Sunnudagur, 29. mars 2009
DO á pari við HH
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26. mars 2009
Synd ef ekki verður af spurningakeppni fjölmiðlanna um páskana
Í Fréttablaðinu sá ég að RÚV verður víst ekki með spurningakeppni fjölmiðlanna um páskana. Ég leitaði að fréttinni á vef RÚV en fann ekki. Vonandi fór Ævar Örn Jósepsson spyrill bara fram úr sér eða misskildi eitthvað - nema þetta sé bara kynningarbrella.
Enn er langt í páska og enn getur RÚV snúist hugur ef þetta stóð yfirleitt til. Það er nefnilega góð skemmtun að hlusta á spurningakeppni í útvarpinu. Og fjölmiðlamenn vita margt þótt fréttamenn spyrji ekki alltaf réttu spurninganna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. mars 2009
Makaskipti
Það var mikið að einhver fréttveita sagði hið augljósa. Meira að segja Glitnir gat ekki lengur horft framhjá því að makaskiptasamningar í fasteignum hafa gefið rangar vísbendingar um verð. Samkvæmt Fasteignaskrá Íslands var meðalupphæð á samning á höfuðborgarsvæðinu 42,8 milljónir króna.
Hver trúir að það sé meðalverð seldra íbúða? Kannski Ásgeir og Edda?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. mars 2009
Evra og evra
Í árslok 2007 stóð evran í rétt rúmum 90 krónum en í árslok 2008 rúmum 170 krónum. Það er næstum helmingsmunur.
Títtnefndur Grandi er farinn að gera upp í evrum eins og lesa má í ársreikningi hans. Í skýringum á blaðsíðu 9 stendur þetta:
Samstæðuársreikningur félagsins er nú í fyrsta sinn settur fram í evrum, en stjórn félagsins hefur ákvarðað að evra sé starfrækslugjaldmiðill félagsins frá og með árinu 2008. Samanburðarfjárhæðum hefur verið breytt með þeim hætti að allar fjárhæðir voru umreiknaðar með gengi evrunnar í árslok 2007. Allar fjárhæðir eru birtar í þúsundum evra, nema annað sé tekið fram.
Hvers vegna notaði stjórn Granda gengið frá árslokum 2007 þegar krónan átti eftir að veikjast svona mikið?
Er verið að hlunnfara hluthafana? Vill stjórnin ekki berast á? Á hagnaðurinn að verða stærri síðar?
Ef ég væri blaðamaður spyrði ég t.d. stjórnina þessara spurninga, a.m.k. í ljósi nýjustu tíðinda. Og fengi e.t.v. Vilhjálm Birgisson með mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 23. mars 2009
Langholtið mitt
Borgin áformar að rífa gömlu skólastofurnar mínar þar sem ég stundaði bæði grunn- og framhaldsskólanám. Ég veit að þær eru trúlega varla nothæfar lengur en ég fékk netta fortíðarþrá við að lesa fréttina.
Sniff.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 22. mars 2009
Fjárhagsleg heilsa
Skelfing leiddust mér alltaf auglýsingar Byrs um fjárhagslega heilsu. Fyrir síðustu áramót átti ég í miklum tölvupóstssamskiptum við einhverja undirdeild Byrs sem ég, sem sparifjáreigandi í SPRON, lenti í viðskiptum við - lenti, ítreka það - og ég híaði á þessa fjárhagslegu heilsu. Og þrátt fyrir að Byr hafi fundist tilhlýðilegt að hirða 29% af sparnaði mínum - og annarra sem lentum í klónum á honum - dugði það honum ekki til að rétta úr eigin kút og annarra sparisjóða.
Og ég spyr mig hvort einhverjum innan dyra, t.d. í Byr, hafi ekki ofboðið líka, bæði fyrir og eftir almenna vitneskju um gríðarlegan lasleika fjárhagsins. En eins og aðrir tek ég fram að viðmót starfsmanna var aldrei annað en lipurt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. mars 2009
Spjallið hans Sölva
Þorleifur Arnarsson er giska góður leikari. Nú er ég búin að sjá hann leika tvo viðmælendur hjá Sölva á Skjá 1 (sem ég nenni allajafna ekki að horfa á, þ.e. stöðina). Um daginn kynnti Sölvi hann sem Jón Hannes Smárason áhættufjárfesti og þótt ég vissi mætavel að þetta væri Þorleifur féll ég í smástund og undraðist hvað þessi leynigestur í íslensku samfélagi kæmi ótrúlega mikið upp um sig.
Áðan kynnti Sölvi hann sem þingmann og ég afvegaleiddist ekki eina sekúndu enda veit ég hvernig þau öll 63 líta út. Talsmátinn hefði líka komið upp um hann - aftur.
Hver á annars Skjá 1?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. mars 2009
Nú fær mozzarellan hvíldina
Þessi náhvíti bragðlausi ostur hefur fengið öll hugsanleg tækifæri á heimilinu. Væri ekki hægt að setja út í hann vott af msg ...?
Ef vel á að vera verður að krydda hann og bæta með ólífum, tómötum og öðru kruðeríi. Eins gott að fá sér bara almennilegan brauðost, huhh.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Miðvikudagur, 18. mars 2009
Og bréfið lak
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. mars 2009
Með þyrlu á Langjökul?
Í dag var ég beðin um að vera leiðsögumaður Breta um helgina. Því miður var ég búin að ráðstafa tíma mínum, annars hefði ég farið á laugardaginn í mitt fyrsta þyrluflug. Svolítið skondið eftir mörg ár í hvataferðum að hafa bara farið tvisvar eða þrisvar í flúðasiglingu og ALDREI tekist á loft. Í þyrlu.
Ég hefði auðvitað hringt beint í Ólól til að fá tilsögn í hvernig ég ætti að bera mig. En það reynir sum sé ekki á.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. mars 2009
Flug í leggjum
Ég er með mikil innkaup á flugmiðum í vinnslu - þekkir einhver þá reglu að flug til t.d. London sé hlutfallslega ódýrara ef maður kaupir báðar leiðir í sama pakka? Getur miðinn út kostað 20.000 og heim 20.000 en samtals 34.000 ef maður kaupir báða leggi í einu? Skiptir máli hvort maður kaupir flugið heima eða í útlandinu?
Er fáokun??
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 14. mars 2009
Vaxtaákvörðunardagur á fimmtudaginn
Ég spáði því í gær að stýrivextir færu ofan í 5% fimmtudaginn 19. mars. Ég ætla að standa við þá spá. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var kátur þegar hann kvaddi landann í gær. Og hjá mér er þetta valkvæð bjartsýni, vextirnir verða að húrra niður.
Sem smásparifjáreigandi vil ég líka að vextirnir lækki. Mér finnst fráleitt að verðtryggð innistæðan hækki óeðlilega og atvinnulífið fái ekki nauðsynlegt lánsfé til að halda sjálfu sér rúllandi. Ef atvinnulífið hægir meira á sér bitnar það líka á mér. Gefur augaleið að allir tapa með sama áframhaldi.
Allra hagur að lækka stýrivexti og bankavexti auðvitað í framhaldinu, inn og út. Niður í 5%, takk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 14. mars 2009
Kranar blaðanna - 8% af hverju?
Hvað ætlar HB Grandi að gera? Ætlar hann virkilega og í fúlustu alvöru að greiða arð til hluthafa á sama tíma og hann kemur sér hjá því að standa við gerða samninga?
Eyjan, Mogginn og Bæjarins besta spyrja engra spurninga, ekki hvort raunverulegur hagnaður hafi orðið, ekki hvert eigið fé er og ekki einu sinni af hvaða upphæð eigi að greiða 8% hagnað. Hverjar eru arðgreiðslurnar? Hvernig eru þær til komnar? Hafa stjórnendur ekki einu sinni viðskiptavit? Það þarf engan meðalhálfvita til að sjá að þetta muni hleypa illu blóði í fólk. Og Vilhjálmur Birgisson virðist einn af fáum verkalýðsforkólfum sem stendur með fólkinu sínu þannig að varla kemur HB Granda á óvart að hann hafi opnað munninn.
En hvað er að þessum fréttaflytjendum? Líklega hefur Jónas 100% rétt fyrir sér þegar hann talar um kranablaðamennsku. Og það merkilegasta er að þrátt fyrir umræðuna um og gagnrýnina á fjölmiðla hafa þeir ekki tekið sig á í raun. Í fljótu bragði virðist þó Vísir horfa á fréttatilkynningu gagnrýnum augum:
Stjórn HB Granda leggur til að hluthöfum verði greiddur arður, sem myndi duga til að greiða öllu fiskvinnslufólki félagsins launahækkun, sem tekin var af því um mánaðamótin, í átta ár. Stjórnarmenn í HB Granda eru einnig stærstu eigendur fyrirtækisins, sem skilaði ríflega tveggja milljarða hagnaði í fyrra.
...
Það eru um sex hundruð hluthafar í Granda, en örfáir aðilar eiga þar stærstan hlut, eða Vogun hf með 41 prósent, sem er aftur í eigu Árna Vilhjálmssonar stjórnarformanns HB Grands og Kristjáns Loftssonar stjórnarmanns í HB Granda. Annar stjórnarmaður er svo Ólafur Ólafsson en Kjalar hf, félag hans, á 33 prósent í HB Granda. Stjórnarmenn eru því að ákveða sjálfum sér arð.
Vilhjálmur Birgirsson segir að fyrir arðgreiðsluna mætti greiða öllu fiskvinnslufólki HB Granda launahækkunina sem það fékk ekki í þessum mánuði eins og til stóð næstu átta árin.
Gat verið að Ólafur Ólafsson skyti upp kollinum í von um ósanngjarnan gróða. HFF.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 12. mars 2009
Lýðræðisdaginn lengir
Ég man hvar ég var þegar ég heyrði að nýr formaður hefði verið kosinn í VR. Ég skeiðaði eftir Vesturgötunni og hlustaði á útvarpsfréttir í símanum mínum. Ég var svo illa áttuð að ég var ekki með á hreinu að kosningunni væri að ljúka (er ekki í VR þannig að mér fyrirgefst) en ég æpti af gleði. Ungur maður hinum megin við götuna hrökk við og dreif sig á Rauðhettu og úlfinn í klippingu.
Ég viðurkenni að ég þekki hvorki Kristin né Lúðvík, hinn nýja frambjóðandann sem þó var ekki kosinn. Eymingja Gunnar Páll er bara fulltrúi svo gamalla og þreyttra gilda, svo mikið 2007, að hann varð að taka pokann sinn. Sem léttastan.
Og ekki spillti fyrir að hinn ötuli Ragnar sem hefur kafað djúpt ofan í lífeyrismálin var kosinn í stjórnina.
Undir kvöld var dagurinn þannig orðinn góður.
Svo fór ég á borgarafund í Iðnó og vel að trúa því að pallbyrðingar ætli að gera allt sitt til að ná til baka milljörðunum úr skálkaskjólunum. Réttlæti, takk.
Allt á réttri leið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. mars 2009
Rauð paprika - kílóverð
Ekki veit ég hvort rauð paprika er í matarkörfunni sem er notuð í almennum útreikningum á matarkörfu landsmanna. Hitt veit ég að rauð paprika virðist vera tíður gestur í matarkörfunni minni. Til gamans fór ég í gegnum strimlana yfir matarinnkaup síðan í október og mér til mikillar furðu komst ég að því að verð á rauðri papriku er afskaplega rokkandi, mest allt í kringum 400 kr. á kílóið - upp í 598 kr. Það merkilega var að hún var dýrust í október - í Bónus - á 598 kr. Lægsta verðið, hvað? Það var líka um svipað leyti og Guðmundur í Bónus hvatti landsmenn til að hamstra þar sem hann sæi fram á vöruskort. Þarf ég að orðlengja þetta?
Ég er ágætlega verðmeðvituð en greinilega dálítið löt að skoða kílóverð og það þori ég að hengja mig upp á að kaupmennirnir vita mætavel. Annað sem ég kaupi gjarnan er mangó og það verð er líka eins og þeytispjald. Næst þegar ég nenni að skoða verðstrimlana ætla ég að skoða tímasetningar - er verð hærra síðla dags?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 9. mars 2009
Bankinn þinn?
Hvaða banka munar um 107 milljarða? Hvaða banki hótar núna að ganga að húseignum útlenskra viðskiptavina sinna í Lúxemborg? Hvaða banki lánar eða gefur eða gleymir 500 milljörðum? Hvað kemur þetta okkur við ...?
Opinn borgarafundur í Iðnó á miðvikudagskvöld kl. 20. Frummælendur verða þingmennirnir Atli Gíslason og Bjarni Benediktsson og svo Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrum formaður Félags fasteignasala ef mér skjöplast ekki.
Hvað kemur þetta ÞÉR við?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 7. mars 2009
Hver er Bilderberger-grúppan?
Nafnið flýgur sífellt fyrir og ég held að þessi hópur samanstandi af klíku háttsettustu manna heims. En af hverju er ég alltaf að heyra þetta nafn núna og aldrei áður? Hvað skrafa menn á þessum fundum? Hver stjórnar? Hver býður? Hverjum er boðið? Tala menn dulkóðað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 5. mars 2009
Aragrúi tómra íbúða í úthverfum Reykjavíkur
Ekki man ég nákvæmar tölur en á fundi um húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi kom fram að mikill fjöldi íbúða er tómur, margar íbúðir eru líka í byggingu og búið að steypa grunn að nokkuð mörgum til viðbótar. Á sama tíma eru einhver brögð að því að fólk sé borið út úr íbúðum sem það ræður ekki við að borga af því að allar reikniforsendur þess brugðust. Páli Gunnlaugssyni, fyrrum formanni Búseta, fannst þetta órökrétt og vitnaði í forsetafrúna.
Og svo kemur fáránleg frétt um litla raunlækkun íbúðaverðs. Á hverju er hún byggð? Örfáum sölum þar sem makaskipti hafa áreiðanlega oft komið við sögu. Og það þarf hvorki snilling né bragðaref til að átta sig á að trúlega eru notuð efri mörk í sölusamningum, m.a. út af lánum, notaðar tölur sem ekkert er að marka. Og fyrir utan það að fullt af fólki heldur að sér höndum í þessu árferði og reynir að þrauka frekar en að sætta sig við ... óásættanlegt verð. Það er næsta lítið að marka markaðinn. Síst af öllu þegar spádeildir fjármálastofnana losa sundur reiknistokkinn.
Verðið átti auðvitað aldrei að hækka svona skart en ég spáði þessu haustið 2004 þegar helvítis bankarnir byrjuðu eyðileggingarstarfið með íbúðalánunum sínum.
Fína íbúðin í Skuggahverfinu sem ég ætlaði að kaupa fyrir slikk af einum stórbankamanninum er seld. Hana keypti einn af hinum nýju eigendum Moggans, Þorsteinn Már Baldvinsson. Hver segir svo að menn raki ekki saman fé á að veðsetja óveiddan fiskinn?
Er þetta nýja, óspillta Ísland?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. mars 2009
Minnishegri
Í dag var kynnt fyrir mér orðið minnishegri fyrir litla stykkið sem maður stingur í þar til gerða rauf á tölvu. Á/Í þessum minnishegra geymir maður myndir og texta og flytur auðveldlega með sér. Sumir hafa svona minnishegra á lyklakippunni sinni.
Minnishegri skírskotar til óminnishegra í Hávamálum vegna þess að óminnishegri rænir mann minninu en minnið geymir maður á/í minnishegranum. Sumir nota víst styttinguna hegri.
Ég glöggvaði orðið til að sjá hvort einhverjir hugvitsmenn væru farnir að nota það. Viti menn, einhver reifaði málið á Málefnunum þegar fyrir rúmu ári. Einhver gestur á Baggalút líka í fyrra. Guð blessi netið ...

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. mars 2009
Affarasælla að stela frá fátækum, sagði Halldór Laxness
Fyrir skemmstu heyrði ég mann í útvarpinu lesa nokkrar línur úr Heimsljósi. Því miður hefur mér þótt Ólafur Kárason Ljósvíkingur ofmetinn (sem töffari) þannig að ég las Heimsljós með hangandi haus og sennilega lokuð augu á sínum tíma og man næsta lítið. Brotið sem maðurinn las í útvarpinu var um það að skynsamlegra væri að stela frá fátækum því að sá sem ætti bara eitt stykki væri jafn fátækur þótt hann yrði af því. Sá ríki sem ætti 100 stykki yrði æfur ef einu stykki væri stolið og væri vís með að eyða mörgum stykkjum til að endurheimta þetta eina.
Sannast hér hvers vegna Halldór fékk Nóbelinn og ég ekki.
Því miður tók ég ekki eftir hverjum var eignuð þessi hugsun í bókinni en mér finnst hún eiga fjandi vel við. Eða kannast menn ekki við að nú sé verið að rífa eignir af þeim sem fáar og litlar eiga? Og bolmagn þeirra til að endurheimta sínar fátæklegu eigur er lítið.
Myndin af skáldinu er fengin af síðu fva.is
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)