Föstudagur, 27. janúar 2012
Rauntímakort um strætóleiðir
Í dag fylgdist ég í fyrsta skipti með strætóleiðinni minni á rauntímakorti á vef strætós. Það virkaði, vei, og það mjög vel. Ég sá á 15 sekúndna fresti hvernig leið 3 leið niður Hverfisgötuna.
Allir í strætó!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. janúar 2012
Kossar Stalíns
Ég hélt að sænskan mín væri óaðfinnanleg, ehemm, en þegar ég sá titilinn Stalins kossor skriplaði ég á skötunni. Þetta var auðvitað sænska þýðingin á Kúm Stalíns eftir Sofi Oksanen en það er ekki frítt við að ég hafi séð Stalín í fullmjúku ljósi í augnablik eða tvö. Hvernig ætli titillinn Kusur Stalíns hefði mælst fyrir?
Ég las hana hálfa. Mér finnst hún vel skrifuð og íslenskan falleg.
Af hverju kláraði ég hana þá ekki?
Hún er um togstreitu milli landa, milli sjálfstæðis og ósjálfstæðis, eldri og yngri, sæmdar og skammar - en kjarninn, þungamiðjan og umbúðirnar eru átröskun. Eftir 250 síður var ég farin að átta mig á að sögumaður fegraði fyrir sjálfri sér áráttu sína til að kasta upp matnum sem hún gleypti. Hún sagðist standa sig vel í námi, líta vel út og ná árangri en um leið var hún félagsfælin með afbrigðum, alltaf á varðbergi, sífellt að reikna út heitaeiningar og rög við skuldbindingar.
Þrátt fyrir allt fannst mér þessi fína bók of langdregin og ég tengdi engan veginn við hinn meginþráðinn í henni. Þess vegna skilaði ég henni á bókasafnið þegar hálfi mánuðurinn var uppurinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 22. janúar 2012
EM - HM - HUMMHUMM - GRRRRR
Eins og annað gott fólk verð ég voða bólgin (af ættjarðarást) þegar handknattleiksliðið gengur glaðhlakkalega um annarra liða heimavelli og skorar og ver. Þetta er jákvæð athygli (dálítið neikvæð þegar önnur lið gefa okkur tvö mörk til að fá okkur með í milliriðil til að fá með sér stig) og maður heldur að landið rísi aðeins, erlendar fjárfestingar streymi til landsins, Kínverjar bukki sig og gullið sé innan seilingar.
Eða eitthvað.
En ég kunni ekki við það í dag þegar spurningaþætti Villa naglbíts var ýtt út af dagskrá útvarpsins (ég get nefnilega múltítaskað) og ég skil ekki af hverju hefðbundinni sunnudagskvöldsdagskrá sjónvarpsins er snúið á hvolf út af tveimur annarra landa liðum.
Hefur verið gerð könnun á því hversu margir vilja virkilega hafa handkast (eins og mig minnir að Máni í Harmageddon á X-inu kalli handbolta) á besta áhorfstíma? Er þetta ekki bara hávær lítill hópur sem virkilega vill hafa þetta eins og það er núna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 19. janúar 2012
Drekkum við ótæpilegt salt á jólunum?
Þegar maður fleytir bara ofan af fréttunum, a.m.k. sumum þeirra, fer ýmislegt fyrir ofan garð og neðan. Undanfarin mörgmörgmörgmörg herrans ár hefur verið þrálát umræða um sjávarsalt, Himalajasalt, eðalsalt, msg-lausan mat, hráfæði, hollustu, grænmeti, vínsteinslyftiduft og ég veit ekki hvað og hvað. Ef ég væri í matvælaframleiðslu og pantaði salt frá birgja sem sendi mér gróft salt í sekkjum - þarna vantar til dæmis upplýsingar, lítur venjulegt matarsalt fyrir verksmiðjur út eins og götusalt? - er trúlegt að ég setti upp spurnarsvip og bætti um betur með því að spyrja birgjann út í sendinguna.
Nema ég fengi vöruna á mun betra verði og vildi græða svolítið/dálítið/meira/bönsj.
Og af hverju keyptu kannski 40 fyrirtæki salt af Ölgerðinni - af hverju flytur annars Ölgerðin inn salt til áframsölu? - en 440 ekki? Hvar keypti obbinn af fyrirtækjunum saltið sitt? Sum held ég að séu meira að segja í eigu sömu fyrirtækja og keyptu iðnaðarsaltið. Hmm.
Og þá er spurningin líka hvort það skipti einhverju máli hvernig salt við látum ofan í okkur. Hefur einhverjum orðið meint af? Vitum við það ekki? Er þetta stormur í vatnsglasi? Og að verða léttur andvari sem endar með stafalogni á morgun?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. janúar 2012
Nú er Millennium lokið, nú er fokið í flest skjól
Ég tárast næstum af gleði þegar ég hugsa um sænsku þættina og depurð þegar ég hugsa um að nú sé þeim öllum lokið. Sögurnar voru skotheldar, ádeila á spillingu, fals, undirferli, kerfið og skúrkana. En dásamlegast fannst mér hvernig nostrað var við sum smáatriðin, svipbrigðin sem fengu þá athygli sem þau þurftu og að söguhetjurnar voru ekki alltaf með lausnirnar. Þau voru engar súperhetjur, bara venjulegt fólk í óvenjulegum aðstæðum, að vísu vel gefið fólk sem leitaði lausna og vildi fá botn í málið.
En nú er það búið og Stieg Larsson líka öllum lokið. *dæs*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 13. janúar 2012
Hvað er málvilla?
Samkvæmt orðabók er málvilla skelfilega óljós: villa í máli.
Verður málvilla að heyrast? Er ekki nóg að hún sjáist í ritmáli? Gerir sá sem segist ætla að reima á sig skónna sig bara sekan um stafsetningarvillu?
Er málvilla að segja:
Þau urðu uppvís að því að draga að sér fé? Mér finnst það.
Hann hafði mörg orð um hve honum þætti það ljótt? Mér finnst það.
Hún skuldaði einn fjórða eða 25%? Mér finnst það.
Þar voru hundruðir manna? Mér finnst það.
Menn sem lemja aðra menn er einsleitur hópur. Mér finnst það.
Þau tóku djúpt í árina? Mér finnst það.
Ég hef gaman að þessu? Mér finnst það.
Það er gaman af þessu? Mér finnst það.
Hættir málvilla að vera málvilla þegar meira en helmingur er farinn að tala vitlaust?
Hver ákveður hvað er vitlaust og ljótt í máli? Hvar byrjaði málfræðin? Og hvaða gagn höfum við af því að tala rétt mál?
Ég heyrði í gær að það væri fráleitt að einhverjir Danir segðu aðra Dani tala ljótt eða rangt mál. Bretar tala svo margar mállýskur að þar er eðlilegur munur á mæli manna. Hér hefur hins vegar hver maður skotleyfi þegar kemur að tungutaki. Og ég hef ekki hikað við að skjóta.
| villa í máli, rangt atriði í máli |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. janúar 2012
Vegna útlits eða ekki
Ég les lítið af öfgafullum síðum þannig að ég stend í þeirri meiningu að umræðan um PIP sé öll mjög stillt og yfirveguð. Samt heyri ég auðvitað bæði þá afdráttarlausu skoðun að ríkið eigi að borga umyrðalaust fyrir að fjarlægja iðnaðarsílíkonið og það skorinorða viðhorf að konur sem kjósa þá áhættu að fá aðskotahlut í líkamann eigi sjálfar að axla þá ábyrgð sem fylgir.
Nú hefur læknirinn sem gerði 40 aðgerðir á ári í 10 ár stigið til hliðar vegna eigin veikinda. Ekkert veit ég hvað hann hugsaði eða vissi og ætla ekki að gera honum neitt upp. En getur verið að maður sem flytur inn sílíkon og kemur því fyrir á svona viðkvæmum stað viti ekki um áhættuna af því? Verðleggur hann ekki þjónustuna út frá því? Eða hvernig er verðið myndað? Hvaða tekjur hefur hann haft af hartnær einni ígræðslu á viku til viðbótar við aðrar lýtaaðgerðir á eigin stofu og það að vera yfirmaður á deild á Landspítalanum?
Mér dettur ekki í hug að allar konur sem fá svona sílíkon geri það af hégómleika. Ég er ekki hlynnt því að konur séu með tifandi tímasprengjur innanborðs. En það hlýtur að vera einhver fjárhagsleg brú þarna. Það verður engin sátt um að gróði af svona nokkru hafni í öðrum vösum en þarf að grafa ofan í til að borga fyrir tjónið.
Hver átti að hafa eftirlitið? Klikkaði sá aðili? Ein vinkona mín gróf upp 10 ára gamla Veru þar sem einhverju í þessa veru var spáð. Var þetta ekki pínulítið fyrirsjáanlegt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. janúar 2012
,,Íslenska krónan – bölvun eða blessun?"
Gylfi Arnbjörnsson, Arnór Sighvatsson, Friðrik Már Baldursson og Ragnar Árnason voru ekki á einu máli um hvort krónan væri bölvun eða blessun, byrði eða blóraböggull þegar þeir fluttu erindi um málið á fundi ASÍ. Þó heyrðist mér þeir vera sammála um að fyrir mestu væri að hagstjórnin væri burðug en að hún hefði ekki verið það í háa herrans tíð.
Eins og gefur að skilja hafa konur hvorki vit né áhuga á svona flóknum málum og var því engin fengin til að tjá sig í ræðu.
Síðasti ræðumaður dró fyrir sína parta skýrar línur í lokaglærunni:
Íslensk eða norsk króna, kanadískur eða bandarískur dollar, evra kannski eða svissneskur franki? Eða snýst gjaldmiðillinn bara um hagstjórnina sjálfa? Með samtengdum gjaldmiðli er ekki hægt að fella gengið og lækka laun allra um 30% án blóðsúthellinga.
Að henda krónunni eða ekki, þar er efinn.
Vilja menn kannski ekki bestu lausnina fyrir fjöldann? Vilja menn bara bestu lausnina fyrir sig?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 10. janúar 2012
Segin saga
Ég horfði loksins á Innherjaránið sem var í sjónvarpi allra landsmanna í síðustu viku. Ég hélt að ég væri búin að sjá þetta allt, enda hafa heimildamyndirnar verið allnokkrar síðan Lehman-bræður duttu á hausinn í september 2008 og tóku ýmsa með sér í fallinu.
Og já, mér fannst ég ekki sjá margt nýtt. Ný nöfn, ný andlit, breyttar tölur, annar gjaldmiðill, stærri heimur - en kommon, upplýsingarnar liggja fyrir. Það skiptir sáralitlu fyrir upplifunina, skynjunina og skilninginn hvort við vitum um 101. dúddann eða 201. dúddínuna. Fjármálaglæframenn með hagfræðimenntun eða aðra fjármálamenntun skákuðu í meintu vitneskjuskjóli en svo þegar á hólminn var komið báru þeir fyrir sig þekkingarleysi, upplýsingaskort eða almennt siðleysi. Kölluðu það eitthvað annað eins og eðlilegan ágóða, launagreiðslur eða bónusa fyrir vel unnin störf við að setja stórfyrirtæki á hausinn og koma nytsömum sakleysingjum á kaldan klaka.
Já, kölluðu það eitthvað annað auðvitað.
Það verður áreiðanlega hægt að gera aðra heimildamynd í bíólengd og segja frá enn fleiri fundum, sýna fleiri skot frá fíflum sem sitja eins og þvörur fyrir framan þá fáu bandarísku þingmenn sem bæði skildu og þorðu að þjarma svolítið að þeim, rifja upp fleiri tölvupósta þar sem menn tala um að varan sem þær ætla að selja fyrir morð fjár sé drasl og ætti að vera óseljanleg.
En nú þarf aðgerðir. Eftir hverju er beðið?
Jú, líklega því að forseti Bandaríkjanna sé ekki lengur á mála hjá fjármálaöflunum. *geisp*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. janúar 2012
Kornflex í kökubitum
Það mætti halda að ég hefði verið að baka fyrir barnaafmæli ...
Eggjahvítur, heslihnetur, súkkulaðispænir, kornflex, smásalt og smávanillusykur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. janúar 2012
Engiferkökur á álfadegi
Mér gengur svo bölvanlega að baka smákökur að mér finnst það efni í bloggfærslu þegar baksturinn heppnast. Þetta var fyrsta tilraun með þessar kökur sem í er meðal annars púðursykur, engifer (duft) og kanill, allt hreinasta nammi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 4. janúar 2012
Allan Karlsson
... er gamlinginn sem var slétt sama hvort hann lifði eða dó, tók hvarvetna áhættu og lét skeika að sköpuðu, var sama hvort hann talaði við hinn æðsta eða hinn óæðsta og skipulagði í mesta lagi einn leik fram í tímann. Hann er maðurinn sem var svo áhugalaus um pólitík og framvindu heimsins að hann gerði öllum greiða sem báðu hann ef hann gat. Sérsvið hans var stórhættulegt þannig að hann skildi eftir sig för, eða öllu heldur göt.
Ég held að ég sé tæpast búin að ljóstra upp of miklu úr Gamlingjanum sem hefur farið um Ísland með blys á lofti og heimtaði athygli.
Hún er rúmar 400 blaðsíður og fyrstu 100 þóttu mér fyndnar. Svo þrjóskaðist ég í gegnum 250 síður sem voru sami brandarinn aftur og aftur með viðkomu hjá Maó Tse Tung, Churchill, Stalín og fleiri frægum en svo varð ég í lokin forvitin um afdrif hins skringilega hóps sem tók þátt í meinleysislegri uppreisn Allans.
Þýðingin hefur verið rómuð. Ég heyrði meðal annars Bryndísi Loftsdóttur prísa hana í útvarpsviðtali. Ég veit að auðvitað var margt vel gert en stundum kenndi mig samt til. Þegar maður er læstur inni lemur hann á dyrnar og hrópar: Sleppið mér út. (bls. 31) - Það heyra allir hvernig þetta hefur verið á sænsku og vita allir hvernig þetta er eðlilegra á íslensku. Svo fara mílurnar ósegjanlega í taugarnar á mér. Ef einhver lesandi veit leið til þess að uppræta þann pirring hjá mér - sem væri bara með því að láta mig vita að ég hefði rangt fyrir mér - væri sú leiðrétting vel þegin. Á milli Genfar og Basel minnir mig að séu 20 mílur í bókinni. Það eru þá 200 kílómetrar því að sænska mílar er rúmir 10 kílómetrar. Í mínum augum er rangt að tala um mílur á íslensku því að kílómetrar eru okkar mælieining.
Ég á bókina þannig að ef einhver vill fá hana lánaða er hún á lausu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. janúar 2012
Skaupið 2012 - fyrstu áhrif
Dásamlega skemmtilegt. Söguþráður. Geitin blóraböggull (scapegoat á ensku, hef ekki fyrr skilið að þetta væri tilvísun í biblíuna). Sá fjóra vini mína í hlutverkum. Ég hef aldrei séð Tobbu Marinós, Kristrúnu Ösp og Hildi Líf tala og veit ekki hvort Anna Svava og hinar voru þeim líkar en sá sem lék Ásgeir Kolbeins var ekki líkur þeim sem maður hefur séð í kvikmyndaþættinum á laugardögum. Samt skemmtilegt.
Endalaus keyrslan í snjónum höfðaði til mín og bílstjórarnir sem keyrðu niður öll háleitu áformin, hjólreiðamaður tók fram úr, aftursætisbílstjórinn sem tróð sér inn með allar syndirnar - á geitinni - vel gert. Hinir formennirnirnir fengu líka sína útreið sem og biskupinn, stjórnlagaráð, símaskráin (en var það ekki í alvörunni kona sem réð Egil Einarsson til að höfða til unga fólksins og útlitsins?) og Orkuveitan.
Óli spes var góður og síendurtekið stefið frá Mugison smellpassaði alls staðar.
Apa- og kjúklingalæti virtust eiga vel við á fundinum meðan Kínverjinn beið eftir viðtalsbili. Staðgöngufeðrunin var frábært innlegg, bráðandskotifyndið.
Víkingur og Þorsteinn eru ótrúlega fjölbreytilegir leikarar, ég verð að segja það. Aðrir voru líka góðir.
Ég saknaði einskis sérstaklega og fannst fáu ofaukið. Ég skildi reyndar alls ekki norska brandarann.
Kannski er bara svona auðvelt að gera mér til hæfis ...
http://www.ruv.is/sarpurinn/aramotaskaupid/31122011
Snilldarinnkomuna átti barnakórinn í lokin með nafnlausu stelpunni í einsöngnum. Fyrir utan kraftmikinn söng boðaði atriðið bjart árið 2012. Og ég trúi á það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 30. desember 2011
Bókapalladómar
--- Júlíus mundi þegar pabbi hans hafði dáið við að ná kvígu upp úr feni. Það þótti Júlíusi miður því að honum var hlýtt til kvígunnar.
Ég skellihlæ að svona húmor. Hvaða bók er þetta?
Hins vegar gafst ég hratt og örugglega upp á að lesa um Starkað Leví sem vantaði óflekkað mannorð. Auðvitað er ég þá ekki almennilega til frásagnar en persónusköpunin á þessum 40 síðum sem ég splæsti í var mjög flöt - og frágangur óásættanlegur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 29. desember 2011
Det blinde punkt eftir Julie Hastrup
Rebekka Holm er búin að stimpla sig inn hjá mér. Nýja bókin (frá 2010, nú samt komin ný) er mjög spennandi glæpasaga. Einkalíf Rebekku höfðar minna til mín, a.m.k. þegar kemur að Michael og Niclas. Aldrei þessu vant gat ég giskað á morðingjann (að vísu ekki rétt) og í lokin vísar endirinn á næstu bók, enda er Rebekka sem sagt komin til að vera.
Nú er tíminn til að sökkva sér í lestur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. desember 2011
Mataruppgötvun jólanna
Kanill út á rauðkál gerir gæfumuninn, sérstaklega ef manni finnst rauðkál á mörkunum að vera gott. Mér hefur fundist rauðkál súrt á bragðið - kanillinn er núna uppáhaldskryddið mitt og leysir ferskan engifer af hólmi.
Svo er kanillykt sérlega jólaleg.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. desember 2011
Að spila Fimbulfamb er góð skemmtun
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. desember 2011
Varist eftirlíkingar ...
Þótt þessi jólaköttur sé pikkfastur á vegg við Laugaveginn eru aðrir á sveimi þannig að það er vissast að sjá til þess að allir fái einhverja flík á morgun. Úr því að Grýla er komin í megrun má líka reikna með því að kötturinn sé frekari til fjörsins. Passa sig ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 22. desember 2011
Stórsveit Mugisons
Ég er í þeim hópi aðdáenda Mugisons sem varð að láta sér nægja að horfa og hlusta heima. Ekkert að því. En ég verð að skrifa það - aftur - að það er unun að horfa á trommarann. Hann lifir sig alla leið inn í það sem hann gerir. Ég sá hann á tónleikum í Kassagerðinni í haust. SVona ættu allir að hafa mikla ástríðu fyrir því sem þeir gera.
Það hefur náttúrlega Mugison líka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. desember 2011
Órökrétt auglýsing
Af hverju á maður að falla fyrir því að metsölubók hljóti að vera skotheld í jólapakkann? Eru ekki þegar of margir búnir að kaupa hana?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)