Föstudagur, 4. nóvember 2011
Kosningavefur opnaður
Í hádeginu var opnaður gagnagrunnur vegna rannsókna á kosningum á Íslandi 1983-2009. Mér fannst þessi samkoma merkileg af því að ég heyrði eitt sem ég vissi ekki fyrir. Í rannsókninni voru undir flokkarnir fjórir sem lengst af hafa verið í boði, þ.e. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking/Alþýðuflokkur og Vinstri hreyfingin - grænt framboð/Alþýðubandalag. Það sem ég hafði ekki áttað mig á var að kjósendur á miðjunni litu svo á að flokkarnir sem þeir kusu væru á miðjunni en kjósendur hinna flokkanna, á báðum jöðrunum kannski, héldu að flokkarnir sínir væru fjær miðjunni en þeir sjálfir.
Hinn almenni kjósandi Sjálfstæðisflokksins lítur sem sé svo á að flokkurinn sé hægrisinnaðri, hallari undir einkavæðingu og minni ríkisafskipti en hann er sjálfur. Að sama skapi heldur hinn almenni kjósandi VG að flokkurinn sé meira gegn stóriðju og hlynntari skattahækkunum en hann er sjálfur.
Kjósendur Samfylkingarinnar hafa hallast aðeins meira til hægri með árunum.
Ég saknaði spurninga í lok erindanna. Hefði ekki verið ástæða til að skoða hvað kjósendur minni flokkanna héldu um flokkana og sig sjálfa? Hvar staðsetja sig til dæmis kjósendur Borgarahreyfingarinnar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 3. nóvember 2011
Kirsuberjagarðurinn - hraðferð
Þegar ég fer á hálfs dags námskeið finnst mér orðið ágætt ef ég læri eitthvað eitt nýtt sem ég get notað. Þegar ég fer í leikhús geri ég mig ánægða með að vera ánægð með eitt til tvennt, einhvern leikara, leikritið sjálft, tónlistina, sviðsmyndina, eitthvað eitt eða tvennt.
Í ljósi þessarar heimspeki get ég verið ánægð með Kirsuberjagarðinn. Ég ætla bara að nefna einn neikvæðan punkt, mér leiðist leikkonan sem allir hinir (snögg könnun í hléi og eftir sýninguna) eru hæstánægðir með, ekki vegna þess að hún leiki ekki bærilega heldur vegna þess að hún er með svo yfirspennta rödd.
Ég þykist hafa farið dálítið í leikhús á langri ævi en ég er ekki sérlega verseruð í Tékkoff og held alltaf að hann sé hægt drama. Þessi sýning var ekki hæg þegar fyrstu 20 mínútunum sleppti og við vorum eitthvað að flissa að því hvort heimilislífið væri víða svona tjúttað og ekki bara einn sem segir við annan: Hvar er fjarstýringin?
Nóg um það, Tékkoff er stofnun sem fólk þekkir. Fyrsta undrunarefni mitt var Guðjón Davíð Karlsson sem mér fannst frábær. Ég þekkti hann ekki strax en þegar hann tók langt eintal kveikti ég. Þetta er varla hægt að rökstyðja, hann var bara svakalega ferskur. Ég var ánægð með fleiri leikara en hinn leikarinn sem ég kýs að stilla upp er Ilmur Kristjánsdóttir. Hún var að vísu sjálfri sér lík en það er ekki gagnrýnisvert.
Leikmyndin var flott hús og flott uppsviðs sem tók grundvallarbreytingum í lokin. Æði sem hékk saman við spilarana þrjá. Lifandi tónlist er bónus og þeir Leifur, Óttar og Sigtryggur slógu hvergi af. Húmorinn spillti ekki.
Líklega er ég bara býsna ánægð með Hilmi Snæ þegar á allt er litið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 31. október 2011
Nöldur á hrekkjavöku
Nei, engir krakkar hafa hringt og lokkað mig út í dyr til að sníkja af mér nammi (er það annars einhvers staðar?) heldur hefur nú bankinn tekið upp á þeim óskunda að rukka mig um vexti af greiðslukortinu mínu - án þess að láta vita. Af hverju lætur bankinn samviskusamlega vita um allan hugsanlega óþarfa en ekki það sem kemur manni við?
Upphæðin er að sönnu lág, en hvenær breytist það?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 26. október 2011
Ljóðaþýðingar úr dönsku
Ég gæti ekki hugsað mér að þýða ljóð, enda enginn tiltakanlegur ljóðaunnandi og finnst óvinnandi vegur að virða hrynjandi og rím eftir þörfum, en mér finnst samt gaman að skoða og bera saman þýðingar.
Piet Hein orti þetta gruk:
Uselviskhed
er dog det bedste
som man kan ønske
for sin næste.
Magnús Ásgeirsson þýddi smáljóðið svona:
Óeigingirni
er með sanni
yndisleg dyggð
hjá öðrum manni.
Helgi Hálfdanarson svona:
Ósérhlífni
í öllum vanda
er besta óskin
öðrum til handa.
Og Auðunn Bragi Sveinsson svona:
Ósérplægni
vér óska þorum,
einkanlega
af náunga vorum.
Grand hjá þeim merkingarlega - en gaman að bera saman atkvæðafjöldann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 25. október 2011
Stuð í búðinni
Ég fór í matvöruverslun í hádeginu. Röðin var stutt en maðurinn fyrir framan mig átti ekki fyrir því sem hann keypti, innan við 2.000 krónur, augljóslega engar nauðþurftir samt. Kassadaman tók súkkulaðið burt en það dugði ekki, þá kleinuhringina og tyggjóið, hamborgarann - og mjólkina en allt kom fyrir ekki, hann átti engan pening á kortinu. Kassadaman var alveg óskaplega þolinmóð og hvatti hann til að athuga innstæðuna á reikningnum áður en hann verslaði.
Svo bað hún mig afsökunar en rósemdin yfir henni hafði smitað mig svo að ég var alveg róleg, sagði svo í spaugi þegar ég rétti henni kortið: Spennan í algleymingi.
Ég átti fyrir því sem ég hafði tínt ofan í körfuna og í kveðjuskyni sagði hún: Fallegur trefill sem þú ert með og mikið ertu fallega klædd.
Það er hægt að senda mig káta út úr Bónus, hehe. Er þetta ekki að aukast, að fólk hrósi fólki sisona? Ég er alltaf að lenda í þessu nú orðið ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 24. október 2011
Of feitur eða offeitur
Hver er of feitur (e. too fat) og hver offeitur (e. obese)? Er það ekki reiknað með þessum vafasama BMI-stuðli?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. október 2011
Glerbrot og glersalli
Rekstrarkostnaðurinn við hjólið eykst stöðugt. Þetta eru að verða alveg 3.000 krónur á mánuði (stofnkostnaður 60.000) því að slangan springur eða slitnar á að giska svo oft þegar mér tekst ekki að sneiða hjá fíngerðu glerinu á leið minni um hverfi borgarinnar.
Viðgerðamaðurinn góði sem er kominn í þessa áskrift hjá mér sagði í dag að mest væri um glerbrot í miðborginni. Er borgarstjórinn að spara í hreingerningunum eða var ég bara alltaf áður óvart heppnari en ég er núna?
Es. Sama sprangan sprakk eða liðaðist í sundur tveimur sólarhringum síðar.
Dægurmál | Breytt 23.10.2011 kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 17. október 2011
Að vinna eða ekki að vinna og verða til gagns
Mér finnst afar fráhrindandi tilhugsun að vera atvinnulaus, öllu heldur kannski aðgerðalaus. Kannski gæti ég hugsað mér að vera í skóla alla ævi og læra alltaf eitthvað nýtt og nýtt; til kokks, viðskiptafræði, köfun, útvegsfræði, hönnun, til ráðherra, mannauðsstjórnun - eiginlega hvað sem er annað en blómaskreytingar, förðun og súludans. En mér þætti samt óþægilegt að vera ekki í vinnu og afla ekki eigin tekna.
Um helgina áttum við unglingurinn spjall um atvinnumál. Hann byrjaði í menntaskóla í haust og ég spurði hann hvort hann héldi að hann vildi frekar afla 400.000 kr. eftir 10 ár með vinnu eða sem atvinnulaus. Í spurningunni gaf ég mér að það væri hlaupið að því að lifa af hvort sem maður væri á vinnulaunum eða atvinnuleysislaunum.
Unglingur: Þetta er góð spurning sem ég er einmitt mikið búinn að velta fyrir mér.
Ég: Jaaaá? [Ég veit nefnilega ekki hvaðan spurningin kom í kollinn á mér.]
Unglingur: Ég geri ráð fyrir að læra lögfræði af því að það er hægt að fá góða og vel launaða vinnu sem lögfræðingur en ég hefði mestan áhuga á að læra eðlisfræði. Ef ég verð eðlisfræðingur er ég hins vegar að dæma mig til að vera í einhverri skonsu í háskólanum með lélegt kaup.
Ég:
Unglingur: En ég held að flestir vilji bara fá kaup og sleppa því að vinna.
Ég: Neeei ...
-Þetta er skynjun hans á umhverfinu. Ég er enn ekki sannfærð um að fólk almennt vilji ekki vera í vinnu. Fólk vill hins vegar auðvitað ekki vinna hvað sem er, maður vill vinna við eitthvað sem maður hefur vit á, þekkingu til að sinna og áhuga á. Er það ekki? Og helst ætti vinnan að skila einhverju góðu (nú er ég, prófarkalesarinn, kannski komin í glerhús), tekjum sem og óefnislegum arði. Ég vil svoooooooo leggja inn í hagkerfið og þess vegna eyði ég tekjunum mínum í að styrkja íslenska framleiðslu.
En ætli það geti verið að flestir sem gætu unnið áhugaverða vinnu fyrir 400.000 á mánuði myndu velja atvinnuleysi fyrir 400.000 á mánuði ef þeir hefðu það val? Það er ekki nógu mikill peningur til að vera á endalausu flandri um allan heim. Okkur unglingnum kom saman um að það væri hægt að vera án atvinnu til langs tíma ef maður legðist í ferðalög. Svona ef við tökum eigingjarna sjónarhornið á málið.
Ég held samt enn að flestir þurfi fasta punkta í tilverunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 16. október 2011
Fréttamat
Ég fullyrði að fyrstu fimm mínúturnar af fréttatíma Bylgjunnar í hádeginu hafi snúist um slagsmál. Til vara voru það fyrstu fimm fréttirnar. Eru lögreglufréttir málið í hádeginu á sunnudögum? Annars hefur Bylgjan oft farið yfir það helsta sem kom fram á Sprengisandi.
Nema mig misminni allt saman, ég gef því séns.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 14. október 2011
Að appa
Pabbi sagði við mig í gær: Þú veist að mér hafa löngum leiðst orðin þema og gúgla.
Ég: Ja, ég vissi um þema [og svo lét ég dæluna ganga um að það félli að íslenska málkerfinu og jaríjarí]. En ég var ekki búin að átta mig á að þú vildir ekki að menn gúgluðu [annar fyrirlestur um hljóðlíkindi mála].
Pabbi: Og nú appa menn öll kvöld í sjónvarpinu.
Ég hló í klukkutíma og gat ekki flutt neinn fyrirlestur. Pabbi er 90 ára og þótt hann sé rafvirki er hann ekki með alla símatæknina á hreinu. Og ég veit ekki ... ekki nákvæmlega ... hvað er að appa. Ætlið appið muni festa rætur í íslenskum veruleika?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. október 2011
Forgangsröðun - fjáröflun
Það er hægara um að tala en í að komast, ég veit, þegar maður hefur ekki allar tölurnar og hefur ekki valdið til að hrinda hlutum í framkvæmd eða láta það ógert. En núna þegar verið er að hrókera í heilbrigðismálum svíður mörgum, líka þeim sem niðurskurðurinn bitnar ekki á. Vinur minn sagði í dag að honum fyndist nær að pönkast á bókasjúklingnum sér en að loka líknardeild, réttargeðdeild og spítalanum í Hafnarfirði (umorðað og hagrætt aðeins). Honum finnst óþarfi að eyða milljónum í að senda kjörna fulltrúa til Frankfurtar (aftur mitt orðalag).
Það þarf ekki að vera annað hvort eða, ég held að við getum lagt út bókmenntanetin og dregið fenginn á land án þess að naga velferðina inn að beini.
-Gætum við ekki veitt meiri fisk?
-Gætum við ekki framleitt meira, t.d. grænmetið, í stað þess að flytja það inn?
-Gætum við ekki búið til meira úr álinu okkar og selt úr landi fullunna vöru frekar en að selja hráefnið?
Ég þykist leggja mitt af mörkum með því að kaupa íslenskt. Við þurfum hvert og eitt að leggja inn í hagkerfið eftir getu.
Ert ÞÚ með hugmynd handa mér?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 12. október 2011
Eldsneyti leiðsögumanna
Mér finnst næstum alltaf gaman að vera leiðsögumaður en í kvöld var líka gaman að vera á fundi í Félagi leiðsögumanna. Fundurinn var málefnalegur, upplýsandi, lausnamiðaður - en djöss kaffiglundrið var áreiðanlega jafn ódrekkandi og venjulega. Ég lét bara hvorki á glundrið né súkkulaðikökuómyndina reyna.
Leiðsögumenn eru menntaðir, áhugasamir, vel að sér (já, með undantekningum), vel meinandi (já, með örfáum undantekningum) og kunna að ganga um landið (með hjálp elsku bílstjóra). Nú ræddum við laun og önnur kjör, löggildingu (lausn í sjónmáli), hugsanlegt verkfall, gildi leiðsögumanna, veru í eða úrsögn úr norrænum og evrópskum leiðsögumannasamtökum, starfið á skrifstofunni og heimasíðuna (hahha) - og menn fóru að fundarsköpum.
Margt nýtt fólk var mætt og guð og óðinn, gerið það, látið það góða fólk mæta aftur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 11. október 2011
Biblíuþýðingar - hvað er sönn og rétt þýðing?
Ég er sjaldséður gestur í kirkjum en átti erindi í dag, kom reyndar svo seint að ég var látin sitja á hanabjálka og dingla í kóngulóarvef. Guði sé lof fyrir að ég hef lést upp á síðkastið. Þrátt fyrir að vera í órafjarlægð heyrði ég samt ágætlega í prestinum. Meðal þess sem hann talaði um var nýja biblíuþýðingin. Ég mundi ekki þá að biblían hefði verið umþýdd en man það núna. Var það ekki í fyrra? Meðal þess sem breyttist var sálmurinn sem er svo fallegur af því að lagið er svo fallegt, 23. Davíðssálmur (Drottinn er minn hirðir). Það sem var þýtt upp á nýtt í þeim sálmi var að tvö smáorð fremst í línu voru tekin út.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal > Þótt ég fari um dimman dal
Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína > Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína
Að óathuguðu máli er ég alveg bit. Er ekki einhvers konar hefðarhelgun á svona sálmum, einkum þegar lagið sem sálmurinn hefur verið klæddur í er svo miklu fallegra en sálmurinn?
Hér er kannski sanngjarnt að láta þess getið að ég sagði mig úr þjóðkirkjunni 2001 og að ég hef ekkert vit á tónlist, bara smekk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 8. október 2011
Prentað mál og óprentað
Fyrir sakir einnar tegundar leti er ég áskrifandi að TMM. Í mörg ár hef ég tekið tímaritið úr plastinu og sett lítt lesið í hilluna. Leiðinlegt, en ég hef fáránlega sterka tilhneigingu til að lesa lánsefni en ekki eigið. En nú er ég þó búin að lesa fyrstu greinina, Rányrkjubú, þar sem höfundur gerir tilraun úr fjarlægð til að greina íslenskt samfélag, klíkurnar, almenna græðgi og að refsa fólki fyrir verðleika, og þótt ég sé ugglaust sammála ýmsu er ég eftir mig. Það hljómar fáránlega smásmugulega að segja þetta en greinin er bara ekki nógu vel prófarkalesin. Ef hún hefði fengið almennilegan lokalestur liði mér ekki eins og höfundurinn hefði verið í spreng að reyna að koma frá sér því sem honum lá á hjarta.
Í gær las ég tölvubréf um efni sem kom mér ekkert við. Ég var ekki alveg sammála efni þess en það var sett fram af svo mikilli yfirvegun að ég gat ekki annað en lesið það af íhygli.
Já, og ég er af þeirri kynslóð (og sennilega tegund) að mér finnst að menn eigi að reikna með að prentað efni lifi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 6. október 2011
Flugfreyjur og Airwaves
Mikið svakalega er ég fegin að flugfreyjur og viðsemjendur virðast hafa komið sér saman. Virðast, segi ég því að ég þykist hafa heyrt það í útvarpinu en nú finn ég enga frétt um það. Hins vegar man ég að ég heyrði viðtal við Grím sem skipuleggur Iceland Airwaves og hann var alveg bit á því hvernig verkfallið myndi bitna á tónlistarhátíðinni hans. Já, sammála því, en það er nú eðli margra verkfalla að bitna á þriðja aðila.
En ég vona að ég hafi tekið rétt eftir, að samningar hafi tekist og verkfalli aflýst. Það væri hrikalegt fyrir orðspor okkar allra ef menn kæmust ekki til landsins.
Og best að setja Mugison beint frá býli í geislaspilarann ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 4. október 2011
Birtuvillur
Hallgrímskirkja sést alveg ljómandi vel víða í Reykjavík. Í vikunni var ég svo dolfallin yfir birtunni í bænum og haustlitunum að ég dró upp litlu myndavélina sem ég er alltaf með í skjóðu minni og tók mynd af Hljómskálagarðinum með hina stuðluðu kirkju í bakgrunni. Hún sást ekki! Hún sást ekki fyrr en ég skipti aðeins um sjónarhorn. Það mætti halda að ég hefði strokað hana út en ég kann ekki einu sinni að fótósjoppa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 1. október 2011
,,Leyfðu mér að kyssa yður"
Í gær var dagur þýðenda eins og jafnan 30. september. Bandalag þýðenda og túlka bauð upp á dagskrá um leikritaþýðingar í samvinnu við Þjóðleikhúsið. Hrafnhildur Hagalín, Sigurður Karlsson og Friðrik Erlingsson fluttu erindi og svo var fólki leyft að spjalla við þau á eftir.
Eins og við er að búast lifa frjóar umræður með manni í huganum þótt þeim ljúki í tíma. Þau sóttu öll ýmislegt spaklegt úr eigin reynsluheimi og voru hin áheyrilegustu og allt í einu skaut núna upp í kollinn á mér því sem Sigurður sagði um skilning eða skilningsleysi áhorfenda. Fólk er svo oft hvatt til að bera ekki á borð neitt torskilið, nýstárlegt - eða gamaldags - og þá bregða úrtölumenn fyrir sig hugsuninni: Já, en þetta skilur enginn.
Og Sigurður sagði: Er einhver goðgá þótt fólk læri eitthvað nýtt, t.d. í leikhúsinu? Er ekki allt í lagi að nota orð sem kannski skilst ekki nema af samhenginu og þá hefur fólk stækkað orðaforðann?
Verra er náttúrlega ef fólk sem ætlar að nota orðin (og slá um sig kannski) hefur ekki vald á merkingunni, sbr. leikarann sem sagði: Leyfðu mér að kyssa yður. Gott ef það var ekki Tsjekoff þar sem þéranir eru mikið notaðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. september 2011
Heyrt í sundi
Stúlka 1: Ertu hjá móður þinni þessa vikuna?
Stúlka 2 (forviða): Nei, ég er hjá mömmu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. september 2011
Stórhættulegar hjólreiðar
Kostum fylgja gallar, a.m.k. stundum. Nú hjóla orðið svo margir (kostur), líka á gangstéttunum, og þá þarf eiginlega að koma upp umferðarreglum. Eða hvernig á maður að komast hjá því að lenda á öðru hjóli á blindhorni?
Ég er tvisvar nýlega búin að lenda í hjólaárekstri (galli) en hlýt að vera sveigjanleg því að mig sakaði í hvorugt skiptið. Verra með hitt fólkið. Og hjólið sem er farið að haltra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. september 2011
Hefur húsnæðismarkaðurinn glæðst?
Fréttaveitum er auðvitað vandi á höndum og þurfa að fara eftir opinberum tölum en sögurnar sem ég heyri eru ýmist að fólk kaupir eignir upp á 30 milljónir eða minna og greiðir út í hönd, fólk sem býr t.d. í útlöndum og gerir þannig hagstæð kaup með gjaldeyrinum sínum eða fólk sem er komið á þann aldur að það átti sparifé þegar hrunið varð, skuldaði ekki í húsnæði og sá þar af leiðandi ekki skuldir rjúka upp, eða að það er átthagabundið í yfirskuldsettum eignum.
Það að 2.800 eignir hafi skipt um hendur á árinu til samanburðar við 1.550 á sama tíma í fyrra gefur mér ekki sama tilefni og greiningardeildunum til að álykta að húsnæðismarkaðurinn hafi glæðst. Og ég er nú farin að halda að við sófahagfræðingarnir séum ekkert vitlausari en ...
Ég vona að hagur fólks sé að vænka en ég þrái ekkert tiltakanlega heitt að allir rjúki í fasteignakaup.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)