,,Eggin brotin"

Brotin egg er bók sem ég tók upp til að lesa út úr hálfgerðri neyð. Ég hafði séð heldur neikvæðan dóm um að bókin væri pólitísk klisja sem varpaði jákvæðu kapítalísku ljósi á umbrotin í Austur-Evrópu um 1990 og var þess vegna mjög hikandi. En hún fór vel í vasa og ég á leið í flug.

Mér finnst enn skrýtin tilhugsun að Breti á sjötugsaldri skrifi út frá sjónarhóli Pólverja um uppvöxt hans í lok síðari heimsstyrjaldarinnar og að svo virðist sem hann hafi sérstaka ástríðu fyrir umfjöllunarefni sínu. En þar lýkur efasemdum mínum. Þrátt fyrir að sögusviðið sé meginland Evrópu um 1990 með skýlausar skírskotanir í fortíðina, helför, aðskilnað og gúlag er bókin fyrst og fremst um manneskju í afneitun, manneskju sem tekur ekki ákvarðanir heldur lætur reka á reiðanum, gerir ýmislegt svo sem en allt af helberri tilviljun. Hann er þolandi í eigin lífi. Það byrjar auðvitað með því að hann er barnungur sendur úr landi, sendur burt af móður sinni til að þeim bræðrunum yrði bjargað, hugsanlega frá dauða. Svo leiðir eitt af öðru, hann heldur að hann lifi hinu bærilegasta lífi, er með örugga vinnu, sér fyrir sér, ferðast um en svo þegar til stykkisins kemur hefur hann aldrei tekið neina ákvörðun sjálfur, hann er viljalaust rekald - og að ástæðulausu. Hefur það svo sem ekki slæmt ...

Forsjónin rekur framan í hann sitt ygglda andlit og hann neyðist til að velta fyrir sér næstu skrefum sem hann þarf sjálfur að taka ákvörðun um. Og þótt hann sé orðinn sextugur á hann heilmikið inni þannig að hann er ekki vonlaus en ég segi ekki meir ef einhver á bókina ólesna.

Mér finnst sagan mestmegnis vera um ákvörðunarleysi einstaklings, óháð stað og stund. Bónus er samt fyrir mig þegar ég rifja upp dvöl sjálfrar mín í Þýskalandi og heimsókn til Berlínar fyrir fall múrsins og lestarferðalag seinna þegar ég fór til Vínar og heimsótti ömmu stráks sem ég kynntist á ferðalaginu, ömmu sem hafði lifað tímana tvenna, hafði þar á meðal þurft að fela sig á klósetti inn af skrifstofu kærasta síns í heilan vetur í síðari heimsstyrjöldinni. Við amman sátum heilt kvöld og ræddum þessi mál og nú rifjast upp tilfinningin sem hún kom til skila með frásögn sinni 1990.

Skrýtin tímasetning á bókinni en að öðru leyti hin fínasta hugvekja.


Flugvöllurinn fari

Í Fréttablaðinu er frétt um að Jón Gnarr segi að ný aðflugsljós vanti við Ægisíðuna vegna flugvallarins og þau séu „nauðsynlegt öryggisatriði“. Ég vil að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni þannig að ég fagna öllum rökum með því. En ég fór eiginlega að flissa þegar ég las þetta. Hvað hefur verið að þeim aðflugsljósum sem hafa verið? Hefur verið of lítið ljósmagn? Hafa þau verið vitlaust staðsett?

„Fréttin“ kemur mér fyrir sjónir eins og borgarstjórinn og borgarfulltrúinn, sem báðir vilja að flugvöllurinn fari, setji leikrit á svið. Og þótt ég sé sammála skoðun þeirra í málinu sé ég ekki að fréttin sé nein frétt. Hún er skoðun. Hún er sjónarspil. Er kolbeinn@frettabladid.is með í því eða heldur hann að hann hafi skrifað frétt þar sem vill svo til að báðir viðmælendur eru innilega sammála um útivistarsvæði og annað efni máls en þykjast pínulítið ósammála?


Sval og Val á þing?

Mér finnst sú hugmynd Stefáns Pálssonar að tala klukkustundum saman um teiknimyndapersónur alveg frábær. Ég heyrði bláupphaf hennar í gær þegar hann talaði um langar þingræður. Lengsta skráða ræða á þingi var flutt af Jóhönnu Sigurðardóttur 14. maí 1998. Hún var þá í stjórnarandstöðu og fjallaði í 10 klukkustundir og 7 mínútur um húsnæðismarkaðinn. Ræða hennar var hins vegar í þrennu lagi, fyrsti hlutinn stóð yfir frá 12.27-12.59, næsti 13.34-19.04 og sá síðasti 20.32-00.37, allir vel skráðir á vef þingsins. Lengsti samfelldi hlutinn var því fimm og hálf klukkustund og Stefán ætlaði a.m.k. að slá það met. Aðdáunarverður metnaður hjá honum.

Hins vegar skilst mér að honum hafi yfirsést lengsta samfellda ræðan sem var flutt af Ögmundi Jónassyni aðfaranótt 5. apríl 2006, frá 23.10-05.12. Hún stóð sem sagt í 6 klukkustundir og 2 mínútur. Hún er auðvitað aðgengileg á vef Alþingis, það er m.a.s. hægt að hlusta á hana eins og hún leggur sig.

Stefán mundi líka eftir frægri ræðu Valdimars Leós Friðrikssonar um vatnalögin sem hann flutti 14. mars 2006 og stóð í 4 klukkustundir og 10 mínútur. Kannski er hún bara fræg í þröngum hópi og kannski er hún frægust fyrir þessi orð:

„Frú forseti. Það líður nú að seinni hluta í ræðu minni en henni er langt í frá lokið. En kannski er það enn eitt nýliðabrekið að nú hef ég þambað mikið af vatni til að halda röddinni og spyr því forseta hvort það sé möguleiki á að ég geri hér tveggja mínútna hlé á ræðu minni og fái að stökkva á salernið.

(Forseti (ÞBack): Forseti heimilar skjóta ferð fram á salerni við þessar aðstæður og gerir stutt hlé á þingstörfum.)“

Ætli hann hafi ekki talað í svona klukkutíma eftir að hann kom til baka. Áhugasöm geta hlustað á ræðuna í heild sinni og tímamælt.

Og nú hefur Stefán viðrað þá hugmynd að slá eigið 13,5 klukkustunda met þegar Svalur og Valur eiga 100 ára afmæli 2038. En vegna þingskapabreytinga er óvíst að nokkur þingræða verði lengri en þær sem þegar hafa verið fluttar.

Þetta var nú skemmtileg samantekt.


Sjósund fyrr og síðar

Í sjónvarpi allra landsmanna var sýndur á sunnudag, og endursýndur í fyrradag, þáttur um sund, þar á meðal frá meintu Helgusundi úr Harðar sögu og Hólmverja. Ég sá ekki frumsýninguna en mamma benti mér á þáttinn þannig að ég náði obbanum af honum í endursýningu og hjó sérstaklega eftir því að Helga var í einhverju síðu og efnismiklu og synti með hausinn upp úr eins og svanur. Þetta sund bar á góma í göngu á Brekkukamb með gönguklúbbnum Veseni og vergangi fyrir mánuði og nú rifjaðist upp að ég ætlaði að skoða frásögnina í hinni fornu sögu. Og hún er svona í útgáfu minni frá 1934, bls. 79:

Helga er nú í Hólminum ok þykkisk vita nú allar vælar ok svik landsmanna. Hon hugsar nú sitt mál; þat verðr nú hennar ráð, at hon kastar sér til sunds og leggsk til lands ór Hólminum um nóttina ok flutti með sér Björn son sinn fjögra vetra gamlan, til Bláskeggsár, ok þá fór hon móti Grímkatli syni sínum átta vetra gömlum, því at honum dapraðist sundit þá, ok flutti hann til lands; þat heitir nú Helgusund.

Eftir þetta gengu þau drjúga stund og leituðu skjóls hjá góðu fólki.

Nú er frá því að segja að mamma var dálítið skúffuð yfir því að Eyjólfs sundmanns var ekki getið og kann skúffelsi hennar að vera eðlilegt. Þátturinn heitir Sundið og þar var meðal annars fjallað um þegar karlar hættu að geta synt naktir af því að kona fór að æfa með þeim en mest var fjallað um tilraun Benedikts Hjartarsonar til að þreyta Ermarsund. Nútímamenn búa við aðeins betri skilyrði en menn gerðu forðum daga þegar þeir voru ekki smurðir í bak og fyrir og þurftu að henda sér í sjóinn með engum fyrirvara og bara eins og þeir stóðu. Og koma sér svo í skjól undan óvininum þegar þeir komu á land hinum megin.

Ekki þar fyrir, alvörusjósundsfólk í dag er duglegt fólk og ég skal komast í þann hóp, *hóst*. En enn lifir ráðgátan um sund Helgu úr Hólmanum í Hvalfirði yfir til Bláskeggsár í dragsíðu vaðmálspilsi með einn fjögurra ára á bakinu og annan átta ára skammt undan sem líka þurfti hjálpar með. Og þegar hún skokkaði upp fjallið í þættinum var ekki að sjá á henni blautan þráð.

Ætli það geti verið að Íslendingasögurnar séu ekki hárnákvæm vísindi?


Glöggt auga fyrir skít í annarra manna húsum

Fyrirsögnin er ekki myndmál. Þetta komst til tals nýlega að þegar maður sér óhreinindi verða til heima hjá sér smátt og smátt tekur maður ekki eftir því. Svo kemur maður til annarra, t.d. systkina eða góðra vina, opnar skápinn undir vaskinum til að henda einhverju í ruslið og manni blöskra taumarnar sem leka niður með veggjunum.

Eða kannski er þetta myndmál hjá mér ...


,,Ómetanleg landkynning"

Nú heyrist að Simpson ætli að tala íslensku eða um Ísland, nema hvort tveggja sé, í þætti kvöldsins á Stöð 2. Í fréttayfirliti heyrði ég rétt í þessu Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóra Íslandsstofu, segja að þetta væri ómetanleg landkynning. Ég vildi að ég hefði rangt fyrir mér en ég held að áherslan í ferðaþjónustunni sé mikið til sú að fá fleiri ferðamenn til landsins.

Ég er ekki búin að fara neitt með ferðamenn á árinu en ég heyri hjá þeim sem eru til dæmis búnir að fara hringinn með túrista að víða sé enn lokað og það er ekki endilega vegna tíðarfarsins, okkar kalda vors. Ferðaþjónustan er ekki orðin að heilsársatvinnugrein nema í örlitlum mæli þannig að það þýðir ekki að hjakka í því að fá fleiri gesti hingað, það verður þá að vera hægt að bjóða þeim boðlega þjónustu um allt land á öllum árstímum.


Umferðarmenningin í Stafangri

Ég er enn mjög upptekin af útlandinu sem ég var í í síðustu viku. Verðlag í Noregi er hátt og kaup í skikkanlegu samræmi við það, skilst mér. Vorið í ár er kalt og við guldum fyrir það. Gott og blessað, maður ræður ekki öllu.

Það sem kom mér hins vegar á óvart var að bílar stoppuðu skilyrðislaust við gangbrautir, og það þótt maður nálgaðist bara gangstéttarbrúnina. Það eru hörð viðurlög við því að hleypa ekki gangandi yfir. Það er dýrt að reka bíl og almenningssamgöngur virtust góðar. Það kostar 650 norskar (um 14.000 á gengi dagsins) að taka strætó vítt og um vítt í heilan mánuð og margir gera það þrátt fyrir að þurfa um langan veg í vinnu og skóla.

