Fimmtudagur, 25. desember 2008
Þarf ég að styrkja Milestone?
Þar sem allt bendir til þess að ég þurfi að leggja Milestone til hluta af sparifé mínu fór ég að grúska í því hvaða þurfalingar þiggja af mér fé. Á síðu félagsins sé ég að það verður 10 ára á næsta ári en frá því í janúar 2008 hefur líklega ekkert gerst sem eigendur eru hreyknir af, a.m.k. hættir afrekaskráin þá.
Karl og Steingrímur Wernerssynir sitja í stjórninni og sjálfsagt er starfsfólkið stolt af því að vera í þessu teymi. Ég vissi ekki um þennan forstjóra Milestones sem var ritari í einkavæðingarnefnd um sölu bankanna:
|
Karli Emil finnst gaman að leika á trompet. Gaman að því. Steingrímur lyfjafræðingur var byrjaður að byggja sér roknavillu í Fossvoginum fyrir rúmu ári. Ekki minna gaman að því. Í Sirkus segir að þau hjónin séu að byggja rúmlega 700 fermetra einbýlishús við Árland 1 og ég hef nýverið heyrt því fleygt að bílaflotinn sé slíkur að í bílskúrnum sé bílalyfta svo hægt sé að stafla. Ég heyrði líka að Steingrímur hefði fimm sinnum þurft að sækja um leyfi til að auka byggingarmagnið úr 230 fermetrum - húsið sem áður stóð þarna og var rifið var víst svo tíkarlega lítið - og það hafi ekki fengist fyrr en í byrjun þessa árs.
Annars átta ég mig ekki á af hverju Sirkus ýkir svona, Árland 1 er samkvæmt Fasteignamati ríkisins bara 540 fermetrar.
Ég er svo óendanlega fegin að spariféð mitt rennur svona til þeirra sem þurfa mest á því að halda.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 22. desember 2008
Sjokk með VR
Ég var að reyna að finna út hverjir sætu í stjórn Mjólku og rakst þá á þau sláandi tíðindi að Gunnar Páll Pálsson væri einn í framboði til formanns Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Hvað á þetta að þýða? Þetta var ekki í sjónvarpsfréttum.
Og hvernig er stjórn Mjólku skipuð? Vefurinn er í vinnslu. Ég er að reyna að átta mig á hvaða fyrirtæki skuli varast. Ég vil ekki versla við Vífilfell en heyrði einhvers staðar að Vífilfell ætti (í) Mjólku. Ég man þegar ég ákvað að versla frekar við Mjólku til að veita MS aðhald og styrkja Ólaf Magnússon sem hafnaði beinstyrkjunum. En nú finn ég ekki neitt gagnlegt um fyrirtækið.
Mér er smám saman að lærast að það er ekki allt sem sýnist í þessum verslunarbransa. Og enginn heldur vöku minni nema ég.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. desember 2008
Hver ákvað að leyfa bíla á Laugaveginum í desember?
Síðunni barst bréf frá dagfarsprúðum miðbæingi:
Þú mátt endilega blogga um helv... bílana á Laugaveginum nú í jólaösinni. Hver í andsk... ákveður það að hafa Laugaveginn opinn fyrir bílaumferð um helgar í desember? Í fyrra gáfumst við upp á því að ganga um Laugaveginn á Þorláksmessu vegna andsk... bílanna. Veðrið var stillt og yndislegt en ekki hægt að labba um vegna bílaútblásturs. Ef þú nennir ekki að blogga um það veistu kannski hver stjórnar opnun/lokun Laugavegar og mátt þá gjarnan segja mér það og ég ætla að hringja.
Ég? Ég veit ekki hver stjórnar þessu. Guð? Hugh Grant? Sandra Bullock?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 21. desember 2008
Stattu upp en sittu á meðan
Ef maður skyldi verða atvinnulaus og alls ekki fá aðra vinnu gæti hann reynt að nýta tímann til að endurmennta sig. Hann gæti líka nýtt tímann til að horfa á Skjá1 og sjálfsagt fleira. Ef Ísland gengur t.d. í Evrópusambandið gæti snögglega orðið brýn þörf fyrir þýðendur.
Nú berast þau boð að framlög til menntamála skuli skert, fólki þannig ekki gert kleift að nýskrá sig í t.d. Háskóla Íslands og á sama tíma er einhver sem hvetur fólk til að skrá sig ekki atvinnulaust og þiggja (held ég) 136.000 á mánuði til varanlegrar eignar heldur mennta sig frekar til framtíðar og þiggja endurkræf námslán.
??
Hlustaðu með eyrnatöppum. Sofðu meðan þú vakir. Lestu autt blað. Borðaðu það sem úti frýs - og smjattaðu á góða bragðinu!
Já, mér finnst þversögn í því að hvetja fólk til að mennta sig um leið og alls staðar er dregið úr öllum möguleikum til þess.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 20. desember 2008
Maður ársins
Í mínum augum er Vilhjálmur Bjarnason maður ársins, a.m.k. í viðskiptalífinu. Vilhjálmur talar fyrir minn munn (þótt hann sé reyndar fagfjárfestir) og á þessum síðustu árum þegar viðskiptalífið hefur yfirtekið annað líf hefur Vilhjálmur haldið sjó af yfirvegun og kurteisi. Hann hefur talað fyrir daufum eyrum og ef hann knýr fram réttlæti á fyrrum bankastjóra Glitnis, bráðum Íslandsbanka aftur, er stór björn unninn í réttlætisstríðinu.
Áfram Vilhjálmur!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. desember 2008
Ég játa sekt mína
Ég hélt lengi vel að Bónus væri vinur litla launþegans. Og ég held reyndar að Jóhannes hafi farið af stað með sæmilega göfugan ásetning um að lækka vöruverð.
Samt átti ég að hafa vitkast fyrir löngu, ég vissi nefnilega að Bónus neyddi suma framleiðendur til að selja sér vöru undir kostnaðarverði. Já, Bónus kom sér í þá stöðu að geta það. Það leiddi til þess að minna forhertir kaupmenn keyptu sömu vöru á langtum hærra verði og selja okkur hana þar af leiðandi á mun hærra verði.
Það getur vel verið að Kaupás sé líka ósvífið fyrirtæki eins og einhverjir segja. Ég veit bara að það er mikil raun að þurfa að fara út í búð vegna þess að hér er nánast engin alvörusamkeppni. Og hvernig ætti það líka að vera, við erum fákeppnismarkaður. Rúmlega 300.000 manna (mál)samfélag stendur ekki undir mörgum bönkum, mörgum þjónustufyrirtækjum, mörgum matvöruverslunum, mörgum fjölmiðlum. Þess vegna þarf að standa við bakið á samkeppninni með dreifðu eignarhaldi og virku aðhaldi/eftirliti.
Ég er líka nýbúin að rifja upp verðstríðið um mjólkina sem Bónus og Krónan háðu. Hahh, hvernig gat fólki dottið í hug að það bætti stöðu þess að geta keypt mjólkurlítra á 1 krónu í nokkra daga? En umræðan var á þann veg, eins og þetta væri sending að ofan frá hinum góða sjálfum. Þetta snerist hins vegar allt um að reyna að hanka viðskiptavininn.
En nú hef ég vitkast, ég er hætt að kaupa inn í Bónus og ég mun hætta að versla við Baug jafnóðum og ég veit hvaða búðir hann á.
Það þarf að treysta samkeppnina.
![]() |
Kemur ekki á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 18. desember 2008
Ég spara!
Og mér var refsað fyrir það með niðurfellingu 29% sparifjár míns í Íslenskum verðbréfum - sem ég hef ekki séð staf um í fjölmiðlum. Og nú hefur verið skotið á loft þeirri hugmynd að skylda mig til að spara í þrjú ár og nota sparnaðinn til að fjármagna bankana!
Er ekki allt í lagi með fólk?
Hugmyndin er náttúrlega svo fjarstæðukennd að venjulegt fólk hefur ekki einu sinni fyrir að hneykslast á henni.
Mér hefur helst verið legið á hálsi fyrir að fara of vel með. Að skikka mig til að spara er eins og að mála svertingja með kolum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 18. desember 2008
Krosseignatengsl, ástarsamband viðskiptalífs og stjórnmála, skuldabréfavafningar og skatturinn
Ég hef ekkert þrek í að útlista borgarafundinn í smáatriðum. Gunnar Axel Axelsson, Óli Björn Kárason og Jakobína Ólafsdóttir voru frummælendur og til svara voru síðan þau og Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.
Mér fannst Gunnar Axel grímulaus í skoðunum sínum á óhæfi Byrs og margra annarra fyrrverandi sparisjóða sem hafa látið samfélagshugsunina lönd og leið. Stofnfjárfestar sem svo eru kallaðir núna voru áður kallaðir ábyrgðarmenn og höfðu fyrst og fremst táknrænt hlutverk. Meiningin var aldrei að gróðapungar tækju sér arð úr sparisjóðunum. Mér er málið sérlega hugleikið þessa dagana því að eitthvert útlit er fyrir að Íslenskum verðbréfum/Byr takist að knésetja mig og kúga til að sætta mig við 71% útgreiðsluhlutfall úr peningamarkaðssjóði og afsala mér frekari hlutdeild með undirskrift - ella er undir hælinn lagt hvað og hvort og þá hvenær eitthvað verður greitt út. Í einkasamtali við annan fundargest eftir fundinn kom okkur saman um að sparisjóður væri illskásta viðskiptabankaformið að svo stöddu. Svo mikið er fokið í flest skjól.
Óli Björn skóf heldur ekkert utan af því þegar hann útlistaði hvernig Jón keypti í Jóni og seldi síðan Jóni Jón (auðvitað táknrænt nafn að mínu vali). Hann sagðist hafa sofið á vaktinni en væri farinn að rumska. Þegar fyrirspurnir hófust spurði Eiríkur Stefánsson, óþreytandi áhugamaður um breytt fiskveiðistjórnarkerfi, hvort hann hefði ekki sofið fullfast meðan kvótakerfið var fest í sessi með rangindum. Óli sagðist vilja breyta ýmsu í viðskiptalífinu þrátt fyrir að aðhyllast augljóslega almennt frelsi, en hann væri hlynntur kvótakerfinu. Tilfinning mín var eindregin sú að hann ætti sér formælendur fáa í þeim efnum. Einn hnykkti á spurningu Eiríks og sagðist undrast það að frjálshyggjumaður eins og hann sætti sig við kerfi sem væri skuldsett um 500 milljarða umfram stál og steypu.
Ætli þurfi ekki sérstakan borgarafund um fisk og ný atvinnutækifæri?
Nú er ritþrek mitt að syngja sitt síðasta í bili. Mér tókst að draga karl föður minn á fundinn og honum þótti bara gaman (sem mér fannst heldur vond viðmiðun) en mest gaman held ég að honum hafi þótt að hitta Einar Má Guðmundsson sem bjó í götunni okkar þegar ég var krakkaskratti.
Es. Merkilegt, RÚV segir að fundurinn hafi verið í Háskólabíói - er önnur nákvæmni eftir þessu?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 17. desember 2008
,,Þessi drengur"
Nú ætla ég að taka upp þykkjuna fyrir Jón Bjarka Magnússon, fyrrverandi blaðamann á DV, sem ég þekki ekki neitt. Ef menn geta ekki lagt nafn hans á minnið geta þeir vísað til hans sem blaðamannsins, kannski litla blaðamannsins í anda litla Landssímamannsins í ljósi sögunnar en þessi drengur er orðinn þreyttur orðaleppur.
Það finnst mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 16. desember 2008
Deyr ekki DV drottni sínum (hver er sá drottinn?) án frekari aðkomu okkar?
Þarf eitthvað að ræða það frekar? Trúverðugleikinn gufaði upp. Ég viðurkenni að ég hélt að Reynir væri nagli. Ég hafði rangt fyrir mér. Ég skal axla ábyrgð og lofa að hætta að lesa DV.
Það er reyndar eitt sem ég vildi ræða, dreift eignarhald fjölmiðla. Menn virðast gleyma því aftur og aftur að við búum ekki í mjög heilbrigðu samkeppnisumhverfi - það gerir mannfæðin. Það er og verður alið á tortryggni í garð fjölmiðla og banka áfram og áfram og áfram nema ramminn verði skýr - dreift eignarhald.
Hvað dvelur orminn langa?
![]() |
Reynir biðst afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. desember 2008
Ég þekkti einu sinni heildsala
Ætli það séu ekki svona 10 ár síðan ég var í mjög góðu vinfengi við heildsala í Garðabæ. Hann fór aldrei í Bónus nema tilneyddur vegna þess að Bónus kúgaði hann og fleiri sem hann þekkti til að selja sér vörur undir framleiðsluverði. UNDIR framleiðsluverði, ég veit allt um það.
Af hverju sætti hann sig við það?
Vegna þess að Bónus var með svo mikla markaðshlutdeild.
Og hvað gerðist?
Heildsalinn lét litlu búðirnar borga mismuninn.
Og hvað meira gerðist?
Kaupmennirnir í litlu búðunum fóru stundum í Bónus og gerðu magninnkaup vegna þess að varan var ódýrari þar en hjá heildsalanum. Heildsalar hafa engin samtök, er það nokkuð?, og litli neytandinn hefur ekki öflug samtök. Niðurstaðan er að við töpum öll.
Og höldum áfram að mæna aðdáunaraugum á rustann með verðsvipuna. Líka ég. Með tár í augunum. Hann er ódýrastur - sama hvað það kostar. Jón Gerald segir að Bónus stingi 2-3 milljörðum á ári í vasann. Hvað veit ég? Aðallega veit ég að virkt aðhald og eftirlit á Íslandi er í molum, núna líka DV og kannski m.a.s. Útvarp Saga.
Hvað veit ég þegar ég fæ ekki upplýsingarnar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 15. desember 2008
Táknrænt afrán
Þegar hátekjuskattur var við lýði minnir mig að mér hafi þótt hann hafi miðast við helst til lágar tekjur. Það kann þó að vera misminni, svo langt er síðan hann var afnuminn.
Hvað eru margir Íslendingar með meira en milljón á mánuði? Ef þeir borguðu 50% - þótt ekki væri nema af því sem er umfram milljónina - gæti munað nógu mikið um það til að lyfta persónuafslættinum þannig að skattleysismörk færu í 150.000 kr.
Eða hvað?
Lágtekjufólk hefur alveg lyst á táknrænunni.
Sjálf gæti ég vel borgað táknrænan hátekjuskatt - ef ég vissi að bomburnar borguðu sinn skerf.
Hvernig er það annars með eldflaugarnar [t.d. Bjarna, Björgólf og Jón] sem borga í mesta lagi táknrænt útsvar - nýta þær sér ekki samfélagslega þjónustu eins og gatnagerð og skóla?
Ó, var ég kannski ósanngjörn núna við þessa greiðviknu einstaklinga sem borga í krónutölu meira en ég og mínir líkar, bara af svo gríðarlega miklum ránsfeng? Í dag var rætt um fjárlög næsta árs og miðað við það sem ég hef fleytt ofan af umræðunni virðist eiga að skerða samfélagsþjónustuna mest. Ég kýs að þakka Jóni, Hannesi, Björgólfi, Bjarna og e.t.v. Kristínu það.
Er ekki kominn tími til að þau sem kostuðu okkur stórfé borgi það til baka? Var gerningurinn e.t.v. bara táknrænn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 15. desember 2008
Gullfóturinn í Esjunni
Í Grapevine, íslensku mánaðarriti á ensku, er aðsend grein frá útlendingi sem stingur upp á því að við sækjum gullið hans Egils Skallagrímssonar - sem er sjálfverðtryggt - og nýtum til að hífa okkur upp úr efnahagsöldudalnum.
Þetta finnst mér stórfyndin tillaga og minnir mig umsvifalaust á önnur hulin verðmæti, t.d. í Mosfelli þar sem einn fornaldarríkisbubbinn á að hafa látið þræla sína fela kistu fulla af gulli og drepið svo og í Skógafossi þar sem önnur gullkista marar víst á botninum.
Grömsum bara í öllu og leitum að gulli og silfri, kannski bara olíu í leiðinni ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. desember 2008
Saga af nýjum bíl og númeraplötunni hans - stöðutákninu
Þessa sögu heyrði ég fyrir hálfum mánuði:
Vinkona mín bakkaði pent á bíl og brá. Hún snaraðist út og sá sér til mikillar lukku að ekki sá á bílnum sem hún hafði rekist mjúklega á. Bílstjórinn kom út úr hinum bílnum og varð ekki eins kát og vinkona mín, þvert á móti varð hún snefsin og sagði:
Það hefur kvarnast upp úr númeraplötunni og ég vil fá nýja.
Vinkona mín hélt að hún væri að grínast.
Svo var ekki og þær skiptust á símanúmerum. Þegar vinkona mín keyrði í burtu hringdi hin í hana og spurði hvort hún næði ekki örugglega í hana í þessu númeri. Bíllinn var nefnilega bara hálfs mánaðar gamall og hún vildi ekki hafa númeraplötuna svona.
*gisp*
Spurningin er: Hvaða fyrirmenni íslensku bankasögunnar á svona góða konu á svona nýjum bíl í nóvemberlok 2008?
Engin verðlaun eða umbun af neinu tagi í boði fyrir rétt svar. Ég veit að nú liggja 30 manns undir grun og bara einn sekur en ég læt mig hafa það.
Rétt er að taka það fram að hún hefur enn ekki hringt til að heimta aur fyrir viðgerð á númeraplötunni.
Þessa sögu höfum við nú sagt nokkrum sinnum í góðu hófi og það hefur þráfaldlega verið rifjað upp að stuðararnir eru ekki skraut á bílum heldur græjur tl að taka bömpið af bílum. Í þéttbýlum borgum leggja menn t.d. í þröng stæði með því að ýta öðrum bílum mjúklega til á stuðurunum. Og hver tekur eftir því ef það kvarnast upp úr númeraplötunni?? Vissast að taka fram að á plötunni var ekki nafn eins eða neins, hún var bara venjuleg númeraplata.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 13. desember 2008
Æfing í þögn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 11. desember 2008
Fjölmiðlarnir og glæpsamlegur ásetningur þeirra
Ég er að reyna að venja mig af hrekkleysinu en gengur ekki nógu vel. Fólk andskotast mikið út í ýmsa fjölmiðla, t.d. Fréttablaðið fyrir að leyfa Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eiganda sínum, að birta þar langa aðsenda grein eina helgina, varnargrein fyrir sjálfan sig. Burtséð frá sannleiks- og upplýsingagildi hennar finnst mér hugsanlega að kalla megi þjónustuna góða af því að sú grein kallaðist á við greinina hennar Agnesar í Mogganum sama dag um Stoðir og Flog og Fons og FS39 og Kvakk og Ripp, Rapp og Rupp eða hvað þau heita öll, þessi fyrirtæki sem kaupa og selja í sjálfum sér, algjörlega ópersónulega.
Ég hef lært að efast um heilindi Jóns þessa. Mér dettur ekki í hug að Hagkaup - í eigu hans - sem ætlar að lána skuldugum heimilum jólin fram á vor geri það af óeigingjörnum hvötum. Mér dettur ekki í hug að hann eða pabbi hans hafi stofnað búðakeðju til að gera okkur hinum greiða. Mér datt það einu sinni í hug, það var meðan Bónus var bara í Skeifunni.
Það er búið að venja mig af slíkri trú.
Ég les líka að nú eigi að hlaupa undir bagga Moggans af því að hann verji viss sjónarmið. Agnes Bragadóttir skrifar í Moggann, oft og mikið og hefur gert lengi, og skrifar ekki sérlega mikið undir rós. Halldór Baldursson teiknar eitraðar myndir í Mogganum. Mogginn birtir aðsendar greinar þar menn skafa ekki utan af því og Mogginn birtir líka dánartilkynningar og minningargreinar sem önnur blöð birta ekki.
En ég er samt farin að lesa Moggann með kíki þess sem efast.
Ég sagði honum upp með viðhöfn fyrir nokkrum árum. Því miður ekki með þeim göfuga ásetningi að sækja mér sannari og betri fréttir annars staðar. Nei, álímdu auglýsingarnar á forsíðunni gat ég ekki þolað. Ég les hann næstum daglega. Bara núna upp á síðkastið úr gagnrýninni fjarlægð.
Vinstrimenn gagnrýna RÚV fyrir að draga taum hægrimanna og hægrimenn gagnrýna RÚV fyrir að draga taum vinstrimanna. Einn útvarpsstjóri kallaði Spegilinn Hljóðviljann. Annar útvarpsstjóri les fréttir frítt.
Það er ekkert ókeypis og við erum a.m.k. búin að læra það að undanförnu. Ekki heldur fréttalestur í óþökk undirmanna.
Fjölmiðlalögin voru sett og afnumin 2004. Þá var talað um dreift eignarhald, kannski líka um gagnsæi. Í Noregi var fjölmiðlafrumvarp í vinnslu í fjögur ár en hér í fjórar vikur eða kannski fjóra mánuði. Enginn fjölmiðill hefur rifjað það upp fyrir mér nýlega og ég er byrjuð að gleyma því. Það átti að tryggja dreift eignarhald en þegar ekki tókst að setja fjölmiðlalög á einhvern tiltekinn hátt var bara bakkað út úr öllu í fjögur ár. Og kannski fjögur til viðbótar. Út af því að einn sagði nei og annar veiktist, var það ekki?
Og nú veit enginn hver á hvaða miðil. Jú, kannski í dag en sko ekki á morgun.
Meira að segja DV er byrjað að dissa Silfur Egils og ég sem hélt að þeir Reynir væru saman í andófi gegn spillingunni.
Bankarnir áttu líka að vera í dreifri eignaraðild en kannski er það fjölmiðlunum að kenna að niðurstaðan varð einhver allt önnur. Og nú á hr. Ríki þrjá viðskiptabanka og velur sér bankastjóra með hr. Geðþótta. Þessi herra gæti verið kona mín vegna. Ekkert er lengur það sem sýnist.
Ég er búin að ná því með erfiðleikum að fjölmiðlarnir eru skúrkar og allir að reyna að ljúga að okkur og þá er bara tvennt sem ég á eftir að fá einhvern botn í.
Er ég ekki örugglega ábyrg? Ætti ég að byrja að horfa á Skjá1?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 11. desember 2008
Það er ekki nóg að hlutirnir séu réttir, þeir verða LÍKA að bera það með sér
óskast - GAGNSÆI - HEILINDI - RÉTTLÆTI - SANNGIRNI - LÖGHLÝÐNI - RÉTTMÆTI - óskast
óskast óskast óskast - UPPLÝSINGAR - óskast óskast óskast
Ég efast ekki eitt augnablik um að hinn nýi bankastjóri Glitnis sé óhæf um að gegna fjármálastarfi í ljósi þess að hún annað hvort lét undir höfuð leggjast að fylgja kaupum sínum á hlutabréfum eftir eða hún dró þau viljandi til baka og þykist hafa verið ótrúlega heppin.
Hvernig geta menn treyst manneskju fyrir peningunum sínum sem - að því er virðist - sinnir ekki tugmilljónum sjálfrar sín? Eða tugmilljónaskuldum? Tjah, a.m.k. ekki þeir sem fordæma fé án hirðis ... og jafnvel gengur fram af fleirum.
Fjármálaeftirlitið hefur lagt blessun sína yfir gjörning nýja bankastjórans. Ha? Ég þarf að skrifa þetta aftur. FJÁRMÁLAEFTIRLITIÐ LAGÐI BLESSUN SÍNA YFIR ÞAÐ AÐ HLUTAFJÁRKAUPANDI UPP Á TÆPAR 200 MILLJÓNIR TÓK EKKI EFTIR EÐA LÉT SÉR Í LÉTTU RÚMI LIGGJA HVORT GREIÐSLAN FÆRI ÚT AF REIKNINGNUM.
Ég skal ekki þykjast vera þjóðin en stillt fólk í nærumhverfi mínu er alveg að tapa sér yfir þessu.
Og þetta er bara brot af því sem manni ofbýður um þessar mundir. Eitt af því merkilega sem gerist núna er að maður efast um allt. Ekkert verður sjálfgefið lengur. Tortryggnin verður manns besti vinur.
Ef ég væri viðskiptavinur í Glitni myndi ég drífa mig þangað í síðasta skipti. Því miður get ég ekki sýnt andúð mína þannig, ég hefði líka verið löngu farin með viðskiptin frá Bjarna Ármannssyni á sínum tíma ef ég hefði átt nokkurn aur í fórum hans.
Fyrir fáum árum var hávær umræða um að viðskiptavinir í a.m.k. Glitni og Kaupþingi borguðu há þjónustugjöld og að vaxtamunur milli innlána og útlána væri svimandi - en þá sagði Sigurður Einarsson ef mér skjöplast ekki að mestar tekjurnar féllu til í útlöndum. Það var líklega frekar svar við gagnrýni á há stjórnendalaun. Mikið hefði verið indælt ef fjölmiðlar hefðu verið eins öflugir og þeir eru í netheimum núna. Útbreiðsluhraði skoðana vegur þungt og ef skíturinn sem kemur undan steinunum sem menn velta núna um allt verður skoðaður er það áreiðanlega út af virku aðhaldi fólks úti í bæ - kjósendum.
Enn er ég í viðskiptum við SPRON en er alls ekki rótt. Það er búið að ala upp í mér efasemdir um heilindi nokkurs banka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 10. desember 2008
Íbúð til sölu
Í ljósi þess að nú boða ýmsir að útrásarvíkingarnir sem settu landið á hausinn ætli að koma sem frelsandi englar og kaupa verðmætin fyrir slikk langar mig að vekja athygli á fallegri íbúð í Skuggahverfinu sem einn af minna þekktu útrásarvíkingunum á víst.
Mig hálfvantar íbúð og langar að búa í 101 og hafa gott útsýni og miklar sólarsvalir þannig að ég ætti trúlega að bjóða í hana. Hún er 165 fermetrar og verðlögð á 85 milljónir sem þýðir 515.000 krónur á fermetrann.
Vandamálið er þó margþætt, ég hef ekki efni á svo dýrri íbúð, ég vil ekki borga svo hátt fermetraverð og er ekki viss um að banki vildi veðja á greiðslugetu mína. Ráðið við því - ef mér yfirleitt líst á hana þegar ég kem á staðinn - er að bjóða niður eins og ég held að Jón Jóhannesson, Hannes Smárason, Bjarni Ármannsson o.fl. muni gera innan tiltölulega skamms.
5% af ásettu verði er rúmar 4 milljónir. Vill einhver koma með mér að skoða um helgina?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 9. desember 2008
Ég fékk póst frá útlenskum launagreiðanda
Dear Berglind,
Our bank has indicated that there has been no change in the banking
relations between our countries.
Our bank has indicated that you must create an account in another country if
you want to receive your payment!
Og kjáninn ég hélt að þegar gjaldeyrishöftin voru sett á og fólk eindregið hvatt til að koma heim með gjaldeyrinn hefði líka verið sett undir þennan leka. O svei, nú fer ég að láta af einfeldninni.
Praktísk spekúlasjón, ef ég stofna reikning í Danmörku og þýðingalaunin verða lögð þar, ég geymi evrurnar þangað til ég þarf að nota þær í útlöndum - hvernig ætla þá íslensk stjórnvöld að sjá til þess að ég borgi af þeim skatt? Fjandakornið, ekki ætlast þau til að ég hafi fyrir því LÍKA.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 8. desember 2008
Borgarafundur á aðventu
Kemur okkur við hvernig lífeyrissjóðir ávaxta okkar pund? Kemur okkur við hvernig verkalýðsfélögin halda á okkar málum?
Tækifæri gefst til að vera hlutlaus áhorfandi eða spurull áheyrandi í Háskólabíói. Við getum líka haldið áfram að skipta okkur ekki af því sem kemur okkur við.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)