Fimmtudagur, 21. nóvember 2013
Meðvirkur leiðsögumaður
Sá leiðsögumaður, eða hvaða láglaunaþegi sem er, sem rukkar ekki unninn tíma af því að hann nennir því ekki er meðvirkur. Af hverju nennir hann því ekki? Af því að atvinnuöryggið er lítið og sumir leiðsögumenn sem hafa sagt: Ég var ekki búin/n í vinnunni fyrr en kl. 23 af því að ég átti að fara með farþegana í siglingu / út að borða / í göngutúr eða þurfti að sinna veikum/slösuðum farþega og fer fram á að fá tímann greiddan hafa kannski fengið tímann greiddan eftir eitthvert nöldur - en svo er ekki hringt meir.
Obbinn af leiðsögumönnum er lausráðinn/verkefnaráðinn og þótt hann standi sig vel er ef til vill gengið framhjá honum ef hann fer fram á að fá greidd laun fyrir raununninn tíma. Í hringferðum erum við ekki á bakvakt alla nóttina þótt sumt starfsfólk ferðaskrifstofa líti svo á að það eigi að geta náð í leiðsögumanninn sinn hvenær sem er.
Ég heyrði alls kyns sögur á félagsfundi Félags leiðsögumanna í kvöld og hallast að því að við séum ansi meðvirk. Ég er sjálf að gefast upp á þessari skemmtilegu vinnu og leyfi mér að gera talsverðar launakröfur ef einhver vill ráða mig í verkefni. Sum ferðaþjónustufyrirtæki hafa metnað fyrir hönd fyrirtækja sinna og ráða skólagengna og vana leiðsögumenn og borga sanngjarnt en sum reyna endalaust að koma sér hjá því. Ég veit um fyrirtæki sem sprakk á limminu eftir að hafa ráðið ómögulega manneskju af því að það vildi ekki borga það sem þurfti og manneskjan sem tók hringferðina að sér kunni ekki almennilega tungumálið og klikkaði á ýmsu smálegu sem varð - 10 fingur upp til guðs - til þess að erlenda ferðaskrifstofan fann sér annan samstarfsaðila á Íslandi.
Vonandi tekst leiðsögumönnum og SAF að ná þannig lendingu í kjaraviðræðunum að ekki flýi fleiri leiðsögumenn.
1.512 krónur í efsta dagvinnuflokki er alltof lágt kaup. Það þýðir 262.075 krónur í mánaðarlaun. Lágmarkslaun hjá Eflingu eru 211.941 krónur á mánuði og þá verður starfsmaðurinn að vera orðinn 18 ára. Leiðsögumenn hafa verið í eitt til eitt og hálft ár í leiðsögunámi, þurfa að kunna skil á ýmsu, tala tungumál og vera minnst 21 árs - og leiðsögumenn sem eru í efsta flokki eru alla jafna bæði eldri og reyndari en svo. Og lausráðnir með sveiflukennd verkefni. Okkur telst að auki til að upp undir 80% leiðsögumanna séu með háskólagráðu í einhverju fagi.
Jamm, við erum meðvirk að sætta okkur við eina einustu klukkustund á 1.512 krónur á tímann, að ég tali ekki um tímana sem við sinnum farþegum án þess að fá greidda eina krónu. Og lausnin er ekki að þessi eða hinn leiðsögumaðurinn hætti, túristarnir halda áfram að koma og hver á að sinna þeim og skemmta ef allir forða sér bara úr stéttinni?
Spurningin sem ég spyr mig er: Hvað er ásættanlegt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 18. nóvember 2013
Löggilding löggjafans
Leiðsögumenn hafa barist fyrir löggildingu áratugum saman. Auðvitað lítum við svo á að kjör okkar myndu batna við að fá starfsheitið löggilt þannig að menntaðir leiðsögumenn hefðu ótvíræðan forgang að störfunum og að starfsöryggið myndi þar með aukast, en við erum líka með hag ferðaþjónustunnar og náttúrunnar í huga.
Samvinna í ferðaþjónustu skiptir máli. Ferðamönnum hefur fjölgað hratt síðustu árin og spár eru um framhald þar á. Ferðamenn koma margir á sumrin en þeim fjölgar hratt á veturna líka. Mér skilst að í fyrrakvöld hafi einir 30 leiðsögumenn verið í norðurljósaferð. Ég hef ekkert sérstakt dálæti á þeim sjálf, maður fer út í myrkri og oft kulda og svo er undir hælinn lagt hvort maður finnur einhver ljós. Ef þau sýna sig verða þeir glaðir sem komu til að sjá þau - en ef ekki þarf að útskýra fyrir mörgum hvers vegna þau héldu sig til hlés og skemmta þeim með einhverju öðru. Ferðirnar geta teygst upp í eina sex tíma og ég hef sossum heyrt um norðurljósaferð með ein hjón sem endaði á Akureyri. Þau lögðu af stað frá Reykjavík. Þetta var langtímadraumur hjóna á brúðkaupsafmælinu og leiðsögumaðurinn vissi hvar ljósin voru líkleg út frá norðurljósaspá og eigin reynslu og hann uppfyllti drauminn. Þau borguðu uppsett verð, það vantaði ekki í því tilfelli, en þetta er ekki alveg í boði þegar maður fer af stað með 60 manns í 70 sæta rútu.
Samvinna í ferðaþjónustu skiptir máli, sagði ég. Það reynir á starfsfólk á ferðaskrifstofunum sem hannar ferðirnar og selur þær, leiðsögumenn, bílstjóra, kokka, þjóna, þernur og miðasölufólk. En svo ég einbeiti mér að leiðsögumönnum þurfum við að kunna það tungumál sem við leiðsegjum á, þurfum að kunna skil á jarðfræði, jurtum, dýralífi, sögu, menningu, fréttum, líðandi stund, tónlistinni, fótboltanum, landinu þaðan sem fólkið kemur, lífeyriskerfinu, þjóðsögum og bröndurum. Við erum spurð um lyf sem eru unnin úr hrauni, verð á fræjum, flekakenninguna, Sigur rós, Of Monsters and Men, Evrópusambandið, hersetu - ha, enginn her? - almenningssamgöngur, verð í samanburði við hitt og þetta, uppskriftir, mosann, hraunið, hita sjávar, flóð og fjöru, elsta tréð, hæsta fjallstind, aðgengi að netinu, læsi - Hvað gerir fólk í þessum afskekktu sveitum eiginlega? - Hvernig getið þið átt svona marga stórmeistara í skák? - Af hverju flutti Bobby Fischer hingað og af hverju tókuð þið við honum? - Hvar á ég að borða í kvöld? - Hvernig er heilbrigðiskerfið/skattkerfið/skólakerfið? - Hvar er eiginlega kreppan? - Á ég að gefa þjórfé? - Hvar er verslun sem selur Nikita-vörur?
Ef einhver veikist þurfum við að veita lágmarkshjúkrun, skilning og samúð. Í kvöldmatnum á hótelunum í hringferðunum útskýrum við hvað er í matnum. Í morgunmatnum svörum við spurningum um hvað er framundan þótt við höfum tíundað það á leiðinni í náttstað deginum áður. Fólk er í sumarfríi og tekur ekki eftir öllu. Það er ekki í prófi og dettur út á mismunandi stöðum. - Á ég að hafa sunddótið uppi við í dag? Gönguskóna? Hvernig verður veðrið? - Sum þjóðerni skilja ekkert nema sitt eigið tungumál, t.d. Ítalir og Spánverjar, og þá vill það fólk hafa leiðsögumanninn með í hestaferðinni, siglingunni, jöklaferðinni á kvöldin - eftir kvöldmatinn ef því er að skipta.
Vondir dagar eru ekki í boði. Við verðum alltaf að vera í góðu skapi, taka öllum spurningum fagnandi og ekki svara í (of) löngu eða fræðilegu máli nema endrum og eins. Það er ekki gott að verða andvaka því að þá erum við illa upplögð daginn eftir, við megum ekki sofa yfir okkur því að þá er allt í voða. Við förum ekki til læknis í vinnutímanum - nei, þá tökum við frídag í það - við útréttum ekki í matartímanum því að þá erum við kannski að skoða eggin á Djúpavogi eða bryggjuna á Höfn í Hornafirði, að tygja okkur í göngu upp að Svartafossi eða erum í sjoppunni í Vík með farþega sem langar í heita súpu í hádeginu en kemst ekki að í annarri röð en þeirri sem selur íspinnana.
Ókei, ég skal láta gott heita.
Ef þú ert ekki leiðsögumaður er eðlilegt að þú hugsir: Af hverju hættirðu ekki í þessu starfi? Af hverju fórstu í leiðsögunám? Og jafnvel: Geturðu þetta yfirleitt allt saman, veistu það sem þú telur upp?
Auðvitað eru leiðsögumenn mistækir og sumir verða aldrei góðir þótt þeir fari í skólann. En á góðum dögum er þetta svo skemmtilegt af því að veðrið er gott, ferðamennirnir glaðværir og áhugasamir og maður sjálfur sérlega í essinu sínu. Maður fær að miðla því sem manni finnst skemmtilegt, heldur við tungumálinu, fer úr bænum, gengur í fallegu náttúrunni með áhugasömu, fróðleiksfúsu, vel gefnu fólki og kynnist heimi annarra.
En fyrir 1.512 krónur á tímann í hæsta flokki í dagvinnu eru samt takmörk fyrir því hvað maður nýtur skemmtilegu daganna. Þess vegna er hröð velta í stéttinni, þess vegna stoppar margt fólk í eina viku eða eitt sumar, þess vegna tapast reynsla úr stéttinni, þess vegna eru svo margur nýútskrifaður leiðsögumaður á ferðinni á hverju sumri þangað til veruleikinn glottir við honum - hann lifir ekki af þessum launum á ársgrundvelli.
Við erum næstum öll lausráðin, réttara sagt verkefnaráðin, og án þeirra réttinda sem fastráðnir starfsmenn hafa. Og það kostar okkur mörg hundruð þúsund að læra til þessa starfs, 760.000 hjá Endurmenntun Háskóla Íslands en eitthvað minna hjá Leiðsöguskóla Íslands sem er hýstur í MK. Starfsöryggið er ekkert, (næstum) enginn er fastráðinn, veikindaréttur enginn.
En hey, félagið semur bara um lágmarkslaun og öllum leiðsögumönnum er guðvelkomið að semja um hærra kaup - ef ferðaskrifstofan vill borga meira.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 14. nóvember 2013
Tímakaup lausráðins leiðsögumanns
Ferðaþjónustan er að verða heilsársatvinnugrein. Ferðaþjónustan er orðin stoð undir efnahagnum, skaffar gjaldeyri og er mikilvægt fag sem reynir á vetur, sumar, vor og haust. Sumarið er vissulega enn þyngst en nokkur fyrirtæki eru með dagsferðir árið um kring og ég þekki marga leiðsögumenn sem eru í lengri og styttri ferðum yfir vetrartímann, aðallega ökuleiðsögumenn. Nýliðinn október var til muna annasamari en október 2012. Sjálfsagt hafa fleiri og fleiri ráð á frekari ferðalögum, eru með óreglulegan vinnutíma, langar að sjá norðurljósin og svo held ég að tónlistarhátíðir eins og Iceland Airwaves skipti verulegu máli í því að laða fólk hingað á jaðartímum.
Ég er komin í kjaranefnd Félags leiðsögumanna og við erum að semja kröfugerð. Félagsmenn vilja hærri laun, (meira) starfsöryggi, undirbúningstíma greiddan, raunvinnutíma greiddan, lengri uppsagnarfrest ef ekki verður af ferð og orlofslaun greidd inn á sérstakan reikning. Leiðsögumenn komast ekki til læknis á vinnutíma, ekki með börn til læknis, ekki tannlæknis, geta ekki ráðstafað matartímanum að vild og geta ekki fylgt fólki til grafar. Ef við viljum gera þetta sem ég taldi upp verðum við að gera það á launalausum frídegi. Meira að segja veikindadaga þarf að sækja sérstaklega til félagsins en ekki vinnuveitandans af því að obbinn af leiðsögumönnum er lausráðinn. Sem betur fer er sístækkandi hópur í vinnu við leiðsögn allt árið - en samt lausráðinn.
Og taktu nú vel eftir: Tímakaupið fyrir leiðsögumann í efsta flokki er kr. 1.512.
Tímakaup fyrir lausráðinn leiðsögumann í efsta flokki með undirbúningstíma, bókagjaldi, fatagjaldi, orlofi, orlofsuppbót og desemberuppbót er kr. 1.930.
Ef við reiknum mánaðarlaun lausráðins leiðsögumanns, 173,3 tíma, eru dagvinnulaunin kr. 334.469 og þá, eins og fram er komið, förum við til læknis og allt það í okkar eigin tíma og fáum ekki greiddan orlofstíma. Ef við reiknum með að leiðsögumaður taki 24 daga sumarfrí eru mánaðarlaunin 303.653 krónur fyrir skatt (237.888 ef ég reikna kostnaðarliðina frá). Og það er algjörlega undir hælinn lagt hvort lausráðinn leiðsögumaður fær vinnu alla þá daga sem hann vill vera í vinnu. Svo þarf hann að hafna vinnu þegar hún býðst af því að hann er búinn að ráðstafa deginum. Á annatíma yfir sumarið fá margir leiðsögumenn mörg símtöl sem hafa ekki í för með sér vinnu af því að við getum ekki verið í tveimur ferðum á sama tíma.
Starfsfólk á ferðaskrifstofum er líka hætt að vera hissa þegar því tekst ekki að manna ferðir. Ferðaskrifstofur eyða fúlgum fjár í að leita uppi leiðsögumenn á öllum tímum, mest þó sjálfsagt á álagstímum yfir sumarið. Það kostar bæði mannskap og símtöl sem þarf að borga fyrir beinharða peninga.
Er ekki tímabært að snúa olíuskipinu? Ég sé ekki alveg tilganginn í verkfalli, ég vil að menn ræði sig að niðurstöðu með rökum og í sátt. Allir sem þekkja til vita að launin eru of lág og starfsöryggið alltof lítið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 11. nóvember 2013
Hagræðingartillögur hagræðingarhópsins
Ég opnaði spennt skjalið með tillögunum 111 og skautaði yfir það. Ég viðurkenni að ég bjóst við tölulegum tillögum mældum í milljörðum en svo er ekki. Gott og vel. Ég er mjög skotin í tillögu 16:
16. Greiðslur til stjórnmálaflokka verði endurskoðaðar samhliða endurskoðun á lögum um fjármál stjórnmálaflokka. |
Eru stjórnmálaflokkar ekki frjáls félagasamtök sem ættu að fjármagna sig eins og önnur slík? Jæja, ég er alltént spennt að sjá hvað verður um þessa tillögu. Hins vegar sakna ég þess sárt að sjá ekki tillögu um sameiningu sveitarfélaga, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Myndi það ekki auka skilvirkni og spara pening að hafa einn Reykjavíkurhrepp frekar en sjö: Seltjarnarnes, Reykjavík, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og Mosfellsbæ? Er Kjalarnes sá sjöundi eða misminnir mig með fjöldann? Álftaneshreppur er náttúrlega kominn í eina sæng með Garðabæjarhreppi.
