Mugison rokkar

Ekki aðeins einkennir Mugison og félaga mikil spilagleði og frjór söngur, heldur rokkaði bandið á eins konar útgáfutónleikum í kvöld í skemmu við Köllunarklettsveg. Mér var boðið og ég hélt að hann myndi spila á kassagítarinn og svona - en þetta var ekki fyrir hjartveika. Sem ég er hvort eð er ekki og enginn sem ég sá á svæðinu.

Þeir eru fjórir nema þegar kemur Rúna inn í ballöðurnar og mér fannst þetta allt alveg frábærlega gaman. Þeir spiluðu nokkur ný lög en þau eru ekki svo frábrugðin að maður viti ekkert úr hvaða átt þau koma. En hvað heitir þessi diskur sem á að koma út á morgun? H-eitthvað.

Við Ásgerður komum auðvitað á hjólum á bíllausa deginumMugison á tónleikum í kassagerðarhúsinuRúna og MugisonTrommarinn töffaði!Hinir gítarleikararnir (eða leika þeir á rafmagnsúkúlele?)


Þjófstartaði í bíó

Á sunnudaginn verður sýnd í sjónvarpi allra landsmanna heimildarmyndin Frá þjóð til þjóðar. Ég sá hana hins vegar í Bíó Paradís áðan og varð ósköp hrifin. Hún fangar stemninguna, rekur söguna, þær Berghildur og Ásta Sól tala við fjöldann allan af fólki sem tengist stjórnarskrárgerðinni - og svo spilaði band sem var stofnað í kringum stjórnarskrárskrifin.

Gæðastund með góðu fólki.

Guðrún IngólfsÁsgerði var líka boðiðVið höldum að hann verði frægur, hann kom fram í myndinni


Semjum við lögregluna

Ég hef enga reynslu af lögreglunni en trúi auglýsingunni* - mikill er máttur hennar - sem birtist í blaði um helgina. Lögreglumenn eru of lágt launaðir og of störfum hlaðnir. Það getur vel verið að það séu svartir sauðir innan um en það má ekki ganga nær þessari stétt. Meira að segja unglingar sem eru að velta fyrir sér framtíðarmenntun og starfsmöguleikum sjá þetta.

*finn hana ekki á vefnum


Skjól af jakkafötum

Ég er að horfa á rás 98 í fjölvarpinu mínu og sé að herrarnir sem birtast þar dag eftir dag gætu verið í sömu fötunum dag eftir dag en ég sé glöggt að konurnar sem koma í ræðustólinn eru ævinlega í öðrum fötum, kannski sömu fötunum og í fyrradag en alls ekki þeim sömu og í gær. Ansi eru karlarnir heppnir að geta falið sig bak við ein jakkaföt alla vikuna ef því er að skipta.

Það er nefnilega ekki eins og maður svitni umtalsvert við ræðuhöld og þurfi að skipta daglega um föt þess vegna - eða hvað?


Að færa til klukkuna eftir árstíma

Hefur septembermánuður áður verið svona grand og gordjöss? Núna loks skil ég gildi þess að láta vinnudaginn byrja klukkutíma fyrr og enda klukkutíma fyrr, það er ómögulegt að sleppa ekki út í birtuna og góða veðrið fyrr en klukkan fimm.

Verðmiðalaust skilningsleysi

Arion segist hafa hagnast um 10,2 milljarða á fyrri hluta ársins. Hagnaðurinn er samt ekki vegna reglulegrar starfsemi. Heldur hvers? Arion segist hafa gert vel við fjölskyldur, sennilega betur en aðrir bankar. Samt kvarta þær. Hvers vegna? Bankastjórinn er spurður hvort komist hafi til tals að lækka launakostnað hæstlaunuðu stjórnendanna og hann segir nei, að hann hafi verið ráðinn inn fyrir rúmu ári á þessum kjörum, samkeppnishæfum launum en ekki leiðandi, og þau hafi ekki hækkað. Ertu ekki að kidda mig?

Það sem ég skil er að ef starfsemin breytist, verkefni klárast og önnur koma ekki í staðinn er orðið of margt starfsfólk og þá þarf að segja upp umframfólkinu eða láta það velta út með starfsmannaveltunni. Það skil ég en ég er ekki sannfærð um að það liggi þannig í því. Fólkið sem fékk uppsagnarbréf langar áreiðanlega ekki til að vera tölfræði en kemur til greina að þetta séu einhvers konar 2007-uppsagnir?

Þetta skilningsleysi mitt kostar ekki neitt og er bara alveg ókeypis.


... kann ekki gott að meta ...

Noam Chomsky er frægur málvísindamaður og hefur sett heim margra á feiknarlega hreyfingu. Ég er í markhópnum hans en hef verið svo óheppin að heillast ekki. Og nú skil ég ekki að þegar fólk fer út af fyrirlestrinum hleypur það að tölvunum sínum, launað eða ekki, og dásamar hann ÁN ÞESS AÐ SEGJA MEÐ AUKATEKNU ORÐI HVAÐ VERÐSKULDAR ÞESSA HRIFNINGU.

Ég bið ekki fólk á Facebook að tíunda öll herlegheitin en væri ekki alveg eðlilegt að segja frá einu eða tvennu sem var alveg sérdeilis heillandi, þessu alnýjasta sem svipti fótunum undan þeim sem lýsir yfir hrifningunni? Ju, ég vissi ekki að einræðisherrar yrðu ríkjandi í arabaheiminum heillengi enn. Eða: Ég hélt að VSO-orðaröðin héldi lengur velli. Eða: Hann borðar spergilkál fimm sinnum í viku. - Augljóslega er ég uppiskroppa með hugmyndir.


Íslenskt grænmeti, íslenskir ávextir

Mikið vildi ég að mangó væri ræktað á Íslandi, ræktað við rétt hitastig, geymt við rétt hitastig og flutt um skamman veg áður en það hafnaði í ísskápnum mínum. Eða á borðinu ef ég ætlaði að nota það fljótlega.

Ég kaupi alltaf íslenska kirsuberjatómata eða þá sem heita konfekttómatar nema kílóverðið sé 900 krónur, þá hætti ég við. Mig minnir að uppáhaldsgulræturnar mínar séu frá Fljótshólum, það liggur við að ég þekki þær á svipnum þótt ég muni ekki bæjarnafnið gjörla.

Innflutt grænmeti og innfluttir ávextir eru verri af því að þeir hafa ferðast um langan veg og tapað gæðum á leiðinni. Þar að auki er margt grænmeti og margir ávextir á Íslandi framleitt við kjöraðstæður, hreint loft, hreint vatn, mengunarfrítt. Ég held að ég búi við fæðuöryggi af því að ég bý á Íslandi þar sem rafmagn ólgar og hægt að nota það til framleiðslu á ýmsum mat, lambakjötið spókar sig á hálendinu sumarnæturnar langar, fiskurinn spriklar undan landi og í landi er nægur mannskapur til að töfra fram heilnæman mat úr hráefninu.

Þess vegna held ég að ég skilji ekki verndartolla í landbúnaði. Nú gætu bændabörn, sem ég þekki fá (og alls enga bændur), sagt að ég viti ekkert hvað ég er að segja. Nei, en ég vildi alveg vita út á hvað tollarnir ganga af því að ég get ekki skilið að það þurfi að vernda gæðavöru sem á stutt á markað. Af hverju er ekki íslenskt grænmeti á boðstólum allt árið á samkeppnishæfu verði? Þessi umræða hjálpaði mér ekki að skilja það.


Viðskiptahugmynd til 50 ára?

Ég heyrði í útvarpinu nýlega vitnað í Kínverja sem átti að hafa sagt um okkur Íslendinga fyrir fáum árum að við hugsuðum til fárra ára ólíkt þeim sem hugsuðu í áratugum. Mikið til í því, sennilega hugsa ráðamenn í kjörtímabilum og gera í mesta lagi áætlanir til 10 ára sem eru svo teknar upp næst þegar nýr meiri hluti myndast.

Og? sagði útvarpsmaðurinn sem varð fyrir svörum, er ekki gott að hugsa til lengri tíma? Jú, sagði konan sem hringdi, en það er einmitt það sem við virðumst ekki ætla að gera ef við stökkvum á vagninn hans Huongs Nubos. Gulrótin virðist vera milljarðurinn eða milljarðarnir sem er sveiflað fyrir framan nefið á okkur núna.

Mér var líka nýlega sagt frá stórfelldri landasölu í Mýrdalnum (sem svo var fjallað um í DV í gær ef ég man rétt) sem fékk enga umfjöllun að ráði þegar hún varð í upphafi aldarinnar. Og nú eru menn uggandi af því að einhver (já, útlendingur) á heilan dal og getur bannað umferð um hann.

Ég viðurkenni að ég er svolítið skelkuð við tilhugsunina um að (fyrrverandi) alfaraleiðir verði í einkaeigu og þar fyrir utan skil ég ekki þessa viðskiptahugmynd fyrir norðan, lúxussvæði umlukið svæði þar sem grunnþjónustu er ábótavant.

Ætlar viðskiptamaðurinn Huong Nubo að fljúga með alla farþega sína á svæðið og gulltryggja þeim það veður og útsýni sem þeir kaupa trúlega? Ég er ekki svona treg, það vantar sannfæringuna í málflutninginn - hvað hangir á spýtunni? Mér finnst tímabært að við hættum að hugsa í skammtímaeiningum og förum einmitt að hugsa svolítið fram í tímann.


Að stýra og tala í handsíma

Kona á risastórum jeppa - nei, stærri en það, líklega geimflaug - var næstum búin að keyra mig niður áðan. Hún beygði skyndilega út af veginum og inn á hliðarveg, líklega vegna þess að hún var að tala í síma og sá að hún gat ekki einbeitt sér að hvoru tveggja í einu, að tala og stýra.

En hún virkaði indæl og ef hún hefði brotið mig hefði hún örugglega beðið mig afsökunar.


Gleði og sorgir leiðsögumanns

Eðli leiðsögumannsstarfsins er að vinna hjá hinum og þessum, búa við óvissu og vera ekki í föstu starfi. Fæstir leiðsögumenn sem ég þekki vinna við það eitt allt árið og enn færri sem ég þekki eru hjá sama vinnuveitanda alla starfsdagana. Þess vegna er maður alltaf að núllstilla, alltaf að heyja pínulitla launabaráttu, alltaf að sanna sig, alltaf að biðja um að kjarasamningar verði virtir.

Og nú er ég (orðin) svo sjóuð að ég stend mig vel (já, oft sem leiðsögumaður, hehe) í að setja fram skýrar kröfur. Mér leiðist nefnilega þegar fólk er óánægt með kjör eða aðbúnað og segir það bara ofan í kaffibollann sinn eða vasann á næsta manni. Maður verður að láta þann vita sem getur breytt því.

Og það er einmitt það sem ég gerði í fyrradag, sendi launagreiðanda rökstudda fyrirframkröfu af því að ég hef reynslu af því að sjálfsagðir hlutir koma ekki af sjálfu sér. Og ferðaskrifstofan stóð sig. Og nú hlakka ég til að fara í næsta Gullhring.

 


Kosningar í Danmörku eftir 16 daga

Hef ég sofið yfir fréttunum síðustu dagana eða hafa fjölmiðlar ekki gert dönsku kosningabaráttunni nein skil? Hún verður snörp þar sem boðað var til kosninganna með þriggja vikna fyrirvara.

En heppin ég að vera með DR1 og hafa líka aðgang að vefsíðu danska ríkisútvarpsins. Verst að ég er ekki nógu vel að mér um dönsk stjórnmál og veitti ekki af almennilegum fréttaskýringum.

Mun Lars LØkke halda velli og Venstre með honum?


Kurt Wallander þambar kaffi

Þær ávirðingar sem bornar hafa verið á Guðrúnu frá Lundi fyrir að láta sögupersónur sínar bergja á kaffi endrum og eins - sumir segja öllum stundum - hafa þvælst fyrir mér síðan ég byrjaði á Dalalífi og einkum eftir að ég lauk því. Nú er ég að lesa bók eftir Henning Mankell og ég held að ég ýki ekki þegar ég segi að a.m.k. á 10 blaðsíðna fresti fái sér einhver kaffi, og oft eru miklar vangaveltur um kaffidrykkjuna, hvort kaffið sé kalt, staðið, nýlagað, á brúsa, í bolla eða annað.

Höfundar skrifa ekki um klósettferðir persóna sinna en kaffidrykkja er svo mennsk að hún býr til umgjörð í löngum sögum, hjálpar fólki að spjalla, brýtur ís og drífur áfram sögur. Og hananú, ég held að ég verði bara að kvarta yfir myndunum eftir sögum Hennings þar sem fólki er sjaldan boðið kaffi ...


Aumingja hjólreiðamaðurinn (ég)

Ég átti erindi á 19. hæðina í Turninum við hliðina á Smáralind í dag. Auðvitað valdi ég að hjóla í þetta fjarlæga bæjarfélag af því að ég vel bíllausan lífsstíl og af því að ég hafði tíma. Það kom svo sem niður á vandvirknislegri hárgreiðslunni því að það rigndi þennan klukkutíma en það verður ekki á allt kosið.

Verra þótti mér að hafa ekki almennilega hjólaleið. Þegar ég hjólaði Fífuhvammsveginn til baka lenti ég í þvílíkum andskotans ógöngum að ég þurfti að rífa hjólið upp fyrir vegrið - og var þá búin að kaupa glös í millitíðinni og setja í körfuna. Þau brotnuðu ekki.

Ein vinkona mín væri vís með að segja mér að ég hefði átt að fara tiltekna hjólastíga þannig að ég ætla strax að svara þeim málsvara andstæðingsins. Ég fór eðlilega leið og það er ekki hægt að ætlast til að fólk sem hjólar einu sinni í Kópavoginn þekki alla hugsanlega stíga á leiðinni. Fólk sem hjólar er heldur ekki alltaf bara að því sér til afþreyingar og dægrastyttingar, stundum á maður einfaldlega erindi milli bæjarhluta og þá vill maður ekki hjóla hálfa leiðina til tunglsins í leiðinni.

Ef ríki kínverski kommúnistinn vill láta gott af sér leiða mætti hann byrja á grunnþjónustu og bíða með allan grefilsins lúxusinn á Grímsstöðum.

Það var líka smávindur á leiðinni


Skrilljarðafjárfestingar í ferðaþjónustu

Einhver Kínverji hefur keypt köldustu jörð Íslands fyrir skrilljónir og ætlar að eyða meiri trilljörðum í að byggja upp ferðaþjónustu. Vei. Ekki ætla ég að hafa á móti því að útlendingar festi hér fé eða sjái möguleika þar sem innlendingar sjá þá ekki eða hafa ekki efni á að leggja andvirði skóla í áhættufjárfestingu.

Ég get bara ekki að því gert að ég trúi ekki að þessi fjárfestir ætli ekki að hafa eitthvað út úr þessu. Og hvernig fer hann að því?

Ég streða við að hugsa út fyrir rammann en þegar Ingólfur Bjarni er búinn að segja mér tvisvar eða þrisvar í fréttatímunum að um sé að ræði tugi milljarða fæ ég bara störu út í bláinn.

Lúxushótel? Og ætla lúxusgestirnir að láta fljúga með sig á þyrlum eða hossast eftir þvottabrettunum?

Ég hef starfað í ferðaþjónustunni í bráðum 10 ár, meira en 20 ár ef næturvarsla á hóteli er talin með, og sé mikla þörf fyrir grunnþjónustu, s.s. vegi, merkingar, klósett, opin hótel í maí og október, álfa og gott veður. Og nú býðst bráðum lúxushótel handan við alla grunnþjónustu.

Ég bíð spennt eftir tækifæri til að skipta um skoðun, alveg galopin fyrir því.


Íslenskur trjábanki í málvísindum er orðinn að veruleika

Og hvað er það? Textabanki sem nær aftur á 12. öld. Maður getur skoðað málbreytingar, þar á meðal orðaröð, í þessum gagnagrunni. Harðsnúið lið hefur unnið í einhver ár að safni 1 milljónar orða og nú geta bæði fræðimenn og áhugamenn grúskað í honum.

Víðast annars staðar eru svona bankar harðlæstir en þessi er opinn öllum.


Hjólastandur

Ég veit ekki hversu mikil eftirspurn er eftir hjólastöndum en hún getur varla verið mikil úr því að þessi vara er ekki seld í reiðhjólaverslunum. Hún er uppseld í Byko og ég hef ekki fundið hana á öðrum vefsíðum. Standarinn er heldur slappur á mínu hjóli og þess vegna bráðvantar mig svona áhald.

Hvar fæst hjólastandur (á sanngjörnu verði)? Ég er með leyfi frá öðrum í húsinu til að negla hann fastan við stéttina!


Sanngjarnar kröfur + almenningsálitið

Ekkert veit ég um viðræður leikskólakennara og sveitarfélaga annað en það sem hefur verið í fjölmiðlum. Úr þeim fréttum les ég að kröfurnar hafi verið sanngjarnar. Reyndar virka þær hóflegar á mig, enda hefur almenningsálitið eiginlega verið alfarið með þeim sem gæta barnanna og mennta þau.

Og ég get ekki varist þeirri tilhugsun að Halli [hvernig er hægt að kalla hann Harald Frey?] hafi átt gríðarlega mikið í þessum samningi sem var undirritaður í gær og við vitum reyndar ekki enn alveg hvernig er. Hann var reyndar með góðan málstað en hann var líka svo einlægur í svörum og ég féll alveg fyrir öllum bolunum sem hann mætti í í stað þess að stríla sig upp í jakkaföt.

Ég trúi að við megum öll vel við una.


Svo mælti Jón

... við eigum miklu örðugra en þið, sem ekki þurfið nema að sigla beggja skauta byr, þegar þið eruð orðnir kandidatar, og skrúfa stelpur rétt í hægðum ykkar, þar sem við verðum að hafa allar klær úti og dugir þó ekki. (bls. 188 í bók Guðjóns Friðrikssonar um Jón Sigurðsson, Mál og menning, 2002)

Hvað er Jón að meina? Skrúfa stelpur?


Ketilríður - Merkútsíó - Skafti Tímóteus

Ég var á málþingi um lífið í Hrútadal á laugardaginn mér til lítt blandinnar gleði. Það var smekkfullt í félagsheimilinu Ketilási, svipað og mér skilst að hafi verið á hliðstæðu málþingi í fyrra.

Hallgrímur Helgason rithöfundur var stjarnan á festingunni, fyndinn að vanda og rökstuddi gríðarlega vel af hverju Dalalíf lifir og lifir, er lesin og rædd. Ég hef nú bara lesið Dalalíf einu sinni (2187 síður) og hann líka en auðvitað féllum við ekki endilega fyrir sömu lýsingunum og sömu málsgreinunum. Dalalíf þyldi alveg annan lestur en mér er til efs að ég lesi bókina aftur, læt duga að muna það sem ég man.

Hallgrími fannst Ketilríður alveg mögnuð. Ég geld kannski fyrir að ég var búin að heyra um Ketilríði sem magnaða kerlingu áður en ég las bókina og mér finnst hún bara svona og svona. En Hallgrímur var með þá kenningu að Ketilríður hefði verið látin hrökkva upp af eftir stutta dvöl í sögunni (þótt hún væri orðin afgömul, a.m.k. fimmtug ...) vegna þess að ella stæli hún senunni frá aðalpersónunum. Svo bar hann saman við Hamlet og Merkútsíó og varpaði fram þeirri kenningu (sinni eigin?) að Merkútsíó hefði safnast til feðra sinna svo fljótt til að varpa ekki skugga á Hamlet.

Þá rann upp fyrir mér ljós. Ég er að lesa Jón Sigurðsson eftir Guðjón Friðriksson, já, hann þarna frelsishetjuna sem hefði orðið 200 ára um daginn ef hann hefði lifað af dauða sinn og nú þori ég varla að skrifa það sem ég les út úr fyrstu 100 blaðsíðunum hjá GF. Skafti Tímóteus hét samtíðarmaður Jóns, skarpgreindur mannfjandi sem hefði veitt greind JS fáránlega samkeppni ef ...

Get ekki skrifað það, þetta er svo svakaleg tilhugsun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband