Biðlaun og annar launakostnaður

Eru biðlaun rétthærri en önnur laun? Er ekki hægt að svipta vafasama einstaklinga biðlaunum af sanngirnisástæðum?

Bara fræðileg spurning ...


Noget for noget eftir Önnu Grue - Samviskulaus glæpur

Hún fór hægt af stað eins og hendir bækur sem verða æ meira spennandi, alls konar fjölskyldu-, vina- og nágrannatengsl kynnt til sögu. Ég skildi það síst fyrir þær sakir að sagan var kynnt sem þriller. Á síðari stigum var svo óforvarandis framið samviskulaust morð sem minnti mig á Glæp og refsingu og eftir það var erfitt að einbeita sér að öðru.

Eins gott að gleypa í sig einn danskan reyfara áður en maður fer að brúka dönsku í brúðkaupi.


Sendum Hafdísi Huld í Júróvisjón

Lagið um kóngulóna kemur mér alltaf í gott skap, það hlýtur að vita á eitthvað. (Og ég meina ekkert með boðhættinum - hann hljómar bara betur í fyrirsögn.)

Að auki legg ég til að Ármann verði sendur sem kynnir - þá lofa ég að horfa OG HLUSTA.


Prjónaklúbburinn

Að prjóna er góð skemmtun - í höndum sumra. Ég var að klára Prjónaklúbbinn eftir Kate Jacobs sem fjallar vissulega um prjónaskap en bara sem umgjörð utan um vináttu, tengslanet í New York, einstæða hvíta móður svartrar stúlku og vinskap þvert á stéttir, aldur og kyn. Og ef það er eitthvað að marka þessa bók er mjög erfitt að vingast við fólk í New York. Þá kemur prjónaklúbbur á föstudagskvöldum sterkur inn ...


Gagnsæi sykraðra mjólkurvara

Nú sit ég hér og borða Frútínu sem Mjólkursamsalan framleiðir. Hún er með viðbættum 2% ávaxtasykri og 3% hvítum sykri. Hún kostaði 75 kr. í vikunni. Hvað mun hún kosta eftir 1. september?

Mér finnst að ég ætti að geta reiknað þetta út. Get það ekki. Og ég þori að hengja mig í hæsta gálga að einhverjir munu nota tækifærið í september til að hækka vöruna sína óeðlilega mikið með tilvísun í hækkaðan virðisaukaskatt. Og þá - þá reynir á hvort neytendur greiða atkvæði með buddunni. Þá reynir á hvort neytendur veita aðhald. Þá sést kannski úr hverju við erum.

Vonandi erum við rúgbrauð en ekki franskbrauð.


Nammi vs. ávextir

Verður hollusta ekki örugglega gerð ódýrari? Mér fyndist t.d. að mangó, ananas, melóna og kíví mætti lækka í verði.

Hlaupist undan ábyrgð

Nýlega frétti ég af hlaupara í Laugardalnum sem hljóp í flasið á uppgjafaauðkýfingi sem sló á létta strengi og sagði: Það er bara verið að hlaupa. Skokkarinn svaraði að bragði: Maður þarf að hlaupa undan skuldunum.

Er bara orðin spurning um hver er fráastur á fæti á þessum síðustu og verstu?

 


Afeitrun

Um helgina hitti ég á förnum sveitavegi kunningjakonu sem sagði mér að hún hefði farið í afeitrun til Póllands í janúar. Hún lét vel af dvöl sinni en það merkilegasta þótti mér að hreinsunin er svo algjör og aukaefni svo bönnuð að gestir Jónínu fengu ekki að mála sig - látum það nú vera - en heldur ekki að þvo sér með sápu OG EKKI BURSTA TENNUR.

Og nú vildi ég mega senda a.m.k. einn fyrrverandi bankastjóra í afeitrun. Ætli hann kynni ekki m.a.s. að meta það.

Í þorpinu var síðan ein matvöruverslun, ein snyrtistofa (ekki fyrir skjólstæðinga Jónínu), hvort það var ein fataverslun OG SVO ÁTTA SKÓBÚÐIR. Og í kring risastór skógur sem gæti kynt undir innilokunarkennd hvaða meðal-Íslendings sem þarf heima fyrir bara að standa upp til að villast ekki í víðlendum skógunum.


Hr(a)unið

Mér fannst Sigurjón M. Egilsson nokkuð smellinn þegar hann spurði Guðna Th. Jóhannesson í þætti sínum í morgun hvort Hrunið væri fyrsta bók í seríu, og þá myndi sú næsta heita Hraunið. Fólk sem í sakleysi sínu fékk skell vegna þess að fjárglæframenn nýttu sér ímynd Íslands og sakleysi Íslendinga vill, a.m.k. sumt, að réttlætinu verði fullnægt með því að landráðamenn verði leiddir í járnum á viðeigandi stað.

En auðvitað eru menn saklausir þar til sekt þeirra sannast ...


Sólstöðuhátíð 2009

Sjálfa hitar mig í báðar kinnar eftir mikla útivist, en mér finnst samt brýnt að minna á sólstöðuhátíð Fjörukrárinnar sem hófst í dag og heldur áfram á morgun. Og hinn og fram í næstu viku. Þar er sko ekkert 2007 á ferðinni ...

Gengið í frjálsu falli

Eins og fram hefur komið í fyrri þáttum er ég á rápinu með Grikki. Hópstýrurnar koma svo vel undirbúnar að við leiðsögumenn þurfum ekki að hafa mikið fyrir því að tala (eins og mér sé einhver greiði gerður með því, hnuss) en meðal þess sem ég sagði minni samt á fyrsta degi var gengið. Já, já, sagði hún, evran er 172 krónur. Öö, sagði ég, frekar 178 (enda keyptu þau heilu hillumetrana á Geysi í dag). Og nú varð mér litið inn í Seðlabankann og sá að evran er komin yfir 180 krónur. Sossum nógu þénugt fyrir útflutninginn og ferðaþjónustuna en ég hélt að stefnan hefði verið önnur ...

Hið gríska auga gestsins

Þessa dagana rápa ég um þorpagrundir landsins með grískan læknahóp. Í dag var ég spurð um allan þennan fjölda bíla á götunum. Það er von.

Engar lestir, hvorki ofan jarðar né neðan, og strætó sem gengur á klukkutíma fresti á kvöldin - og þykist góður! Grr. Mætti ég biðja um tramma, jafnvel þótt hann ósi stundum af reyk ...? Ég var svo sem ekki á eilífu flandri milli bæjarhluta í Brussel um daginn, hélt mig mest miðsvæðis, en það er alveg hægt að venjast góðu. Ég er þó ekki viss um að við fáum betri almenningssamgöngur í umslagi frá Evrópusambandinu.

Ég er reyndar líka með hið glögga auga gestsins í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins og hef reynt að hafa vit fyrir hr. Strætó. Hann tekur bara lítið mark á mér og heldur áfram að hafa á vefsvæði sínu: Gengið 61 metra.


Aðalbjörn Sigurðsson reyndi að þjarma að Einari Erni Ólafssyni

Þetta var bara augnablik í gær, svo leið það hjá og nú ákveð ég að endurlifa það.

Fréttamaður RÚV spurði forstjóra Skeljungs hvers vegna það hefði tekið alla helgina að leiðrétta álögur á eldsneyti og EÖÓ reyndi að trúa sjálfum sér þegar hann sagði að tíminn hefði verið of skammur. Og þá spurði AS sisona af hverju það hefði gengið svo fljótt að hækka í kjölfar neyðarlaganna (mig minnir að um neyðarlögin hafi verið að ræða). Og Einar trúði algjörlega ekki sínu eigin svari.

Þaðan af síður ég.

Samt höldum við áfram að flissa ofan í handarkrikana á okkur yfir augljósu samráði olíufélaganna. AUGLJÓSU.

Ég er reyndar í mjög lausum viðskiptum við olíufélögin þannig að líklega er ég farin að flissa opinskátt.


Dario Fo á Austurvelli

Þegar ég ætlaði að líta á mótmælendur á Austurvelli um hálfsjö var byltingin farin í mat.

Að öðru leyti er ég dekurdolla, styttist í að ég rápi um ýmsar þorpagrundir með langt að komnum lyfjaspekúlöntum. Það verður Kaldidalur og Jaki - sem er mikil og skemmtileg tilbreyting frá Skálpa. Hehe. Ef veðurguðirnir vildu auka gæði mín enn fremur myndu þeir fresta skúrunum fram á sunnudag og hækka hitastigið um nokkrar gráður. Annars er óvíst að Grikkirnir fækki fötum.


Saga úr atvinnuleysinu

Það er mörg matarholan. Í dag frétti ég af vinnustað sem virðist stunda það að ráða fólk af atvinnuleysisskrá til þriggja mánaða gegn því að það fái áfram atvinnuleysisbætur og fyrirtækið borgi ekki neitt. Ekki skil ég þessar reglur en mér var sögð sagan svona. Til þriggja mánaða sagði ég, en svo virðist yfirmaðurinn tala langt niður til þessa starfsfólks og hrekja burtu löngu áður en þrír mánuðirnir eru liðnir.

Og þá getur viðkomandi starfsmaður misst bæturnar í 40 daga.

Er ég kannski að tala um matarholu Vinnumálastofnunar?


Hver sló um daginn fram tölunni 72 milljarðar sem endanlegri skuldatölu í Icesave?

Ég missti af öllum Icesave-hasarnum í dag, en man að einhver taldi sig búinn að reikna út fyrr á árinu að skuldin yrði 72 milljarðar. Og ég man gjörla að ég hafði enga trú á því af því að forsendur voru svo yfirgengilega óljósar. Mér duttu einmitt vextirnir í hug.

Og ég spyr enn: Hvað varð um peningana? Juku þeir hagvöxtinn einhvers staðar í alvöru?


Stiklað á ferðasögu

Amsterdam - 0032-49... - Hreinn - jarðarber - Wiertz - nehhei! - Place Lux - Evrópuþingið - Duvel - Matti - BL - skógur - Isidore - Hawaii - laid - sinker & floater - sandalar - dýraslagur - tíhí - Are you Spanish? - Tinni - Tobbi (Snowy) - Hergé - atómið - Ertu að segja að ég sé ljóta systirin? - Hema - suður- og vestursvalir - evra - nehhei - Hvað ertu búin að læra í kvöld? - sveppasósa - gulur boxhanski - afmæli - kökurass - nehhei - Komdu mér á óvart. - Judas - partakláði - Tinni - rúsínubrauð - rúllustigar - blanche - svaladrykkur - sár á milli tánna - Mannequin-Pis - Magritte - Eigum við að ræða það eitthvað? - Ekki viltu brenna. - un glace - MERCI - franskar - bestu frönskurnar - Per Andreas - H&M - moulin frites - Ertu að ljúga þessu? - Hema - Kolbeinn kafteinn (Captain Haddock) - Zombi - veraldarvefurinn - nehhei? - Hreinn, ertu að ljúga? - s'il vous plait - Evrópusambandið - Millenium - pardon - ekki einu sinni partakláði - indverskt - þriggja landa sýn - Magritte - metró - lundi - mæjónes - Brusselhlaupið 20 - djúpur - kúlur (ekkert lán) - Var það komið fram í þættinum? - ævintýri á gönguför - sendiráðið - hýra hverfið - nehhei - sólarvörn - gestabók - Írland - 11. júlí - Hljóðfærahúsið - nehhei - Millenium - kræklingur - ostrur - vaffla, loksins - París

Gaman? Öö, eigum við að ræða það eitthvað?

Veður? Já, geðveikt.

Fólk? Jahhá.


Millenium í Brussel

Það var mikið malað í bíó í Brussel í gær. Við sáum myndina sem er gerð eftir fyrstu bók Stiegs Larssons hins sænska, myndina sem heitir á útlensku Millenium eftir tímariti þeirra Mikaels og Eriku. Það er gaman þegar æðið grípur mann og maður finnur að enn er hægt að sogast með.

Myndin er ríflega tveir tímar og ég undi hag mínum hið besta allan tímann. Textinn var á sænsku og skjátextinn á frönsku og flæmsku.

Sænskt tal, frönsk þýðing, flæmsk þýðing

 Að öllu samanlögðu skildist allt hið besta (enda er ég nýbúin með fyrstu bókina og vel byrjuð á bók 2). Leikarinn sem lék Mikael vann skemmtilega á meðan myndinni vatt fram, leikarinn sem lék Lisbeth var aðeins of kvenleg miðað við upplifun mína af bókinni, leikarinn sem lék Henrik Vanger var helst til hraustlegur fyrir minn smekk - en, ó, það var svo gaman að fara í bíó og sjá myndina sem við vitum að kemur ekki heim. Bjurman var alveg eins ógeðslegur og ég reiknaði með og allar senurnar með honum snertu viðkvæmu taugarnar í mér. Ég tók fyrir augun og hryllti mig. Tel ég mig þó enga meðalkveif. Kannski var ég svona ánægð með leikarana af því að ég þekkti ekkert þeirra fyrir.

Það var samt dálítið kalt að koma út eftir miðnætti.


Þriggja landa sýn

Hva, ís með tveimur kúlum kostar ekki nema 500-kall, og 350 kr. með almenningssamgöngum bæjarendanna á milli. Annars sætir mestum tíðindum að Mattinn á afmæli og við erum búin að borða mjög sérstaka köku ... þar sem saga Marínar kemur við sögu.

Og nú bíður Tinninn ekki öllu lengur.

Gaman að vera í þessari rjómablíðu.


Þegar almenningssamgöngur eru einkavæddar

Sjálfsagt getur græðgi verið af hinu góða. Áhugasamir segja að ábatavon sé hvati framfara, nýjar leiðir verði uppgötvaðar, hagræðing komist á, almennur sparnaður orðið - og afraksturinn sé hagur allra. Kannski orða áhugasamir það öðruvísi.

Ég horfði stóreyg á The Big Sellout í gærkvöldi og undraðist hversu litla kynningu myndin fékk. Nú er svo komið að Íslendingar þurfa virkilega að velta fyrir sér hvaða afleiðingar geta orðið af einkavæðingu. Fyrir tæpum áratug man ég að Áslandsskóli var rekinn af einkaaðilum. Tilraunin gekk illa og var fordæmd af mörgum. Ég verð víst að viðurkenna að ég trúi að einhverjir skólastjórar sem hefðu sjálfdæmi um fjárveitingar gætu varið peningunum betur en miðstýrt ráðuneyti og náð betri árangri. Mér leiðist t.d. óhemjumikið þegar illa er farið með pappír. Og ég skil ekki af hverju myndin var ekki betur kynnt því að við ættum að vera áhugasöm um að verða meðvitaðri um kosti og galla einkavæðingar. Bankasölurnar eru víti til að varast.

Sjálf er ég efins um einkavæðingu, en ég er líka dálítið efins um myndina. Ef hins vegar bara punktur bresku járnbrautarstarfsmannanna er sannur fordæmi ég einkavæðingu bresku járnbrautanna. Ef ég man rétt keyptu 150 ólík fyrirtæki járnbrautirnar og þau vildu öll setja sitt mark á starfið, m.a. með eigin einkennisbúningum. Stóra sjokkið var samt að heyra af sprungunni í teinunum sem fyrirtækið skellti skollaeyrum við og svo gáfu sig teinarnir með þeim afleiðingum að fjórir farþegar og tveir starfsmenn létu lífið. Gróðavonin var sett ofar örygginu. Ef járnbrautarmennirnir sögðu satt. Er kannski yfirleitt tilfellið þegar flugvélum hlekkist á að eigandinn hefur látið sér öryggið í léttu rúmi liggja?

Ef raforkukerfi í Suður-Afríku er einkavætt og margir fátækir íbúar þurfa að borga þriðjung ráðstöfunartekna sinna (20 af 60 röndum) fyrir orkuna finnst mér salan á villigötum. Ef eigandi samfélagslegrar þjónustu notar öll tækifæri til að keyra upp verð á þjónustunni til að fjármagna bruðlið í sér er mér það á móti skapi. Ef menn nota bolabrögð til að græða á starfsemi sinni, e.t.v. vegna þess að samkeppni er lítil eða hartnær engin, fyrirlít ég það.

Er það það sem við sáum í myndinni? Hafa spítalarnir á Filippseyjum verið einkavæddir til að fjármagna gríðarlega yfirbyggingu? Er munaður að fá blóðskilun á spítalanum eða sjálfsögð þjónusta sem á að greiða í gegnum skattana? Keiluskurður? Súrefnisgjöf?

Er eðlilegt að skattleggja bláu olíuna, vatnið, þannig að aðeins hinir efnameiri geti leyft sér að nota ómengað vatn til drykkjar? Hvers vegna eru eða verða hinir efnaminni það? Er það vegna þess að þeir hafa sóað auðæfum sínum? Forheimskast af sjónvarpsáhorfi? Drukkið frá sér rænuna? Eða fyrst og fremst vegna þess að gáfum, áhuga og tækifærum er dálítið misskipt?

Og ef maður hefur ekki áhuga á að verða forríkur á maður þá ekki skilið að njóta heilsugæslu, menntuntar eða blávatns?

Ég er efasemdarmaður og mér dettur ekki í hug að uppveðrast yfir þættinum og trúa öllu eins og nýju neti. Sögurnar eru mér hvati til að íhuga þetta áfram og mynda mér skoðun á því hvað er eðlilegt. Og ég er alltaf að verða skelkaðri við vitundina um veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hérna. Mér finnst ég enn leynd upplýsingum og ég kann því illa.

Hvað er eiginlega framundan?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband