Hálfum mánuði síðar - mynd Gunnars Sigurðssonar leikstjóra

Á morgun fer Maybe I should have í almennar sýningar í Kringlubíói.

Þegar ég hugsa til baka er mér eftirminnilegast hvað ég hló oft, það kom mér dálítið á óvart, og hversu margir fengu utan undir. Tímaspönnin endar ekki 6. október 2008 eða í febrúar 2009 heldur miklu nær okkur í tíma.

Heimsóknin til Transparency International var nokkuð sláandi. TI er fyrirtækið sem mælir spillingu ríkja og notar þá aðferð að spyrja embættismenn (nema það hafi verið stjórnmálamenn) hvort spilling þrífist í viðkomandi landi. Og hver borgar launin í fyrirtækinu? Ætli það séu ekki stofnanirnar sem eru spurðar!

Fer ekki að verða tímabært að horfast í augu við ófreskjuna, gangast við vandanum og leysa hann? Ég held að enginn sé alveg rólegur, ekki stóreigendur, ekki smáeigendur, ekki smáskuldarar og ekki stórskuldarar. Og menn læra norsku eins og - eins og hér verði ekki vært öllu lengur.

Er allt í lagi heima hjá okkur?


Frjáls og óháður í vinnunni

Ekki er ég þess umkomin að draga frásagnir Jónasar í efa, að hann hafi farið í félagsfræðinám til Þýskalands og m.a. lært að gera skoðanakannanir, orðið ritstjóri ungur, tekið þátt í að stofna Blaðaprent og svolítið leiðst hingað og þangað. Ég held reyndar að það megi kallast húmor þegar hann segist hafa orðið hálaunamaður án þess að ætla sér það.

Á stílnum get ég hins vegar haft skoðun og ég leyfi mér að vera ósammála Jónasi um framsetningu. Um miðja bók er ég orðin svo lúin á stakkatóinu, hver efnisgrein er áreiðanlega aldrei meira en 100 orð og stundum byrjar efnisgrein næstum á sama hugtaki eða sömu lýsingu og sú síðasta endar á. Það er eins og að hver klausa eigi líka að geta verið sjálfstæð og óháð og fyrir vikið finnst mér vanta flæði í frásögnina. Hann forðast líka frumlagið og byrjar margar setningar á sögnum eins og hann sé á ógurlegri hraðferð.

Annars er það helst að frétta að ég er búin að gera tvær tilraunir til að baka ólífubrauð (sem fæst ekki lengur í bakaríum). Fyrst notaði ég uppskrift frá Nönnu Rögnvaldardóttur og ætlaði aldrei að fá deigið til að tolla saman, endaði á því að bæta við meiri og meiri olíu og setti m.a.s. egg sem er ekki í uppskriftinni. Brauðið kláraðist leikandi þegar það var loks fullbakað.

Svo prófaði ég einfaldari uppskrift frá Tiger Foods og það var eins og við manninn mælt, það hefaðist og hegðaði sér eins og hugur minn. Það er enn að einhverju leyti óetið.

Ólífubrauð - hefað Ólífubrauð - bakað


Gagnlegur hverfisfundur

Í gær var haldinn hógvær hverfisfundur miðborgar Reykjavíkur með framsögu (eins) skipulagsstjóra, (eins) skrifstofustjóra á mannvirkjasviði og eins íbúa. Ólöf, Ámundi og Brynhildur fluttu öll fín erindi, Ólöf um almennar skipulagshugmyndir, Ámundi um fyrirhugaðar framkvæmdir og Brynhildur um framtíðarsýn. Allsnarlega rifjaðist upp fyrir mér það raunalega tímabil þegar ég átti heima í Ingólfsstræti og hraktist þaðan vegna desíbelaónæðis af Déja vu í Þingholtsstræti og eðlisbreytingar á Ara í Ögri gegnt húsinu mínu.

Ég var verulega pirruð það árið. Og það var smitandi. Arg. [Hrollur.]

Að sumu leyti heyrist mér þetta hafa versnað með lengri afgreiðslutíma, fólk fer út á götu með hrópum og brýtur glös í dögun og köllin dofna ekki fyrr en í hávaðanum af götusópnum þegar birtir ögn meira af degi.

Frekar mikið ónæði í miðbænum. En mér skildist líka að vertum hefði verið gert að draga niður í tónlistarhljóðunum til hagsbóta fyrir íbúa og einskis skaða fyrir notendur á stöðunum. Það versta sem gæti hent sölumanninn á barnum væri að fólk næði að tala saman og drykki hægar fyrir vikið þannig að það er augljóst í hverju hagsmunirnir felast. En mér heyrðist vilji borgaryfirvalda standa til þess að skrúfa frekar niður, horfast í augu við vandann og virkilega snúa hann niður.

Kannski er tortryggnin á undanhaldi hjá mér og ég of trúuð á að menn vilji vel (ég vil þá líka trúa um stund) en mér heyrðist margt forvitnilegt í farvatninu. Að vísu deildu menn um staðsetningu Listaháskólans (og starfsemi hans) og Landspítalans, og háhýsabyggingin í Skuggahverfinu var að vonum gagnrýnd en fulltrúar borgarinnar sýndust mér hlusta af skilningi og góðkynja athafnavilja.

Fundurinn hefði auðvitað aldrei orðið svona þéttur og góður ef ekki hefði allt þetta góða miðbæjarfólk mætt á fundinn og spurt gagnlegra spurninga. Skemmtileg finnst mér hugmyndin um að gera torgið á mörkum Óðinsgötu og Nönnugötu vænt fólki frekar en bílum og að koma upp nestisaðstöðu í Hljómskálagarðinum (eða var það Hallargarðurinn?) því að litlu atriðin í nærþjónustunni skipta miklu máli.

Ef ég fengi að ráða yrði síðan aðalspítalinn byggður upp í Garðabæ en ekki við Hringbraut og mín vegna mega Garðbæingar líka fá innanlandsflugvöllinn (er ekki aðalmálið að geta lent þyrlu á sjúkrahússþakinu?). Listaháskólinn færi vel við höfnina og hana Hörpu ef hún verður einhvern tímann barn í brók. Og Kristín nágranni kom með gagnlega ábendingu um að ruslaföturnar laði að sér vespur (og geitunga) í skásta sumarveðrinu og þess vegna eiga þær að vera á að giska 2 metra frá bekkjunum en ekki fastar á þeim. Ráðamönnum er nefnilega hollt að hlusta á notendur þjónustunnar, þeir vita hvað þeir syngja.

Og bók Hjörleifs Stefánssonar barst enn í tal. Það er búið að bjóða mér hana til láns og nú verð ég að ganga eftir því.

En ég vandaði mig við að þegja á fundinum enda voru nægir um hituna.


Hekla er enn ógosin

Fyrir vikið þarf ég að spá upp á nýtt. Seint á síðasta ári spáði ég að Heklugos yrði í gær - en þá vissi ég ekki að Danir myndu tapa STÓRT fyrir Íslendingum í handbolta og að prófkjör skækju fréttatímana. Reyndar er Hekla vön samkeppni. Á föstudaginn heyrði ég þessa sögu að vestan:

Maður kom á bæ 18. janúar 1991 og sagði: Það voru aldeilis tíðindin í gær, Hekla gaus, menn fóru í hár saman þarna suður frá og Ólafur Noregskonunugur lést, en steininn tók þó úr þegar hundarnir á Bjólfsstöðum* ruku saman.

Hundunum hafði alltaf lynt.

Ég er enn þeirrar trúar að Hekla gjósi á árinu og nú ætla ég að færa mig nær ferðamannatímanum og ég spái af miklu öryggi gosi í Heklu mánudaginn 12. apríl, síðdegis.

Það er vætusamt fyrir austan á ritunartíma.

*Tilbúið nafn.


Fasteignaverð vs. fasteignamat

Þar sem ég er að leita mér að íbúð er ég mjög áhugasöm um fasteignaverð og fasteignaverðmyndun. Þar sem fasteignamarkaður er blákaldur þessa mánuðina er varla til neitt sem heitir markaðsverð. Ég er í hópi þeirra sem trúðu ekki að verðið gæti aldrei annað en hækkað. En nú er hann risastórt spurningarmerki.

Ég er alls ekki sæl með meintan kaupendamarkað. Í fyrsta lagi langar mig ekki að kaupa íbúð af fólki sem selur út úr neyð. Og af enn meiri eigingirni verð ég að segja að auglýstar eignir eru fæstar mér að skapi. Ég er með þrjú einföld skilyrði: svæði, svalir og stofur. Og svo nokkur aukaatriði sem saman geta orðið að aðalatriði.

Ég veit um a.m.k. eina manneskju sem hringdi nýlega í Landsbankann og spurði hvort hann hefði íbúðir til sölu. Svarið var nei.

Eignir eru engu að síður settar í söluferli. Hvernig á að ákveða verðið? Mér þætti ekki óeðlilegt að líta til fasteignamats. Margar íbúðir í mörgum hverfum hafa verið fasteignaverðmetnar undanfarin ár. Við það yrði spurningarmerkið sýnu minna.

Að vísu hef ég sannreynt að jafnvel á kaupendamarkaði er fasteignamat Fasteignaskrár Íslands varhugaverð vísindi. En hvað er skárra? Og ég er mjög hugsi yfir síðustu meintu bommertu í fréttum. Hús í Skerjafirði á 75 milljónir og annað í Garðabæ á 42 milljónir. Ég fletti götunum upp í fasteignamatinu og gat ekki betur séð en að söluverð íbúðareignanna væri nálægt fasteignamatinu. Og þótt e.t.v. sé lítið að marka uppgefið fasteignamat gef ég sjálf minna fyrir mat fasteignasala sem hafa komið mér fyrir sjónir sem hagsmunaaðilar háa verðsins. Það gæti verið vegna þess að þeir fá hlutfall af söluverðinu í þóknun. Ég bið alla heiðarlega fasteignasala afsökunar á tortryggninni.

Ef einhver getur rekið þessar beisku skoðanir ofan í mig og sannfært mig um alheilindi fasteignasala lofa ég að kyngja þeim með góðum ávaxtadrykk. Kannski rúgbrauði líka. Og láta vita.

Ég get hins vegar ekki myndað mér sjálfstæða skoðun á atvinnuhúsnæði og eðlilegu söluverði þess. Áhugaleysið er bara ögn of mikið. Munurinn á 175 og 75 milljónum bendir þó til þess að einhver sé á rangferð.


Maybe I should have - frumsýnd í kvöld

Að sönnu bjóst ég við að falla í einhverja stafi en sannarlega ekki yfir karlakór á Þingvöllum. Ég bjóst ekki við að myndin væri línuleg frásögn að mestu leyti, meira svona klipp hér og þar. Og ég bjóst ekki við að hún ræki svona mörgum sinn löðrunginn undir hvora kinn.

Myndin er nærri klukkutími og þrjú korter og hefði alveg mín vegna mátt halda lengur áfram.

Næsta sýning er ekki fyrr en eftir 16 daga, 5. febrúar í Kringlubíói.

 


Lysi?

Baggalútur tók af mér ómakið í gær og andskotaðist út í það sem ég held að sé útlensk markaðssetning, Lysi kvað seljast vel í Kína, og nú verð ég að taka Bíti Bylgjunnar út af sakramentinu af því að þau birta mínútulangar auglýsingar OG reynslusögur af inntöku þessa drykkjar.

Og fáðu þér svo rúgbrauð. 


Íþróttaáhugaleysi íþróttafréttamanna

Sjálf er ég mjög þjökuð af áhugaleysi um íþróttir og get aðeins fylgst með af hálfum áhuga ef félagsskapurinn er réttur. Það kemur þó ekki að sök, enginn gerir sig líklegan til að borga mér fyrir að flytja fréttir af íþróttum, hvorki einum saman né í smærri hópum ... Einu íþróttirnar sem ég stunda af sæmilegu kappi eru bringusund, skriðsund og malbiksgöngur.

Gísli málbein er hins vegar mikill  hlaupagarpur og mér sýnist hann hafa áhuga á að fylgjast með fréttum af þeim íþróttum, en meintir og launaðir íþróttafréttamenn hvorki segja frá hlaupaíþróttum og öðrum vinsælum íþróttagreinum né virðast þeir líta svo til að afburðamenn í ýmsum íþróttagreinum komi til greina sem íþróttamaður ársins.

Venjulega hefði ég bara lesið þetta og kinkað kolli en yfir kvöldfréttunum gerði ég meira - ég vaktaði í báðum fréttatímunum hvort eitthvað kæmi um Reykjavíkurleikana sem m.a. torvelduðu umferð mína í Laugardalslauginni (allt fyrirgefið) - og heyrði hvorki hósta né stunu.

Er það spurning um iðkendafjölda?


Það er dýrara að leggja saman 1.000.000 og 1.000.000 en 100 og 100

Eða hvað á maður að halda þegar maður les um ýtrustu kröfur lögmannsstofu?

Um er að ræða hálft prósent af heildarskuldinni en síðasta fylgiskjalið í kröfu Seðlabankans var einmitt gjaldskrá Lex, þar sem hin háa þóknun var rökstudd.

Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður á Lex, segir að í þóknunni séu gerðar ítrustu kröfur. Upphæð þóknunarinnar sé miðuð við gjaldskrá og raunar sé upphæðin aðeins um tólf prósent af því sem hún gæti verið samkvæmt gjaldskrá sé að ræða jafn háan höfuðstól þurfi að reikna verð niður. Semsagt, stofan gæti innheimt átta milljarða. Helgi bendir jafnframt á að ekki sé búist við því að nema brot af upphæðin fáist innheimt og líklegt að þóknunin verði lægri á endanum.

Rétt að taka fram að ég valdi appelsínugula litinn til að brennimerkja skilaboðin.


Uppsettur gremjusvipur

Bjarnfreðarson stóð að sumu leyti undir væntingum.

Handritið er gott, ögn sundurlaust flakk milli tímaskeiða en samt gott og teiknaði Georg vel upp. Það finnst mér. Þroskasaga hans, hægfara breytingar, skyndileg uppgötvun, tilraun til að sættast við fortíðina og síðan lokaákvörðunin gekk lóðbeint ofan í mig. Ólafur Ragnar dansar á línunni með óendanlegt fattleysi sitt, en er réttu megin. Svipinn mætti selja og rétta þannig hlut ýmissa sem hafa farið flatt í útrásinni.

Frasarnir voru að mestu leyti fjarri, og var það vel þótt ég snarfélli fyrir þeim í þáttunum. Já, sæll; eigum við að ræða þetta eitthvað; fimm háskólagráður. Frasalaus mynd.

Leikurinn stóð ekki undir væntingum, nema leikur Jóns Gnarrs og Jóhanns Péturs Sigfússonar, og jú, litli Georg stóð sig frábærlega. Svipbrigðin voru sterk og sá litli texti sem hann flutti var góður. Mörg minni hlutverk voru ekki truflandi en nokkur stærri hlutverk voru það. Jörundur er voða eins, bæði í þáttunum, myndinni og á sviði. Sú sem leikur konuna hans (ég finn engan leikaranöfn þegar ég gúgla) getur ekki sagt sannfærandi: Er kominn dagur? - en kannski er hún þannig í karakter.

En það er blessunin hún Ágústa Erlendsdóttir sem fær falleinkunnina hjá mér. Hún átti og mátti vel vera reið og femínísk með uppeldisaðferðir niðri í dimmasta kjallara en reiði- og umvöndunarsvipurinn var alltaf svo leikinn, eins og hún setti hann upp fyrir myndavélina. Ég trúði aldrei á hann. Og það voru nokkur vonbrigði.

Ragnar Bragason hefur leikstýrt svo frábærri mynd sem Börnum og ef hann er ánægður með Ágústu Evu í Bjarnfreðarsyni greinir okkur á.

Mæli ég með henni? Hmm, ekki nauðsynlegt að sjá í bíó.


Feigðarför vörubílstjóra í Tékklandi?

Þýðandi spyr sig: Gæti titillinn í fyrirsögninni selt danskan krimma sem gerist að hluta í Kaupmannahöfn og að hluta í Tékklandi?

Bogens forside

Bein þýðing væri: Hin tékkneska tenging/Hin tékknesku tengsl/Hið tékkneska samhengi sem mér finnst algjör geispvaki (reyndar á dönsku líka).

Ég las bókina samt og hafði gaman af. Dómar um hana eru um flest neikvæðir og einum bókmenntarýninum finnst hún ekki einu sinni jafnast á við hina slæmu Lizu Marklund. Ég læt mér annarra bókmenntapáfa dóma í léttu rúmi liggja og birti hér minn eigin páfadóm:

Den tjekkiske forbindelse er spennandi lesning um Bettinu sem er fréttamaður á sjónvarpsstöð með heldur fánýt verkefni. Ögrandi tækifæri til að leita uppi tíðindi af dauða vörubílstjóra í ferðum til Austur-Evrópu kemur skyndilega undir kvöld einn daginn þegar allir karlarnir eru farnir heim af stöðinni! Og hún bindur fyrir augun (eða þannig) og æðir út í óvissuna þar sem hún heldur síðan til lengst af. Eins og Bond 007 hefði hún átt að steindrepast nokkrum sinnum en ekki er að sjá að hún hruflist til muna, þvert á móti kemur hún ófrísk út úr hildarleiknum! Dramatísku atburðirnir eru ekki skornir við nögl, byssukúlur setja skíðalyftur á hreyfingu, maður villir illa á sér heimildir, bræðraregla segir uú! og maður brennur lifandi. Morðingjarnir reynast ekki morðinginn (ekki ásláttarvilla), greiðvikna stúlkan varð ástfangin, arsenik varð sætt á bragðið - og löggan er gargandi spillt. Bettina er mjög ligeglad í ástarmálum en fær algjört hland fyrir hjartað við tilhugsunina um að vera einstæð móðir. Eins og krimma er siður blandast alls kyns fjölskyldumál inn í starfið og Bettina á mjög alkóhólskemmda blanka mömmu sem lætur kærastann lúberja sig.

Já, sitthvað þarna minnir mig á Hafið ... Maður fær ekki að koma upp til að anda. Og það getur vel verið gaman.


Án viðvörunar - núna, takk

Hekla gaus síðast fyrir tæpum 10 árum. Ég get ekki þóst og giskað og getið í eyðurnar, þetta er allt skjalfest og munað af viðstöddum. Það var laugardaginn 26. febrúar 2000. Enginn var í fjallinu. Fræðingar höfðu pata af gosinu 20 mínútum áður en Hekla lét til skarar skríða. Grunurinn rataði í fréttatíma RÚV og í fyrsta sinn í sögunni vissi fólk af fyrirætlun eldfjallsins fyrirfram.

Þar á undan gaus Hekla 1991, þar á undan 1980-1 og þar á undan 1970. Eðlilega finnst mönnum eðlilegt að gera kröfu um gos á næstu vikum. Alltaf læt ég ferðamennina mína vita af þessum möguleika - þótt ég lofi engu.

Ég held að margir myndu fagna þeirri kúvendingu í umræðunni sem Heklugos byði upp á. Ekki síst útlendinganna vegna. Af Hollendingum er það annars að frétta að ég talaði við einn af þeirri tegund um helgina. Ég sagði: Úps, hatarðu okkur ekki? Og hann sagði: Nei, hatið þið okkur ekki?

Tómar ranghugmyndir.

Svo fór bara vel á með okkur.

Aukaspurning: Hvað verður um HR-húsið í Ofanleiti þegar öll starfsemin flyst í Hlíðarfót á árinu?


Alain Lipietz

Alain Lipietz var í slagtogi með Evu Íslandsvini Joly í Silfri Egils í dag - mikið var hressandi að hlusta á stjórnmálamenn sem þurftu að hugsa sig um meðan þau töluðu (ég veit að bæði töluðu ensku sem er ekki móðurmálið þeirra). Mér finnst mjög margir undir sjálfvirknina seldir og þá finnst mér gjarnan að þeir hlusti ekki á ... t.d. rök.

Kannski ég ætti bara að skríða aftur ofan í holuna mína, hehe.


Er til ærleg bensínselja?

Sumir dagar eru manni mótdrægir.

Á gamlaársdag ætlaði ég að kaupa bensín í sjálfsala. Ég renndi 5.000 kr. í slíðrið og ætlaði að bæta um betur en sjálfsalinn fúlsaði við báðum þúsundköllunum sem ég prófaði. Og svo kom hvorki bensín úr dælunni né kvittun úr kassanum.

Ég hringdi í símanúmerið sem gefið var upp og fékk þar að vonum símsvara. Þá gretti ég mig til frekara sannindamerkis framan í myndavélina og keyrði í burtu á blikkandi tanki.

Svo prófaði ég að hringja á laugardagsmorguninn í bensínseljuna en fékk sama símsvarann. Á slaginu kl. 9 á mánudagsmorguninn hringdi ég enn og fékk mjög liðlega konu í símann sem sagði mér að seðlateljarinn (nei, hún notaði eitthvert annað orð) ætti eftir að fara á milli sjálfsalanna og tæma þá en tók niður nafn og númer og ætlaði að láta hringja í mig þegar mál skýrðust.

Í morgun hringdi ég enn og fékk svar annarrar mjög elskulegrar konu sem ætlaði að hnykkja á þessu.

Rétt eftir hádegið hringdi síðan einhver gæðakarl sem var búinn að finna þann bláa og bauð mér að sækja hann til hvaða selju sem ég vildi. Auðvitað hefði mér þótt eðlilegast að leggja hann inn hjá mér eða senda til mín með öðrum hætti - eða gerði ég einhver mistök? - en hann var svo kurteis að ég varð eins og smjörlíki í heitri gluggakistu.

Svo lagði ég lykkju á leið mína til að nálgast herlegheitin en þegar ég kom með mitt hóflega tilkall KANNAÐIST ENGINN VIÐ MÁLIÐ. Lipur afgreiðslustúlka hringdi og fékk engin svör. Ég hringdi í númerið sem hringdi í mig í dag (já, ég persónugeri bara símanúmerið) og Securitas svaraði! Þegar ég hváði svo að undir tók í seljunni útskýrði kurteis karl að sennilega væri flutningur á símanum en samt vissi hann ekkert um það og þaðan af síður um mitt mál.

Fimm dögum eftir að bensínselja fékk minn bláa að láni er málinu enn ekki lokið. Ég er hvorki eins kurteis né þolinmóð og allt það fólk sem ég er búin að tala við út af myndinni af Ragnheiði Jónsdóttur biskupsfrú og nú lofa ég við æru óþolinmæði minnar að einhver hjá Olís þarf að grátbiðja um gott veður á morgun.

Helsti lærdómurinn af sögunni er samt sá að maður á að losa sig við helvítis bílinn.


Krosseldur Heimis

Icesave vekur fólki hroll, að vonum, hvernig sem allt veltist. Eldurinn sem Heimir reyndi að vekja í Krosseldinum í gær var ansi hrímaður líka, einkum fannst mér reyndar standa út úr Heimi kaldur strókur til Margrétar sem var honum á vinstri hönd.

Það er eitthvað við Krosseldinn sem hefur ekki virkað í mörg ár, eitthvert tilgerðarlegt uppgjör en sérstaklega var það gapandi leiðinlegt í ár.

Af hverju var ekki Halldór E. í miðjunni og stjórnaði með sínum frábæra húmor? Einhver húmor hefði strax verið til bóta ...

Fullorðins

Ég er í hópi þeirra kröfulitlu sem finnst áramótaskaupið yfirleitt heppnast vel. Það er erfitt að gera 300.000 manns til hæfis í einu og mér finnst eðlilegt að sólóa í liðinu sem finnst það fínt.

Reyndar er ég ekki í alvörunni svona hógvær, yfirleitt skil ég tilvísanirnar, yfirleitt þekki ég leikarana og þannig finnst mér ég bara hafa forsendur til að kunna gott að meta.

Og þetta er ekkert Ragnars Reykáss heilkenni. Þetta stenst rökrétta skoðun. Þetta er húmor ...

Meðal leikara í gær voru Stefán Jónsson (SJS), Hanna María Karlsdóttir (Jóhanna), Gunnar Hansson, Laddi (ÓRG), Sigrún Edda Björnsdóttir, María Pálsdóttir (Margrét Tryggva), Árni Pétur Guðjónsson (Þráinn), Pálmi Gestsson (Björgólfur), Örn Arnarson (,,tær snilld"), Erlingur Jóhannesson (JÁJ), Víkingur Kristjánsson, Páll Óskar Hjálmtýsson og svo var Anna Svava Knútsdóttir þarna og hinn nýlega útskrifaði Hannes Óli Ágústsson sem Sigmundur Davíð ef mér skjöplast ekki. Sævar Sigurgeirsson, stórvinur úr Hugleik, lék Sigmund Erni þáttarstjórnanda í byrjun skaups og Ármanni Guðmundssyni úr sama leikfélagi brá fyrir sem fornmanni. Ég saknaði auðvitað Björns Thors (sem verður sjálfsagt ofnotaður á næstu árum) og veit ekki hver lék Björgólf yngra.

Helsti gallinn á sameiningasrafli þessa áramótaskaups er að það getur ekki hafa höfðað til barna, ekki fyrr en Páll Óskar tók Michael Jackson á línuna í lokin.

Eftir að hafa séð eitt atriði úr skaupinu í Kastljósi í fyrrakvöld var ég sannfærð um að mér þætti það leiðinlegt og ósmekklegt. Mér sýnist nefnilega sem raunverulegar myndir af niðurbroti húss hafi verið notaðar í bland við baráttu Víkings við að stjórna gröfunni sem var trúlega vísun í Hamarinn reyndar líka. En val Kastljóss endurspeglaði ekki skoðun mína á skaupinu. Með hroka beturvitrungsins gef ég skaupinu ágætiseinkunn (eitt atriði var þó notað of oft). Ég mundi heldur ekki (nema ég hafi raunverulega ekki vitað það) að á meðal höfunda var Halldór E. sem er fyndnasti útvarpsmaður sem ég heyri í.

Helsti vandi minn var að ég þurfti svo mikið að útskýra fyrir öðrum í gær (varist harkalega dóma!) og hef fyrir vikið þegar afráðið að horfa öðru sinni á Spaugstofutíma á morgun.

Samt - samt held ég að tími áramótaskaupsins sé liðinn, það á ekki að binda menn yfir sjónvarpinu síðasta kvöld ársins.

Og nú má ávarpið fara að koma frá Bessastöðum! 


Elst við hrunið


,,... þegar hann freistaðist til þess að bjarga ..."

Af tillitssemi við umfjöllunarefnið sem er göfugt ætla ég ekki að vísa í fréttina en viðkomandi bjargvættur lét alls ekki freistast. Hann freistaði þess að bjarga manneskjunni sem er allt annarrar merkingar.

Marga amböguna sé ég flesta daga en þessi afvegaleiðir umræðuna svo mikið að ég verð að ergja mig á prenti.


Clive Owen er ... ólýsanlegur

Ekki ætlaði ég að fara að horfa á einhvern Inside Man um bankarán í gærkvöldi - bankarán, huhh, komin með nóg af því - en sá þá ofurleikarann Clive Owen sem hefur hingað til ekki brugðist. Og úr varð að bankaránið fékk óskipta athygli mína í tvo tíma.

Mikið er gott að geta enn heillast af bíómynd/leikara.

Og þá er að halda áfram að lesa Horfðu á mig þrátt fyrir að vera eftir Yrsu ...


,,Þriðja prentun á leiðinni"

Að sönnu er ég ekki mjög öflugt jólabarn. Ég er þó hænd að bókum og langar alltaf að lesa einhver býsn. Ég veit líka að ekki dugir að allir fái bækurnar lánaðar á bókasöfnum, einhver þarf að kaupa þær því að ella hætta þær að koma út.

Og mér leiðist þessi árátta bókaútgefenda að láta alltaf eins og (góðar) viðtökurnar komi svo gleðilega á óvart að nú hafi þurft að ræsa prentvélarnar á ný. Hver trúir á svona lélegt skipulag? Þar fyrir utan hafa svona meintar sölutölur alltaf þveröfug áhrif á mig, ef einhver bók hefur selst í þotuförmum eru mun meiri líkur á að eitt eintak slæðist fyrirhafnarlaust til mín og ég fer á stúfana til að kaupa bók sem enginn hefur hrópað um á torgum.

Að öðru leyti er ég bara orðin nokkuð jólaleg og tilbúin að taka fagnandi á móti frídögunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband