Sunnudagur, 11. janúar 2009
,,Telurðu nauðsynlegt að spara í heilbrigðiskerfinu?"
Svo spyr Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Ég tel nauðsynlegt að spara en þori ekki að svara í samræmi við skoðun mína því að einfalt já má túlka út og suður, t.d. þannig að ég sé sammála yfirvofandi breytingum á St. Jósefsspítala. Ég hef engar forsendur til að meta þær áformuðu breytingar en hef vonda tilfinningu fyrir því að breytingarnar komi að ofan. Þegar starfsumhverfi manns er umbylt er betra að hafa mann með í ráðum - að því gefnu að maður eigi það skilið. Og er einhver sem heldur því fram að spítalinn eigi gerræði skilið?
Tel ég nauðsynlegt að spara í heilbrigðiskerfinu? Já. Hefur verið hlustað á heilbrigðisstarfsmenn og tillögur þeirra til margra ára, t.d. um að nota samheitalyf? Hefði verið hægt og væri enn hægt að spara án þess að skerða í nokkru? Hafi ódýrasta samheitalyfið ekki verið notað, sem hefði getað sparað milljónir á einni deild á einu ári eins og mig minnir að ég hafi lesið haft eftir lækni fyrir fáum árum, hvers vegna hefur það ekki verið gert? Hver hefur grætt á því?
Hafa einfaldar leiðir verið farnar í heilbrigðiskerfinu til að spara stórfé?
Tek svo fram að ég á engar tengingar inn á spítala, þakka mínum sæla fyrir að hafa næstum aldrei átt erindi í sjúkrarúm og er eiginlega farin að vona núna að það eigi ekki heldur fyrir mér að liggja að verða gömul. Ég hef vonda tilfinningu fyrir því að eldast nálægt stofnun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 10. janúar 2009
Samstaða
Sumir búa á Hvanneyri, í Stykkishólmi, Trékyllisvík, Víðigerði, Þistilfirði, á Stöðvarfirði, Höfn, Kirkjubæjarklaustri, Flúðum og í Hveragerði og eiga e.t.v. ekki heimangengt til að sameinast hópi fólks sem vill breytt samfélagsástand - inn með gagnsæi og spillinguna burt - en sennilega eru einhverjir sem komast t.d. á Austurvöll í dag kl. 3 til að sýna samstöðu með meiri upplýsingum og réttlátara samfélagi en hafa setið á strák sínum.
Standið upp af strák ykkar og sýnið samstöðu ykkar með betra samfélagi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 10. janúar 2009
Afhjúpun
Borgarfulltrúar og vinir þeirra spjölluðu um tilfinningalega upplifun á fundi um fjárhagsáætlun Reykjavíkur á veraldarvefnum fyrir allra augum og Rás 2 sagði frá því í vikunni. Ég þykist vita að einhverjum finnist ég forpokuð en mér er ekki skemmt. Mér finnst þetta jafn óviðeigandi og ef kennari skrifar þar sem allir geta séð hvað honum finnst um nemendur sína, læknir hvað honum finnst um sjúklinga o.s.frv. þótt ég leggi það ekki alveg að jöfnu.
Ég man eftir starfsmanni á bókasafni sem notaði m.a.s. vinnutímann til að rakka niður yfirmanninn á blogginu sínu og varð síðan ógurlega hissa þegar upp komst og að það mæltist ekki vel fyrir. Síðan eru liðin líklega átta ár. Blogg var ekki mjög almennt á þeim tíma.
En þetta er hjóm miðað við öll þau ósköp sem á íslenska þjóð eru lögð í formi upplýsingaleysis, eiginhagsmunagæslu og þrjósku.
Og ljósi punkturinn að þessu sinni er Orð skulu standa frá síðasta laugardegi þegar hátt í 20 manns tóku þátt í orðaleiknum, m.a.s. Helgi Sæmundsson sem birtist í gegnum loftljósið (heyrðist mér á Hlín). Bráðum tek ég Frey Eyjólfsson í guðatölu, ofan á aðra hæfileika getur hann þóst vera ýmsir menn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 10. janúar 2009
Það er búið að SEGJA allt
Fólk um allt samfélag hefur fært rök fyrir þeirri skoðun sinni að breytinga sé þörf. Hér hafa tíðkast vinaráðningar og frændhygli, fagleysi, gripdeildir og skuldsetningar, heimska, græðgi og fokking ábyrgðarleysi. Einhverjir háttsettir embættismenn hafa áreiðanlega reynst vel að störfum sínum komnir, en þeir eru þá lítt sýnilegir. Þó sá ég út undan mér að Skúli Eggert Þórðarson hjá skattinum fékk blómvönd frá grímuklæddum mönnum í dag, væntanlega fyrir fagmennsku. Ég finn ekki einu sinni fréttina á RÚV-vefnum þannig að kannski var þetta bara draumsýn.
Í vikunni sá ég Ragnheiði Steinunni þjarma svo að formanni stjórnar LÍN í Kastljósinu að smurða GIB-vélin hökti. Og ég set dálítið traust á hana. Gott að Þórhallur, sem sjálfur var fínn spyrill áður en hann breytti sér í inngang, henti henni út í djúpu laugina. Hún er synd. Hún er ekki króna. En ég hef ekki séð hana aftur í Kastljósinu.
Þetta er svo viðskotaillt samfélag sem búið er að breyta okkur í að ég er að reyna að sjá einhverja fokking ljósglætu.
En nú þurfum við að fara að sjá breytingar. Venjulegt fólk er komið með eyrnaverk og þarf að fá bólgueyðandi við barnasjúkdómum á miðjum aldri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. janúar 2009
Borgarar koma saman annað kvöld í Iðnó og fjalla um mótmæli/mótmælendur
OPINN BORGARAFUNDUR #7 í Iðnó fimmtudaginn 8. janúar kl. 20-22
Fundarefni:
Mótmæli (ólík viðhorf, ólíkar aðferðir, sömu markmið?), aðferðafræði mótmæla og borgaraleg óhlýðni.
Frummælendur:
- Hörður Torfason - Raddir fólksins
- Eva Hauksdóttir - aðgerðasinni
- Nafnlaus anarkisti
- Stefán Eiríksson - lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins
Auk þeirra munu a.m.k. Katrín Oddsdóttir, laganemi og talsmaður Neyðarstjórnar kvenna, Sigurlaug Ragnarsdóttir fyrir hönd Nýrra tíma og Þórhallur Heimisson prestur taka þátt í pallborðsumræðum og svara spurningum viðstaddra.
Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra hefur sérstaklega verið boðin þátttaka í pallborðsumræðunum.
Spurulir og forvitnir borgarar eru hvattir til að mæta. Gunnar fundarstjóri hefur margsagt: Við erum viðmælendur.
Við biðjum um upplýsingar, gagnsæi og heiðarleika. Er það frekt?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 6. janúar 2009
,,Við hjá SPRON látum okkur annt um umhverfið ..."
Í dag bárust inn á heimilið þrjú umslög stíluð á sama nafn frá sömu stofnun með yfirliti yfir reikninga hjá þeirri stofnun. Í hverju umslagi var huggulegt bréf um stöðuga leit að leiðum til að draga úr pappírsnotkun.
Sætt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 6. janúar 2009
37 milljónir nettó á ári
Ja, ekki heillaði Bjarni mig í Kastljósinu.
Í allri smeðjunni sem rann viðstöðulaust upp úr honum sagði hann alveg skýrt að hann hefði fengið 37 milljónir á ári þessi 10 ár sem hann vann hjá Glitni, áður Íslandsbanka, líka Fjárfestingarbanka atvinnulífsins [og bráðum aftur Íslandsbanka]. Og ekki hvarflar að mér að hann hafi reiknað inn í sporslur og kauprétt, þetta voru launin á launaseðli - eftir skatta.
Ástæðan fyrir að hann fór fram á yfirverð fyrir hlutina sína við brottför úr bankanum var einfaldlega sú að hann gerði það. Les: græðgi, enda sagði hann líka að græðgi í hófi væri drifkraftur. Og þannig náði hann til sín milljörðum íslenskra króna, óumdeilt. Vissulega er ástæða til að spyrja stjórn bankans hvers vegna hún lét fíflast en það er ekki síðri ástæða til að spyrja bankastjórann fyrrverandi hvers vegna hann gerði það sem hann gerði. Og svarið var undir rós: Taumlaus græðgi.
Alveg er ég viss um að mamma hefur fallið fyrir sakbitnu engilsásjónunni og að þessi góði maður hafi borgað Glitni til baka 370 milljónir - þótt hann hafi haldið eftir nokkrum milljörðum, milljörðum sem hvorki hann né Sigmar spyrill réðu við að telja.
Svo sér þessi gáfaði framsýni [gva!] maður að hann gerði mistök í REI- og GGE-málinu - og roðnaði létt þegar Sigmar bar á hann mistök hins stórkostlega viðskiptajöfurs.
Markaðströllið getur haldið áfram að hekla og stinga upp kartöflur - það heillar mig ekki. Han får prøve å snakke norsk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 5. janúar 2009
Deila um keisarans skegg
Ég er búin að lesa yfir mig af skoðunum fólks, andstæðum skoðunum, ýmsum málefnalega fram settum, mörgum nafnlausum, sumum flokkadregnum og ég skil ekki af hverju pínulítið 315.000 manna þjóðríki, jafn mannmargt og Árósar í Danmörku, getur ekki sameinast um að vinna að því að leysa vandann.
Vandinn er að hér stefnir í talsvert atvinnuleysi, rýrnandi kaupmátt, minni lífsgæði, mikla skuldsetningu og vonleysi hjá einhverjum hópi fólks.
Hvað veldur?
Er það ekki spilling? Er það ekki? Er það ekki spilling þegar menn fá að kaupa fyrir lágt verð eignir sem eru miklu meira virði? Er það ekki spilling þegar menn eru ráðnir til starfa þegar aðrir miklu hæfari bjóðast? Er það ekki spilling þegar logið er að manni til þess að fá mann til að trúa einhverju allt öðru en sannleikanum?
Og hefur þetta ekki viðgengist? Er það ekki?
Ef einhver segir að Jón Jóhannesson eigi að sjá sóma sinn í að sýna rétta breytni og hætta að svína á okkur segir einhver annar að Björgólfur Björgólfsson sé engu skárri og hafi skuldsett okkur í gegnum Icesave. Og þá kemur sá þriðji og segir að Bjarni Ármannsson hafi sloppið best, alla leið til Noregs.
Já, þeir hafa allir skarað eld að eigin köku. Þetta er ekki keppni í spjöllum. Þeir eru allir gráðugir og síngjarnir, en hafa á stundum á sér yfirbragð saumakonunnar eða lyftaradrengsins. Og listinn er ekki tæmdur þar með.
Þótt ég hafi farið til ágæts háls-, nef- og eyrnalæknis í dag - og hrósi honum - þýðir það ekki að aðrir séu lélegir. Eins er ekki endilega Mogginn gott blað þótt ég gagnrýni Fréttablaðið.
Hvaða fólk tapar engu á þessu þráðbeina bankahruni? Óháð heimskreppunni, óháð sakbendingu.
Ekkert fólk. Allir tapa. Meiri verðbólga og minni lífsgæði gera vart við sig hjá öllum. Öllum.
Hverjir mega við því?
Helst þeir sem áttu skuldlausar eignir og annað hvort engan pening eða tilfallandi bara á innlánsreikningum eftir setningu neyðarlaganna 6. október. Mjög blankir mega væntanlega samt varla við kreppunni sem felur í sér minni kaupmátt. Ég á við að þeir sem eru í vinnu og eiga ekki skuldsettar eignir lenda varla í heimiliskreppu til viðbótar.
Það fer ekki eftir endilega eftir því hvar fólk setur krossinn á kjördag.
Það er svo hryggilegt að hér stefni í átök um þann sjálfsagða hlut sem það hlýtur að vera að rétta af kúrsinn. Vilja ekki allir að við náum siglingu og svo landi? Og allir um borð? Vill einhver láta einhvern drukkna meðan hann tryggir sjálfum sér þriðja eftirréttinn við borð skipstjórans á efsta dekki?
Jöfnuður getur aldrei verið fullkominn. Sumir fæðast fallegir, sumir fæðast gáfaðir og sumir fæðast fyndnir. Svoleiðis getur maður aldrei jafnað. Það sem hægt er að tryggja öllum jafnt er tækifæri til menntunar og áhrifa. Suma langar ekki að verða ríkir og það er óþarfi að hía á þá. Það hefur verið gert. Sumir vilja ekki fara í langt nám og það er óþarfi að gera lítið úr þeim. Suma langar að eyða sumarfríinu á sólarströndum, aðra á fjöllum, einhverja í garðinum sínum og kannski vilja sumir geyma sumarfríið til næsta árs og fara þá í lengra frí. Þetta er allt alveg skiljanlegt.
Af hverju í andskotanum mega ekki bara öll helvítis blómin vaxa í friði? Af hverju eru svona margir þess umkomnir að gagnrýna og vanda um við aðra?
Að lokum legg ég til að menn sammælist um að uppræta spillinguna. Og þá þarf að finna hina seku og láta þá gjalda keisaranum það sem keisarans er - skítt með helvítis skeggið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. janúar 2009
Yousave - hverjum?
Tikktakk, tikktakk, tíminn líður hratt á gervigróðaöld. Eftir tvo daga rennur upp hinn örlagaríki 7. janúar, dagurinn þegar þrír mánuðir eru liðnir frá tímasettu upphafi katastrófunnar milli Darlinganna á Íslandi og í Bretlandi.
Skömmu fyrir jól samþykkti þingheimur að kosta einhverju fé upp á málshöfðun á hendur Bretum vegna hryðjuverkalaganna sem svo hafa verið kölluð, þegar eignir Landsbankans í Bretlandi voru kyrrsettar. Ég þarf ekki að rifja svo minnisstæða atburði upp fyrir fólki, svo er Friðrik Þór þjóðfélagsrýnir líka búinn að því.
En ég spyr: Hvað dvelur orminn langa? Varnarsveitirnar reyna að standa vörð um orðspor okkar en forsætisráðherra liggur ekki á.
Eru maðkar í mysunni? Hver ... seifar hverjum? Eiga menn von á því að eitthvað komi upp úr dúrnum sem ekki þoli dagsins ljós?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 4. janúar 2009
Fjölvarpið
Ég ákvað fyrir helgi að segja fjölvarpinu upp. Það er hýst hjá Stöð 2 og mér skilst að hún sé í eigu Jóns Jóhannessonar.
Margur myndi segja að ég væri ágætlega meðvituð um peninga og kostnað. En áskriftin er skuldfærð beint á kortið og mér yfirsáust TVÆR HÆKKANIR á árinu. Í júlí kostaði fjölvarpið mitt 4.009 kr., í ágúst kostaði áskriftin 4.266 kr. (og ég man ekki eftir að hafa fengið tilkynningu) og núna er hún komin í 4.741 kr. Það er 18% hækkun á tæplega hálfu ári.
Ég get vel látið BBC Prime, BBC Food, CNN, Discovery, National Geographic, Cartoon Network, dönsku, sænsku og norsku stöðvarnar á móti mér. Mér fannst gaman að hafa þær en nú eru þeir dagar liðnir.
Ég er hins vegar mjöööög stúrin yfir að Silfur Egils skuli ekki vera á dagskrá í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 2. janúar 2009
Klemensson eða Klemenzson
Nú hefur heimsóknum á vef Seðlabankans ugglaust fjölgað í kvöld. Hingað til hef ég aðallega litið þar inn til að fylgjast með genginu en nú er ég búin að komast að því að þar kennir ýmissa grasa. Ég fann t.d. þetta um helstu verkefni:
- Seðlabankinn skal stuðla að stöðugu verðlagi
- Seðlabankinn skal stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu
- Seðlabankinn gefur út seðla og mynt
- Seðlabankinn fer með gengismál
- Seðlabankinn annast bankaviðskipti ríkissjóðs og er banki lánastofnana
- Seðlabankinn annast lántökur ríkisins
- Seðlabankinn varðveitir og sér um ávöxtun gjaldeyrisforða landsmanna
- Seðlabankinn safnar upplýsingum um efnahags- og peningamál, gefur álit og er ríkisstjórn til ráðuneytis um allt er varðar gjaldeyris- og peningamál
Meginmarkmiðið er þó auðvitað að stuðla að stöðugu verðlagi. Sem minnir mig á að undanfarið hefur allt sem ég kaupi hækkað um 30% eða meira.
Ég fann ekki hvort Ólafur er Klemensson eða Klemenzson, sá hins vegar að vefritstjóra hefur ekki unnist tími til að uppfæra breytingar á varastjórn bankaráðs. Halla Tómasdóttir hætti 20. desember og í hennar stað var kosin án atkvæðagreiðslu Fjóla Björk Jónsdóttir. Alltént sýnist mér sem Fjóla taki strax við af Höllu, sbr. 26. gr. sem vitnað er til:
26. gr. Kjósa skal bankaráð Seðlabanka Íslands að loknum kosningum til Alþingis. Bankaráð skipa sjö fulltrúar kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi ásamt jafnmörgum til vara. Eigi má kjósa stjórnendur eða starfsmenn lánastofnana eða annarra fjármálastofnana sem eiga viðskipti við bankann til setu í bankaráði. Umboð bankaráðs gildir þar til nýtt bankaráð hefur verið kjörið. Láti bankaráðsmaður af störfum tekur varamaður sæti hans þar til Alþingi hefur kosið nýjan aðalmann til loka kjörtímabils bankaráðsins.
Bankaráð velur formann og varaformann úr eigin röðum. Ráðherra ákveður þóknun bankaráðs sem greidd er af Seðlabankanum.
Þetta sýnir bara hvað maður hefur hégómleg áhugamál. Er það zeta eða ekki ...? Og af hverju hætti Halla? Hmm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 2. janúar 2009
Þriggja milljóna tekjutap
Í dv.is er haft eftir Sigmundi Erni að tekjutapið vegna eyðileggingar nemi þremur milljónum króna. Það er dapurlegt.
Við Stöð 2 segi ég: Velkomin í hópinn. Eini munurinn á þér og mér er að ég má ekki persónugera og ekki leita að sökudólgi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 1. janúar 2009
Tímaskekkja krosseldanna
Væri Stöð 2 ekki í lófa lagið að endurtaka umræðurnar í breyttri mynd? Undanfarinn klukkutíma hef ég hlustað á fréttir og lesið fréttir og skoðanaskipti fólks um ágreininginn við Hótel Borg í gær. Það eina sem ég vissi um boðuð mótmæli var það sem ég hafði lesið á moggabloggi sem hafði verið lyft upp í umræðuna. Ég geri þó ráð fyrir að fleiri miðlar hafi verið notaðir.
Nú kvarta ýmsir yfir því að hafa ekki fengið að heyra og sjá forystumennina fara yfir málin og skiptast á skoðunum. Skiljanlegt. En er nokkuð sem bannar sjónvarpsstöðvunum að hafa almennar stjórnmálaumræður annars staðar og kannski tóna íburðinn svolítið niður eins og líka var kallað eftir?
Þá gefst nú aldeilis gott tækifæri til að heyra framhaldið, ekki satt?
Ég man eftir varaþingmanni sem varð kjaftstopp í jómfrúrræðu sinni á þingi, mjög leið yfir því eins og gefur að skilja en svo var tekið við hana fréttaviðtal þar sem hún sagðist hafa svo mikið að segja - lét þó undir höfuð leggjast að nota það góða tækifæri sem þar gafst til að segja það sem henni lá svo mikið á hjarta.
Þótt ég hafi til margra ára horft á Kryddsíldina - enda líklega úrvalsófaskartöflumús - hefur mér aldrei fundist gamlaársdagur dagurinn til þess. Má ég stinga upp á þrettándanum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 31. desember 2008
Auglýsingar voru í aðalhlutverki
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 30. desember 2008
Lítil fyrirtæki sem Jón Ásgeir á ekki
Ég fór í bakarí í dag og spurði: Á Jón Ásgeir nokkuð þetta bakarí? Konan hló við og sagði að hann ætti það aldeilis ekki.
Geta ekki verslanir gert það fyrir mig að merkja sig sjálfstæðar, óháðar og ekki í eigu kaupahéðnanna sem ég vil ekki styrkja með innkaupum mínum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 30. desember 2008
Völva DV
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. desember 2008
Spá - hvað?
Ágiskunardeild Glitnis er byrjuð að spá - og hvernig skyldin spekin hljóða? Spáir helmingslækkun á raunverði íbúða til ársins 2011! Verðlaunum strákinn fyrir að sjá hið augljósa. Tekur hann fram hvert markaðsvirðið er núna? Nei, enda er það ekki til. Við hvað miðast þá lækkunin? Raunvirði í júlí 2008? Eða kannski júlí 2007?
Hefur einhverjum spekúlant dottið í hug að skoða hvernig makaskipti héldu uppi verðinu á árinu sem er að hverfa?
Hefur einhverjum rannsóknarblaðamanni dottið í hug að kanna hvort einhverjir verktakar hafa keypt hver af öðrum að nafninu til bara til að halda uppi verðinu?
Datt einhverjum í hug að á þeim tíma þegar Hannes keypti tvær dýrustu göturnar í matadorinu hafi eigendur í nærliggjandi götum viljað gera eins góða sölu og það, með öðru, átt sinn þátt í bólunni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 29. desember 2008
Hvar er Gallup?
Er til of mikils mælst að einhver fái Gallup til að gera ítarlega skoðanakönnun?
Ég les bloggfærslu eftir bloggfærslu, athugasemd eftir athugasemd þar sem stuðningsmenn allra flokka, fólk úr flestum stéttum og flestum störfum hrópar á aðgerðir gegn óréttlætinu og þjófnaðinum, kallar eftir viðurkenningu á því að rangt hafi verið haft við, biður frómt um sjálfsagða sanngirni og hreingerningu, að kaupahéðnarnir skili ránsfengnum - og þá heyrist holur hljómur að ofan um að við séum ekki þjóðin.
Er þá ekki ráð að fá fram vilja þjóðarinnar, t.d. með 3.000-5.000 manna úrtaki?
Það mætti spyrja:
Viltu láta kjósa til Alþingis í síðasta lagi 1. júní 2008?
Viltu láta Jónas Fr. Jónsson taka pokann sinn?
Viltu láta komast til botns í meintri millifærslu margra milljarða hjá Kaupþingi skömmu fyrir yfirtöku?
Viltu láta ráðamenn svara því hvers vegna þau vissu að í óefni stefndi og gerðu ekkert í því? Viltu spyrja ráðamenn að því hvort þau hafi virkilega ekki vitað 1. apríl að efnahagskerfið hefði tekið kúrsinn lóðbeint niður? Viltu spyrja ráðamenn að því hvers vegna þau rápuðu um allan heim með kaupahéðnunum og auglýstu besta kerfi í heimi, kerfi sem engin innistæða var fyrir, kerfi sem er gjörsamlega gjaldþrota tæpu ári síðar?
Viltu láta kyrrsetja eignir kaupahéðnanna?
-Eins og gefur að skilja er listinn ekki tæmandi og ekki hirði ég heldur um aðferðafræðina að svo komnu máli.
Ég held að til marks um ofsann sem hlaupinn er í marga endurspeglist m.a. í grimmdarlegri umræðu um flugeldasölu. Mér finnst fráleitt að þeir sem ekki kaupa flugelda séu á móti starfi björgunarsveitanna eins og menn láta að liggja. Ef menn hafa áhyggjur af starfinu og eru aflögufærir er þeim í lófa lagið að leggja inn hjá þeim. Persónulega vona ég að ekki dragi of mikið úr flugeldasprengingum og sendi kannski sjálf, aldrei þessu vant, einn kaupahéðin til andskotans vegna þess að áramótagleðin hefur líka aðdráttarafl á útlendinga og ekki megum við við því að letja ferðamenn. Og ég bendi á að undanfarin ár hafa ýmsir aðrir en hjálparsamtök selt flugelda þannig að ágóðinn sem margir hafa áhyggjur af að verði of lítill hefur því miður alls ekki allur runnið til verðugra málefna, heldur beint í vasa lítilla kaupahéðna.
Ætti ekki Gallup að spyrja þeirra spurninga sem brenna á okkur? Á kannski einhver Gallup sem vill þetta ekki? Er Gallup e.t.v. ekki treystandi?
Gagnrýni er holl, aðhald er nauðsynlegt en sífelld tortryggni er mannskemmandi. Því miður er okkur helst boðið upp á tortryggnina og hún er farin að hafa skelfilegar afleiðingar í því upplýsingamyrkri sem leggst yfir okkur.
-Og hér sit ég uppi um miðja nótt eins og vúdústunginn grís og ungbarn með eyrnaverk og SKIL EKKI AF HVERJU ÞETTA GERÐIST OG HELDUR ÁFRAM AÐ GERAST. Ég er hætt að geta sofið almennilega í þessu myrkri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. desember 2008
Glæpasaga sem gerist á Grænlandi
Ég veit um a.m.k. einn mann sem vill segja í Grænlandi. Hehe. En ég tala líka um að hlutir gerist á Íslandi. Tungumálið er ekki alltaf rökrétt enda segi ég að eitthvað gerist í Englandi sem er líka stór eyja.
Mér fannst Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur ekki sérlega beysin þegar ég las hana um daginn og lofaði sjálfri mér því að ég skyldi ekki lesa frekari bækur eftir hana. Hins vegar rak Auðnina á fjörur mínar (og aðrar nýjar skáldsögur ekki) og ég verð að segja að hún var slöttungsmeira spennandi en hin síðasta. Mér finnst framvindan samt stirðbusaleg og ég get ekki skilið af hverju ritari eins og Bella er höfð áfram á dekkinu.
Ég vildi vita hvort lýsingin á litla grænlenska þorpinu er einhvers staðar nálægt lagi. Líf fólksins í þorpinu var verra en dauðinn. Einangrunin dauðadæmir líf þess, tilgangsleysið, doðinn, vonleysið, eymdin - hvað er satt í þessu?
Til að næra málfarspúkann í mér verð ég að halda því til haga að ljótasta villan var á síðustu síðu. Mér finnst eðlilegt að samþykkja ný orð inn í tungumálið, sum staldra stutt við en önnur setjast að. Hins vegar samþykki ég ekki aðfinnsluverðar kerfisbreytingar án tilgangs. Þóra verður hugsi þegar Eyjólfur tala um að spá í einhverju (316) en aldrei áður hef ég staðið Þóru að því að velta fyrir sér orðum, eðli þeirra eða réttmæti. Allt í lagi með það. Á síðustu síðunni segir svo að þær hlakkaði til að fá tækifæri til einhvers. Sögnin að hlakka er persónuleg og eltir frumlagið. Þannig hlakka þær (eða hlökkuðu í þátíð) til hvers sem vera skal. Tilhneiging í þessa átt heyrist vissulega í mæltu máli en við hin íhaldssömu streitumst enn á móti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 26. desember 2008
Frá hverju er afslátturinn gefinn?
Ég þykist vita að margir verslunareigendur í Bretlandi líti svo á að þeir rói aðeins lífróður til að geta haldið verslun sinni gangandi. En mig rekur alltaf í rogastans þegar talað er um 90% afslátt (þótt hann væri bara 50-70%). Hvert var innkaupsverðið, hver var annar kostnaður - og hver var álagningin? Ef söluverðið er 10% af eðlilegu verði hlýtur að vera eins gott að setja bara allt í gám út á götu og leyfa fólki að gramsa og hirða.
Mér gefst trekk í trekk gott tækifæri til að rifja upp gamla sögu úr Andrésblaði:
Jóakim aðalönd, hinn gírugi, opnaði kjólaverslun og setti skilti í gluggann með þeirri áletrun að kjólarnir kostuðu 115 (danskar) krónur. Frúrnar fúlsuðu við þessu í stórum stíl þangað til honum hugkvæmdist að setja annað skilti sem á stóð: Áður 215 krónur, núna 170. Og kjólarnir ruku út.
![]() |
Debenhams með 70% afslátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)