,,Fyrirgefið, en þetta var samt ekki mér að kenna"

Ég heyrði í ferðamálastjóra í útvarpinu áðan. Hún er ósköp hófstillt og yfirveguð (ég bíð samt enn eftir yfirlýsingum frá framkvæmdastjóra SAF) en ég held að hún hafi ekki lög að mæla þegar hún segir að hvaða Íslendingur sem er geti stofnað ferðakompaní eftir íslenskum lögum og farið í Alpana með hópa án þess að gera grein fyrir sér. Í mörgum Evrópulöndum (og örugglega víða utan Evrópu) þarf að hafa heimamann með í för. Þetta snýst ekki um þjóðernið, þetta snýst um þekkinguna og umgengnina.

Og nú biður framkvæmdastjóri Adventura okkur afsökunar á hvernig fór en segir um leið að við gætum ekki hófs.

En segið mér, fréttamenn, af hverju spyrjið þið ekki (ykkur) þegar hann segir að fyrirtækið hans sé stærsti viðskipavinur Icelandair hvort fólkið fljúgi en trukkurinn komi með Norrænu? Það getur vel verið en það er allt í lagi að ganga úr skugga um það. Margir farþegar koma nefnilega með bílunum. Og í öðru lagi væri þá gaman að vita hversu stór hluti í veltu flugfyrirtækisins væri vegna þessa fyrirtækis. Má ekki kanna það?

Að lokum, ég hef hitt fólk í vikunni sem sá gulan tékkneskan bíl fara geyst á Snæfellsnesi í fyrra. Þessi glæfraakstur sem endaði í Blautalóni er hvergi nærri einsdæmi. Og myndirnar sem hafa birst að undanförnu sá ég líka á jeppaspjalli.

HVAÐ ÆTLA FERÐAMÁLAYFIRVÖLD AÐ GERA? Eru þau ráðalaus? Ná hvorki lög né reglugerðir yfir glæpsamlega meðferð á landinu eða akstur sem getur gert út af við fólk?


Finnst SAF ekkert þegar öryggi gesta landsins er í hættu?

Nú hefur iðnaðarráðherra tjáð sig um ferðir um hálendi Íslands á vegum erlendra ferðaskrifstofa.

Ef ferðaskrifstofa hefur hlotið tilskilin leyfi í einu Evrópulandi þá á hún að geta starfað í allri álfunni. Þetta gildir einnig um íslenskar ferðaskrifstofur sem er heimilt að fara með hópa á sínum vegum til annarra landa.

Ég þykist vita að í mörgum Evrópulöndum þurfi íslenskar ferðaskrifstofur að ráða þarlenda leiðsögumenn til að fara með sér, sjálfsagt af öryggisatriðum og líka upp á staðbundna þekkingu. Er okkur vandara að gera slíkar kröfur til þeirra sem koma hingað?

Leiðsögumenn hafa farið fram á löggildingu starfsheitis síns í mörg ár en erindið verið tafið í sífellu og sent milli ráðuneyta. Umfram allt hefur það strandað á afstöðu SAF, Samtaka ferðaþjónustunnar. Ég vil ekki nafngreina neina þótt ég gæti það (af því að það væri eins og að vitna í tveggja manna tal) en SAF hafa ekki viljað ljá máls á erindi okkar vegna þess að þá gætu nokkrir nafntogaðir menn ekki sinnt leiðsögn þar sem þeir eru ekki skólagengnir leiðsögumenn. Stjórn Félags leiðsögumanna hefur boðist til að prófa þá til að þeir geti fengið réttindi og jafnvel viljað íhuga að veita þeim undanþágu. Allt hefur komið fyrir ekki.

Kannski eru þessi rök ekki sérlega skotheld vegna nafnleysis en ég veit samt að SAF standa í vegi fyrir því að auka öryggi farþega í landinu með þessari stífni sinni. Og ætlar forystan þar ekki að opna munninn út af gáleysisakstri tékknesku rútunnar? Eru SAF í sólarfríi eða sofandi um þessar mundir?

Sjálf nýt ég lífsins á svölunum mínum í sumarfríinu en ef ég bæri þessa ábyrgð myndi ég reyna að axla hana.


Hvað segja Samtök ferðaþjónustunnar um tékkneska glæfraaksturinn?

Það tók mig tvo daga að skynja þögnina frá forystusveit ferðaþjónustunnar vegna Tatrabus sem selur ferðir til Íslands sem ganga út á áhættuakstur. Þegar brúna yfir Múlakvísl tók í sundur vegna náttúruhamfara heyrðist grátur og gnístran tanna en þegar um er að ræða fyrirtæki sem hægt hefði verið að koma böndum á heyri ég ekki múkk.

SAF vita kannski upp á sig sökina.

Leiðsögumenn hafa barist fyrir löggildingu starfsheitis síns, m.a. til að koma í veg fyrir að óvant og kærulaust fólk fari með hópa um landið. Og það er ekki nóg að vera Íslendingur til að geta gert þetta skammlaust, maður þarf að vera vanur og öruggur í alla staði. Aldrei færi ég á íslensk fjöll nema með bílstjóra sem ég treysti og vissi að kynni til verka.

Hvað gerist núna?


Furðustrandir - lausar við húmor

Að sönnu fjallar nýjasta saga Arnaldar um grátt morðmál, mál sem ekki er hlæjandi að, sorg og trega, vanlíðan og dapurleg örlög. Erlendur getur ekki lagt til hliðar hvarf bróður síns og fer austur á firði í fríinu sínu og kemst þá á snoðir um annað mannshvarf, 60 ára gamalt, og linnir ekki látum, ærir mann og annan sem öll [svo] eru á því meira og minna að liðið sé liðið.

Mér finnst ennþá Grafarþögn besta bókin þar sem Arnaldur nær snilldarlega að flétta saman samtímalega atburði, heimilisofbeldi og fornt glæpamál, aðallega út af skírskotuninni til nútímans. Eins finnst mér, eða fannst, Dauðarósir furðulega lítið umtöluð saga þar sem Arnaldur snerti á rammpólitísku fiskveiðistjórnarmáli og byggðaröskun.

Í Furðuströndum fléttar Arnaldur aftur inn í söguna sína alvörumannskaða og á hrós skilið fyrir fagmennskuna. Erlendur rúntar Fagradalinn fram og aftur og fer vítt og breitt um Austfirðina sem er gaman, fyrir mig ekki síst af því að ég náði að spóka mig þar aðeins í sumar (já, maður er upptekinn af sjálfum sér), en mér finnst að höfundar megi krydda með votti af húmor og almennum skemmtilegheitum. Er það frekt af mér?

Eina skiptið sem ég skellti upp úr, og efast um að menn hafi gert það heilt yfir, var þegar afgreiðslustúlka sagði honum í stað hann og á eftir kom setningin: Það var eins og hún hefði aldrei fengið neitt við þágufallssýkinni.

Ég finn ekki setninguna við snöggar flettingar, en þetta var eina skiptið sem ég hló að bókinni og mér finnst það aðeins of sjaldan.

Annars bara ...


Íslenskur bílstjóri?

Mér er sagt að bílstjóri sem þekkti til, íslenskur eða erlendur, hefði alls ekki reynt að fara þarna á rútu. Kannski hefði dugað að hafa íslenskan leiðsögumann. Þess er ekki getið í fréttinni hvort einhver staðkunnugur var með í för. Ég geri ráð fyrir að RÚV sé heldur ekki forvitið um annað en það sem nefnt er í tilkynningu lögreglunnar.

Ég gæti lent í úrtakinu

Mér varð það á að fletta tekjublaði DV í hádeginu og þar rak ég augun í nöfn tveggja gamalla vinkvenna með hóflegar tekjur. Tekjur mínar eru ekkert sérstakt leyndarmál þótt ég beri ekki tölurnar á torg eða birti opinberlega en mér þætti þetta óþægilegt. Þær hafa að sönnu báðar talað fyrir framan fullt af ókunnugu fólki en eru ekki beinlínis á milli tannanna þannig að ég botna ekki alveg í hvernig þær hafa ratað á listann, greyin.

Líklega taka fjölmiðlarnir nöfn héðan og þaðan og sjálfsagt veit fólk ekkert endilega af þessu. Kannski verð ég næst í blaðinu - eða þú.


Nancy Pelosi

Ég stillti aðeins á Sky og sá Nancy Pelosi flytja ræðu til að útskýra stuðning sinn við, hvað, skuldafrumvarp forseta Bandaríkjanna, fjárlagafrumvarp? Ég er ekki vel að mér um starfshætti bandaríska þingsins, veit hins vegar að Nancy er 71 árs demókrati og forseti House of Representatives (fulltrúaþingsins?) en skilst á frænda mínum sem er nýfluttur heim frá Bandaríkjunum að demókratar séu hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn þótt þeir aðhyllist verulega frjálslegri hætti en repúblikanar.

Hvað um það, Nancy var svo yfirveguð og sannfærandi í málflutningi sínum að unun var á að hlýða. Af fréttum í dag heyrðist mér hins vegar Barack hafa dregið talsvert í land. Er Nancy þá sannfærðari um frumvarp Baracks en hann sjálfur?

Es. Það er munur á allígator og krókódíl (segi ég bara af því að ég veit það, ekki vegna þess að það komi þessu máli við).


Ný stjórnarskrá

Eftir snögga yfirferð yfir frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnarskrár eru þetta fyrstu viðbrögð mín:

19. gr. er góð lausn á trúmálum:

19. gr. Kirkjuskipan

Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Ég vil aðskilja ríki og kirkju en ég skil og gútera að það taki lengri tíma en aðrar breytingar. Ég bý í íhaldssömu samfélagi og sætti mig við að góðir hlutir gerist hægt.

Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þau kjósa.  

Svo segir í 25. gr., sem sagt þau. Ráðinu tekst að forðast hið sjálfgefna orð þeir, enda eðlilegt að tala um þau af því að þau vinna en ekki bara þeir eða þær. Hins vegar gleymir ráðið sér þegar það talar um ráðherra og dómara og vísar þá alltaf í þá.

Í 89. gr. er svo annars stigið risaskref í málum Alþingis:

Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi.

Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans.

Þetta er viðleitni til að slíta í sundur löggjafarvald og framkvæmdarvald og ég er mjög spennt að sjá afdrif þessarar greinar.

Þetta eru bara fyrstu hughrif. Samræmingarfasistinn í mér varð svo hryggur yfir ósamræmi milli kosningarréttar (42. og 78. gr.) og kosningaréttar (41. gr.) annars vegar, og hins vegar 8 (86. gr.) og tíu (90. gr.). Svo er mér reyndar til efs að hægt verði að tala um skýra stjórnarskrá á auðskiljanlegu máli fyrir alla.


Ekkert um tillögur stjórnlagaráðs

Ég fylgdist spennt með fréttatímum sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi í ljósi þess að tillögur stjórnlagaráðs voru afhentar forseta Alþingis í gærmorgun og fjölmiðlar látnir vita. Ég var í Iðnó og ljós- og kvikmyndarar skyggðu á athöfnina þannig að ég reiknaði með að sjá betur í sjónvarpinu.

Ekki heyrði ég eitt orð, ekki sá ég eina svipmynd.

Úr því að verslunarmannahelgin er núna ætla ég að gefa mér að fjölmiðlar kjósi að gefa tillögum ráðsins sérlega mikið vægi í næstu viku.

Hópurinn 29. júlí 2011Ásta Ragnheiður og Íris Lind


Hótelhringnum lokað

Hótel Gígur - Icelandair á Akureyri - Hótel Hamar - Hótel Selfoss - Hótel Höfn - Fjarðahótel.

Fólkið mitt var kátast með Mývatnssveitina og almennt með Norðurland, enda rigndi fyrir sunnan. Því fannst maturinn alls staðar í hringnum góður og sleikti næstum súkkulaðikökudiskana hreina á Reyðarfirði í gærkvöldi. Ég leifði þeirri köku, enda kann ég ekki gott að meta þegar um er að ræða súkkulaðikökur.

Undrunarefni mitt í þessum hring var að sjá afar fáa bíla og verulega fáar rútur. Samt fannst mér ég fara öfugan hring, þ.e. fór frá Egilsstöðum í Mývatnssveitina og svo áfram. Það getur ekki verið að eldsneytisverðið hafi svona mikil áhrif. Er það Múlakvíslin? Ég fór yfir bráðabirgðabrúna í gær og hugsaði hlýlega til Vegagerðarinnar eins og ég hef gert alveg frá því að fyrstu fregnir bárust. Hins vegar var ég mjög ergileg þegar við tókum stefnuna á nýju brúna yfir Hvíta, á leið frá Gullfossi í Friðheima, og allt það umhverfi var ómerkt með öllu. Bílstjórinn minn var fínn en hann var útlenskur og gat hvergi dregið mig að landi þannig að ég tók sénsinn og slapp fyrir horn - yfir ána.

Dettifoss var ekki svipur hjá sjón undir vökulu auga björgunarsveitarmannanna í síðustu viku. Kannski fannst mér bara svona gaman að tala við þá - en fólkið mitt lagði af stað til baka langt á undan mér og fannst Dettifoss hálfgert rusl vestan megin. Þjóðgarðurinn seldi Ridley Scott tvo daga yfir hásumarið og getur lagt stíga þvers og kruss fyrir peninginn skilst mér.

En þetta er töff og smart og kúl land sem við eigum og áhugi minn á því glæðist stöðugt. Ef eldsneytisverðið heldur áfram að hækka og fólk tímir ekki eða hefur ekki efni á að ferðast um það verður kannski gott pláss fyrir mig á hjólinu ...


Fréttamat

Ég var úti á landi og ætlaði að hlusta á fréttir einn morguninn kl. 7. Þá var norskur fréttamannafundur í beinni útsendingu sem stóð yfir allan tímann sem ég hafði. Ég hef vitaskuld samúð með fórnarlömbunum en ég skil samt ekki hvernig hægt er að sleppa öllu öðru sem hugsanlega telst fréttnæmt.

Það er við svona tækifæri sem sniðugir almannatenglar senda óvinsælar fréttir á miðlana. Af hverju misstum við?


Milljarðarnir

Ég hef greinilega fylgst illa með því að ég hef ekki heyrt vælubílinn þeyta horn og hrósa happi yfir milljörðunum sem skiluðu sér með brúnni yfir Múlakvísl. Það er kannski eins með blíðmælin og lækkað eldsneytisverð, tapast í flutningum.

Prómeþeifur lokar Dettifossi ...

Það fyndnasta við þessa frétt er í lokin:

Þór Kjartansson hjá kvimyndaþjónustufyrirtækinu [sic!] TrueNorth segir að þeim tilmælum verði beint til ferðafólks að það taki ekki ljósmyndir við fossinn en mikil leynd hvílir yfir myndinni. Í sárabætur fær það gefins geisladiska með ljósmyndum af Dettifossi.

Ég á svo ótrúlega erfitt með að ímynda mér að fólk taki þessum tilmælum af mikilli alvöru. Og hvað skyldi Þór reikna með að gefa marga diska? Og í hverju felst leyndin?? Er verið að gera mig forvitna?


Fjallabak syðra

Eftir fjögurra daga ráp við áttunda mann um Fjallabak syðra út frá Dalakofanum er mér fyrirmunað að skilja fólksfæðina.

Klakinn var ekki eins torgengur og fólki hinum megin við sýndist


Ævintýraferðamennska

Þótt ég starfi í ferðaþjónustunni fer því svo fjarri að ég eigi allt mitt undir henni og að vanda slæ ég þann varnagla að ég get ekki sett mig í annarra spor. Og kannski má væna mig um skort á stéttvísi þegar ég garga hér hljóðlega yfir vandlætingu ferðaþjónustunnar þegar Vegagerðin leggur sig alla fram um að leysa málin. Og ef það er rétt haft eftir að menn séu farnir að tala um tap upp á milljarða spyr ég hvort þeir sömu aðilar hafi líka hagnað upp á milljarða þegar vel árar. Ekki hef ég orðið vör við að ferðaþjónustan flaggi því og svo sannarlega sér þess ekki stað hjá launþegum í bransanum.

Ég óska okkur öllum þess að brúargerð gangi hratt og örugglega, að menn verði ekki strandaglópar, að ferðaþjónustunni blæði ekki út - en kommon, það þýðir ekki að garga á innanríkisráðherra og skamma hann fyrir að hafa ekki Kötlu í taumi. Kannski fæðast hér nýir möguleikar og kannski er þetta dálítið ævintýri.


Áhættufag

Störf í ferðaþjónustu eru orðin ansi áhættusöm. Ég er bara pínulítil í þeim heimi en er þegar búin að missa tvo hópa vegna náttúruhamfara og allt stefnir nú í að hópur sem ég átti að fara með hringinn eftir tæpan hálfan mánuð komist ekki hringinn. Hvað þá?

En ég er í alvörunni pínulítil í heimi ferðaþjónustunnar og finn bara mikið til með því fólki sem situr nú í súpunni en veitir þjónustu á ársgrundvelli og er tilbúið að leggja nótt við nýtan dag á sumrin til að allir fari sælir áfram. Það er ekki hægt að kenna neinum um, spár eru ekki nákvæmari og viðbrögð í samræmi við það.

Og gaus Katla? Það er ekki óyggjandi.

Til langs tíma litið hafa svona fréttir auglýsingagildi og eru góðar en ferðasumarið er í uppnámi og ekki bara austan Kirkjubæjarklausturs.

 


Skásta úrræðið?

Fjölmiðlar segja aldrei nema hálfa söguna ef þeir þá ná því. Ekki skil ég neitt í því sem gerðist við Hótel Frón um helgina annað en að þetta er skelfilegur harmleikur. Hélt móðirin virkilega að þetta væri skásta úrræðið? Og er skásta lendingin að vista hana í fangelsi?

Þegar ég heyrði fréttina fyrst hugsaði ég að þrátt fyrir að fólk armæddist yfir ýmsu á Íslandi í bráð og lengd kannaðist ég þó ekki við að börn væru óvelkomin, ekki óvænt börn, ekki börn einstæðra foreldra, ekki börn barna, engin börn. Þetta kemur mér helst fyrir sjónir sem skelfilega sorglegt - en hvað veit ég um það sem fjölmiðlarnir upplýsa okkur ekki um?


Verðvitund gefið langt nef

Nú er hætt að verðmerkja vörur sem ekki eru staðlaðar í þyngd, s.s. osta og kjöt, eins og lítið hefur verið í umræðunni. Boðið er upp á verðskanna í búðum sem mig grunar að séu of fáir og sumir kannski ekki í lagi. Niðurstaðan óttast ég að verði verri verðvitund.

Vonandi hef ég rangt fyrir mér.


Alhæfingar um dómstól götunnar

Stundum heyrir maður sums staðar fólk tjá skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Stundum eru þær byggðar á þekkingu, stundum ekki. Sumir alhæfa stundum. Stærsta alhæfingin sem ég heyri núna of oft er að bloggheimar eða netheimar logi af vandlætingu, dómhörku og þekkingarleysi.

Ég les ekki eins mörg blogg og þeir sem lesa mörg blogg daglega. Ég sé ekki réttlætingu fyrir alhæfingu af þessu tagi og skil ekki af hverju menn tala ekki bara um einstaklingana sem fara offari sem slíka. Er ekki hvort eð er verið að tala um fólk sem er þjóðþekkt, ýmist fyrir þessar skoðanir eða annað?

Fólki svíður að heyra um glæpi, ekki síst gagnvart börnum og öðrum varnarlausum sem vita ekki hvenær er brotið á þeim. Ekki þekki ég persónulega neinn sem vill sniðganga réttarríkið og hengja menn án dóms og laga. Hins vegar halda sumir að það séu gloppur í réttarríkinu og mál tefjist óþarflega lengi, öllum til vansa. Er ekki bara svolítið til í því?

 


Ferðasumarið mikla

Fyrst var kalt vor, svo gaus í maí, þá var áfram kalt, bensínverð hækkaði, svo boðuðu flugmenn flugfélags yfirvinnubann og hitt flugfélagið mælist seint í 64% skipta. Loks lítur maður á síðu Vegagerðarinnar - og ákveður að það sé bara best að vera á eigin svölum. Og kannski lesa allar bækurnar sem hafa safnast fyrir, elda allar óprófuðu uppskriftirnar og blanda geði við nærsveitarmenn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband