Sunnudagur, 18. desember 2011
Ganga á Álftanesinu
Það er næsta lítið að marka veðurspár þegar maður ætlar í láglendisgöngur. Eða hvað á ég að halda? Fyrir hálfum mánuði gengum við á Mælifell í Kjós í meintu 10 stiga frosti og það var eins og sumardagur í 300 metra hæð. Nú gengum við í kringum Bessastaðatjörn, hækkun 0,5 metrar, og hiti var samkvæmt kortinu +1°C. Og eftir einn og hálfan tíma kem ég krókloppin í kaldan bílinn. Ef hér eru einhverjar ásláttarvillur er sem sagt komin skýring ...
Við athuguðum ekki hvort sundlaugin væri á einhverri hreyfingu.
Og nærmynd af Besstastaðatjörn:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. desember 2011
Misþyrming 2. persónu
Þá bara gefstu upp.
Eða:
Þú færð þér alltaf hafragraut á morgnana og ert bara góður langt fram eftir degi.
Þú veist hvað ég meina. Þetta lítur sakleysislega út hér og nú en þegar mælandinn er að tala um sjálfan sig er notkun 2. persónu einfaldlega kolandskotiröng. Grr.
Þetta gerir þér gramt í geði ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. desember 2011
Desember - bíómynd
Ég missti næstum af síðasta sunnudagsbíói sjónvarpsins. Annað hvort hef ég horft (of) lítið á sjónvarpið upp á síðkastið eða hún var of lítið kynnt.
Mér finnst Desember flott mynd. Mér finnst skemmtileg tilbreyting að íslensk bíómynd gerist í Reykjavík. Mér finnst fullmikil lenska að setja íslenskar bíómyndir niður á litlum stöðum víðs fjarri mér. Ég held að ef ég væri útlendingur að stúdera íslenskar bíómyndir kæmist ég að þeirri niðurstöðu að landsbyggðin væri langtum frekari til fjörsins en hún er.
Ég hef sko ekkert á móti landsbyggðinni, ég er bara að spá í speglunina í þessu.
Sagan: Jonni (Tómas) kemur heim úr sjálfskipaðri útlegð og kemst að því að Ásta (Lay Low) er gengin honum úr greipum. Hann er hins vegar svo miklu meira sjarmatröll en Albert (Stefán Hallur Stefánsson) að Ásta á erfitt með að horfa framhjá honum og endurkomu hans. Á daginn kemur að systir Jonna (Laufey) er virkur alkóhólisti og vanrækir börnin sín tvö. Mamma (Guðrún Gísladóttir) og pabbi (Ellert A. Ingimundarson) Jonna hafa verið meðvirk og börnin hafa liðið fyrir það.
Ég er mjög skælin þegar börn verða illa úti og hér var mjög vel haldið á því, m.a. var systirin mjög geðug af og til sem gerir það hálfu sársaukafyllra.
Lay Low kann að syngja og hún naut sín vel í hlutverkinu. Mér fannst enginn standa sig illa en stjörnurnar í mínum augum voru krakkarnir sem léku krakkana (veit ekki hvað þau heita) og svo hann Jón Páll Eyjólfsson. Skrambans að hann skuli ekki leika meira.
Fegin að ég missti ekki af myndinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. desember 2011
Spekúlerað í gönguferð
Í þessum kulda - sem er ekki fyrir greyið mig - er dýrmætt þegar sólin skín og útsýnið er íðilfagurt. Þannig var í dag og ég fór út í hádeginu, gekk um og hugsaði um tíðindi vikunnar. Eins og ævinlega tjáir sig frekar lítill og hávær hópur um það sem hæst ber.
Og hvað bar þá hæst? Ekki meinta nauðgun, heldur myndbirtingu á vef sem fólk fordæmir ógurlega. Las fólk þennan vef áður? Var hann á mörkum hins siðlega? Hafði fólk dálítið gaman af slúðrinu og grensunni? Sá það þessa mynd sem velti hlassinu?
Ég les netið og hef skoðanir en ég hafði ekki fyrr en í þessari viku lesið texta eftir Egil sem er fréttaefnið hér. Kannski hafði ég afgreitt hann sem kjána í stað þess að taka alvarlega þá slæmu fyrirmynd sem hann er. Mér fannst hann hlægilegur en sumt fólk leit upp til hans. Og hann telur sig í færum til þess að vísa fólki veginn.
Sem neytendur frétta berum við líka ábyrgð. Ef dagblöð eru keypt vilja auglýsendur auglýsa í þeim. Í netheimum virka smellirnir.
Ég veit ekki hið sanna í málinu en ég held að fólk sé aðallega brjálað út í sjálft sig fyrir að gefa slúðrinu líf og stoppa ekki vafasamar fyrirmyndir. Og nú ætlar það að bæta fyrir allar syndir sínar í einu lagi.
Hádegið var í styttra lagi, kannski er ég ekki búin að spekúlera nóg ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. desember 2011
Nigella eða Jói Fel?
Mér finnst ótrúlega hávær aðdáun á Nigellu sem eldar upp úr pökkum og dósum og ber svo fram grátt og guggið. Oft. Hins vegar horfði ég áðan á Jóa Fel baka smákökur sem voru svo girnilegar að ég þurfti að hafa mig alla við að rjúka ekki í hverfisbúðina til að kaupa í uppskriftirnar (nema náttúrlega súkkulaðikökuna, þær eru aldrei girnilegar). Tilviljun?
Kókostoppar hafa hingað til alltaf orðið flatir hjá mér en nú er ég komin með ástæðu til að láta enn reyna á.
Já, neinei, finn ekki uppskriftina ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 7. desember 2011
hendur.is
Loksins hundskaðist ég til að leggja inn hjá Guðmundi Felix, handlangara, sem fær sáralítinn stuðning frá hinu opinbera, ef nokkurn. Þvílíkur kraftur í manninum, þvílíkt geðslag, þvílíkt sem ég óska honum nýrra handleggja. Hann langar í þá, hann langar í fínhreyfingarnar, hann langar að verða sjálfbjarga. Og það er ekki til of mikils mælst.

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. desember 2011
Ný uppáhaldsbúð
Í Austurveri er snilldarbasar með notaðar vörur. Ég keypti þar áðan alls kyns fínerí fyrir 15.600 krónur, aðallega flíkur, og til viðbótar við frábær kaup mín fer peningurinn að mestu leyti í að styrkja illa leikin svæði í Afríku.
Tóm sæla sem ég mæli eindregið með.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 1. desember 2011
Huggun harmi gegn
Í gær átti að heita kaldasti dagurinn í háa herrans tíð. Ég fór út í hádeginu og eins og nýlentur útlendingur féll ég í stafi yfir birtunni. Esjan var ekkert slor.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 30. nóvember 2011
Hin danska Tove Ditlevsen
Ansi er magnað að vera í námi, sérstaklega þegar maður tekst á hendur verkefni sem maður velur ekki, heldur sem velur mann.
Ég á að fjalla um danskt höfundarverk og Tove Ditlevsen valdi mig. Ég ætlaði að velja Vitu Andersen en Tove tók fram fyrir hendurnar á mér. Hún er búin að vera dáin í 35 ár en er fólki enn minnisstæð, bæði sem höfundur og manneskja. Ég las Götu bernskunnar fyrir margt löngu, er núna rétt að byrja að skoða og spennt að sjá að hverju ég kemst.

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 29. nóvember 2011
Eru ekki bankarnir sprengfullir af peningum?
Einhvers staðar heyrði ég að bankarnir væru yfirfullir af peningum, og það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég held að það væri nær að þeir peningar færu í vinnu en að stíla inn á og stóla endalaust á erlent fé. Það er eðli viðskipta að vilja fá arð af peningunum sínum og ég held ekki að Juan, Huong eða Jón séu í góðgerðastarfsemi, alveg sama hvort þeir eiga lopapeysur eða flíspeysur.
Það eru svo margir búnir að tjá sig um bæði kínverja og Kínverja upp á síðkastið að það er að bera í bakkafullan lækinn að segja aukatekið orð til viðbótar en ég segi samt að ég held að hinn stóri þögli meirihluti vilji að landgæði séu í almannaeigu rétt eins og fiskimiðin. Svo heyrði ég í kvöld að íslenskur auðmaður hefði keypt ógrynni lands fyrir austan um árið og allir haldið að hann ætlaði að græða upp landið, skaffa vinnu og snúa hamingjuhjólinu. Það varð ekki, ekki frekar en hjá auðmanninum sem keypti dobíu í Mýrdalnum.
Að koma með (erlent) fé er engin andskotans lausn, það vantar vinnu og hvers vegna framleiðum við ekki meira sjálf? Fullvinnum fiskinn? Vinnum úr hráefninu áli? Ræktum grænmeti og ávexti í gróðurhúsunum? Fáum ferskara grænmeti sem hefur ekki ferðast mörg þúsund kílómetra áður en það kemst í salatið okkar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 25. nóvember 2011
Hjólreiðar sem lífsstíll?
Eftir hart vor, blítt sumar og frábært haust er nú komin vetraráminning. Kannski þurrkar snjórinn út glerbrotin og gerir mér lífið léttara en það var ekki alveg frábært að hjóla á deigu dekki milli hverfa í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 22. nóvember 2011
N4 - fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2012
Ég er svo mikill áhugamaður um upplýsingastreymi af fundum að það er hætt við því að ég muni hafa kveikt á N4 fram á nótt. Nú er þar bein útsending frá bæjarstjórnarfundi og ekki aðeins getur þar að heyra ýmislegt um fjárhag bæjarins, heldur líka líta. Meðan forseti bæjarstjórnar talaði sáum við glærur með tölum! Hipp hipp.
Ekki kannast ég við að borgarstjórn míns hrepps, Reykjavíkur, bjóði upp á sjónrænar útsendingar og alls ekki tölulegar upplýsingar fyrir augað. Og þótt þingið sé með sérstaka stöð í sjónvarpinu fær maður aðeins að berja ræðumanninn hverju sinni augum (og reyndar málsheiti og mælendaskrá). Indælt væri að fá að sjá gögn meðan maður hlustar - því að maður hlustar gjarnan, ekki satt?
Ég geri ráð fyrir að þetta sé N4 að þakka. En hversu lengi mun fundurinn standa?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. nóvember 2011
Heimur hlýnandi fer
Þar sem ég sveiflast dálítið eftir veðri jaðrar við himnaríkissælu í mínum herbúðum þessa dagana. Margra stiga hiti, logn og gott skyggni dag eftir dag í nóvember styttir veturinn framundan og það hljóp aldeilis á snærið hjá mér um helgina fyrir vikið.
Þetta er myndskreytt hamingjublogg þar sem ég gekk 14 km leið milli Nesjavalla og Hveragerðis á laugardaginn og á slóðum Trölladyngju á Reykjanesinu á sunnudaginn.
Það eina sem skyggir á sæluna er að mér finnst sem ég eigi að vera með samviskubit gagnvart öllum heiminum fyrir að senda þessi hlýindi alla leið hingað norður í rassgatarófu.
En ætli maður fái ekki vetrarhörkur um helgina sem endast fram í júní? Úps, þar fór hamingju-hlutinn af hamingjublogginu fyrir lítið, hehe.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. nóvember 2011
Danska er málið ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 16. nóvember 2011
Osom í tilefni dagsins
Djók, ég myndi (næstum) aldrei skrifa svona, hehe. Samt hlýtur mér að verða hugsað til Megasar sem sagði þegar hann var spurður um þýðingu þess að hljóta verðlaun Jónasar Hallgrímssonar um árið: Bönts ovv monníj.
Tungumálið er síkvikt og þrífst á fjölbreytileika þannig að maður verður að þola dálítið af þanþoli þess. Svo líður bullið hjá, þráðbeinn ritháttur framburðar leiðréttist og málkenndin lifir. En ekki hjá öllum. Frekar en áður.
Ég fór á hvínandi góða dagskrá Mímis í tilefni dagsins. Hún var haldin í Árnagarði og fengu ekki allir áhugasamir sæti. Ég held að áhuginn á tungumálinu, ljóðum, ritlist, sögum og öllum texta lifi og lifi.
Jónas lifi!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 14. nóvember 2011
Bónus með Hreinsun í Þjóðleikhúsinu
Ég sá 6. sýningu á Hreinsun, fantafínni sýningu um þrælahald, oft kallað mansal, og undirokun, hremmingar stríðsins, heljargreipar oftrúar á til dæmis kommúnismann, gagnrýnisleysi og annað það sem líka mátti lesa um í bókinni eftir Sofi Oksanen.
Tímaskeiðunum er blandað saman, Aliide er ung og Aliide er gömul og allt skilst það ljómandi vel. Ég get svo sem ekki vitað hvort það hjálpaði skilningnum hjá mér að ég hef lesið bókina en ég held að þessi 2,5 tíma sýning plumi sig án þess forskots.
Mér fannst varla veikur hlekkur í leiknum, kannski er bara orðið svona auðvelt að gera mér til hæfis eða kannski eru leikarar almennt svona góðir. En bónusinn var að strax að sýningu lokinni settust leikarar, leikstjóri, hönnuður leikmyndar og leiklistarráðunautur niður og ræddu sýninguna við þá sem höfðu áhuga á og tíma til að sitja aðeins lengur.
Spurningar voru helstar um leikmyndina og hvernig væri að leika svona hrylling. Ég skildi Margréti Helgu þegar hún talaði um að hennar persóna lokaði hringnum sínum og hreinsaði sig burtu og þess vegna sæti hún í lok sýningar ekki uppi með eins erfiðar tilfinningar og þyrfti fyrir vikið ekki að fara út á Gróttu og garga upp í vindinn eins og stundum jaðrar við að vera nauðsynlegt þegar tilfinningarnar stoppa í brjóstholinu. Svo virtust þau á einu máli um að erfiðustu tilfinningarnar væru á æfingatímabilinu, þegar heimildavinnan er unnin og ýmis hryllingur skoðaður.
Það má mikið vera ef ég kaupi mig ekki inn á fleiri 6. sýningar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 13. nóvember 2011
Heillandi bjórbann í bland við strípibúllur og tugthús
Helgi Gunnlaugsson leiddi í gær göngu á vegum HÍ og þræddi tugthúsasögu Íslendinga meðfram öðru forvitnilegu. Ef ég væri að leita mér að námsleið myndi ég umyrðalaust fara í tíma til Helga. Það sem maðurinn sagði skemmtilega frá!
Kannski vissu ýmsir af frásagnargleði hans, sem var opinberun fyrir mig, því að fjöldinn var þvílíkur að ekkert varð þverfótað fyrir framan Stjórnarráðið.
Helgi er hafsjór af þekkingu um málið, enda afbrotafræðingur, en hann leiklas og lék og miðlaði en las ekki bara eða sagði þurrpumpulega frá. Svo ljóstra ég ekki fleiru upp en segi að lokum að hlutfallslega voru umtalsvert fleiri karlar í þessari göngu en ég hef áður séð. Strípibúllur ...?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 12. nóvember 2011
Um allan heim - en Ísland rokkar
Ég var svo ljónheppin að fá að rúnta um suðvesturhornið með Kanadamenn í heimsreisu. Þetta var sprækt og kátt fólk sem var búið að fara víða á einum mánuði, byrjaði í Kína og endaði á Íslandi. Einhverjir skráðu sig í þessa lúxusferð af því að Ísland var með, eina landið í Evrópu. Ég var spurð um eldgos og afkomu, atvinnuástand og hjátrú, brottflutning fólks - en aðallega talaði ég eins og gefur að skilja. Mér og rútunni minni samdi svo vel að ég fékk að vita að það væri pláss í Kanada fyrir mig og ef mér skjöplast ekki var mér boðið starf á útvarpsstöð ...
Ég hafði ekki komið til Þingvalla síðan 19. september og sá núna í fyrsta skipti sundurgrafna Almannagjá. Mér láðist að taka myndavélina með mér úr rútunni en sjónin var býsna svakaleg. Klósettmálin þar eru líka mjög dularfull. Kostar? Eða ekki? Opið? Lokað? Fyrir ferðaþjónustuna væri betra að hafa þessa hluti eins frá degi til dags.
Mitt ágæta fólk var alsælt með allan viðurgjörning og flaug burt í gærmorgun með bros um allt andlit. Orðspor okkar vex vonandi. Hópstjórinn minn bloggaði um alla ferðina og ég var að reyna að ná mynd af mér af blogginu hennar. Það tókst alls ekki, líklega varið gegn stuldi sem kemur vel á vondan því að hún hefur svolítið dularfullt eftir mér um glæpatíðni og athafnasemi lögreglunnar - sem ég mun auðvitað aldrei gangast við.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. nóvember 2011
Sums staðar gengur betur en illa
Hugsanlega steytir einhver hnefann framan í mig núna en ég gerði örlitla lífskjarakönnun á barnum á föstudaginn. Allir sem ég talaði við báru sig vel, áttu blómstrandi fyrirtæki í Hafnarfirði eða Mosfellsbæ, bifvélaverkstæði eða prentsmiðju eða voru í vegagerð, með mörg járn í eldinum og á fleygiferð að sinna verkefnum.
Mér er farið að finnast þreytandi að heyra bara hinar sögurnar. Kannski þora þeir sem gengur vel hjá ekki að fara í útvarpið eða láta taka við sig glanstímaritaopnuviðtöl.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 5. nóvember 2011
Gvakamólí
Ég prófaði fyrir viku að búa til mitt eigið gvakamólí og mér fannst það heppnast. Sumir vildu samt hafa sterkara bragð. Í mínu er bara avókadó, laukur, tómatur og kreistur límónusafi (í óskilgreindum hlutföllum). Svo bjó ég það til aftur og tók myndir með ýmsum stillingum en allar með sama sjónarhorninu og á sömu mínútunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)