Vatnsveður í bók Auðar Övu

Sumt getur maður ekki útskýrt með öðrum rökum en tilfinningalegum. Mér var bent á rithöfundinn Auði Övu Ólafsdóttur sem ég hafði meðvitað sniðgengið vegna þess að ég hélt að listfræðingurinn í henni væri of yfirgnæfandi fyrir minn smekk. En eftir þessa ráðleggingu ákvað ég að lesa Rigningu í nóvember og ég varð trekk í trekk að leggja bókina frá mér og hlæja upphátt. Ég átti alls ekki von á því. Söguþráðurinn gefur heldur engin sérstök fyrirheit um það; kona á fertugsaldri flosnar upp úr barnlausu hjónabandi, fær vinning, tekur að sér fjögurra ára son vinkonu sinnar og fer á heimaslóðir.

En sagan var grípandi og meinfyndin.

Og mér fannst tiltakanlega áberandi að vegna veðurs tók af eina brú við hringveginn á Suðurlandi og ferðaþjónar hrósuðu happi ...


Ferðaþjónusta hátt uppi

Ég viðurkenni að ég hef ekki borið mig eftir neinum gögnum um meinta ferðauppbyggingu á Grímsstöðum en ég get ekki ímyndað mér að sú viðskiptahugmynd sé góð sem felur í sér að byggja upp ferðaþjónustu þar sem ferðaþjónusta hefur þegar verið í boði og ekki nógu vel nýtt. Af hverju ættu menn að vilja koma í skítakulda og almyrkur núna ef þeir hafa ekki viljað það fyrir? Er það af því að það verður sérlega öflug hárþurrka sem má borga meira fyrir? Vegna þess að það verður gufubað inni? Úrvalsmatur? Norðurljós út um gluggann? Háhraðanet með erlendum fréttum? Golfvöllur!?

Ég hafði efasemdir um Kárahnjúkavirkjun á sömu forsendum, trúði ekki á viðskiptahugmyndina.


Laugavegurinn 26.-29. júlí

Ég hlakkaði til að ganga Laugaveginn, 57 kílómetra, í fyrsta skipti síðan ... síðast. En ég man ekki hver laug því að mér að þegar liði á sumarið væri farið að sjá mikið á honum, allt vaðandi í rusli meðfram stígnum og það mjög sóðalegu rusli. Engu slíku var til að dreifa, þvert á móti var bæði snyrtilegt og fámennt. Og ég fór enn að hugsa um markaðssetningu á landinu. Við hittum vissulega marga útlendinga á leiðinni, fólk frá Noregi, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Tékklandi og Rússlandi, en aðallega Íslendinga.

Gönguleiðsögumenn eru útskrifaðir í löngum bunum (ég er sannarlega ekki í þeim hópi enda á ég nóg með að koma sjálfri mér klakklaust á milli staða) - af hverju eru ekki fleiri svona skipulagðar ferðir fyrir útlendinga?

Þarna er litadýrð, skógleysi og ólýsanleg víðátta sem margir útlendingar fara á mis við í þéttsetnu borgunum sínum. Skáparnir í Bláa lóninu stíflast vegna mannmergðar á sama tíma og víða er vannýtt auðlind aðeins fjær höfuðborginni.

Og auðvitað ætti ég sjálf að passa að rápa um allt áður en ritaðar hugsanir mínar verða að áhrínsorðum.

Ætli það verði þá ekki Fimmvörðuhálsinn næst? Ég á miðbikið eftir, Morinsheiði, Kattarhryggi og nýju eldfjöllin.


Sjósund

Í gær lét ég loks verða af því að vaða út í 15°C heita Nauthólsvíkina. Það var ekki hlýtt en ekki sjokkerandi kalt eins og ég bjóst við. Ég var hvorki í blautsokkum né með vettlinga en óð samt upp að hálsi ... Svo synti ég bringusund eins og svanur til að komast aftur í land.

Á ekki vanda til að veikjast en geri ráð fyrir að verða minnst 186 ára ef ég held uppteknum hætti.


Driss og Philippe

Ekkert hafði ég heyrt um Intouchables annað en að hún væri fyndin. Ég vissi eiginlega ekki að auðmaður réði sér aðstoðarmann og ekki að lífsgleðin væri svona svakalegur drifkraftur.

Þess vegna ætla ég ekki að rökstyðja það að mér finnst myndin óborganlega skemmtileg en mér heyrðist allur A-salurinn í Laugarásbíói sömu skoðunar. Samt verð ég að nefna að myndin er óður til þess að vera dálítið á skjön við hið viðtekna. Vona að lesandinn fyrirgefi mér það og sjái svo myndina. Og við mættum öll stíga aðeins út fyrir rammann endrum og eins.


Der Feuerlöscher

Maður verður að hafa úti allar klær til að stækka orðaforðann sinn. Í dag var ég leiðsögumaður með þýska skipafarþega þar sem bryddað hefur verið upp á þeirri nýbreytni að láta mann segja frá öryggisþáttum, s.s. hvar útgönguleiðir eru, hvar hamrar til að brjóta rúður ef eldur yrði laus - og hvar slökkvitækið er. Ég er ekkert altalandi á þýsku og í dag rann upp fyrir mér það ljós að ég vissi ekki hvernig slökkvitæki væri á því mæta máli. Skömm mín er mikil, einkum þar sem ég hafði látið undir höfuð leggjast að lesa öryggisleiðbeiningarnar áður en ég mætti á kajann. Í þeim stóð nefnilega að maður ætti að benda á „Löschzeug“, eiginlega þá „slökkvidótið“.

Og nú ætla ég að læra þetta nýja orð, Feuerlöscher, alveg eins og ég lærði þýska orðið „Sarg“ af fyrsta túristahópnum mínum.

Svo ætla ég í hógværð minni að skora á SAF að MÓTA STEFNU Í FERÐAÞJÓNUSTU til næstu 15 ára eða svo. Í Bláa lóninu var svo mikil teppa að um tíma var engum hleypt ofan í af því að skáparnir voru uppurnir. Ef yfirvaldið í ferðaþjónustu ynni með ferðaþjónum væri kannski hægt að stýra traffíkinni betur. Bláa lónið er með einkarekstur og getur gert það sem það vill, ég skil það, en dagurinn í dag var hvorki því né okkur hinum til sóma. Hæstráðendur í SAF geta ekki bara fabúlerað í fjölmiðlum þegar þeir hringja þangað með slys og óhöpp.

Það vantar stefnumörkun í ferðaþjónustu. Um það vorum við fleiri sammála í Bláa lóninu í dag.


Einsleitni í mat þar sem ferðamenn koma saman?

Ég er að hlusta á Vikulokin þar sem hinn margnotaði Gunnar Smári er meðal gesta. Nú er hann hins vegar ekki að tala um SÁÁ og kannski ræða þau ekki um áfengissölu á Hrafnistu. Nei, hann kom með þann ágæta punkt að þegar 60% gesta í 101 Reykjavík eru útlendingar verður matur einsleitari og dýrari, veitingastaðirnar stíla inn á einskiptiskaup.

Þetta er meðal þess sem við ættum að hafa áhyggjur af og velta fyrir okkur þegar við hlökkum yfir því að eftir nokkur ár telji gestaflaumurinn hér milljón manns. Ágangurinn er víða orðinn svo mikill að við önnum ekki fjöldanum en samt er gefið í.

Fáum færri, fáum þá til að staldra lengur við, fáum þá til að koma utan háannar - og borgum ferðaþjónum betri laun. Hættum að reka ferðaþjónustuna með lokuð augu.


Gýs Katla?

Já, við vitum bara ekki alveg hvenær, hehe. Núna er jarðskjálftasíða Veðurstofunnar uppáhaldsuppflettisíðan mín. Hekla ætti að gjósa fljótlega og eins má sjá stöðuga skjálfta í Mýrdalsjökli - Kötlu. Bráðum eru komin 100 ár síðan Katla lét á sér kræla þannig að nú er lag ...

Jo Nesbø

Nú er ég búin með Snjókarlinn og þurfti að hafa mig alla við að vera ekki afundin við fólk sem truflaði mig við lesturinn. Hún kom út í Noregi 2007 en hér 2012 í þýðingu Bjarna Gunnarssonar. Útgáfufélagið er Undirheimar.

Ég ætlaði að nota flæðið og greip Hausaveiðarana sem kom út á norsku 2008 en hjá Uppheimum 2011 í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur. Á blaðsíðu 45 gafst ég upp. Bæði fannst mér James Bond vera í bakgrunni að renna sér berhentur eftir stálvír eftir að hafa brotið saman Monu Lisu og sett í innri vasann á jakkanum og svo truflaði textinn mig nógu mikið til að ég nennti ekki meir.

Og útgáfufélagið er það sama, heitir bara tveimur líkum nöfnum.

Undarlegur andskoti.


Gatnakerfið á Íslandi

Nú leggja ýmsir land undir fót. Þar á meðal fór ég hálfan Kjalveg um helgina. Á fimmtudaginn var allt þokkalega ágætt þar sem umferð var lítil. Áðan var aftur á móti mun meiri umferð og stóru bílarnir þeystu fram úr á mjóum, skraufþurrum malarveginum. Það er mesta furða að ekki verði fleiri slys en verða, en við urðum þó fyrir smávegis tjóni sem ekki verður tilkynnt - og það út af frekri rútu.

Ég vildi óska þess að strandsiglingar yrðu aftur teknar upp.

Ég vildi óska þess að fleiri vegir yrðu breikkaðir nóg til að bílar gætu mæst sómasamlega.

Ég vildi óska þess að fleiri brýr yrðu tvíátta.

Ég vildi óska þess að bílstjórar sýndu meiri aðgát.

Hvað þarf til?


Bílaleigubílar eða ,,lánsbílar"

Detti mér allar dauðar lýs úr höfði. Ég heyrði í fréttatíma í dag talað um að einhver brögð væru að því að einstaklingar „lánuðu“ bílana sína gegn gjaldi. Og núna var í fréttatíma sjónvarps talað við einhvern sem mér heyrðist mæla þessu bót og viðkomandi sá engan mun á því að fólk keyrði fjölskyldubílinn sinn sem kannski væri 10-15 ára og að túristinn keyrði um landið jafngamlan bíl sem hann þekkti ekki. Það var orðað öðruvísi í fréttunum.

Sumir útlendingar eiga fullt í fangi með að keyra á malarvegum og það er algjör óþarfi að tefla öryggi þeirra og annarra ferðalanga í tvísýnu með því að setja þá upp í vafasama bíla. Og þá er ónefnt skattalegt tapið.


Brakið (með brestum)

Ég á að vita betur en geri mig þráfaldlega sek um sömu mistökin ár eftir ár. Ég las Brakið af því að ég fékk hana á bókasafninu. Hún er fljótlesin en ég ergði mig mörgum sinnum á blaðsíðu yfir því vantrausti sem höfundur sýnir lesendum. Hún útskýrir svo mikið. Ég er búin að skila henni og man engin dæmi orðrétt en höfundur segir manni í sífellu af hverju persónur bregðast við eins og þær gera.

Það fyrir utan er Þóra karakterlaus persóna og ritarinn fullkomlega óþolandi. Hver kaupir þessar bækur?

Nú er ég hins vegar byrjuð á Snjókarlinum eftir Jo Nesbø og hún er sko spennusaga í lagi.


10-12 árlegir milljarðar í svörtu hagkerfi ferðaþjónustunnar?

Að sögn er heilmiklum peningum skotið undan í ferðaþjónustunni. Hingað streymir fólk sem aldrei fyrr til að skoða land (og þjóð (og dýr)), smakka mat, gista o.s.frv. en laun mauranna í ferðaþjónustu eru afar lág. Ég man gjörla þegar ég réð mig einu sinni í hótelvinnu úti á landi (skammt frá bænum) og átti að keyra í 40 mínútur í vinnuna í mínum tíma, fyrir mitt bensín og á mínum bíl, fá herbergi á milli löngu vaktanna og mat í vinnutímanum (af því að það var ekki í önnur hús að venda og enginn eiginlegur matartími) og þegar ég reiknaði tímakaupið var alveg augljóst að ég hefði betra upp úr því að leigja íbúðina mína og fara í ferðalag til annarra landa.

Hvað ég og gerði.

En núna er ég leiðsögumaður og mér finnst kaupið lélegt en finnst þetta greinilega andskotakornið of skemmtilegt til að segja þvert nei þegar mér eru boðnar ferðir.

Og lendir „arðurinn“ kannski allur í vösum greifanna sem taka meinta áhættu af fyrirtækjarekstri? Jæja, ég á eftir að lesa greinina í Viðskiptablaðinu og sjá uppleggið í þessari frétt. En mikið vona ég að ferðaþjónustan braggist öllum til hagsbóta. Öllum. Og í leiðinni má laga klósettmálin.


Eru Samtök ferðaþjónustunnar regnhlíf?

Um daginn komu um 10.000 útlendingar til Reykjavíkur með skemmtiferðaskipum. Einhverjir í veitingahúsabransanum urðu fornemaðir yfir því að fáir þeirra kæmu í bæinn til að kitla bragðlaukana með góða matnum. Já, leiðinlegt. Ég get hins vegar skilið það að fólk fari ekki beint úr morgunmatnum á veitingastað. Hins vegar hefði ég viljað sjá aðeins meira líf á vegum borgarinnar, uppáklætt fólk (ungmenni) að segja til vegar, sviðsetja eitthvað, lífga upp á bæinn. Ég held örugglega að í Vigur og kannski annars staðar fyrir vestan sé kynt undir lífinu í bænum til að gera hann meira aðlaðandi.

Væri það ekki verðugt verkefni fyrir Ernu Hauks?


Þingvellir - Kaldidalur - Húsafell - Hraunfossar o.s.frv.

Ég skil ekki af hverju Borgarfjörðurinn er svona afskiptur þegar kemur að ferðaþjónustunni. Að vísu er Kaldidalurinn óttalegt þvottabretti (óvenjulega góður núna) og erfitt að komast fyrirvaralítið í mat með 30-50 manns (mega vera súpur eða samlokur) en hann er íðilfagur, fjölbreytilegur og skiltin eru þar ekki einungis á íslensku og ensku heldur líka á þýsku.

Ég held að salernis- og mataraðgengi skipti einfaldlega svona miklu máli fyrir utan lélegar samgöngur. Finnst SAF ekkert um neitt nema slys og óhöpp þegar þau verða? Hvað gera Samtök ferðaþjónustunnar til að bæta ferðaþjónustuna og gera okkur færari um að taka við æ stærri hópi útlendinga sem sækja okkur heim? 


Skemmtiferðaskip - miðbær - tölfræði

Flestallir þeir útlendingar sem tala við mig um matinn á veitingastöðunum á Íslandi eru himinlifandi. Ég trúi því að íslenska eldhúsið sé algjörlega frábært, ég hef sjálf allajafna góða reynslu af matnum hér. En ég spyr samt: Þegar fólk kemur þúsundum saman af skemmtiferðaskipum þar sem maturinn flæðir um öll borð, er nokkuð óeðlilegt að fólk vilji sjá sig um frekar en að setjast inn á einhvern stað í miðbænum í misjöfnum veðrum og halda áfram að kýla sig - og það þótt maturinn sé til fyrirmyndar?

Kosningasól

Atkvæðisrétturinn er heilagur og þótt ég óttist að úrslitin verði mér ekki að skapi vona ég samt að við fáum okkar hefðbundnu 88% á kjörstað. Yngsta kynslóðin sem má kjósa nær því ekki til fulls hversu mikið var haft fyrir því að fá réttinn til að kjósa.

Og sól skín meira að segja um allt land þannig að nú er lag að sparibúast og mæta á kjörstaðinn sinn.


Grænir bílar

Mig langar í vistvænan bíl en get ekki ákveðið mig. Ég er ekki að spá í ókeypis stæði heldur minni mengun. Hver er bíllinn?


Fór víða um helgina og get boðið upp á útgönguspá

90% karlanna sem ég hitti um helgina ætluðu að kjósa Ólaf Ragnar. Þeir eru flestir einyrkjar í störfum sínum, mest við akstur. Ástæðan: Hann bjargaði okkur frá hrikalegri skuldsetningu, ef hann hefði ekki neitað Icesave værum við núna að borga geðveika vexti og ættum engan pening fyrir okkur sjálf. Hin ástæðan: Hann er hvort eð er á kaupi til æviloka.

Æ, ég hitti svo fáar konur, en karlarnir voru á því að þær myndu kjósa Þóru.

Ég spái að það verði mjótt á mununum.

En hættum að birta skoðanakannanir, við vorum flest sammála um það. Þær eru skoðanamyndandi.


Anna, Egill, Hrafn og Vigdís

Ég á eftir að verða skotfljót að gleyma sögupersónunum í Hálendinu. Þetta vesalings fólk er svo persónuleikalaust að mér er gjörsamlega ómögulegt að tengjast því hið minnsta. Anna, Egill, Hrafn og Vigdís fara upp á hálendi Íslands með sneisafullan bíl af rötunartækjum, mat, drykk og eiturlyfjum og rata í súrrealísk ævintýri. Ég get alveg þolað óraunveruleikann en ég þurfti að beita mig hörðu til að klára bókina af því að höfundur leyfir ekki söguefninu að lifna í textanum. Hann segir og útskýrir í stað þess að sýna.

Held helst að álitsgjafarnir sem Forlagið styðst við hafi lesið aðra bók. Spenna hélt ekki fyrir mér vöku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband