Laugardagur, 14. maí 2011
Aðdáendur tónlistar
Ég þekki venjulega launamenn sem eiga ársmiða á tónleikaraðir og ég þekki ofsalega marga sem hafa ekki áhuga á alls kyns tónlist. Ég fylgdist í gærkvöldi með útsendingu úr Hörpu og fannst sumt ævintýralega skemmtilegt. Meðfram fylgdist ég með umræðu um elítuna.
Kannski er ég meðvirk - það er algengur sjúkdómur - en það truflaði mig ekki neitt hverjir fengu að mæta á tónleikana í gær. Það er kannski hallærislegt að sumar stéttir fái (en langar kannski ekki alla úr þeim stéttum) ókeypis á viðburði sem eru í eðli sínu ekki ókeypis en sá hallærisgangur byrjaði ekki föstudaginn 13. maí. Þetta er lenska sem er eldri en ég.
Stóra spurningin sem brennur á mér er: Hvers vegna borga glæpamenn ekki fyrir glæpi sína með frelsi sínu eða fé (þá fjárglæpamenn)?
Mér dettur í hug að lög séu götótt og nái ekki yfir afbrotin.
Ef það er rétt hjá mér get ég spurt: Hvers vegna er því ekki breytt?
Þegar heill og hamingja fólks (sem óneitanlega felst að vissu leyti í að hafa nóg að bíta og brenna) er í húfi er mér slétt sama um tónlistarhúsið - sem ég viðurkenni að ég hlakka samt til að berja augum utan og innan. Landsbyggðinni er mismunað sem endranær en ég er í Reykjavíkur-elítunni og fæ að skoða að vild um helgina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 13. maí 2011
Síhrært bláberjaskyr
Nú hjóla menn, hlaupa og línuskauta í vinnuna og þá er maklegt að blanda orkudrykk. Þessi virkar:
-bláberjaskyr
-banani
-pera
Í réttum hlutföllum. Þarf engan vökva, bara blandara sem fer af stað ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. maí 2011
Það viðrar til hjólreiða
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. maí 2011
Kjarasamningar - kaupmáttur
Ég þekki hugmyndafræðina um kökuna, að það sé hægt að stækka hana og þótt einhver fái stóra sneið skilji hann ekki endilega eftir litla sneið handa einhverjum öðrum. Allir græða. En gildir það líka um kaupmáttaraukningu? Þótt launþegi fái kauphækkun fær hann ekki endilega aukinn kaupmátt ef allt sem hann þarf að kaupa hækkar um leið. En á það ekki að vera eðli kauphækkana að launþeginn geti leyft sér aðeins meira eftir en fyrir? Annars væri hægt að hafa bara status quo, ríkislaun, ríkisverð, allt óbreytt og óumbreytanlegt.
Nú er búið að skrifa undir kjarasamninga til þriggja ára og snæða vöfflur en á sama augnabliki er obbinn af meintri hækkun tekinn til baka. Verslunin ætlar að vísu ekki að segja upp fólki en til að mæta launahækkununum þarf að hækka vöruverð. Er þetta einhver árangur? Halda þessi samningar einhverju eða eru þeir bara gatasigti sem launþegar eiga eftir að sjá kaupmáttinn hripa í gegnum? Allt búið 6. maí 2011?
Nei, nei ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 3. maí 2011
Súrt gegn brunablettum í potti
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 2. maí 2011
Lofa sólríku sumri á suðvesturhorninu
Í gær skein maísólin ekki sérlega skært og þá rifjuðu fréttastofur upp að ekki hefði snjóað á þeim herrans degi í Reykjavík síðan 1987. Þá er gaman að rifja upp að það ár dvaldi ég við vond veðurskilyrði í Bæjaralandi (þangað til við fórum í tyrknesku sólina) - en sólin skein skært og lengi og vel í Reykjavík um sumarið.
Þess vegna treysti ég mér til að fullyrða að sumarið 2011 (líka oddatala) verði sérlega sólríkt og alveg funheitt í höfuðborginni minni.
Það má vitna í mig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. maí 2011
Svaðilför á Fimmvörðuháls
Með nesti og gamla skó héldum við af stað í morgunsárið á föstudag til að ganga á Fimmvörðuháls og skoða ummerki hins ársgamla eldgoss. Fyrstu kílómetrana og klukkutímana var allt á áætlun, m.a.s. fossa-, kókómjólkur- og rabbstundir. Þegar við nálguðumst Baldvinsskála (í 900 metra hæð?) var skyggnið ekki samt og áður en þó ekki svo að ógnaði göngunni þaðan upp í Fimmvörðuhálsskála (óveruleg hækkun, 1600 metra ganga).
Trússbíll var á leiðinni og óvíst um að hann kæmist alla leið í efri skálann. Jeppafæri er betra fyrr að vetrinum - en, hey, svo byrjaði að snjóa í dag á láglendi eftir smáhlé þannig að það er ekki á vísan að róa. En það voru efasemdir um að jeppinn kæmist lengra en í Baldvinsskála og við vissum ekki hvort við ættum að paufast áfram eða bíða í þeim neðri.
Við ákváðum að paufast lengra og þá gerði hóflegt mannskaðaveður. Við vorum öll svo vel búin að við vorum ekki í teljandi lífshættu. En við komumst í hættu því að við lentum í hálfgerðri sjálfheldu á svakalegum klakabunka í brekku með strekkingsvindi - svo ég dragi nú úr.
Við hringdum í fyllstu kurteisi í björgunarsveitir bara til að láta vita að við værum í vanda sem við gætum þó sjálfsagt komið okkur úr. Við fukum og runnum svolítið, snerum við og komumst aftur ofan í Baldvinsskála með því að elta okkar eigin spor. Skálinn var óupphitaður og hráslagalegur en þó miklu hlýlegri og sællegri en hallandi svellbunkinn - og trússbíllinn skilaði sér með þurr föt og svefnpoka.
Við hringdum aftur í björgunarsveitirnar og sögðum kurteislega farir okkar nokkru sléttari og að við myndum bjarga okkur. Daginn eftir, sem sagt í gær, fréttum við að 30 björgunarsveitarmenn hefðu verið komnir í viðbragðsstöðu og við kunnum þessum nafnlausu einstaklingum bestu þakkir fyrir að ætla að koma okkur til hjálpar.
Þetta er nú að verða nokkur upptalning hjá mér en ég er í og með að halda til haga ferðasögunni.
Klukkan hefur trúlega verið orðin 10 þegar þarna var komið sögu og við fengum okkur af nestinu og prísuðum okkur sæl fyrir að komast úr háskanum meðan við skiptum yfir í þurr föt. Þegar því var öllu lokið sótti að mér svo óskaplegur höfgi að ég sagðist ekki geta hangið lengur uppi, henti mér í svefnpokanum á gólfið, skorðaði hausinn á tilfallandi tösku, setti undir svefnpokann lopapeysuna sem var farin að þorna (takk, mamma) og sofnaði snarlega í gangveginum. Rétt að rifja hér upp að þrír Belgar voru komnir á staðinn á undan okkur og voru á þessum tíma farnir að hrjóta í efra. Daginn eftir, sem sagt í gær, komumst við að því að þar uppi var gott pláss og þar voru dýnur!
Eftir góðan nætursvefn (minn) hundskuðumst við á lappir um 10 og tygjuðum okkur. Þá var væn rigningarskúr um garð gengin og við gengum og fengum far með trússbílnum á víxl, enduðum svo hjá Skógum um tvöleytið. Þá var rétt rúmur sólarhringur frá því að við fórum af stað á hálsinn!
Kaffi og kleinum var sporðrennt á Skógum og svo tók enn betra við. Við fengum inni hjá foreldrum eins ferðalangsins á leiðinni, hituðum matarmiklu gúllassúpuna og borðuðum okkur pakksödd.
Gaman að fara og gaman að koma aftur heim. Mæli með hæfilegum ævintýraferðum en sérstaklega mæli ég með að fólk fari VEL BÚIÐ og með bunka af stóískri ró. GPS, alls kyns hnit og þekking í að nota slíkt þarf líka að vera með í för. Nothæfur GSM-sími léttir lífið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 28. apríl 2011
bjartsýni.is
Vorið kom fyrir korteri og mun stigbreytast í sumar á næstu 117 korterum og enda með bongóblíðu eftir helgi. Einkum í skjóli. Þetta er hugsað og skrifað af illri nauðsyn, kreppan hefur haft slæm áhrif á fólk en ef vindurinn fer ekki að hörfa sé ég fullt af bragglegu fólki láta undan síga. Þetta þolum við ekki til lengdar.
Koma svo.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. apríl 2011
Skrilljón aura spurningin
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 24. apríl 2011
Ketilríður segir (bls. 847):
Ekki gat ég vitað, að þú værir þarna, steinþegjandi eins og draugarnir. Ég bið forláts, ef ég hef farið með einhverja fjarstæðu. En mér þykir líklegt, að þú reiðist ekki stórhöggunum, frekar en steðjinn. Þú líkist honum talsvert hvort eð er.
Guðræknislegri verð ég ekki á páskum. Uni mér vel við lestur fagurra bóka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. apríl 2011
Ríflega 100 meðmæltar bækur
Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri stóð fyrir skemmtilegum samkvæmisleik nýlega, gaf út lista yfir allnokkurt safn íslenskra bóka sem bókavörðum um allt land finnst lesendur verða að lesa.
Á listanum eru tvær bækur sem ég ætla ekki að lesa vegna fyrri reynslu af höfundunum, u.þ.b. 60 er ég þegar búin að lesa en nokkrar á ég sannarlega eftir að lesa. Dalalíf er núna hálfnað, tók mér svolítið hlé enda má maður ekki lesa yfir sig af Jóni á Nautaflötum.
Og nú vantar sambærilegan heimsbókmenntalista í þýðingu. Ætlar þú að taka hann saman eða á ég að bíða eftir að starfsfólk bókasafna eða bókaverslana geri það?
Eftirlætisbækurnar mínar tvær eru í H-inu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 18. apríl 2011
Getnaðarvarnir gegn afa
Einu sinni heyrði ég brandara um konu á efri árum sem ætlaði að fá sér getnaðarvarnir svo hún yrði ekki amma strax aftur.
En hvað á fólk á þeim aldri að gera ef það vill verða amma eða afi en börnin kunna að verjast getnaði?
Ein leið er kynnt í nýju leikriti Árna Hjartarsonar, langreynds Hugleikara, og sýnd í nokkur skipti á Eyjarslóð 9 fram í maí.
Hjón á fertugsaldri hafa tekið þá framakenndu ákvörðun að eignast ekki börn. Börn trufla starfsframann, skíðaferðirnar, matarboðin, rauðvínsdrykkjuna og ráðstefnuferðirnar. Við erum bara ekki barnafólk, það er prinsipp, segir sá sem ekki vill verða faðir en þegar betur er að gáð vill konan hans verða móðir og ýta framanum, öðrum hlunnindum og prinsippunum til hliðar.
Og þá eru góð ráð dýr.
Þurfa ekki hjón að taka grundvallarákvarðanir saman, s.s. um barneignir, búsetu, atvinnutekjur, útlát og tannburstategund? Getur annar aðilinn ákveðið að hundsa samkomulag sem báðir aðilar hafa gert? Eða gengur kannski annar aðilinn alltaf yfir hinn?
Svo eru feðgarnir hálfgerðir nerðir þegar þeir koma saman og geta tapað sér yfir prímtölum og kvaðratrót, sbr.:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. apríl 2011
Reiðarekskenningin
Ef við látum okkur í léttu rúmi liggja að tungumálið þróast hratt, kannski of hratt, aðhyllumst við reiðarekskenninguna. Þetta hugtak heyrði ég fyrst í gær og hváði við. Í henni felst umburðarlyndi, ég velti bara fyrir mér hvort það sé of mikið. Ég er umburðarlynd gagnvart þeim sem velja sérviskulega en ég held að ég sé ekki til í að láta reka of mikið á reiðanum.
Þetta rifjaðist upp af því að ég er að stelast til að hlusta á málfarsþátt á Bylgjunni.
Hins vegar velti ég alvarlega fyrir mér hvaða kenningu kjarasamningaviðmælendur aðhyllast. Hvernig má það vera að aðildarfélög SA vilji láta umdeildan kvótann ráða samningum? Getur rafvirki hjá Samskipum ekki samið fyrr en ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp um fiskveiðistjórn? Verslurmaður í Smáralind? Hönnuður á Hvammstanga? Þetta þjónar kannski hagsmunum SpKef?
Fólk talar um að LÍÚ haldi kjarasamningunum í gíslingu, aðildarfélag með áætluð 4.700 ársverk af 56.800.
Ég átta mig ekki á hvaða kenning á hér við.
Aðildarfélög SA starfa á grundvelli atvinnugreina og hafa frumkvæði í málefnum fyrirtækja á sínu sviði. Þau leiðbeina m.a. fyrirtækjum í samskiptum þeirra við stjórnvöld og um allt það sem snertir sívaxandi fjölda opinberra reglugerðarákvæða og fyrirmæla. Áætlað er að rúmlega 56.800 ársverk séu unnin innan þeirra 2.100 fyrirtækja sem aðild eiga að SA.
Aðildarfélögin átta eru:Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ)
Um 190 útgerðir eiga aðild að LÍÚ en áætlaður fjöldi ársverka innan þeirra er um 4.700.
Samorka - Samtök orku- og veitufyrirtækja
Aðildarfyrirtæki Samorku eru um 36 og fjöldi ársverka innan þeirra er um 1.500.
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF)
Aðildarfyrirtæki SAF eru um 350 og fjöldi ársverka innan þeirra er um 6.500.
SART - Samtök rafverktaka
Átta aðildarfélög eru í SART, aðildarfyrirtæki eru um 230 og fjöldi ársverka innan þeirra er um 1.100.Samtök fiskvinnslustöðva (SF)
Aðild að SF eiga um 130 fyrirtæki og fjöldi ársverka innan þeirra er um 6.000.Samtök fjármálafyrirtækja (SFF)
Í samtökum fjármálafyrirtækja eru um 50 fyrirtæki. Ársverk innan vébanda samtakanna eru um 4.800.Samtök iðnaðarins (SI)
Innan SI eru 25 aðildarfélög með um 1.100 fyrirtæki. Fjöldi ársverka er um 19.000.SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ)
Aðild að SVÞ eiga um 340 fyrirtæki og ársverk þeirra eru um 12.500
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 14. apríl 2011
Hélt upp á stórafmæli Eyjafjallajökulsgossins á hafnarbakkanum í dag
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. apríl 2011
Umburðarlyndi prófarkalesarinn
Ég er sjálf þessi umburðarlyndi og skilningsríki prófarkalesari sem um er rætt. Nú er ég að lesa yfir mína eigin þýðingu og finn þar snilldarlega:
Pia rétti honum öndina.
Þar á hins vegar að standa:
Pia rétti honum höndina.
Að vísu voru þau nálægt vatni - en nei, samt að heilsast.
Og það er meira enda er þetta hluti af þýðingarferlinu. Kannski ætti ég að vera duglegri að prenta út og lesa á pappír, kannski verður maður að fórna umhverfissparnaðinum að einhverju marki. Ég góni eins og fáni og fálki til samans og skil ekki hvernig þetta slapp, lapp, app.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 10. apríl 2011
Sunnudagur til súrs
Ég er orðlaus. Það er 10. apríl og mér finnst vera haust.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 6. apríl 2011
Svarti svanurinn á Hverfisgötunni
Ég hef á tilfinningunni að ég sé á skjön við marga þegar ég segist ekki vera hrifin af Svarta svaninum sem sýndur er í Bíó Paradís um þessar mundir. Myndin hefur fengið ýmsar tilnefningar og ég get ekki þrætt fyrir að hún sé vel gerð. En efni máls, það að skora gegndarlaust á sjálfan sig og ganga fram af sér, gæti komist til skila á skemmri tíma. Maður hefur svo sem líka gagnrýnt myndir fyrir að færast of mikið í fang og hafa of margt undir, en ég trúi tæpast á Ninu sem er komin svo langt að hún er valin í aðalhlutverkið en á samt svona svaðalega mikið ólært um lífið, listina og starfið. Fullkomnun hvað?
Grafíkin í átökunum fer líka aðeins of langt fyrir minn smekk.
Til að fullkomna lágkúruna hjá mér ætla ég að færa til bókar að Vincent Cassel var hrikalega heillandi og ég ætla að leggja nafnið á honum á minnið. Ég veit svo sem á hvern hann minnir mig en hann gerði hlutverkinu samt góð skil.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. apríl 2011
Smástafir
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 4. apríl 2011
,,Synjað um landvistarleyfi af mannúðarástæðum"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 4. apríl 2011
,,Á Íslandi ætlum við að leysa eldsneytisvandann með repjuolíu"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)