Sunnudagur, 15. ágúst 2010
Farsímafár
Eins og gefur að skilja hefur margur farsíminn ratað inn á heimilið. Allir gefa þeir upp öndina fyrr eða síðar en hver með sínu móti. Nú sýnist mér kreppusíminn sem ég keypti 4. október 2008 af verulega illri nauðsyn vera að syngja sitt síðasta og það í hljóði. Hann slekkur á sér, klárar hleðsluna á fimm klukkutímum í bið, frýs - og tekur myndir að eigin frumkvæði. Í alvöru, hann bara liggur á borðinu og katsjinnng, allt í einu opnast myndavélargatið og hann smellir mynd af borðinu.
Mér finnst þetta skárri aðferð til að ljúka farsímalífi sínu en að hætta skyndilega þegar ég er að hlusta á spennandi þátt í útvarpinu (í símanum).
Og nú þarf ég enn að leita mér að síma sem uppfyllir lágmarkskröfur mínar. Kannski sunnudagurinn fari í það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 12. ágúst 2010
Hvað hangir á Mílunni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 11. ágúst 2010
Í lok ferðar
Nú er ég búin að vera hálfsambandslaus á gangi á Suðurlandi með átta Þjóðverja sem sögðu salíróleg: Meðan þið sem búið á Íslandi eruð róleg yfir eldfjöllunum erum við það líka.
En hvað veit maður? Hekla hótar að gjósa með korterisfyrirvara, Eyjafjallajökull reykti meðan við fórum inn í Þórsmörk og forsetinn ,,hótar" útlendingum með Kötlu sem er löngu komin á tíma. Við keyrum framhjá augljósum ummerkjum um vatnsflóð og á gangi meðfram Skógaá fer ekki á milli mála að þar féll aska fyrir skemmstu. Jöklar aka sér til, hopa og gliðna meðan við stingum niður fæti.
Er öryggið áreiðanlega áreiðanlegt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. ágúst 2010
Hengillinn er skæslegur
Að vísu herma heimildir að Hengillinn sé megineldstöð og þótt hann hafi ekki látið á sér kræla í 2000 ár fer því fjarri að hann sé sofnaður svefninum langa. Rölt um hann er því ekki endilega hættulaust, frekar en ráp upp á Heklu. En hey, það er líka hættulegt að ganga yfir götuna þannig að ég mæli eindregið með hæfilegri gönguleið í Henglinum. Þær spanna samtals eina 125 kílómetra þannig að allir ættu að geta fundið sína eigin ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. ágúst 2010
Hvalfjarðargöng
Er verið að spara rafmagn með því að hafa lýsinguna svona naumt skammtaða í göngunum? Ég sá nefnilega í fréttatímanum að það munar miklu. - Kannski er þetta ástæðan fyrir að ég keyrði einu sinni í gegnum göngin á 40 kílómetra hraða ... á mótorhjóli. Þvílíkt sem ég var stressuð.
Væru ríkisrekin göng öruggari? Maður spyr sig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 3. ágúst 2010
Traffík í Reykjadalnum
Ég æfði stafagöngu í uppsveitum Hveragerðis í dag. Þar var stríður straumur útlendinga á leið í heitu ána. Fólk stoppaði mig og spurði hvað það ætti langt eftir í heitu laugina. Og ég fór að hugsa um hvers vegna ferðaþjónustan utan um skemmtiferðaskipin býður ekki gönguferðir með hinum ferðunum. Það er langtum yngra og frískara fólk farið að sigla á þessum skipum, fólk sem er til í smááreynslu.
Þarna er himnesk litasamsetning, hverir, hveralykt, smápríl, 2ja tíma róleg ganga. Svo má prjóna Þingvöllum við ef um er að ræða heilan dag.
Þegar ég var í skipunum fórum við stundum salíbunu upp á Langjökul, ekki á sleða eða neitt heldur bara keyrðum upp á jökul með fólkið aftan á vagninum. Kannski voru þær lagðar af en ferðaþjónustan þarf stöðugt að brydda upp á nýjungum. Eitt árið var rúntur í Rauðhólum sem náði ekki flugi.
Ganga í Henglinum gæti hins vegar gert sig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. ágúst 2010
Allir í sundi
Það var ekki hægt að kvarta undan mannfæð í sundlaugunum mínum um helgina. Í dag varð ég t.d. að láta mér nægja að svamla í heitasta pottinum og kryfja heimsmálin þar sem allar brautir voru uppteknar þann tíma sem ég hafði tekið frá til sundiðkunar.
Er þessi íþrótt ekki að verða æ vinsælli?
Næstu vikuna eða svo ætla ég að ,,æfa" göngur - enda styttist tíminn í annan endann áður en mitt árlega 10 km hlaup hefst. 21. ágúst er hin heilaga dagsetning þessa árs. Fjölmennum í skokk Reykjavíkurmaraþonsins!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. ágúst 2010
Íbúðin mín óskast
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 31. júlí 2010
Jarðböðin í Mývatnssveit
Áður en ég fór með þýsku farþegana mína hringinn hafði ég í hyggju að stinga upp á ferð í Jarðböðin af því að mér sýndist við hafa góðan tíma í Mývatnssveit. Á daginn kom svo að ég hafði annað plan í höndunum en þau og Húsavík með hvalaskoðun, Tjörnes, Ásbyrgi og Dettifoss bættist við daginn sem ég ætlaði að stinga þeim í lón.
Daginn eftir ákvað ég því að við keyrðum að böðunum og litum á þau. Þá var ekki búið að opna hálftíma eftir auglýstan opnunartíma, matarleifar voru á veröndinni og engin önnur ummerki um mannaferðir. Þarna stóð ekki til að selja þeim neitt - en helv. hefði það líka verið erfitt. Og það er ekki eins og það taki því ekki að rukka, auglýstur aðgangseyrir er 2.500 kr.
Hefur einhver tekið sprettinn í norðurlóninu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. júlí 2010
Landeyjahöfn
Ég hef ekki heyrt neinn veina yfir landgrunninu í Landeyjahöfn nema einn núna í fréttatímanum. Það var fyrirsjáanlegt að það tæki tíma að ná kúrsinum. Það er engin náttúruleg höfn þarna og það mun áfram þurfa að dæla upp sandi. Ég held að vinnan þarna sé góð og ég hlakka mikið til að fara til Eyja, vonandi í náinni framtíð.
Hafa menn ekki tekið eftir sanddælunni í Reykjavíkurhöfn? Er ekki eitthvað svipað gert á Grundartanga?
Áfram Vestmannaeyjar!
Minni svo á að fuglinn í Eyjum er lundi en ekki kría ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 29. júlí 2010
Engu logið upp á Austfjarðaþokuna
Þokan var svo þéttstrengd á milli Egilsstaða og Neskaupstaðar í gær að hægt hefði verið að hengja þvott á hana. Á ég að trúa að ófrískar konur séu sendar í klukkutímarússibana á ögurstundu? Aksturinn tekur klukkutíma við bestu aðstæður. Núna er hásumar. Og Oddsskarðið er einbreitt!
Er þetta pólitík?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 27. júlí 2010
Ákall til samgönguráðherra
Það þarf að laga Dettifossveg.
Ég fór þar í dag (reyndar á lágri lúxusrútu með eldhúsi í skottinu) en við gátum lengi dags ekki keyrt hraðar en á 20. Þetta eru ekki einu sinni ýkjur. Farþegarnir buðust til að skrifa Verkehrsminister bréf til að segja honum að þetta væri ekki gott fyrir ferðaþjónustuna. Við rétt náðum kvöldmatnum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 24. júlí 2010
28 evrur í Bláa lónið!
Þegar aðgangseyrir í Bláa lónið er orðinn 4.600 krónur eða hvað mér var sagt í símann í dag, 28 evrur í þýðingu, get ég ekki með nokkru móti mælt með því við túristana mína. Ég segi þeim auðvitað frá þessu þegar þeir spyrja en hvet þá til að fara í sund.
Svo kostar 800 kr. að leigja handklæði!
Ég held að Bláa lónið muni verðleggja sig út af markaðnum nema það sé beinlínis að reyna að hrista af sér lausatraffíkina. Ég þykist nefnilega vita að það sé skömminni skárra að kaupa pakka fyrirfram.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 20. júlí 2010
317.630
Þar sem ég stóð í guðdómlegu veðri við Laugarvatnshelli í gær og lagði spurningar fyrir nemendur í breskum piltaskóla varð ég fyrir þeirri undarlegu reynslu að kona vék sér að mér og leiðrétti svarmöguleikana sem ég gaf. Ég þrætti lítillega við hana og þakkaði henni svo fyrir.
Ég held að ég sé bæði of kurteis og of umburðarlynd.
Ég hef heldur aldrei lent í svona áður.
Fyrsta spurningin var um mannfjölda. Ég hafði sagt þeim á fyrsta degi að hér byggju 317.000 manns og að ég námundaði upp í 320.000. Margir tala um 300.000 hef ég heyrt og ég hef líka heyrt að fólk talar um Hvannadalshnjúk sem 2000 metra tind. Konan sagði að 1. desember sl. hefðu búið hér 309.000, ég væri augljóslega með töluna frá því fyrir hrun.
Maður hefur val um ónákvæmni.
Svo fletti ég upp á hagstofuvefnum eins og ég gerði áður en ferðin hófst. Og Hagstofan heldur því fram að 317.630 manns hafi búið hér 1. janúar sl. (uppfært reyndar 16. mars). Árið áður bjuggu hér 319.368.
Auðvitað getur maður haft skoðanir á og efasemdir um opinberar stofnanir en maður verður að miða við einhverja tölfræði sem þær gefa út.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. júlí 2010
Hafa kindurnar breyst?
Mér finnst endilega að ég hafi átt í standandi vandræðum með að fá kindur til að brosa framan í myndavél en mér tókst núna í vikunni að jarma til mín kind sem ætlaði bara inn í myndavélina mína. Er bilið að styttast?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 11. júlí 2010
Staðbundið veður (skyggni ágætt á húfunni minni)
Ég er svo mikill Reykvíkingur að ég hneigist til að skoða veðurspána út frá höfuðborginni. Um helgina var ég á hinum dýrlega stað Hellu og þar var allt annað veður en í Reykjavík - en ekki bara það, allt annað veður en í Hveragerði og á Hvolsvelli.
Í gær rigndi dropum á stærð við badmintonkúlur, reyndar sæmilega hlýjum þannig að ekki fór illa um okkur í sundi og víðar. Og ég sver að ég hugsaði og sagði: Gott, þá hreinsast kannski eitthvað askan undir Eyjafjöllum. Svo heyri ég í fréttum í kvöld að Þorvaldseyri hafi farið á mis við alla rigningu í lægðunum ógurlegu. Hnuss.
Og nú er ég spennt að vita hvað gerist næstu vikuna. Rís Eyjafjallajökull eða hnígur? Hvessir eða lægir? Siglir Herjólfur í Landeyjarnar? Er Fjaðrárgljúfur á sínum stað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. júlí 2010
Bæjarstjóraskipti
Ég er að reyna að tapa mér ekki í smáatriðum en get ekki látið vera að velta fyrir mér hvort fráfarandi bæjarstjóri í Hafnarfirði verði ekki á biðlaunum út árið, svo nýi bæjarstjórinn í einhvern tíma þegar hann hættir eftir tvö ár og ef sá þriðji skyldi hætta í lok kjörtímabilsins hlýtur hann líka að fá biðlaun í einhverja mánuði.
Skipta bæjarstjórar kjörtímabilinu á milli sín með hag bæjarbúa í huga? Hahh.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 7. júlí 2010
Veður og klætt fólk
Í gær sannreyndi ég að það er ekkert til sem heitir vont veður, bara misjafnlega (vel) klætt fólk. Ég var í hópi þess fólks sem var ekki klætt eftir veðri (sú eina reyndar) og afsaka mig með því að ég fór í tvær heimsóknir áður en gangan brast á og þess vegna kaus ég að trúa því að veðrið yrði betra og þurrara þegar á reyndi.
En - en mér var alveg sama þótt ég blotnaði. Þegar ég kom heim reif ég mig úr öllu og henti beint í þvottavélina. Hins vegar trúi ég á illsku vonda veðursins ef maður skyldi - jafnvel vel búinn - ætla að lúra í tjaldi dögum saman í rigningu. Líka get ég krossbölvað miklu votviðri ef maður er á ferð í rútu, jafnvel á malarvegum þar sem eðjan sullast upp um allar rúður og maður sér ekki út - og svo fer maður út og svo kemur maður blautur inn, fer úr blautri yfirhöfninni og vætan þéttist innan á rúðunni - og reynið að segja mér að þetta sé ekki dálítið og allt að því talsvert leiðinlegt.
En það var sko ekkert leiðinlegt að slæpast í góðum félagsskap í rigningu í Reykjadalnum í gær. Bara gaman. En grey fólkið með gleraugun og engar vinnukonur á rúðunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. júlí 2010
Same old, same old
Ég fór í dagsferð sem leiðsögumaður, fékk yfirlit yfir launin, gerði athugasemd við það að mér væru greiddir 10 tímar í dagvinnu, sagði að ég ætti að fá 8 tíma í dagvinnu og 2 í yfirvinnu - og fékk þetta svar:
Venjulega er Gullhringur 8 til 8,5 klst. og ætti því að greiða 8 til 8,5 klst. í dagvinnu fyrir Gullhring en vegna þess að leiðsögumenn þurfa að mæta áður en ferðin hefst og alltaf hleypur á einhverjum mínútum, tíu eða svo, þegar þeir koma tilbaka er ákveðin vinnuregla hér hjá XXX - allavegana í XXX - að greiða fast gjald á virkum dögum fyrir Gullhringinn 10 klst. þannig að í raun ættum við að greiða 8 til 8,5 klst. fyrir Gullhringinn en við viljum koma til móts við leiðsögumenn og greiða þeim fyrir að mæta fyrr og þess háttar þannig að við greiðum fast 10 klst. fyrir Gullhringinn.
Ef við mundum ekki hafa þessa reglu hjá okkur mundum við hafa max 8 klst. en þá munduð þið aldrei frá greitt fyrir að mæta fyrr. En rétt er að dagvinna er max 8 klst. og eftirvinna eftir það. En ef við mundum greiða ykkur eftir því þá fengjuð þið minna greitt fyrir t.d. Gullhring þar sem við þá mundum einungis greiða fyrir ferðina sem Gullhringurinn er. Á þennan hátt viljum við koma til móts við ykkur og greiða ykkur fyrir allar þær klst. sem þið vinnið fyrir okkur - frá því að þið mætið XXX.
Ég þreytist ekki á að undra mig á því að leiðsögumenn sætti sig við að fá ekki greitt eftir kjarasamningum.
Ég svaraði:
Þetta er sérkennileg vinnuregla og mig furðar að leiðsögumenn sætti sig við þessa útleggingu. Ef ekki ætti að greiða fyrir undirbúningstímann á XXX ættu leiðsögumenn að mæta beint í rútuna, er það ekki? Ég var mætt kl. 7:30 og komin til baka kl. 17:20 - af hverju ætti ég ekki að fá greitt fyrir vinnutímann minn?
Ég er líka með vinnureglu, ég vinn ekki fyrir fyrirtæki sem borga ekki a.m.k. eftir kjarasamningum. Ég sé ekki eftir að hafa farið með farþegana af XXX og XXX af því að þeir voru sannarlega skemmtilegir og þægilegir í alla staði en eins og gefur að skilja hefði ég ekki farið ef ég hefði kynnt mér það að vinnureglan ykkar er að borga ekki að lágmarki rétt laun.
Ég bið þig að taka mig af úthringilistanum ykkar því að annars yrði svar mitt eftirleiðis: Sama og þegið, ég ætla ekki að vinna yfirvinnu á dagvinnulaunum sem þið lítið m.a.s. á sem sérstaka greiðasemi.
Svo bið ég sérstaklega vel að heilsa minni kæru XXX sem hefði getað sagt þér að ég brygðist svona við.
Mér finnst ég alveg kurteis og ég er næstum hætt að pirra mig á svona vinnubrögðum sem er kannski ógott því að maður á að veita mótspyrnu þegar meiningin er að hlunnfara mann og greiða ekki einu sinni eftir kjarasamningum.
Ég var fyrir mörgum vikum beðin um að vinna fleiri daga hjá téðum aðila í sumar en ég sagðist ekki vilja ráðstafa stökum dögum svona langt fram í tímann. Það er nefnilega önnur vinnuregla hjá mér, ef ég er búin að segja já hætti ég ekki við af því að eitthvað annað býðst.
Ég eyði bara sumarfríinu mínu í eigið rölt um gresjur landsins.
Sunnudagur, 4. júlí 2010
Eigin hagsmunir/eiginhagsmunir
Einhvern veginn finnst mér að fólki sé jöfnum höndum legið á hálsi fyrir að vera ekki í þeirri vondu stöðu sem fólk er almennt í og því borið á brýn að geta ekki sett sig í spor þeirra sem eru ofurskuldsettir, atvinnulausir o.s.frv. og fyrir að vera í þeirri sömu stöðu og þá eins og það gangi bara eigin erinda ef það hefur ákvörðunarvald.
Stjórnmálamenn þurfa fyrst og fremst að sýna að þeir meini að almennir hagsmunir gangi framar sérhagsmunum, að almennar reglur gildi fyrir alla, líka þá og vini þeirra, en það er ósanngjarnt að sumir skammi stjórnmálamenn fyrir að vera með gengistryggð lán og að aðrir skammi þá sem eru ekki með þau fyrir að vera ekki með þau.
Ef ég hefði fengið boðaða heimsókn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar hefði ég sett það fram sem mína helstu tillögu að stjórnmálamenn settu almennar reglur (auðvitað gagnlegar og í ljósi breyttra tíma) FYRIR ALLA. Ef það hefði verið gert og ef það væri gert sætu allir við sama borð og engum væri hyglað. Útboð vegna verkefna, stöðuveitingar, lánveitingar, sala ríkiseigna - lausnin blasir við. Ísland er auðugt land, Íslendingar eru menntaðir og við gætum öll verið í jafnvægi og vel sett ef græðgi og sérreglur fárra hefðu ekki sett svo marga á hliðina.
Ég var með fleiri tillögur en þær sneru helst að sveitarstjórnarmálum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)