Aldrei fór ég á Nasa

Fyrr en í kvöld. Og ég varð smáborgaralega hrærð. Ég hef iðulega farið á borgarafundi áður, t.d. um skipulagsmál, en hitinn í kvöld, málefnaleg þrungni, framfaraviljinn, lýðræðisviljinn ýtti við smáborgaranum í mér og kom honum á hreyfingu.

Ég er ekki í þeirri stöðu að vera að missa allt mitt og get ekki alveg sett mig í þau spor en margir hljóta að vera þar - en ná því samt að sýna yfirvegun, einblína á málefnin og setja mál sitt skýrt fram. Vissulega missa sig einhverjir en ef maður ætlaði að gera það að aðalatriði er það eins og að fá 49 jákvæð svör í kennaramati og muna bara eftir þessu 50. þar sem stóð: Hefur hlustað einum of oft á Always look at the bright side of life.

Í kvöld voru fjórir frummælendur, öll einstök eins og á þeim síðasta, laugardaginn 8. nóvember. Svo sátu fyrir svörum fjölmiðlungarnir Arna Schram, Egill Helgason, Broddi Broddason, Reynir Traustason, Karl Blöndal, Ólafur Stephensen og Sigmundur Ernir Rúnarsson. Öll held ég að hafi fengið gagnrýni - sem fjölmiðlungar - kannski ekki bara málefnalega en áreiðanlega að mestu leyti. Og nú mun ég fylgjast spennt með umfjöllun um hin ýmsu mál, verðtryggingu, kvótamál, umhverfisvernd, drottningum og ráðamönnum. Ólafur sagði t.d. að í fyrramálið yrði fjallað í Morgunblaðinu á mannamáli um verðtrygginguna og hvaða áhrif hún hefur á lán fólks. Ég ætla að lesa þá grein.

Pallborðið á Nasa

Á sjötta hundrað var sagt í 10-fréttum sjónvarps

Ég kemst í Háskólabíó á mánudaginn og ætla sannarlega að fara.


Edduverðlaun hvað?

Mér er slétt sama þótt RÚV leggi hálft sunnudagskvöld undir uppskeruhátíð kvikmyndagerðarmanna. Mér á jafnvel eftir að finnast forvitnilegt að heyra niðurstöðu mógúlanna, enda er ég búin að sjá tvær mjög góðar íslenskar myndir í ár, Sveitabrúðkaup og Reykjavík - Rotterdam.

Þar sem verðlaunin eru samt óhjákvæmilega huglæg að miklu leyti - ég meina, smekkur verður ekki mældur í sentímetrum - er ég logandi hrædd um að hin ljúfmannlega Eva María fái verðlaun sem sjónvarpsmaður ársins, kannski af því að Egill Helgason (Silfrið) og Jóhannes Kr. Kristjánsson (Kompás) þyki of miklir naglar. Af hverju eru aðeins þau þrjú tilnefnd? Í sumum flokkum eru fimm tilnefningar. Og ástæðan fyrir að það mun þykkna í mér ef Eva María uppsker þarna er að ég GET EKKI GLEYMT ÞEGAR HÚN TÓK ÞAÐ Í MÁL AÐ KIPPA BJARNA ÁRMANNSSYNI Í DÚKKULÍSUVIÐTAL Í ÞÆTTINUM SÍNUM Í FYRRA. Í marga daga var búið að auglýsa viðtal við einhvern prest en þegar Bjarni þurfti að skúra ímynd sína út af REI-málinu var Eva María fengin til að taka viðtal við hann um prjónaskap, kartöflur og foreldra hans.

Bjarni hefur aldrei virkað vel á mig þrátt fyrir mikla áferðarfegurð en elskuleg mamma mín féll alveg í stafi yfir því hvað hann væri vænn og vænn og vænn.

Þetta viðtal get ég aldrei fyrirgefið henni Evu Maríu þótt hún sé bæði klár og almennt vel gerð. Ég hef getað horft á sum viðtöl hjá henni síðan en ég valdi sannarlega Dagvaktina á Stöð 2 meðan ég átti auðvelt með það. 


Lottó- og útburðarauglýsingar

Löngum hafa mér leiðst auglýsingar Lýðs lottóvinningshafa. Smekkurinn er bara svona misjafn. Núna finnast mér þær orðnar mannskemmandi og áðan hjólaði ég næstum á í bræði minni þegar hann gortaði af einkastúdíóinu sínu.

Af allt öðrum toga eru auglýsingarnar frá Póstinum. Hver keppir við Póstinn um útburð bréfa? Til hvers auglýsir hann? Og hvar er sá heimski markhópur sem þær auglýsingar eiga að höfða til? Ekki þekki ég það fólk.

