Þriðjudagur, 18. desember 2012
Vinnutími og framlegð
Það kemur reyndar ekki fram í þessari frétt en ég hef samt ótrúlega oft séð fréttir af því að Íslendingar verji hvað lengstum tíma í vinnunni en framlegðin sé í engu samræmi við það. Það gengur sem sagt lítið undan okkur. Væri ekki nær að hafa vinnutímann styttri og vinnuna skilvirkari? Þurfum við hafa sumar verslanir í smálandinu opnar frá 8-24 og sumar allan sólarhringinn? Væri ekki nær að skrifstofufólk væri átta tíma á dag í vinnunni og væri þá í vinnunni þann tíma en hefði tök á að sinna sjálfu sér og fjölskyldunni að loknum vinnutíma? Jafnvel get ég ímyndað mér að hægt væri að fækka vinnustundum um heila á dag án þess að það kæmi niður á afköstunum.
Jæja, þetta var jólaóróinn í ár.
Go' arbejdslyst!
[Hvernig segir maður það á ylhýra tungumálinu okkar?]
Að lokum legg ég til að við prentum minna. Og minna og minna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 15. desember 2012
Skiptir byssueign máli?
Ég er ekkert verseruð í Bandaríkjunum og Kanada en les fréttir og reyni að fylgjast með. Mér eru nokkuð minnisstæðar myndirnar hans Michaels Moores og það var líklega í Bowling Columbine sem hann tók viðtal við Charlton Heston og fjallaði almennt um byssueign sem er einmitt mjög almenn í Bandaríkjunum og ekki í Kanada. Í Kanada leyfa menn sér að vera með dyrnar ólæstar og þaðan berast ekki svakalegar fréttir af fjöldamorðum eins og gerðist núna í Connecticut. Í Kanada er ekki sjálfsagt að hafa byssu í náttborðsskúffunni og hanskahólfinu.
Er þá Barack Obama alveg jafnforhertur og hver annar varðandi byssueign í Bandaríkjunum þegar á hólminn er komið? Staðreyndirnar fara ekki huldu höfði, við vitum öll að með byssum má skjóta fólk og það er einmitt það sem fólk gerir að hluta til með byssunum sínum. Og það getur verið banvænt.
Forlátið málæðið. Ég hefði getað látið duga að segja: Upprætið helvítis ofbeldið. Sometimes you need to be cruel to be kind.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 13. desember 2012
Berlínaraspirnar > Næturóskin
Ég hef ekki lesið hina frægu seríu eftir Anne B. Ragde. Ég missti af byrjuninni og lét þá seríuna líða hjá, sá ekki þættina og hafði óljósa hugmynd um að hún gerðist í sveitakyrrðinni. Kannski vitleysa. Og nú er komin út ný bók sem heitir Næturóskin - ja, ný og ný, 2009 í Noregi, 2012 á Íslandi - og ég greip hana á bókasafninu. Hún er fljótlesin, það vantar ekki, en hún var svo skrýtin. Hún er trúlega skyld gráum tónum þótt ég hafi ekki lesið þá bók en ég átti von á einhverju öðru.
Ingunn getur ekki fest ráð sitt, óttast ekkert meira en höfnun þannig að hún þarf alltaf að vera fyrri til að slíta ástarsamböndum. Henni vegnar vel í vinnu, er fjárhagslega á grænni grein, borðar hollt en drekkur eins og bilaður vaskur og ráðskast með fólk í kringum sig.
Er hún vansæl? Eða er þetta nútímakonan sem hefur fullkomna stjórn á tilfinningunni sem skeytir hvorki um orð né eiða?

Ja, ég veit bara að ég get ekki tekið undir umsagnirnar sem vitnað er til. Sérstaklega þóttu mér samtölin frámunalega stirð og allra helst þegar barnið talaði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 9. desember 2012
Úr Nemesis eftir Jo Nesbø
Og hvernig komst hann þá undan?
Með þessu. Waaler benti á símann í holinu. Á tólinu voru för sem litu út eins og blóð.
Þú átt við að hann hafi sloppið héðan símleiðis?
(bls. 361)
Ég er oft búin að skella upp úr við lesturinn á bókunum um Harry Hole. Því miður er ég búin með Rauðbrysting og Nemesis en ég á Djöflastjörnuna eftir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 9. desember 2012
Jólaandinn á fimm mínútum
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 5. desember 2012
Geðveik jól 2012
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4. desember 2012
Upplýsingar eða skortur á þeim
Aðalsjónvarpsrásin þessa dagana er Alþingisrásin. Mikið vildi ég að það kæmi fram í útsendingunni hvað ræðan má vera löng hverju sinni og hversu mikið er eftir af gefnum tíima. Helst sem stundaglas.
Ég er ekki að grínast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 1. desember 2012
Rétthugsun
Nú þarf ég aðeins að hugsa málin og reyna bæði að stíga út fyrir minn þrönga heim og þægindarammann.
Uppáhaldsþátturinn minn í útvarpinu hefur verið sleginn af vegna óviðurkvæmilegs viðtals. Þótt ég hafi mikið dálæti á Harmageddon næ ég frekar sjaldan að hlusta því að hann er kl. 15-17.30 virka daga, en ég næ góðum bútum svona tvisvar til þrisvar í viku. Sumt finnst mér sossum hundleiðinlegt hjá Mána og Frosta, sérstaklega þegar þeir tala lengi og mikið um íþróttir, t.d. knattleik eins og mig minnir að Máni kalli fótbolta.
Það sem Máni og Frosti gera vel er að ýta alls staðar á mörkin, í pólitík og trúmálum mest sem ég hef heyrt. Stundum eru þeir líka með svo brjálæðislega fyndin leikin atriði sem ég hélt að væru ekki leikin meðan ég vissi ekki betur. Mér er ennþá minnisstæðast þegar annar þeirra hringdi inn og þóttist vera venjulegur bílisti sem hefði lagt í fatlað stæði við Kringluna því að hann þyrfti að komast í ÁTVR og fannst að fatlaðir gætu vel lagt í önnur stæði, það væri nóg af þeim. Og nú þyrfti þessi sem hringdi inn (var líklega Frosti) að borga 10.000 fyrir stöðubrot.
Ég lá í kasti yfir þessu (hljóð)broti á sínum tíma.
Í síðustu viku léku þeir sér með Schengen og annar þóttist halda að framburðurinn væri Skengen. En aðalefnið var svo sem hvort útlendingar fengju að koma óhindrað yfir landamærin eða ekki.
En að efni máls, femínismanum og viðtalinu við SirMills sem ég einmitt heyrði á rauntíma. Mér þótti það bjánalegt og svo gleymdi ég því. Af hverju var mér ekki misboðið? Meintur listamaður var ögrandi og hreinlega hallærislegur og ég átti svakalega auðvelt með að leiða hjá mér það sem hann þóttist standa fyrir. En þar stendur kannski einmitt hnífurinn í kúnni. Ég get áttað mig á þessu en, hvað á maður að segja, óharðnaðir unglingar, ungar konur kannski, geta tekið svona meiningar nærri sér. Að vonum. Þannig að ég held að Harmageddon hafi ekki veitt af að fá áminningu. Stærsti hópurinn sem hlustar er trúlega fólk sem á ekki að þurfa að hlusta á listamann eins og SirMills - þótt ég skilji þetta sem ádeilu eða arfalélegan brandara.
Og þetta leiðir mig aftur að Hraðfréttum sem mér þykja skemmtilegar. Símaauglýsingin, rödd símafyrirtækisins og allt það fór gjörsamlega framhjá mér sem dulin auglýsing en kannski verð ég samt fyrir áhrifum (ég er mjög meðvituð um að versla allajafna við litla samkeppnisaðilann) og þótt ég verði kannski ekki fyrir áhrifum er ástæða til að vera á varðbergi gagnvart dulbúnum auglýsingum.
En svo skil ég ekki hvernig stendur á því að lögmaður sem núna er kominn í afgerandi þingframboð getur svarað játandi í útvarpinu (mig minnir Harmageddon) spurningunni: Ef skjólstæðingur þinn er sekur, hann veit það og þú veist það, en hann heldur að hann geti komist upp með það, segirðu honum þá að ljúga, að hann hafi ekki gert það sem borið er á hann? án þess að allt fari á annan endann. Er sem sagt viðurkennt að besta vörnin sem allir eiga rétt á feli í sér að bæði sakborningur og lögmaður hans ljúgi, t.d. til um ofbeldisglæp eða auðgunarbrot, ef sá seki er líklegur til að sleppa við refsivöndinn?
Af hverju er það viðurkennt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. nóvember 2012
Eva Joly og riddararnir með slíðruðu sverðin
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. nóvember 2012
Svandís menntamálaráðherra?
Ég veit betur en að trúa því að Svandís sé menntamálaráðherra og Katrín menntamálaráðherra og Svandís svo umhverfisráðherra - eins og stendur í fréttinni - en er blaðamaðurinn að leika sér að þessu?
Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, fékk flest atkvæði í forvali VG í Reykjavík og Svandís Svavarsdóttir menntamálaráðherra varð í öðru sæti. Björn Valur Gíslason alþingismaður endaði í sjöunda sæti listans.
1. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra fékk 547 atkvæði 1. sæti
2. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fékk 432 atkvæði 1.-2. sæti
Svandís er umhverfis- og auðlindaráðherra og Katrín mennta- og menningarmálaráðherra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 22. nóvember 2012
Sími með ... flatskjá
Það sætir tíðindum að ég keypti mér síma með ýmsum öppum í dag, mun minni síma en afgreiðslustúlkan vildi selja mér, mun ódýrari líka. Hann heitir Samsung Y og Y er víst skammstöfun fyrir Young og ég fór langt niður fyrir mig í aldri við að kaupa hann (fannst afgreiðslustúlkunni).
Nema hvað, nú þarf ég að læra á vekjaraklukkuna áður en ég fer að sofa. Mörg er búmannsraunin ... nema þú nennir að hringja í mig kl. 6.50 á morgun ... hm?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. nóvember 2012
Börn fædd seint á árinu
Í fyrra var grunnskólaárgangsmót og þá gerðum við okkur að leik að spá í fæðingardag þeirra sem mættu. Flestir voru fæddir í mars og svo í október eða nóvember. Við komumst líka að því að fleiri en færri hétu nöfnum með upphafsstaf aftarlega í stafrófinu. S var mikið tekið, og ef ekki í skírnarnafni þá alltént í föðurnafni.
Svona samkvæmisleikur sýndist mér vera á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Það er gaman að þessum rannsóknum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 16. nóvember 2012
Fíkniefnavandinn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. nóvember 2012
Föstudagsfrídagar
Kannski er ég óvenjulegur launþegi. Ég þekki það að vera í fastri vinnu með reglulegum kaffitímum, mismunandi álagi og mánaðarlegum greiðslum. Ég þekki það að vera í óreglulegri vinnu með skóla og ég þekki það að taka tarnir, t.d. yfir sumarið.
Ég hef aldrei verið atvinnurekandi en hef hins vegar unnið náið með eiganda í litlu fyrirtæki.
Kannski er ég með fátæklega stéttarvitund en mér finnst fráleitt, segi og skrifa, að færa til árvissa frídaga sem eru bundnir dagatalinu til að fjölga þeim dögum sem launþegi er í burtu á launum. Hvernig er hægt að halda upp á 1. maí þann 7. maí af því að það er mánudagur eða föstudagur? Stundum eru jól lengri og stundum styttri. Stundum er meira gaman og stundum minna gaman. Mér finnst það eðlilegt.
Alveg eins og mér finnst eðlilegt að launþegi sé heima þegar hann er veikur eða barnið er veikt. Og sinni vinnunni í vinnunni á vinnutíma.
Ef lífið væri allt úr rjóma yrðum við leið á honum. Vinnuveitandi á líka rétt og fulltrúar atvinnurekenda og launþega eiga að geta náð saman um kjarasamninga sem eru ásættanlegir fyrir báða aðila. Inni í því eru frídagar.
Sem launþegi reyni ég að setja mig í spor yfirmanns míns. En kannski er ekkert að marka mig því að ég hef einfaldlega ekki undan neinu að kvarta.
Nema SAF ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 14. nóvember 2012
Karamazov-bróðirinn
Ég tók nýlega til mín áskorun um að lesa góðu bækurnar fyrst, áður en sá tími rynni upp að maður hefði ekki tíma til að lesa bestu bækurnar. Já, og ég lagði frá mér reyfarann og dró fram Karamazov-bræður Dostóévskíjs sem ég hafði hummað fram af mér. Og það er mjög skrýtið að ég hafði ekki byrjað fyrr á henni þar sem Glæpur og refsing er alveg stórkostleg bók. Ég las þá bók fyrir næstum mannsaldri (eða þannig) og í minningunni engist Raskolnikoff um, sekur en sloppinn, með samviskubit en án þess að finnast hann þurfa þess, sveittur, kaldur, fátækur, umkomulaus, maðurinn sem gerði allri borginni greiða en getur ekki gert tilkall til hróssins af því að verknaðurinn var glæpur gagnvart lögum. Gagnvart lögum, sko, en kannski ekki siðferðinu eða hinu góða í manninum.
Ég tárast næstum við þessa góðu minningu.
Karamazov-bræðurnir eru síðastir í höfundarverki Dostóévskíjs og ógurlegt meistaraverk - skildist mér. En eitthvað er móttakarinn þá orðinn slappur hjá mér því að eftir sársaukafullar 40 blaðsíður af öðrum bróðurnum og börnunum hans sem hann gleymdi hjá þjónunum sem ólu önn fyrir þeim meðan hann slarkaði gat ég ekki meir. Frásögnin er öll í þátíð, í skelfilegum fjarska, og það eina sem er nálægt er hinn uppáþrengjandi sögumaður.
Dæs.
Ég ætla samt að leggja til atlögu við Fávitann áður en ég verð orðin of gömul og fúin til að lesa bestu bækurnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. nóvember 2012
Sighvatur er að djóka um sjálfhverfurófið
Það hefði verið rosalega auðvelt að missa af sjálfhverfu-greininni hans Sighvats í Fréttablaðinu á laugardaginn. Alveg er ég viss um að margar sjálfsupphafnar greinar eru birtar í blöðunum án þess að maður gefi þeim gaum.
Sighvatur stendur á sjötugu, er sem sagt enn á besta aldri, og er áreiðanlega ágætlega gefinn. Ég veit ekkert hvort hann er almennur húmoristi en mér sýnist hann grínast mjög myndarlega í þessari grein.
Dæmi:
Þetta er kynslóðin sem ól af sér útrásarvíkingana ...
Lesendur hafa reiknað það út að hann sé að tala um Reykvíkingana sem fæddust á árabilinu 1967-1982. Hverjir eru útrásarvíkingarnir? Ég held að ég þurfi ekki að nafngreina þá en þeir eru einmitt flestir fæddir á sjöunda áratugnum. Kynslóðin sem ól af sér útrásarvíkingana er þá fólkið sem fæddist 20-40 árum fyrr, 20-40 árum fyrir 1970 svo ég námundi. Er það ekki?
Sighvatur er að tala um sjálfan sig.
Það er hann sjálfur, fæddur 1942, sem er á sjálfhverfurófinu. Ég þekki mann fæddan 1950 sem tók námslán fyrir allri háskólagöngunni og er fyrsti maður til að viðurkenna að hann borgaði ekki nema brotabrot til baka, verðbólgan át verðgildi lánsins.
Svo þekki ég mann af kynslóðinni á undan sem borgaði strangt til tekið aldrei til baka byggingarkostnaðinn af sömu ástæðu. Ég veit ekki hvað 1942-módelið fékk fyrir lítið. Sighvatur gæti tíundað það.
Þessi kynslóð sér ekkert fréttnæmt í því að hópur gamalmenna hafi tapað aleigu sinni við að reyna að tryggja sér verndarskjól í ellinni með viðskiptum sínum við Eir.
Ég veit ekki alveg hvaða húmor er hér á ferðinni. Ef ég leyfi höfundi að rása svolítið í kynslóðunum og ímynda mér að hann ímyndi sér að fólk á aldrinum 30-45 ára láti sér í léttu rúmi liggja það sem er alveg nýnýnýkomið í ljós, sem sagt að herramaður af hans kynslóð svaf á verðinum, get ég alls ekki skilið af hverju hann hrapar að þeirri niðurstöðu. Er fólk búið að tjá sig svo mikið um það? Ekki þekki ég eina einustu sálu sem hlakkar yfir óförum íbúa á Eir eða hefur ekki samúð með því hlutskipti að missa inneignina og hugsanlega búseturéttinn. Hvaða galskapur er þetta í höfundi?
Þessi sjálfhverfa kynslóð sér ekki heldur neitt umræðuvert í því, þó íbúar allra Raufarhafna þessa lands gangi slyppir og snauðir frá húseignum sínum sem í mörgum tilvikum kostuðu þá miklu meira fé að byggja vegna hás flutningskostnaðar aðfanga en sjálfhverfu kynslóðina á höfuðborgarsvæðinu.
Drepið mig ekki alveg. Sjálfhverfa kynslóðin á formæður, forfeður og rætur að rekja út á land.
Er ekki Sighvatur bara að tala um örfáa menn sem átu gullslegið risotto, flugu stuttar og lengri vegalengdir einir í þotunum sínum, slógu menn um milljarða sem þeir (sem lánuðu) áttu ekki, fengu lánað fyrir iSímum og fannst ekki taka því að endurgreiða, keyptu flugfélög og seldu banka í svefni, slógu sig til riddara og veittu sér fálkaorður?
Sighvatur slær úr og í kynslóðum en sannleikurinn er sá að kynslóðin sem hann er uppteknastur af er ekki bundin við ákveðið árabil.
En umræðan gæti orðið skemmtileg í skammdeginu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. nóvember 2012
Eftir þrjú prófkjör
Margt þótti mér skrýtið í útleggingunum eftir helgina. Kristján Möller var einhvers staðar kallaður sigurvegari prófkjöranna af því að hann fékk yfir 70% í 1. sæti í sínum flokki í sínu kjördæmi. Hann var sá eini í þessum þremur prófkjörum helgarinnar sem bauð sig einn fram í efsta sætið. Hinir tveir sigurvegararnir voru með keppinauta þannig að það strax gerir samanburðinn ótækan.
Svo keppast fjölmiðlar við að lofa frambjóðendum sæti en gleyma, steingleyma sýnist mér, að mjög mörg framboð eiga eftir að stilla upp og hefja sína baráttu. Hvort sem þau fá góða kosningu eða ekki geta þau alltént haft áhrif á sætaröðun.
Kannski er það að æra óstöðugan að taka ævinlega fram að allt gisk sé háð óvissu en mér finnst of margir gera of mikið af því að gefa sér niðurstöður.
Að því sögðu vorkenni ég vitaskuld fjölmiðlum fyrir að vera undirmannaðir. Mig minnir að RÚV hafi til dæmis sagt um helgina að tiltekinn flokkur, man ekki hvort það var xD eða xS, fengi samkvæmt nýrri reiknireglu einum manni meira. Hið rétta er að kjördæmið fær einn mann til viðbótar vegna mannfjöldabreytinga, það fækkar um einn í Norðvesturkjördæmi en fjölgar um þennan eina í Suðvesturkjördæmi.
Já, ég er að velta fyrir mér framtíðinni. Svona er ég sjálfhverf.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. nóvember 2012
Niðurskurðartillögur ungra
Samband ungra sjálfstæðismanna veit sem er að enginn tekur mark á hinum ofsafengnu niðurskurðartillögum í mennta- og vísindamálum og í trausti þess leyfir það sér núna það sem það hefur hingað til látið undir höfuð leggjast (í öll skiptin, held ég), að leggja það til að framlög til stjórnmálaflokkanna verði alfarið skorin niður. Það veit áreiðanlega að ég gái að þessu á hverju ári.
Ef ég væri blaðamaður myndi ég spyrja Davíð Þorláksson einnar ítarspurningar: Reiknar Samband ungra sjálfstæðismanna ekki með að þessi kostnaður sem sambandið vill skera niður komi fram annars staðar hjá ríkinu?
Það er forvitnilegt að skoða þessa klásúlu:
Til lengri tíma er rétt að huga að breyttu rekstrarformi Vegagerðarinnar og eins fjármögnun vega og viðhalds þeirra. Þannig mætti í auknum mæli huga að vegtollum og annarri gjaldtöku. Samhliða því þyrftu bensínskattar og aðrir jaðarskattar þó að lækka allverulega.
Setjum sem svo að tæplega hálfur milljarður yrði sparaður hjá Vegagerðinni með breyttu rekstrarformi, heldur þá SUS að enginn innan raða þess sjálfs myndi kvarta undan vegtollum? Og kostnaðinum við að innheimta þá?
Eða eru tillögurnar árlega bara hugsaðar sem hóflegt skemmtiatriði? Algjörlega án innistæðu?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. nóvember 2012
Að axla ábyrgð með afsögn?
Það er pínulítið undarlegt að kalla eftir því þegar fólk stendur sig illa að það stígi til hliðar og láti aðra hreinsa burtu óhreinindin.
Eftir nýjasta svona kall er ég með tvær spurningar: Var stjórnarformaður Eirar kosinn almennri kosningu? Annars getur hann ekki sagt af sér. Ef hann var ráðinn segir hann upp eða víkur en segir ekki af sér.
Ég geri ráð fyrir að margir séu á því að hann hafi glatað ærunni með aðgerðaleysi sínu en tapar hann laununum núna þegar hann segir af sér? Eða fer hann heim á biðlaunum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. nóvember 2012
,,Barnamatseðill"
Þjónum finnst ég ekkert fyndin þegar ég spyr hvernig börn séu í matnum á barnamatseðlinum. Ókei, börnunum finnst það ekki heldur þannig að það hallar hrikalega á mig í þessum brandara.
En það er samt eitthvað rangt við þessa nafngift, sbr. að nautahamborgari er ekki handa muuuuuu, beikon ekki handa svínum og grænmetislasagna ekki handa kálinu.
Og það er ekki eðlilegt að halda sérstökum matseðli að börnum, mestmegnis unnum mat og bragðlitlum. Kannski er þetta ástæðan fyrir að ég er mjög seinþroska í mat, fannst pulsur bestar á grillið fram á fullorðinsár. Með meira framboði lærði ég betur að meta fisk, grænmeti og sterkari mat.
Mér finnst svo sem eðlilegt að mjög lítil börn borði ekki ólífur og tsjillí en mér finnst líka fráleitt að ögra aldrei bragðlaukunum, kynna ekki nýjungar fyrir börnum sem öðrum og almennt gefa sér að börn vilji bara nagga, pasta, margarítupítsu og soðna ýsu með tómatsósu.
Sennilega væri vit í því að hafa matseld stærri hluta af námskrá skóla.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)