Sunnudagur, 26. september 2010
Prófarkalesari sem tekur sig ekki alvarlega
Nei, ekki ég. Ég tek mig mjög alvarlega í vinnu.
Ég rakst á þetta þegar ég var að leita að handhægum upplýsingum um Njálu:
Þeir sem óska eftir frekari upplýsingum um prófarkalestur og/eða tilboðum í einstök verk er bent á netfang fyrirtækisins alvara@alvara.is [feitletrun mín]
Þetta er það fyrsta sem hugsanlegur verkkaupi sér. Kannski er verkkaupinn ekki líklegur til að sjá beygingarvilluna, hahha, og þá sit ég bara uppi með hláturskastið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 25. september 2010
Kosið á stjórnlagaþingið 27. nóvember
Nú eru rúmar þrjár vikur til stefnu fyrir frambjóðendur til stjórnlagaþings og ég byrjaði í gærkvöldi að velta fyrir mér hvað ég vildi sjá í framboðunum.
Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er ekkert sérlega seinlesin enda á hún að vera hverjum læsum manni mjög aðgengileg. Henni á að breyta.
-Styrkja þrískiptingu valdsins?
-Halda forsetanum? Fækka tímabilunum ofan í tvö? Auka ábyrgð hans?
-Fækka kjördæmunum, jafna atkvæðavægið?
-Bæta við grein/um um stjórnmálaflokka?
-Aðskilja ríki og kirkju?
-Hnykkja á eignarréttinum?
-Hnykkja á atvinnufrelsinu?
-Hækka/lækka kosningaaldur og/eða kjörgengi?
-Fiskur, heitt vatn, kalt vatn, olía - þjóðareign/almannaeign? Einkaeign?
Línur mínar eru farnar að skýrast og nú bíð ég spennt eftir framboðunum.
Á einum stað í kynningargögnunum stendur:
Maður má því bara mæla með einum frambjóðanda - en hver frambjóðandi þarf bara 30-50 meðmælendur hvort eð er. Einn skólabekk.
Það er líka ábyrgðarhluti að kjósa til þessa þings.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 21. september 2010
Bíllausi dagurinn 22. september
Það er puð að hjóla, sérstaklega upp brekkur. Mér þætti reyndar raunalegra að hjóla í lausu lofti, sem sagt inni í sal. Þess vegna nota ég gripinn til að koma mér á milli staða. Og þá er nú aldeilis hippt og kúlt að hafa hjólavefsjá til að sjá bestu leiðina milli hverfa.
Hef ég sagt nákvæmlega þetta áður?
Nei, ég held að hjólavefsjáin sé ný.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 18. september 2010
Aldrei heyri ég sögusagnir fyrr en þær eru bornar til baka
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 15. september 2010
Fælingarmáttur hótela
Ég frétti af hóteli áðan sem rukkaði 280 krónur fyrir byrjað símtal. Það stóð yfir í u.þ.b. hálfa mínútu og náði úr fastlínu í Borgartúni í fastlínu í Mánatúni. Engar ýkjur. Fór fram á móðurmálinu.
Ein nótt í herberginu kostaði 33.000 krónur. Maður getur spurt sig hver borgi það verð. Svarið er ekkert annað en að það er meint listaverð. Túristar sem frílysta* sig á eigin vegum á Íslandi og detta inn á stað með svona okurverðlagðri þjónustu byrja að tala um það þegar þeir koma heim, segja svo oft og mörgum sinnum frá okrinu.
Þetta er landkynning sem segir STOPP.
*Orðið fer betur í munni en er víst stafsett svona.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 13. september 2010
Hvort heitirðu A eða Ö?
Ég hef um hríð haft á lofti þá kenningu að fólk skírði börnin sín í auknum mæli nöfnum sem eru framarlega í stafrófinu til að þau þyrftu ekki að bíða lengi eftir að fá að taka leikfimiprófið eða munnlega prófið í ensku. Mér er í fersku minni hvað mér fannst gott að heita alltaf u.þ.b. þriðja nafninu í skóla, var aldrei alveg fyrst en alltaf snemma búin. Kennararnir mínir voru nefnilega mjög ferkantaðir í þessu, byrjuðu fremst og unnu sig niður/aftur stafrófið.
Um helgina spjallaði ég við Þ hjúkrunarfræðing sem man nefnilega hvað það var raunalegt að þurfa alltaf að bíða þangað til hinir voru búnir og þegar á það hefur reynt hjá henni hefur hún lagt sig fram um að byrja stundum aftast, stundum í miðjunni og hafa stundum handahóf. Ef kennarar væru meira vakandi fyrir þessu held ég að Össur, Æsa og Völundur mundu aftur sækja í sig veðrið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. september 2010
Útlenskukunnátta og túlkaþjónusta
Ef svo einkennilega skyldi vilja til að fólkið sem fór í víking til annarra landa skyldi ekki kunna tilhlýðilega mikið í útlenskunni sem það brúkaði meðan það lagði undir sig land og annað væri alltaf hægt að fá hjálp túlka. Kannski ætti að túlka í dómsmálum í útlöndum yfirleitt svo menn geti einbeitt sér á sínu eigin tungumáli við að skýra mál sitt.
Hvernig dettur mönnum í hug að bera fyrir sig svona bull og halda að þeir þurfi þá ekki að svara fyrir sig í dómsmáli?
Hvað vantar í fréttina? Hefur fólk almennt val um að segjast ekki vilja svara ákærum dómstóla?
Eftirfarandi orð féllu í þættinum Víðsjá (sé ekki hvenær):
Þannig er mörgum væntanlega í fersku minni að blessuðum bankamönnunum okkar þótti íslenska til lítils brúkleg í allri útrásinni fyrir nokkrum árum og töldu eðlilegt að taka upp ensku í sem flestum þáttum starfsemi sinnar.
Að vísu má leggja þau út sem skoðun Finns Friðrikssonar en ég held að flestir kannist við hugmyndina. Stjórnmálamenn lögðu þetta líka til í fyllstu alvöru. Enskan sótti verulega í sig veðrið út af nálægð við hinn stóra (viðskipta)heim og íslenskan átti meira og meira undir högg að sækja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 9. september 2010
Væntingastuðull vegna spennubókar
Einhver segði sjálfsagt að ég hefði óalmennilegan smekk (eins og ég hef verið kölluð húmorheft (með snert af kímni samt) fyrir að finnast ekki The Office skemmtilegur þáttur) en nú er ég komin á blaðsíðu 70 í meðmæltri spennubók (sá m.a. þau meðmæli að best væri að byrja ekki fyrr en maður hefði nægan tíma til að lesa lengi) - og ég sofna út frá henni.
Næst verður það eitthvað almennilegt, t.d. Íslandsklukkan, Innansveitarkronika (sem nemandi mælti með við mig (fyrir 14 árum)), Karamazovbræður eða Atemschaukel eftir Hertu Müller. Já, og Grettla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 7. september 2010
Svifryks- eða öskugleraugu hefðu ekki verið til skaða í dag
Ég ,lenti í löngum hjólatúr í dag og sá varla út úr augunum á Sæbrautinni. Nú skilst mér að Eyjafjallajökulsaska hafi byrgt mér sýn en ég var farin að halda að ég væri í vafasömum útlöndum.
Ég sá skítugri sveppi en þá var ég orðin svo súr í augunum að ég ákvað að fara stystu og fljótförnustu leið heim og kasta mér í inniskjól.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 5. september 2010
Hækkanir og vísitölur
Víst væri gaman að geta komið með lausn á vanda en það er ekki svo gott. Ég ætla bara að segja það sama og ýmsir hafa sagt og sjálfsagt fleiri hugsað. Látum vera þótt gjaldskráin hjá OR hækki en látum ekki vera að hækkunin fari inn í vísitöluna og hækki bæði matvöru og húsnæðislán. Er ekki hægt að aftengja það?
Ég endurtek: Er ekki hægt að skilja á milli vísitölunnar og heitavatnshækkunarinnar? Voru þær pússaðar saman í eitt skipti fyrir öll? Kannski með vitund og vilja kirkjunnar?
Nú er tíminn sem menn þurfa virkilega að hugsa út fyrir rammann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 31. ágúst 2010
fráfarandi er ekki samasem fyrrverandi
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. ágúst 2010
Lotutúlkun
Ég er á hraðnámskeiði, hálfgerðu skyndinámskeiði, í lotutúlkun þessa vikuna. Ég hef aðeins og bara örlítið fengist við túlkun, yfirleitt þá fengið ræðurnar fyrirfram - og fundist það nógu erfitt. Það sem dr. Dorte er að kenna okkur er hvernig á að túlka ræðu sem er haldin í allt að korter og svo kemur að túlkinum. Þá reynir á (tungumálaþekkinguna, jájá, og) punktatækni.
*svitn*
Ég held að það ætti að kenna hraðritun. Dorte þessi hefur komið sér upp, fyrir sig, alls konar dulmálslyklum fyrir Evrópu og Evrópubúa, lýðræði, í gær og á morgun, fyrir 15 árum, síðustu 15 árin, efnahag, fjármálastjórnun, þróun og sjálfbæra þróun - með orðum úr ýmsum tungumálum og brosköllum, samsettum táknum o.s.frv.
Spennandi. Kannski er framtíð í'ðessu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. ágúst 2010
Ljótu hálfvitarnir eru uppáhalds
Fullseint að plögga á þessu ári nema þið eigið eftir að fara til Færeyja í lok september en ég mæli þvílíkt hástöfum með tónleikum Ljótu hálfvitanna. Ég hló fyrir allt sumarið í gærkvöldi því að ekki aðeins syngja þeir og spila dáindisvel heldur segist þeim svo vel frá sönnum og lognum atburðum. Sævar er í essinu sínu í nánd við hljóðnema. Og Oddur Bjarni á a.m.k. þúsund svipbrigði. Ég gæti hugsað mér að mæta í messu hjá honum ef hann klárar guðfræðina og fær brauð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26. ágúst 2010
30,5 krónur
Það er verðið á hafinni símamínútu ef maður hringir úr Tal-síma í Nova-síma. Mér sýnist verðið fyrir mínútuna annars á bilinu 16-21 kr.
Fimm símafyrirtæki í fámennu landi gera sér far um að koma hér upp frumskógi þannig að maður viti sem minnst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. ágúst 2010
Steinull og strigi
Eftir fantafína göngu um Öskjuhlíðina í kvöld (í boði OR) met ég heimsókn í undirheima Perlunnar hápunkt kvöldsins. Einar jarðfræðingur sagði mér að víst væri geymt 80°C heitt vatn í fjórum geymum af sex. Og við nokkur sérlega áhugasöm fengum að ganga undir Perlunni og skoða leiðslurnar - og einangrunina. Utan um leiðslurnar er steinull, utan um steinullina er strigi og hann er málaður hvítur. Kjarval hvað? Svo eru gormar til að mæta breytum í leiðslunum.
Gaman!
Og ekki spillti síðsumarsveðrið, seiseinei.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 22. ágúst 2010
Frímúrarar, Seðló og strætó
Úrvalsmenningarhátíð í gær. Ég heilsaði upp á frímúrara, gekk um salarkynnin, fékk kleinu og las bæklinginn. Þeir segjast ekki fela neitt.
Ég skemmti mér við að fylgjast með vígslu nýs skiltis á Klambratúni og fór svo í Seðlabankann og reyndi að leysa aðsteðjandi vanda með stýrivöxtum.
Get ekki kvartað.
Verð hins vegar að kvarta undan strætó. Ég ætlaði til Hveragerðis í dag, skoðaði straeto.is og sá að ég gæti ekki tekið vagn upp í Mjódd þaðan sem leið 51 fer. Vagnarnir byrja nefnilega að ganga kl. 12 almennt og yfirleitt á sunnudögum í höfuðborg Íslands. Ég kom mér í Mjóddina með harmkvælum rétt fyrir 12 til að ná vagninum sem færi kl. 12 - en viti menn, á leiðaspjaldinu þar stendur að vagninn fari kl. 12:30. Strætókortasjoppusalinn kom af sömu fjöllum og ég og aðrir farþegar. Þetta er meintur vetrartími sem hófst víst í dag.
Ætli dr. Gunni hefði staðið vaktina betur sem stjórnarformaður?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 20. ágúst 2010
Reykjavíkur-10-km-LARGE
Ég sótti rásnúmer og önnur gögn í Laugardalinn áðan af því að ég ætla að hlaupa mína árvissu 10 kílómetra á morgun. Ég bið alltaf um stærð L í bol og nú sé ég mér til verulegrar furðu að hún hefur rýrnað um 25% frá árinu 2007. Táknrænt, geri ég ráð fyrir. Nýja L smellpassar utan um mig og þess vegna ætla ég að flagga gróðærinu á morgun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. ágúst 2010
68 kóra söngur
Gva, hvað það var gaman að vera leiðsögumaður í gær. Sólin skein, leiðsögumaðurinn lék við hvurn sinn fingur, farþegarnir hlógu að öllum bröndurunum og launuðu með kórsöng, súkkulaði og faðmlögum. Finnski kórinn frá Vallis og ég vinguðumst hratt og örugglega.
Á morgun syngur hann með 67 öðrum kórum frá Norðurlöndunum og Eystrasalti úti um alla borg á menningarhátíð. Ég mun leita þau uppi og hvet aðra Reykvíkinga til að gera slíkt hið sama.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. ágúst 2010
Nú kárnar gamanið - ég mótmæli
Vísir (hefur kannski hagsmuna að gæta?) segir mér að nú eigi að veita uppáhaldsþættinum mínum í útvarpi náðarhöggið. Ef einhver töggur væri í mér tæki ég nú á mig rögg, rigsaði upp í Efstaleiti og ætti gott samtal við símadömuna. Ég efast um að Páll sé ínáanlegur fyrir venjulega aðdáendur eðalþátta á Rás 1.
Skrambans.
Eins gott að Páll frétti ekki af því að ég hlusta líka alltaf á Vikulokin á laugardagsmorgnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. ágúst 2010
Geysir, Dettifoss, Reynisfjara, vörður o.fl.
Það er gaman að segja frá því að Kári Kristjánsson stendur vaktina með sóma í Laka, a.m.k. nú í sumar. Ég hef að vísu bara komið þangað tvisvar en í bæði skiptin spratt hann út úr bílnum, tók sér stöðu við upplýsingaskiltið og leiðbeindi komumönnum. Bæði útskýrði hann leiðina sem best væri að fara og brýndi fyrir mönnum að gróðurinn væri viðkvæmur og að við þyrftum að halda okkur við stígana. Hann býr í Blágili og er alveg vakinn og sofinn.
Þetta vekst upp fyrir mér þegar ég hlusta á Ólöfu Ýrr ferðamálastjóra og Baldvin Jónsson leiðsögumann (ekki í leiðsögumannatalinu) tala í Kastljósinu um gjöld, aðbúnað og öryggismál á fjölsóttum ferðamannastöðum. Ég er alveg á því að aðbúnaður þurfi að batna og ég get ekki skilið að peninga skorti. Peningur kemur inn á þessum stöðum og það ætti að vera hægt að nota hann í stígagerð - og landvörð sem t.d. varar fólk við gáleysislegri hegðun. Og mætti ég biðja um að fólk hætti að henda klinki í Blesa, það væri nær að skilja eftir gild greiðslukort eins og dæmi eru um í Flosagjá ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)