Mánudagur, 20. desember 2010
Fjáröflun dómstólanna?
Hvert fara tryggingagreiðslurnar? Ef stuðningsmenn Julians hefðu ekki aflað tryggingafjárins hefði hann setið inni eitthvað áfram. Hve lengi? Var hann yfirleitt ákærður? Og hvernig geta tryggingagreiðslur tryggt eitthvert réttlæti? Ef einhver getur riggað upp peningnum, er hann þá minna sekur? Ef sekur yfirleitt sem er auðvitað stóra spurningin í ásakanamálum. Tryggja 40 eða 400 milljónir króna sakleysi?
Ég hef bara ekki áttað mig á því fyrr hvað þetta er órökrétt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. desember 2010
Ökuskattur
Mér er til efs að ég geti orðið sammála hugmyndum um að rukka fólk sérstaklega fyrir að keyra Hellisheiðina eða í uppsveitum Mosfellsbæjar. Í sjálfu sér finnst mér eðlilegt að við greiðum fyrir það sem við notum, og þá hvað sem er, en í fyrsta lagi held ég að innheimtan sjálf gæti kostað, í öðru lagi þarf að bjóða upp á skýran valkost, t.d. öflugar almenningssamgöngur, og í þriðja lagi búum við þrátt fyrir allt í samfélagi manna en ekki forsniðnum kassa með engum leyfðum frávikum.
Ef ég réði öllu mundi ég ekki hika við að taka einokunarvaldið af bensínsölunum og þannig tækist mér strax að þrýsta niður eldsneytisverði til allra. Úr því að við búum við bensínsölueinokun hvort eð er má allt eins hafa eitt ríkisverð og sleppa allri yfirbyggingu og meintri samkeppni. Þá gæti ég lækkað verðið umtalsvert en samt haft afgang til að byggja vegi fyrir. Hins vegar trúi ég því líka að tvöföldun vegarins yfir Hellisheiði mundi auka hraðann og þá á kostnað umferðaröryggis sem fólk þykist bera fyrir brjósti. Þess vegna veldi ég 2+1. Og svo þarf að bjóða upp á strætó út og suður og helst líka jarðlestir. Og ekki rukka 350 krónur fyrir eina ferð allra undir 70 ára aldri.
Og ef við ætluðum að gæta jafnræðis í ökusköttum vegna samgöngumannvirkja, tjah, hvað þyrfti ég þá að rukka marga 7-kalla hjá þeim sem rúlla gegnum Héðinsfjarðargöngin?
Það verður aldrei hægt að rukka upp á aur fyrir það sem fólk fær. 100% jafnræði er ekki til, annars værum við öll jafn falleg og vel innrætt.
Annars er svolítið merkilegt að fréttir af meintum fyrirhuguðum veggjöldum eru ekki fluttar í hlutlausum stíl. Ég leitaði á vefnum hjá RÚV og fann tvær nýlegar, önnur var fyrst og fremst tilvísun í íbúa á Selfossi sem keyrir daglega til höfuðborgarinnar og hin í stjórnmálamann í Árborg sem mislíkar tvískattlagning. Allt í lagi með þau sjónarmið en eru engar almennar fréttir af meintum fyrirætlununum? Kannski er leitarorðið hjá mér ekki nógu öflugt.
Til að öllu sé haldið til haga á ég ekki bíl en slíka græju á hins vegar margt gott fólk í kringum mig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 14. desember 2010
Árviss jólalesning af Háaleitisbrautinni
Nú ber nýrra við. Í jólabók ársins 2010 leggur SUS til að framlög til stjórnmálaflokka verði skert um 100%. Það var ekki í fyrra, ég gáði að því þá.
|
|
| -304,2 |
Ég las tillögurnar ekki frá orði til orðs (obbann samt) en leitaði að atvinnuleysistryggingasjóði eða vinnumálastofnun og fann ekkert. Þau vilja leggja niður fjölda starfa eða flytja til einkaaðila, s.s. söfn og rannsóknir, en gera ekki ráð fyrir að atvinnuleitendum fjölgi við það. Smáskekkja í bókhaldinu.
Ég er galopin fyrir öllum tillögum en ef allar þessar næðu fram að ganga byggjum við ekki í samfélagi. Samt vantar aukin framlög til lögreglunnar sem þyrfti að margfalda þegar frumsjálfsbjargarhvötin færi að gera vart við sig í frumskógi Reykjavíkur og nærsveita. Og einhvern veginn sýnist mér ekki hróflað við auðlindum sjávar sem þó gætu fært pöpulnum talsvert að bíta í.
En þau vilja taka stjórnmálaflokkana alfarið af fjárlögum og minnka framlög til ríkiskirkjunnar um ein 20%.
Ég bíð spennt eftir atvinnutillögunum sem boðaðar voru í jólabókinni 2009. Felast þær nokkuð bara í skattalækkunum?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 13. desember 2010
Fyrsti kjánahrollurinn
Kannski þarf ég að éta ofan í mig alla bjartsýnina út af stjórnlagaþinginu. Kannski voru of margar prímadonnur valdar þarna inn. Kannski getur þetta fólk ekki unnið saman.
Mér finnst Neskirkja ekki rétti staðurinn fyrir óformlega spjallfundi tveimur mánuðum áður en stjórnlagaþingið hefst en mér finnst heldur ekki ástæða til að gera mál úr því. Ég held hvorki með Erni né Silju, er ekki á móti þeim heldur. Mér finnst hins vegar dapurlegt og til viðbótar kjánalegt ef fólk er byrjað að þræta núna.
Kannski þetta sé allt DV að kenna?
Og bara svo ég leggi púður í tunnuna: Hvað með þessi þrjú utan af landi? Komust þau á fundinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 9. desember 2010
Fórnarkostnaður
Stundum þarf maður að vera vondur til að vera góður, segja t.d. nei við barn þótt það langi til að maður segi já. Þetta vita allir.
Maður getur þurft að klúðra bakstri og eldamennsku nokkrum sinnum áður en maður nær fullkomnun en eftir það sér maður ekki eftir nokkrum klúðurstundum, brunnum gráðaosti og mygluðum tómötum. Gott væri samt að eiga svín sem tekur við öllu á þeim stundum.
Stundum þarf líka að eyða peningum til að afla peninga. Það á t.d. við þegar fyrirtæki er stofnað, þá þarf maður að eiga startfé og leggja út í kostnað áður en tekjurnar skila sér.
Núna þurfti samninganefnd að sitja með Bretum og Hollendingum á löngum og ströngum fundum til að knýja fram niðurstöðu sem mér heyrist frá hægri og vinstri vera góð og jaðra við hamingjustund, tvær fyrir eina ... Ekkert var hún útlátalaus, trúi ég. En allra peninganna virði, heyrist mér af fréttum.
Duga ekki þessi rök líka á stjórnlagaþingið? Lýðræðið kostar. Kannski fáum við fullkomna stjórnarskrá sem allir verða lukkulegir með. Peningalegur fórnarkostnaður er varla skotsilfur í vösum helstu glæpamanna úr bönkunum. Má ekki senda reikninginn til Tortólu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 6. desember 2010
Þrjú stjórnlagaþing
Hafi Svavar Halldórsson farið rétt með í fréttum RÚV áðan (eðlislæg varkárni mín hefur hér orðið, sjálf trúi ég Svavari) stal PH í Fons ígildi þriggja stjórnlagaþinga (þá miða ég við efri fjárhæðina og sennilega fjögurra mánaða þing) á lánadegi. Með dyggri aðstoð trúrra vina sinna.
Peningar eru ekki verðmæti, þeir eru ávísun á verðmæti. Hvað stálu PH og vinir hans hins vegar mörgum heilbrigðisvöktum, mikilli heimahjúkrun, mörgum sérfræðilæknum, mörgum listamannalaunum, mikilli menntun, mörgum þyrluígildum, mörgum stöðugildum, miklu öryggi, mikilli vellíðan - MIKILLI HELVÍTIS HAGSÆLD?
Geta menn verið svo miklir glæpamenn að þeim standi á sama um orðspor sitt og viðmót almennings til barna sinna? Horfa þeir glaðir upp á vanlíðan fólks sem hefur misst vinnuna og á yfir höfði sér að missa ofan af sér? Hvar villtust venjulegir Íslendingar svona hrikalega af leið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 5. desember 2010
Hjólum meira
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 1. desember 2010
List og hönnun selur
Og Viðskiptablaðið hafði þegar í síðustu viku orð á því.
Sjálf hef ég oft spekúlerað í þessu, t.d. í vor, en aldrei séð upphæðina í spákúlunni minni. Markaðurinn hefur talað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 30. nóvember 2010
Af hverju er þekkta fólkið þekkt?
Þar sem ég er ekki fullkomin get ég ekki gert kröfu um að aðrir séu það heldur. Mér finnst eðlilegt að gera kröfu um að fólk geri sitt besta og láti almenna hagsmuni ráða. Og læri af mistökum sínum, jafnvel annarra. Og ég geri 100% kröfu um að það sé ekki spillt og skari ekki eld að eigin köku. Svo vildi ég gjarnan að það notaði almenningssamgöngur og færri plastpoka en þar er ég e.t.v. komin á hálan og heimtufrekan ís.
Nú sé ég að fólk gagnrýnir valið á stjórnlagaþingið fyrir að þekkt fólk veljist á það. Höfum við ekki öll tækifæri til að verða þekkt í þessu örsamfélagi? Ég þekkti fyrir 22 af 25. Getur verið að það sé vegna þess að það fólk hefur tekið þátt í umræðunni hingað til? Verið virkari þátttakendur í samfélagsumræðunni en t.d. ég?
Af hverju er þekkta fólkið þekkt?
Og eru menn búnir að telja allt þekkta fólkið sem náði ekki kjöri?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 28. nóvember 2010
Hátíðleiki val(d)sins
Ég kom úr bústað í gær, fór í sund og þvoði mér í framan (um hvers gildi þingmennirnir Mörður og Unnur Brá ræddu í vikunni), fór svo í Ráðhúsið, valdi 25 fallegar talnarunur - og leið frábærlega. Mér finnst svo merkilegt að hafa getað kosið til stjórnlagaþings, mér finnst persónukjör svo dásamlega spennandi og landið eitt kjördæmi líka.
Ég hef mikla trú á þessari viðleitni til lýðræðis og hlakka mikið til að sjá í kvöld eða á morgun hvaða 25 manns hefur verið treyst til að skrifa nýja eða laga gildandi stjórnarskrá.
Þjóðfundurinn sló tóninn um daginn og ég er ekki í minnsta vafa um að 25 manna stjórnlagaþing mun hugsa um almennan hag landsmanna, ekki eigin hag og ekki hag þröngra hagsmunaklíkna - þingið mun hugsa um hag almennings.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 25. nóvember 2010
Af hverju ætlar landsbyggðarfólk ekki að kjósa til stjórnlagaþings?
Ég er búin að hlusta heilmikið á umræður um stjórnarskrá undanfarið og er orðin mikils vísari. Margir frambjóðendur vilja færa mannréttindakaflann framar, nefna þjóðina á nafn, tryggja auðlindir og ýmislegt annað. Svo nefna margir þjóðfundinn frá 6. nóvember sem verði að vera leiðarljós.
Nokkrir segjast svo vilja litlu breyta og sumt af því fólki hefur auglýst sig hvað grimmast.
Og nú sá ég í sjónvarpinu mér til verulegrar furðu það mynstur að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu ætla að kjósa en fólk annars staðar á landinu ekki. Finnst Seyðfirðingum, Melrakkasléttubúum, Mývetningum, Dalvíkingum, Húnvetningum, Tálknfirðingum, Dalamönnum, Leirársveitungum, Selfyssingum, Víkverjum og Suðursveitungum frambjóðendur ekki bjóða neitt fýsilegt? Hafa menn áhyggjur af kjördæmunum? Er það satt sem ég heyrði, að Hafnfirðingur hefði skorað á Hafnfirðinga að kjósa Hafnfirðing á stjórnlagaþing? Getur verið að hinn almenni kjósandi sem lýsir yfir andúð sinni á kjördæmapoti vilji bara að hinir poti ekki?
Ég er búin að setja saman 30 manna lista sem ég á eftir að skera fituna af. Ég þekki nokkra persónulega, ég viðurkenni það, en obbinn er fólk sem hefur bara náð til mín í gegnum bæklinginn sem var dreift heim, kosningavef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og RÚV.
Viljum við persónukosningar? Eða viljum við bara sama gumsið og við höfum reynt að fúlsa við?
Ég er með nettengda tölvu eins og a.m.k. 80% heimila í landinu. Viljum við hafa áhrif eða viljum við bara dansa með?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 24. nóvember 2010
Sund í Bláfjöllum
Við systur erum einlægir aðdáendur heita vatnsins og stundum sundlaugarnar í Reykjavík af mikilli samviskusemi. Ég held að ég hljóti m.a.s. að hafa verið hafmeyja í fyrra lífi. Einu þeirra.
Þegar Jón Gnarr fleygði þeirri hugmynd inn í umræðuna að hægt væri að spara dágóðan slatta með því að loka skíðasvæðinu í Bláfjöllum í tvö ár heyrðist víða kvein. Og mín rak upp stór augu. Og eyru.
Ég hef ekki aðgang að forsendunum. Kannski sparast ekki 87 milljónir við þessa aðgerð. Einhverjum búnaði og e.t.v. húsnæði þarf að halda við (manni dettur líka Harpan í hug en það er önnur saga) þótt ekki falli snjókorn af himni og þótt enginn renni sér í brekkunum. Eru menn á launum hvort eð er? Hvað með tekjur þegar snjóar?
Kannski er hugmyndin um að loka tímabundið vond. En af því að ég hef ekki farið á skíði síðan ég bjó í Þýskalandi læt ég mér það í léttu rúmi liggja. Einhver talaði um að sportið væri svo dýrt fyrir að það væri ekki á færi nema efnafjölskyldna sem keyrðu hvort eð er reglulega norður til að heiðra Hlíðafjallið. Um þetta veit ég ekkert og hef enga skoðun.
Ég fór hins vegar um daginn að velta fyrir mér hvaða þjónustu mér þætti vont að missa. Þá er nærtækt að rifja upp sundið og ég hugsaði að mín vegna mætti opna seinna og loka fyrr, hafa sumar sundlaugar lokaðar suma daga og jafnvel mætti minnka þjónustu bókasafnanna lítillega (sem ég sæki annars líka óhóflega). Það er þó ógáfulegt ef það þýðir að tekjur dragast saman og stöðugildum fækkar.
Lítill borgarfugl hlýtur að hafa setið á öxlinni á mér og hlerað mig - nema hugmyndin sé ekki svo geníal - þetta er svo sjálfsagt (en ég finn ekki fréttina sem ég þóttist heyra í morgun).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 23. nóvember 2010
Breyting á árgjaldi greiðslukorts úr kr. 0 í kr. 26.900
Þær stofnanir sem ég vantreysti hvað mest eru fjármálastofnanir. Nei, ekki hvað mest. Mest. Bankar og verðbréfafyrirtæki. Ég fékk efasemdir um gamla viðskiptabankann minn, Búnaðarbankann, þegar heiti hans hafði verið breytt í skammstafanir og tveir bankastjórar þóttust geta borið sig saman við þorska í úthöfum þótt þeir væru bara gúbbífiskar í plastpoka.
Ég skipti yfir í sparisjóð.
Fyrir tveimur árum kom rangan öll út og maður fékk ekki að ráða næturstað þúsundkallanna sinna. Í óþökk mína var ég flutt yfir í gamla bankann minn sem nú heitir eftir einhverri fagurri goðsögn. Með fylgdu greiðslukort sem mér höfðu verið send eins og jólagjafir til vildarvina. Öll áttu það sammerkt að áskriftin kostaði ekkert ef maður notaði kortið fyrir a.m.k. kr. 25.000 á mánuði til jafnaðar.
Fyrir rúmri viku skoðaði ég yfirlitið í heimabankanum og sá hina forkostulegu línu:
Árgjald 26.900 kr.
Ég lét bankann njóta vafans og sendi tölvupóst á föstudagskvöldi:
Gott kvöld.
Ég sé í heimabanka mínum að Arion ætlar að rukka mig um kr. 26.900 fyrir að vera með Visa e2 platínumkort. Það hljóta að vera mistök sem ég bið þig að leiðrétta hið snarasta.
Á mánudeginum fékk ég tölvupóst og upphringingu með þeirri útskýringu að nýlega hefði árgjöldum verið breytt og þau hækkuð. Ég sagði kortinu þá snarlega upp og mér var lofað að ég yrði ekki rukkuð. Nú sé ég 10 dögum síðar að talan hangir enn inni á yfirlitinu. Ég var að senda tölvupóst en nú er ég orðin svo efins um heilindi bankamanna að ég geri ráð fyrir að þurfa að splæsa í heimsókn í útibúið líka.
Ég veit ekki hvort fólki getur yfirsést svona upphæð á kortinu ef heildarupphæðin verður t.d. yfir kr. 300.000. En sögurnar sem maður heyrir af bankaviðskiptum þessi misserin eru ekki beint til að auka trú manna á þessa starfsemi. Ég hef mikla samúð með þeim sem eiga eitthvað undir skilningi og samvisku bankanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 21. nóvember 2010
Stjórnlagaþingið, hugleiðing #712
Ég sver það, það er eins og ég hafi í augnablikinu ekki skoðun á öðru en yfirvofandi stjórnlagaþingi, aðallega kosningunni til þess. Nærsamfélag mitt segir mér að áhuginn sé enginn (nema hjá mér) en ég sé í lestrarnærumhverfi mínu að fólk hefur skoðanir.
Ég vil ekki kjósa neinn sem nýtir sér réttinn til að auglýsa í slagorðastíl. Ég vil helst ekki kjósa neinn sem hefur þegar rödd í samfélaginu. Ég vil ekki kjósa neinn sem er ósammála mér! Ég vil ekki kjósa eftir kynferði, búsetu, aldri - ég vil kjósa skoðanir.
En breytingin á viðhorfi mínu er að ég vil núna kjósa fólk með sérþekkingu á stjórnsýslu. Fyrir helgi sat ég á spjalli við mann um stjórnlagaþingið. Hann spurði: Viltu kjósa forsætisráðherra beinni kosningu? Og ég sagði í hugsunarleysi að já, ég vildi það. Þá sagði hann: Viltu leggja þingræðið af? Og ég: Neei. Þá var ég komin í þversögn við sjálfa mig.
Hversu margir frambjóðendur eru búnir að hugsa svona langt? Hversu margir vita í raun nóg um það sem rekst hvað á annars horn í stjórnarskrármálum? Egill Jóhannsson flaggaði í Silfri Egils í dag Samfélagssáttmálanum eftir Jean Jacques Rousseau og fannst að frambjóðendur, og helst allir kjósendur, ættu að lesa hann.
Stjórnarskrárskrifin mega ekki verða dægurmál! Stjórnarskráin á að lifa til langrar framtíðar. Hvaða fimm á ég að kjósa?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 17. nóvember 2010
522, ekki 523
Nú er kverið komið í hús og kjósandi getur virkilega farið að gera upp hug sinn til frambjóðenda til stjórnlagaþings. Maður getur valið næstum 5% nafnanna og ég er þegar búin að velja 5 nöfn. Málefnin ráða þegar fjórtölurnar mínar rata á blaðið 27. nóvember.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. nóvember 2010
Besta bók Árna?
Ég er hóflega hrifin af hástigslýsingarorðum og mér finnst ekki mikið unnið með samanburði við fyrri bækur höfundar. Þess vegna get ég ekki tekið þátt í þeim samanburðarfræðum með Morgunengilinn.
Ég hef undanfarin mörg ár (lengur en tvö) bölvað mönnum sem fara offari, hreykja sér af gróða (sem er allt annað en sanngjörn laun/þóknun, jafnvel hagnaður), reyna að teygja sig til tunglsins og láta sér í léttu rúmi liggja hvernig aðrir koma undan fíkn þeirra í gegndarlausan glaum. Af því að mér finnst ekki eftirsóknarvert að fljúga í þotum helming vökutímans, standa í veislum langtímum saman, standa ofan á annarra manna hausum eða almennt berast á get ég ekki skilið eftirsókn eftir milljörðum. Það litar vitaskuld mína afstöðu, ég veit.
Helsta umhugsunarefni Morgunengilsins finnst mér vera hvort það sé eftirsóknarvert að sýna umburðarlyndi, fyrirgefa og taka ekki reiðina og örvæntinguna út á röngum einstaklingum. Á grunnskólabarnið sem bað ekki um skíðaferð til Bandaríkjanna viku eftir að skólinn byrjaði að gjalda fyrir íburð foreldrisins? Grunnskólabarnið vill kannski frekar mæta í náttfatapartíið með hinum krökkunum. Grunnskólabarnið finnur fyrir óverðskuldaðri andúð vegna þess að mamma vill endilega sýna sig með það upp á arminn í koníaksstofunni í skíðahöllinni á kvöldin.
Ekkert veit ég um þennan veruleika en ég sver að ég trúi því að börn hinna glæstu og ójarðtengdu hafi goldið þessara himinskautafara. Sjálfsagt hefur þeim mörgum þótt sport í upphefðinni í einhvern tíma. En hvað er mannlegt að þrá? Er það ekki viðurkenning jafningjanna? Er það ekki verðskulduð aðdáun fyrir eigin færni, kímnigáfu eða annað eigið framlag? Er eftirsóknarvert að borða gullslegið rísottó þegar bekkjarsystkinin fá ostaspagettí sem pabbi eldaði með húmor - og á staðnum?
Veit það auðvitað ekki.
Fólk er misjafnt, börn líka. En ég held sem sagt að börnin hafi verið dregin nauðug viljug með í þessar lúxusferðir, ekki endilega liðið vel með það og svo þegar mamma og pabbi brotlenda komast þau ekki svo glatt til baka í gegnum hið þrönga nálarauga með allt fyrirferðarmikla fortíðarglimmerið.
Börn geta verið miskunnarlaus.
Já, nú er ég búin að hafa um bókina mörg orð án þess að vera komin í formálann að greiningu minni. Morgunengillinn er um þetta barn sem eignast allt nema umhyggju foreldra sinna og vináttu jafnaldranna. Og hér skiptir það meira máli að græðgi Ölvers varpar mannhæðarháum skugga á möguleika Margrétar Báru til að pluma sig í skólanum. Ef vel tekst til í bókinni hlýtur fólk að spyrja sig um ábyrgð sína gagnvart eigin börnum, ekki bara íburðarmikla fólkið heldur allir foreldrar og forráðamenn. Má minn sonur pönkast á þinni dóttur fyrir það að pabbi hennar er eilíflega í fréttaljósinu, fyrst fyrir að vera fáránlega ríkur og svo fyrir að hafa tapað þessu fáránlega ríkidæmi? Hvað heyra börnin heima, hvaða leiðsögn fá þau?
Mér finnst bókin vera um þetta. Einar blaðamaður hefur allar klær úti til að afla frétta í blaðið sitt en hann finnur líka til ábyrgðar því að hann veit ekki nema opnuviðtalið sem hann tók við hinn brotlenta hafi hrundið af stað mjög slæmri atburðarás. Við lentum á maganum fyrir tveimur árum, sumir voru betur bólstraðir og standa upp lítt sárir en aðrir eru miklu meira en hruflaðir. Höfundur hefði alveg mátt bíða eitt ár með bókina því að mér finnst alveg á mörkunum að fjarlægðin sé nóg en kannski verður bókin þarft innlegg í hið siðræna uppgjör.
Í mínum lestraraugum er síðan hliðarsagan um rokkhundinn uppfyllingarefni. Kannski er ég ekki nógu mikið á dýptina en ég sé ekki að sú saga bæti neinu við aðalsöguna.
Ég sé að Illugi Jökulsson talar fagurlega um (enda)fléttuna:
Á hinn bóginn geymir bók Árna einhverja óvæntustu og sniðugustu fléttu sem ég hef lengi séð í bók af þessu tagi. Ég var eiginlega alveg steinhissa.
Já, það gæti orðið verkur að kvikmynda Morgunengilinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 12. nóvember 2010
Hvar eru t.d. Lilja Þórisdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Guðný Ragnarsdóttir og Kolbrún Pétursdóttir?
Ég hélt ranglega að ég væri að fara að sjá Fólkið í kjallaranum í gærkvöldi. Ég sá Fjölskylduna og þóttist hafa heyrt að stykkið væri þungt.
Það var öðru nær. Það var fyndið þótt það væri fullt af sorg og ömurlegheitum. Aðalpersónan var ógeðfelld að mörgu leyti en sneri við blaðinu stundum, nóg til þess að ávinna sér samúð annarra í fjölskyldunni, nóg til þess að áhorfandi undraði sig á meðvirkninni. Hún var reyndar þjökuð af geðveiki og pilluáti og kannski ekki sjálfri sér lík. Að minnsta kosti átta ég mig ekki á hvort við fengum eitthvað að vita um gæði hennar yngri ára - enda sýningin náttúrlega ekki fullir fjórir tímar.
Engu var haldið leyndu fyrir henni, hún vissi allt og valdi að spila út vitneskjunni þegar henni fannst henta. Allir voru strengjabrúðurnar hennar en auðvitað var hún sjálf líka fórnarlamb.
Hefur annað eins gerst? Já, nýjabrumið var ekki stóri kostur sýningarinnar. En mér fannst handritið fela í sér ýmis óvænt sjónarhorn - enda næstum fjögurra tíma sýning.
Mér hafði skilist - þetta hefur svo mikið með væntingar að gera - að sýningin væri þung og langdregin og bjóst ekki við öðru en langdregnu stofudrama. En ég hló oft og stundum lengi. Salurinn líka, kannski jók það frekar en ella á leikhúsgleðina. Mér hafði líka skilist að Margrét Helga léki rausandi fyllibyttu og hvað segja þær margt gáfulegt - í fjóra klukkutíma? Hún var á sviðinu næstum allan tímann, rausaði stundum en var líka mjög oft með smellin tilsvör. Ég vildi að ég hefði setið nær til að njóta þeirra betur og sjá almennilega framan í fólk.
Fyrir utan hana átti Guðrún Bjarnadóttir stjörnuleik, um að gera að leggja hana á minnið, og Theodór Júlíusson snerti líka við mér. Kannski var það manneskjan í hlutverkinu, ég átta mig ekki á því. Flestir aðrir voru alveg viðunandi og rúmlega - nema þau tvö eða þrjú hlutverk sem ég hefði viljað sjá öðruvísi skipuð. Þess vegna spyr ég um nokkrar leikkonur í fyrirsögn, og gleymi áreiðanlega ýmsum sem hefðu sómt sér vel á sviði Borgarleikhússins.
Ég hef talað við nokkrar manneskjur í dag sem eru fjarri því að vera sammála mér, einkum um eitt stórt hlutverk. Ein var vonsvikin yfir að þetta væri virkilega nýtt leikrit, það virtist 30-40 ára gamalt. En hey, hjörtun eru eins í Súdan og Grímsnesinu og mannlegt eðli breytist ekki svo glatt. Mér finnst bara pínulítið fúlt að vera ekki nógu vel að mér um bandaríska landafræði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 10. nóvember 2010
Brottvikningar
Meðan menn hamast við að þegja veit ég ekki hvernig í mannaráðningum hjá RÚV liggur. Hitt get ég gert upp við mig að ég skil ekki hvernig menn geta bæði amast við því að Þórhalli sé sagt upp og að Agli sé ekki sagt upp.
Væri ekki nær að menn hefðu prinsippafstöðu, annað hvort að menn í opinberum störfum mættu hafa (pólitískar) skoðanir uppi á borðinu/blogginu eða þeir yrðu að fara leynt með þær?
Þegar ég les rununa af athugasemdunum þarf ég stöðugt að minna mig á að þrátt fyrir fjöldann eru enn fleiri í holdinu sem láta ekki æsa sig svona upp. Og einstaka nafnlaus álitsgjafi bregður fyrir sig rökum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 9. nóvember 2010
Raforkuverð til garðyrkjubænda á Íslandi
Það er of hátt. Væri ekki hægt að framleiða megnið af grænmeti til innanlandsbrúks í gróðurhúsunum okkar? Þá fengjum við nýrri vöru, lífrænni vöru, vonandi betri vöru, notuðum minni gjaldeyri og færum betur með umhverfið.
Allir vinna nema fúli hollenski garðyrkjubóndinn sem laumar alltaf sandi í gulræturnar mínar. Og hann getur bara nagað sandinn sjálfur í fýlunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 8. nóvember 2010
,,Viltu afrit?"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)