Nú ætla ég að gera eitthvað mannbætandi meðan umræður ganga á Alþingisrásinni, t.d. finna út hvenær best verði að vísítera í Brussel og rifja upp hvernig gengi og stýrivextir eru á ensku. Og kannski finna gengið sjálft.


Stress út af laugardeginum

Ég er á tauginni, ég er búin að taka að mér að vera enskumælandi leiðsögumaður í fjölþjóðlegum hópi á laugardaginn. Við förum upp á Langjökul (í 10 stiga frosti) - ætli mér verði hent ofan í sprungu og mokað yfir? Hvernig á ég að heilsa? Hvað á ég að segja mikið um Icesave? Vera bara kuldaleg?

Brrrrr.

Ætli launin verði síðan tekin af mér eða þau fryst?


Menn grýta grjóti

Menn grýta ekki eggjum, tómötum eða skyrdósum. Sögnin að grýta er skyld nafnorðinu grjót. Við vorum í dag að reyna að finna sambærilega sögn fyrir að kasta eggjum - en eggja nær því ekki ... Tengingin er samt nokkur þar sem hægt er að eggja einhverja til verknaðarins.

Svo vitum við ekkert hvað gerist um næstu helgi. Kannski verður blómað, ha?

 


Kona fer til læknis - eftir Hollending

Í Neon-klúbbi Bjarts eru gefnar út nokkuð margar bækur á ári, aðeins of margar til að ég komi því í verk að lesa þær með öllum hinum sem ég vil líka lesa. Þess vegna tók það mig hálft árið að byrja á Kona fer til læknis eftir Ray Kluun. Svo lagði ég hana til hliðar til að lesa nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar.

Bók Hollendingsins er lestursins virði. Hún minnir mig að sumu leyti á Once were warriors vegna þess að þótt Stijn breyti hroðalega rangt getur maður að sumu leyti skilið hann, og líka Carmen sem lætur svívirðilega hegðun hans yfir sig ganga. Undarlegur andskoti hvað maður kóar þar sem og þegar síst skyldi.


Myrká eftir Arnald Indriðason

Svo meðvirk er ég að ég rauk í búð í vikunni til að kaupa nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar. Ég er alveg sérlega meðvirk í því að höndla ekki minna en ég á að mér - þar sem ég hef aldrei keypt bók eftir hann áður, hins vegar oft eina bók í nóvembermánuði til að lesa strax.

Kannski hafði áhrif á mig að Katrín Jakobsdóttir mælti með henni í Mannamáli á sunnudaginn var. Kannski var það minningin um að hafa beðið lengi eftir að fá síðustu bókina hans á bókasafninu (Konungsbók) og verða fyrir vonbrigðum. Kannski bara þetta hagstæða verð, 3.590 kr.

Hún er tæpar 300 síður og mér þótti hún sein í gang, eftir á að giska 230 síður þótti mér hún verða vitund spennandi. Ég ber hana saman við bestu bækurnar hans, Grafarþögn og Dauðarósir, og það er eiginlega bara í lokin sem hann nær sér á sitt besta strik, þegar hann gerir skil glæpnum sem olli glæpnum.

Mér finnst Arnaldur nefnilega góður í samfélagsrýninni.

Ég þekki svo marga sem eiga eftir að lesa Myrká að ég voga mér ekki að ljóstra neinu upp, segi bara að mér finnist hún lesandi en varla eigandi. Kannski ég gefi hana bara ...


Eru tífaldar atvinnuleysisbætur hæfileg hæstu laun?

Fullar grunnatvinnuleysisbætur nema kr. 6.277 á dag eða kr. 136.023 að jafnaði á mánuði miðað við 1. feb. 2008.

Svo segir á vef Vinnumálastofnunar. Er það EES sem bannar okkur að ákveða einhver hæstu laun í einkageiranum? Ef fólk getur lifað af þessari upphæð að frádregnum sköttum hvað hefur þá fólk að gera við meira en milljón á mánuði?

Frelsið er vandmeðfarið, það hefur sýnt sig, og þess vegna ákveð ég að ögra Orra svona ...


Fjármagnstekjuskattur af Icesave

Nú er ég búin að heyra þessa spurningu tvisvar í útvarpi: Hvort fengu Íslendingar eða Bretar fjármagnstekjuskatt af Icesave-reikningunum?

Ég veit ekki til þess að svarið hafi komið í fjölmiðli, a.m.k. hef ég engar spurnir haft. Einhver?


Baggalútur - Nýjasta nýtt

Nú virka ég dálítið nísk á mig. Mér finnst Baggalútur æði og sá getið um nýjasta diskinn á síðu Baggalúts sjálfs. Á tónlistarvefnum er hann kynntur á 1.600 en í bókabúð kostar hann 2.800 (Skífan var lokuð í dag). Er ekki fullmikið að borga 1.200 (næstum helminginn af kaupverðinu í búð) fyrir diskefnið og umbúðir?

Æ, ég sef á þessu í nótt.


80 milljarða lánið frá Norðmönnunum

Einhvern tímann í morgun gat ég ekki munað hvort Norðmenn ætluðu að lána Íslendingum (íslenskum stjórnvöldum?) 80 milljarða íslenskra eða norskra króna. Tölurnar eru orðnar svo háar að ég missi stundum vitið. Þegar ég var svo búin að ganga úr skugga um að norsku krónurnar eru 4 milljarðar og þær íslensku þá 80 milljarðarnir sá ég glögglega að lánið mun nokkurn veginn dekka meintar skuldir stjórnenda Kaupþings og Glitnis.

Eru þær ekki 39 + 37, eða svo?

Og aftur rifjaðist upp rosasalan á Símanum 2004, 66,5 milljarðar! Lægra verð en lánin til lykilstarfsmanna bankanna hljóða upp á.

Það er skipulega unnið að því að skemma í mér verðskynið. Mér finnst t.d. orðið í lagi að borga 110 krónur fyrir mjólkurlítrann hjá kaupmanninum á horninu.


,,[bíp] skilaði tapi"

Allt í einu tók ég eftir þessum tveimur orðum í fyrirsögn, man ekki um hvaða fyrirtæki var rætt og man ekki í hvaða prentmiðli ég las það í gær. En hver vill ekki skila tapinu sínu ...? Þegar ég gúglaði sá ég að margir hafa skilað tapi á liðnum árum. Margir.

Hvað varð um orðið að tapa?


Óháðir fjölmiðlar

Hvernig fjármagnar vefmiðillinn t24.is sig? Undanfarin ár er búið að ala upp í mér efasemdir um fjölmiðla en hann lofar góðu, þessi lágstemmdi fjölmiðill sem virðist gera ýmsum sjónarmiðum jafnhátt undir höfði.

Hver á m5.is, leiðandi verðbréfavef eins og hann kallar sig, síðu sem ég er farin að opna daglega?


Frumkvæði og nýsköpun

Í síðdegisútvarpi Bylgjunnar í dag báðu stjórnendur þáttarins fólk að hringja inn með skapandi hugmyndir um uppbyggingu samfélagsins. Nokkrir sem ég heyrði í lögðu til að þorskveiðar yrðu auknar, fiskurinn unninn meira hér áður en hann er fluttur út og aflaheimildir innkallaðar og þær leigðar þeim sem raunverulega nýttu sér þær. Ég man ekki hvort einhver talaði í þessum þætti um að binda þær við byggðarlög en ég er nýbúin að heyra einhvern tala um það.

Sjávarútvegur er náttúrlega gamli undirstöðuatvinnuvegurinn, sá sem blívur þrátt fyrir allt.

Svo stakk einn upp á því að garðyrkjubændur fengju verulegan afslátt á raforkuverði og gætu þannig framleitt til útflutnings.

Landbúnaður var líka mikil atvinnustoð áður fyrr og nú virðumst við farin að horfa til gömlu stoðanna á ný. Er það ekki líka gott?

Einn minntist líka á Nokia í Finnlandi og lagði til að við fyndum okkur eitthvað einstakt til að framleiða og flytja út. Þótt hugmyndin að þessu einstaka liggi ekki fyrir í augnablikinu má kannski koma auga á réttu skímuna ef menn bera sig eftir því. Hvað eru Össur, Marel, Marorka og CCP að gera? Hversu langt er síðan þau sprotafyrirtæki uxu úr grasi og fullorðnuðust? Ég spjallaði við konu í sumar sem var á fullu að ráða fólk til CCP og ég held að fyrirtækið hafi þá vantað á annað hundrað manns í vinnu.

Tækifærin eru um allt ef við erum nógu kjörkuð til að setja ekki öll eggin í sömu körfuna.

Og ég er ekki einu sinni byrjuð að tala um ferðaþjónustuna ...


Óuppfylltir draumar

Í síðustu viku sat ég til borðs með slatta af fólki sem ég umgengst ekki að staðaldri. Í stað þess að ræða efnahagsmál sem flestum eru hugleiknust ákvað ég að spyrja við tækifæri spurningar sem hefur brunnið á mér:

-Ef þú skyldir verða fyrir því láni að missa vinnuna hvaða gamla drauma gætirðu þá reynt að uppfylla?

Maður heyrir að þegar einar dyr lokist opnist þrennar aðrar og að tækifæri felist í kreppunni (sem getur vel verið rétt ef þannig spilast úr).

Sjálf hef ég aldrei búið almennilega í útlöndum, ekki keyrt Hafnarfjarðarstrætó, ekki rekið hótel, ekki farið á sjóinn, ekki kennt í leikskóla, ekki verið skólastjóri, ekki kennt í háskóla, ekki stýrt þætti í sjónvarpi (horfi með öfund til Silfursins) og ekki verið handlangari. Auðvitað stæði mér ekki allt til boða, kannski ekki heldur í hagstæðu árferði, en ég á svo margt ógert.

Einhver vildi verða djassisti, ein verða fylgdarkona útlenskrar hefðarkonu í heimsreisu og einn dreymdi um að fara á skektu fyrir norðan. Ein átti sér líka leyndan draum að gerast bóndi.

Ef við ættum það lán fyrir höndum ... þyrfti að vera hægt að uppfylla einhverja drauma.

Það síðasta sem ég vildi gera væri að vinna í blómabúð. Mér finnst m.a.s. leiðinlegt að pakka inn gjöfum. Tilgangslítið. Nóg að setja þær í poka og rétta með velvilja ...


Einhver starfsmaður mbl.is kann illa að telja

Og ég hallast að því að viðkomandi kunni ekki vel á klukku heldur.

Mótmælin hófust á Hlemmi fyrir rúmri klukkustund síðan, þaðan sem nokkrir tugir manna gengu.

Nokkrir tugir eru kannski þrjár skólastofur. Ég gekk upp Laugaveginn á móti göngunni og þarf ekki að telja til að vita að nokkur hundruð gengu á eftir vörubílunum fjórum.

Fremsti hluti göngunnar - hversu margir?

Og svo þyngdist mannflóðið:

Nokkrir tugir? Þarna var kl. sennilega rúmlega hálfþrjú.


Złotíj

Kortið virkaði í Krakúff* og nú er reikningurinn kominn. Einn daginn var eitt zlotíj kr. 42,64, svo 43,30, síðar sama dag kr. 41,15, svo 43,31, þá 45,13 og loks 45,29. Allt út á sama kortið, megnið í hraðbönkum en sumt í búðum. Ég hefði sem sagt betur tekið út  1.000 stykki á mánudaginn og til vara á sunnudaginn.

Meðaltalið var 43 en þá vantar kostnaðinn sem kortafyrirtækið rukkar.

Fararstjórinn sagði að zlotíj hefði lagt sig á rétt rúmar 20 í fyrra. Í fyrra hefði ég sem sagt eytt 20.000 kalli í gamanið en núna 40.000. Mikið er ég fegin að hafa látið Pólverjana njóta þessa ...

*Framburðurinn er svona og ég heyrði sögu af æðstastrumpi, Krak, sem vildi eftirláta dóttur sína þeim sem ynni bug á ógurlegum dreka borgarinnar. Þegar pasturslitli bóndinn (nei, ég man ekki hvaða starfa hann hafði, hann var bara ekki riddari) hafði platað drekann til að éta brennistein og sent hann emjandi í ána Wislu þar sem hann tærðist upp var honum færð dóttir Kraks í verðlaunaskyni. Honum þótti hún víst svo ljót að þegar hann var byrjaður að þakka æðstastrumpi fyrir snerist honum hugur og sagði: Krak úff. Krakúff. Sel það ekki dýrt en vil fá greiðsluna í gjaldeyri.


Síðunni barst ljót saga

Bílstjóri vel af barnsaldri á bíl með númerinu NM 768 sást fleygja haug af drasli út um bílglugga við fjölfarna götu í Reykjavík í morgun.

Skamm.


Auschwitz

Í tilefni dagsins ...

Í gær hjóluðum við hins vegar um Kraká og létum segja okkur allt. Meðal annars sagði Mike okkur frá leikhúsinu sem var með sína eigin rafstöð, síðan fékk leikhúsið rafmagn og breytti rafstöðinni sinni í nýtt míní-leikhús. Hann leit út fyrir að finnast hugmyndin ómöguleg (og ég hugsað um Smíðaverkstæðið o.fl.) að ég spurði hvað væri að því. Og hann sagði okkur það.

Svo ræddum við kommúnisma, kapítalisma, stúlkuna sem varð kóngur, hundinn sem yfirgaf ekki dánarbeð eigandans, Gorbatsjoff og Reagan, Schindler - og nú hef ég ekki tíma til að muna meira.


2.000 evrur til að vera leiðsögumaður í Póllandi

Við erum svolítill hópur sem röltum um Kraká á sunnudaginn. Þegar við komum að háskólanum fórum við inn í portið og Egill sagði okkur undan og ofan af honum. Þá dreif að einn Pólverja sem vandaði heldur betur um við hann og sagði að það kostaði 2.000 evrur að verða leiðsögumaður.

Og við sneyptumst út.

Við ályktum að hann hafi vísað í leiðsögunám og löggildingu. Það má ekki hvaða kújón sem er, ekki einu sinni þótt hann sé á ferð með 20 nánustu vinum eða samstarfsmönnum, leiðsegja um borgina.

Hvenær fáum við, íslenskir leiðsögumenn, löggildingu?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband