Miðvikudagur, 23. desember 2009
,,Þriðja prentun á leiðinni"
Að sönnu er ég ekki mjög öflugt jólabarn. Ég er þó hænd að bókum og langar alltaf að lesa einhver býsn. Ég veit líka að ekki dugir að allir fái bækurnar lánaðar á bókasöfnum, einhver þarf að kaupa þær því að ella hætta þær að koma út.
Og mér leiðist þessi árátta bókaútgefenda að láta alltaf eins og (góðar) viðtökurnar komi svo gleðilega á óvart að nú hafi þurft að ræsa prentvélarnar á ný. Hver trúir á svona lélegt skipulag? Þar fyrir utan hafa svona meintar sölutölur alltaf þveröfug áhrif á mig, ef einhver bók hefur selst í þotuförmum eru mun meiri líkur á að eitt eintak slæðist fyrirhafnarlaust til mín og ég fer á stúfana til að kaupa bók sem enginn hefur hrópað um á torgum.
Að öðru leyti er ég bara orðin nokkuð jólaleg og tilbúin að taka fagnandi á móti frídögunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. desember 2009
Hvað er fæðuöryggi?
Ég skal ekki vera eini einfeldningurinn sem hélt að fæðuöryggi hefði með hollustuhætti að gera. Þangað til í vikunni hélt ég að það varðaði salmónellu eða gerla - eða bráðadauða.
Nei, fæðuöryggi snýst um það hvort þjóðin hefur nóg að borða, sé sjálfbær með matvælaöflun. Það mætti orða þetta faglegar og af meira öryggi (sit hér titrandi af óvissu öryggisleysi) en heila málið er að það er leitun að landi sem er með meira fæðuöryggi en Ísland! Að vísu vantar dálítið upp á okkar eigið grænmeti en við gætum haft fisk og lambakjöt í annað hvert mál - og það þótt við værum fleiri en 317.000 stykki. Við erum einstaklega fæðuörugg.
Hvorki fæðu- né matvælaöryggi fær svörun í orðabókinni minni, Google snýr bara út úr en þegar ég prófa food security er Wikipedia vel heima. Food security refers to the availability of food and one's access to it. Það gæti ekki verið öllu skýrara - nema þá kannski á íslensku: Matur öryggi er átt við aðgengi að mat og aðgang einn dag í það - þýðing í boði Googles, já, nei, enskan er bara betri hérna.
Og af hverju þessi skyndilega meðvitund Berglindar?
Jú, ég spjallaði um þetta - og margt fleira - við minn góða vin hjá Hagstofunni sem ekki aðeins veit allt (og ætlar að láta reyna á í spurningakeppni hjá RÚV eftir hálfan mánuð) heldur vann líka hjá FAO í Róm um árið. Þegar hann talar ... hlusta ég ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 17. desember 2009
Ármannarnir
Um daginn spurði mig maður hvort ég væri búin að lesa Ármann. Vonarstræti? hváði ég. Hann hnussaði nei, hann væri að meina bankabókina.
Nú er ég búin að lesa báðar bækurnar og mikið eru hughrifin ólík. Ég þekki ekki bankabakgrunninn eins og Tony Shearer sem brá fyrir í Silfri Egils um síðustu helgi en Ármann Ævintýraeyjunnar virkar á mig eins og kjáni sem fannst m.a. eðlilegt að hann fengi mikinn arð á silfurfati þegar hann hafði lagt nótt við dag til að hámarka gróða af einstakri sölu eða fyrirgreiðslu sem fól ekki í sér neina eiginlega verðmætasköpun (eins og kom á daginn) en þegar hann hafði lagt nótt við nýtan dag til að hafa af fólki sparifé (óvart, náttúrlega ...) vildi hann bara klapp á bakið og samúðarkveðjur. Fleira langar mig ekki að segja um bókina því að ég ætla ekki að eyðileggja fyrir mér vikuna frekar en orðið er. Ég get engan veginn mælt með henni og hvet fólk til að kaupa hana alls ekki. Út á mig fær hann ekkert í kassann.
Vonarstrætisbókina um Skúla og Theodóru Thoroddsen og uppkastið 1908 þarf maður hins vegar að lesa hægt og njóta hverrar síðu. Ármann segir bókina skáldsögu sem byggi á raunverulegum persónum. Það er það eina sem þjakar mig svolítið, ég vildi vita hversu miklar heimildir hann hefur um það sem hann gerir skáldleg skil. Var Skúli slæmur í eyranu? Var hann háður Theodóru? Gat hann ekki borðað með fjölskyldunni? Var Tryggvi Gunnarsson sem grafinn er í Alþingisgarðinum virkilega svona mikil frenja?
Í æviágripinu sé ég hvaða stjórnmálaslóð Skúli fetaði (flokkaflakk er ekki nýtt af nálinni) en ekkert umfram hefðbundnar upplýsingar.
Mig langar að vita meira um milliþinganefndina og uppkastið þannig að Vonarstræti er hungurvaki. Það er ekki galli á bók.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 15. desember 2009
*You know*
Þú veist, sem leiðsögumaður hef ég verið hundskömmuð af bílstjóra (einu sinni í hvataferð þar sem ég var hljóðtengd í nokkra jeppa) fyrir að segja *you know* of oft. Og þú veist, ég tók það þráðbeint til mín og varð meðvituð.
Nú er ég að fylgjast með Mark Flanagan og Þóru Arnórs í sjónvarpinu mínu. Og þau nota hikorðasamsetninguna - alveg eins og enski blaðamaðurinn gerði líka ótæpilega í Silfri Egils um hina helgina.
Hahha, þúst! Ég er ekki ein ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 9. desember 2009
Við vöðum skuldir í háls
Ég sá glæru í vikunni sem færði mér heim sanninn um að skuldabanaáætlunin er óskhyggja ein saman.
Glæran nær frá 1995, frá vinstri. Súlurnar niður á við sýna neikvæðan vöruskiptajöfnuð, árin sem við söfnuðum skuldum. Árin 2001 og 2002 komum við út í dálitlum plús en árin þar á eftir söfnuðum við feitum og pattaralegum skuldum, vorum svona eins og púkinn á fjósbitanum sem dafnaði þegar hann heyrði bölv og ragn. Þetta var góðærið sem Ármann Þorvaldsson þakkaði sér og öðrum spekilekum. Tekið að láni eins og allir vita núna - líka hann.
Gula súlan miðsvæðis upp á við er 2009, jákvæður vöruskiptajöfnuður af illri nauðsyn, enginn peningur afgangs til að bruðla með. Appelsínugulu byltingarsúlurnar áfram til hægri eru spá AGS og SÍ næstu 10 árin. Þær stofnanir ,,spá" því að við munum stórleggja til hliðar, framleiða bara, selja grimmt og eyða engu. Til að gera út skipaflotann þarf hins vegar að kaupa eldsneyti, úps, og til að geta keyrt ferðamennina um landið þarf óvart líka keyrikraft.
Sem leikmaður með stór eyru fullyrði ég að áætlunin gæti verið runnin undan rifjum Gosa. En á hvers ábyrgð?
Við stöndum í fúlu skuldafeni og eigum engar vöðlur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 3. desember 2009
Eiginlega ætti ég að borga Símanum og Vodafone skemmtanaskatt
Þegar Björn Thors og hinir leikararnir byrja á ávaxtagolfinu sínu hækka ég í sjónvarpinu. Þetta er einfaldlega svo skemmtilegur leikþáttur að ég er til í að horfa á hann aftur og aftur. Að tómatur sé í raun ávöxtur, bara menningarlega grænmeti ...
Eins er með froskana, þeir skemmta mér alveg takmarkalaust. Vandað skemmtiatriði og nýir þættir með reglulegu millibili.
En mér dettur ekki í hug, ekki eitt augnablik, að skipta við þessi fyrirtæki. Þau eyða svo miklum peningum í að skemmta mér í auglýsingatímunum að þau verða að rukka hærri símagjöld. Þess vegna er Tal - a.m.k. að svo komnu máli - skásti kosturinn enda lækkaði reikningurinn um ein 20% við yfirfærsluna.
Hinn harði heimur viðskiptanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 2. desember 2009
Nýtt hvalaskoðunarskip komið
Ferðaþjónustan er á hraðri siglingu inn í árið 2010 enda er nú lag. Og þar er ég svo múruð inn í klíkuna að ég fæ upphringingu ...

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. nóvember 2009
Með siðferðisbrest (lag: Simply the Best)
Ég er alltaf með nettan móral yfir að horfa á Spaugstofuna, svo margir hallmæla henni í mín eyru, fólk sem ég tek mark á. En þótt ég hlæi ekki alltaf og þótt mér finnist hún ekki alltaf skemmtileg finnst mér næstum alltaf eitthvað gott og/eða beitt.
Grátkór LÍÚ var t.d. nokkuð sannfærandi skemmtiatriði í síðasta þætti. Að ógleymdri Tinu Turner sem söng um siðferðisbrest af mikilli þekkingu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. nóvember 2009
Síðan hvenær eru 59,9 fermetrar 93 fermetrar?
Ég fylgist nokkuð nákvæmlega með fasteignaauglýsingum. Í langan tíma hefur lítið verið auglýst af íbúðum sem gætu hentað mér þannig að ég hef víkkað út leitarskilyrðin. Og í einhverju fikti rakst ég á þessa á Teigunum. Í lýsingunni er hún 60 fm en í yfirlitinu 93.
Áhugasamir smella hugsanlega á eignina þegar fermetrinn virðist eiga að kosta 200.000 krónur - sem er svolítið annað en 302.000 þegar nánar er að gáð.
,,Stærð" hefur tekið miklum breytingum þau ár sem ég hef fylgst með fasteignaverði. Geymslur voru komnar inn í stærð íbúðar þegar ég man fyrst eftir mér en síðustu tvo áratugina hefur bílskúrinn greinilega orðið að stofu eða aukaherbergi, í einhverjum tilfellum hafa svalir verið taldar með og svo var risíbúð í Hlíðunum (horfin af vefnum) skráð 71 fm hjá Fasteignamati en fasteignasalan ákvað að slumpa á 100 fm af því að hún var undir súð og svo væri stórt ómanngengt greymslurými fyrir ofan íbúðina.
Mér finnst eðlilegt að borga fyrir útsýni, garð, bílskúr og geymslu og að verðlagning taki mið af ástandi íbúðar, hvort eldhús hafi verið endurnýjað o.s.frv. en það er út í himinbláinn að telja óíbúanlegt rými sem beinan hluta íbúðar.
Og á svona tímum skil ég enn síður þegar menn gala hátt um að markaðurinn hljóti að ráða. Markaðurinn er löngu búinn að segja nei takk en samt lækkar ásett verð sáralítið. Og ég veit um hjón sem gerðu tilboð eftir tilboð í eignir út frá fasteignamati og var alltaf hafnað.
Markaður sparkaður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 25. nóvember 2009
Litlu búðirnar, þær keðjulausu
Mig vantaði, já, bráðvantaði naglaherði (svo ég geti klórað frá mér) og fór mjög meðvitað í Laugarnesapótek sem er ekki í eigu þeirra stórbokka sem gera mér lífið leiðast þessa mánuðina. Í leiðinni keypti ég mér líka sundbol sem er örugglega sá fallegasti sem ég hef eignast - og kostaði 3.500 krónur.
Í allt sumar leitaði ég dyrum og dyngjum að brúkhæfum fatnaði til að synda í eftir að mér hafði í fyllstu fúlmennsku verið bent á visst gagnsæi (já, það á ekki allt allt að vera uppi á borðum). Útilíf kom auðvitað ekki til greina þannig að ég endaði í Sportveri á Glerártorgi og fann þar vel nothæfan sundbol en hann kostaði 12.000 kr. Og ég fer svo oft í sund að báðir tveir eiga eftir að koma í góðar þarfir.
Gagnsæi - gegnsæi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 22. nóvember 2009
Ari Jón er að vísu búinn að missa mig ...
... en e.t.v. hugsa fleiri viðskiptavinir sér til hreyfings.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. nóvember 2009
Komast Vestmannaeyjar inn í Gullhringinn?
Ég vildi að ég væri flink eins og Kjartan við að tölvuteikna kort. Hann hefur varpað fram mörgum forvitnilegum hugmyndum í ferðaþjónustu, m.a. þeirri að breyta Gullhringnum, bjóða upp á fleiri útgáfur og nýta ónýtta möguleika. Ég er ginnkeypt fyrir nýjungum ef þær eru gáfulegar, og ef ég kynni að teikna myndi ég máta Vestmannaeyjar við Gullhringinn. Ég hef heyrt því fleygt að vonir sumra standi til þess að flétta Eyjarnar inn í hringinn þegar Landeyjahöfn verður að veruleika næsta sumar og sjálfri þætti mér það afar spennandi.
Ég held samt frekar að Eyjarnar henti betur með jöklaferð í Mýrdalinn, tala nú ekki um ef til stæði að gista utan höfuðborgarsvæðisins, og vitaskuld í hringferðunum um *Norðureyju*. Siglingin frá fastalandinu skilst mér að muni taka tæpan hálftíma og að ferðir verði ekki færri en sex á dag.
Ætli ferðarekendur séu búnir að kveikja? Eða er ég e.t.v. of bjartsýn?
Landeyjahöfnin verður langtum austar, myndin er tekin af Hellisheiðinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. nóvember 2009
Predikun í skáldsögu
Þegar maður er ekki opinber gagnrýnandi getur maður maður leyft sér að hafa tilfinningalegri afstöðu til bókmennta. Karitas án titils heggur í minningunni nálægt fullkomnun og ég gerði mig því seka um að munnhöggvast við væna manneskju sem fannst bókin sú leiðinleg.
Kannski voru væntingarnar fullmiklar þegar ég breiddi út faðminn á móti Karlsvagninum. Hún er vel innan við 200 síður og ég þurfti að pína mig til að klára. Stóri gallinn í mínum augum er predikun aðalpersónunnar. Hún er geðlæknir og lendir í þeirri fáránlegu stöðu að dragnast heila helgi með óstýriláta unglingsstúlku sem er bilaðislega (stolið orð úr nærumhverfi mínu) ósannfærandi karakter.
Og geðlæknirinn er í innra og ytra tali að vanda um við hana, umhverfið og samfélagið gjörvallt bókina í gegn. Ef ég gæti skilið söguna sem allegóríu um síðasta ár, fyrsta árið eftir peningahrunið, væri mér hugarhægra en ég get ekki teymt textann út úr sjálfum sér.
Þetta var skelfilega raunalegt, þeim mun raunalegra auðvitað fyrir það að Kristín er flinkur penni og frábær sagnamaður þegar hún er í góðu formi. Ársform hennar 2009 er í mínum augum hins vegar félagsfræðiritgerð með ögn af persónulegu ívafi.
Eins gott að veðrið verði gott á morgun, það sem eftir lifir viku er það eina vonin, hehe.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 16. nóvember 2009
Þegar Jónas hefði orðið 202 ára
Skynsamlegasta ganga lífs míns er skólagangan. Eðlilega verður mér hugsað til hennar á degi íslenskrar tungu því að með henni, íslenskri tungu, hef ég unnið fyrir mér.
Að fólk skuli borga mér fyrir að tala, lesa og skrifa - og hlusta - er ómetanlegt.
Ef ég þyrfti hins vegar að söðla um veldi ég frumframleiðslu því að þess hef ég helst saknað í atvinnulífi mínu - að hafa lítinn þátt tekið í áþreifanlegri verðmætasköpun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 12. nóvember 2009
Spennandi lesning
Til stendur að SUS útlisti hugmyndir sínar um stjórn fiskveiða von bráðar.
Ég lýg því ekki, þær mun ég vakta.
Á þetta trúi ég ekki:
Hvað þjóðkirkjuna varðar telur SUS rétt að aðskilja ríki og kirkju með öllu. Það verður hins vegar ekki gert á einu bretti og því telur hópurinn rétt að gefa kirkjunni aðlögunartíma. Þannig mætti aðskilja ríki og kirkju á 10 ára tímabili.
Ég vona samt að hugmyndinni vaxi ásmegin. Óðinsmegin þess vegna.
Fjárlagatillögur SUS eru í 28 blaðsíðna fljótlesinni skýrslu. Í kaflanum 2.2 Eflum atvinnulífið fjölgum störfum (bls. 7-8) fann ég ekkert um fjölgun starfa, bara að aukin skattheimta yrði dragbítur. Skýrslan er náttúrlega stutt og mestu plássinu eytt í niðurskurð í ráðuneytunum þannig að atvinnutillögurnar eru sennilega bara ókomnar. Ég sé heldur ekki að Atvinnuleysistryggingasjóður fái neitt til að mæta því að fjöldi fólks verður sendur á launaskrá hjá honum. Kannski er meiri vilji til að senda þann hóp beint til Keflavíkur.
SUS leggur ekki til að dregið verði úr fjárframlögum til stjórnmálasamtaka upp á 371,5 m.kr. Þau mega vera á forræði skattgreiðenda áfram, ólíkt t.d. Listasafni Einars Jónssonar (16,9 m.kr.), Hafró (1.356,8 m.kr.), talsmanni neytenda (15,6 m.kr.), Jafnréttisstofu (60,5 m.kr.), Fjarskiptasjóði (84 m.kr.) og Hekluskógum (22,6 m.kr.).
Þetta var fyrsta vers, í fallegum litum og að mestu vel frágengið. Ég hlakka til að fá meira að heyra. Alls staðar að.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 11. nóvember 2009
Það er víst glæta
Á meðan veðrið er bærilegt miðað við árstíma og Jóni Jóhannessyni verða ekki gefnir eftir milljarðar held ég skítsæmilega skapinu. Í minningunni er nóvember 2008 hálfu blautari og drungalegri en nóvember 2009.
Til að lengja líftíma skítsæmilega skapsins fór ég í ljósaseríubúð í gær og keypti mislita seríu og varð fyrir hrósi frá bláókunnugri konu (ekki fyrir seríuval þó). Gærdagurinn var fyrir vikið rúmlega skítsæmilegur, hehe.
Gaman að þessu óþekkta, og líka ókunnuga fólkinu. Gústi, hvernig er veðrið á miðunum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 9. nóvember 2009
Gerðist það ekki 10. nóvember 1989?
Þegar maður lifir atburðinn man maður stundum verr hvenær hann varð. Ég man að Rás 2 var tiltölulega ný af nálinni (jæja, sex ára) þegar Berlínarmúrinn féll og fréttum var útvarpað með reglulegum hléum alla nóttina. Mér fannst mér málið skylt því að ég hafði verið í Berlín um hvítasunnuna 1987 ...
Ég fylgdist spennt með fréttum alla nóttina, aðfaranótt 10. nóvember - er það ekki bara dagurinn? - enda var mér ekki boðið í þrítugsafmæli Egils.
Súrt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. nóvember 2009
Höfuðborgarsvæðið verði eitt sveitarfélag
Ef ég mætti ráða væru Seltjarnarnes, Reykjavík, Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður og Álftanes eitt sveitarfélag með einn sveitarstjóra/borgarstjóra. Og Kjalarnes.
Seltirningar fengju að borga meira til samneyslunnar, ég hef þá grunaða um að vilja það, Kjalnesingar væru ekki gildraðir og umkringdir Reykjavíkinni, strætósamgöngur væru eðlilegar í sveitarfélaginu Reykjavík sem teygði sig víða - og minna væri um smákónga- og -drottingalæti á hreppamörkum.
Er ekki hægt að gera svona lítið fyrir mig, t.d. í sveitarstjórnarkosningunum 2010?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 3. nóvember 2009
Þú læst á endanum
Í dag heyrði ég útvarpsviðtal þar sem andlát bar á góma. Þegar viðmælandinn talaði um sjúkling sem lýkur hérvist sinni ætlaði hún að segja: Þegar hann læst ... en fannst orðmyndin líklega svo sérkennileg að hún breytti því í: Þegar hann deyr er hann fluttur beint upp í líkhús (eða eitthvað).
Það er synd hvað við veigrum okkur við að nota sum orð í öllum sínum fjölbreytileika.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 1. nóvember 2009
Ó, hví eru fréttir (stundum) svo lítið upplýsandi?
Heimild mín hermir að vandaðri fyrirspurn hafi verið varpað fram á borgarafundi á Sauðárkróki í síðustu viku þar sem fundarefnið var fyrirhuguð skerðing fjár til stofnana á staðnum. Spurningin var hvort embættismenn Skagafjarðar ættu (ætluðu?) ekki að nota tækifærið meðan þeir væru enn að störfum og ekki sameinaðir öðrum héruðum og taka á kaupfélagsveldinu. Vísir ákvað að skrúfa bara frá krana fréttatilkynningarinnar. Mbl.is sýnist mér gera það líka en
Villa
Ekki fannst frétt með þessu númeri.
kom upp þegar ég smellti á fréttina. Ég fann ekkert á DV-síðunni og ekki heldur á Eyjunni. RÚV skautaði frekar létt yfir, á ,,fremsta fréttaskýringavef landsins" fann ég ekki einu sinni leitarvél, vandleitað var á Pressunni og síðasta hálmstráið reyndist státa af myndum einum saman umfram fréttina sem fundurinn ákvað sjálfur.
Svo að ég hnykki á spurningunni sem ég nefni í fyrstu línu var hún víst eitthvað á þá leið hvort ekki væri ráð að nýta sýslumann og lögreglu sem enn væru að störfum í Skagafirði - ef störfin yrðu stokkuð upp í sparnaðarskyni (sem er allt annað umfjöllunarefni) - til að vinna gegn misnotkun, einokun og spillingu sem allir vissu að viðgengist á staðnum. Mér skilst að spurningin hafi ekki vakið lukku - og það er skýlaust fréttaefni.
Ég tipla á þessu af varfærni vegna þess að ég var ekki á staðnum. En hvert er hlutverk miðlanna sem vinna fyrir alla landsmenn? Úr því að ég frétti af þessu gef ég mér að víða falli sprengjur sem menn þegja um en ættu að segja frá - og taka á.
-Mikið fann ég hins vegar um villtar kindur sem sóttar voru á kettanibbur af mannúð og fluttar milli héraða af mannúð til að slátra af mannúð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)