Kirkjan nýtur ekki náðar niðurskurðarins og mér er fyrirmunað að skilja það. Eða ætlar einhver að segja mér að hún bjargi geðheilbrigði fjölda fólks?
Sjálfsagt gæti ég komið með fleiri gagnlegar tillögur ef ég læsi allar síðurnar 14.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 9. nóvember 2013
Rómeó og Júlía eftir Lars von Trier
Undarlegt er það að Brimbrot hafi verið til í 17 ár og ég hafi fyrst núna séð hana. Emily Watson leikur meistaralega með svipbrigðunum í andlitinu og annarri hollningu og aðrir leikarar eru alveg á hælum hennar. Mögnuð saga, sem margir eru auðvitað löngu búnir að uppgötva, um ást, trú, undirgefni og dómhörku. Líkindin við Rómeó og Júlíu ná ekki allt til enda en mikið svakalega spannar sagan breitt bil.
Og ég er ekki að segja að Bess hafi breytt rétt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 4. nóvember 2013
Helgi Hrafn og Bubbi; Björk og Brynjar
Guðisélof fyrir netið, ég hefði ógjarnan viljað missa af Sunnudagsmorgni gærdagsins. Ég er forfallinn áhugamaður um spjallþætti ef í þeim er pólitískt ívaf (þarf ekki að vera flokkspólitískt) og þátturinn í gær var uppfullur af skoðunum. Gerður Kristný, Hugleikur og Ragna voru öll ágæt til að byrja með þótt ég hefði langmest gaman af Hugleiki. Ég veit ekkert hvort hann var einlægur en hann virtist vera það þegar hann spurði af hverju pólitík - sem væri það mikilvægasta í heiminum - væri svona leiðinleg og þegar hann sagðist síðan hafa þurft að gúggla KSÍ. Ég hló mér til óbóta.
Ég er enn ekki komin til neins botns í sambandi við stóra niðurhalsstuldsmálið, veit þó að mér finnst eðlilegt að tónlistarmenn, málarar og aðrir skapandi menn fái laun fyrir að gleðja mig en samt vil ég ekki gerræðið og stóra bróður á öxlina. Annar í þeim kafla heillaði mig upp úr skónum fyrir málefnalega nálgun, kurteisi og rökvísi.
Hispurs- og teprulaust tal um vændi hélt mér líka fanginni. Bæði Brynjar og Björk höfðu skoðanir - og ég gef mikið fyrir það almennt séð - en hvaða skoðanir hafa þau sem stunda vændi? Og hvort þessara tveggja ætli þekki betur til? En það þarf ekki að eiga í hörðum skoðanaskiptum með hundshaus og í fýlu og þeim tókst báðum að slá á létta strengi. Ég veit alveg hvort mér fannst marktækara en held auðvitað áfram að fylgjast með og skipti um skoðun ef ástæða er til.
Grímur, Sóley og Unnsteinn tóku svo Airwaves í lokin sem von er í lokin á Airwaves-helgi. Mikil snilld er sú hátíð þótt ég hafi látið hana fara framhjá mér í heilu lagi. Ég nýt góðs af því að aðrir gleðjist þar.
Eini alvörugallinn á þessum þætti var að GM talaði of hátt. Einhver hlýtur samt að segja honum fljótlega til hvers míkrófónninn er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. nóvember 2013
Árásir í Kringlunni algengar? Neei, fjandinn fjarri mér.
Ég hlýt að hafa tekið skakkt eftir í fréttatímanum. Það var talað við tvær manneskjur í Kringlunni út af einhverri árás einhvers þar. Sá sem kom til hjálpar sagði, eða mér heyrðist það, að það væri í eðli Íslendinga að grípa inn í ef einhver þyrfti hjálp en svo bætti hann við að fleiri Íslendingar mættu taka sér þessa breytni til fyrirmyndar.
Svo var kona sem vinnur í Kringlunni spurð út í málið og hún sagði, eða mér heyrðist það, að þetta væri alltaf að gerast en sér væri verulega brugðið (eins og þetta væri mikil nýlunda).
Það veit sá sem allt veit að ég veit ekki um allar þær þversagnir sem yltu upp úr mér í beinni útsendingu eftir geðshræringu - en ég spyr samt, hafi ég tekið rétt eftir: Hvað er hið rétta? Eru árásir daglegt brauð í Kringlunni og hlaupa þá Íslendingar til eða var þetta undantekning og - hvað?
Kannski var ég bara svona utan við mig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 31. október 2013
,,Við hjónin" eða ,,Ég og maðurinn minn"
Ég hnaut um síðu Eiðs Guðnasonar í vikunni og las þar þetta:
Margrét skrifaði (26.10.2013):,,Það fer alveg afskaplega í mig að bókmenntaverk fái að hafa svona málfræðilega rangan titil, Við Jóhanna. Ég skil bara ekki hvernig þetta komst í gegn um prófarkalestur og bókaforlagið svona.
Eiður á sennilega nokkra dygga lesendur því að nú þegar hafa nokkrar athugasemdir verið gerðar við pistilinn en ég ætla að býsnast hér. Ég leiðrétti (og hef það ekki í gæsalöppum) þýðingu fyrir nokkrum árum þar sem þráfaldlega stóð ég og Harry eða Sally og ég og breytti í við Harry og við Sally. Ég er á því að ég hafi lagað textann verulega. Ég held að orðalagið við hjónin sé ekki í boði í öðrum tungumálum og þess vegna er mjög óíslenskt að tilgreina alltaf báða aðila þegar við Jóhanna er í boði. Og ef Eiður vill láta taka mark á sér er galið að hann birti eitthvað sem hann skilur ekkert í og reynir ekki að skilja. Og er óskiljanleg gagnrýni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 28. október 2013
Rukkað inn við Geysi - glætan!
Ég er leiðsögumaður á sumrin þannig að nú ætti mér að bregða. En ég er svo forhert að ég held að landeigendur við Geysi - sem eiga landið en ekki náttúrufyrirbærin - séu að skapa sér vígstöðu eina saman með þessu. Að ráða 8 manns í hliðvörslu og til leiðsagnar - neibb, ég trúi þessu ekki. Hins vegar vona ég að eitthvað gott komi út úr þessu, náttúrupassi eða eitthvað álíka komist á koppinn og það verði Í ALVÖRU farið í að laga stígana og afmarka hvar má ganga í grennd við Geysi og Strokk.
Ég sit því hér og hristi hausinn og hugsa: Jibbí, nú gerist eitthvað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. október 2013
Gísli, er ekki helgi? - Gísli er ekki Helgi, eða hvað?
Ég var að horfa á Sunnudagsmorgun af því að ég var að heiman í morgun. Það var alveg eitthvað í lagi en upp úr stendur í mínum huga að þetta er alröng tímasetning fyrir þátt af þessu tagi. Mér finnst reyndar sunnudagshádegi almennt séð ekki eðlilegur tími til að horfa á sjónvarp en svona margir léttir strengir, og tilgerðarlegir, kalla fram kjánahrollinn minn.
Og var ég þó fyrirfram dálítið jákvæð út í hjólagarpinn.
Þegar efninu sleppir má halda áfram að gagnrýna öll hrópin. Veit Gísli ekki að míkrófónninn hans magnar upp hljóðið?
En ég er svo mikill sökker að ég horfi aftur næst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 23. október 2013
Umræða karlanna
Allt í einu tók ég eftir því að umræðan á Facebook um ferðaþjónustuna er borin uppi af körlum. Þetta þýðir ekki að konur hafi ekki skoðanir og alls ekki að umræðan fari hvergi annars staðar fram, bara að í þessum tiltekna hópi, Baklandi ferðaþjónustunnar, tala aðallega karlar. Ég er áhugamaður um ferðaþjónustuna en tjái mig ekki þar öðruvísi en með einstaka lækum. Af hverju ætli það sé?
Meðlimir í Baklandi ferðaþjónustunnar eru núna 1.566 og ég er mjög meðvituð um það þannig að þegar ég skrifa aukatekið orð velti ég fyrir mér hvernig það lítur út sem ég segi. Ef ég reyni að vera fyndin eða kaldhæðin getur það misskilist. Það þvælist fyrir mér. Ég get verið stimluð. Og svo geta hellst inn athugasemdir við þráðinn sem tengjast ekki mínu innleggi. Þetta heftir mig allt saman.
En hitt fólkið sem tekur ekki til máls? Hitt kvenfólkið og auðvitað allir karlarnir sem segja heldur ekki neitt? Kannski það að menn eiga það til að vera orðljótir, hvassyrtir, árásargjarnir og persónulegir? Ég veit það ekki alveg. Kannski eru karlar of opinmynntir og konur of lokaðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. október 2013
Að hrauna eða ekki
Enn á ný er umræðan hjá okkur full af tilfinningum, nú um vegarlagningu í hrauni í Garðabæ. Einhvern veginn veit ég ekki alveg hvort hraunið heitir Gálgahraun eða Garðahraun. Ég hef ekki tekist það á hendur að fara og skoða, meta og gera upp hug minn. En hefur einhver spurt til hvers vegurinn er? Ég er nefnilega ekki sannfærð um að hann sé til bóta. Það heyrði ég meðal annars Friðjón Friðjónsson segja í útvarpinu fyrir einhverjum dögum. Hann er íbúi á þessum slóðum og aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar þannig að ekki eru þetta kýrskýrar pólitískar línur.
Og mér er fyrirmunað - stútfull af tilfinningum - að skilja hvernig hægt er að senda fjöldann allan af lögreglumönnum til að bera burtu fólk sem vill bíða niðurstöðu Hæstaréttar á sama tíma og mörg önnur brýn verkefni bíða lögreglunnar. Fréttamyndirnar komu út á mér tárunum.
Örvar Már Kristinsson, leiðsögumaður og íbúi Hafnarfjarðar, átti leið þarna um í dag og skrifaði þetta á Facebook áðan:
Á sama tíma og maður sér varla lögreglumenn að störfum við eftirlit með umferð við grunnskóla bæjarins, við vegaeftirlit á þjóðvegum og hverfisstöðvum er lokað vegna niðurskurðar og manneklu þá eiga þeir mannskap í svona gæluverkefni. Ég taldi minnst 20 lögreglumenn, 6 bíla og fjögur mótórhjól um hádegisbilið við Gálgahraun.
Með fylgja myndir. Ég hef samúð með lögreglumönnunum sem þurfa að hlíta fyrirmælum yfirmanna lögreglunnar. HVER ákveður svona nokkuð? Það er eitthvert nafn, einhver maður, einhver einstaklingur, einhver yfirmaður sem tekur af skarið. Hver? Og það þegar mannekla þjakar lögregluna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. október 2013
#yolo
Sá Unglinginn í Gaflaraleikhúsinu í kvöld. Ég var búin að heyra viðtal við þessa greindarlegu tvo stráka þannig að ég gekk að því sem vísu að það væri eitthvað spunnið í sýninguna. Og vó, ég hló og hló í 100 mínútur af 105. Mér skilst að þeir séu í 9. bekk og mér er alveg sama hvort þeir strangt til tekið skrifuðu allt sem þeim er eignað, þeir nálguðust unglingsárin af mikilli fimi og skemmtu mér á fullu blasti. Foreldrar þeirra, vinir og skólafélagar voru klárlega á frumsýningunni (í kvöld) og þess konar fólk er yfirleitt erfiðasti áhorfendahópurinn.
Þessar fimm mínútur sem misstu marks voru þegar þeir predikuðu um einelti. Að öðru leyti ætti þessi sýning (með þessum eða sambærilega flinkum leikurum) að rata til sem flestra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. október 2013
Fugl á víðavangi
Fjölbreytilegasta dýralíf á Íslandi hlýtur að vera fuglalífið. Getur verið að ég hafi tekið rétt eftir á fræðslufundi í kvöld að tæplega 80 tegundir verpi á Íslandi? Ég á fuglavísinn þannig að sjálfsagt gæti ég talið.
Fulltrúar frá Fuglavernd hittu okkur í gönguklúbbnum Veseni og vergangi og sögðu okkur sitt lítið af hverju um þá fugla sem við gætum hnotið um á gönguferðum. Guðsblessunarlega vissi ég sumt en ég var búin að gleyma að himbrimi synti um með ungana á bakinu en lómurinn ekki. Við megum ekkert vita um snæuglu, t.d. hvar hún heldur sig, af því að hún er í útrýmingarhættu. Við viljum ekki annað geirfuglsslys. Branduglunni hefur fjölgað í réttu hlutfalli við meiri lúpínu. Hún var áður flokkuð sem ránfugl en ekki lengur. Haftyrðillinn er hverfandi en er þó finnanlegur í grennd við Sauðárkrók.
Félagið Fuglavernd var stofnað til að vernda haförninn og nú er stofninn kominn upp í um 70 pör.
Þetta og langtum langtum langtum meira ætti maður að hafa á hraðbergi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 16. október 2013
Einn silfurpeningur
Ef ég fengi verðlaun og verðlaunapening fyrir að sitja á varamannabekk og leggja ekkert á mig hefði hann kannski ekkert tilfinningagildi. Ef eitthvað er í peninginn spunnið og ég hef unnið til hans trúi ég að ég vildi eiga hann til minningar um viðburðinn og árangurinn.
Ef aðrir eru sama sinnis getur maður ályktað að margumræddur silfurpeningur hafi hafnað hjá manni sem lagði sig ekki fram. En þá spyr ég mig: Hvert er raunvirði gripsins? Er efnið í honum og vinnan við hann 2 milljóna króna virði?
Og hvern annan getur langað til að eiga svona grip? Mér finnst tilhugsunin um að eiga óverðskuldaðan verðlaunagrip uppi á vegg eða inni í skáp svo galin að ég get ekki sett mig í spor hugsanlegs kaupanda. En kannski verður niðurstaðan af öllu þessu jaríjarí fyrst og fremst sú að næstu silfurpeningar verða úr álpappír.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. október 2013
Eru læknar verkalýður?
Ég þekki ekkert til læknastéttarinnar, rétt svo að ég þekki persónulega tvo lækna og það lauslega. Ég veit ekkert um laun þeirra eða aðbúnað. Og hvað vil ég þá með einhverja skoðun upp á dekk?
Ekkert.
Hins vegar heyrði ég í dag að verkalýðshreyfingin beitti sér orðið fyrst og fremst fyrir læknana. Og ég fór að velta fyrir mér hvort læknar væru meiri hagsmunahópur en aðrar stéttir. Kemur til greina að klásusinn í læknadeild snúist um laun, að hafa stéttina nógu fámenna til að hægt sé að halda uppi launakröfum? Það er hægt að sjá við því með því að fara til útlanda, en þeir sem eyða fyrstu 10-15 árum fullorðinsævinnar í útlöndum festa þar kannski rætur óvart, ég tala nú ekki um ef þeir eignast þarlenda maka og ílengjast með nýju fjölskyldunni.
Hvað myndi gerast ef við menntuðum fleiri lækna í Háskóla Íslands? Og hver ERU laun lækna? Ég skil að ábyrgð skurðlækna er mikil en er ábyrgð heimilislækna meiri en ábyrgð hjúkrunarfræðinga eða geislafræðinga? Ég veit þetta ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 13. október 2013
Hross koma á óvart
Af einhvers konar skyldurækni fór ég að sjá Hross í oss í Háskólabíói. Hestar, fátt sagt, engin saga eða lítil, já, eiginlega hélt ég jafnvel að þetta yrði langdregið hrossablæti.
Nei, mér var komið þægilega á óvart. Að sönnu er söguþráðurinn slitróttur og skilur nóg eftir fyrir ímyndunaraflið. Það hentar ekki öllum bíóförum eins og ég komst að raun um þegar ég leitaði að dómum um myndina eftir á. En hún spilaði á minn tilfinningaskala og nóg var hlegið í bíóhúsinu til að sannfæra mig um að fólki var meðfram alveg skemmt.
Ingvar E. Sigurðsson leikur mann sem er ástfanginn af merinni sinni. Þótt hann láti ekki líffræðilega reyna á er hann samt líffræðilega miður sín þegar merin reynist kunna að meta graðhest. Hvort er þá dýrið mennskra eða maðurinn dýrslegri?
Drykkjuskapur, þrálát forvitni um alla hina og nágrannakrytur setja sterkan svip á myndina. Helgi Björns, Kjartan Ragnars og Ingvar sýna allir á sér nýja leikhlið og Steinn Ármann brillerar fyrir allan peninginn í sjósundinu sínu. Rússarnir tala rússnesku, Spánverjinn (eða Brasilíubúinn eða eitthvað) og Svíinn tala öll sitt tungumál og það er ekki þýtt enda auðheyrt að merkingin er ekki í textanum heldur látbragðinu og myndmálinu.
Það eina sem ég finn að (fyrir utan eina of súrrealíska senu í seinni hlutanum) er nafnið. Á ensku heitir hún Of Horses and Men og mér finnst það eins mikið of einfalt og mér finnst Hross í oss ljótt, bara hljóðrænt ljótt. Ég held að ég skilji að meiningin sé að tiltölulega stutt sé á milli hrossa og fólks en kannski er ég ekki sérlega trúuð á það. En aðallega er titillinn ljótur að mínu mati. Og þá er hann ljótur ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 10. október 2013
Skiptir sæstrengur máli?
Maður þyrfti auðvitað að lesa skýrsluna um sæstrenginn. Hún er 55 blaðsíður. Menn hafa fundað og rætt, skrifað fundargerðir og komist að niðurstöðu. En mín tilfinningalega niðurstaða er sú að það er löng leið til þeirra landa sem gætu viljað kaupa af okkur orkuna. Á þeirri leið gæti margt farið úrskeiðis. Ef afhending klikkar verður einhver viðtakandi óhress enda fær hann ekki orkuna eins og hann býst við. Af því ber einhver skaðann og bjargföst meining mín er að það yrðum við.
Mikið vildi ég að einhver gæti afsannað þessa kenningu mína og það með að öll orkan sem við værum aflögufær um gæti í mesta lagi lýst upp tvær breskar borgir.
Það er nær að byggja upp atvinnu á Íslandi og selja fyrirtækjum hér orkuna sem við getum með góðu móti framleitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 4. október 2013
36.500 á mánuði - fullt fæði innifalið?
Ég held að meint legugjald í fjárlagafrumvarpinu upp á 1.200 kr. á sólarhring sé smjörklípa, hugsað til að afvegaleiða umræðuna. Og ég geng með opin augun í gildruna.
Þessi upphæð er svo langt frá því að borga fyrir veitta þjónustu - enda greiðum við hana með sköttunum meðan við erum frísk og þurfum ekki á spítalavist að halda.
Það kostar að innheimta þessa lágu upphæð - á þetta að heita atvinnuskapandi?
Sumt fólk munar samt um þessa upphæð, kannski einmitt það fólk sem á helst erindi á spítala. Kannski, ég veit það ekki.
Ég held að öll stjórnvöld geri þetta, tefli fram einhverri fáránlegri hugmynd sem veldur usla til þess eins að geta dregið hana til baka og klappað sér á bakið. Nema nú blaðrar internetið öllu þannig að ég held að stjórnvöld komist bráðum ekki lengur upp með þetta.
Næsta mál, takk. Ef ég ætti að forgangsraða myndi ég leggja allt kapp á að greiða niður vaxtaberandi skuldir. Til þess þarf að afla tekna. Hvar eru matarholurnar? Hvar má spara? Mér er ferðaþjónustan hugleikin og ég held að þar séu veruleg sóknarfæri. Einn liður í því væri að stýra fólki út á land og einn liður í því væri að hafa innanlandsflugið á sama stað og millilandaflugið. Annar liður væri að bæta samgöngur. Það kostar auðvitað. Enn einn liður væri að efla afþreyingarstigið og bæta í í menningarmálum frekar en að draga úr. Iceland Airwaves sogar fólk til landsins. Sagan gæti stutt við náttúruna. Vonda veðrið er ekki sem verst. Norðurljósin eru komin á kortið. Maturinn er kominn á kortið. Helmingur ferðamanna kemur í júní, júlí og ágúst en helmingur kemur hina níu mánuðina. Á þeim tíma er ótrúlega víða lokað. Öö, já, LOKAÐ. Þá er ekki hægt að kaupa kaffi, kjúkling eða krumpudýr nema mjög óvíða. Já, það er erfitt að hafa marga staði opna lengi á rólegum tíma en það er verkefni að finna út úr því. Er það kannski ekki hægt? Mætti nota staðarnet til að upplýsa? Gestastofur? Einkaframtakið? Hvað með sútarann á Sauðárkróki? Er þar ekki leðurvinnsla og búð og tekið á móti fólki sem kemur? Starfsfólkið hefur samt eitthvað arðbært fyrir stafni þann tíma sem færri gestir eru á ferli. Mínir túristar vilja sjá spriklandi fisk á bryggjunni og kýrnar mjólkaðar. Er ekki hægt að flétta heimsóknir sem greitt er fyrir inn í atvinnuvegina?
Ég held að lausnirnar séu úti um allt ef við viljum sjá þær. Og vissulega væri þarft skref að lögleiða starfsheiti leiðsögumanna til að stugga við sjóræningjunum sem er skítsama um mosann og stofuglugga forsetans og vita ekkert annað en það sem þeir muna úr fyrstu hringferðinni sinni með leiðsögumanni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. október 2013
Hjólastígar á Suðurlandi
Mesti hugmyndasmiður sem ég heyri í á opinberum vettvangi er Andri Snær Magnason. Í gær var ég svo heppin að fá 20 mínútna skammt af hugmyndaauðgi hans á ferðamálaþingi. Hann varpaði fram spurningum og hugmyndum um fiska og náttúrufræði, af hverju við værum ekki vitlaus í fiska, t.d. börn sem hefðu aðgengi að öllum þeim fjölbreytilegu fisktegundum sem synda í hafinu í kringum Ísland. Flugleiðavélarnar eru skreyttar með fossum (er það ekki annars?) - en hvað ef þær væru skreyttar með furðufiskum? Ótrúlega margir Íslendingar - sem teljast fiskveiðiþjóð - hafa aldrei séð fisk nema flakaðan í borði fisksalans, jafnvel bara á diskinum í bleikri sósu. Á sjómannadaginn er alls kyns fiskur sýndur í fiskikörum á bryggjunni og það mælist alltaf vel fyrir. Af hverju er þetta ekki algengara hjá fiskveiðiþjóð?
Þetta var athyglisverð hugmynd.
Svo lagði hann út af Sigurði Fáfnisbana sem drap Fáfni, steikti úr honum hjartað, át og skildi þá tal fugla. Fornsögurnar eru hér ekki notaðar sem aðdráttarafl á útlendinga, arfinum er gert lágt undir höfði, margir ráðamenn tala þessa fornu menningu niður og gera á allan hátt lítið úr þessari sérstöðu okkar. Spildan sem Hús íslenskra fræða átti að rísa á er núna hálfgert ginnungagap og handritin á vergangi. Mig minnir að Andri hafi sagt að í Dublin væri stytta/líkneski/hurð (hann sýndi mynd) af Sigurði að steikja hjartað og það væri eitt helsta aðdráttaraflið í þeirri borg. En hér? Veit einhver hvar Sigurður Fáfnisbani heldur til?
En það sem höfðaði samt mest til mín var hugmyndin um láglendishjólastíg eftir Suðurlandinu. Andri sagði að Ísland væri flatara en Holland. Já, þar sem byggðin er. Væri ekki dásamlegt að geta hjólað eftir Suðurlandinu endilöngu, jafnvel með alla fjölskylduna, Íslendingar jafnt og útlendingar, 20, 30 eða 50 kílómetra eftir atvikum, stoppað í Hveragerði, við Þingborg, á Hellu, við Seljalandsfoss, séð Vestmannaeyjar nálgast og fjarlægjast, talað um jöklana sem voru hrikalegt farg á landinu og hopuðu svo - koma þeir aftur? - rifjað upp Önnu frá Stóruborg, fengið sér ís, litið inn í kaffi, spókað sig á jökulsporði, gist í hlöðu, fengið sér pítsu á Systrakaffi, gengið upp að Systravatni, rakið ættir sínar til síra Jóns Steingrímssonar eldklerks, gengið á Kirkjugólfi, mátað sig við Dverghamra, gáð upp í Fjaðrárgljúfur, horft lengi á Skaftárhraun, virt fyrir sér nýju brúna yfir Múlakvísl, sagt þjóðsögur, sopið hveljur yfir Jökulsárlóni, leitað að sel - já, eða rostungi - fundið humarilm á Höfn --- á hægferð?
Á hægferð.
Hægferð er lykilorðið.
Enginn bannar fólki að keyra en okkur er eiginlega bannað að hjóla um landið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)