ætla að taka dæmi af öðrum leiðsögumanni en mér. Sá leiðsögumaður vinnur 173,33 dagvinnutíma í mánuði og fær brúttó fyrir 262.000 - æ, fyrirgefið, 334.000 með orlofi, útlögðum kostnaði vegna fata- og bókakaupa (endurnýjunar er þörf á skóm, úlpum, kannski kortum og áttavitum), orlofsuppbót, desemberuppbót og veikindadögum. Kostnaðarliðirnir eru m.a.s. skattlagðir sem hlýtur að vera einhvers konar sniðganga við skattalög.

Leiðsögumaðurinn í sýnidæminu er heppinn, fær vinnu alla dagana í janúar, veit m.a.s. 5. janúar að hann fer í Borgarfjörðinn 25. janúar, getur spókað sig á sandölum í 20°C, þarf aldrei að gera sér aukaferð (launalausa í greiðaskyni) á ferðaskrifstofuna til að sækja gögn, systkini hans fara í foreldraviðtölin vegna barnanna og ferðirnar byrja alltaf á sama staðnum og á sama tíma.

Þegar búið er að reikna skattinn og launatengd gjöld frá fær hann u.þ.b. 245.000 útborgað. Nú, hva, hann á íbúðina skuldlausa þannig að hann þarf bara að borga mat, rafmagn, hita og kostnað vegna barnanna og á 100.000 krónur afgangs eftir mánuðinn sem hann getur lagt fyrir til að gera eitthvað með börnunum næsta sumar. Það er alveg hellingur sem hægt er að gera fyrir 100.000 krónur því að kaupmátturinn er svo mikill vegna stöðugleikans - eins og við vitum.

Það er verst að í febrúar er hann ekki svona heppinn. Þá verður eldgos sem skelfir hópana sem hann átti að taka á móti og hann vinnur bara 10 daga þótt hann sé búinn að gera allar sömu ráðstafanir nema núna ætlar pabbi hans að hlaupa í skarðið þegar börnunum liggur mikið á. Bömmer, þvottavélin bilar og hann þarf að láta gera við hana. Honum er illt í einni tönninni en hann er svo  heppinn að vera í launalausu fríi og geta farið með 15.000 á greiðslukortinu til tannlæknisins síns. Útborguð laun verða 122.000 og hann þarf að taka af því sem hann lagði til hliðar í janúar.

Ég þekki engan leiðsögumann sem vinnur 8 tíma á dag í 21,7 daga í mánuði, frekar en endilega í öðrum stéttum. Dagsferðirnar eru oft 10 tímar, allt upp í 16 tíma á einum og sama deginum í hvataferðunum. Þetta er hálfgerð tarnavinna sem sumum hentar ugglaust mjög vel en er dálítið óheppileg fyrir fjölskyldufólk. Ókei, þá er kannski bara fínt að fólk sem á engin eða uppkomin börn sinni leiðsögn. Er það rökrétt? Smækkar það ekki tæknilega fullmikið úrvalið og er álíka rökrétt og að aðeins morgunhanar mæti í vinnu fyrir klukkan níu á morgnana?

Ég virðist kannski komin út fyrir efnið en man þó enn hvað ég var að hugsa þegar ég byrjaði að skrifa áðan. Fólkið í framvarðarsveit Samtaka atvinnulífsins er færra en mannmörgu stéttirnar í Starfsgreinasambandinu, hjúkrunarstéttirnar, kennarar og meira að segja í Félagi leiðsögumanna, en það hefur fín laun út af ábyrgð, löngum vinnudögum og fjarvistum frá heimili og fjölskyldu - en býr hvorki við kröpp kjör né óvissu um atvinnuástandið á morgun eða í næsta mánuði. Það þarf ekki einu sinni að kaupa pennana, skrifblokkirnar eða snjallsímana sína sjálft. Er ég að ýkja eitthvað?

Ykkur að segja trúi ég ekki stöku orði úr þessari auglýsingu. Og þar að auki koma laun leiðsögumanna að utan. Vegna okkar kemur meiri gjaldeyrir inn í landið. Átta Samtök atvinnulífsins sig ekki á þessu? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband