Fimmtudagur, 26. apríl 2012
Viðbrögð við einelti
Ég er í bobba. Ég fordæmi einelti en ég er ekki alltaf viss um að fólk sé að tala um það sama. Ég heyrði í Stefáni Karli regnbogabarni í útvarpinu í morgun og hann lýsti hálfgerðri hryllingsmynd.
Þegar barn er lagt í einelti er það oft flutt í annan skóla í öðru hverfi frekar en að taka á gerandanum/gerendunum. Samt er það engin lausn. Samt er talað um að börn sem eru lögð í einelti hafi ekkert gert til að verðskulda það.
Það er eitthvað í röksemdunum sem gengur ekki upp.
Ef vandinn er ekki hjá barninu sem er lagt í einelti - sem ég er sammála um að verði fyrir einelti fyrir engar sakir - af hverju er þá ekki lausn að flytja barnið frá gerandanum?
Mér finnst að gerendur eigi að finna á eigin skinni að þetta er ekki gott. Gerandinn á að flytja í annan skóla ef hann sér ekki að sér.
Ég veit að ég er á hálum ís og geri ráð fyrir að sá einstaklingur sem er lagður í einelti fyrir engar sakir verði var um sig og eigi erfitt þótt hann sé fluttur til ef ekki er ráðist að rót vandans.
Já, það þarf að breyta gerendunum. En ef þolandinn er ekki sá seki (sammála því auðvitað) ætti hann að græða á flutningnum nema hann sé þegar orðinn svo skaddaður af eineltinu að það verði ekki aftur snúið. Og það væri fáránleg niðurstaða.
Kann ekkert á Olweus og ætti auðvitað ekki að játa þetta ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 23. apríl 2012
Kræklingar eru matur
... enda enn r-mánuður, apríl.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 19. apríl 2012
Veður og sr. veður
Ég tek eftir því að íslensku veðurspánni fyrir Reykjavík og nágrenni ber ekki saman við þá norsku. Mér til mikillar gleði tökum við í gönguklúbbnum meira mark á þeirri norsku um helgina. Styttist þá ekki líka í norska yfirvaldið og norsku krónuna?
Er pólitík í veðurkortunum? Ja, ef það er pólitík í forsetaframbjóðendum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. apríl 2012
Nýja upprásin
Hvorki útrás né innrás, heldur er Esjustígur ansi fjölfarinn á fallegum vorkvöldum. Kannski oftar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. apríl 2012
Um ferðaþjónustuna á Sprengisandi
Ég missi (næstum) aldrei af Sprengisandi Sigurjóns M. Egilssonar en nú hljóp aldeilis á snærið hjá leiðsögumanninum. Í dag, 15. apríl, talaði Sigurjón við Ólafíu Sigurjónsdóttur sem er nánasti vinur skemmtiferðaskipanna hjá Atlantik. Mér til undrunar hefur hún ekki áhyggjur af stóra skipadeginum 18. júní.
Svo talaði hann við Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, sem er mjög bjartsýn gagnvart framtíðinni. Gott ef hún var ekki líka þeirrar trúar að náttúruöflin ætluðu að hafa sig hæg, a.m.k. á þessu ári. Já, ég skal taka undir það.
Þá kom Birkir Hólm Guðnason hjá Flugleiðum (ég sver að ég hélt að hann væri hjá Iceland Express) og var mjög kátur með að áfangastöðum hefði fjölgað (Denver er nýr) sem og vélum (úr 14 í 16 - virkilega hjá Icelandair?) og þeirrar trúar að ferðamenn sem stoppa fyrst stutt þegar þeir eru á leiðinni annað komi aftur. Það þarf að fjölga ferðamönnum utan háannar, október til maí.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri rak lestina, reifaði nýja lagasetningu um ferðamál sem er í vinnslu og talaði almennt um samþættingu innan greinarinnar.
Þau töluðu ekkert mikið um leiðsögumenn en þeir skipta samt miklu máli í upplifun margra ferðamanna til landsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. apríl 2012
Biðlaun og eftirlaun forseta
II. kafli. Forseti Íslands.
2. gr. Fyrrverandi forseti Íslands á rétt á eftirlaunum að liðnum þeim sex mánuðum sem hann nýtur biðlauna, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1990.
Eftirlaunin nema 60% af launum forseta Íslands eins og þau eru ákveðin af kjararáði hverju sinni. Ef forseti hefur gegnt embættinu lengur en eitt kjörtímabil eru eftirlaunin 70%, en 80% hafi hann gegnt embættinu lengur en tvö kjörtímabil.
Þessi kafli er úr lögum nr. 141/2003 sem voru felld úr gildi með lögum nr. 12/2009.
Ef Ólafur Ragnar Grímsson hættir 31. júlí næstkomandi verður hann með 80% af launum sínum.
Um næsta forseta gildir hins vegar þessi grein úr lögum nr. 10/1990:
4. gr. Sá sem kjörinn hefur verið til og gegnt hefur embætti forseta Íslands á rétt til launa skv. 1. gr. í fyrstu sex mánuði eftir að látið er af embætti. Taki fyrrverandi forseti stöðu í þjónustu ríkisins fellur þessi launagreiðsla niður ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunurinn til loka sex mánaða tímans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. apríl 2012
Samkeppni spamkeppni
Nú er ég búin að sjá margar massaðar auglýsingar (eða þá sömu mörgum sinnum) frá Bauhaus sem ætlar líklega að veita öðrum smásölum samkeppni og hugsanlega líka að stækka markaðinn.
Þjóðverjar eru eins velkomnir og hverjir aðrir inn á markaðinn fyrir mér. Ég bara get ekki að því gert að ég efast alveg í botn um að þetta sé skynsamlegt. Húsið er höll að stærð, auglýsingarnar hljóta að vera rándýrar og uppbygging í steinsteypu og timbri er í hægagangi.
Ég get heldur ekki að því gert að ég tek talsvert mark á því sem maðurinn í Múrbúðinni sagði í útvarpinu í síðustu eða þarsíðustu viku: Menn segja að maður eigi að fagna samkeppni en ég óttast mest að Landsbankinn taki Bauhaus í fangið með haustinu því að bankinn má ekkert aumt sjá.
Já, Múrbúðin er í samkeppni við aðra á byggingavörumarkaði en ég held að hún sé í einkaeigu og ég held að verðlagning þar sé sanngjörn. Það er ekkert gagn að afslætti ef verðið hefur áður verið skrúfað upp í topp þannig að ég vil heldur sanngjarnt verðlag og engan afslátt.
Ég er bara ekki að fara að byggja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 8. apríl 2012
,,Aldrei fór ég suður"
Ég fór svo sem ekki vestur (landfræðilega meira í norður samt) til að fylgjast með rokkhátíð alþýðunnar en Inspired by Iceland færði mér tónleikana heim í stofu. Og þvílíkt sem það var gaman. Ekki allar hljómsveitirnar skemmtu mér, skárra væri það, en alveg áreiðanlega sjálfum sér og mörgum öðrum.
Ég var aðeins að velta fyrir mér umhverfinu sem tónlist sprettur úr. Það má vel vera að engin hljómsveitanna eða flytjendanna 32 sem eru á listanum fái greitt fyrir að koma fram, hvorki af aðgangseyri né beint úr sjóðum hins opinbera en vonandi eru nógu margir sem kaupa diskana eða einstök lög. Ég uppgötvaði Retro Stefson sem var þangað til í gærkvöldi bara nafn á blaði fyrir mér og ég mun sannarlega leggja eyrun betur við í framtíðinni.
Ég er að velta fyrir mér úrtöluröddunum vegna til dæmis listamannalauna. Það er nefnilega ekki alltaf svo einfalt að þeir borgi beint sem njóta. Ég fékk þessa tónleika alveg gefins. Ég borga hins vegar skatta og á sumt sem er líka alveg gefins, til dæmis heilbrigðisþjónustu, reynir lítið hjá mér. Hins vegar tek ég þátt í þeim kostnaði og það með glöðu geði. Tónleikunum er sjónvarpað á alheimsvefnum sem þýðir að ekki aðeins ég í Reykjavík heldur Unnar í London og leikhúsvinir hans geta fylgst með - og heillast. Þeir koma sumir og aðrir segja frá og taka þátt í veltu ferðaþjónustunnar.
Lífið er ekki alltaf svo einfalt að maður geti rukkað alla réttlátlega og nákvæmlega fyrir það sem þeir njóta. Og listageirinn á allt gott skilið, líka í efnahagslegu tilliti.
Mörg eru hrikalega flink með gítara og hljómborð, raddir og framkomu, og bjuggu til ógleymanlega stemningu. Líka fyrir mig sem hef slappt tóneyra og er þjökuð af bullandi lagleysi (að sögn).
Ég þakka Mugga, Mugison og öllum hinum páskalega fyrir allt dekrið og ætla í búðina eftir helgi til að kaupa disk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. apríl 2012
Strætó á páskum
Ég stefni á svakalegt ferðalag um páskana upp í 129 Reykjavík eða eitthvað álíka. Strætó fer ekki alla leið sem er allt í lagi fyrir mig því að ég ætla að taka hjólið með í uppsveitirnar og hjóla svo til baka eftir heimsóknina. En ég var ekki alveg viss um að allir vagnar tækju hjól þannig að ég fór að grúska í straeto.is. Og viti menn, ég fann þetta:
Heimilt er að ferðast með barnavagna og barnakerrur í vögnum strætó, meðan (og ef) rými leyfir.
Reiðhjól eru einnig leyfileg meðan (og ef) rými leyfir. Barnavagnar og hjólastólar hafa forgang og geta hjólreiðamenn þá átt það á hættu að vera vísað úr vagninum með hjól sín.
Látum vera þó að ég fái ekki að fara í vagninn ef svo óheppilega skyldi fara en að eiga það á hættu að vera úthýst ef barnavagn eða hjólastóll mætir finnst mér dálítið hæpið þótt ég skilji vitaskuld forganginn. Vitanlega.
Eitthvað segir mér samt að það reyni ekki oft á þetta. Og ég er ákveðin í að taka sénsinn en hafa borð fyrir borð og mæta klukkutíma of snemma í búðinginn. Verst að veðurspáin skuli ekki vera áreiðanlegri ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 2. apríl 2012
kjosa.betrireykjavik.is
Ég er sæmilega nýjungagjörn og tók því fagnandi að greiða atkvæði í íbúakosningunni (þótt Þrándur finni henni allt til foráttu). Í hverfinu mínu gat ég valið á milli 10 verkþátta - og ég valdi ekki hundagerðið í Öskjuhlíðinni.
Lokadagur á morgun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. mars 2012
Antoni Tàpies (1923-2012)
Á Kjarvalsstöðum er núna framúrstefnuleg sýning (og líklega sú dýrasta sem sett hefur verið upp á Kjarvalsstöðum). Listamaðurinn er Spánverji, nýlátinn, og Kjarvalsstaðir eru fyrsta safnið sem setur upp sýninguna eftir lát hans. Hún varð næstum innlyksa í hafi, ehemm, en komst hingað og verður uppi fram í maí.
Mér varð mest starsýnt á eitt verk úr leir og sandi og einhverju og hinu og þessu. Get ekki útskýrt það frekar - en mæli með að fá leiðsögn um sýninguna. Þvílíkt sem það hjálpar.
Og Kjarval er líka sá draumur sem ég var búin að gleyma. Það er svo marg nálægt sem manni sést yfir. Og ég sem starfa við leiðsögn, össj.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. mars 2012
Súkkulaði og (ekki) súkkulaði - 7.000 meðmæli
Ég geri mér grein fyrir að fólk notar Facebook í og með til að spauga en svo er að sjá sem frétt um að súkkulaði sé hollt hafi fengið 7.000 meðmæli. Nokkrir vina minna hafa lagt út af meintri frétt, auðvitað allt í gríni, en í alvöru er ég með viljayfirlýsingu:
Mér finnst dökkt súkkulaði betra en ljóst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. mars 2012
Málsnið
Bróður mínum, kennara á Selfossi, rann blóðið til skyldunnar nýlega eftir að hafa lesið grein eftir Hermann Stefánsson sem skorar á karla að líta í eigin barm. Hermann er uggandi yfir þeim fyrirmyndum sem blasa við ungum körlum og hvetur til þess að karlar sem telja sig hafna yfir gagnrýni geri það samt einmitt ekki, heldur taki gagnrýnina til sín.
Og bróðir minn tekur áskoruninni sem karl, faðir og hugsanlega afi í framtíðinni, staldrar við og lítur í eigin barm. Allt gott um það. Og ég er líka sammála honum um að það er varhugavert að líta undan og vona að vandinn leysist af sjálfu sér. Það er ábyrgt að spyrna við fótum og malda í móinn, eða vera hávær, þegar fram af manni gengur.
Hins vegar er ég svo oft að velta fyrir mér tungumálinu, tungutakinu, málsniði. Og Trausti velur að kallast á við frummælanda, Hermann, í sinni grein. Hann slettir og skrifar erlend orð upp á íslenskan máta. Það vakir eitthvað fyrir honum og ég ímynda mér að hann velji þetta málsnið, þessi orð og þessa nálgun af því að þá nái hann kannski til lesenda sem gætu rankað við sér.
Ég get ekkert fullyrt en ég held að til sé markhópur sem tekur frekar eftir töff, meira kúl og miklu meira næs en geðugur, meira aðlaðandi og miklu meira heillandi. Er það sami markhópur og tekur eftir: Þarna siglir hin rósfingraða morgungyðja upp á himins bláa bogann þegar hann hefur bitið á?
Ég held að það geti verið, já. Það fer allt eftir samhenginu. Og dropinn holar steininn. Þótt fáir lesi hverja grein sem vinnur gegn vondum staðalmyndum geta þær ratað til sinna lesenda eins og hvert annað merkingarbært ljóð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 21. mars 2012
Áhyggjur af greinarmerkjum ...
Undanfarið hefur það ágerst að menn setji bil á undan upphrópunarmerki! Mér finnst það eins órökrétt og að setja bil á undan punkti eða kommu í upptalningu. Kannski verð ég á endanum í minni hluta með þessa skoðun af því að þróun í tungumáli segir ekki svo obbossla gjörla til um rétt og rangt.
Annað sem veldur mér STÓRFELLDUM áhyggjum í greinarmerkjasetningu er vaxandi tilhneiging til að setja þrjá punkta með í beina tilvitnun þótt tilvitnunin sé augljóslega bara hluti af málsgrein hvort eð er. Glænýjasta dæmið er úr stofnanabréfi sem birt var á vefnum. Ég hef vanist því að punktarnir séu bara með ef málsgreinin (frá upphafsstaf í fyrsta orði til lokapunkts) er næstum öll með í gæsalöppunum. ... hægja ranglega á lestrinum ...
Erfitt að útskýra. Tóm vaðandi tilfinningasemi í mér!
Í síðustu viku hlustaði ég á visir.is á textabrot af FM (sem ég hlusta aldrei á) þar sem ungt fólk fór mörgum orðum um pirringsatriði í tungumálinu. Ég var ekki sammála öllu sem þetta góða fólk gerði að umtalsefni, sbr. meintan mun á takmarki og markmiði. Ég held að sá einstaklingur hafi ruglast á takmarki og takmörkun. Svo bar ýmis framburðaratriði á góma og til dæmis það að jólamaturinn heitir hamborgarhryggur en ekki hamborgarahryggur þannig að unga fólkið er ekki dautt úr öllum æðum. Þá dettur mér auðvitað í hug að nefnd á þingi heitir saksóknarnefnd en ekki saksóknaranefnd. Útbreiddur misskilningur ...
Það var sem sagt hressandi að heyra fólk ergja sig yfir óvandvirkni og latmæli og almennu sleifarlagi. Og hugsum síðan aðeins um gæsalappirnar ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 18. mars 2012
Vakinn og sofinn í fleirtölu?
Vaktir og sofnir? Ég held að ég hafi sagt í útvarpi allra höfuðborgarbúa vaknir og sofnir og nú held ég að það sé rangt. Ég finn engar óyggjandi heimildir um að það sé rétt. Hvort sem það er rangt eður ei er það lítið notað og það veldur efasemdunum.
Hann var vakinn af værum blundi, þeir eru vaktir - það fer ekki á milli mála.
Hann er sofinn, það hljómar svona og svona. Hann er hins vegar illa sofinn hljómar mjög eðlilega.
Þetta er allt spurning um samhengi.
Þetta síkvika tungumál er algjört yndi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. mars 2012
MA-ritgerð
Ég er í stökustu vandræðum. Ég á eftir að skrifa MA-ritgerðina mína í málfræði/bókmenntum/þýðingum. Ég skrifaði BA-ritgerðina mína um húmorinn í bókum Auðar Haralds, snilldarefni og skemmtilegt viðfangsefni. Svo ætlaði ég að skrifa MA-ritgerð um húmorinn hjá Hugleik. Svo ákvað ég að skrifa frekar um þýðingu mína á danskri glæpasögu. Í síðustu viku ákvað ég að skemmtilegast yrði að skrifa um meintar málvillur og/eða þróun í talmáli, e.t.v. andspænis ritmáli.
Nú er mig farið að dauðlanga til að skrifa um Mið-Ísland og aðra uppistandara. Grín hér og nú er svo mikill samtími að það er skrambi freistandi umfjöllunarefni. Ég er alls ekki verkfælin - hvers vegna í greflinum er ég þá ekki byrjuð á lokaverkefninu? Ég lifi m.a.s. á tölvuöld ...
Og svaraðu nú!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. mars 2012
,,Skipulagðar glæpaklíkur?"
Kannski tók ég skakkt eftir í kvöldfréttatíma útvarps en mér fannst vera sagt að ekki stæði til að banna skipulagðar glæpaklíkur. Skipulagðar? Glæpaklíkur? Fremja ekki slíkar klíkur skipulagða glæpi? Og á bara að refsa en ekki banna? Hvað með forvarnir? Eða er ég allt í einu farin að tala fyrir forvarnaheimildum sem eru verri en glæpirnir sjálfir? Ég horfði á viðbjóðslegan glæpaþátt í sjónvarpinu í gærkvöldi þannig að ég er kannski komin með *skelkuna.
Í gönguklúbbnum mínum kom upp snilldarhugmynd um síðustu helgi, sú að klæða vafasamar klíkur í flíkur með útivistarmerki með það fyrir augum að tóna niður glæpagenið.
Ist das was?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. mars 2012
*Ég vill
Ég er alltaf aðeins að velta fyrir mér tungumálinu, réttu og röngu, málvenjum, málsniði, (ó)þörfum breytingum, þróun og hinu nýja dvalarhorfi - svo eitthvað sé nefnt.
Í tíma í síðustu viku kom okkur sem endranær saman um að fyrir mestu væri að málkerfinu væri ekki ógnað. Það getur vel verið að menn segi yfir línuna eftir 30 ár *mér langar eða *mig hlakkar og þótt okkur finnist það ljótt og jafnvel dálítið óþægilegt er það ekkert alvarlegt. Varla rangt og alls engin ógnun við málkerfið. Það truflar mig að fólk spái í *einhverju en hver getur fullyrt að það sé rangt?
Svo eru villur eins og *ég vill sem eru frekar rökréttar af því að núþálegar sagnir eru eins í 1. og 3. persónu eintölu, sbr.
ég mun og hann/hún/það mun,
ég á og hann/hún/það á,
ég ann og hann/hún/það ann,
ég kann og hann/hún/það kann,
ég man og hann/hún/það man,
ég veit og hann/hún/það veit,
ég þarf og hann/hún/það þarf,
ég skal og hann/hún/það skal,
ég má og hann/hún/það má
- en svo ég vil og hann/hún/það vill.
Ef hins vegar málnotendur taka upp á að segja hann vill og *hún vil í þeirri trú að sagnir beygist eftir kynjum fer kerfið að skjálfa. Og þá verð ég áhyggjufull.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. mars 2012
Hamingjusamar hænur og óhamingjusamir hundar
Mikið er erfitt að fá aldrei að vita hvaða dýr hafa lifað sæmilega hamingjuríku lífi. Í morgun heyrði ég viðtal við Sif Traustadóttur sem var kjörin formaður Dýraverndarsambandsins um helgina. Hún flutti mér þá raunalegu fregn að vistvænu eggin úr hinum meintu hamingjusömu hænum væru bara úr hænum sem fengju að valsa frítt, en samt þröngt, í húsi. Þær eru ekki í búrum en fá heldur ekki að fara út. Ég er ekki grænmetisæta og kannski er hræsnisfullt að segjast vilja að dýr lifi bærilegu lífi þangað til þau eru drepin svo að ég geti étið þau en ég sætti mig við að svona er fæðukeðjan. Ég vil eftir sem áður að dýr séu kát meðan þau eru á dögum. Ég trúi enn að lömbin leiki við hvurn sinn fingur á fjöllum sumarlangt. Ég man eftir Sif í Silfri Egils í vetur þar sem hún talaði um verksmiðjubúskap kjúklinga, líka á Íslandi. Ohh.
Ekki bætti svo úr skák að heyra um tíkurnar sem eru geymdar í búrum til undaneldis og þegar þær eru hættar að framleiða hvolpa er þeim, mörgum hverjum, komið fyrir - handanheims.
Grrr.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 9. mars 2012
Í Þjóðmenningarhúsinu
Alveg gæti ég unað mér dagana langa í landsdómi við að hlusta, horfa á fólkið og fylgjast með hvernig efninu er haldið til haga en eftir tvö stutt innlit er mér efst í huga undrun yfir því að fréttamennirnir eru látnir sitja eins og hænur á priki, í besta falli með aukapúða í sætinu og fartölvupullu undir fartölvunni. Og þeir tvíta stöðugt og gera það vel, a.m.k. þar sem ég fylgist með.
Ég gef mér ekki tíma í neinar slímusetur. Þar fyrir utan eru gerð hlé af og til, t.d. ef næsta vitni er ekki alveg mætt, og þá myndi maður hvort eð er ekki nenna að sitja inni og kannski missa sætið sitt næst þegar vitnaleiðsla byrjar.
En sagan er í gangi þarna og það er forvitnilegt að þefa aðeins af henni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)