Við sáum óteljandi ungmenni í rauðum smekkbuxum og eftir því sem ég kemst næst er menningin meðal útskriftarnema sú að vera í sömu auðþekkjanlegu buxunum í heilan mánuð, djamma og reyna að skora sem mest og fá hnúta eða önnur merki á buxurnar. Hnútarnar fást fyrir að sofa hjá formanni nemendafélagsins, sofa hjá kennara, drekka hvítvínsflösku á sjö mínútum og guðmávitahvaðannaðgáfulaust. Ég get alveg skilið að ungviðinu finnist þetta sniðugt um tíma en ég get ekki skilið að skólayfirvöld leggi blessun sína yfir þetta keppikefli. Kannski gera þau það ekki og sannast sagna voru flestar buxurnar snyrtilegar og enginn buxnahafi sýnilegar ölvaður. En kannski var ég bara ekki á „réttu“ stöðunum því að þau eru í buxunum í heilan mánuð, við allar athafnir. Ég sá svona buxnafólk á Preikestolen sem er frægt túristafjall og það var bara í fjallgöngu eins og við hin.

Og fólk reykti og reykti, meira en ég verð vör við hér heima, sennilega álíka mikið og í Danmörku. Ég held að forvarnir skipti máli og ég held að þær séu meiri hér en þar.

Þetta situr í mér eftir heimkomuna.


yr.no

Í stað þess að ganga í gættina og gá til veðurs gáir maður á vefinn. Til viðbótar við það að íslenskt veður hefur í ýmsa staði verið huggulegt síðustu 13 árin eða svo finnst mér veðurvefurinn bara býsna nákvæmur og oft hægt að treysta á hann. Vinnu minnar vegna sem og áhugamálsins skiptir veðrið mig máli.

Síðustu viku var ég svo í Stafangri í Noregi og gáði áfram reglulega á veðurvef Norðmanna - og það var bara aldrei að marka hann. Hitastigið var svo sem nærri lagi en sólin hélt sig í felum og iðulega rigndi helling í smástund og svo kom haglél án þess að um það væri getið á vefnum.

Þetta er vefurinn sem vitnað er í - og ég hef ekki góða reynslu af honum. Að vísu er svæðið víðfeðmt og fjöllótt í kring en við vorum samt gapandi upp á hvern dag yfir veðurómyndinni.

Og hananú.

Svo er mér sagt að þessi opinbera stofnun sé með ríflega 400 milljónir norskra króna á fjárlögum, þ.e. þá 8,4 milljarða á gengi dagsins. Hmm?


Harold Fry brýtur vanann

Ég var að klára „Hina ótrúlegu pílagrímsgöngu Harolds Fry“ sem hefur verið rómuð líkt og Gamlinginn í fyrra. Vá, hvað mér finnst mikill munur á þessum bókum. Gamlinginn var tilgerðarleg bók og víðáttuleiðinleg, þótti mér, en Pílagrímsgönguna gat ég varla lagt frá mér. Hún er sossum um þúsund kílómetra göngu en miklu meira um uppgjör við eigið líf. Harold gruflar í sálarlífi sínu á göngunni á þann hátt að maður hefur bæði áhuga á hans lífi og fær löngun til að taka til í sínum eigin hugarkirnum.

Er maður of sjálfvirkur? Er lífinu lifað af gömlum vana? Þorir maður að stíga út fyrir þægindahringinn?

Enginn er vammlaus og flestir mættu taka sig á í samskiptum við annað fólk. Um það er þessi bók í mestu hógværð.


Stormur í hvítvínsglasi

Þótt mér sé sjálfri alveg sama hvort áfengi fáist í matvöruverslunum eða ekki og að ÁTVR hafi lokað á sunnudögum finnst mér allt í lagi að einhverjir lýsi yfir vilja sínum til annars. Það útilokar ekki fólk í að beita sér fyrir öðru. Það þýðir ekki endilega að menn hafi ekki áhyggjur af skuldastöðu heimilanna. Fólk múltítaskar.

Dálítið minnir umræða dagsins mig á viðbrögðin við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur fyrir rúmum fimm árum, 5. desember 2007, þegar hún spurði í fyrirspurnatíma á Alþingi um þá hefð að klæða nýfædd stúlkubörn í bleikt og drengi í blátt. Í minningu minni ærðist samfélagið og menn töluðu eins og ekkert væri gert af viti á þessum vinnustað og allra síst væri téður þingmaður líkleg til þess.

Mönnum yfirsáust fjölmörg mál þingmannsins á því ári. Eigum við ekki að anda með nefinu og fá okkur vatnsglas?


Matarmyndataka

Einhver sálfræðingur hefur áhyggjur af því að fólk taki of oft myndir af matnum sínum og setji á netið. Fruss!

Stjórnarmyndunarvöfflur

Þessar vöfflur eru til dæmis kallaðar stjórnarmyndunarvöfflur - og það er saga að segja frá því.


Erum við svona fréttaþyrst?

Það lætur nærri að á tveggja tíma fresti berist tíðindi af því hver hefur talað við hvern um stjórnarmyndun og menn séu þýfgaðir um niðurstöðu og skjóta framvindu. Að sönnu hafa stjórnarmyndunarviðræður oft tekið skamman tíma, a.m.k. síðustu áratugi, en kannski í og með vegna þess að menn höfðu tíma og svigrúm til að einbeita sér að samningsatriðum og snertiflötum.

Nú les ég á RÚV að viðræður séu komnar í gang og bladíbla og ég, áhugamaðurinn ógurlegi um framtíðina, er hætt að nenna að lesa. Þetta er bara enn ein ekkifréttin.


5%

Ég veit að það eru alls konar reglur og þröskuldar sem fólk þarf að yfirstíga. Kannski væri líka leiðinlegt að vera eins manns þingflokkur eins og væri veruleiki framboðs sem fengi 1,6% atkvæða ef ekki væri þröskuldur einhverra prósentustiga.

En sérstaklega hlýtur að vera undarlegur morgunn framboðs sem er með engan mann inni klukkan hálfsjö en klukkustund síðar með þrjá þingmenn.


Vonbrigði með Undantekninguna

Mér fannst Rigning í nóvember frábær bók, dálítið draumkennd og fljótandi, ekki endilega sannfærandi söguþráður en falleg mynd og spennandi. Undantekningin er dálítið of lík, söguþráðurinn vissulega annar en aðalpersónan kona sem kemst óvænt í álnir eftir að líf hennar tekur kollsteypu, og dularfullir aðdáendur á hliðarlínunni. Fegurð hennar er svo ómæld að allir súpa hveljur áður en þeir neyðast til að hafa orð á því.

Svo er hún hvergi nærri nógu vel yfirlesin. Óbeinar spurningar enda iðulega á spurningarmerki og á blaðsíðu 137 er talað um akgrein. Ég veit að það er meinlaust ef sagan rís undir sér en þegar mér finnst hún ekki gera það vil ég að lágmarki hafa fráganginn óaðfinnanlegan.


Stormur í lattebolla?

Kannski er ég bara meðvirk en mér finnst ekki skrýtið að veitingastaður vilji selja vöruna sem hann hefur á boðstólum. Nú er ég bara búin að heyra þytinn af ágreiningi AA-mannsins Bubba við Kaffi París, er ekki í samtökunum, er ekki á fundunum, kaupi hvorki kaffi á þeim né kaupi það ekki og þekki ekki mér vitanlega neinn sem hefur verið á AA-fundi á kaffihúsinu. Þess vegna hugsa ég hér bara upphátt og almennt að staður sem rekur sig á því að selja vörur og þjónustu vill eðlilega ekki að hópur manns leggi undir sig staðinn.

Eftir að innviðum Kaffis Parísar var breytt um árið, allt opnað meira og gert háværara hefur mér hins vegar fundist það verri mótsstaður og sting aldrei upp á því sjálf. Það er þó allt önnur saga og ég er nógu meðvirk til að mæta þangað ef aðrir velja það. Það morar allt í kaffihúsum í bænum þannig að mínir lattelepjandi vinir mættu vanda valið betur ...

Æ, gleðilegt sumar.


Flugvöllurinn er í Reykjavíkurkjördæmi suður

Í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 var verið að ræða flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Þar gæti næstum því atkvæði mitt legið - ég vil endilega að hann fari - en svörin voru loðin og teygjanleg. Ég er engu nær en ég var.


Sjómannaafsláttur?

Í kosningaþætti Rásar 2 í Suðvesturkjördæmi var áðan spurt um sjómannaafslátt. Flestir frambjóðendur vilja hann ekki. Ég vil heldur ekki sjómannaafslátt (hvurs lags orðskrípi er þetta líka eiginlega?), ekki frekar en leiðsögumannaafslátt. Hins vegar er eðlilegt að launþegar - eins og sjómenn, vegagerðarmenn og leiðsögumenn - sem eru löngum stundum að heiman og hafa í raun ekki forræði yfir frítíma sínum fái dagpeninga.

Ekki satt?


Hvað þýðir nafnið?

Nú þegar Simmi og Jói eru að syngja lokalögin sín í laugardagsþætti Bylgjunnar get ég játað að ég hef oft hlustað á fyrsta dagskrárliðinn þeirra, „hringt í venjulega Íslendinga og þeir vaktir“. Stundum hefur það verið hálfmisheppnað, eins og fara gerir, en oft hafa þeir hitt á spakt fólk sem hefur komist á flug í beinni útsendingu.

Hlustendur hringja inn nöfn og í langan tíma hafa orðið fyrir valinu frekar óvenjuleg nöfn og Simmi og Jói því spurt út í þau. Til að hafa engan fyrir rangri sök verður víst að segja að oft hefur fólk þekkt uppruna nafnanna og einhverja sögu en líklega hef ég alltaf orðið jafn hissa þegar fólk hefur ekki vitað að það ætti engan nafna eða enga nöfnu og ekki þekkt upprunann. Ég veit upp á dag hvenær mitt nafn varð til og hvers vegna ég heiti því ...

Það er sem sagt ekki hluti af uppeldi hvers barns að ræða fram og til baka um tilurð nafnanna, aðra nafnbera og beygingu.

Í dag var ég svo í fjallgöngu með meðal annarra hollenskri stúlku sem var skírð gælunafni og hún dæsti ógurlega og sagðist ekki skilja í foreldrum sínum. Auðvitað spáir maður í þetta ...


Hver sigrar?

Ég fór á fyrirlestur í hádeginu þar sem fyrirlesari skoðaði fortíð, staldraði við nútíð og skyggndist lítillega inn í framtíðina. Kosningarnar um næstu helgi voru auðvitað málið, skoðanakannanir og úrslitin, hver sem þau verða.

Guðni Th. rifjaði upp atbeina forseta að stjórnarmyndunum fyrr og síðar. Það er ekki endilega „stærsti“ flokkurinn sem fær umboðið, ekki ef hann er minni en hann var eftir kosningarnar þar á undan, þannig að það er ekki einboðið að þingmannafjöldinn einn saman segi til um umboðið.

Og maður getur spurt: Hver er sigurvegarinn ef xB fær 17 þingmenn og xD 18? Er það hástökkvarinn eða fleytir atrennan formanninum í forsætisráðuneytið? Verður það kannski einhver kafteinn ef píratarnir fá 8,8% atkvæða?

Svo má líka spyrja hvort flokkarnir séu ekki hver um annan þveran búnir að setja „no no“ á allt samstarf vegna fyrirframkrafna. „Ég vil bara vinna með þeim sem vilja afnema verðtryggingu“ eða „alls ekki ESB“ eða „endilega ESB“ eða „gjörbreyta sköttum“ eða „hnika til sköttum“ eða „umfram allt göng“ eða „endilega Sundabraut“. Eitthvað er þetta fært í stílinn hjá mér.

Annars staðar á Norðurlöndunum ganga menn bundnir til kosninga og eru búnir að segja með hverjum þeir vilja vinna. Hér tala flestir um það með hverjum þeir ætla ALLS EKKI að vinna.

Verður stjórnarkreppa 28. apríl?


Tryggingagjald

Ég held að næstum allir flokkar ætli að lækka tryggingagjaldið af því að það kemur illa við lítil og meðalstór fyrirtæki. Nú ætla ég að fylgjast spennt með því sem gerist eftir 27. apríl.

Umræðan um verðtrygginguna hefur hjaðnað, er það ekki?

Og allir eru löngu hættir að tala um þungaskattinn.

En hvernig ætla menn að hlúa að ferðaþjónustunni?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband