Mánudagur, 2. mars 2009
Fjölmiðlungar
Nú er búið að kaupa/selja/gefa Moggann. Hann var/er stórskuldugur. Glitnir Íslandsbanki afskrifar þær skuldir í stórum stíl. Og svo á ég að trúa því að Mogginn sé hlutlaus og upplýsandi fjölmiðill. Af hverju tókst honum ekki að reka sig réttu megin við núllið? Hverjum er í hag að kaupa skuldir?
Og allt í einu lýstur því ofan í höfuðið á mér að Björgólfur sem keypti Landsbankann fékk Landsbankann gegn hlutabréfum í sjálfum sér vildi kaupa DV um árið til að leggja það niður. Hann skóf ekki einu sinni utan af því.
Er ekki orðið tímabært að fá fjölmiðlalög í stað þeirra sem var rifist mest um fyrir næstum fimm árum?
Og er ekki öruggt að verði bankarnir seldir aftur verður eignarhaldið dreift?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 2. mars 2009
Enron = Glitnir?
Ég horfði á bandarísku myndina um bandaríska fyrirtækið Enron sem fór flatt á græðgi stjórnenda sinna - og ég sá Bjarna Ármanns. Ég skil ekkert í þessu ... Heitir hann ekki Stilling sem stóð upp og fór frá fyrirtækinu ári áður en allt hrundi? Og af hverju dettur mér Bjarni í hug ...? Ég er að reyna að koma þessu heim og saman.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 1. mars 2009
B-dagur
Ég verð að halda því til haga að í dag eru liðin 20 ár frá því að menn gátu höndlað með bjór á íslenskum knæpum í stað bjórlíkis. Ég hef svo oft ruglast á árum - og þetta er meðal þess fánýta fróðleiks sem maður dembir stundum yfir saklausa farþega í ferð um Ísland. Ef ég man rétt samanstóð bjórlíkið af vodka og pilsner.
Nú erum við aftur komin með gjaldeyrishöft, skyldi bjórinn svo hverfa á næstunni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. febrúar 2009
Hver eru þessi 4% sem bera mikið traust til bankakerfisins?
Alveg er ég uppfull af óvissu og er ég þó - og kannski ekkert þó með það - í viðskiptum við sparisjóð. Ráðamenn hafa keppst við að segja í fjölmiðlum að innistæður séu traustar. Þeir hafa ekki alltaf reynst hafa rétt fyrir sér. Ef ríkissjóður þverr fýkur í síðasta skjólið. Sögur berast af fjármálastofnunum sem leysa til sín eignir og ofreikna skuldir sem þær skilja eftir hjá fólkinu sem áður átti eignirnar. Hvað er SP-fjármögnun og hver á það fyrirtæki? Það lánar, er það þá ekki banki þótt það sé ekki einn af viðskiptabönkunum?
Eru það skilanefndirnar sem treysta bankakerfinu? Kvótaeigendur? Opinberir starfsmenn? Unglingar sem eru rétt komnir á kosningaaldur og hafa ekki fylgst með?
Ég skil þessi 96% sem vantreysta bankakerfinu. Því miður.
Huggunin er að nú getur leiðin ekki legið nema upp.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. febrúar 2009
Aðalfundur Félags leiðsögumanna
- Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
- Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
- Tillögur um lagabreytingar teknar til afgreiðslu.
- Breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs teknar til afgreiðslu.
- Drög að fjárhagsáætlun lögð fram og tillaga um stéttarfélagsgjald.
- Kosning til stjórnar, varastjórnar og trúnaðarráða, sem og í aðrar nefndir og trúnaðarstöður.
- Kosning eins félagskjörins skoðunarmanns reikninga og varamanns.
- Önnur mál.
Leiðsögumenn fjölmenni - auðvitað. Þórhildur? Magga? Virpi? Auður?
Þriðjudagur, 24. febrúar 2009
Fyrsta frétt
Ég samgleðst manni sem missir vinnuna þegar hann fær nýja vinnu, en myndu ekki sumir kalla þetta eins konar persónugervingu? Er RÚV að reyna að senda þeim langt nef sem vilja skipta um forystu í íslenska seðlabankanum sem mörgum finnst hafa tapað öllu trausti? Þetta var fyrsta frétt, kom á undan ... öllum öðrum fréttum.
Eða er mín áunna tortryggni að troða skynsemi minni um tær?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 22. febrúar 2009
Ofvaxið skilningi mínum
Hvað eiga bloggsíður Gísla F., Gísla M., Hjartar og Ólafs sameiginlegt?
Hvað eiga síður Friðjóns, Gunnars og Stefáns sameiginlegt?
Og hvernig er bloggsíða Vilhjálms A. Kjartanssonar sér á báti?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 20. febrúar 2009
Hvað varð um meintan vöruskort Bónuss?
Þegar Guðmundur Marteinsson sagði af miklum þunga í októberbyrjun 2008 að hætta væri á vöruskorti vantreysti ég mati hans. Spaugstofan gerði það líka, ég man að hún grínaðist með að Bónus ætlaði að losna við útrunninn mat á góðu verði (fyrir sig).
Hvar er vöruskorturinn?
Enn er ég pattaraleg.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. febrúar 2009
Kyrrsetning á netinu
Kvöldum saman hef ég nú reynt að glöggva mig á mögulegum flugferðum yfir til meginlandsins með vorinu. Alltaf þegar ég þykist ætla að bóka far með Flugleiðum fæ ég þennan texta:
- Eigum í erfiðleikum með beiðnina eins og hún er framsett. Vinsamlega reyndu aftur eða hafðu samband við okkur ef þetta lagast ekki. (3006)
|
Ég hef sýnt þolinmæði langt umfram þessar umbeðnu mínútur en allt í einu rann upp fyrir mér ljós, við megum ekki fara úr landi!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Miðvikudagur, 18. febrúar 2009
Af hverju hættir Runólfur Ágústsson hjá Keili?
Fyrir nokkrum dögum heyrði ég (varla) í útvarpinu að Runólfur ætlaði að hætta og ég hélt að upp sprytti mikil umræða um Keili, háskólanám, Suðurnesin, atvinnulíf og e.t.v. Runólf. En óekkí. Síðan hef ég heyrt nákvæmlega ekki eitt múkk.
Kannski langar hann bara til að söðla um þótt stutt sé síðan hann gerði einmitt það. Kannski er hann á leiðinni í framboð. Kannski mislíkar honum á Suðurnesjunum. Það var einmitt það sem mér datt í hug þegar ég las um offíseraklúbbinn á vellinum sem hefur nú verið framseldur til umboðsmanns Íslands.
Er allt í lagi með samkeppnina þarna suður frá?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. febrúar 2009
Ég trúi ekki Tryggva Herbertssyni
Tortryggni mín er vakin eins og ég hlýt að hafa þrástagast á og þegar Tryggvi Herbertsson, minn fyrrum nágranni, situr hnakkakertur hjá Sigmari í Kastljósinu og fullyrðir að skuldir íslenska ríkisins séu þrisvar til fjórum sinnum minni en aðrir hafa sagt, m.a. Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur, og segir þessa aðra fara með kreppuklám eykst tortryggni mín. Hann er maðurinn sem fullyrti í byrjun september að bankarnir stæðu vel. Hann er maðurinn sem fullyrti fyrir jól að atvinnuleysi yrði engin 10%. Puff, ég þekki Harald ekki neitt en ég trúi honum af því að hann rökstyður mál og hefur ekki reynst fara með fleipur. Ég trúi Andrési Magnússyni af því að hann hefur fært tölfræðileg rök fyrir máli sínu og rugl og bull hefur ekki sannast á hann. Menn máttu vita eigi síðar en um mitt ár 2007 að íslenska ríkið stæði höllum fæti og bankarnir á fjórðungsfæti - en þeir menn kusu að snúa blinda augana að skýrslum og tölfræðilegum sönnunum.
Annars vil ég fara að sjá lausnir, ég vil sannfærast um að hægt verði að sækja peningana sem menn greiddu sér fyrir meinta ábyrgð, ég vil sjá merki þess að hér verði hægt að forðast aukið atvinnuleysi, gjaldþrot, fólksflótta.
Hvað er með þessa gróðurhúsahugmynd fyrir norðan? Við þurfum að framleiða meira, flytja meira út og minna inn og EKKI BORGA SKULDIR BANKAPÉSANNA ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 16. febrúar 2009
Spennan vex
Lýðveldisbyltingin biður stjórnmálaflokkana um svör við spurningum sínum um stjórnlagaþing. Kannski verður þeim fylgt eftir í Háskólabíói í kvöld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. febrúar 2009
MSG
Í dag fékk ég góða matargesti. Ein vinkona mín forðast msg eins og heitan eldinn þannig að ég þurfti að vanda mig við að sniðganga msg þegar ég keypti í matinn. Hvað er í nautahakki? Kjúklingabringum? Tortillaflögum? Grænmetisteningum? Tómatasafa? Sýrðum rjóma? (Hvað ætli hafi verið í matinn ...?)
Arg, það er allt vaðandi í msg. Stundum heitir það E 621 eða bragðbætir. Góðu áhrifin af msg eru að bragðið í matnum eykst. Vondu áhrifin eru ýmisleg. Ég er nýgræðingur. Hvað ber að forðast í þessum efnum og hvaða máli skiptir það t.d. mig sem fæ engin ofnæmisviðbrögð, enga brunatilfinningu, ekkert tilfinningaleysi, engan magaverk?
Og hvað veldur þessum brjálæðislega verðmun?
Ásgerður, svara takk ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 13. febrúar 2009
Húsasmiðjan sektuð fyrir útsölu ...
Húsasmiðjan sektuð fyrir útsölu
Og þetta er reyndar sama fyrirsögn og Neytendastofa notar á úrskurð sinn. Samt minnir þetta mikið á þegar Sindri Sindrason sagði á Stöð 2 skömmu fyrir jól að Hagar hefðu verið sektaðir fyrir lágt verð. Hið sanna þá var að Hagar voru sektaðir fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína.
Þegar sektarúrskurður Neytendastofu er lesinn sést að í honum er fjallað um það sem fólki varð tíðrætt um í janúar, að verð var hækkað áður en það var lækkað og kallað útsöluverð. Eitt af dæmunum sem kvartað er yfir hér er verkfærasett sem kostaði 31. desember 2008 kr. 1.599 en 2. janúar 2009 var búið að lækka það upp í kr. 2.507. Svona var það öfugsnúið. Fyrsta dag ársins var verðið nefnilega auðvitað hækkað í kr. 2.949 svo að hægt væri að bjóða 15% afslátt.
Sem betur fer eru núna fleiri og fleiri á neytendavaktinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. febrúar 2009
Tortryggninni hefur verið sáð
Það getur vel verið að Ora sé glæpsamlega kærulaust með merkingar á vörum sínum, jafnvel ekki kærulaust, frekar glæpsamlegt. En þegar Stöð 2 í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar eyðir tveimur dýrmætum mínútum snemma í fréttatímanum í að fjalla niðrandi um Ora dettur mér núna fyrst í hug að Ora hafi sýnt Jóni fingurinn (eða hvernig orðar maður þetta aftur á íslensku?). Ég þekki hvorki haus né sporð á þessum fyrrverandi framleiðslustjóra sem gagnrýndi grimmt sinn fyrri vinnuveitanda.
Næsta frétt á eftir var um Teymi og þar var Þórdís Sigurðardóttir, systir Hreiðars Más sem hryðjuverkaði Kaupþing, á innsoginu. Á ég að vorkenna henni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
The Collapse of a Country = Hagkerfi bíður skipbrot
Athygli mín var vakin á þýðingu Önnu Varðardóttur á skýrslu Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega á hruni íslensks efnahagslífs. Með sögunni fylgdi að íslenska þýðingin tæki langtum dýpra í árinni, sbr. strax fyrirsögnina sem orð fyrir orð mætti útleggja sem hrun ríkis eða lands en þýðandi heldur sig hins vegar við lífseigt myndmál síðustu fjögurra mánaða.
Að svo stöddu ætla ég ekki í samanburð á skýrslunum, vona að Ágústa geri það og deili niðurstöðunni með mér. Að óathuguðu máli giska ég á að menningarheimurinn sé þýddur með eða eiginlega staðfærður, þ.e. Íslendingar eiga að vita og þola stóru orðin þótt mildara sé farið í framsetninguna til útlendinganna.
Eða hvað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. febrúar 2009
14.186 atvinnulausir
Segir Vinnumálastofnun. Það þarf að búa til störf og það þarf að afla tekna.
Mánudagur, 9. febrúar 2009
Hvað varð aftur um Þjóðhagsstofnun?
Æ já, ég man það núna. Og þegar það frumvarp var sent Seðlabanka Íslands til umsagnar lagði hann blessun sína yfir niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar.
Fólk missir vinnuna í stórum stíl, fólk tapar fé og er að horfa á eftir vitinu vegna andvaraleysis, grúppíutakta og glórulaussar græðgi þeirra sem komu að málum. Er til of mikils mælst að hafa ábyrgan ráðgjafa?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. febrúar 2009
Flettismettið ... er bóla
Flettismettið er ekki komið til að vera ... a.m.k. fyrr en það lagar sig að íslenskri málhefð. Ég er viss um að það er argasti tímaþjófur og hef séð fólk hverfa alfarið af blogginu inn í annarlegan heim. Mér hefur verið hleypt þangað inn ... og mér finnst þessi heimur of persónulegur. Læt msn duga og verð glöð staka mengið í mínum aldurs- og vinahópi sem þverskallast við.
Flettismettið dettur fljótlega upp fyrir, hmmm. Ég ... er ... algjörlega sannfærð, grrrr.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. febrúar 2009
Landráð af gáleysi?
Páll Skúlason talaði um landráð í haust. Það var í þættinum hjá Evu Maríu. Honum fannst landráð vítavert, hvort sem það væri af gáleysi eða vísvitandi. Kokkur sem ég spjallaði við í haust meðan við tókum til matinn handa ferðafólkinu okkar talaði á innsoginu um landráð kaupahéðnanna. Honum var stórkostlega misboðið.
Ég held að við stöndum frammi fyrir landráði manna sem önuðu fram með græðgi bundna fyrir augun.
Eitthvað verður að gera þegar glæpur hefur verið framinn.
Það er spurning hvort frummælendur á Akureyri komist á sunnudaginn að niðurstöðu um til hvaða bragðs eigi að grípa. Ef það er ætlun þeirra yfirleitt. Eða gesta í Ketilhúsi.
-Að öðru leyti er ég langt komin með Dimmar rósir og sýnist ég ekki munu verða sammála álitsgjöfunum sem Forlagið vitnar í. Mér er líka Tröllakirkja óþarflega minnisstæð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)