Gangan á Akrafjall

Á vef Akranesbæjar er þessi lýsing á göngu upp á fjallið, mjög gagnleg:

Akrafjall og umhverfi þess er sannkölluð paradís fyrir útivistarfólk.  Gönguferð á fjallið er tiltölulega auðveld og útsýnið ægifagurt.  Fjallið gnæfir eins og útvörður byggðarinnar á Skipaskaga.  Það er sporöskjulöguð og formfögur fjallabunga sem stendur á nesinu á milli Hvalfjarðar og Leirárvogs.  Talið er að fjallið sé gömul eldstöð, en jökull hafi gengið yfir það og sorfið af því allar hvassar brúnir landmegin, en síðan steypst fram dal sem klýfur það vestanmegin og nefnist Berjadalur.  Bungan sunnan í hlíðum dalsins heitir Jókubunga.  Eftir dalnum rennur Berjadalsá.  Norðan árinnar kallast fjallið Norðurfjall og sunnan hennar Suðurfjall.  Sitt hvoru megin dalsins rísa tveir tindar.  Heitir sá nyrðri og hærri Geirmundartindur (643 m) en hinn syðri Háihnúkur (555 m).  Guðfinnuþúfa er drangur neðan Geirmundartinds.  Meginefnið í fjallinu er basalt, en víða eru rauðleit móbergslög milli blágrýtislaga.  Greinilegar sjávarmyndanir finnast umhverfis fjallið og í því, þær hæstu ofan við bæinn Kúludalsá í 70 m hæð.  Hvalbein hafa fundist í 80 m hæð við bæinn Fellsenda. 

Það sem okkur fannst skondið á staðnum var að Guðfinnuþúfa var ekki síðri drangur en Geirmundartindur. Má leggja út af því? Svo er ekki getið um sérstakt áhugamál Skagamanna, mótorhjólaþeytur. Við reyndum að ímynda okkur háværa býflugu en það gekk ekki til lengdar. Ferðin var samt algjörlega vel heppnuð.

Akranes í fjarska Hin 12


Starfandi stjórnarformaður?

Mér finnst ekki sjálfsagt að þetta fari ekki saman, ég meina eiginlega málfræðilega. Mér finnst eins og þetta þýði eingöngu að stjórnarformaðurinn vinni - og enginn getur amast við því. Í raunheimum þýðir þetta þó að stjórnarformaðurinn sé líka ráðinn í starf hjá viðkomandi stofnun.

Eða hvað?

Og einhver uppástóð í gær að það væri ekki löglegt. Eða hefði átt að verða ólöglegt. Jafnvel að það hefði kannski staðið til en ekki orðið af.

Minnir mig á fjölmiðla sem byrja fyrirsagnir á: Bankarnir rétta úr kútnum - og svo kemur skilyrt framhald: ef menn hætta að koma sér undan því að borga ólöglega reikninga. Bara tilviljunarkennt dæmi tekið utan úr himingeimnum. Ég hef margoft orðið vör við að fólk heyrir bara byrjunina og heldur síðan að þessi hugsanlegi möguleiki sé hreinn og klár sannleikur.

Óskýrt? Welcome to my world ...


Spánarsnigillinn var svartsnigill

Sem ég fór í væna göngu upp á aflíðandi fjall í fyrradag lærðist mér að þar væri að finna ógeðslegan snigil. Sjálf hef ég mikið umburðarlyndi gagnvart ógeðslegum sniglum sem mér býður bara ekki neitt við, kann sennilega ekki vont að forðast. Og við hittum fyrir í votlendi svona líka viðbjóðslegan spánarsnigil, og sögur voru rifjaðar upp af viðlíka kynnum. Jæks.

Svo fór samt einhver að fletta í gegnum veraldarvefinn þegar heim er komið - og viti menn, viðbjóðslegi spánarsnigillinn reyndist ógeðslegur svartsnigill.

Og það er ljómandi gott fyrir leiðsögumenn að verða einhvers vísari ...

Þetta gæti þó útskýrt misskilninginn:

Svartsnigill getur frjóvgað sig sjálfur en kýs þó að makast við aðra einstaklinga. Á seinni árum hefur komið í ljós að svartsnigill getur auk þess verið fjöllyndari en góðu hófi gegnir. Hann á það nefnilega til að makast við spánarsnigil og geta af sér afkvæmi með honum sem hafa reynst harðger og kuldaþolin.


Baggalútur á HM?

Baggalútur nær að skemmta mér þrátt fyrir fjarveru sína:

Jæja. Komnir í ZemiZemi þjóðgarðinn. Enter dottinn í það. Eyddi klukkutíma í að rökræða hjónaband manns (sitt) og gnýkýr við gædinn.

Gnýkýr! Í eignarfalli. Rétt. *ánægjuandvarp*

---

Og svo sprettur vel undir Eyjafjöllum - þarf meira til að gleðja mann í bili?


Mismæli

Það var alþekkt(?) að þeir sem vildu fá góðan lestur á auglýsingar sem voru hengdar upp í sjoppum (eru þær aflagðar?), t.d. um að barnapía óskaðist eða að kommóða væri til sölu, laumuðu inn eins og einni villu, ásláttar- eða stafsetningarvillu. Þá var öruggt að allir lásu auglýsinguna í þaula til að leita að fleiri villum og býsnast svolítið.

Nú þegar menn fjargviðrast mikið yfir villunni í þjóðhátíðarræðunni fer ég að velta fyrir mér smjörklípuaðferðinni; er eitthvað í ræðunni sem við áttum ekki að staldra við (og þá virkaði Dýrafjörðurinn) eða eiga lesendur að leita að fleiri villum og lesa þar með ræðuna í þaula?

Kenning Greips Gíslasonar, eðal-Ísfirðings, á Bylgjunni áðan var líka góð, að forsætisráðherra væru Dýrafjarðargöngin svo hugleikin ... 


Vettvangurinn

Það er nýjasta samsetningin sem ég tek eftir að sé notuð seint og snemma. Eitthvað er gert/hugsað á vettvangi

borgarstjórnar

þingsins

Alþjóðahvalveiðiráðsins

nefnda

formanna flokka!

ríkisstjórnarinnar

einkaréttar!

iðnaðar

barnaverndarnefnda og meðferðarheimila.

Þessi dæmi eru bara brot þeirra sem ég fann ... á opinberum vettvangi.


Meiri hluti vs. minni hluti

Stjórn vs. stjórnarandstaða. Löngum höfum við upplifað víða svo ómarkvissa stjórnarandstöðu, rifrildiskennda, ómálefnalega og lausa við uppbyggingu að ég held að við höfum gleymt að stjórnarandstaða á að veita aðhald. Gagnrýni er ekki neikvæð í eðli sínu, óorði hefur bara verið komið á gagnrýni.

Nú þegar borgarstjórn er búin að skipta með sér verkum og öll dýrin í skóginum ætla að vera vinir - sem ég ætla ekki að kvarta yfir - gæti verið að reyndi á hinn almenna borgara að veita málefnalegt aðhald. Þá er vefurinn sem settur var upp gagnlegur.

Er enn sérstakur framkvæmdastjóri miðborgarmála? Ég veit um mann sem langar mikið að vita hvort þetta tímabundna stöðugildi sem sett var á laggirnar fyrir tveimur árum er enn við lýði en kemur því ekki í verk að hringja í Ráðhúsið og spyrja. Og ég er sennilega ekki nógu áhugasöm til að taka af honum ómakið.


Villa í sjónvarpinu

Norskur þáttur var að klárast og ítölsk bíómynd að byrja. Var ekki búið að lofa mánuði af HM ...?

Kannski

Við notum mörg smáorð sem hafa einhverja aðra merkingu en þá upprunalegu.

Dæmið sem fer hvað mest í taugarnar á mér er eða. Ég kem á laugardaginn, eða eftir tvo daga. Hann fékk hæstu einkunnina, eða 9. Þetta munaði fjórðungi, eða 25%. Fólk meinar: þ.e.a.s. Samkvæmt mínum málskilningi aðgreinir eða eitthvað tvennt. Ég kem á morgun eða hinn. Hann var með 8 eða 9. Og hvað þýðir: Hún greindist með parkinson, eða taugasjúkdóm?

Ég get ekki notað allavega í merkingunni a.m.k., fyrir mér er það á ýmsa vegu. En ég er orðin nokkuð flink í að leiða það hjá mér því að ekki vil ég baka mér óvinsældir hvarvetna ...

Þegar fólk segist ætla að hugsa sig um hvort það komi í boð eða leyfi börnunum að gera eitthvað um helgina þýðir það yfirleitt nei, bara í aðeins lengra máli. Kannski nei takk.

Svo komst kannski til tals nýlega. Formaður í félagi sagðist kannski vera með tvær tilkynningar þegar fundarstjóri spurði hvort einhver vildi taka til máls undir liðnum um önnur mál. Og fundarstjórinn lagði skemmtilega út af því hvort hann vildi þá kannski ekki vera með þær. Eða hvort hann væri kannski með þrjár tilkynningar.

Ég var hreint ekki ein um að hafa gaman af þeirri orðræðu.

Og nú velti ég fyrir mér hvort ráðuneytunum fækki kannski ... Eða kannski ekki.


Skyldi verða alvörurigning?

Ekki aðeins gæfist þá einstakt tækifæri til að einhenda sér í daglangt uppvask heldur væri þá von til þess að öskunni mundi skola af trjágróðrinum undir Eyjafjöllum.

Áfallin aska Eins og því hefði verið plantað í gráa jörð

Ég vona að fólk muni að það getur enn skráð sig hjá Rauða krossinum.


Víðigerði er alvöruvegasjoppa

Gummi bróðir minn stendur þar í stafni alveg vaðandi í þjónustulund. Þar er hægt að velja úr alls konar hamborgurum en ekki síður kótilettum eða steiktum fiski, súpu eða trukkum. Á morgnana er hann með íslenskan árbít, namminamm, hafragraut og lýsi(sperlur).

Vinstra megin við veginn á leiðinni norður.


Hjólasumar

Á morgun verður uppboð á reiðhjólum sem hafa endað í vörslu lögreglunnar. Mér hefði getað dottið í hug að mæta þangað til að gefa reiðhjóli framhaldslíf en þar sem mér datt það í hug í fyrra og fór með strætó í vitlaust bæjarfélaga (hver getur fundið Askalind?) datt mér það alls ekki í hug að þessu sinni. Að auki er mér ógleymanlegt að í fyrra seldust þau öll og þess vegna er óþarfi að ég lengi líf nokkurs þeirra.

Mér datt hins vegar í hug að fara í einhverja búð sem selur hjól, bara einhverja. Hjólinu mínu hefur svo oft verið stolið að ég er ekki til í að eyða hálfri annarri formúu í það en svo endaði ég í alvöruhjólabúð í dag og keypti mér BRONCO.

Ég hlakka mikið til þess að hjóla sperrt og reist í sumar með bögglabera og körfu.

BRONCO

Ég mun vakta það og svei þeim sem tekur það ófrjálsri hendi.


Öskuleiðangur

Ég fór á föstudaginn við tíunda mann austur á bóginn til að moka og skafa ösku til brottkasts. Smávegis setti ég í poka til minja. Nú sé ég að það var óþarfi, máttarvöldin sendu öskuna á eftir mér.

Ég þurfti ekki að setja hvítan disk út á svalir, ég leit bara á hvíta svalastólinn - bingó, öskusleginn.

Skyggni óágætt

Verkfærin okkar
Ó, það féll aska í Reykjavík

Framkvæmd kosninga ...

Ekki er allt búið enn.


,,Tapið er upp á marga milljarða"

Hjarta mitt slær með ferðaþjónustunni, boink boink. En ef menn bera sig illa og segjast tapa milljörðum á því að hestamótinu er frestað um ár - sem er afleitt - verða þeir líka að bera sig vel þegar milljarðarnir hrynja inn. Annars held ég að verðskyni fólks hafi hrakað umtalsvert frá 29. september 2008 og fæstir viti orðið muninn á milljónum og milljörðum. Gott ef billjónir og skrilljónir slæðast ekki stundum með.

Að svo mæltu óska ég gjörvallri ferðaþjónustunni alls hins besta, sem og öllum öðrum atvinnuvegum a Íslandi.

Þegar askan verður öll sest hef ég mikla trú á að eldgosið verði lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna og efnahagslífið en á meðan hún er það ekki er ástandið svaðalega erfitt.


Hvernig ,,ertu að" útskýra þetta?

Nafnháttarblæti flestra viðmælenda - og fréttamanna - í kosningasjónvarpinu skyggði á annað í huga mínum í gær:

Þessi er að fá fulltrúa.

Þessi er ekki að fá fulltrúa.

Fæstir segja:

Flokkurinn nær fimm manns/Flokkurinn vinnur varnarsigur/Flokkurinn fer illa út úr þessu

Flestir segja:

Flokkurinn er að ná fimm manns/Flokkurinn er að vinna varnarsigur/Flokkurinn er að fara illa út úr þessu

Nafnháttarandskotansdálæti.

Ég get fyrirgefið þeim sem stóðu vaktina við litlu fartölvurnar sínar og sögðu (voru að segja, grrr) okkur lítið sem ekkert og flest heimskulegt af því að það er deginum ljósara að kosningasjónvarpinu var haldið úti af yfirgengilegum vanefnum. Þau fengu aldrei svör, við fengum ekki að vita fyrr en eftir dúk og disk hversu margir kusu í Reykjavík, hvort útstrikuð atkvæði voru talin strax með - og það voru engin skemmtiatriði, hmm. Þóra, Bogi og Ólafur þurftu vessgú að svitna í sviðsljósinu næstum stöðugt. Jóhanna og Helgi tóku boltann smá, Ragnheiður sat um Ráðhúsið og Brynja hitti sönghóp. *geisp* enda sofnaði ég fyrr en ég ætlaði.

Var ekki allt spariféð sent til Oslóar?


... sem eiga raunhæfa möguleika á að koma manni að?

Nú verð ég að segja að Kristján Már Unnarsson og Heimir Pétursson hafa misboðið mér. Þeir hafa báðir sagt að kvöldið fyrir kjördag, nú, verði oddvitar fimm framboðslista í Reykjavík í sjónvarpsþætti Stöðvar 2, þeir sem eiga raunhæfa möguleika á að koma manni að.

Skoðanakannanir eru skoðanamyndandi. Óákveðnir kjósendur ákveða sig undir lokin og vilja kannski heyra hvað allir, einmitt ekki síst þeir sem hafa minnstan tíma fengið, hafa um einstök málefni að segja.

Það að útiloka E, F og H frá eyrum óákveðinna í þessum þætti er stórkostlega ámælisvert. Og hrikalega lúið hugarfar.

Fjölmiðlarnir hafa miklu meira vald en þeir trúa sjálfir. 

Es. Hin þrjú fengu rör í lokin þannig að ég ét ofan í mig stærsta orðið.


Vantar þýðendur?

Best að fara á Dyngjuveginn og gá. Vegna veðursældar gæti ferðalagið tekið klukkutíma.

Vantar Sundabraut?

Í sjálfhverfni minni svara ég: . Hins vegar þarf hún mín vegna ekki að vera bílbær, mér nægði að hægt væri að ganga hana eða hjóla.

Ég fór í mikla gæðagöngu um Grafarvoginn í fyrradag. Við byrjuðum sem hópur við Ingunnarskóla og gengum í gegnum Þúsaldarhverfið, um móann og ýmislegt grænt og gómsætt. Svo skildi leiðir í Bryggjuhverfinu þegar við vorum búin að svekkja okkur hæfilega á að þar væri ekkert kaffihús. Í Bryggjuhverfinu búa 400-500 manns og þar er engin þjónusta, ekki leikskóli, ekki grunnskóli, ekki verslun, ekki allt rutt í snjóatíðum - af því að hverfið var byggt sem hverfi handa fullorðnu fólki sem þyrfti ekki þjónustu handa börnum. Hins vegar er það bara hálft, það stóð til að byggja annað eins sunnan megin við það sem þegar er. Og mér skilst að Björgun hafi líka átt að heyra sögunni til.

Áður höfðum við rætt um tengingar milli Bryggjuhverfis og Vogahverfis og þegar allir höfðu talað nægju sína arkaði ég kokhraust af stað - en viti menn, maður þarf að krækja fyrir allan voginn. Það er hvergi hægt að komast yfir hann óblautur.

Fólk sem ég þekki býr í Bryggjuhverfi og vinnur í miðbænum og vílar ekki fyrir sér að hjóla enda leiðin tiltölulega bein. Ef maður hins vegar vildi fara úr Bryggjuhverfinu í Súðarvoginn eða Efstasundið eða Borgartúnið kemst maður alls ekki beinustu leið. Og manni er náttúrlega slétt sama einu sinni á heilsubótargöngu í besta hugsanlega gönguveðri en þetta er fjandakornið ekki hvati fyrir fólk til að ferðast í og úr vinnu fyrir eigin vélarafli.

Ég er ekki hress með skipulagið á þessari leið.

Meðan ég gekk austan megin óssins sá ég hunda leika sér á Geirsnefi og einn þeirra stakk sér til sunds enda afbragðsgott veður. Mér fannst það óboðlegt fyrir mig, veit ekki hvort myndavélin er vatnsheld ...

Bryggjuhverfið 

Í Bryggjuhverfinu líður mér hóflega eins og ég sé í útlöndum.


Snemmbært inngrip sumars

Í þessum skýjakljúfi sem ég bý í hef ég tvisvar mátt sæta því að horfast í augu við fljúgandi pöddur í baðherberginu. Það þykir mér augljóst merki um snemmbærni sumarsins - í maí. Líklega finnst mér skilin milli vors og sumars þó sífellt óljósari eftir því sem ég stunda minna nám sem krefst prófa eða ritgerðaskila. Kannski kemur sumarið í maí á hverju ári.

Annars er öll færslan bara prjónuð í kringum fyrirsögnina sem flaug fyrir á UT-ráðstefnu, þ.e.a.s. snemmbært inngrip, og hefur mikið verið fussað yfir í mínum vinahópi.

Á hvaða leið er tungumálið? Á hvaða leið er upplýsingatæknin?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband