Laugardagur, 31. október 2009
,,Glefsur úr Víðu og breiðu"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 30. október 2009
Má mismuna?
Ég fæ ekki betur séð en að svar Hæstaréttar sé: Já.
Samkvæmt málatilbúnaði stefnda telur hann áfrýjendur sem stjórnarmenn í félaginu hafa á fundi 30. apríl 2007 brotið gegn ákvæðum 76. gr. laga nr. 2/1995 og óskráðri meginreglu félagaréttar um jafnræði félagsmanna með því að gera áðurnefnda samninga við tvö einkahlutafélög í eigu Bjarna Ármannssonar um kaup á hlutum þeirra í Glitni banka hf. fyrir 29 krónur hvern þegar meðalgengi í viðskiptum í kauphöll hafi verið 26,66 krónur á hlut, en kaupverðið hafi þannig orðið 549.800.550 krónum hærra en markaðsverði nam. Einnig hafi stjórn félagsins skort viðhlítandi heimild til að láta það kaupa eigin hluti og virt að vettugi með kaupunum, sem hafi verið hluti af starfslokasamningi fráfarandi forstjóra, starfskjarastefnuna sem samþykkt hafi verið á aðalfundi 20. febrúar 2007, en að auki hafi í þessu efni verið brotið gegn svonefndri ráðdeildarreglu félagaréttar.
Hér áður er í helstu atriðum greint frá málsástæðum, sem stefndi reisir málsókn sína á, en þeim er jafnframt nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ef frá er talin málsástæða hans, sem lýtur að broti gegn reglum um jafnræði hluthafa og afstaða hefur þegar verið tekin til, er þeim það sammerkt að þær eru reistar á ávirðingum í garð áfrýjenda vegna starfa þeirra í stjórn Glitnis banka hf., sem gætu ef réttar væru fellt á þau skaðabótaábyrgð gagnvart félaginu eða eftir atvikum refsiábyrgð, en ekki skaðabótaskyldu gagnvart einstökum hluthöfum. Verða áfrýjendur því sýknuð af kröfum stefnda.
Dómurinn er snöggtum lengri.
Óli Björn er líka á því að Hæstarétti hafi orðið á.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. október 2009
Lafandi appelsínuhúð og afmyndað sílspik
Eða ekki.
Eftir að hafa séð umfjöllun um að Vísir sé mjög óforskammaður gagnvart fræga fólkinu fór ég að taka eftir að DV og Eyjan eru það líka. Veit ekki með Moggann.
Ég læt þetta vitaskuld sem vind um eyru þjóta en öll sólarmerki hníga að því (vonandi gef ég mér heilan vitlausan helling hérna) að ómótaðir og óharðnaðir unglingar lesi þetta og sumir lifi eftir þessu.
Geta foreldrar vaktað þetta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. október 2009
Jafnvirði
Nú tala ég bara innan úr svartholi þess sem hefur enga aðra hagfræði lært en þá sem blöðin hafa birt okkur síðasta árið. Ég heyri menn tala um þá nýju uppgötvun að í lánasamningum vegna húsnæðiskaupa standi að endurgjalda skuli jafnvirði og þá hafa menn túlkað það svo að færri evrur, færri jen eða færri dollararar skuli koma til greiðslu úr því að gengið hefur fallið.
Af því að ég er enn ekki útskrifuð úr hagfræði fjölmiðla 2008-2009 spyr ég: Ætluðu menn þá ekki að græða heldur ef íslenska krónan styrktist?
Sjálf er ég ekki með erlend húsnæðislán en finnst enn sanngirnismál að lánin verði færð aftur til sanngjarnrar dagsetningar, annað hvort 1. janúar 2008 eða 1. júlí 2008. Peningarnar sem þannig ,,afskrifuðust" voru hvort eð er aldrei til. Stórir aðilar tóku stöðu gegn krónunni sem tók fyrir vikið einhverja undarlega sveiflu. Peningar eru bara ávísun á verðmæti og það er andstyggilegt að fólk fari á límingunum yfir hégóma úr pappír þegar enn er hægt að sækja sér mat, vefa föt og snúa túrbínum. Verðmæti eru ekki fólgin í pappírspeningunum heldur því sem fá má fyrir peningana. Hefur það horfið yfir móðuna miklu?
Sjálf myndi ég mest sakna þess lúxuss sem nettengd tölva er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. október 2009
Eins og gerst hafi í gær
Mér er í fersku minni ýmislegt frá fermingunni minni. Ég eignaðist svart satínpils og satínvesti. Ég gleymdi mér í athöfninni og stóð ekki upp fyrr en presturinn gaf mér merki með augunum og þá spratt ég upp eins og fjöður og hélt að allir hefðu tekið eftir bara því. Mér er minnisstætt að presturinn er mér ekki minnisstæður fyrir annað en að vera indæll fullorðinn kall en hinn presturinn í sókninni reyndi að galdra til sín fermingarbörn með appelsíni og prinspólói. Það var a.m.k. þrálát saga í sókninni.
Guðs orð hefur ekki átt greiðan aðgang að mér, það skal viðurkennt, en mér hefur líka löngum fundist fráleitt að ferma börn sem eru 13-14 ára. Af hverju ekki að bíða til 18 ára aldurs? Og er ekki tímabært að klippa á naflastreng kirkjunnar við ríkið - ríkiskassann?
Ekki veit ég hvað presturinn á Selfossi tók sér fyrir hendur en mikið ósköp er ég fegin að þótt ég hafi asnast til að láta ferma mig í árdaga sitji ég a.m.k. ekki uppi með ónotatilfinningu út af þjóni kirkjunnar.
Er það ekki reyndar lágmarkskrafa?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. október 2009
Af hverju Helgi?
Frá því að nýja fréttin af Icesave var birt á sunnudaginn er ég búin að velta fyrir mér hvers vegna Helgi Áss (t.v.) og Páll (t.h.) voru með á blaðamannfundinum. Í fréttatilkynningunni sem var hengd við sé ég nafnið hans:
Við samningsgerðina hafa stjórnvöld notið fulltingis Nigel Ward hjá Ashurst lögmannsstofunni og samningu lagafrumvarps hafa annast þau Benedikt Bogason, héraðsdómari, Björg Thorarensen, deildarforseti Lagadeildar HÍ, Eiríkur Tómasson, prófessor við Lagadeild HÍ og Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur hjá Lagastofnun HÍ auk þess sem þau hafa veitt stjórnvöldum almenna ráðgjöf.

En Páls er í engu getið og af hverju er hann með á fundinum? Var enginn fréttamaður forvitinn um framsetninguna? Og hvar voru Nigel, Benedikt, Björg og Eiríkur?
Að lokum vil ég geta um það aðalatriði að mér finnst Nigel vitlaust beygður í eignarfallinu (enda er ég s-eignarfalls-fastisti) og mér finnst að Ármann eigi að lýsa næstu söngvakeppni - ef einhver verður sendur til Óslóar!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 18. október 2009
H1N1
Getur verið að óttinn við silungaflensuna gagnist einhverjum? Hver framleiðir vörnina, hver selur, hvað kostar hún og hver borgar?
Græðir einhver á hysteríunni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 14. október 2009
Stöðlunaraðgerð
Er hægt að keppa í stöðluðu útliti? Hvaða nef uppfyllir best stöðlunarstuðulinn? Er handhafi þess sigurvegarinn? Heppnaðist megrunin á stórutánni?
Ja, lýtalæknar (sumir, til að særa engar tilfinningar) væru vísir með að svara þessum spurningum í fyllstu alvöru.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. október 2009
Af hverju ætti ég að kaupa Ævintýraeyjuna?
Mig langar ekki að lesa um mann sem slysast af Trabantinum inn í bankaheiminn.
Mig langar ekki að lesa um mann sem lítur langar leiðir upp til Toms Jones.
Mig langar ekki að lesa um gullsleginn kavíar.
Mig langar ekki að lesa um partí.
Og ég vil alls ekki að aðalpersónan hafi svo mikið sem krónu upp úr krafsinu.
Á ég þá ekki bara líka að leiða hjá mér útvarpsstöðvarnar sem hampa þessum gaur um þessar mundir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 8. október 2009
Biedermann 2009
Þá er að gera játningu. Ég, hinn úthrópaði (fyrrverandi) áhugamaður um bókmenntir og leikhús, áhugaleikari og mikill spekúlant (að eigin mati), hef hvorki séð né lesið Biedermanninn hans Max Frisch.
Þangað til í dag að mér var náðarsamlegast boðið á æfingu.
Ég fullyrði að efnið, og sýningin þar með, á fullt erindi til okkar í dag. Biedermann er svo góðviljaður - les: auðtrúa - að hann leyfir fyrirsjáanlegum skemmdarvörgum að hreiðra um sig á heimilinu. Eiginkonan er meðvirk.
Mér datt Leigjandi Svövu stundum í hug en miklu oftar hvarflaði hugurinn 367, 366, 365, 364, 363 ... daga aftur í tímann. Biedermann býr í okkur, nytsömum sakleysingjunum, og líka hinum sem aðallega voru nytsamir en alls ekki svo saklausir.
Eggert og Björn heilluðu mig alla leið upp úr skónum - og sat ég þó alltof aftarlega.
Prrr.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 6. október 2009
Ávextir - úrval þá og nú
Á svona sorgardegi verður maður að dreifa huganum sem mest maður má. Ég fór á fyrirlestur Sólveigar Ólafsdóttur í Þjóðminjasafninu í hádeginu. Hún hefur góða frásagnargáfu, studdi fyrirlesturinn með glærumyndum af alls kyns kosti - og mér var stórskemmt.
Gæti ég látið hér við sitja.
En meðal þess sem mér fannst hún segja var að ávextir hefðu á síðustu öld ekki verið eins fágætir og börn þess tíma láta að liggja, þ.e. ömmur okkar og afar. Í ,,hinni" kreppunni var ákveðið að spara gjaldeyri - líka - og þess vegna hætt að bruðla með ávexti.
Ég skildi hana líka þannig að á fyrri hluta aldarinnar hefðu átta verslanir blómstrað í Reykjavík og allar selt ávexti - ekki keyptu bara pelsarnir og teinóttu jakkafötin, ha?
*dæs* - ég gleymdi mér þó um stund.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 2. október 2009
,,Árangursrík eignastýring í 22 ár"
Íslensk verðbréf auglýsa svo. Ég er minnug á tölur og auglýsi á móti að ég tapaði 29% af sparifénu hjá þeim. Ella hefði ég kannski tapað 60%, ha? Var kannski gert áhlaup á sjóðinn meðan ég gáði ekki að mér?
Ég er enn leið og stúrin og beisk - og skelfilega tortryggin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. október 2009
Eins og hamstur
Við hlaupum og sprettum úr spori og geysumst áfram, látum vaða og drögum ekki af okkur - en samt er ég enn bara á bls. 392.
Því veldur að hluta til massíft og tímafrekt félagslíf. Ég missti m.a.s. af Systrum og bræðrum í kvöld, en komst á fraaábært málþing um þýðingar í gær. Kannski er orðið svona auðvelt að gera mér til hæfis, ehe, en fyrirlestrarnir þóttu mér svo efnismiklir og skemmtilegir. Alveg í lokin var Klaus Ahrend sem sér um útvistun þýðinga hjá Evrópusambandinu með fróðlegan fyrirlestur - og gagnvirkan með afbrigðum - um eðli og frágang þýðinga hjá Evrópusambandinu. Af á að giska 70 gestum get ég mér til að 25-30 hefðu viljað ráða sig til starfa hjá honum frá 1. október 2009. Byggi ég það á fjölda spurninga sem hann fékk um verð, aðstöðu o.fl. hagnýtt.
Ef við göngum í Evrópusambandið munu einhverjir Íslendingar þurfa að flytjast til Brussels/Lúxemborgar, aðrir munu taka að sér verkefni á heimavígvelli.
Margir viðstaddir fengu bæði glimt i øjet og blod på tanden og veit ég ógjörla hvaðan mér bárust þessar slettur ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. september 2009
Að sækja fram eða aftur
Þar er komið sögu í þriðju bókinni um Lisbeth Salander að Erika Berger ritstjóri fær sóðapóst úr tilbúnum netföngum. Hún var ráðin til SMP til að bæta blaðið og fjölga lesendum. Nokkrir í ritstjórninni vilja skera niður í starfsmannafjölda til að rétta við reksturinn - en halda sínum eigin bónusum - og greiða hluthöfum arð! Eriku hefur enn ekki tekist að sannfæra talsmenn eigenda um að gott efni, vönduð vinna og trúðverðugleiki selji blaðið.
Róa sig, Berglind, þetta er bara skáldskapur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 22. september 2009
Fjögurra manna farsi
Sá forsýningu í kvöld, fjórir leikarar í á að giska 10 hlutverkum. Guðjón Davíð fær stóran plús, hin léku líka vel.

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. september 2009
Datt í hinn norsk/sænska þátt Skavlans
Í honum er íslensk pólitík, eftirsjá, norsk leiklist, sænsk leiklist, hvítrússneskur/norskur söngvari - og fremsti skákmaður heims. Sé ekki eftir því hvernig ég varði þessum tæpa klukkutíma.
-Að auki legg ég til að Ármann verði sendur til Óslóar á næsta ári til að lýsa söngvakeppninni!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 20. september 2009
Vantar lúxushótel?
Ég rápaði um Húnaþing vestra um helgina og sá að þar er ýmislegt gistirými. Ekkert íburðarmikið. Sumt vel nýtt. Og ég rifjaði upp að Ásbjörn Björgvinsson á Húsavík kallaði eftir nýju hóteli á sínum slóðum um daginn. Mér finnst endilega að hann hafi talað um háklassahótel en það kemur ekki fram í tilvitnaðri frétt.
Vantar íburðarmikið hótel fyrir norðan? Hvað skyldi útlenski markaðurinn segja núna? 20.000 króna herbergi losar 100 evrur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 18. september 2009
Ekki Bjartmar?
Ég er auðvitað að horfa á Ljótu hálfvitana og hina í Popppunkti, nema hvað, og var alveg grjóthörð á því að leynigesturinn væri Bjartmar Guðlaugsson. En það var hvorki giskað á hann né reyndist hann vera undir dulunni.
Kannski er ég síðasti aðdáandinn hans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. september 2009
2012
NÝ hugmynd, umhverfisvæn og göfug. Ég vil vera memm. Það sem ég vildi þó helst af öllu væri að nýta það sem maður er hættur að nota og knýja bíl með dagblöðum, gosflöskum, götóttum svefnpokum, mjólkurfernum - bara öllu því sem fólk hendir í tunnuna og bíður eftir að aðrir fargi; urði eða brenni. Ó, þú NÝJA Ísland.
Held einhvern veginn að á kvikmyndahátíð megi finna umhverfisvænar myndir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 16. september 2009
Samkeppni - eða ekki
Blaður á Glamur sem á Ráp og Raup sem eru hluthafar í Bramli og Brölti - sem selja mér morgunkorn og naglaherði. Það er til að æra óstöðugan að reyna að henda reiður á af hverjum maður kaupir poppið sitt. Enda sannast það að mótstaðan minnkar, við vitum alls ekki í hvaða buddu tikkar þegar við kaupum velúr-peysuna eða sparijakkann.
*dæs*
Svo kemur frétt af því að apótekari á Akranesi hafi kvartað til Samkeppniseftirlitsins fyrir tveimur árum undan óeðlilegum viðskiptaháttum Lyfja & heilsu. Fréttin er heldur loðmulluleg þannig að ég verð að giska á að Apótek Vesturlands sé stakur hlekkur svona til samanburðar við keðjuna Lyf & heilsu. Og ég leyfi mér líka að giska á að verð í Lyfjum & heilsu á Kirkjubraut 50 sé lægra en í útibúum Lyfja & heilsu annars staðar þar sem ekki nýtur nálægðar annarra apóteka.
Ég er bara að giska því að fréttin var ekkert unnin. Ég veit ekki heldur hver á alla þessa hlekki. Og ekki verður Jón Jósef spurður í bráð.
*dæs*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)