Miðvikudagur, 17. apríl 2013
10 dagar til stefnu
Sem kjósandi geri ég hóflegar kröfur. Ég vil vera sólarmegin í lífinu en samt halda jöklunum. Ég vil auka túrismann en nenni samt ekki að halda við stígum eða klósettum. Ég vil vera í kjörþyngd en samt borða ís og popp í kvöldmat. Ég vil geta lesið í myrkri en þó þannig að mér súrni aldrei fyrir augum. Ég vil að brúnt klæði mig þótt annað sé vísindalega sannað. Og ég vil borða bragðgóðan kjúkling sem aldrei hefur þjáðst.
En fyrst og fremst vil ég keppnislaug í bakgarðinn minn.
Ég get valið milli 13 framboðslista og enginn þeirra er sniðinn að mínum hógværu kröfum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 15. apríl 2013
Kosningaloforð
Ég ætla að kjósa þann lista sem lofar löggildingu starfs leiðsögumanna ferðamanna. Til vara: þann flokk sem ætlar að auka veg ferðaþjónustunnar. Eða þá frambjóðendur sem vilja tryggja betri samgöngur út á land.
Ég geng samt óbundin að kjörkassanum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. apríl 2013
Gefa, afskrifa, fella niður, fela, láta hverfa - barbabrella
Fjórtán listar bjóða fram,
fögru öllu lofa.
Vigta gjafir þeirra gramm,
gefa okkur kofa?
Þessi ferskeytla varð til á árshátíð í gær. Veislustjórarnir ortu fyrri partinn og hann er því miður ekki réttur í kveðunum. Seinni hlutinn er aldeilis frábær, en kannski of djúpur til að fólki skilji ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12. apríl 2013
Hraðfréttir Gonzales
Ég er yfirleitt áhugasöm um nýjungar, mætti jafnvel kalla tilbreytingu. Í vinnu er ég spennt fyrir nýjungum nýjunganna vegna. Breyting, jafnvel þótt hún sé í einhverju tilliti óþörf, getur leitt til góðs, opnað nýjar brautir, bætt aðferðir og haft skemmtigildi. Ég læri eitthvað nýtt og það viðheldur ferskleikanum.
Mér fannst Hraðfréttir sjúklega fyndndar fyrstu tvö, þrjú skiptin og ágætar í nokkur skipti eftir það. Mér fannst ég svolítið þurfa að verja það af því að ég þekki marga sem fannst þær asnalegar. Nú horfi ég stundum og mér stekkur ekki bros. Brandarinn er búinn. Hugmyndin lifir ekki meira en fimm, sex skipti. Þessar snöggsoðnu ekkifréttir, lélegt grínið, yfirlætið - allt þetta á ekki erindi lengur.
Berglind hefur talað ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12. apríl 2013
Birgitte Nyborg
Ég missti af Höllinni á sunnudaginn og frétti að Birgitte hefði verið grilluð í beinni útsendingu í kappræðum. Nú sá ég endursýninguna og já, hún var sossum grilluð - en ef fréttamenn gæfu frambjóðendum svona mikinn tíma og svona mikla athygli myndu þeir almennt hlaupa meira og oftar á sig. Vandinn er að spyrlar eru á eilífum hlaupum frá dýptinni (ekki síst núna þegar framboð eru mjög mörg) og frambjóðendur eru sjaldan þýfgaðir um djúp svör við djúpum spurningum.
En Birgitte sem gaf frá sér orðið og athyglina, það dýrmætasta sem frambjóðendur hafa í kosningabaráttu, segir okkur auðvitað að hana vantaði þekkingu á efnahagsmálunum. Hún ætlaði að skauta í gegnum þáttinn á fyrirsögnum.
Er ekki ein Birgitte eða tvær í íslenskri pólitík?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 11. apríl 2013
,,Ég get ekki útilokað neitt í þessu efni"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 10. apríl 2013
Kosningaþættirnir í útvarpinu
Gósentíð. Kosningabarátta 14 framboða er háð fyrir mig. Ég er kjósandi í Reykjavíkurkjördæmi norður en nú sit ég spennt við útvarpið (og vefinn: http://www.ruv.is/beint) og fylgist með oddvitum í Norðvesturkjördæmi. Mér finnst aðdáunarvert hvað frambjóðendur eru flinkir að svara fyrir sig, jafnt nýir sem notaðir. Línur eru lagðar, stefnu er fylgt úr hlaði, spyrlar halda utan um spurningar og svör og ég mala í sófanum.
Næstum allir sem ég þekki þykjast ósammála mér en samt þekki ég urmul sem er í framboði. Er fólk ekki bara að skrökva upp á sig áhugaleysi? Er þetta ekki aðaláhugamál allra sem lifa í samfélagi?
Ég vil persónukjör!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 9. apríl 2013
Útilaug í hverfið mitt
Í aðdraganda kosninga lofa menn ýmsu, þar á meðal (hjóla)bót og betrun. Ég er hógvær, bið bara um útilaug við Snorrabraut og kannski að flugvöllurinn fari. Já, ég veit að þetta er nærumhverfi og heyrir þar af leiðandi undir sveitarstjórn en eiga þingmenn ekki líka að sinna þeim?
En ég kröfu um að staðið verði við loforðin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 8. apríl 2013
Hjólabót
Og það sprakk. Þegar maður ferðast mikið á hjóli eyðast dekkin. Spaklega mælt, Berglind. Og nú þarf ég að kenna mér að bæta því að ég nenni ekki að leiða hjólið bæjarhlutanna á milli til að einhver annar bæti það fyrir mig. Nema náttúrlega ... ... ég kaupi mér nýtt. Kannski rafhjól. Og hjólaskúr með rafmagni. Og svo náttúrlega ... mætti borgarstjórinn sópa aðeins oftar.
Ég vona að vælubíllinn fyrirgefi þetta útkall. #dæs
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 4. apríl 2013
Spurt var í útvarpinu: Hvað segið þið, eigum við að viðurkenna sögnina að ,,læka" sem fullgild íslensk orð? Hafið þið aðrar hugmyndir?
Ég gat ekki stillt mig um að senda stutt Facebook-svar til Bítisins áðan:
Það er ugglaust til betri sögn en að læka en það sem hún hefur umfram sögnina að líka við er að hún er persónuleg (ég læka, þú lækar, við lækum - breytist eftir persónunni) en líka við er ópersónuleg (mér/þér/honum/ykkur líkar við - breytist ekki). Og þótt við spyrnum betur við fótum en Danir tölum við samt um að dissa, bögga, gúgla, fíla og djamma (en með íslenskum rithætti). Svo fara menn á pöbbinn og ef mér skjöplast ekki því meir var biskup upprunalega tökuorð. Sem betur fer er tungumálið kvikt. Er þetta ekki þráður þótt enginn sé hnykillinn?
Ég held að rétt og rangt séu ofmetin hugtök í tungumáli. Við ættum að spyrja okkur: Hvað er lipurt, hvað lagar sig að málkerfinu, hvað mun fólk nota? Ef orð beygjast, hægt er að skrifa þau og þau skiljast má nota þau. Samt hef ég sjálf aldrei getað vanist því að tala í gemsa ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 3. apríl 2013
Ó, persónukjör
Ég hlustaði á forsvarsmenn framboða í sjónvarpinu í gær, fannst enginn standa sig illa þótt ég hafi vissulega lagt eyrun meira eftir sumum en öðrum. Ég er svo spéhrædd að ég segi ekki opinberlega hvað hugnast mér best en mikið fann ég hvað ég vildi geta kosið þvert á flokka.
Ég vildi hafa einhverja tegund af persónukjöri.
Hvað skiptir mestu máli? Efnahagslíf, atvinnulíf, velferðarkerfið, lýðræði og fleira, í mismunandi röð eftir einstaklingum og tímabilum. En þegar maður horfir til baka sér maður að sumir hafa betur risið undir trausti manns en aðrir. Þannig held ég að margir muni óhjákvæmilega kjósa eftir þeim einstaklingum sem skipa efstu sæti einstakra lista. Ég heyri menn kveina undan því að þingmenn séu 63, séu of margir. Ég held að það sé ekki endilega tilfellið, ef menn sinna vinnunni vel eru þeir á þönum alla daga, þetta er ekki einfalt starf. Efnahagsmál og umhverfismál eru flókin, samspilið vandasamt, framtíðin óráðin og andstæðingarnir þverir. Fyrir hvern sem er.
Það er mörg skýrslan og margt álitaefnið. Forgangsröðunin er pottþétt röng - en hver ber ábyrgð á því? Stjórn eða stjórnarandstaða á hverjum tíma?
Ég vildi að ég mætti velja 63 einstaklinga sem slíka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 30. mars 2013
,,En ég á séra Árelíusi mikið að þakka ...
... hann sendi mig í mína fyrstu mótmælagöngu.
Ég er að lesa svo sprúðlandi skemmtilega sjálfsævisögu að ég skelli upp úr á næstum hverri blaðsíðu. Kannast einhver við lýsinguna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 29. mars 2013
Þjáningar dagsins
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 25. mars 2013
Gæftir öskunnar
Nú eru rétt að verða komin þrjú ár síðan gosið varð í Eyjafjallajökli, gos sem dreifði ösku vítt og um vítt. Hún var okkur vond og við kvörtuðum að vonum. Samt, og nú hljóma ég ægilega vís, hlaut maður að hugsa að í þessu landi sem við byggjum hefðu eldgos verið tíð og orðið aftur og aftur öldum saman. Eitthvað spurðist það út að í öskunni væri næring.
Framtíðarávinningur er samt ekki nóg þegar bömmer dagsins er svo nálægur. En nú er sem betur orðið ljósara að askan gerir okkur gott:
Þessi járnríka aska var hinsvegar gæðaáburður fyrir undirstöður fæðukeðjunnar í Norður Atlantshafi þar sem hún féll til hafs suður af Íslandi.
Ég fagna ógurlega.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 23. mars 2013
Fyrirheitið land hvers?
Mér finnst ég svolítið heimtufrek. Fyrirheitna landið fannst mér steríótýpískt fyrir allan peninginn, þótt mér leiddist ekki neitt alla þrjá tímana, en samt fannst mér ekki heppnast þegar þau reyndu að brjótast út úr mögulega fyrirframgefnu normi.
Róni og dópsali (þversögn?) um fertugt býr í útjaðri borgar (London) og fulltrúar stjórnvalda vilja losna við hann til að byggja verslunarmiðstöð. Æ. Hann er hryssingur upp úr og niður úr en fólk laðast að honum. Æ. Svolítið auðvitað af því að hann á það sem fólk vill, vímu. Skapið í honum er eins og búmerang, hann hreytir í fólk, reynir að hrekja það í burtu og það kemur skríðandi, rúllandi, veltandi, vælandi og skælandi.
Ég fann til með Hilmi sem var látinn vera rámari en upparhrokkinn páfi en hann gerði ekkert af sér. Hann kom mér bara ekki á óvart. Partíliðið gladdi mig heldur ekkert sérstaklega, en Baldur Trausti kráareigandi gerði það. Hann lífgaði alltaf upp á sviðið og það gerði Eggert líka.
Barnsmóðir og barn. Æ. Lokaákvörðun. Æ.
En ég þekki fólk sem ég tek mark á sem var ánægt með sýninguna þannig að ég hvet áhugasama til að fara í Þjóðleikhúsið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. mars 2013
Nýjung í samgöngum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. mars 2013
Réttur barna til samvista við bæði foreldrin
Tölfræði forræðislausra foreldra og hlunnfarinna barna þvælist dálítið fyrir mér en flestir hljóta að fallast á að mörg börn eiga fráskilin foreldri (reyni hér meðvitað að halda kynhlutleysi orðsins). Sem betur fer eru móðir og faðir oft bæði ábyrg og hugsa um hag barnsins. Þannig býr barn iðulega á heimili beggja viku og viku í senn. En nú les ég í leiðara Ólafs Stephensen að löggjöfin hafi ekki náð að halda í við það.
Samkvæmt barnalögum frá 2003 er líka tilfellið að barn getur aðeins átt lögheimili hjá öðru foreldri:
Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.
Þetta er ósanngjarnt gagnvart því foreldri sem barnið á ekki lögheimili hjá. Ætlaði ekki einhver að breyta þessu?
Snýst þetta kannski um að þjóðskrá á ekki fleiri reiti? Leyfir ekki tæknin tvö heimilisföng eins og virðist eiga við um löng eiginnöfn fólks?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 19. mars 2013
Fréttaöldin
Ég hef varla séð eða heyrt fréttir í nokkra daga og hef stórkostlegar áhyggjur af að allt fari til fjandans meðan ég fylgist ekki með. En líklega fer það allt bara þangað sem því er ætlað, með eða án minnar vitneskju. Og algjörlega án minnar aðkomu.
En ég þykist muna þá tíð þegar þorskur var alltaf í fyrstu frétt flestallra fréttatíma. Ég er ekki frá því að þorskurinn hafi breytt um ásýnd en sé enn nefndur í fyrstu frétt allra fréttatíma þessa dagana ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 15. mars 2013
Nýr formaður VR
Ég er ekki í VR, hafði ekki kosningarrétt og þekki ekki til innanhússmála þarna. Ég get ekki sagt að ég sé hissa á að nýr formaður hafi náð kjöri þótt munurinn komi kannski pínulítið flatt upp á mig (en hvað þykist ég vita?) en í kosningabaráttunni sem ég varð óneitanlega vör við á Facebook var að minnsta kosti engin áhersla á kynferði.
Hvað sem um Ólafíu má segja hlaut hún örugglega ekki kosninguna út á kynferði sitt. Hefur þá ekki barátta síðustu þriggja áratuga skilað einhverjum árangri? Jú, ég held það, miðað við umræðuna var hún kosin út á verðleika sína og það sem hún hafði fram að færa í kosningabaráttunni.
Er ekki svo? Er það ekki?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. mars 2013
13. mars 1983
Æ, mér finnst svo skammarlegt að hafa ekki munað eftir afmælisdegi Kvennalistans að ég ákvað að skrifa dagsetninguna á einhvern vísan stað svo ég muni það kannski 2023.
Hann skipti máli. Það skiptir máli að sérstakt kvennaframboð hafi orðið til.
Sem betur fer eru konur núna viðurkenndar fyrir það sem þær eru og geta ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)