Föstudagur, 11. febrúar 2011
Mascarpone
Auðvitað ætti maður að vera að tygja sig á vetrarhátíð en veðurbræðin í gær dró svo úr mér máttinn að ég fór að lesa mér til um mascarpone. Mér var bent á vikugamla grein úr Fréttatímanum sem hlýtur að vera eftir Gunnar Smára Egilsson, því að hann skrifar matarpistlana í blaðið, en nafn hans kemur ekki fram. Þangað til annað kemur í ljós ætla ég að álykta sem svo að rétt sé farið með í pistlinum. Í myndatexta er talað um að það þurfi einbeittan menningarlegan brotavilja til að búa til mascarpone eins og gert er hjá MS á Selfossi og í greininni er talað um að hann sé meira eins og búðingur en ostur. Ég er sérstaklega ánægð með þetta fyrir mína hönd því að tíramisú sem ég bjó til um síðustu helgi var helst til lint - og ég neita að axla ábyrgðina á því ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. febrúar 2011
Sólsetur að morgni
Ég las í gærkvöldi undurfallega bók, Sólin sest að morgni, eftir Kristínu Steinsdóttur. Hún er full af minningabrotum austan af fjörðum þar sem landslagið skiptir máli og setur svip sinn á geðslagið. Mælandi fléttar tíðarandann, söguna og bókmenntir saman við uppeldið og hvernig uppalendunum tekst til. Hún er ekki skaplaus og henni er ekki ætlað það heldur. Og henni er ekki orða vant og fyrir það þakka ég.
Dæmi (bls. 19):
Okkur systkinunum lærist snemma að láta enga eiga hjá okkur. Það er dyggð að kunna að svara fyrir sig. Hallgerður langbrók og Bergþóra létu aldrei sinn hlut fyrir neinum. Þær sendu þræla og drápu menn.
Við sendum tóninn.
Annars eru minningarnar allar í nútíð, þátíðin bankar táknrænt á þegar sólin sest um morguninn. Hrífandi.
Kristín er ekki systir mín þrátt fyrir sama föðurnafn. Við vorum hins vegar á sama tíma í Leiðsöguskólanum. Nú get ég virkilega hlakkað til að lesa Ljósu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 4. febrúar 2011
Mubarak er leiður
Nei, ég ætla ekki að þykjast vera í talsambandi við hann Hosni, enda voru net og önnur fjarskipti m.a.s. tekin úr sambandi í Egyptalandi fyrir viku. Ég hef allt mitt vit um Mið-Austurlönd frá öðrum, aðallega úr fréttum. Í hádeginu í dag fór ég út í Lögberg og hlustaði á Boga Ágústsson tjá sig af perónulegri innlifun um Egyptaland, Jemen og löndin þar um kring. Bogi var áheyrilegur mjög og bráðfyndinn, ég verð að segja það. Og í fyrirlestrasalnum var áhugasamt fólk sem spurði af þekkingu, fólk sem hafði farið á vettvang, fólk sem lét sig málið varða.
En ég er að velta fyrir mér hvort öll þessi lýðræðisviðleitni hefði farið framhjá mér fyrir þremur árum. Fullt af fólki hefur lengi haft meðvitund um alheiminn en ég held að mín sé núna fyrst að vakna.
Og þá sennilega vegna þess að ég er alveg hætt að skilja íslenskt lýræði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 1. febrúar 2011
Fagurfræðileg innræting?
Amma borðar bara soðinn fisk og hakkað kjöt, kartöflumús, Frónkex og drekkur te. Hún er lágvaxin, grönn og veik í ristli.
-Sólin sest að morgni, bls. 12
Ég skellti upp úr þegar ég las þetta. Hún hefði betur sleppt öllu þessu MSG-i.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. janúar 2011
Eigi skyldi maður ganga múraður á fjöll - í rigningu
Í gær rigndi svo hraustlega að pappírspeningurinn minn var enn blautur eftir hádegi í dag. Ég gekk nefnilega á hól í nágrenni Hafnarfjarðar og var með báða seðlana í seðlaveski á botni bakpokans. Eins og ég hafi ætlað að kaupa eitthvað á Helgafelli.
Það væri nær að fara með alvörumúr en skilja pappírinn eftir í öruggu skjóli. Það væri æfing í lagi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 26. janúar 2011
Löglegi súlustaðurinn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23. janúar 2011
Persónurnar í Íslandsklukkunni
Í Lostafulla listræningjanum var í gær fjallað um Rokland, mynd sem var gerð eftir samnefndri bók Hallgríms Helgasonar. Ég hef heyrt menn ergja sig á því að hún sé ekki nógu lík bókinni, að maður þurfi að hafa lesið bókina til að skilja söguþráðinn, og í þættinum í gær heyrði ég að það var algjör tilviljun að Ólafi Darra var kastað í hlutverk Bödda. Forvitnilegt.
Kannski er það vandi, varla samt, að margir beri ósjálfrátt saman þegar handrit myndar byggir á bók. Það segir sig eiginlega sjálft að maður hlýtur að gera það. Og leikstjórinn heyrist mér pirraður yfir því. Að minnsta kosti annar listræninginn í gær hafði ekki lesið bókina og fannst myndin alveg frábær. Ég er ekki búin að sjá Rokland, mun pottþétt sjá hana en kannski ekki í bíó. Ég var svo hrifin af bókinni að ég keypti hana til afmælisgjafa eftir að ég las hana sjálf. Það er búið að búa mig undir að ég verði ekki hrifin af myndinni.
-Hvenær er persónusköpun góð og hvenær er persónusköpun ekki góð?
Ég ætlaði að velta fyrir mér meðferð persóna í leikgerð. Ég hef bara lesið Íslandsklukkuna í trílógíunni Íslandsklukkan, Hið ljósa man og Eldur í Kaupinhafn. Óskiljanlegt. Og það fyrir löngu. Ég fór samt á leiksýninguna í gærkvöldi. Benedikt Erlingsson, leikstjórinn, lék Árna Árnason, glæsimennið, en í leikskrá sé ég að Björn Hlynur Haraldsson er munstraður í það. Brynhildur Guðjónsdóttir var Jón Grindvíkingur en á myndum í leikskrá er alls staðar Ilmur Kristjánsdóttir. Ingvar E. Sigurðsson var Jón minn kæri glæpamaður Hreggviðsson sem hljóp yfir hið mjúka Holland (í sýningunni blauta, ég skil ekki hvar eitthvað hefur farið úrskeiðis). Lilja Nótt Þórarinsdóttir fetaði í fótspor Herdísar Þorvaldsdóttur frá 1950 (sem nú var hin *mig skortir nógu háfleygt lýsingarorð* mamma Jóns Hreggviðssonar og gekk alla leið af Akranesi og austur í Skálholt) og Tinnu Gunnlaugsdóttur og lék hið ljósa man. Þar finn ég helst að bókarlesturinn læðist aftan að mér. -Vinur, hví dregurðu mig í þetta skelfilega hús? -Heldur þann versta en þann næstbesta.- Við lestur Íslandsklukkunnar hríslast um mig þegar þessi orð birtast, og það jafnt þótt Snæfríður sé bara 17 ára þegar setningarnar byrja að falla. Hins vegar hló Snæfríður oft í gær og teiknaði sig sem mikinn húmorista og ég kunni því vel. Þegar henni snerist (enn) hugur varðandi Arnas og hún dró niður landakortið á táknrænan hátt var í henni leikur. Háðið varð aðeins veikara þegar hún híaði á vonbiðil sinn, dómkirkjuprestinn, og allar hans krókóttu spurningar, og þunginn í stóru setningunum varð fullléttur, vissulega, en ég kunni vel við þessa gáskafullu Snæfríði að mestu leyti.
Jón Regviðsen, maður minn, hvað Ingvar náði mér og hélt allan tímann. Jón stal snæri, ja svei, en drap hann böðul kóngsins? Hann vildi að hann hefði gert það en hann hafði sínar efasemdir. Á misjöfnu þrífast börnin best, og líka Jón Hreggviðsson. Hann var húðstrýktur, eins og vera ber þegar svo ótíndir glæpamenn eiga í hlut, honum var sleppt eftir að móðir hans fjörgömul hafði þumlungast á fæti yfir hálft landið til sinnar jómfrúr til að biðja syni sínum griða. Jómfrúin gat ekki verið búin að gleyma þegar hún kom á Rein og fylgdarmaðurinn fann mörg blöð úr Skáldu?
Jón sleppur, Jón hleypur, Jón gránar - og svo fær Jón að yrkja jörðina í næsta nágrenni við yfirvaldið í hartnær 20 ár. En þrátt fyrir skipafæð og dagblaðaleysi hverfur fortíðin ekki. Jón er ekki í höfn.
Dómkirkjupresturinn komst hins vegar í sína höfn. Myndarmaðurinn Jón Páll Eyjólfsson var svo svaðalega ófrýnilegur sem dómkirkjupresturinn að hver maður hlýtur að skilja vel að Snæfríður fúlsar við honum vel og lengi. Svo hefur hún á endanum ekki allt val í heiminum ...
Tvö hlé og alltof stutt sýning. Niðurlæging þjóðar, leit að skinnhandritum, sál og líkami selt ríkri danski konu með munninn framan á maganum til að Ísland megi hefjast úr eymdinni. Ósamstæðar ástir, skömm í lögmannsfjölskyldu, glaumur á Þingvöllum, flótti. Flótti frá volæðinu, flótti frá hamingjunni, samt ekki flótti frá átökum því að af þeim var nóg.
Ekki vil ég varpa neinni rýrð á sýninguna en efniviðurinn er í bók Halldórs Laxness og það er hann sem hrífur mig. Sýningin skemmdi samt ekkert fyrir mér. Og þá er að halda áfram að lesa minn meistara ...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. janúar 2011
Eru mannréttindi að eignast börn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. janúar 2011
Snorri Steinn, Aron Pálmars og Guðjón Valur
Fyrir margt löngu var athygli mín vakin á því að ef fólk héti bara einu nafni, skírnarnafni, væri það kennt við föður sinn í upptalningu. Ef það er hins vegar skírt tveimur nöfnum er föðurnafninu sleppt. Svavar Gestsson og Ingibjörg Sólrún. Ólafur Ragnar og Davíð Oddsson. Ásdís Rán og Logi Geirsson. Vilhelm Anton og Ilmur Kristjáns. Hilmir Snær og Benedikt Erlings.
Og nú sannreyni ég enn á sjálfri mér að þetta er svona. Maður gargar yfir handboltanum ... tvínefni. Og það var alls ekki leiðinlegt að hálfhreyta í Austurríkismenn yfir sænska vefmiðlinum. Huhh, hverjum er ekki sama þótt Páll hafi ákveðið að bjóða ekki upp á handboltann í sjónvarpi allra landsmanna? Taktu eftir, bara Páll, ekki Páll Magnússon enda var hann ekki liður í upptalningu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 15. janúar 2011
Hreinsun náði mér á endanum
Í kringum Norðurlandaráðsþingið hér í nóvember var heilmikil umræða um Sofi Oksanen. Auðvitað þurfti ekki heilt þing til en hún fékk verðlaun þess ráðs fyrir bók sína, Hreinsun.
Ég eignaðist bókina þá strax og heyrði heilmikið um hana, fannst hún of þykk til að voga mér að lesa hana með öðrum lestrarönnum og byrjaði á henni á jólunum. Eftir fyrstu 30 blaðsíðurnar leiddist mér óhemju, eftir 80 blaðsíður var ég alveg að gefast upp. En þá kom nýtt tímabil, ekki lengur Vestur-Eistland 1992 heldur fyrirstríðsárin og síðan var heilmikið flakkað í tíma. Fólk skýrðist, athafnir þess skildust, dagbókarfærslur bóndans smátt og smátt - og þess hryllilega raunalega og vel skrifaða saga vatt upp á sig sem bandhnykill væri.
Ég man ekki eftir að hafa kúvenst svona í skoðun á bók en þegar ég var búin með hana í vikunni byrjaði ég strax á henni aftur. Nú skil ég flugurnar og Aliide, Zöru og flóttann.
Það breytir því ekki að mér finnst hún dálítið stirðbusaleg í gang, um það hef ég sannfærst þegar ég les byrjunina aftur. Mér fannst það að nota orðið vöndul fyrir fullvaxna manneskju truflandi og finnst það enn. Mér finnst enn einstaka vondar málsgreinar en er nú opin fyrir fallegum líka:
Loks tókst henni að reisa sig upp og standa í fæturna en leit enn ekki framan í Aliide heldur þreifaði á hári sínu og strauk það yfir andlitið þó að það væri blautt og klístrað, breiddi hárið fyrir andlitið eins og druslulegar gardínur á eyðibýli þar sem ekki er lengur neitt líf sem þarf að draga fyrir (bls. 16).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 13. janúar 2011
Um handbolta (og Eistland)
Ég held að ég hafi meðtekið það rétt að RÚV sýni ekki frá handboltakeppninni í ár, heldur geri Stöð 2 það. Útvarpsstjóri allra landsmanna gerði víst útvarpsstjóra sumra landsmanna tilboð í síðustu viku sem sá síðarnefndi gat ekki annað en hafnað. Hins vegar sýnir útvarpsstjóri allra öllum þátt UM handbolta þar sem menn TALA um íþróttina. Með ívafi af snögggirtum köppum.
Og mér finnst þetta fyndið. Það minnir mig nefnilega á mann sem hefur svo lengi horft á knattspyrnu en aldrei sparkað í bolta. Að minnsta kosti ekki að mér ásjáandi.
Og ég sé að íþróttamenn eldast eins og við hin.
Stórskemmtilegt. Og þá er best að klára Hreinsun. Ég á enn eftir 40 hraustlegar blaðsíður. Ég var búin að skrifa góðar blaðsíður en á síðustu 40 var sagt frá svo viðbjóðslegu lífi að ég geri ekki ráð fyrir að gleðjast mikið við lesturinn. Nú er þó svo komið að ég þori að mæla með að menn kynni sér þetta eymdarlíf sem lýst er í bókinni (eftir fyrstu 40 síðurnar var ég að hugsa um að láta gott heita vegna leiðinda).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 12. janúar 2011
Fasteignagjöld 2011
Fasteignamat flestra eigna sem hækkaði skart á þenslutímanum lækkar núna. Skv. síðu Reykjavíkurborgar lækkar álagningin núna líka - sem kemur frekar flatt upp á mig. Ég hélt að sveitarfélög myndu nota tækifærið til að hækka hlutfallið og fá svipaða krónutölu. Ef eitthvað er að marka þetta lækka fasteignagjöld á 30 milljóna kr. eign úr 120.000 kr. í 67.500. Er það sennilegt?
Eða er meiningin að fá mismuninn inn á sorphirðugjaldinu? Er það e.t.v. lóðarleigan? Þarf maður kannski að hringja í Ráðhúsið eða bíða til þeirra mánaðamóta þegar fyrsti greiðsluseðillinn dettur inn til að fá skýrt svar?
Alveg er ég viss um að landfræðingur sem ég þekki veit svarið við þessu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 9. janúar 2011
Hraðnámskeið í Shakespeare
Ég var að lesa leikdóma Jóns Viðars um Shakespeare-jólasýningar stofnanaleikhúsanna, bæði um Lé konung og Ofviðrið (Þegar Shakespeare sofnaði, ekki kominn á vefinn). Það hefur verið ósköp tilviljanakennt hvað ég hef séð og heyrt til Shakespeares og þess vegna er kærkomið að fá hann settan hér upp. Ég sá Ofviðrið, reyndar lokaæfingu og reyndar á 1. bekk, en var hálfmiður mín yfir því að vera ekki heilluð. Leikritið er auglýst sem húmorískt lokastykki meistarans og svo var það aðallega bara pínulítið fyndið og ekki vel skiljanlegt.
Jón Viðar fær heila síðu í DV fyrir dómana sína og hann notar þær vel. Hann fer í gegnum verkið, setur í samhengi við önnur verk og aðrar uppsetningar, varpar sögulegu ljósi á það og útskýrir síðan á góðu mannamáli hvað honum finnst gott og hvað slæmt. En þótt honum finnist rigning Lés ekki góð þýðir það ekki að aðrir eigi ekki að fara og sjá sýninguna og upplifa sjálfir. Ég hugsa að ég fari, bara betur undirbúin en ella.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 7. janúar 2011
Fíllinn vari sig á gráa litnum
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég er sammála Pawel sem er einhver eindregnasti opinberi talsmaður gangandi og hjólandi í umferðinni. Kannski að viðbættum Gísla. Pawel gagnrýnir það að fólk á fæti eigi að bera alla ábyrgð á því að bílarnir sjái það og varist að keyra það niður. Á sama tíma er bílunum gert auðveldara að aka hraðar og af meiri óvarkárni. Þegar ég hjólaði um daginn inn í Kringlu sá ég Pawel með barnavagn á gangi þannig að ég þykist vita að þessi gagnrýni sé ekki í nösunum á honum. Þetta er lífsstíll, sá sami og ég aðhyllist.
Alltof víða er líka of stuttur tími til að komast gangandi yfir á grænu ljósi og alltof víða eru fláar af gangstéttum niður á göturnar of miklir stallar en ekki aflíðandi, eins og til að hægja á hægfara hjólreiðamönnum (mér). Og núna um áramótin fannst Strætó bs. líka tilhlýðilegt - til að spara - að hækka gjöldin (svo að fólk kaupi sér frekar bíla) og fækka ferðum (svo að fólk hætti alfarið að nenna að lesa leiðatöflurnar).
Einmitt núna þyrftum við að nýta meðbyrinn til að hvetja fólk til sjálfbærra samgangna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4. janúar 2011
Lesarinn á ensku
Helsti ljóðurinn á frábærri sunnudagsmyndinni var að hún skyldi ekki vera á þýsku. Ég las Lesarann þegar hún kom út á íslensku 1998 í Syrtlu-útgáfunni og fannst frábær, stutt saga og áhrifamikil. Ég fylgist ekki nógu vel í kvikmyndaheiminum og vissi ekki að hún hefði verið kvikmynduð.
Kate Winslet var aldeilis stórfenglega góð, stráksi líka. En þegar ég hugsa betur um það finnst mér enn meiri synd að hún skuli ekki hafa verið leikin á þýsku - ég veit, þá hefðu hvorki Kate né Ralph verið með - heldur einhverjir góðir þýskir leikarar kannski. Myndin var að öllu leyti þýsk en textinn enskur.
Ég hitti vinkonu mína frá Austur-Þýskalandi á götu í gær og hún sagði mér að í hennar umgangshópi hefðu verið ákveðnir fordómar gegn því að lögfræðiprófessorinn Bernhard Schlink skrifaði bók og þess vegna hefði hún ekki verið lesin í þeim umgangshópi. Ég kannast alveg við svona, en skelfing hafa þau misst af miklu.
Það er vendipunktur í myndinni/bókinni sem ég vil ekki tala um ef einhver sem ég þekki skyldi eiga eftir að sjá myndina eða lesa bókina. Það er þess virði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 1. janúar 2011
,,Það er eitthvað svo rangt við þetta"
Á það ber að líta að ég hef oft verið ánægð með áramótaskaupið. Í fyrra var ég miklu meira en ánægð og nú er ég búin að horfa tvisvar á skaupið 2010 (þökk sé Láru Hönnu sem setti það inn á Facebook) og er ógurlega ánægð. Höfundar láta ýmsa finna fyrir því en eru samt fyndnir.
Ég sé þó að þeir sem ekki eru netvæddir missa af ýmsum bröndurum, eins og þeim gegnumgangandi úr landkynningarátakinu Inspired by Iceland sem kom mér ósjaldan til að hlæja í gær.
Ég er ánægð með að hafa marga leikara sem eru valdir eftir hlutverkunum frekar en að hlutverkin séu samin handa þeim, t.d. sá ég ekki betur en að Hjalti Rögnvaldsson léki Árna Johnsen í Sandeyjahöfn og aðeins það hlutverk. Víkingur Kristjánsson er frábær leikari í sketsunum og Þorsteinn Bachmann kom líka sterkur til leiks. Ágústa Eva er mér líka að skapi og var sérlega glæsilegur lokapunktur. Það var einn leikari sem mér fannst sérlega yfirdrifinn í einu hlutverki, kann ekki við að nefna nafnið enda er bara um smekk að ræða. Svo var hann ágætur í öðrum. Kreditlistinn í lokin var þó greinilega ekki til aflestrar hvað sem veldur, svo hratt rann hann yfir og með svo smáu letri.
Skrúðkrimmarnir eru ekki sloppnir. Endurskoðendur og skilanefndir hafa bæst í hópinn.
Vonglatt nýtt ár!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 30. desember 2010
Flugeldasala til styrktar yngri flokkunum?
Ég get ekki skilið að fólk kaupi vitandi vits flugelda með 300% álagningu (ef flugeldasala björgunarsveitanna í fjóra daga tryggir starfið allt árið hlýtur álagningin að vera drjúg sem mér finnst í lagi enda fjáröflun í leiðinni) af seljendum sem bera enga samfélagslega ábyrgð. Nema ef það er pabbi manns, þá get ég skilið að maður freistist.
Björgunarsveitir fara ekki bara á jökla og bjarga fólki úr sprungum ef einhver skyldi hugsa að þetta kæmi sér ekki við - nei, þær koma líka á vettvang þegar þök rifna af húsum í mannabyggðum. Við getum öll orðið þiggjendur.
Og það þarf ekki að kaupa flugelda til að styrkja björgunarsveitirnar. Peningur er peningur þótt hann sé einfaldlega gefinn. Og ábyggilega er hægt að fá uppgefið bankanúmer Björgunarfélags Akraness ef maður vill sýna í verki að manni finnist maður eins og Þórður Guðnason skipta máli.
Hjá Landsbjörgu er hægt að velja milli fleiri slysavarnadeilda og björgunarsveita en ég treysti mér til að telja.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 29. desember 2010
Hann Prosperó
Ég er ekki nógu verseruð í Shakespeare til að bera saman en get sagt að ég hélt að mér yrði meira skemmt á Ofviðrinu. Ég sá lokaæfingu þannig að sýningin á eitthvað eftir að þéttast. Ég get ekkert að ráði sett út á leikarana, skil bara ekki almennilega hvað Jörundur er eintóna (af því að ég kann ekki að meta þennan eina tón). Hilmir kom mér á óvart, ég þekkti hann ekki einu sinni og fyrir það fær hann feitan plús (eða ég feitan mínus). Mér fannst Prosperó sjálfur ekki nógu mikið í leiknum en það er leikritið sjálft, ekki uppsetningin í Borgarleikhúsinu.
Danssýningarhlutinn var fallegur, sjónarhornið samt heldur verra af 1. bekk þar sem ég horfði næstum undir leikinn (og dansinn), og ég held að mat mitt fyrir mig verði að sýningin er prýðileg fyrir augað. Stundum fannst mér samt eintölin keppa fullmikið við myndmálið, kannski best að einbeita sér að því að horfa bara ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. desember 2010
Framboð og eftirspurn á hátíðum
Ég skrönglaðist í sund eftir hádegi (enda ekki opnað fyrr) og hélt að ég ætti svæðið í lægðinni. Því var aldeilis ekki að heilsa, það var maður við mann á brautunum, í barnalauginni og í pottunum, og á bílastæðinu sýndist mér líka bíll við bíl. Mikið kynni ég að meta lengri afgreiðslutíma um jólin og að fleiri laugar væru opnar. Ekki að ég sé neitt að heimta en eftirspurninni er greinilega til að dreifa. Ég staldraði skemur og synti styttra en ég ætlaði mér.
Samt alveg gleðileg jól.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 23. desember 2010
Þýðandi Tívolí ehf. (BÍÞ)?
Ótrúlega jólalega innrættri heimildamynd um bandarískan kór lauk á RÚV rétt í þessu. Ég hlustaði aðallega meðan ég undirbjó jólin en sá einmitt hver þýddi (fylgdist ekki með þýðingunni samt) og sýndist standa: Þýðandi Tívolí ehf. (BÍÞ).
Hvað í greflinum á það að fyrirstilla ef satt er? Þýðingin hlýtur að vera unnin af manneskju (BÍÞ þá) en ekki fyrirtæki eða vél. Fyrirvarð þýðandinn sig fyrir verkið eða vill fyrirtækið ekki leyfa honum að fá heiðurinn?
Tek ekki dýpra í árinni svona rétt fyrir jól.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)