Bannmerki í símaskrá

Í kvöld var hringt í mig úr ágætri stofnun og ég beðin um að kaupa 170 söngtexta. Ég sagðist forviða ekki hafa áhuga og maðurinn hálffyrtist við. Það er hins vegar ég sem hefði átt að bregðast verr við því að í símaskránni er bannmerki við númerið og ég þoli ekki símasölumenn. Mér finnst ekki að sjúkrastofnanir eigi að hringja og betla af fólki. Ég held að hluti af sköttunum mínum fari í heilbrigðiskerfið og ég er mjög sátt við það.

Ég hef ekki lent í þessu í fjölmörg ár - ætli bannmerkingunni hafi skolað burt með peningum bankabéusanna?


Kirsuberjatréð

Það er góð tilfinning að kaupa íslenska framleiðslu til að gefa í útlöndum. Við Laufey fórum í Kirsuberjatréð í dag og keyptum þrennt (eins).

Úr Kirsuberjatrénu

Þetta er bara fyrsta vers. Gva, hvað það verður gaman í útlandinu. Skemmtilegt fólk, gott veður - og Tinni!


Ó, þú aftur ...

Það var mikið dekur að sjá hina nýju sýningu Hugleiks í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Stykkið er reyndar í grunninn 25 ára gamalt en fyrir 25 árum var ég ekki orðin aðdáandi þannig að ég hef engan samanburð. Og að vanda var ýmsu í umhverfi okkar í dag fléttað inn í söguþráðinn. Sumu tók ég vel eftir en mér skildist á Antoni að ég hefði farið á mis við ýmsan brandarann. Líklega er hægt að hlæja helmingi oftar en ég gerði.

Nýja fólkið sem ég ætla að leggja á minnið er Jón Svavar Jósefsson, Svanlaug Jóhannsdóttir og Friðjón Magnússon.

Úr leikskrá hló ég mest að baktjaldamakki og dramadurgum.

Þegar Hugleikur á í hlut er alltaf tilhlýðilegt að hlæja mikið, oft og helst innilega og lengi í hvert sinn. Þess vegna tíunda ég þetta samviskusamlega. Hljómsveitin Ær og kýr vakti líka mikla lukku.

Aðeins þrjár sýningar eftir, miðvikudag, fimmtudag og föstudag í þessari viku.


Játning smánotanda

Mér er ekki ljúft að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég fór í Bónus í gær. Mig vantaði bara svo venjulegt heilhveitibrauð og Bónus lá svo vel við höggi enda í kallfæri við heimili mitt. Þá kom mér á óvart að sjá að hálft brauð kostaði meira en helmingi minna en heilt. Já, hálft kostaði 98 en heilt 235 þannig að kílóverðið á stærri einingunni var talsvert hærra en á þeirri minni. Þessir tímar eru sem sagt ekki liðnir.

Og úr því að ég var komin inn - svona er það alltaf - keypti ég líka kassa með 100 tepokum sem kostaði lítið fé. Það er alveg satt, það munar hundruðum prósenta þegar borið er saman við aðra framleiðendur. Gallinn við hina tepokana í hinum búðunum er að þeir pjattast við að vera sérpakkaðir hver og einn. Mér er bara illa við það. Pokarnir eru þegar pakkaðir í kassa og ég vil geta opnað kassann, tekið upp poka og skellt ofan í sjóðandi vatnið. Mér finnst svart te gott, líka þótt það heiti ekki Pickwick (nema það sé Melrose's).

Svona fór um búðarferð þá, en mér til talsverðrar gleði sá ég líka að margt verð er sambærilegt í öðrum verslunum þannig að það verður önnur hálfs árs bið á að ég heiðri Jón með smáinnkaupum.


Ungfrú fegurð

Í kvöld á að velja ungfrú sæta sá ég áður en ég skipti af fréttum Stöðvar 2 yfir á fréttir Stöðvar 1. Valli talaði um hvað þetta væri ómetanleg reynsla og tvær geðugar stúlkur hnykktu á því hvað þetta væri skemmtilegt og lærdómsríkt. Áreiðanlega eitthvað til í því.

Ungfrú Suðurnes 2007 er samt ekki sammála því og rökstuddi skoðun sína í Víkurfréttum fyrr á þessu ári.

Sjálf hef ég enga skoðun á málinu ...


Undarlega lágur prófíll

Mig langaði að vita hverjir ynnu hjá útgáfufyrirtækinu Frjálsum miðli og leitaði á google. Útgáfufyrirtækið er ekki með eigin heimasíðu, er bara skráð í firmaskrá, það er stofnað 1990 og eigandinn er fædd 1968. Ég er ekki viss um að ég myndi veðja á það ef ég ætlaði að kaupa svona vinnu.

En google þekkir ekki alla svo vel ... þótt Davíð væri með meiningar um annað fyrir réttum og sléttum tveimur mánuðum.


Hverjir - eiga - jöklabréfin?

Nú er búið að neyða upp á mann þekkingu á veðköllum, stýrivöxtum, bindiskyldu, kúlulánum, áhættufjárfestum og kjölfestufjárfestum og nú vil ég fara að heyra hverjir eiga jöklabréfin og hvort hægt verður að lágmarka skaðann af stöðutökum.

Gagnsæi eða gegnsæi, ég vil bara staðreyndir á borðið og yfirsýn þaðan.


Innlenda orku á farartækin!

Jóhannes Björn Lúðvíksson var að segja í Silfri Egils að við ættum að einbeita okkur að því að nota innlenda orku á vélar á Íslandi. Hann spáir gríðarlegri olíukreppu innan ekki margra ára og þá er brýnt að eiga ekkert undir slíkum innflutningi.

Orð hans hljómuðu eins og ómþýðasta tónlist í mínum eyrum. Auka sjálfbærnina, takk. Núna - þið heyrðuð hvað maðurinn sagði.


EFTA vann!

Eigum við að ræða þetta eitthvað frekar? EFTA vann ESB í söngvakeppninni í gær, allir skynsamir menn sjá þá hvað er eðlilegast að gera í framhaldinu!

Á leið heim úr hinu höfðinglega söngvakeppniboði í gær urðum við tvisvar fyrir gleðilátum áhugasamra áhorfenda og í bæði skiptin tók ég undrunina á þetta: Ha, hvaða keppni? Og: Ó, í hvaða sæti lenti íslenska lagið? Og annað hvort er ég (ennþá) svona góður leikari eða ungmennin sem í hlut áttu voru mjög trúgjörn. Ég skemmti mér konunglega.

Að auki legg ég til að Ármann verði sendur sem kynnir til Björgvinjar á næsta ári.


Arður 2007

Er frumskylda OR virkilega að greiða eigendum sínum arð? Ég átti verðtryggðan reikning og ríkisbankinn leit ekki á það sem frumskyldu sína að greiða mér vexti - og mér finnst það eðlilegt þegar ávöxtunin er neikvæð og þegar síðasti mánuður einkenndist af verðhjöðnun. Ég get viljað gera eitthvað í því, breyta forsendum sjálfrar mín, endurraða, hagræða í rekstri - en þegar OR ætlast til þess af starfsfólki sínu að laun verði lækkuð ofan á kaupmáttarrýrnun alls almennings hljómar mjög undarlega að greiða Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð ARÐ. Arð!

Arð af hverju? Eigið fé hefur minnkað. Guðlaugur Sverrisson svaraði í fréttum RÚV kl. sex eins og sá sem valdið hefur - þó ekki frá mér - og María Sigrún Hilmarsdóttir lét gott heita.

2007 lemur mann enn í hausinn.


Baráttulaus barátta?

Jafnrétti felst ekki bara í kynjun, en líka. Það verður aldrei allt jafnt, sumir eru fallegir, sumir gáfaðir, sumir fyndnir, sumir allt og aðrir ekkert. En barátta hefur aldrei unnist baráttulaust, ásættanlegur vinnudagur, veikindafrí og veikindafrí barna, laun og orlof. Kannski eru réttindi orðin of rík, kannski finnst það einhverjum, en getur einhver haldið því fram að frá 1904 til 2009 hafi aldrei nein kona verið hæf um að veita íslensku þjóðinni forystu? Eða að allir karlarnir sem völdust hafi verið hæfustu einstaklingarnir sem í boði voru hverju sinni?

Jöfn réttindi koma ekki á silfurfati þótt við höldum sum að þau séu sjálfsögð.


Borgarafundur í Borgartúni í kvöld

Yfirskriftin er skuldir heimilanna og aðgerðir.

Við erum landbúnaðarþjóð!

Það var hressandi að lesa pistil Hannesar Péturssonar í Mogganum í gær, um meint fæðuöryggi og íslenskan mat, íslenskt kaffi og fleira sem maður leggur sér til munns. Hannes tekur sér reyndar það skáldaleyfi að eftirláta lesendum að glöggva sig á hvað hann raunverulega meinar en mér sýnist hann mæla ESB-aðild bót.

Ástæðan fyrir því að mér var svo skemmt við lesturinn var að hann vandaði heiðarlega um við okkur með vel völdum orðum. Við erum roðhænsn.

Ég hefði hins vegar ekki stoppað við fyrirsögnina þannig að það var gott að aðrir urðu fyrri til að lesa pistilinn þar sem Hannes Pétursson les okkur pistilinn.


Spá og spá

Vita menn ekki að spár um athafnir manna hafa áhrif, rétt eins og skoðanakannanir? Spár um gang himintunglanna geta haft eitthvert gildi af því að þau láta sér í léttu rúmi liggja hvað háskólar hugsa. Hvað halda menn hins vegar að hugsanlegir kaupendur geri um mitt ár 2009 ef Seðlabankinn spáir að fasteignaverð lækki um 46% frá hæsta verði árið 2007 til ársloka 2010? Ég giska á að þeir bjóði verð í samræmi við framtíðarspá með vísan til hennar.

Þorleifur Arnarsson leikari setti sig í spámannslegar stellingar í Spjalli Sölva Tryggvasonar í gærkvöldi og þóttist hafa verið spámaður með varnaðarorð sem voru flutt á fjölmennum fundi á Norðfirði. Mikið vildi ég að spádómar og skoðanakannanir væru geymdar með öðru ruglandi einmitt þar. Á hverju byggir spádómurinn um frekara fall krónunnar? Og hvernig bregðast menn við? Hamstra?


Að fara í fatabúðir er leiðinleg iðja

Eftir viku fer ég í partí með indversku þema. Er nóg að mála blett á ennið? Eða verð ég að læra sanskrít og að tilbiðja kýr? Hafna ásatrúnni? Verða hlédræg?

Ef ég þarf að vera prúð og stillt get ég eins sleppt því að fara, eins mikill extróvert og ég er. Hmm. Ég læt ytra byrðið duga í þemanu og veðja á að ég finni slæðu eða mussu sem sleppur fyrir horn.


Ofgnótt 2007?

Mikið hafði ég heyrt um Konur eftir Steinar Braga en ekkert af því bjó mig undir lesturinn. Kunningi minn las hana og vildi helst ekki tjá sig fyrr en barnsmóðir hans væri búin að lesa hana. Hann lét að því liggja að hún væri svo kvenfjandsamleg. Vinkona mín rétti mér eintakið sitt og sagðist ekkert ætla að segja fyrr en ég væri búin að lesa hana en ýjaði samt að því að hún væri andstyggileg við konur. Ragnheiður felldi dóm um hana strax eftir jólin og fannst hún ruglingsleg. Á baksíðu kiljunnar eru sögunni gefnar allt að fimm stjörnum og þar gefur að líta gnótt lofsyrða.

Framan af er kynning á Evu sem virðist hafa klúðrað sambandi sínu við Hrafn alveg skiljanleg. Hún er verklítil, gefin fyrir sopann og síögrandi sínu nánasta umhverfi. En það virðist vera holur rammi utan um framtíð hennar í glæstu fangelsi Skuggahverfisins þar sem einhvers konar fjárglæframenn vilja gera hana að viðfangi sínu.

Mér er fyrirmunað að skilja söguna sem ádeilu á það bruðl og óhóf sem kennt er við árið 2007 þótt bankabéusar komi við sögu og flottræfilsháttur. Eva virðist vera tilfallandi fórnarlamb fólks sem hefur nægan tíma, nægt fé og gríðarlegt hugmyndaflug.

Aðallega er ég líklega vanþakklát því að ég þurfti að þræla mér í gegnum síðustu 80 blaðsíðurnar. Gerði það tvisvar og var engu sáttari í seinna skiptið.

Kannski er framboðið á 2007 bara svo yfirþyrmandi.


Flensa skrensa

Tortryggni mín gagnvart meintri grísaflensu er svo megn að ég sleppi engu tækifæri til að hlaupa upp um hálsinn á fólki.*

*Þar sem ég skil sjálf varla þessa ljóðrænu færslu ætla ég að hnykkja á með því að segja og halda til haga að ég held að fregnir af henni séu orðum auknar (eins og af andláti Marks Twains) og að þessum fréttafaraldri hljóta að linna hvað úr hverju.


Dagvakt Ragnars Bragasonar

Nú er ég hálfnuð með seríuna sem gerist á Hótel Bjarkalundi og álit mitt á Ólafíu Hrönn hefur enn aukist. Hún er Gugga. Jón Gnarr og Jóhann Pétur slá heldur ekkert af og fleiri eiga mjög góða spretti.

Var að velta þessu fyrir mér mér heiðurslistamannalaunin - er ekki aldurslágmark ...?

Dagvaktin


Eigendavald eða ekki

Þeir sem ekki hafa unnið á ritstjórnargólfi gera sér kannski ekki grein fyrir því, en almennt líta blaðamenn skelfing mikið niður á viðskiptahlið útgáfunnar.

Þetta er undir lok skoðunar Jóns Kaldals í Fréttablaðinu í dag þar sem hann ber blak af blaðamönnum sem njóta ekki trausts nema tæplega helmings í samfélaginu í dag. Mér finnst Jóni ekki lukkast meint ætlunarverk. Það þarf enga sérstaka prófgráðu til að skilja að það sem á að seljast þarf að vera seljanlegt. Hins vegar getur verið að það sé meiningarmunur hvort Ásdís Rán selji meira eða minna en Jón Baldvin, umfjöllun um húsbúnað eða úttekt á kosningaloforðum, svínaflensa eða útrás blávatns. Eða teiknimyndasögur.

Menn tala um sjálfsritskoðun á blöðum. Ég kýs að trúa að blaðamenn upp til hópa vilji vel og ætli að vanda sig. Hins vegar er grunnt á sjálfsritskoðuninni af því að margir vilja ekki stuða um of og svo hafa menn ekki alltaf nægan tíma eða aðgang til að grufla nógu mikið í vafamálum til að vera skotheldir með umfjöllun sína.

En Jón sannfærði mig ekki um neitt í ritstjórnarpistli sínum.

Ég ætti kannski að grufla meira í fortíðinni og fjarlægum skjölum áður en ég set svo vafasama skoðun í umferð að blaðamönnum séu mislagðar hendur ...


Verðbólgan orðin neikvæð

Það er ástæða til að hvetja skuldara til að gaumgæfa rukkanir sínar nú um mánaðamótin. Ég á verðtryggðan reikning sem er uppfærður um hver mánaðamót og nú í lok apríl var peningur tekinn út af honum - af því að hann er verðtryggður. Að sönnu voru tveir í fjölskyldunni búnir að segja mér að fara í bankann og breyta reikningnum en þar sem gróðavilji minn er ekki nægilega einbeittur lét ég það undir höfuð leggjast. Því fóru 0,5% innistæðunnar aftur inn í Kaupþing í gær, 1. maí. Og þar af leiðandi hljóta skuldarar að fá 0,5% felld niður af höfuðstól skuldar sinnar og ég fagna því. Viðurkenni samt að ég ætla í bankann eftir helgi.

Er ekki núna lag að bylta verðtryggingarmynstrinu sem hefur sligað fólk?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband