Mánudagur, 19. apríl 2010
,,Svo fólkið í landinu geti talað saman"
Glöð skal ég kokgleypa alla tortryggni mína þegar tækifærið býðst en þegar Alterna sækist eftir markaðshlutdeild í símanotkun Íslendinga með orðalaginu að ,,fólkið í landinu" eigi að geta talað saman finnst mér talað niður til mín.
Viðhorf mitt felur náttúrlega í sér fordóma, glámskyggni og hugsanlega útlendingaótta en hvað veit ég um heilindi IMC WorldCells, Róberts Bragasonar og Þorsteins Baldurs Friðrikssonar? Svar: Ekkert. Heilindi þeirra geta verið ómæld en ég er engu að síður tortryggin.
Skömmu eftir bankahrunið 2008 flaug ég eitthvað ein míns liðs. Í flugstöðinni á leið heim rétti maður mér nafnspjald og vildi augljóslega nota tækifærið til að kynna mér einhverja vöru sem hann ætlaði að reyna að selja á Íslandi, kannski hollustuvöru, ég man það ekki. Ég fékk þá háværu tilfinningu að maðurinn væri hrægammur og ég illa lyktandi nár. Og nú líður mér aftur svona eða kannski eins og viðfangi sem hefur verið þrætt upp á lyklakippuhring með hinu ,,fólkinu í landinu".
Ekki eru allir útlendingar eða allt sem kemur frá útlöndum sjálfkrafa velmeinandi og mér að skapi.
En kannski vakir ekkert annað fyrir Alternu en að bjóða upp á eðlilega samkeppni og vonandi hef ég svo kolrangt fyrir mér að það drynur í Þingholtunum þegar hið sanna kemur á daginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 18. apríl 2010
Kötlugos 1755
Svo mæltu Eggert og Bjarni 1756:
Þegar við vorum á heimleiðinni hinn 6. október yfir Síðu og Álftaver, skall á okkur um kveldið niðaþoka með miklu öskufalli, en sólskin hafði verið um daginn og heiður himinn yfir þokumekkinum. Vindur var á og nokkurt frost. Askan kom frá Kötlugjá, og réðum við það af öskufallinu, að hún væri enn á ný tekin að gjósa. Loks rakst þó fylgdarmaður okkar í myrkrinu á Herjólfsstaði, stóran eyðibæ. Daginn eftir var eitt hið leiðinlegasta veður, sem við höfðum lent í. Enda þótt himinn væri kollheiður og sól skini, var þokan samt svo svört, að við sáum aðeins örfá skref frá okkur. Mistur þetta stafaði af rauðgrárri ösku, og þar, sem hún komst í koffort okkar, varð allt svart í þeim. Askan smaug einnig gegnum föt okkar og inn á okkur bera. Við urðum svartir í andliti, og til sönnunar því, að við urðum að anda henni að okkur, hvort sem það var okkur ljúft eða leitt, var það, að allt, sem við hræktum úr okkur, var kolsvart. Hestarnir gátu hvorki bitið né haldið augunum opnum. Tveir þeirra urðu blindir, af því að augnlokin greru saman. Við neyddumst að lokum til að fara inn í hinn auða bæ.
Það er bara svo undarlegt að sitja í Reykjavík, 150 kílómetra vestur af eldgosi sem gerir flugfarþegum um hálfa Evrópu lífið leitt, og hafa ekki náttúrufræðilega hugmynd um það, heldur allt sit vit úr fjölmiðlum. Fyrir tveimur öldum voru samgöngur lélegar og fjarskiptatæknin hálfu lélegri þannig að menn á Vestfjörðum þurftu ekki að vita af náttúruhamförum annars staðar á landinu fyrr en ári síðar ef því var að skipta.
Og vestur í Bandaríkjunum - sem ósköpin bitna ekki á - kennir hundtrúaður Limbó Bandaríkjaforseta um! Hefur sitt litla vit úr misvitrum fjölmiðlum og frá prítvatguði sínum.
Ég vorkenni mest hestum sem súrnar í augum og fuglum sem vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Og ég finn líka til með þeim sem eru búnir að vinna í sveita síns andlitis við að rækta upp tún og sjá þau núna verða undir drullu og íshröngli. Og fyrst ég er farin að opna mig svona verð ég að bæta við að ég er gallsúr fyrir hönd ferðaþjónustunnar á Íslandi sem og á meginlandi Evrópu sem situr uppi með pantanir og fólk sem kemst ekki til að standa við þær.
Svo eru nokkrar dagsetningar sem leiðsögumenn verða að leggja á minnið:
30. desember 2009
5. janúar 2010
6. mars 2010
20. mars 2010
12. apríl 2010
14. apríl 2010
Hangir þetta ekki allt saman við hana Ísbjörgu og aðrar syndir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. apríl 2010
,,Að morgni 29. september ..."
Þar er upplesturinn í Borgarleikhúsinu staddur. Og árið er 2008. Ég er ekki frá því að Halla Margrét sé komin með ögn af drama í röddina. Þetta er helgin sem gengur undir nafninu Glitnis-helgin.
*svitn*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. apríl 2010
Halldór Gylfa og Halldóra Geirharðs
Ég er eindregið að hugsa um að láta leikarana í Borgarleikhúsinu skemmta mér fram á nótt. Halldór og Halldóra eru nýbúin að lesa danskar tilvitnanir og skemmta mér, sjálfum sér og auðheyrilega gestum í sal mikið og vel.
Halldór er líklega á blaðsíðu 218 núna. Er skýrslan ekki 2.600 síður? Lestrinum gæti lokið um hádegisbilið á laugardag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. apríl 2010
Gott að ná að klára þessa bók áður en 2.000 blaðsíðna bókin kemur út á morgun
Þingmenn landsbyggðarkjördæmanna stóðu nær undantekningarlaust með kvótahöfunum. Þeir vissu sem var, að snerust þeir gegn þeim, væri stjórnmálaferli þeirra lokið. Það er gömul saga og ný, að atvinnurekendur á landsbyggðinni hafa mikil áhrif á skoðanamyndun í sínu nánasta umhverfi. (bls. 206)
Við höfundur eigum ekki samleið í kommunum, fjöldi þeirra í bókinni gengur eiginlega fram af mér. Þegar höfundur vitnar í texta annarra bætir hann í en ég leyfi honum að hafa sinn texta óbreyttan.
Dulkóðun? Nei.
Hins vegar væri ég til viðræðu um upptöku zetunnar á nýjan leik. Ég held að hún myndi gleðja marga.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 9. apríl 2010
Ég spáði Heklugosi 12. apríl ... (í janúar)
Skyggnigáfu minni er viðbrugðið. Segi ég. Engu að síður er það ekki lengur Hekla sem ég reikna með að gjósi á mánudaginn. Eftir hádegi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. apríl 2010
Veggjöld
Í stóru og strjálbýlu landi hef ég enga trú á að menn geti rukkað veggjöld án þess að eyða megninu af tekjunum í innheimtukerfið. Þess vegna held ég að engum geti verið alvara með þetta (nema kannski Jóni Gnarr sem hefur ekki verið spurður) og eftir hæfilegan tíma verður eitthvert annað gjaldkerfi (eldsneytisskattur eða eitthvað slíkt) tekið upp án þess að nokkur æmti.
Svona gjaldtaka hefði sáralítil áhrif á heimakæru mig þannig að hagsmunir mínir valda ekki efasemdunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. apríl 2010
Dramalausir kjúklingar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5. apríl 2010
Bensínhreyfingar
Svo að hálfu árinu 2009 sé haldið til haga (af því að ég er að undirbúa skattframtalið):
Hjá ÓB Blönduósi kostaði bensínlítrinn þann 29. júní 175,30
ÓB Snorrabraut 26. júlí 183,30
Olís Sæbraut 27. júlí 187,80
ÓB Snorrabraut 30. ágúst 190,40
Olís Álfheimum 19. september 185,40
ÓB Egilsgötu (sama og Snorrabraut, bara nýtt nafn) 20. september 184,40
ÓB Egilsgötu 6. október 178,40
ÓB Fjarðarkaupum 24. október 185,20
ÓB Egilsgötu 3. nóvember 187,10
ÓB Fjarðarkaupum 25. nóvember 184,20
Lýkur hér að segja af bensínkaupum mínum sem ekki urðu frekari á því herrans ári 2009. Ég reyndi að kaupa bensín á gamlaársdag en vélin gleypti peninginn og lagði sig fram um að sýna mér bæði dónaskap og tómlæti þegar ég bar mig eftir endurgreiðslu. Eftir japl og jaml og fuður og tvær ferðir í höfuðstöðvarnar tókst að sækja 5.000-kallinn svo ég gæti eytt honum á bensínstöð með þjónustu.
Nú vil ég fá að kaupa rafmagnsbíl eða metanbíl - og hraðskreitt reiðhjól.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 4. apríl 2010
Gott hjá Sunnlendingum
Fréttin er svo sem ekki ítarleg en svo virðist sem einkaframtakið, hugmyndaflugið og frumkvæðið (þrisvar sinnum sama hugtakið hjá mér kannski?) hafi blómstrað á Hótel Rangá og í nærsveitum.
Ég vildi alveg heyra að reikningurinn yrði ekki sendur til ríkisins þar sem tekjurnar renna guðsblessunarlega til ferðaþjónanna á svæðinu.
En ég hef tekið eftir því að svona frumkvæði er aldrei haft eftir SAF. Þau samtök ..., ég þori ekki að segja upphátt hvað ég er að hugsa. Kannski er við sjálfa mig að sakast, ég tek aldrei eftir neinu nema kvörtunartóninum en kannski er unnið blómlegt starf í Borgartúninu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. apríl 2010
Gin djöfulsins
Ég var orðin pollróleg yfir að láta enn eitt gosið framhjá mér fara. Svo skoðaði ég myndbönd Kristins Svans Jónssonar og fékk alveg fiðringinn:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. apríl 2010
Vel tímasett ráp á Þórólfsfell
Í dag eru 12 dagar síðan sprungan opnaðist á Fimmvörðuhálsi. Í gær fórum við frá Reykjavík kl. 18 til að rölta upp á Þórólfsfell vestan Markarfljóts til að sjá logana í fjarska í ljósaskiptunum. Strax á Hellisheiði undruðum við okkur á tveimur strókum sem mér skilst núna að hafi verið vegna þess að önnur sprunga hafði opnast.
Um hálfníu lögðum við í gönguna, slatta á jafnsléttu og svo aðeins á fótinn. Í miðjum hlíðum kom upphringing og við fréttum af frekari eldsumbrotum og þar með að rýming væri að hefjast í Þórsmörk og af hálsinum.
Ég er svo jarðbundin (og skynsöm) að ég var fyrst og fremst ánægð með að vera ekki byrði á björgunarsveitarmönnum. Við vorum aldrei í hættu, upplifunin var alvöru, félagsskapurinn var góður og við náðum að skála í kakói í skjóli.
Og ég hefði ekki skellt mér í útsýnisflug með E.C.A. þótt ekki hefði verið fyrsti dagur fjórða mánaðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 29. mars 2010
Skítt með söguþráðinn
Í tilefni dagsins ákvað ég að skella mér á Kóngaveg eftir Valdísi Óskarsdóttur. Fleiri fengu þessa góðu hugmynd og það var vel hálft í stóra salnum í Háskólabíói. Það finnst mér kostur, einkum ef mynd er fyndin, hlátrasköll njóta sín betur í fjölmenni.
Og mér fannst gaman. Mér sýnist hún eiga að fara á erlendan markað líka og velti fyrir mér hvort hún þjóni sem kynning á íslenskum veruleika. Ég þekki hann þá ekki, veruleika hjólhýsahverfis (í Munaðarnesi?) þar sem menn hafa lifibrauð sitt af rukkunum, vafasömum sektarinnheimtum og enn vafasamari viðskiptaháttum.
Kristbjörg Kjeld er óbrigðul og glansaði alveg sem amman með gæluselinn. Hins vegar komu mér skemmtilegast á óvart Björn Hlynur Haraldsson og Sigurður Sigurjónsson, svo gjörólíkir því sem ég hef áður séð til þeirra. Mér fannst bara ekki veikur hlekkur í leiknum, hreinskilnislega fannst mér handritið hins vegar dálítið slitrótt, eiginlega sketsar en samt drógust persónurnar skýrt upp. Við fylgjumst með nokkrum dögum í þessu dularfulla samfélagi þar sem átökin vantar ekki, togstreitu, sprenghlægileg tilsvör, skrautlega karaktera - og dramatískan hápunkt. Nú, hvað vantar þá? Hmm, [hér rýkur upp úr höfðinu á mér], bakgrunnurinn teiknast alveg í tilsvörunum, Senior sem hrynur með bönkunum og flýr úr borginni, grunnyggnin hjá Sally sem kemst þó á snoðir um að Senior geti hætt leitinni að sínum innri manni, Junior sem var listadansari, útlendingurinn (Rupert?) sem átti mjúkan innri mann þegar hrjúfa yfirborðið var skafið ofan af, Ray og Davis sem voru svo ólíkir en áttu sitthvað sameiginlegt o.s.frv. [man ekki nöfn á fleiri karakterum].
Jamm, þetta voru smágos og talsverðar hræringar út í gegn en ekki bara lokaroka.
Fjórir hlátrar af fimm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. mars 2010
28. í mottu
Tilefnið var tvöfalt afmæli með engu þema en svo urðu mottur, rottur og ljósaprelúdía þungamiðjan. Með meiru. Óskiljanlegt öðrum en viðstöddum.
Snorri fékk seríu:
Hinar motturnar rottuðu sig líka saman:
En eiginlega var þetta kvöld Marínar og Laufeyjar:
Steingrím langar að spreyta sig á kvikmyndaleik:
Svo komst meiri hreyfing á talfærin:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 24. mars 2010
BB í beinni
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. mars 2010
Stóra skötuselsmálið
Þá dettur mér þetta í hug:
Uppskrift að skötusel
800 grömm skötuselur
80 grömm beikon
hvítlauksolía
hvítur pipar
Sósa:
6-10 hvítlauksgeirar, pressaðir
4 tómatar, niðurskornir
1/2-1 ferskur chilipipar, hakkaður
1/4 teskeið saffran
2 desilítrar hvítvín
1/2 desilítri olífuolía
1 desilítri fiskisoð
Aðferð:
Skötuselur skorinn í bita, beikoni vafið utan um, fest með tannstöngli. Pönnusteikt þar til skötuselurinn er tilbúinn.
Öllum hráefnunum í sósuna hellt í pott og hún látin malla þangað til hún er orðin að þykku jukki. Gott er að bera fram soðnar kartöflur og grænmeti með þessum rétti.
Og ekki er þessi uppskrift árennileg. Sjálfur er hann mun árennilegri:
Hver er þessi Óðinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 21. mars 2010
,,Eldglæringarnar sjást ekki greinilega enda mikið myrkur"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 20. mars 2010
Varasöm fyrirsögn
Þegar ég las fyrirsögnina Varasamt að fara í Bláa lónið hélt ég umsvifalaust að nú hefði bitvargur fundist í lóninu, hitastigið verið skaðlegt, þrengslin svo mikil að fólk hefði meitt sig, annað hvort ofan í eða í búningsklefanum, þörungarnir myndað of náið samband við sólskin marsmánaðar eða kísillinn skilið eftir sig grá för - en Daninn fékk þá bara bágt fyrir heima vegna þess að hann eyddi of mörgum krónum í að fara ofan í og rúnta svo um eldfjallaeyjuna að auki.
Vandasamt og varasamt að flytja manni fréttir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 18. mars 2010
Miður mottumars
Ég tapa mér alveg í margmenni þessa dagana. Mig langar svo að rjúka á hvern einasta mann með myndarlegt yfirvaraskegg og hrósa honum. Eini gallinn við átakið er hvað það er erfitt að eiga við kvikmynd Steinars á hinni forkunnarfögru síðu karlmennogkrabbamein.is. Hún stoppar alltaf í minni tölvu og þótt svo væri ekki vildi ég gjarnan hafa sleða undir til að sjá hversu löng hún er.
Svo vona ég að karlar verði ófeimnir við að leita af sér allan grun, út á það gengur þetta frábæra átak.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. mars 2010
Lissabon-sáttmálinn ... og önnur samkomulög!
Ég fékk það forvitnilega verkefni í Evrópuþýðingum í HÍ að segja stuttlega frá Lissabon-sáttmálanum. For helvede, ég vissi ekki neitt og þegar ég fór að lesa mér til gat ég varla fundið hlutlægar upplýsingar.
Staðreyndir eru þó að Lissabon-sáttmálinn er afsprengi stjórnarskrár Evrópusambandsins, þeirrar sem Frakkar og Hollendingar höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslum 2004. Margar aðrar þjóðir afgreiddu stjórnarskrána í gegnum þingin sín en Írar, hahha, héldu þjóðaratkvæðagreiðslu tvisvar, sögðu nei sumarið 2008 og svo já 2. október 2009.
Samkvæmt sáttmálanum munu nú aðildarríki með góðu móti geta sagt sig úr Evrópusambandinu ef hugur þeirra stendur til þess. Það var áður illmögulegt og aðeins Grænland hefur gert það (er það ekki örugglega staðreynd?).
Sáttmálinn er gríðarlegur hellingur af blaðsíðum en ég giska á að flestir lesi bara útdráttinn. Sáttmálinn er fyrst og fremst viðbætur við eldri sáttmála og vandlesinn (að mati þeirra sjálfra, sýnist mér) eins og aðrir sáttmálar.
En er treaty ábyggilega sáttmáli? Skv. ordabok.is er treaty bara milliríkjasamningur eða samkomulag. Snara gefur reyndar líka upp sáttmála. Alltaf að draga heimildir í efa og leita fanga víðar. Mér finnst reyndar skemmtilegt að sjá Amsterdamsáttmála og brusselyfirlýsingu í orðabókinni (ósamkvæmnin leynist víða). Svo tala menn um Rómarsáttmála og Maastricht-sáttmála þannig að kerfið í samsetningunni er vandséð - svona eins og Lissabon-sáttmálinn er vandlesinn.
Kannski rétt að halda því til haga að ég hef enga eigin skoðun á sáttmálunum og varla Evrópusambandinu. Umræðurnar hafa verið svo huglægar að staðreyndir liggja dálítið á milli hluta. Sjáið bara Heimssýn annars vegar og sendinefnd ESB á Íslandi hins vegar. Svo má glugga í Örlyg Hnefil (Jónsson?) sem veltir fyrir sér stöðu Íslands á hliðarlínunni og Hjörleif Guttormsson sem hefur áhyggjur af miðstýringunni. Ég tek þó fram að hvorugur þjáist af ofstæki, þeir standa bara hvor fyrir sína skoðunina.
En ég skráði mig ekki í þetta námskeið sem undirbúning fyrir starf í utanríkisráðuneytinu. Ég skráði mig vegna áhuga míns á þýðingum. Og get ekki kvartað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)