12,7 eða 13,3 eða 10,4 milljarðar

Í öðru orðinu segja útgerðarmenn að sjávarútvegurinn sé grunnatvinnugrein og meginstoð þjóðarbúskaparins, í hinu orðinu er útvegurinn svo skuldsettur að það þarf að afskrifa einhver býsn. Nú stóð til að innheimta einhvern helling með veiðigjöldum en svo er búið að gefa afslátt. Samt geta fiskveiðarnar séð af 10 milljörðum án þess að kafsigla sig. En 10 milljarðarnir sem hefðu átt að koma inn í veiðigjöldum á síðasta ári og 2010 og 2009, hver naut góðs af þeim?

Forsetaefnið mitt

Ef ég hefði mátt kjósa forseta 1980 hefði ég kosið Guðlaug Þorvaldsson. Áreiðanlega var hann vænsti maður og hefði gegnt starfinu vel. Hins vegar var Vigdís kosin og ég sætti mig alveg við það og fljótlega varð mér reyndar hlýtt til hennar.

Í baksýnisspeglinum sé ég mjög glöggt hvað kosning hennar skipti miklu máli. Hún bar hróður Íslands víða og talaði fallega til þjóðar sinnar. Hún gerði áreiðanlega mistök þegar hún skrifaði undir lögin um EES, það mikla framsal, 1993 þrátt fyrir meira en 30.000 undirskriftir Íslendinga sem skoruðu á hana að senda þau í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enginn er óskeikull. En af hverju bauð þingið okkur ekki strax með?

Nú stöndum við enn frammi fyrir forsetakjöri og sex manna frambærilegur hópur stillir sér upp. Það má dást að öllu því fólki sem gefur kost á sér til þessa starfs í því umhverfi sem við búum við, vantraust, skothríð, veiðileyfi, skeytingarleysi, miklar árásir. Ég les aldrei Eyjuna og aldrei Pressuna og veit ekki hvernig umræðan er þar í athugasemdakerfinu en ég hef stundum lesið í gegnum fréttir á DV með öllu viðhengi og athugasemdirnar ganga gjörsamlega fram af mér. Mér finnst í góðu lagi að gagnrýna en flest það sem ég les er órökstutt og ómálefnalegt.

Þó að margir kjósi að láta neikvæðar tilfinningar keyra með sig út í rakin ósmekklegheit held ég samt að tilfinningar ráði mestu um það hvernig fólk kýs sér forseta - með tilfinningarökum. Sagan hefur sýnt að frambjóðendur þurfa ekki að standa við loforð, loforð sem má kalla kosningaloforð. Aðstæður breytast, fólk breytist, kjósendur breytast, það er alltaf hægt að vísa til ástands sem hefur breyst.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað í vor að kjósa Þóru Arnórsdóttur er, jú, að ég þekki aðeins til hennar persónulega, að hún er manneskjuleg, að hún er vel máli farin, að hún kemur vel fyrir, að hún hefur góða menntun og að hún talar fjölda tungumála.

Hún er kurteis og henni hefur verið fundið það til foráttu. Mér finnst það kostur.

Hún segist vera íhaldssöm. Mér finnst það kostur í fari forseta sem ætlar að vera sameiningartákn þjóðar sinnar.

Hún á þrjú ung börn og sumir halda að hún geti ekki sinnt krefjandi starfi meðfram barnauppeldinu. Þá held ég að þeir hinir sömu geri sér hvorki grein fyrir hvað hún hefur verið í annasömu starfi meðfram heimilisrekstri og hvað smábarnaforeldrar vinna oft langan dag frá börnunum sínum. Og ef það á að skipta máli held ég að hún muni eiga betra með að sameina starf og einkalíf á Bessastöðum.

Eftir átta ár verður hún 45 ára gömul og ef hún nær kjöri talar hún um að hverfa þá til annarra starfa. Þá þiggur hún biðlaun í hálft ár, ekki eftirlaun til æviloka.

Þrátt fyrir kosti hinna frambjóðendanna fimm hef ég langbestu tilfinninguna fyrir Þóru Arnórsdóttur og ég hlakka mikið til að fara á kjörstað 30. júní og merkja við hana.


Gjaldtaka á fjölsóttum ferðamannastöðum?

Á að rukka gesti fyrir að horfa á Geysi/Ásbyrgi/Hvítserk? Við rukkum nú þegar fólk sem siglir á Jökulsárlóni, skoðar hvali, fer á Listasafn Íslands, fer í bíó og reynum að rukka fólk fyrir að fara á klósett. Hvernig fjármögnum við annars uppbyggingu svæðanna, lagningu stíga, rekstur klósetta?

Formaður Félags leiðsögumanna var í viðtali á Bylgjunni í gær.


Að fljúga eða ekki að fljúga í boði vina

Álitamálin í lífinu eru endalaus. Kjörinn fulltrúi Reykjavíkurborgar flaug til Parísar og borgaði fyrir farið kr. 5.900 hafi ég tekið rétt eftir. Á hvað hafa Ryan Air og Go selt ferðirnar sínar þegar best lætur fyrir flugfarþegann?

Ég er búin að hugleiða þessa hreyfingu og get ekki samþykkt að borgarfulltrúinn hafi gert rangt í að fljúga. Að segjast vera í vinnunni kl. 9-17 er hins vegar hrikalegur afleikur. Mér finnst það meira að segja hæpið hjá almennum starfsmönnum að segjast eingöngu vera starfsmenn á eiginlegum vinnutíma en kjörinn fulltrúi vinnur einmitt ekki eftir stimpilklukku.

Væntanlega vakta fjölmiðlar það á næstu mánuðum, jafnvel næstu tvö árin, hvort Wow fær einhver viðskipti við borgina og á hvorn aðilann hallar þá. Er það ekki ásættanleg lending?


Bankaþjónusta á landsbyggðinni

Ég hef aldrei verið gömul netlaus kona á landsbyggðinni og mér finnst mjög erfitt að setja mig í hennar spor. Ef ég þyrfti á bankabyggingu að halda til að sækja og leggja inn pening yrði ég alveg hvínandi reið út í héraðið mitt ef húsið sjálft yrði tekið frá mér með þjónustunni. Bankaþjónusta er einmitt þjónusta.

Sem nettengdri konu með 10 bankaútibú í göngufæri finnst mér hins vegar yfirbyggingin alveg forkastanleg. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn geti ekki talað saman af skynsemi og komist að lausn í stóra Landsbanka-á-landsbyggðinni-málinu.

Ef menn geta ekki fært fram nein önnur rök en þau að útibúanna sé þörf vegna atvinnunnar sem þau skapa detta mér í hug unglingarnar sem henda tyggjói á götuna og segja þegar maður lítur grimmdarlega á þau:

Atvinnuskapandi.

Ekki ætla þau samt að borga launin.


Kappræðurnar á Stöð 2 í gær

Ég er í fámenna hópnum sem blöskraði ekki fyrir helgi að Stöð 2 ætlaði að bjóða bara Ólafi Ragnari og Þóru í kappræður í sjónvarpi til að laða fram sjónarmið þeirra forsetaframbjóðenda sem hafa mælst hæst í skoðanakönnunum.

Stöð 2 er einkastöð sem ég kaupi ekki áskrift hjá og ég get engar kröfur gert til stöðvarinnar. Ég get heldur ekki heimtað kappræðurnar í neinni mynd í ólæstri dagskrá.

Þóra mæltist til þess að allir sex frambjóðendur fengju að koma. Stöð 2 varð við því en hefði getað náð Ólafi og Þóru saman, eins og til stóð, með því að hafa tvo og tvo frambjóðendur saman eftir stafrófsröð.

Þá neituðu þrír frambjóðendur að taka þátt. Þetta er allt þekkt. Ég fylgdist með kappræðunum og miðað við umræðuna á Facebook hættu flestir að horfa en höfðu samt skoðun á umræðunni.

Mér fannst margt athyglisvert koma fram en heildarniðurstaða mín er sú að það skiptir ekki öllu máli hvað frambjóðendur segja, það skiptir eiginlega meira máli hvernig þau segja það. Þegar upp verður staðið kýs ég eftir tilfinningu.

Nú er viss hópur í samfélaginu skotinn í ÓRG fyrir að hafa virkjað beint lýðræði í nokkur skipti. Icesave er núna fyrir dómstólum og við vitum ekki hvernig það endar. ÓRG sagði á sínum tíma að tvö til þrjú kjörtímabil væru hæfilegur tími. Ég man ekki hvað hann sagði um 26. gr. stjórnarskrárinnar en hann hefði engan veginn getað sagt árið 1996 hvernig hann væri líklegur til að bregðast við fjölmiðlalögunum 2004 og Icesave 2 og 3 nokkrum árum síðar.

Kosningaloforð eru huglæg og erfitt að ganga eftir reikningsskilum.

Nú hef ég velt enn frekar fyrir mér fyrirkomulaginu. Ég las netið í gærkvöldi, hlustaði á viðmælendur á Bylgjunni í bítið og svo heyrði ég í Mána á Harmageddon síðdegis. Ég er enn staðfastari í því að Stöð 2 hafi verið í fullum rétti til að bjóða bara þeim tveimur sem hafa mælst hæst. Stöð 2 hefur ekki sömu lýðræðislegu skylduna og RÚV sem rukkar okkur öll um nefskatt. Stöð 2 hefur fullt leyfi til að reyna að búa til það sjónvarp sem hún telur til dæmis söluvænlegt.

Hins vegar er tvennt sem ég hefði viljað sjá öðruvísi. Stöð 2 hefði átt að gera sína eigin skoðanakönnun og segja fyrirfram að þeir frambjóðendur sem fengju meira en 10% (eða aðra tölu) fengju boð um að koma. Ég er sammála því sem kom fram í Harmageddon að svona þáttur þarf ekki að vera almenn kynning á öllum frambjóðendum, ef fólk vill kynna sér stefnumálin getur það skoðað heimasíðurnar, farið á kosningaskrifstofurnar eða beðið eftir kynningunni á RÚV. Þar fyrir utan hafa einstakir frambjóðendur kynnt sig víða, t.d. Hannes Bjarnason á Sprengisandi í gærmorgun og í Fréttablaðinu á laugardaginn. Það er ekki gerð krafa um 50% atkvæða til kjörins forseta, hann þarf bara að fá flest atkvæði og þess vegna er eðlilegt að reyna að þrengja hringinn um þá sem koma helst til greina.

Hitt sem Stöð 2 gerði illa að mínu mati var að sýna grínið frá Spaugstofunni. Það var hallærislegt og algjörlega yfirmáta ófyndið.

Mér fannst ýmislegt klúðurslegt, t.d. þóttu mér sumar spurningarnar illa valdar og jafnvel endurteknar, of mikið hamast í sitjandi forseta (kannski er það til siðs í öðrum löndum), fulllítið spontanítet í spyrlunum (hef samt samúð með hlutskipti þeirra) og svo fór þátturinn 20 mínútur fram úr auglýstum tíma. Hins vegar slokknaði ekki á útsendingunni hjá mér (er ekki í viðskiptum við Símann) og mér finnst sérkennilegt að fólk gargi sig hást út í Stöð 2 fyrir mistök símafyrirtækis.

Þau þrjú sem gengu út gerðu í mínum augum mistök og skildu hin þrjú eftir með allt sviðsljósið. Miðað við umræðuna sem ég hef orðið vitni að í dag þykist ég vita að ég sé í stórkostlega miklum minni hluta með þessa afstöðu en ég ekki lengur í minnsta vafa.

Svo get ég undrast það hér og nú að sem ég ætlaði í mesta sakleysi að hlusta á fréttatímann á Rás 2 kl. 19 í kvöld mættu mér fantafínir tónleikar til heiðurs Bretadrottningu. Það var fullt af fínum flytjendum en ég vildi samt frekar heyra fréttirnar. Hvaða skyldur hefur RÚV? Ég gái ekki reglulega hvort RÚV ætlar að standa við fréttatímann og flaska reglulega á því þegar íþróttaviðburðir skáka honum út í horn.


Vaðlaheiðargöng

Ég er ekki mesti landsbyggðarráparinn en ég varð svolítið logandi hrædd - sem sagt hefði getað orðið það en er svo mikill nagli - þegar ég sat sem farþegi í rútu í fyrrasumar á leið til Neskaupstaðar í þreifandi þoku. Ég kannast ekki við þá tilfinningu á Norðurlandi þannig að ef ég réði kæmu Norðfjarðargöng á undan Vaðlaheiðargöngum.

Og hvernig í veröldinni stendur á því að fjórðungssjúkrahúsið er handan við þetta Oddsskarð?


,,Hjarta mannsins" eftir Jón Kalman Stefánsson

Einfaldlega albesta bók sem ég hef á ævi minni lesið.

Ég get varla útskýrt það. Reyni það svona: Það er saga, söguþráður. Hún er í fortíð mér svo fjarlægri að viti ég eitthvað um þetta líf er sú vitneskja úr sagnfræðibókum. Þó er ekki fráleitt að foreldrar mínir gætu þekkt þarna eitthvað til, annars að minnsta kosti foreldrar þeirra.

Fólk dregur fram lífið en Jón er svo jarðbundinn í frásögn sinni að hún nýtur sín sjálf, laus við viðkvæmni eða tilfinningasemi höfundar. Höfundur finnur til með persónum sínum en treður þeim tilfinningum ekki upp á lesandann. Fyrir vikið streymdu hjá mér tárin á sólbjörtum svölunum í mínu verndaða 21. aldar tækniumhverfi.

Stíllinn er hárnákvæmur. Af því að frásögnin er hæg, til þess að gera á sama hraða og blóðið rennur í fólki í myrkri og kulda, vinna sparlega notuð greinarmerkin á móti og sem sagt gefa svolítið í. Örugglega ekki tilviljun.

Og svo eru sumar setningarnar bara óendanlega fallegar. Myndirnar teiknast svo skýrt upp að mér finnst ég geta verið 20. aldar Íslendingur að lesa um samferðafólk mitt í lífinu.

Ég vona að sem fæstir lesi um þessa tilfinningahlöðnu upplifun mína því að slíkt hefur áhrif á væntingastuðulinn. Það er ekki bara bókin sem hrífur mann heldur skiptir líka máli í hvaða umhverfi maður hrærist á meðan, þ.m.t. hvaða bók maður bjástraði við að lesa næst á undan. Í mínu tilfelli vann allt með Hjarta mannsins og hún ER albesta bók sem ég hef lesið.


19. sætið, og hvað með það?

Lítur fólk á þessa söngvakeppni sem eitthvað annað en bara afþreyingu? Mitt uppáhald núna er þessi „Euphoria“:


Fjölnotin í Hörpu

Ári eftir vígslu Hörpu er ég búin að fara þangað nokkrum sinnum, hef þó ekki séð rómuðustu sýningarnar sem fólk verður sem andstyst yfir. Ég er heldur ekki búin að fara ofan í hinn háttumtalaða bílakjallara, enda er húsið fjölnota og hugsanlegt að ég muni ekki nýta mér alla möguleika.

Í gær sá ég HOW TO BECOME ICELANDIC IN 60 MINUTES sem er klukkutímalöng skopstæling á klisjum, okkar eigin og annarra, um Íslendinga. Reyndar óf Bjarni Haukur Þórsson inn í okkar klisjur klisjum um Grikki, Ítali, Spánverja, Dani, Norðmenn og Rússa með (meintum) framburði (þeirra) á ensku, göngulagi og hugarfari. Það var mökkur af Íslendingum í salnum en líka mjög margir útlendingar, enda Kaldalón smekkfullur salur, og fólk hló mikið og hraustlega.

Það kostar 3.900 krónur sem mun vera jafngildi u.þ.b. 25 evra. Það hlýtur að vera hægt að mæla með því.

[ alt texti myndar ]

Grr, frumskógur flugfélaganna

Ég styð samkeppni.

Endurskoðun: Ég vil styðja samkeppni, en það er ekki nokkur leið að finna betra flug til Mið-Þýskalands á tilteknum tíma en með Icelandair. Og þó spurði ég dohop.is.


,,Maður er sleginn í andlitið, andlitið gleymir kannski högginu, maðurinn ekki."

Og neðar á sömu síðu (30) í „Hjarta mannsins“:

Það verður enginn sterkur á mýktinni.

Jón Kalman Stefánsson svíkur mig ekki. Hann er á svipuðum slóðum og í „Himnaríki og helvíti“ og „Harmi englanna“ og dregur upp svo sterkar myndir. Þetta var harðbýlt land, er það kannski enn en ekkert í líkingu við það sem tíðkaðist fyrir daga tækninnar.

Ég er ekki búin með bókina, heppin.


Kastljósið á Huang

Ég gat ekki betur heyrt en að ólík sjónarmið kæmust óáreitt í gegnum Kastljósið í kvöld. Ég hef verið frekar efins um skynsamlegheit þess að selja/leigja einhverjum - hverjum sem er - stórt landflæmi til að byggja upp hótel og golfvöll og eftir þáttinn í kvöld, þar sem ýmis sjónarmið voru viðruð, er ég alveg viss. Ég - sé - ekki - viðskiptavitið - í - þessari - hugmynd.

Einhver á eftir að sannfæra mig um að Huang trúi því sjálfur að þetta sé hagkvæmt og mögulega arðbært. Þarna verður hvað kaldast á landinu og veðrið breytist ekki vegna þess að einum manni hugnast það.

Ég trúi ekki á þessa uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Gleyma menn því að þarna eru ferðaþjónar nú þegar?


... við velsæla framtíð þeirra ... (bls. 70)

Ég á ekki eftir að komast í gegnum bókina með þessu áframhaldi.

Forsetakjör

Hefur engin alvöruumræða orðið um að leggja embætti forseta Íslands niður?

Annars sé ég sjálf, sá umræðufíkill sem ég er, fram á spennandi einn og hálfan mánuð. Ég reikna með að fá fram afstöðu og afstöðu til afstöðu í öllum ómögulegum spjallþáttum til 29. júní. Ég spái því að margir skipti um skoðun og að úrslitin komi helmingnum á óvart. 

Ég hlustaði nefnilega á einn frambjóðandann á Sprengisandi í morgun.


Hvað er hilluborðbrún?

Ég er komin á bls. 30 í nýrri þýðingu og hef ekki góða tilfinningu fyrir textanum.

Marion Briem kyngreind/ur á bls. 162 í Einvíginu ...

... en ég næ því samt ekki.

Nú ég er búin að kokgleypa nýjustu bók Arnaldar, Einvígið. Ég ber bækur hans alltaf saman við bækurnar sem mér hafa þótt bestar, Grafarþögn og Dauðarósir. Þessi er algjör miðlungur. Aðalplottið verður í besta falli spennandi undir blálokin, harmleikur sögunnar er reyndar harmrænn en gamla sagan af Marion á berklahælinu var alls ekki fyrir minn smekk svo ég orði það þannig.

Það er erfitt að vera alltaf borinn saman við Grafarþögn.


Svar við bréfi Helgu - leikhús

Mér finnst Jón Viðar leikhúsgagnrýnandi rökstyðja álit sitt ágætlega í leikdómunum en ég sé ekki hálft eins margar sýningar og hann - kannski er ágætt að sjá færri sýningar og finnast tilbreyting í þeim. Ég sá Svar við bréfi Helgu í forsýningu, hafði ekki lesið bókina og skemmti mér konunglega. Mér skilst að textinn sé mikið upp úr bókinni og vissulega má til sanns vegar færa að hann sé svolítið bóklegur en ég hló mjög mikið fram að hléi. Þá tók tragíkin völdin.

Og nú byrjar Höllin í ríkissjónvarpinu sem ég held að ALLIR kunni að meta.


Að hjóla er góð skemmtun

Lúxusvandamál mitt þessa dagana er að ég er farin að mæta svo mörgum hjólreiðamönnum - og ég á mínu hjóli - að við þurfum stundum virkilega að íhuga hvor hjólreiðamaðurinn á réttinn. Enda er bílaumferð hverfandi ...

Ef leiðsögumaður ...

Leiðsögumenn hafa árum saman barist fyrir því að fá löggilt starfsheiti. Helsti stopparinn er hjá Samtökum ferðaþjónustunnar. Það geta vel verið rök gegn löggildingunni og sumir góðir vinir mínir (sem ekki eru í ferðaþjónustunni) eru ekkert á því að við leiðsögumenn eigum að fá löggildingu.

Það eru til lélegir fagmenntaðir leiðsögumenn, já já, og það eru til óskólagengnir leiðsögumenn á heimsmælikvarða en við höldum samt að löggilding myndi meðal annars koma í veg fyrir þá sjóræningjastarfsemi að útlenskir hópstjórar sem hafa einu sinni komið til landsins kæmu síðan strax næsta ár sem „leiðsögumenn“ án þess að vita nokkuð umfram það sem þeir heyrðu í sinni fyrstu ferð.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF, var í heimsókn á Bylgjunni í vikunni að tala um Kerið og aðkomu að því - eða ekki aðkomu því að Kerið er í einkaeigu þótt Vegagerðin hafi gert bílastæðið og ferðamálaráð stíginn. Og hún hafði orð á leiðsögumönnum!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband