Fimmtudagur, 30. apríl 2009
Mitt 2007
Gildismat fólks virðist vera að breytast og ég heyri fólk á öllum aldri flissa að 2007 með tilvísan til þess hvað allt hafi verið of. Ég afvegaleiddist líka þótt mér finnist ég auðvitað svakalega skynsöm, jarðbundin - og djúpt á femínunni í mér. Ég dró loks í dag fram uppáhaldsstígvélin mín, Timberland sem ég keypti 2006, sleit þannig að rennilásinn gaf sig 2007, fór með í viðgerð, sótti í viðgerð - og setti beint í skápinn en ekki á fæturna, fór til útlanda og keypti mér lekker stígvél með hælum - sem eru svo ekki ég.
Nú fékk Timberland að spásséra milli hverfa í dag - og mitt 2007 var velkomið aftur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 29. apríl 2009
Karlar sem hata konur
Nei, auglýsing Samtaka iðnaðarins er mér ekki efst í huga. Þó vil ég geta þess að tengiliðir mínir í auglýsingaheiminum líta svo til að börn hafi verið á vakt á auglýsingastofunni þegar auglýsingunni var hleypt áfram. Tortryggnin er orðin svo allsráðandi að mér datt fyrst í hug að auglýsandinn hefði viljað fá umtal með góðu eða illu.
Og mér er svo sem ekki dottið það úr hug ennþá.
Enda fengu samtökin umtal sem er á við margar auglýsingar. Og hvernig geta hinir viðskotaverstu sniðgengið samtökin? Maður getur látið ógert að kaupa álegg frá kjötframleiðanda sem niðurlægir einhvern, bíl frá bílaumboði sem manni mislíkar - en þetta?
Nei, ég er sko ekki að hugsa um auglýsinguna, ég er að hugsa um höfundinn sem hefur farið sigurför um Ísland, á sænsku, norsku og íslensku. Kannski ensku líka.
Fyrsta bókin, sú eina sem ég er búin að lesa, Karlar sem hata konur, er vel á sjötta hundrað blaðsíður og ég náði engu sambandi við Mikael, Eriku og Lisbeth fyrr en í fyrsta lagi eftir svona 100 síður. Kannski var það eitthvað í þýðingunni, kannski einbeitingarskortur, kannski hæg uppbygging.
Þetta finnst áreiðanlega fleirum.
Svo jókst spennan og síðustu kílómetra bókarinnar spretti ég vel úr spori. Hins vegar þoli ég ekki að Bjartur skuli hafa sparað síðustu próförkina. Ég heyri fólk tala um að þýðingin sé ógóð. Ég held að hún sé ekki vond, þýðanda sjálfsagt mislagðar hendur en heildaráhrifin á mig eru ekki þannig enda reyndi ég að lesa söguna (atvinnusjúkdómur að vanda um við einhvern í textagerð). Ég hjó hins vegar eftir þessu (bls. 94):
Harriet kom hingað á eyjuna þegar klukkan var svona tíu mínútur yfir tvö. Ef við teljum með börn og einhleypa lætur nærri að um þetta leyti dags hafi um það bil fjörutíu manns verið saman komin á eyjunni.
Stoppar þú ekki líka?
Nokkur dæmi um óverjandi frágang:
(bls. 125):
46 prósent kvenna í Svíþjóð hefur orðið fyrir ofbeldi karlmanns
(hins vegar bls. 255):
13 prósent af sænskum konum hafa orðið fyrir grófu kynferðislegu ofbeldi utan ástarsambanda
(bls. 282):
Mikael týndi út spjöldin með myndunum sem hinn ungi Nylund hafði tekið og raðaði þeim á ljósaborðið þar sem hann grandskoðaði hvern myndaramma fyrir sig.
(bls. 302):
Hún hafði grafið upp rokkhljómsveitina hans, Bootstrap, sem varla nokkur lifandi sála í dag rak minni til.
(bls. 329):
En ég vil fyrir alla muni ekki að þú vekir einhverjar faslvonir hjá honum.
(bls. 330):
Lisbeth Salander náði í Kawasaki hjólið sitt kvöldið fyrir miðsumarshátíðina og var svo fram eftir dagi að yfirfara það.
(bls. 443):
Hann veitt eitthvað.
(bls. 463):
Hún hugsaði um Martin Vanger og Harriet fokking Vanger og Dirch fokking Frode og alla þessa fokking Vangerfjölskyldu sem sat í Hedestad og drottnaði yfir litla heimsveldinu sínu og reyndu að níða skóinn hvert af öðru.
(bls. 507):
Nýjasti tölvupósturinn., smáskeyti um einhverja smámuni hafði verið sent klukkan tíu um kvöldið.
(bls. 527):
Sú spurning sem eftir var stóð snerist um hversu langt hennar eigin rannsókn ætti að ná.
Bókin er að sönnu orðmörg en listinn minn er heldur ekki tæmandi. Framan af var ég ekki með blýant við höndina og dæmin mín eru bara dæmi. Þá kemur það ekki skýrt fram í stuttum dæmum að gæsalappir eru notaðar í óbeinni ræðu, ósamræmi er í beygingum nafna, til Birgers og til Birger og gott ef ekki Birgis líka einu sinni (þá var ég ekki með blýantinn innan seilingar), Wennerström og Wennerströms í eignarfalli o.fl.
Kannski ég reyni að lesa Flickan som lekte med elden frekar en að lesa Stúlkuna sem lék sér með eldinn.
Ég á þýðinguna ef einhver vill fá lauskrotað eintak lánað ...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 25. apríl 2009
Prósent vs. prósentustig
Þegar 50% hlutdeild minnkar um 10% fer hún ofan í 45%, þ.e. 10% af 50. Ef hlutdeildin minnkar um 10 prósentustig fer hún ofan í 40%. Þegar fólk talar um að krónan hafi veikst um 16% veit ég ekki hvort það notar prósentuna rétt eða eins og margir eru farnir að nota hana, vitlaust. Mjög ergilegt enda er reginmunur á þessu.
Nú er frétt á RÚV um kjörsóknartölur, m.a.
Í suðvesturkjördæmi eða kraganum höfðu, klukkan 15 í dag, 21.100 manns kosið eða rúm 36%. Það er 2% meira en í kosningunum árið 2007.
Hafi kjörsókn þá verið 34% (sem mig grunar að sé tilfellið) ætti hún núna að vera 34,68% (miðað við 2%) en ekki 36%. Svo leiðist mér líka þessi notkun samtengingarinnar eða.
Að öðru leyti hef ég það bara gott á kjördegi, ræræræ.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 23. apríl 2009
Dagur þýðinganna á Gljúfrasteini
Sem forsvarsmanni Babels var mér boðið í Gljúfrastein í dag til að vera við afhendingu þýðingaverðlauna Bandalags þýðenda og túlka.
Spennandi.
Ég er bara svo þrjósk að ég ætlast til þess að ég komist leiðar minnar á höfuðborgarsvæðinu á strætó. Þegar ég fletti þessum áfangastað, Gljúfrasteini, upp á vef Strætós fékk ég hins vegar fyrst upp að það tæki mig tæpar 300 mínútur að komast á áfangastað (bið í Háholti í meira en 200 mínútur). Þá þyrfti ég samt að labba tæpan hálfan kílómetra að heiman og á brottfararstað og aðra 400 metra frá Laxnesi (veit ekki hvar stoppistöðinni hefur þá verið plantað).
Mig grunar að strætó viti að það er sumardagurinn fyrsti þótt það komi ekki fram á vefnum hans og þess vegna breytti ég í helgidag --- nei, ég reyndi að breyta í helgidag, hið sjálfvalda form leyfði mér það ekki. Hins vegar skoðaði ég sérstaklega leið 27 og sá að á helgidögum fer sá vagn af stað fjórum sinnum alls. Klukkan hálfeitt, hálffimm, hálfníu og hálfellefu. Þótt ég kæmist á staðinn kl. 13:15 yrði ég að reyna að tefja dagskrána - eða fá far með einhverjum sem á alltaf að vera þrautalendingin.
Ég held að vandamálið hjá Strætó bs. sé ekki það að fólk víli fyrir sér að nota almenningssamgöngur í leiðinlegu vetrarveðri - ég held að viðmótið á vefnum og arfaslök tíðni eigi mestan þátt í að fæla fólk frá þessari samgönguleið.
Gleðilegt sumar!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. apríl 2009
Gini-stuðullinn
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. apríl 2009
Endurvekja skattstofna ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 20. apríl 2009
Truflun af klappliðunum á kosningafundum
Að horfa á kosningasjónvarp er góð skemmtun. Ég fylgdist spennt með útsendingunni frá Selfossi - og hefði poppað ef ég væri ekki nýbúin að brjóta jaxl - og fannst hann fínn, fólk er duglegt að spyrja hæfilega markvisst og gagnrýnið en mikið grefilli leiðast mér klappliðin. Það er eðlilegt og fínt ef fólk skellir upp úr þegar því er skemmt og klappar þá sjaldan svar er algjörlega stórkostlegt eða óvænt en gestir (les: klappliðin) settu í mörgum tilfellum sjálfstýringuna á.
Og ég kýs ekki einu sinni í Suðurkjördæmi ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 20. apríl 2009
Spurt og svarað
Það er magnað hvað fólk hringir mikið í útvarpsstöðvarnar þegar frambjóðendur sitja fyrir svörum og spyr skynsamlegra spurninga. Var þetta alltaf svona? Mér finnst það hafa aukist að fólk spyrji skýrt og fari fram á skýr svör.
Núna er ég með Bylgjuna í gangi í morgunsárið og svo verður spennandi að fylgjast með borgarafundi frá Selfossi í kvöld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. apríl 2009
Máttur umræðunnar
Þegar ég fékk bréfið í síðustu viku frá LOGOS um að BBR gerði mér yfirtökutilboð í hlut minn í Existu varð mér fyrst fyrir að skella upp úr. Ég var búin að afskrifa þessa eign í huga mér (greinilega enn dálítið meðvirk) og 4 krónur eru vitaskuld ekki umræðunnar virði.
Nema nú er umræðan í fjölmiðlum, þ.m.t. bloggsíðum, búin að afhjúpa hvernig í landinu liggur. Eign sem var metin mikils virði fyrir ári er nú metin lítils virði af þeim sem vilja eignast hana.
Hvað þarf ég að gera til að koma í veg fyrir að Bakkavararbræður geri sér mat úr brunarústunum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 17. apríl 2009
Kosningabarátta?
Barátta? Af hverju þetta orð? Ég skil orðið kjarabaráttu en ekki kosningabaráttu. Ég gæti skilið að talað væri um kynningu á stefnumálum, rökræður við kjósendur, framboðsfundi (hustings á ensku) en hið tíðkaða orð felur í sér meiri slagsmál en eru mér að skapi.
Er barist til síðasta blóðdropa? Til síðasta manns, síðasta atkvæðis? Öllu kostað til?
Ég held að ég hafi aldrei kunnað við þetta orð og það sem mér finnst það fela í sér. Og annað kann ég heldur ekki við, þeir sem þegar hafa verið kjörnir eru með forskot á hina ókjörnu - hinir kjörnu vilja leggja niður störf á launum til að fara í þessa þarna kosningabaráttu. Hinir þurfa að taka í það sumarfríið, frístundir, frívaktir - eða stelast í vinnutímanum.
Átta æsispennandi dagar framundan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. apríl 2009
ferdafagnadur.is
Næsta laugardag er snilldarviðburður á vegum Höfuðborgarstofu þar sem ferðaþjónusta í okkar nánasta umhverfi verður kynnt. Í boði eru alls konar viðburðir, fríir eða á kostnaðarverði, t.d. útsýnisflug, lasertag, hestaferðir, hvalaskoðun og siglingar í Viðey.
Ég er pínulítið skúffuð að ég skyldi ekki frétta af þessu sem leiðsögumaður. En ég frétti samt af þessu og nú dreifi ég því áfram, einkum því sem gerist í nærumhverfi mínu, á höfuðborgarsvæðinu. Veðurspá lofar vondu þannig að lopapeysan og regnkápan verða með í för.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 12. apríl 2009
Vantar hátæknisjúkrahús?
Maður veit ekkert fyrr en maður lendir í því sjálfur. Pabbi minn fékk vægt heilablóðfall, var fluttur á Borgarspítalann og hann gerður sem nýr að kvöldi föstudagsins langa. Nú situr hann kátur í sjúkrarúminu sínu, hrópar upp yfir sig af fögnuði yfir þjónustunni sem er óaðfinnanleg og spyr: Til hvers annað hátæknisjúkrahús?
Þess sama spurði Jónas í gær:
Við eigum hátæknispítala
Nýtt hátæknisjúkrahús var rugl úr Davíð Oddssyni. Við eigum hátæknispítala, Landspítalann. Hann hefur verið stækkaður jafnt og þétt og nú orðinn að húsaþyrpingu. Hana má stækka yfir gömlu Hringbrautina. Nú er komin kreppa, sem er hentugur tími til að losna við bábiljur frá tíma hinnar botnlausu hítar. Samt er enn verið að tala um nýtt hátæknisjúkrahús. Nú á að kreista lífeyrissjóðina til að borga óþarfan spítala. Við skulum bara stækka gamla spítalann eins og við höfum alltaf gert. Hættum að tala tóma óráðsíu um tugmilljarða útgjöld. Við eigum að vita, að við höfum ekki efni á slíku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 11. apríl 2009
Draumalandið þarf að glósa
Framan af fannst mér myndin Draumalandið engu bæta við bókina Draumalandið. Seinni hlutinn bætti það aðeins upp og ég saup nokkrum sinnum hveljur. Með salnum. Og nú man ég ekki neitt sem ég vildi gera að umtalsefni þótt það sé ærið - nema aðbúnað verkamanna við Kárahnjúka, að yfirmaður ákvað að senda heim þessa fjóra sem höfðu háværastar aðfinnslur vegna vosbúðar í gámunum. Myndin er mikið bútuð niður og verður dálítið sundurlaus. Kannski er það ekki galli en mér fannst það verra.
Jú, ég man líka að Andri líkti hagvexti við tilfinningar, að meiri hagvöxtur væri sama sem meiri tilfinningar, allar tilfinningar, gleði, ást, reiði, vonbrigði - hvað sem er. Ef hann leggur það rétt út, er þá hagvöxtur jákvæður?
Og jú, senan um fuglinn (man ekki einu sinni hvort það var gæs) sem gat ekki bjargað egginu sínu vegna ágangs árinnar var mögnuð.
Eitt að lokum, ég keypti miðana á miðjum degi, algjörlega sannfærð um að pakkfullt yrði í salnum. Svo var ekki, áhugasamir geta ábyggilega fengið miða á morgun!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 9. apríl 2009
Spurningakeppni dagsins á Bylgjunni
Hahh, ég hefði unnið alla keppendur nema Illuga. Spurningakeppni er dásamlegt útvarpsefni, sérstaklega gott á borgargöngu í vorblíðu. Ég tók samt eftir að Logi spyrill missteig sig á tungunni í fyrstu lotu eftir fimm-fréttirnar. Að vonum. Hafi hann hlustað.
Meiri spurningakeppni á morgun. Hvet alla til að stilla á Bylgjuna kl. fjögur síðdegis.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. apríl 2009
Þegar Óskar Jónasson og Ævar Jósepsson leggja saman
Það er góð skemmtun að horfa á íslenskan sakamálaþátt með blaðamennskuívafi (og það þótt Jóni 10-11 Jóhannessyni hafi tekist að auglýsa víða, líka hér og nú). Ég var að klára þáttaseríuna Pressuna sem gerist á og í kringum æsifréttablað sem gerir út á skúbb á hverjum degi.
Utan á hulstrinu stendur að Sigurjón Kjartansson sé yfirumsjónarmaður handrits en einhvers staðar á diskinum sá ég nafn Ævars Arnar og nú ætla ég að vera stærsti aðdáandi hans um hríð. Og snilldarleikstjórans Óskars. Þessi þáttaröð var spennandi og ferlega fyndin á köflum. Og leikaraliðið er frábært, gjörsamlega frábært. Í burðarrullum eru færir lærðir leikarar eins og Kjartan Guðjónsson og Arndís Hrönn Egilsdóttir og svo bar ég kennsl á nokkra áhugaleikara sem ég þekki. Ég uppgötvaði Stefán Hall Stefánsson og Orra Hugin Ágústsson, ótrúlega flinka gaura. Textameðferð og svipbrigði sérstakt (augna)yndi. Því miður er ég ekki enn búin að tengja öll nöfn og andlit til fulls.
Ég mæli svo svakalega með þessari þáttaröð en af því að mér finnst að sem flestir eigi að njóta án þess að láta klukkubúðareigandann njóta líka finnst mér að allir eigi að fá lánseintakið mitt lánað.
Og ég þverskallast við að rökstyðja þessa hrifningu mína, hún er bara huglæg og þar við situr. En af hverju hef ég ekkert heyrt talað um þessa þætti? Af því að enginn í kringum mig er með Stöð 2?
Es. Ég er líka nýbúin að horfa á Næturvaktina á diskum ... Það er líklega ótrúlega auðvelt að gera mér til hæfis, hmmm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 5. apríl 2009
Draumalandið mitt
Sú bók sem hefur haft hvað mest áhrif á mig á undanförnum árum er Draumaland Andra Snæs Magnasonar. Fram að þeim tíma hafði ég engan áhuga á hagfræði, nema heimilisbókhaldinu, en hann setti hagvöxt og kaupmátt í þannig samhengi að áhugi minn varð einhver. Og líklega hef ég um svipað leyti byrjað að efast um arðbærni virkjana.
Eftir Silfur dagsins eru efasemdirnar fullkomnaðar. Vissulega lagði John Perkins ekki tölur og gröf á borðið en maður velur hverjum maður trúir. Og þegar öll rök hníga að því trúir maður því trúlega. Landsvirkjun er með böggum hildar þrátt fyrir meintan uppgang og við höfum árum (áratugum?) saman selt útlenskum fyrirtækjum raforku við svo lágu verði að garðyrkjubændur, ferðaþjónar og aðrir íbúar hafa þurft að greiða niður fyrir stóriðjuna.
Ég er alveg sannfærð um þetta. Ef ég mætti einhverju breyta myndi ég a.m.k. ekki gera þannig samning að raforkuverð sveiflaðist niður með lækkandi álverði. Svo vildi ég hlynna að gróðurhúsunum og framleiða meira innanlands.
Og ég set stefnuna á Draumalandið í bíó um páskana. Minna má það ekki vera.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 3. apríl 2009
,,Fólkið í landinu"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 2. apríl 2009
Páskaspurningakeppni fjölmiðlanna verður á RÚV í kringum hvítasunnuna!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 1. apríl 2009
Einbeiting óskast
Hin gríðarspennandi bók Karlar sem hata konur er á náttborðinu. Ég les tvær blaðsíður í senn og sofna út frá henni. Konur eftir Steinar Braga er komin í bunkann og að bestu manna yfirsýn er hún í senn ógeðsleg og samt ekki hægt að slíta sig frá henni.
Ég er genetískur bókabéus. Ég er með háskólagráðu í bókelsku. Er það pólitíkin sem rænir mig rónni og einbeitingunni? Er sjónin að gefa sig? Er það aldurinn?
Mig vantar sól og svalir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 29. mars 2009
Víst verður spurningakeppni fjölmiðlanna um páskana!
Það styttist reyndar í páskana þannig að nú má fara að eyða óvissunni. Fleiri en ég voru með böggum hildar þegar spurðist að RÚV ætlaði ekki að hafa hina árvissu páskagleði og nú heyri ég að Bylgjan íhugi að vera með spurningakeppni og að Útvarp Saga ætli að vera með svoleiðis með eigin sniði. Skyldu vera fuglahljóð í því sniði?
Ég tek gleði mína á ný.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)