Þriðjudagur, 30. júlí 2013
Ég þekki geislafræðing ...
... og veit að hún er ekki of sæl af laununum sínum. Ef maður er ekki þátttakandi veit maður aldrei alla söguna en ég man þó vel að þegar hér ríkti góðæri var ekki hægt að hækka laun í heilbrigðisgeiranum, t.d. laun ljósmæðra eða hjúkrunarfræðinga, og ekki heldur þegar kreppti að. Nú eru 40 geislafræðingar búnir að segja upp og það hlýtur að stefna í óefni á fimmtudaginn þegar uppsagnirnar taka gildi.
Svo var önnur frétt í dag um að einn vakthafandi lögreglumaður sinnti 100 kílómetra svæði (finn ekki fréttina og man ekki hvar þetta var) sem þýðir að ef tvö slys verða á sama eða svo gott sem á sama tíma þarf lögreglumaðurinn að velja á hvorn vettvanginn hann fer.
Þetta getur ekki talist í lagi. Þetta er grunngerðin, þetta eru aðalatriði. Og það er ekki í verkahring þeirra sem heyja heilbrigða kjarabaráttu að útvega peningana.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. júlí 2013
Hversu stór er Vinnslustöðin?
Ef rétt er farið með í DV í dag, að Vinnslustöðin geti greitt 1.100 milljónir króna í arð, þætti mér forvitnilegt að vita hversu stórt fyrirtækið er í samanburði við önnur útgerðarfyrirtæki. Ávöxtun fjárfestanna er 13% sem virkar óraunsætt á mig. Er þetta raunveruleg áhætta? Áhættusamt fyrirtæki? Geta eigendur/fjárfestar tapað á þessu? Hafa þeir eitthvert árið verið í mínus?
Hver hefði arðgreiðslan orðið ef veiðigjöldin hefðu ekki verið lækkuð aftur?
Guðmundur Gunnarsson stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar segir fyrirtækið standa styrkum fótum ...
Ha? Mig hlýtur þá að misminna að Vinnslustöðin hafi nýlega hringt á vælubílinn.
Stjórnarformaðurinn segir það ekki hafa haft áhrif á arðgreiðsluna að stærstu eigendurnir séu skuldsett félög. Í félaginu eru náttúrulega tvö hundruð hluthafar, langflestir litlir, og þeir eru bara að sjá ávöxtun sinna peninga, sem þeir eiga í félaginu, segir Guðmundur Gunnarsson.
Er þá ekki öruggari fjárfesting að geyma peningana sína í útgerðarfyrirtæki en banka?
Í Viðskiptablaðinu í fyrra sagði Binni að veiðigjöldin næmu óbreytt 800-1.500 milljónum króna [á ári, geri ég ráð fyrir] og um leið rak stjórnin heila skipsáhöfn og fleiri til. Eru skipverjar af Gandí búnir að fá vinnuna aftur? Eða var togarinn seldur eins og til stóð vegna hárra veiðigjalda sem voru svo lækkuð?
Væri ekki rétt að leyfa okkur að heyra alla söguna? Hver hagnast, hver hefði hagnast, hefði einhver getað tapað, hefur atvinnuleysið í Vestmannaeyjum aukist?
Ekki veit ég hver staðan er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 27. júlí 2013
Framtíðarskáldsögur í þýðingu löngu síðar
Þegar ég opna nýja skáldsögu, þ.e. skáldsögu sem ég hef ekki lesið, byrja ég á að skoða hvað hún heitir á frummálinu ef hún er þýdd og hvenær hún kom út. Svo man ég það ekkert endilega stundinni lengur.
Í síðustu viku komst ég í feitt þegar ég rakst á Heimsins besta bæ eftir finnskan höfund. Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð er með skemmtilegri bókum sem ég hef lesið. Og ég er ekki svikin af kirkjusmiðnum og öllu því fólki sem hann sankar að sér, ónei, en mér finnst samt skrýtin lenska að gefa út nýjar þýðingar á 20 ára gömlum bókum án þess að gera einhverja grein fyrir því. Maailman paras kylä virðist hafa komið út árið 1992 sem framtíðarspá. Núna er árið 2013 og 10 ár eftir af framtíðarspánni í bókinni.
Ég man líka eftir umræðu um daginn um gamlar spennusögur vinsælla höfunda sem hafa verið þýddar löngu síðar á íslensku. Ég man ekki hvaða höfundar það eru en þeir eru kannski búnir að skrifa sig upp í einhverja færni, svo er gömul bók þýdd og lesendur standa í þeirri trú að bókin sé ný og taki á samtímaatburðum eins og er jafnvel einkennismerki höfundarins. Það er svolítið eins og útgefendur séu að nota meðbyrinn en án þess að láta mann vita.
Smáatriði? Mér finnst ekki lítið atriði í upplifun á bók að þekkja bakgrunninn aðeins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 21. júlí 2013
Mútur
... sínum hása rómi sem hljómaði eins og hann væri að fá hálsbólgu. Í reynd þjáðist hann af sjúkdómi sem Louise var smám saman að læra að hétu totuvörtur í barkakýli og voru litlar bólgur sem höfðu sest á raddböndin. Þær áttu að hverfa með tímanum, en þangað til gáfu þær röddinni sérkennilega ráman og grófan blæ.
(bls. 14)
Er ekki til heiti yfir þetta annað en sjúkdómur? Á bls. 85 í bókinni er svo aftur talað um hina rámu rödd 14 ára unglingsins. Hmm? Fara ekki unglingsdrengir í mútur? Louise fær strákinn óvænt í fóstur þegar pabbi hans deyr.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 18. júlí 2013
Litaglaðir bílar eru praktískir
Ég heyrði athyglisverða kenningu í vikunni sem ég á eftir að prófa, sem sagt þá að síður sé keyrt á bíla sem eru í sterkum litum. Og með fylgdi sú fullyrðing að rauðir bílar væru sérlega góðir í endursölu. Hmmm, já, mig langar miklu meira í skærrauðan, djúpbláan eða límónugrænan bíl en til dæmis gráleitan eða brúnan. Bílstjórar jeppa og enn stærri bíla sjá líklega stundum ekki bílana sem eru samlitir götunni, ekki frekar en þeir taka eftir hjólum.
Svo þóttist viðkomandi hafa tekið eftir því að fólk á efri árum keyrði frekar þessa bíla en yngra fólkið. Á það hef ég enn ekki fallist.
Og ég held áfram að góna á alla bíla sem ég rek augun í. Ég hef á tilfinningunni að Toyota sé með helminginn af markaðnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 15. júlí 2013
Óvissa á leigumarkaði
Langtímatilhneiging eða -krafa, óbein, um að allir eigi íbúðarhúsnæði sitt gerir það að verkum að leigumarkaður fasteigna er sjúklega óþroskaður.
Á ekki hinn frægi Íbúðalánasjóður fullt af tómum íbúðum? Eru þær kannski allar á Kleppjárnsreykjum og Þeistareykjum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. júlí 2013
Strætóappið
Ég hef tilhneigingu til að trúa því sem hér er borið á yfirstjórn Strætós. Ég hef verið skorpustrætónotandi í mörg ár en hjóla núna flestra minna ferða. Þess vegna hefur ekki reynt á neitt app hjá mér en ég reyndi oft að glöggva mig á nýjum leiðum á síðunni sem var ógerlegt nema maður þekkti þeim mun betur til. Ég skil ekki að útlendingar komist í gegnum frumskóginn upp á eigin spýtur.
Ég býst við að forritarinn hafi reynt að selja Strætó vinnuna sína þótt það komi ekki fram í fréttinni. En fyrirtækið Strætó gerir heldur lítið í alvöru til að fjölgja notendum. Þegar ég hef sent ábendingar eða fyrirspurnir í þjónustunetfangið hef ég að sönnu alltaf fengið svör en yfirleitt báru þau það með sér að sá sem varð fyrir svörum skildi ekki erindi mitt. Mér þótti til dæmis hvimleitt ef ég var á fimmtudagskvöldi að skoða hvernig ég gæti tekið strætó á sunnudegi að þurfa að bakka trekk í trekk og fara alltaf á byrjunarreit. Ég þurfti í hvert einasta skipti að setja inn áfangastaðinn og framtíðardagsetningu. Allt slíkt fælir notendur frá og rekur inn í bílana.
Ég væri búin að fá mér rafhjól ef ég hefði einhvern skúr til að hlaða það á næturnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12. júlí 2013
Spölurinn styttist
Vegna óvæntrar útivistar í gærkvöldi lét ég undir höfuð leggjast að gjöra heyrinkunna þessa merkilegu minningu á réttum degi:
Í tilefni af vígslu Hvalfjarðarganganna 11. júlí 1998 rifjaðist upp fyrir mér sumarið 2002 þegar ég átti Hondu Shadow Chopper og fór á því í heimsókn í Borgarnes. Ég þorði ekki í göngin á leiðinni upp eftir en ákvað að láta slag standa á bakaleiðinni og ríghélt í handföngin meðan ég hjólaði á 40 kílómetra hraða. Svitinn bogaði af mér þegar ég beygði út í kantinn Reykjavíkurmegin og hleypti skrilljón bílum framhjá.
Ég seldi það svo. Og hjálminn með. En á enn leðurgallann.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 9. júlí 2013
Vex ferðaþjónustan okkur yfir höfuð?
Ég var að glugga í tölfræði um ferðaþjónustuna. Gjaldeyristekjur af henni voru á síðasta ári 23,5%. Það er slatti. Skattar af henni á árinu 2010 voru 15 milljarðar. Farþegar af skemmtiferðaskipum voru á síðasta ári 95.000. Í dag voru á höfuðborgarsvæðinu 9.000 farþegar sem komu með slíkum skipum. Samtals verða skipin ríflega 80 á þessu ári og nú þegar eru bókuð yfir 70 á næsta ári.
Erlendir ferðamenn voru á síðasta ári 673.000 og árleg aukning undanfarin ár hefur verið 7,3% að meðaltali. Við gerum ráð fyrir að komast upp í milljón eftir sjö ár.
Helmingur túristanna kemur yfir meintu sumarmánuðina þrjá en hinn helmingurinn kemur á því níu mánaða tímabili sem má kalla haust, vetur og vor. Fólk kann að meta náttúruna, matinn, gestrisnina, norðurljósin, Reykjavík, Gullfoss, Geysi og jarðhita. Böð eru vinsæl afþreying. Í október til nóvember koma hópar fólks út af Iceland Airwaves sem ég held að njóti varla sannmælis.
Við þurfum að vanda okkur til að fólk njóti dvalarinnar hérna. Og ég held að okkur séu þar verulega mislagðar hendur.
Við þurfum að hækka verðið og stjórna þannig aðganginum og flæðinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 8. júlí 2013
Að pissa eða ekki að pissa
Nú er svolítið um liðið síðan ég kom í Reynisfjöru en ég man ekki betur en að þar hafi verið lás á klósettinu sem hægt var að opna með peningi, hundrað krónum líklega. Ég man eftir að hafa horft upp á fólk halda opnu fyrir næsta mann þannig að ef brotaviljinn er einlægur er hægt að fara á svig við eðlilega rukkun til að geta haldið úti þjónustunni.
Þegar ég hef hins vegar komið með fólk á staði þar sem bæði er hægt að nýta sér salerni og kaupa sér eitthvað hefur mér sýnst flestir fá sér eitthvað. Fólk skilur að það getur tæpast ætlast til þess að einhver annar þrífi eftir það.
Hins vegar held ég að þau hjá Gullfosskaffi hafi algjörlega lög að mæla. Einhverjir hópar nýta sér þjónustuna og fara svo. Ég hef aldrei mætt öðru en góðu viðmóti á Gullfosskaffi og þau eiga sannarlega skilið að fá borgað fyrir vinnuframlagið sitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 3. júlí 2013
Brynhjarta Jos Nesbøs
Það hentaði mér ekkert sérstaklega vel að hnjóta um nýjustu bókina eftir Jo Nesbø fyrir hálfum mánuði en ég gat ekki látið blaðsíðurnar 700 á móti mér. Nú er ég búin með hana og fyrir utan JamesBondlegan endi fannst mér hún svaðalega spennandi. Til viðbótar þykist ég líka betur skilja hversu varhugavert getur verið fyrir nytsama sakleysingja að rápa til verulega fjarlægra landa, ekki bara í landfræðilegum skilningi heldur ekki síður menningarlegum. Ekki vill maður gufa upp eins og döggin og ekki vil ég narta í Leópoldsepli.
Og er ekki eitthvað til í því að fólk eigi það til að hverfa sporlaust í Paragvæ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 27. júní 2013
Ofsi veðurguðanna
Nú man ég því miður ekki nafnið á bandaríska þingmanninum sem kenndi Barack Obama um gosið í Eyjafjallajökli í apríl 2010. Barack lagði nefnilega fram frumvarp um heilbrigðisgeirann sem repúblikanum líkaði ekki og hann hélt því fram að þar með hefði eldgosaguðinn orðið brjálaður og rifjað upp gamla takta. Kannski er þetta misminni hjá mér en hugmyndin er góð.
Og þá er tímabært að finna hver ber ábyrgð á því að sumarið virðist ætla að sniðganga Ísland í ár. Það er auðvitað ógleymanlegt að fyrrasumar stóð frá mars og fram í --- guðmásamtvitahversulengi því að ég er búin að gleyma hvenær því lauk. Á þessu ári hefur hitinn farið upp í þolanlegt sumar þrívegis; 16. maí, 22. maí og 22. júní. Ég er auðvitað að tala um Reykjavík og nærsveitir hennar.
Ég er leiðsögumaður af og til og búin að lofa mér dálítið í júlí. Frá upphafi ferilsins hef ég verið tiltölulega heppin með veður og veit að það er snöggtum þægilegra og léttara að sýna fólkið landið í fallegu veðri. Fólk reiknar hiklaust með að hér blási köldu en ég held að flest vilji gott skyggni, þurrt veður (inn og út úr rútu) og fallega birtu. Og nú er ég farin að velta fyrir mér við hvern verði að sakast ef ég þarf upp á hvern dag að vera sjúklega fyndin, bjartsýn og jákvæð - þvert á súldina.
Ég man þegar forseti Íslands spáði því að Katla myndi fylgja gosinu í Eyjafjallajökli eftir og ég held að ýmsir hafi skilið það sem hótun. Í sama dúr ætla ég að kenna nýju lögunum um virðisaukaskatt á gistingu um. Samkvæmt þeim á ekki að hækka verð á gistingu og þannig ætla ég að túlka það að laun leiðsögumanna hækki ekki eins og þarf. Ferðaþjónustan á áfram að vera láglaunastarfsgrein.
Flestir leiðsögumenn eru lausráðnir og vinna hjá ýmsum ferðaþjónustufyrirtækjum. Atvinnuöryggið er sáralítið en samt eru kjarasamningarnir til skammar. Heildarlaun fyrir átta tíma dagvinnu leiðsögumanns sem er hokinn af starfsreynslu eru kr. 12.094,4. Þegar kostnaði launagreiðanda vegna almennra bókakaupa, fatnaðar og orlofs hefur verið bætt við leggur dagurinn sig á 15.436,16 og þá á leiðsögumaðurinn í raun hvorki matartíma né kaffitíma, getur aldrei skroppið til læknis, tannlæknis eða sinnt barni. Leiðsögumaður í ferð er kyrrsettur þar sem hópurinn er hverju sinni. Leiðsögumaður á ofangreindum launum fær ekki eina mínútu frí á kaupi. Hann má strjúka frjálst um höfuð og líta einstaka sinnum af ferðafólkinu en hann á engan tíma fyrir sig meðan hann er í dagsferð.
Ef leiðsögumaður er ráðinn til að fara í bæjarferð kl. 10-14 fær hann greiddar fjórar klukkustundir en vinnur hvergi annars staðar upp í heilan dag. Ef leiðsögumaður ræður sig í vinnu kl. 8-16 fær hann átta dagvinnustundir. Ef leiðsögumaður ræður sig í vinnu kl. 10-18 fær hann átta dagvinnustundir.
Ég er varamaður í kjaranefnd Félags leiðsögumanna og ef mér tekst ekki að snúa olíuskipinu í næstu samningum verða dagar mínir í þessu starfi taldir frá og með næsta vori.
En hvað á leiðsögumaður að rukka sem verktaki?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 23. júní 2013
Sundhöllin fær liðsauka
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 22. júní 2013
Grunnþarfir ferðamanna
Það er ekki að furða að margir félagsfundir leiðsögumanna fyrr og síðar hafa leiðst út í umræður um klósettmál. Ef fólk fær ekki að borða og drekka eru vandræði. Ef fólk losnar ekki við það aftur eru líka vandræði.
Þegar ég fer með túristana mína á einhvern stað þar sem ekkert er sérstaklega pantað segi ég frá þeim möguleikum sem bjóðast: ís (í þessu frábæra veðri! segi ég yfirleitt með upphrópunarmerki og uppsker allajafna hlátur), kaffi, samloku, nammi, bjór (sums staðar, alveg satt) - og svo er hægt að losa um pláss. Ég man aldrei eftir að hafa komið í sjoppu, hvorki stærri né minni, þar sem túristarnir fara bara á klósettið en ég hef reyndar ekki farið margar hringferðir.
Nú deila menn opinberlega um klósettferðir og innkaup í sömu ferð og ég held að menn verði að losna við einstakar persónur út úr þessu máli. Þetta ætti að vera hluti af stefnunni í ferðaþjónustu í ferðaþjónustulandi. Fólk er alvant því í öðrum löndum að borga sérstaklega fyrir þessa þjónustu. Er nú svo komið að við þurfum einfaldlega að hafa lás á klósettinu? Í fyrrasumar var rukkað á Þingvöllum og er það ekki bara í lagi ef það er vel kynnt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 19. júní 2013
Hver er sannleikurinn um hvalveiðarnar?
Nú er aftur leyft að veiða hval við strendur Íslands. Mér skilst að það séu vistkerfisrök fyrir veiðum úr sumum stofnum en svo skilst mér að hvalkjötið seljist ekki og alþjóðasamfélagið standi á öndinni af sturlun út í hvalveiðarnar.
Túristana mína langar suma hverja í hvalkjöt og suma í hvalaskoðun og suma í hvort tveggja. Ég get ekki gert annað en að bjóða þeim eftir megni mínu upp á öll þau rök sem ég heyri en ég veit fjandakornið ekki hið sanna í málinu. Eru hvalirnir sem voru veiddir fyrir þremur árum í frystigeymslum einhvers staðar?
#fruss
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. júní 2013
Hótel í miðbænum
Egill Helgason er rökfastur maður og kann ágætlega að tjá sig en ég er samt óskaplega ósammála honum um að ástæðulaust sé að amast við nýrri hótelbyggingu á NASA-reitnum. Ég er iðulega þarna í rútum með fjölda manns og það er alltaf erfitt að athafna sig, líka þótt við séum bara nokkrir stórir jeppar að sækja hópa fólks.
Þegar ég er í útlöndum vil ég líka vera miðsvæðis í borgum. Það er reyndar ekki alltaf í boði og þá er mikilvægt að almenningssamgöngur séu góðar. Á Hilton, sem ég myndi ekki flokka miðsvæðis í Reykjavík, fá hótelgestir strætópassa og komast þannig milli hverfa með sæmilegu móti. Þeir farþegar sem hafa tíma og kjósa að gera gott úr hafa farið í útsýnisferðir með strætisvagni og verið margir hverjir himinlifandi. Það væri samt til bóta að geta tekið vagn af Suðurlandsbrautinni og alla leið niður í Lækjargötu en þá þarf fólk að hafa rænu á, eða láta segja sér, að taka leið 11 af Háaleitisbrautinni.
Ef alvara verður gerð úr því að tildra upp hótelum um allan miðbæ þarf að minnsta kosti að sjá til þess að rútur, jeppar og leigubílar eigi greitt aðgengi. Passar það við Austurvöll?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 12. júní 2013
Sumarið er á næsta leiti
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 9. júní 2013
Hroki kristninnar
Nei, fyrirgefið, kannski er hrokinn bundinn við biskupsræðuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 8. júní 2013
89/11
Fastanefndir þingsins eru átta og í hverri þeirra sitja níu fulltrúar.
Þingmenn eru 63; 38 karlar og 25 konur. Þeir eru 60,3% og þær 39,7%. Svona fóru kosningarnar eftir að búið var að raða á framboðslista eftir forvöl, prófkjör og uppstillingar.
Nú heyrist mér, m.a. sem ég sit hér og hlusta á Vikulokin, sem eitthvert slembiblembi ráði ferðinni þegar flokkarnir kjósa fólk í nefndir. Jæja, ég get bara sagt það að ef ég sæti á þingi myndi ég helst vilja sitja í fjárlaganefnd, til vara í efnahags- og viðskiptanefnd og þrautavara í atvinnuveganefnd. En líklega er framboðið meira en eftirspurnin ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 5. júní 2013
20. hæðin
Nú stendur yfir skákmót á Höfðatorgi, á 20. hæðinni. Ég man þá tíð þegar tíðindi af skákmótum voru hluti af aðalfréttatíma sjónvarpsins en nú veit ég ekki hvaða tilviljun veldur því að ég veit af skákmótinu yfirleitt.
Ég leit inn þar áðan, umferðin hófst kl. 17, og það var hálfhráslagalegt um að litast á hæðinni en útsýnið yfir Túnin var fagurt. Og nú er það verkefni mitt að komast að því hvort maður má sisona fara upp með hraðskreiðri lyftunni eða hvort það er bara opið rétt á meðan skákmótið stendur yfir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)