Íslenska friðargæslan ... strikes back

Þetta er aðeins of fyndið. Ég veit ekki hvað það eru mörg ár síðan ég sótti um í friðargæslunni og fékk synjun. Á miðnætti fékk ég hins vegar tölvupóst þaðan um að tölvupóstur minn hefði verið móttekinn.

Hriktir í utanríkisþjónustunni eða hvað?


,,Þú dast mér í hug"

Þýskur vinur minn sagði þetta við mig um daginn þegar hann sagði mér að hann hefði verið spurður um leiðsögumann í tiltekið verkefni. Ég varð pínulítið hvumsa en það er ekkert hægt að setja út á þessa setningu.

„Mér datt þú í hug“ hefði ég sjálfsagt sagt sjálf en í báðum tilfellum eltir sögnin frumlagið, alveg eins og manni hefur skilist að sé „rétt“ og viðtekið. Að vísu er hún þá í seinna tilfellinu ópersónuleg og eiginlega órökréttari, „rétta“ útgáfan mín.

En hvað er sossum „rétt“ annað en það sem meiri hlutinn hefur komið sér saman um að fari betur en annað? Málfræðin er að minnstu leyti búin til fyrirfram, hún er eftirálýsing til að samræma sem best svo að við tölum sem mest saman.

Það er meinhollt að hlusta á útlendingana sem hafa lært íslensku þegar maður vill kanna þanþol tungumálsins.


Laun fyrir túlkavinnu

Það er undarlegur andskoti að þegar fólk ætlar að rukka fyrir huglæga vinnu (nú er ég ekki að tala um bankastjóra eða endurskoðendur) verður það umsvifalaust taugaóstyrkt og veigrar sér við að rukka eðlilega. Vinur minn er að fara að túlka flókinn loftslagstexta á fyrirlestri sem verður í á að giska klukkutíma og hann spurði mig hvort það væri of mikið að rukka 5.000 á tímann.

Nei, það er of lítið.

Hann þarf að kunna tvö tungumál vel, hann þarf að skilja efnið, hann þarf að taka frá tíma á miðjum degi, hann þarf að borga 40% í skatt og hann þarf að koma sér á staðinn.

Alveg borgaði ég glöð 17.000 um daginn fyrir þriggja tíma vinnu hjá rafvirkja.


Sextíuogníu á árinu

Í sjónvarpinu mínu sagði fráfarandi forseti á nýársdag skýrt og greinilega að hann ætlaði að hætta á Bessastöðum. Svo heyrðist mér hann segja að hann hlakkaði til að taka loftslagsmál í fóstur, svona eins og Vigdís tók tungumál að sér.

Ég er til í að veðja miklu að á morgun, hinn, hinnhinn eða í síðasta lagi á mánudaginn segir fráfarandi forseti - aftur - að hann sé að flytja í litla krúttlega rauða húsið sitt í  Mosfellsbænum.

Þar er líka hellingur af loftslagi. En hann er auðvitað í fullu starfsfjöri enda fæddur 1943 og gæti ruggað ýmsum bátum í 30 ár enn. Bara ekki í Bessastaðafjöru.

Ég legg flatskjáinn undir og allt það sjónvarpsefni sem birtist frá blaðamannafundinum.


Að hlusta á hljóðbók er góð skemmtun

Ástæðan fyrir því að ég hlusta sjaldan á Rás 1 er að þar er gjarnan lesið fyrir hlustendur. Því fylgir oft lestrartónn - og þá er ég ekki einu sinni að tala um veðurfréttirnar, Skarðsfjöruvita og Útnárasker - að ég tali ekki um messutóninn sem vekur mér sama hroll og flugfreyjutónninn. Inn á milli eru vissulega viðtalsþættir og fréttir sem þægilegra er að hlusta á. Það er svo margt útvarpsefni í boði að ég á í engum sérstökum vanda með að finna stöðvar mér að skapi. Í sérstöku uppáhaldi er ... nei, annars, leyndó.

Það þarf ekki að vera lestrartónn, það er hægt að leiklesa og ég fékk lánaða hljóðbók á bókasafninu, bók sem leikarinn Friðrik Friðriksson les. Frábært. Listin er víða.

Hins vegar tekst mér ekki að koma lestrinum á iPoddinn minn þannig að ég get ekki hlustað úti við. Það er verra og ég velti fyrir mér hvort það snúist um að kaupa eða fá lánaða hljóðbókina. Mér finnst það svo ótrúlegt að ég hallast að því að ég sé bara ekki búin að læra á græjuna frá eplinu.


Líf á prenti

Eins og margir aðrir nettengdir Íslendingar les ég helling á netinu en í augnablikinu hef ég bara þá skoðun að Nýtt líf heiti Nýtt líf og ekki Nýtt *Líf*, alveg eins og bókabúð ein heitir Mál og menning, bók Vér morðingjar, baðstaður Bláa lónið, gönguklúbbur Vesen og vergangur, fataverslun Endur og hendur - ólíkt til dæmis Simma og Jóa sem eru tvær ólíkar einingar (einstaklingar). Ég get líka fallist á að fyrirtækisheitið Straumur-Burðarás sé skrifað svo af því að upprunalega er um að ræða tvær einingar sem sameinast svo í einu nafni. Þetta kallast að slá af og málamiðlun vegna þess að allra helst vildi ég skrifa Straumur - burðarás.

Þetta var málfræðispekúler dagsins og nú hef ég sannreynt (enn einu sinni) að ansi margir eru ekki sammála mér. Þegar ég lendi í minni hluta með skoðun mína munu menn geta sagt að ég hafi „rangt“ fyrir mér. Ég gæti spekúlerað lengi dags í málvenjum og málsniðum en nú þarf ég að halda áfram að lesa blöðin.

[Broskall]


Adele syngur fullklædd

Einhver verðlaunaveiting nýlega vakti athygli mína á Adele, söngkonu sem er fædd 1988 og hefur gefið út tvær plötur. Hún á líklega lagið sem var sungið í lokin á síðasta áramótaskaupi. Hún hefur kraftmikla rödd - og kemur fram alklædd!

Gæsahúð!


Misvísandi skilaboð til hugsanlegra háskólanema?

Ég skoðaði HR á laugardaginn þegar háskólarnir kynntu námsframboð sitt næsta vetur. Frábær dagur og vel að kynningum staðið, sýndist mér. Hins vegar velti ég fyrir mér hvort verðandi námsmenn fengju rétt skilaboð. Annars vegar heyrast sögur af fjársvelti skólanna sem geta ekki tekið inn nemendur af þeim sökum, hins vegar er svona glæsilegur dagur þar sem pítsusneiðar, gos og súkkulöð eru í boði, væntanlega í aðdráttarskyni.

Er pláss fyrir alla sem kjósa að fara í nám eða er það bara í greinunum þar sem eftirspurn er minni?

 


Auglýsing með sögu

Það er svakalegt að horfa á Silfur Egils og langa mest til að tala um bílaauglýsingu sem var birt á milli viðtala en ég verð að taka ofan fyrir þeim sem hannaði auglýsinguna um bílinn sem kemst allt í snjó og slabbi, m.a.s. þannig að krakkar komast í skólann í ófærð - og kunna foreldrum sínum engar þakkir fyrir.

Ég man enn, hálftíma síðar, hvaða bíl var verið að auglýsa og finnst leikþátturinn snjall. Varð að segja það - og er hér með búin að segja það við alla sem rápa um síðuna mína í dag. Ef auglýsingar eiga að ná til mín, ehemm, mega þær ekki vera, ehemm, of heimskulegar. Ég vil ekki láta segja mér í auglýsingu að allt verði frábært og ALLIR glaðir ef maður kaupir þennan blandara, hinn bílinn eða einhverja METSÖLUbók (sem einmitt fáránlega margir eru þegar búnir að kaupa).

En ég hlakka samt mest til að sækja hjólið mitt úr yfirhalningu hjá Kríu-hjólum á morgun. Ví.


Að appa, eitt app, mörg öpp

Mig minnir að ég hafi auglýst eftir íslenskum hugtökum fyrir öppin einhvern tímann en þetta vaktist þetta upp fyrir mér í gær þegar ég fékk tölvupóst með spurningu um íslenskt orð fyrir app. Og þá rifjaðist upp fyrir að pabbi minn, ekki af tölvukynslóðinni, hefur oft orð á þessu og má hrósa honum fyrir það. Sumt fólk á hans aldri leiðir samviskusamlega svona óþægindi hjá sér.

Manni er vandi á höndum. Orðið er ekki í orðabók, a.m.k. ekki í Snöru. Ég er ekki tæknifróð en veit samt að þetta snýst um tæki, meiri tækni held ég og meiri hraða kannski. Kannski tengist þetta application, sem sagt notkun, beitingu, ástundun og þegar maður appar sig upp notar maður tækið meira. Hvur veit?

Að appa sig upp er þá kannski að ánetjast. Það er augljóslega verið að reyna að húkka fólk með auglýsingunum, hmm. Í boðhætti er það þá sérlega kjánalegt: Ánetjastu símanum þínum!

Eða þá: Bíttu á, fíflið þitt! Kokgleyptu agnið.

Kannski eru gildar ástæður fyrir því að seljandinn lætur ógert að íslenska hugsun sína.

 


Að tunna + þf./þgf.?

Í tíma í morgun prófuðum við málkennd okkar á nýja sagnorðinu tunna. Ég veit hvort ég léti þolfall eða þágufall fylgja. En þú? Að tunna Austurvöll eða að tunna Austurvelli?

Svo ræddum við sögnina að rústa og eftir því sem mér skildist á kennaranum er orðið aldurstengt hvort því sagnorði fylgir nafnorð í þolfalli eða þágufalli.

Hann rústaði íbúðina?

eða:

Hann rústaði íbúðinni?

Ertu unglingur, miðaldra eða yfir sextugt? Ég gæti séð það á svarinu ...


Dómurinn sem um er rætt

Ég ætlaði að stytta mér leið á vef Hæstaréttar, fletti upp á dómnum, skrunaði beint niður að ÚRSKURÐARORÐUM og varð hissa af því að ég hafði hlustað á fréttirnar. Þetta kennir mér að flýta mér hægt og hrapa ekki að ályktunum. Hins vegar sé ég í hendi mér að þingheimur muni eiga auðvelt með að fjalla efnislega og málefnalega um dóminn á morgun eins og sést á 5. dagskrármáli að til stendur, dómurinn er ekki það margorður.

Og þessi dagskrárliður hlýtur að fá mikið áhorf.


Miskunn smiskunn

Ó, Hugleikur hefur löngum teygt sig í hefðina og híað pínulítið á hana eða kannski frekar viðteknar hefðir eða viðtekinn skilning á hefðum. Við erum sneisafull af klisjum. Vorum kannski, kannski erum við núna öll ósköp meðvituð og ómeðvirk.

Í Þeim glataða tekur Sigga Lára sér það fyrir hendur að biblíast með feður og syni og Babýlon og tapað og fundið og ég hló og hló, ekki sérlega upphátt nema stundum en ofan í mig oft. Þó er nú svo komið að það er fljótlegra fyrir mig að telja þá sem ég þekki á leiksviðinu en hina sem ég þekki ekki, og þekkja mig alls ekki. Bónusinn við að þekkja leikarana er að maður þekkir einstaka takta, en ég verð bara að segja að þetta var mjög harðsnúið lið sem - auðvitað - geislaði af leikgleði í kvöld. Leikmyndin var líka íðilfögur og búningarnir mjög 10.000 ára gamlir - nema ég viti ekkert hvernig Jesús dressaði sig og faðir Abraham og hans synir, hoho, já, og ærnar. Söngurinn var kitlandi skemmtilegur en vá, hvað Rúnar Kristinn Rúnarsson hefur óskaplega fallega rödd. Enda heyri ég fleygt að hann sé á leið í nám í þeim fræðum.

Sá glataði stendur til boða fram í miðjan næsta mánuð. Komaso!

Svo mælti Berglind á sunnudagskvöldi - fórnaði Höllinni fyrir Þann glataða.


Djett?

Ég er alls ekki mótfallin tökuorðum og tala til dæmis hikstalaust um djass, blús og pítsur enda eru svo sem engin önnur nothæf orð til á íslensku um fyrirbærin. Jú, flatbaka var fundin upp um árið en hefur ekki náð meiri hylli en nýyrðið þjál fyrir plast. Eina þýska tökuorðið sem ég kannast við í íslensku er besservisser eða talar nokkur um beturvitrunga? Reyndar man ég núna að ég heyrði skolli gott orð fyrir svona vita um daginn en er aftur búin að gleyma því.

Þótt ég noti þessi hálfútlensku orð eins og ekkert sé skrifa ég þau með rithætti sem ég tel íslenskan. Ef þrýstiloftsflugvél hefði ekki verið valin um árið og svo stytt niður í þotu velti ég fyrir mér hvort við töluðum um djett. Ég meina, ég hef undrast það að fólk skrifi jass og enn meira jazz í ljósi þess að z er eiginlega bara í sérnöfnunum Tarzan og Zoëga - og yrði ég þá ekki að skrifa djett til að vera samkvæm sjálfri mér?

Djók.


Yfirstrumpar lífeyrissjóðanna voru ekki kjörnir ...

... og þar af leiðandi geta þeir ekki sagt af sér. Þeir eiga að segja upp eða segja starfi sínu lausu ef þeir eru þannig innréttaðir. Þeir geta hætt, verið sagt upp eða verið reknir.

Þetta var málfræðibroskall dagsins.


Lífeyrissjóður unga fólksins

Meðan lífeyristaka er langt undan held ég að fæstir leiði hugann að fjárfestingum lífeyrissjóðanna.

.

..

...

Já, ég get ekki hugsað 20 eða 30 ár fram í tímann. Svo fæ ég heldur ekki borgað fyrir það eins og væri ég viðskiptafræðingur og/eða framkvæmdastjóri sjóðs. Ég hef ágætispeningavit en ekki fjárfestingarvit - mér sýnist ég reyndar alls ekki vera ein um það. En úps, ef ég hefði tapað milljarði af annars fólks peningum væri mér órótt, tala ekki um ef ég þyrfti að 470-falda þá upphæð, og það þótt ég hefði áður bara talið fólki trú um að ég væri búin að margfalda innleggið, án innstæðu.

En þetta eru allt bara fræðilegar pælingar og alls engar ávirðingar ...


Lipurleiki í Borgarleikhúsinu

Einhvern tímann skildist mér að ef maður fengi vonda þjónustu segði maður 24 frá því en aðeins átta ef þjónustan væri góð. Kannski heldur maður að maður bæti heiminn (og þjónustuna) með því að segja frá.

Um helgina átti ég erindi í Borgarleikhúsið, ætlaði að sækja miða sem annar tók frá á mínu nafni. Þeir fundust ekki í fljótu bragði (sem var skýring á) og meðan ég beið fylgdist ég með (starfsstúlkunum, afgreiðslukonunum, miðaseljunum - starfskröftunum?) að störfum. Og það var bara unun, heilt lítið leikhús að sjá hvað þær tóku fólki vel. Fólk kemur nefnilega ekki í miðasöluna bara til að kaupa miða.

Ég er markvisst að vinna gegn tölfræðinni því að líklega finnst mér almennt að það ætti ekki að vera  frásagnarvert að fólk vinni vinnuna sína af natni og samviskusemi. En það er samt ekki sjálfsagt.


Og Melabúðin klikkar líka

Það er erfitt að finna matvörubúðir sem maður vill versla við. Keðjurnar eru ráðandi og manni hefur verið komið í skilning um að þær séu ekki traustsins verðar, merki vitlaust og selji blandaðar vörur. Ókei, vottur af alhæfingu í þessu, en sjálf hef ég fengið vonda þjónustu, rangar upplýsingar og útrunna vöru í of mörgum verslunum og þekki aðra sem hafa lent í því sama. Það er til marks um að viðskiptahættirnir eru vafasamir að alltaf þegar maður bendir á mistök eru þau leiðrétt umyrðalaust, líklega af því að andlit verslunarinnar, kassadömur af báðum kynjum, veit að það er hætt við rangri verðmerkingu. Ég hef verið hyskin við að fara aftur í búðina og fara fram á endurgreiðslu þegar ég sé seinna að ég hafi verið tvírukkuð og skammast mín fyrir það. Maður á að láta vita svo hægt sé að leiðrétta.

En svo eru litlu búðirnar eins og Melabúðin og stóra einstaka búðin Fjarðarkaup. Ég fer því miður næstum aldrei í Fjarðarkaup sem er utan míns þjónustusvæðis en ég hef gert mér ferð í Melabúðina af og til síðustu þrjú árin. Hef viljað standa með stöku búðunum og góðu gæjunum þótt það kosti meira.

Í síðustu viku sá ég úrvalssúkkulaði með 40% afslætti í Melabúðinni. Þá kostuðu 100 grömmin 263 krónur í stað 439 og ég sem er að ná dökka súkkulaðiþroskanum ákvað að grípa tvö svoleiðis. Ég leit auðvitað aftan á af gömlum vana og sá að þau runnu út 5. janúar 2012. Samt er ég ekki viðkvæm fyrir dagsetningum, síst á vöru sem hefur líftíma í heilt ár. Þegar ég kom að kassanum sagði ég við andlit verslunarinnar að það væri nú í lagi að merkja útsöluvöruna sem útrunna - sem strangt til tekið má ekki selja - og andlitið sagði að varan væri ekki útrunnin. Það fór þó ekki á milli mála og þá sagði afgreiðslumaðurinn: Þetta var líka á útsölu í desember.

Úff.

Röðin hafði verið svo sniðug að ég brosti bara og sagðist vera viss um að súkkulaðið væri áfram gott og ég ætlaði að kaupa það en myndi líta á þetta næst þegar ég kæmi.

Í leiðinni hafði ég gripið með mér hvítlaukspressu sem var vandlega verðmerkt á 905 krónur. Á strimlinum stóð hins vegar 1898 krónur þannig að ég fór brosandi til afgreiðslumannsins, sýndi honum miðann og pressuna og sagðist alveg hafa fimm mínútur til að fá þetta leiðrétt. Hann brosti samviskusamlega ekki en sagðist ætla inn til Péturs að spyrja hann, kom svo fram aftur og greiddi mér mismuninn.

Kannski verðmerkja þau sjaldan vitlaust í Melabúðinni og ég bara einstaklega óheppin að fá tvær vitleysur í einni lítilli innkaupaferð. Kannski var hann þess vegna alveg laus við þjónustulund, maðurinn sem afgreiddi mig, svona til mótvægis við meintar lágvöruverðsverslanir sem virðast alltaf vita upp á sig sökina.

Í dag fór ég aftur í Melabúðina og sá að góða súkkulaðið sem ég er búin að leyfa mörgum að smakka á var enn á útsölu en nú með nýrri og góðri dagsetningu og ákvað að dekstra við bragðlauka hist og her. Sami maðurinn afgreiddi mig en nú brá svo við að súkkulaðið var alls ekki á útsölu þótt það væri kirfilega merkt þannig. Og í staðinn fyrir að fara aftur inn í búðina og láta hann leiðrétta vitleysuna ákvað ég að offra 200 hundruð krónunum og fara í langa fýlu út í Melabúðina.

Ég var ekki stór kúnni en nú er ég enginn kúnni. Hvernig er Pétursbúð?


Þrír og hálfur tími af Eldhafi í Borgarleikhúsinu ...

... og í mesta lagi 10 mínútum of mikið.

Höfundurinn er frá Líbanon og skrifar væntanlega út frá einhverri eigin reynslu, að minnsta kosti hlýtur viðbjóðurinn að standa honum alltof nærri. Ofbeldi, hryggð, heift og hefndarþorsti er það sem aðalsögupersónan vill uppræta og þess vegna teflir hún saman því fólki sem getur byrjað þá vegferð. Sjálf hefur hún upplifað allt tilfinningarófið og viðbrögð hennar eru þögn.

Af sjö leikurum var ég hæstánægð með fimm, segi ekki meir.

Tónlist og hljóð var allt mjög áhrifaríkt, vann fyrir mína parta óvenjuvel með sýningunni. Það var verulega óhugnanlegt þegar maðurinn með riffilinn var með tónlistina í spilaranum á fullu.

Leikmyndin var ólýsanlega flott og myndkastið færði okkur samviskusamlega á nýja og nýja staði.

Ég vona að Eldhaf gangi lengi.


Loverboy - villandi titill

Ég hef hvergi séð myndina Loverboy með Kyru Sedgwick, Kevin Bacon, Marisu Tomei, Matt Damon og Söndru Bullock á dagskrá. Kyra leikur konu sem er í æsku hlunnfarin um sjálfsagða umhyggju foreldra sinna sem sjá ekki sólina hvort fyrir öðru. Þegar hún vex úr grasi setur hún sér það fyrir að eignast barn sem muni fá alla umhyggju hennar, óskipta. Og það er hrollvekjandi ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband